Leita í fréttum mbl.is

Leikritið fjármagnseigendur Íslands í leikhúsi fáránleikans

Það fer ekkert á milli mála, að það sem við höfum orðið vitni að allt frá hruni og hugsanlega fyrir hrun er uppsett leikrit.  Vissulega breyttist efnisþráðurinn eftir að bankarnir hrundu, enda fengum við nýjan handritshöfund, en tilgangurinn er sá sami. Hann er að koma sem mestum eignum frá almenningi og almennum fyrirtækjaeigendum í hendur fjármagnseigenda.  Eftir hrun kom smá snúningur á þetta varðandi stærstu fyrirtæki landsins, þar sem helstu/stærstu eigendur þeirra teljast til fjármagnseigenda og því er róið að því virðist öllum árum í gömlu og nýju bönkunum að losa þessi fyrirtæki við skuldir.  Það er gert með því að færa (samkvæmt fréttum) eignir inn í eitt fyrirtæki í samsteypu, en skilja skuldir eftir í öðrum.  Síðan eru skuldsettu fyrirtækin látin fara á hausinn, en gamla fjármagnsklíkan fær að halda fyrirtækinu sem verðmætin eru í.  Það er gert með því að láta bankana sölsa undir sig hvert fyrirtækið á fætur öðru og selja það í sýndarferli til útvalinna fjármagnseigenda.  Það er gert með því að taka yfir minni eignir (t.d. bíla, vélar, tæki og húsnæði) á skammarlega lágu verði og selja það vildarvinum á sýndarverði svo þeir geti hagnast óhugnanlega með því að selja eignirnar áfram.  Dæmi hafa verið nefnd af tækjum sem tekin voru af verktökum og seld úr landi fyrir smámuni til skúffufyrirtækja í útlöndum (í eigu vildarvina) sem síðan selja tækin áfram á réttu verði og hagnast vel.  Bílar hafa verið seldir á gjafverði á bílasölu til vildarvina, sem síðan selja þá áfram á réttu verði fyrir Easy buck.  Hús eru auglýst til sölu á fáránlega lágu verði, svo kemur tilboð frá almennum viðskiptavini til þess eins að vildarvinurinn býður 500 kr. hærra og því tilboði er tekið á nóinu án þess að öðrum sé gefið færi á að bjóða.

Þetta er leikritið sem er í gangi og þetta láta stjórnvöld líðast.  Ekkert af þessu væri hægt nema vegna þess að slitastjórnir, skilanefndir og skiptastjórar leyfa þetta.  Fjármálafyrirtæki sem uppvís hafa orðið af því að brjóta lög í allt að 10 ár og starfa utan tilkynntra og auglýstra starfsleyfa fá óáreitt að halda starfsemi áfram.  Í Bandaríkjunum hefðu dyr þessara fyrirtækja verið innsiglaðar daginn sem dómar Hæstaréttar féllu, öllu starfsfólki smalað út í rútu af lögreglu og allir bókaðir fyrir þátt sinn í lögbrotinu.  Nei, það gerist ekki hér á landi.  Hér koma FME og Seðlabanki og kyssa á bágtið. Hér er lögbrjótum bjargað vegna þess að lögbrotið orsakaði forsendubrest hjá lögbrjótnum!  Hvað með forsendubrest lántakanna?  Nei, hann er ekkert vandamál, vegna þess að hann var skrifaður í upphaflega handritið. 

Staðreyndin er að lög og reglur eru fótum troðnar í þessu landi af stórum hluta fjármálakerfisins og af stjórnsýslunni.  Fatta menn ekki að það verður ekkert Ísland, ef þetta heldur áfram.  Fatta menn ekki að fólk er að gefast upp.  Sífellt fleiri tala um að flytja úr landi.  Sífellt fleiri tala um að fara í gjaldþrot.  Sífellt fleiri ná ekki endum saman.  Örvæntingin er sífellt að verða sterkari meðal almennings.  Einyrkjar og eigendur smárra fyrirtækja eru margir komnir í spennutreyju fjármálafyrirtækjanna.  Þeir, sem geta, koma peningum sínum undan.  Fólk sér ekki tilganginn í að standa í skilum.

Toppurinn á þessu leikriti eru fjárkúgunarbréf sem einn banki sendir viðskiptavinum sínum þessa daganna.  Já, fjárkúgunarbréf eru það, vegna þess að þau eru ekkert annað.  Í þessum bréfum er fólki sagt að það skuldi bankanum fleiri hundruð þúsund í vangreiddar greiðslur lána, ef það samþykkir ekki ofurskilmála um að breyta innihaldi lánasamninga.  Svo virðist sem bankinn sé kominn á ystu nöf og hann vilji ekki eiga í frekari viðskiptum við þessa lántaka.  Viðskiptavinirnir hljóta að spyrja sig hvort þeir treysti þessum banka um framtíðarviðskipti.  Aðferðir hans eru aumkunarverðar og sýnir hann viðskiptavinum sínum lítilsvirðingu.  Allt er þetta gert í nafni réttlætis FME og SÍ.  Segir ekki í Íslandsklukkunni:  Vont er þeirra ranglæti, verra þeirra réttlæti.  Hvernig getur fólk sem staðið hefur í skilum með allar afborganir lána sinna allt í einu skuldað 43% til viðbótar við það sem það hefur greitt hingað til og greiðslubyrði eftirstöðva hækkað um tugi þúsunda á mánuði.  Svo vælir leigupennakór fjármálafyrirtækjanna, að lántakar sem voru með gengistryggð lán séu skuldlausir núna á kostnað skattgreiðenda.  Þá er nú betra að vera skuldugur en svona skuldlaus.

Stundum kemur óvæntur snúningur á efnisþráð leikritsins.  Það nefnilega villtist utanaðkomandi leikari inn í það.  Maður sem var ekki vanur svona handriti.  Núna er hann að vandræðast með að lesa handritið og láta líta út sem hann sé professional leikari, en hann er það ekki.  Hann er bara amatörsveitó og gleymir línunni sinni aftur og aftur og ruglast á blaðsíðum.  Hann lærði ekki trixið við hvítu lygina fyrr en hann var búinn að svara rétt við vitlausri spurningu.  Svo hélt hann áfram að svara vitlausum spurningum með svari upp úr handritinu.  Hann bara fattaði ekki að hann var á rangri blaðsíðu í handritinu.

Í byrjun handritsins haarderaði aðalleikarinn svo mikið að hann var skrifaður út úr því.  Í staðinn kom Lady GreyGrey og hún virðist líka hafa verið skrifuð út úr handritinu.  A.m.k. er þetta sá aðalleikari sem minnst hefur komið við sögu í nokkru þekktu leikriti.  Það er svo sem eins gott, vegna þess að þessi Lady kann ekki nema eitt orð:  ESB.  Og það er nefnilega stærsta plottið í leikritinu.  Það er ætlun stórs hóps leikaranna að klúðra leikritinu svo svakalega, að kalla þurfi inn leikstjóra frá ESB.  Haarderinn fékk leikstjóra frá AGS, en hann er að klikka að mati Ladyinnar og er búinn að leggja til að fyrsta vinstristjórn Íslandssögunnar geri meira fyrir heimilin í landinu en vinstristjórnin vill gera.  Það er ekki nógu gott og því þarf að fá leikstjóra frá ESB.  Og hvernig er því komið í kring.  Jú, það er ekkert gert.  Engar ákvarðanir teknar, engri atvinnuuppbyggingu komið í gang, öllum framkvæmdum er frestað vegna tæknilegra formgalla á útboðum, heimilin blóðmjólkuð og fyrirtæki keyrð í gjaldþrot.  Það á að drulla svo gjörsamlega upp á bak, að pöpullinn í landinu grátbiður ESB að koma og þrífa upp skítinn.

En Lady GreyGrey er hæst ánægð með ástandið.  Því erfiðara sem það verður, því líklegra er að  pöpullinn láti glepjast og grátbiðji ESB um að hleypa sér inn.  Fólk heldur nefnilega að við getum ekki fengið vanhæfara lið í leikendahópinn en þar er fyrir.  Öllum tillögum um uppbyggingu og breytingu er hafnað.  Vonarneistinn er slökktur um leið og hann kviknar.  Pöpullinn skal skilja að skjaldborgin um heimilin var slegin svo tryggt væri að allur peningur og eignir heimilanna færu ekkert meðan verið væri að færa þær smátt og smátt yfir til fjármagnseigendanna.  Nei, skjaldborgin var ekki til að vernda heimilin.  Og þegar þriðja valdið lét ekki að stjórn, þá voru eftirlitsaðilarnir sem sváfu á verðinum í 10 ár gerðir að varðhundum og sigað á þá sem dómsvaldið hafði sleppt út úr girðingunni.  Til að refsa þeim sem sluppu í nokkra daga, þá skulu þeir borga fjármálafyrirtækjunum 50% ofan á allt sem áður var búið að borga, en skulda samt jafn mikið.  Já, pöpullinn skal fá að kenna á því að hann hafi vogað sér að setja sig upp á móti fjármagnseigendunum.

Ég veit ekki hvernig þetta leikrit endar, en næstu þættir líta ekki gæfulega út.  Fjárkúgunarbréf eru farin að berast þeim sem sluppu út og blóðhundarnir eru byrjaðir að smala.  Amatörsveitó leikarinn er ennþá að ruglast á síðum í handritinu og það verður erfitt að halda honum inni mikið lengur.  Vandamálið er þó að Lady GreyGrey kann ekki að smala köttunum sem eiga að syngja í kattakórnum sem á alltaf að hljóma í bakgrunni.  Liljur spretta upp þar sem þær eiga ekki að vera og draga ókunna ketti að sér.  Pöpulinn þarf samt ekki að óttast, vegna þess að það er verið að kenna honum að trufla ekki vinnandi fólk.  Það nefnilega datt einni konu að taka brauðmolana, sem Lady GreyGrey og aðrir leikarar voru að henda í pöpulinn og henda þeim fyrir mávinn.  Það truflaði vinnandi fólk og enginn má komast upp með það.  Nú er búið að senda þau skilaboð til pöpulsins:  Ekki trufla vinnandi fólk.  Það gæti gert einhverja vitleysu eins og að lesa ranga blaðsíðu í handritinu.

Eins og leikritið þróast, þá stefnir í að það verði engir áhorfendur að lokahlutanum.  Þeir sem ekki verða farnir til útlanda munu ekki hafa efni á að horfa á sýninguna.  Náttúrulega fyrir utan fjármagnseigendurna, en þeir eru ekki niðri í salnum.  Nei, þeir eru á svölunum, eins og kóngafólkið.  Og það klappar ekki, heldur hristir glingrið, eins og Lennon orðaði það svo vel um árið.  En það er allt í lagi, þó enginn verði niðri í salnum, því þá eru meiri líkur á að þeir sem eftir eru vilji fá ESB til að leikstýra.  Það er jú markmiðið samkvæmt handritinu í dag.

Það virðist vera þörf á nýjum handritshöfundi og með honum góða leikara og innlendan leikstjóra.  Þetta handrit sem við höfum í dag sökkar stórt.  Það er gjörsamlega vonlaust.  Varðandi leikarahópinn, þá getur ekki verið, þó við veljum 12 úr hópi almennings að við endum uppi með jafn vonlaust lið.  Vandinn er að pöpullinn er orðinn svo vanur að láta drulla yfir sig, að hann er hættur að bregðast við meira skítkasti.  Hann veit líka hvaða skít hann er að fá yfir sig núna og óttast að nýir leikarar sem fara eftir nýju handriti gætu hent yfir hann óþægilegri skít.  Það er betra að þola þennan, maður er þó orðinn vanur honum og er farinn að læra að víkja sér undan.  "Maður veit aldrei nema ástandið versni, ef við hendur Lady GreyGrey út", hugsa margir.  Já, pöpullinn er orðinn svo meðvirkur að hann er meira að segja farinn að vorkenna Lady GreyGrey og Amatörsveitó leikaranum.  Svo er líka svo gaman að fylgjast með kattadansinum og -smöluninni.  "Látið ekki svona", segja sumir, "Lady GreyGrey er gömul kona og það er ljótt að atast í gömlu konum.  Hún þarf að hvíla sig svo mikið og því er hún ekki áberandi.  Hún er nú búinn að standa sig svo vel í gegn um tíðina, að það er í lagi þó hún kasti bara skít yfir okkur núna."  Já, meðvirknin er pöpulinn lifandi að drepa.  Við erum eins og kötturinn sem var verið að merinera lifandi.  Þeim sem dettur í hug að trufla vinnandi fólk er bent á að gera ekki slíkan óskunda.

(Þessi færsla er unnin upp úr sögum fólks sem haft hefur samband við mig og samræðum sem ég hef átt við það.  Þetta eru ekki orð eins aðila, heldur margra.  Þó ég setji þetta á blað, þá eiga viðmælendur mínir jafnmikið söguna/færsluna og ég.  Skilaboðin eru:  Fólk er búið að fá nóg.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Í mínum huga er þetta búið að vera svona frá haustinu 2008, grímulaust leikhús fáránleikans í boði gerspillts kerfis embættis- og stjórnmálamanna. Löngu búinn að missa tölu á öllum aðgerðum stjórnvalda með glæpafyrirtækjunum og gegn almenningi þessa lands. Samantektin er engu að síður góð og hafðu þakkir fyrir.

sr (IP-tala skráð) 12.8.2010 kl. 00:37

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Já réttlætiskennd margra er misboðið.  Sama þjónkunin við fjármagnseigendurna er grundvöllur þessarrar stjórnar sem kennir sig við norræna velferð.  Hægri helferð væri betra nafn á þessa stjórn sem ræður ríkjum í dag. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 12.8.2010 kl. 00:37

3 identicon

Lady GrayGray?

 

Ég vona að þú sért að tala í eigin nafni í þessari grein, en ekki sem talsmaður Hagsmunasamtaka heimilanna. Þú hefur oft lagst lágt í þínum málflutningi en ég hef ekki séð þið leggjast svona lágt áður. Þegar rökin þrýtur er gripið til uppnefna. Það er lítilmannlegt.

 

Þú ættir frekar að reyna að útskýra fyrir okkur, sem höfum baslað í gegnum lífið og borgað okkar verðtryggðu lán upp í topp, af hverju þeir sem keyptu/byggðu tvær húseignir og keyptu einn til tvo bíla á lánum ættu ekki að borga sín lán. Því ég hef ekki enn séð nein rök fyrir því.

 

Gísli (IP-tala skráð) 12.8.2010 kl. 01:10

4 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Gísli, ég ætla að fullyrða að enginn lántaki með gengistryggt lán hefur haldið því fram að hann ætti ekki að borga sitt lán og það ætti að fella niður að fullu. Allir eru tilbúnir að borga það sem þeim ber að borga og lögmætt er að innheimta. Það sem fólk vill ekki borga er það sem ólögmætt er að innheimta. Það vill einnig fá til baka það sem ofgreitt hefur verið á ólögmætum forsendum. Um það snýst málið en ekki að fá eitthvað gefins.

Erlingur Alfreð Jónsson, 12.8.2010 kl. 01:39

5 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Fullkomlega sammála - þ.e. í gangi vitleysan og fyrir hrun þ.e. að gera ríkjandi valdastétt ríkari og pöpulinn fátækari.

Eina ráðið út úr þessu sem ég sé, er að raunverulega fari fram svokallað annað hrun - og þá einhvers konar bylting.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 12.8.2010 kl. 01:52

6 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Lady GrayGray: Því ég hef ekki enn séð nein rök fyrir því.

---------------------

Eru það ekki rök, að þetta eru fjölskyldurnar sem eru að ala upp næstu kynslóð barna?

Eins og nú er útlit fyrir, mun næsta kynslóð alast upp við miklu mun lakari kjör en þau börn er þú sjálf hefur væntanlega komið til manns.

Slíkt mun hafa afleiðingar í formi klassískra félagslegra afleiðinga.

Auk þess er þetta mikilvægasta fólkið á vinnumarkaði, þ.e. fólkið sem þú sért út um allt í störfum, ekki enn komið með grá hár að ráði.

Þetta er líka það fólk sem hvað auðveldast á með að flytjast úr landi, og er þegar farið að gera það í vaxandi mæli.

------------------

Hættan er að við verðum öll, einnig þú, miklu mun fátækari sem samfélag - en, fækkun veldur því að færri hendur eru til að halda uppi skuldum samfélagsins.

Að auki, munu þá lífeyrisgreiðslur skerðast enn, enn meir - þegar fólk flýr úr landi í stað þess að greiða.

Hafðu þetta í huga. Þú munt ekki halda þínu, nema þú hafi peninga í óforgengilegum verðmætum eða þá, varðveitir þá í erlendum banka.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 12.8.2010 kl. 02:00

7 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Það er fátt sem gefur mér birtu og von þessi misserin. Helst að það sé einstaka réttlætissinnaðir einstaklingar sem virðist búa yfir varaorkuforða í réttindabaráttu sinni. Þú ert svo sannarlega einn af þeim. Þú átt allar mínar þakkir fyrir þá birtu og von sem pistlarnir þínir gefa mér

Rakel Sigurgeirsdóttir, 12.8.2010 kl. 02:29

8 Smámynd: Billi bilaði

Heitir Ómar núna Gísli?

Billi bilaði, 12.8.2010 kl. 02:44

9 identicon

Erlingur,

 

Þeir sem fengu gengistryggð lán og heimta að borga þau til baka án gengistryggingar og án verðtryggingar og með 2-3% vöxtum eru ekki að borga lánin sín til baka.  Þeir krefjast þess að fá sirka helming lánsins niðurfelldan.

 

Einar,

 

“Eins og nú er útlit fyrir, mun næsta kynslóð alast upp við miklu mun lakari kjör en þau börn er þú sjálf hefur væntanlega komið til manns.”

 

Ég veit ekki hve gamall þú ert eða á hvaða aldri þín börn eru en ef þú heldur að við sem keyptum okkar fyrsta húsnæði um miðjan 9. áratuginn, þegar verðbólgan var 50-100%,  höfum haft það gott og að börnin okkar hafi alist upp í allsnægtum er það mikill misskilningur. Og ég fullyrði að alþýðubörn núna, í miðri kreppunni, hafa það miklu betra en alþýðubörn á þeim tíma.

 

Gísli (IP-tala skráð) 12.8.2010 kl. 02:52

10 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Gísli,

Ef þú ferð út í búð og kaupir eitthvað sem kostar þúsund kall en þegar þú kemur heim áttar þú þig á því að á kortið voru settar 1.245 krónur þ.e. vsk var bætt við en þú áttar þig á að varan sem þú keyptir var undanþegin vsk, hvað gerir þú?  Ferð út í búðina og ferð fram á leiðréttingu.  Er einhver sem "borgar brúsann" af leiðréttingunni?  Hver borgar brúsann ef þú færð EKKI leiðréttingu?  Búðin lagði vsk ofan á vöruverðið þó henni væri það ekki heimilt samkvæmt lögum.  Þú ferð nú að skoða málið og kemst að því að þessi verslun hefur gert þetta síðustu 10 árin.  Hver á að borga brúsann?  Þú?  Verslunin?  Er um einhverja fleiri að ræða í þessu dæmi.  Svarið er einfaldlega nei.  Af hverju ætti einhver annar að borga fjármuni sem verslunin hefur tekið án þess að hafa lagalega heimild til þess? 

Nákvæmlega sama gildir um upphæðir sem urðu til vegna ólöglegrar gengistryggingar.  Þar eru lántakendur og lánveitendur sem takast á.  Ef þessi fyrirtæki fara á hausinn vegna þess að þau hafa verið á kafi í glæpastarfsemi árum saman, þá er það þeirra hausverkur, ekki satt?  Ef almenningur á að taka á sig byrgðar fjármálafyrirtækja vegna ólöglegra gerninga, þá er eitthvað virkilega mikið að í íslensku þjóðfélagi og fjármálakerfi!

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 12.8.2010 kl. 05:11

11 Smámynd: Edda Karlsdóttir

Frábær pistill Marinó! Ég legg til að þú stofnir nýjan stjórnmálaflokk, fengir örugglega mikið fylgi. Við þurfum að losna við þetta algjörlega staurblinda og vanhæfa lið sem situr við völd núna, það þarf að taka ærlega til og fá nýtt og óspillt fólk til að stýra þessu landi. Þú værir góður í það svo framarlega sem þú dyttir ekki strax í sama drullupoll og flestir sem komast á Alþingi. Þú fengir allavega mitt atkvæði!

Edda Karlsdóttir, 12.8.2010 kl. 07:51

12 Smámynd: Kjartan Sigurgeirsson

Þetta er frábær grein Marínó.  Það er svolítið undarlegt viðhorf fólks sem skuldar verðtryggð lán skv. Íslenskri vísitölu, að það verði látið borga verðtryggingu fyrir þá sem skulda gengistryggð lán, og því megi alls ekki láta þá komast upp með að borga bara lágavexti.  Það er alls ekki neitt gefið að vextir sem miðaðir eru við Libor séu lágir, við skoðun á myntkörfuláni sem ég skulda sé ég að vextir á Evru hluta lánsins hafa farið yfir 7% eða hæst í 7,58%, það kalla ég ekki lága vexti, á meðan ég borga 4,15% vexti á vísitölutryggðum lánum sem ég skulda.  Vextir af svissneska franka hluta lánsins fóru hæst í 5,04% og af Jenum fóru þeir hæst í 3,45%. 

Það er leiðinlegt að fylgjast með fólki slá svona hlutum föstum án þess að kynna sér raunveruleikann áður.  Nú er það sennilega svo á öllum þessum lánum til lengri tíma að lánveitandi hefur rétt á að breyta vaxtaálagi á þriggja ára fresti.  Er ekki eðlilegast að þeir nýti sér það og hætti þessu ströggli, sem virðist knúið áfram af Amatörsveitóleikaranum og hans liði.  Það er kominn tími til að eitthvað verði gert í máefnum þeirra sem skulda verðtryggð Íslensk lán.

Kjartan Sigurgeirsson, 12.8.2010 kl. 09:03

13 identicon

Frábært hjá þér Marinó. Já hvernig væri að stofna nýjan stjórnmálaflokk? Ég væri til í það með þér og fleirum sem eru á þessari línu.

Kristján Kristjánsson (IP-tala skráð) 12.8.2010 kl. 09:30

14 identicon

Sæll Marinó

Má til með að koma með þetta, tók lán hjá landsbankanum 2007 sem var 12 milljónir  gengistryggt hef greitt 36 greiðslur sem eru í dag 5,7 milljónir. samkvæmt nýjum útreikningum að tilmælum FME og SB, hefur landsbankinn tilkynnt mér að nýju útreikningarnir sýna að eftir stendur 600 þús í vangreiddum afborgunum höfuðstóll stendur í 13 milljónum með viðbættum vangreiðslum höfuðstóll endar í 13,6 milljónum (lánið hefur verið í skilum frá lántökudegi)

og svo kemur snilldar lausn landsbankans mánaðalegar afborganir munu hækka um 30 þús á mánuði eftir breitingu á lánasamningi.

georg (IP-tala skráð) 12.8.2010 kl. 09:47

15 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Gísil, hún er nú kölluð Lady GaGa í umræðu víða, þannig að Lady GreyGrey er nú allt í lagi, auk þess eins og ég segi er þetta ekki bara mína hugarsmíð heldur byggt á símtölum, tölvupósti og athugasemdum frá fólki úti í bæ.

Varðandi nýjan stjórnmálaflokk, þá eru tvær hliðar á þvi máli fyrir aðila sem stendur á kafi í hagsmunabaráttu.  Önnur er að stjórnmállaflokkur  er yfirlýsing um að taka á málin upp á næsta stig og menn ætla að fara að huga að fleiri málum.  Sá sem stofnar stjórnmálaflokk getur ekki bara haft skoðun á einu málefni.  Flokkurinn verður að hafa eða vera tilbúinn að hafa skoðun á barnavernd jafnt sem fiskveiðistjórnun, umhverfisvernd jafnt sem sendiráðum, niðurskurði, uppbyggingu, Sinfóníuhljómsveit o.s.frv.  Það er ekkert smá mál að stofna stjórnmálaflokk, ef maður ætlar ekki að verða bara eins og allir hinir, að hafa í sjálfum sér ekki skoðun, heldur fljóta bara með.  Það er þvi meira en að segja það að stofna flokk.

Hin hliðin og það er sú sem HH og ég þar á meðal höfum haft að leiðarljósi.  Meðan við erum ekki stjórnmálaflokkur, þá höfum við aðgang að þingmönnum og ráðherrum.  Bankarnir bjóða okkur á fundi og almenningur hlustar á okkur sem ópólitískt hagsmunaafl.  Við getum á þennan hátt tekið þátt í umræðunni án þess að vera að "stela" atkvæðum frá viðmælendum okkar.

Marinó G. Njálsson, 12.8.2010 kl. 10:16

16 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Niðurstaðan er sem sagt sú eftir dóm hæstaréttar og tilmæli SI og FME að fjármálastofnanir græða sem aldrei fyrr eftir af hafa brotið lög í 9 ár. JA svei, öfugsnúin er tilveran!

Arinbjörn Kúld, 12.8.2010 kl. 10:20

17 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Já, Arinbjörn, er þetta ekki yndislegur heimur fyrir fjármálafyrirtækin.  Það er sama hvernig þau kúka upp á bak, alltaf skulu heimilin þurfa að þrífa drulluna.

Marinó G. Njálsson, 12.8.2010 kl. 10:25

18 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Sammála hverju orði hjá þér Marinó. Fólk er búið að fá nóg. Hinsvegar skil ég ekki af hverju það rís ekki upp og mótmælir.

Ævar Rafn Kjartansson, 12.8.2010 kl. 10:33

19 Smámynd: Kjartan Sigurgeirsson

Sem betur fer er Hæstiréttur ekki búinn að samþykkja vitleysuna frá héraðsdómi, FME og SÍ, það er enn von.

Sé ekki aðra leið en að fara með svona mál allaleið fyrir Evrópudómstól ef þessi vitleysa á yfir þjóðina að ganga.

Kjartan Sigurgeirsson, 12.8.2010 kl. 10:47

20 identicon

Þetta er einhver nákvæmasta og raunsannasta lýsing á ástandinu sem ég hef séð lengi.

Takk fyrir!

Og takk fyrir þrotlausa baráttu í þessu mikilvægasta máli íslandssögunnar.

Þrándur Arnþórsson (IP-tala skráð) 12.8.2010 kl. 10:54

21 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

 Gísli (IP-tala skráð) 12.8.2010 kl. 02:52

Ég veit ekki hve gamall þú ert eða á hvaða aldri þín börn eru en ef þú heldur að við sem keyptum okkar fyrsta húsnæði um miðjan 9. áratuginn, þegar verðbólgan var 50-100%,  höfum haft það gott og að börnin okkar hafi alist upp í allsnægtum er það mikill misskilningur. Og ég fullyrði að alþýðubörn núna, í miðri kreppunni, hafa það miklu betra en alþýðubörn á þeim tíma.

----------------------

Ég stend við þ.s. ég sagði, - verri kjör. Ég sagði aldrei að það hefði verið alsnægtir.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 12.8.2010 kl. 12:44

22 Smámynd: Steinar Immanúel Sörensson

Takk fyrir þessa færslu Marínó - þrautsegja þín er ljós í myrkrinu

Steinar Immanúel Sörensson, 12.8.2010 kl. 14:53

23 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Marínó - ef þú ákveður að stofna flokk, þá get ég vel hugsað mér að söðla um hest :)

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 12.8.2010 kl. 15:41

24 Smámynd: Hrannar Baldursson

Skýrir þetta skyndilega hækkun á afborgun verðtryggðra húsnæðislána, en mín mánaðarlega afborgun hækkaði um 3% í þessum mánuði?

Hrannar Baldursson, 12.8.2010 kl. 16:36

25 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Hrannar, skýringin á hækkun afborgana verðtryggðra lána er hækkun greiðslujöfnunarvísitölunnar.  Hún mun síðan hækka aftur mánaðarlega á næstu mánuðum, þrátt fyrir lækkun verðbólgu.

Marinó G. Njálsson, 12.8.2010 kl. 17:00

26 identicon

Eg þakka þer Marino fyrir það sem þið felagarnir eruð að gera fyrir þa sem eigum undir högg að sækja með  osk um nyjan stjornmalaflokk a næstuni kveðja RG

Runar Gudmundsson (IP-tala skráð) 12.8.2010 kl. 23:04

27 Smámynd: P.Valdimar Guðjónsson

Þetta er ágæt lýsing á ástandinu hér og nú.  Makkið og sukkið hjá þeim sem véla með gamlar stærðir, endurlífguð fyrirtæki með innstreymi og "vinnandi" veltu er skuggalegt þessa dagana.

Hitt skal hafa í huga að þeir sem freistuðust að taka gengistryggð lán tóku áhættu og mátti vera það ljóst.   Ástæðan var hinsvegar skiljanleg.  Þarna var sjáanleg leið og færi til að borga lægri vexti  heldur en Seðlabanki stighækkaði í vonlausri baráttu til að slá á þenslu.  Ótrúlegur fjöldi hlustaði ekki á Pétur Blöndal og fleiri sem vöruðu við.  Sjálfur er ég ekki reikningshaus, en ég sá ekki fram á að hafa launatekjur í evrum né dollurum. Því var þetta aldrei valkostur í mínum huga þótt það biðist.

Vandamálið var ekki verðtrygging. (án þess að ég haldi uppá það fyrirbæri)  Heldur verðbólga og vaxtastig.  

P.Valdimar Guðjónsson, 12.8.2010 kl. 23:28

28 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Kærar þakkir fyrir þennan ágæta pistil, Marinó. Eg les alltaf pistlana þina þar sem þú takmarkar yfirleitt efnið við fjármálin hrein og klár, en í þetta sinn sýnist mér greinilegt að pistillinn kemur beint frá hjartanu. :)

Það er hverju orði sannara að fólk er að gefast upp. Ég hef sömu tilfinningu fyrir því sem þú lýsir; fólk sér ekki tilganginn í því að standa í skilum. Auðvitað eru sem betur fer einhverjir betur settir (eins og Gísli!) sem hafa fínar og fastar tekjur og skulda ekki neitt. En hinir sömu mega samt fara að vara sig ef þeir eru að nálgast ellilífeyrisárin!!

Það þarf að stokka upp í þessu þjóðfélagi og gefa upp á nýtt. Núverandi stjórnmálamönnum er ekki einu sinni treystandi til þess að taka plastið utan af nýja spilastokknum!

Kolbrún Hilmars, 13.8.2010 kl. 00:28

29 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir frábæran pistil Marínó.

Vil heilshugar taka undir Rakel hér að ofan, það er von í þessu landi þegar menn eins og þú hamla á móti svívirðunni.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 13.8.2010 kl. 10:45

30 Smámynd: Inga Sæland Ástvaldsdóttir

Ég þakka þér enn og aftur fyrir vaktina Marinó, þú ert ljósið í myrkrinu sem reynir í það minnsta að lýsa upp þau skúmakot sem okkur eiga að vera hulin. Mér er hins vegar ómögulegt að skilja langlundargeð okkar og vilja til að láta traðka á okkur endalaust.  Ég efa það hins vegar ekki að ef við hefðum almennilegan byltingarleiðtoga þá værum við meira en fús að fylgja honum og kollsteypa þeim vibba sem við annars látum yfir okkur ganga.

Inga Sæland Ástvaldsdóttir, 13.8.2010 kl. 13:39

31 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Frábær pistill Marinó og sú raunsannasta greining á vandanum sem að ég hef séð í langan tíma.

Jón Aðalsteinn Jónsson, 13.8.2010 kl. 13:59

32 Smámynd: Hecademus

Stórfínn pistill hjá þér Marínó,þú átt heiður skilið fyrir verk þín í þágu Íslendinga.

Það þyrfti að kjarnskrifa þetta og koma þessu betur á framfæri. Þetta leikrit sem reyndar er mun umfangsmeira, má ekki ná fram að ganga.

Ef Íslendingar gerðu sér almennilega grein fyrir stöðu mála þá myndu þeir ekki láta vaða svona yfir sig heldur væru þeir úti að mótmæla.

Kv.

Hecademus, 13.8.2010 kl. 17:01

33 Smámynd: Þórdís Bachmann

Vá, Marinó!

Eiríkur Guðmunds, Einar Már og Haukur Már (okkar beztu pennar), sitja núna og kjökra í undirkjólana sína.

Þú segir að fólk sé að fara - þú getur allavega boðið þig fram við framleiðendur Damages með Glenn Close.

En áður en þú ferð - er hægt að fá aðila hjá HH til þess að fara yfir greiðslubyrði v. eign og ráðleggja manni?

Held að það myndi stórauka meðlimafjöldann.

Allt sem sýnir fólki að það er ekki hægt að láta bjoða sér þetta.

Þetta er ekki ástand sem lagast að sjálfu sér.

Þórdís Bachmann, 14.8.2010 kl. 22:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 1679974

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband