Leita í fréttum mbl.is

Sannleikanum hagrætt

Í síðustu færslu minni (Æi, Gylfi, hættu að hagræða sannleikanum) sýni ég nokkur dæmi um það hvernig Gylfi leggur sig fram við að hagræða sannleikanum.  Í umræðunni á Alþingi 1. júlí, 2009 var Gylfi spurður út í lögmæti myntkörfulána.  Hann vissi nákvæmlega hvað hann var spurður um og þó hann hafi notað orðin "lán í erlendri mynt", þá getur hann ekki haldi því fram að með því hafi hann ekki átt við myntkörfulánin sem Ragnheiður Ríkharðsdóttir spurði um.  Hafi hann ekki átt við þau lán, þá var svar hans gróf móðgun við þingheim.

Sá útúrsnúningur ráðuneytisins, að gengistryggð lán séu ekki það sama og myntkörfulán, sýnir rökþrot ráðuneytismanna.  Orðavalið "gengistryggð lán" var almennt ekki notað af stjórnsýslunni, þ.e. ráðherrum og embættismönnum, fyrr en langt var liðið á 2009 eða hvort það var nokkuð fyrr en á þessu ári.  Hagsmunasamtök heimilanna þurftu ítrekað að leiðrétta tungutak viðmælenda sinna í viðræðum og á fundum.  Menn þrjóskuðust við eins og rjúpa við staur að nota "erlend lán", "lán í erlendri mynt" og "myntkörfulán" um það sem sýnt hafði verið fram á af samtökunum, Birni Þorra Viktorssyni og fleirum, að væru ólöglega gengistryggð lán samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001.  Það verður því að skoða orðavalið "erlend lán", "lán í erlendri mynt" og "myntkröfulán" með þeim gleraugum að átt hafi verið við það lánaform sem við í dag köllum "gengistryggð lán".

Það hefur aldrei verið neinn ágreiningur uppi um að erlend lán eða að lán í erlendri mynt væru ólögleg meðan gengið hefur verið þannig frá þeim að allt við lánin sé skráð í erlendri mynt.  Það er t.d. skoðun margra (þ. á m. HH), að "erlend lán" sé samningur, þar sem lánveitandinn sé erlent fjármálafyrirtæki eða erlent dótturfyrirtæki eða útibú íslensks fjármálafyrirtækis.  "Lán í erlendri mynt" sé aftur íslenskt lán, þar sem sótt var um upphæð í erlendri mynt, höfuðstóll lánsins er gefinn upp í erlendri mynt, lánið var greitt út í erlendri mynt inn á gjaldeyrisreikning lántakans og greiðslur fara fram í erlendri mynt.  Varðandi þessi lán er almennt gefið út tryggingabréf og því þinglýst á veðið, en ekki skuldabréfinu sjálfu.  Um þetta hefur ALDREI verið ágreiningur og því engin ástæða fyrir lögfræðinga viðskiptaráðuneytisins eða ráðherrann sjálfan að svar óumbeðið spurningum um slík lán.  Ágreiningurinn var um lán þar sem sótt var um lán í íslenskum krónum með tengingu við dagsgengi erlendra gjaldmiðla, þ.e. svo kölluð gengistryggð lán.

Mér finnst það sorglegt, að starfsmenn efnahags- og viðskiptaráðuneytisins hafi verið settir í að bjarga ráðherranum út úr klemmu, sem hann kom sér í.  Gott og vel, Gylfi hugsanlega misskildi eitthvað eða að starfsmenn ráðuneytisins misskildu hlutina.  Viðurkennið þið það þá og verið menn að meiru.  Hafi Gylfi misskilið eða ruglast, þá er allt í lagi að segja það, en að vera sífellt að snúa og hagræða sannleikanum er ekki til að öðlast traust.

Ég held að Gylfi sé um margt mjög hæfur viðskiptaráðherra og sé a.m.k. ekki í fljótu bragði að margir í þingliði ríkisstjórnarinnar séu betri, þó ég eigi mér vissulega minn kandídat í stöðuna.  Enginn af þeim sem hafa verið framarlega í orðræðunni utan frá, hafa að mínu mati sýnt að þeir séu hæfari.  Mistök ráðherrans hafa helst verið að breiða yfir eldri mistök í staðinn fyrir að viðurkenna að honum hafi orðið á í messunni.  Það verður öllum á.  Þetta hefur undið upp á sig og er sífellt að verða neyðarlegra.  Nú er kominn tími til að Gylfi og ráðuneytið skoði hvað fór úrskeiðis í svörum ráðherra, hvað hann átti við hverju sinni og ef það var annan en spurt var um, hvert var þá hið raunverulega svar.


mbl.is Ranglega vitnað í ræðu ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Eitt sem mér datt í hug - skv. frétt: Stefnir í met í nauðungarsölum á fasteignum í Reykjavík. Mikil fjölgun í sumar
-------------------------
*Nýverið kom frétt þess efnis, að eigendaskiptum á fasteignamarkaði hefði fjölgað um cirka 40% í sumar.

*Nú kemur merkilegt nokk frétt um að yfirtökum banka í kjölfar nauðungarsala hafi verið að fjölgað um svipað leiti.
------------------------
Ég efast að þetta sé tilviljun - hvað haldið þið?

Fj. eigendaskipta átti að vera enn ein vísbendingin um að hagkerfið væri að taka við sér - hvílík kaldhæðni.


Kv.

Einar Björn Bjarnason, 10.8.2010 kl. 15:56

2 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Ef ég væri þingmaður mundi ég spyrja Gylfa Magnússon hvað hann héti og hann mundi svara: "Herra forseti vegna spurningar háttvirts þingmanns við ég svara að ég heiti Gilfi Magnússon".

Allir sjá að þetta er allt annað nafn.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 10.8.2010 kl. 16:11

3 identicon

Hér er mikill orðaleikur, sem er pistlahöfundi til skammar. Í niðurstöðum lögfræðings viðskiptaráðuneytisins, Sigríðar Rafnar Pétursdóttur, segir hvorki lög um vexti og verðtryggingu né lög um neytendalán "banna lánveitingar í erlendri mynt, tengdar gengi erlendra gjaldmiðla". Hins vegar, tekur Sigríður fram, geti verið álitamál hvort lán sé raunverulega í íslenskum krónum eða erlendri mynt. Um það eigi dómsstólar síðasta orðið.

Þegar svar Gylfa við spurningu Ragnheiðar Ríkarðsdóttur er skoðað þá fæ ég ekki betur séð en hann fylgi niðurstöðu minnisblaðsins nákvæmlega. Málið dautt. Enn eitt upphlaupið að renna út í sandinn.

Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 10.8.2010 kl. 16:34

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ómar, þu ert svo misskilin.  Mín umfjöllun er ekki um álit lögfræðings ráðuneytisins, heldur um svar þess við því að eitthvað hafi verið misskilið.  Haltu þig við staðreyndir í staðinn fyrir að hagræða þeim eins og öðrum virðist svo tamt.  Gylfi segist hafa verið að svar um erlent lán, þegar hann er spurður um myntkörfulán.  Um það snýst færslan.

Marinó G. Njálsson, 10.8.2010 kl. 16:53

5 identicon

Ég verð nú að segja að Gylfi magnússon viðskifta ráðherra hefur alla tíð virkað á mig sem maður sem talar fyrst og hugsar eftir á

Georg (IP-tala skráð) 10.8.2010 kl. 16:59

6 identicon

Marinó. Ég vil benda á að það er rangt sem þú segir "Mistök ráðherrans hafa helst verið að breiða yfir eldri mistök í staðinn fyrir að viðurkenna að honum hafi orðið á í messunni." Honum varð einfaldlega ekki á í messunni "in the first place", heldur fór nákvæmlega eftir minnisblaði lögfræðings í ráðuneytinu með því orðalagi sem þar er notað á þeim tíma (ranglega eða ekki - skiptir engu máli).

Hvort honum hafi orðið á mistök nú þegar komið er aftan að honum og hann þarf að rifja upp eftir minni (þú veist sjálfur Marinó hvað það getur verið brigðult) hvað hann sagði á þingi fyrir ári síðan er svo annað mál. Ég hallast hins vegar að því að það sé stormur í vatnsglasi - einkum þegar tekið er tillit til þess að hann sagði þinginu satt og rétt frá upphaflega.

Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 10.8.2010 kl. 17:27

7 identicon

Ég velti fyrir mér hvort Ómar Harðarson sé dulnefni Gylfa Magnússonar hér? Það er sérstakt að innanum skuli leynast einstaklingar sem vísvitandi reyna að horfa framhjá staðreyndum og afvegaleiða umræðuna með málflutningi sem ekki tengist málefninu. Hvernig væri að allir reyndu að leggjast á árarnar við að skapa hér umhverfi sem er samfélaginu til bóta svo við þurfum ekki að horfa uppá fólk halda áfram að fýja landið og þá sem þrjóskast við hér, búa við vesöld og versnandi kjör?

hilmar Andri Hildarson (IP-tala skráð) 10.8.2010 kl. 18:10

8 identicon

Hilmar Andri Hildarson. He-he-he. Þú hefur næstum því rétt fyrir þér. Nafnið er dulnefni, en mitt rétta nafn er Egill Skallagrímsson.  Nafni minn átti þann draum síðastan að dreifa silfursjóði sínum yfir Alþingi. Eins og hann finnst mér skemmtilegt að dreifa mínu silfri (þ.e. málefnalegri umræðu, með virðingu fyrir þeim sem hafa aðrar skoðanir, en engri virðingu fyrir skoðunum) á netið og athuga hvernig vitleysingarnir bregðast við.

Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 10.8.2010 kl. 18:46

9 Smámynd: Elle_

Gylfi vissi vel um ólögmæti gengistryggðra lána fyrir löngu, Björn Þorri Viktorsson lögmaður, skrifaði ÖLLUM Alþingismönnum fyrir um 15 mánuðum um það.  Og ekki löngu seinna skrifaði Gunnar Tómasson, hagfræðingur, þeim um það sama.  Núna vita þau ekkert???

Elle_, 11.8.2010 kl. 00:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 38
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband