Leita í fréttum mbl.is

Ekki spurning um að dæma heldur að opna fyrir umræðu

Mér finnst skýring Seðlabankans ekki vera góð.  Fyrir nokkrum vikum beið bankinn ekkert með að taka afgerandi afstöðu án þess að vera með skýran lagastuðning.  Í fyrra hafði bankinn tækifæri til að koma hér í gang opinni og víðtækri umræðu um lögmæti gengistryggðra lána sem ég hafði hafið með færslu hér á þessari síðu í apríl sama ár.  Bankinn gat líka tekið undir varnaðarorð Björns Þorra Viktorssonar, lögmanns, um að gengistryggð lán gætu verið ólögleg.  Nei, bankinn ákvað að þegja yfir áhyggjum sínum og er því beint valdur af þeirri óvissu sem hér ríkti í marga mánuði.

Umræða hefði líka orðið til þess að menn hefðu nálgast endurreisn bankanna á annan hátt.  Kröfuhafar hefðu vitað af óvissunni.  Bæði kröfuhafar og AGS voru felmtri slegnir yfir því að ólögleg gengistrygging hafi verið við líði í 9 ár hér á landi.  Það var talið hafa rýrt traust erlendis á Íslandi að þessi ólöglegu lán hafi viðgengist allan þennan tíma.  Hvað ætli verði sagt núna, að Seðlabanki Íslands hafi haft í maí 2009 undir höndum lögfræðiálit, þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að lánin væru líklegast ólögleg?  Hvernig á nokkur maður að geta treyst íslenska stjórnkerfinu?

Gleymum því svo ekki, að Gylfi Magnússon sagði í viðtali 10. september sl., eins og kemur fram í athugasemd Gunnars Tómassonar hér við aðra færslu, að “það hafi verið gengið út frá því til þessa að þessi erlendu lán hafi verið lögleg.”  Greinilegt er að Seðlabankanum hafi verið í lófalagið að leiðrétta þetta með því að senda lögfræðiálitið og minnisblað aðallögfræðings bankans til viðskiptaráðherra.  Auðvitað skipti það mjög miklu máli að Seðlabankinn gerði þetta álit ekki opinbert og má flokka það undir ein stærstu mistök hagsögunnar.  FME hefur metið tjónið upp á allt að 350 milljarða (þó ég kaupi ekki þá tölu).

Seðlabankinn ætlar greinilega ekki að sitja einn uppi með klúðrið og sendir boltann áfram.  Hann segist hafa sent lögfræðingi viðskiptaráðuneytisins álitið.  Næst er að spyrja hvað hann gerði við skjalið.  Stakk hann því undir stólinn eða fór það eitthvað lengra?   Var Gylfi að ljúga, þegar hann sagði að gengið hafi verið út frá því að lánin væru lögleg, vissi hann ekki af álitinu eða taldi hann ekki þörf á því að taka það alvarlega?  Svör þurfa að fást við þessu.

Ég átta mig á því að tilgangur Seðlabankans með því að fá álitið var ekki vegna þess að bankinn efaðist um lögmæti gengistryggðra lána.  Bjóða átti fyrirtækjum lán í íslenskum krónum, sem endurgreidd yrðu í erlendri mynt.  En bankinn fékk meira en hann bað um og hann hefði átt að nýta sér álitið á annan hátt en hann gerði.  Því miður klúðraði hann hlutunum.  Líklegasta ástæðan er meðvirkni.  Áfallið á fjármálamarkaðnum var þegar orðið svo mikið að fyrirtækin gætu ekki þolað meira.  Ég kann því miður enga aðra skýringu.  Málið er að þessi afstaða Seðlabankans er mögulega að valda gríðarlegu tjóni fyrir stóru bankana.  Sérstaklega Landsbankann.  Bankinn er líklegast í þeirri stöðu að hann þolir engin frekari áföll.  Ég fæ reglulega tölvupósta frá fólki innan úr fjármálageiranum og þó ég sé ekki að greina alltaf frá innihaldi þeirra, þá eru þessir aðilar undantekningarlaust sammála um að staða Landsbankans sé það slæm, að ekki sé víst að hann lifi af.  Þess vegna er starfsfólk á bónusum við innheimtu og þess vegna er hraka Landsbankans í innheimtu jafnmikil og raun ber vitni.  Ef gengið hefði verið út frá því við endurreisn nýja Landsbankans (þ.e. NBI) að gengistryggingin væri ólögleg, þá væri staða hans hugsanlega betri.  Ef Gylfi Magnússon segir að það hafi ekki verið gert, þá verð ég að reikna með því að það hafi ekki verið gert.  Niðurstaðan af því er að stjórnvöld hljóti að hafa samið af sér við endurreisn NBI.

Það er rangt hjá Seðlabankanum að þegar álitið var unnið hafi átt sér stað töluverð opinber umræða um lögmæti gengistryggðra lána.  Hún var lítil og hún var úr einni átt, þ.e. ég, HH og Björn Þorri vorum eiginlega að tala út í loftið, þar sem engin viðbrögð komu frá opinberum aðilum.  Ef álitið hefði verið opinberað, þá hefði það hleypt nauðsynlegu lífi í umræðuna og styrkt málstað okkar sem voru nokkurn veginn að berjast við vindmyllur.  Andstæðingurinn ákvað að taka ekki á móti.  Fjármálafyrirtækin hefðu ekki komist hjá því að taka til andsvara, ef minnisblað Seðlabankans hefði verið birt. 

En þetta er vatn undir brúna og telst glatað tækifæri.  Spurningin er hvort stjórnsýslan geti lært af þessu og hvernig hún fer með þann lærdóm.  Í mínu starfi þarf ég sífellt að nýta áföll og atvik til að læra af og koma í veg fyrir að það endurtaki sig eða að eitthvað annað geti gerst.  Ég tel að Seðlabankinn og stjórnsýslan geti dregið þann lærdóm að hunsa ekki svona aðvörun.  Eiga einhverjir að segja af sér?  Það er úr vöndu að ráða og fer eftir því hver vissi hvað.  Hver tók ákvörðun um að hunsa álitið?  Hafi það verið ráðherra, þá á hann að taka hatt sinn og skó.  Svo einfalt er það.

Seðlabankinn getur ekki annað en birt lögfræðiálit LEX og minnisblað aðallögfræðings bankans.  Honum er ekki stætt á öðru.  Bankinn þarf að gera hreint fyrir sínum dyrum og ekki væri verra ef hann bæðist afsökunar á því að leyna þjóðina svona mikilvægum upplýsingum.  Það er enginn að segja að bankinn hafi átt að kveða upp dóm, en í ljósi þeirrar umræðu sem bankinn segir sjálfur að hafi verið í gangi, þá bar honum að gera niðurstöður álitsins opinberar.  Það hefði verið ákaflega gott veganesti fyrir hið nýja Ísland sem ríkisstjórn VG og Samfylkingarinnar voru að bögglast við að skapa.  Því miður reyndist gamla Ísland leyndarhyggju og pukurs ráða ríkjum og við eigum því miður eftir að súpa seyðið af því á næstu árum.


mbl.is Seðlabankinn ekki dómstóll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Meðvirkni er trúlega víða í samfélaginu og stjórnar mörgu sem gert er, því miður. Sá flötur hefur mjög lítið, ef nokkuð verið ræddur að mikil meðvirkni sé ríkjandi víða í samfélaginu.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 6.8.2010 kl. 20:58

2 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Ég er sjálf að feta mig gegnum bók um þetta efni og hef í leiðinni hugleitt ýmislegt eins og blinda fylgni við stjórnmálaflokk/menn. Ég hef staðið mig að því oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að spurja mig. Á ég að vera sammála þessu eða á ég að gagnrýna?

Er að burðast við að taka sjálfstæða ákvörðun um gangrýni eða ekki gegnrýni og hef bara komið sjálfri mér á óvart nokkrum sinnum.

Ákvörðun Seðlabanka og annarra sem vissu um álitin er afar gagnrýni verð og mjög skaðleg gagnvart trausti almennings á yfirvöldum.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 6.8.2010 kl. 21:07

3 identicon

Marinó, í pistlinum þínum á undan kemur eftirfarandi fram:

"...tekið væri undir lögfræðiálitið með þeim fyrirvara, að ekki væru allir lögfræðingar sammála um þá túlkun og að dómstólar myndu eiga síðast[a] orðið."

Þegar SÍ tekur hann undir lögfræðiálitið, en með fyrirvaranum "ekki væru allir lögfræðingar sammála". Hvaða álit sérfræðinga var ekki sammála? Hvaða álit pantaði SÍ sem var ekki sammála? Var SÍ með sínum fyrirvara að vísa í umfjöllun fjömiðla eða fékk SÍ annan hóp sérfræðinga sem komst að því að þetta væri líklegast löglegt? Til hvers eða hverra var SÍ að vísa þegar fyrirvari er settur á jafn mikilvæga niðurstöðu?

Kannski hefur mér yfirsést eitthvað, þú værir kannski til í að benda mér á hvaða grundvöllur liggur að baki fyrirvara SÍ?

sr (IP-tala skráð) 6.8.2010 kl. 22:59

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Vegna umræðu á Eyjunni, þá vil ég bæta hérna við:

Það vita það allir að dómstólar hafa síðasta orðið. Hitt er að álit Seðlabankans í þessu máli er líklegast næst mikilvægasta álitið sem hægt er að fá á eftir niðurstöðu dómstóla. Þess vegna skipti þetta álit máli. Ég er t.d. jafn sannfærður og Margrét Tryggvadóttir, Eygló Harðardóttir og Lilja Mósesdóttir að umræðan á Alþingi hefði gjörbreyst, ef Seðlabankinn hefði birt álitið og minnisblað aðallögfræðings Seðlabankans. Fólk getur reynt að koma með vitrænar skýringar, en þingmenn hafa stigið fram og sagt að ef þeir hefðu haft þetta álit fyrir framan sig, þá hefði margt breyst í umræðunni á Alþingi.

Mér finnst það stórmerkilegt, að fólk telur lögfræðiálit Seðlabanka Íslands ekki skipta neinu máli.  Kannski sýnir það, að Seðlabankinn hefur glatað virðingu sinni gagnvart þjóðinni.  Alls staðar í hinum vestræna heimi eru skoðanir seðlabanka það sem gengur næst heilögum sannleika.  Vægi orða seðlabankastjóra er víðast þannig að markaðir leggjast á hliðina ef bankastjórnin hóstar.  Það sama á við um lögfræðiálit seðlabanka á Vesturlöndum.  Þau eru næst lögum.  Það er nákvæmlega ekkert léttvægt við slíkt álit.  Aðallögfræðingur Seðlabanka Bandaríkjanna eða Evrópu skilar ekki frá sér áliti nema að það sé pottþétt.  Það sama gildir um aðallögfræðing Seðlabanka Íslands.  Hafi aðallögfræðingur Seðlabanka Íslands komist að því að gengistrygging væri líklegast ólögleg, þá getur enginn innan fjármálageirans eða innan stjórnarráðsins ákveðið að hunsa slíkt álit.  Geri menn það, þá getur aðallögfræðingur Seðlabankans bara sagt af sér.  Hann er fallinn af stalli.

Það þýðir ekkert fyrir Seðlabanka Íslands að reyna að gera lítið úr minnisblaði aðallögfræðings bankans með þeim orðum að aðrir lögfræðingar gætu verið ósammála.  Það skiptir ekki máli.  Það sem skiptir máli er álit aðallögfræðings Seðlabanka Íslands.  Hann tjáði sig með að því virðist afgerandi hætti og það á að vera nóg til þess að hringja bjöllum í öllu stjórnkerfinu.  Að það hafi ekki gerst er skandall.  Sá embættismaður sem ákvað að hunsa álit aðallögfræðings Seðlabanka Íslands hann var að ganga gegn Seðlabankanum.  Svo einfalt er það.  Slíkur embættismaður, sem nú hefur orðið uppvís að því að hafa jafnvel kostað skattgreiðendur 50 - 100 milljarða (ég á ekki von á því að upphæðin verði hærri), hann á að víkja úr sínu starfi.  Sé það ráðherra, þá á hann að segja af sér.  Sé það fjármálaráðherra eða forsætisráðherra, þá verður ríkisstjórnin að fara frá.  Ég þori að fullyrða, að hvergi í hinum vestræna heimi myndi embættismanni dirfast að setja sig upp á móti áliti aðallögfræðings seðlabanka án þess að það ylli úlfaþyt og kæmist í fjölmiðla.  En við búum á Íslandi og prótókoll hefur aldrei verið okkar sterkasta hlið.

Marinó G. Njálsson, 6.8.2010 kl. 23:05

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

sr, það sem átt er við, að einhverjir lögfræðingar (líklegast hjá fjármálafyrirtækjunum) höfðu að sjálfsögðu aðra skoðun, en það er ekkert sem bendir til þess að Seðlabankinn hafi leitað formlegs álits frá þeim.  Ég reikna með að þarna sé verið að vísa til þess, að fjármálafyrirtækin hafi talið að lánin væru lögleg.

Ég sé fyrirvara SÍ eingöngu snúast um að aðallögfræðingurinn tekur undir álit LEX, en setur almennan fyrirvara um að hann geti haft rangt fyrir sér þar sem skoðanir séu skiptar.  Seðlabankinn gefur ekki upp að hann hafi pantað fleiri álit en þetta eina.

Marinó G. Njálsson, 6.8.2010 kl. 23:10

6 identicon

Afsakaðu Marinó, við erum hér að tala um einn stærsta óvissuþáttinn í endurreisn bankakerfisins eftir hrun. Það "að einhverjir lögfræðingar (líklegast hjá fjármálafyrirtækjunum)" hafi orðið til þess að örlagríkur fyrirvari var settur á álit SÍ er með öllu ófullnæjandi skýring. Núna liggur fyrir að stjórnvöld tóku "sjénsinn" á fyrirvaranum. Hann verður að skoða betur.

sr (IP-tala skráð) 6.8.2010 kl. 23:32

7 identicon

mig langar bara að þakka þér fyrir blogg sem þu skrifa. þegar eitthvað gerist i frettinum liti eg beint til þin af þvi eg treystir i það sem þu bloggar. many thanks marino.

shirt (IP-tala skráð) 6.8.2010 kl. 23:32

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Mig langar að vekja athygli á svari Gylfa Magnússonar á Alþingi 1. júlí 2009. (Fékk ábendingu um það sent í tölvupósti.)  Hann svarar þar spurningu Ragnheiðar Ríkarðsdóttur um hvort hann telji gengistryggðu lánin lögleg.  Svar Gylfa var sem hér segir:

"Frú forseti. Ég vík fyrst að fyrirspurn Ragnheiðar Ríkharðsdóttur um lögmæti lána í erlendri mynt. Lögfræðingar bæði í viðskiptaráðuneytinu og annars staðar í stjórnsýslunni hafa vitaskuld skoðað það mál. Niðurstaða þeirra er að lánin séu lögmæt."

Þetta svar er í andstöðu við álit aðallögfræðings Seðlabanka Íslands sem teljast verður "annars staðar í stjórnsýslunni".  Var Gylfi að ljúga í ræðustóli Alþingis eða hafði hann ekki kynnt sér álit aðallögfræðings Seðlabankans?  Ef hann var ekki búinn að kynna sér það, hverjir voru þessir lögfræðingar annars staðar í stjórnsýslunni sem Gylfi er að vitna í og hvers vegna vitnar hann til þeirra en ekki álits aðallögfræðings Seðlabankans?

Marinó G. Njálsson, 6.8.2010 kl. 23:33

9 identicon

Spurning mín stendur ennþá, svar Gylfa kemur fram eftir að SÍ vísar til "einhverra lögfræðinga (líklegast hjá fjármálafyrirtækjunum)" eða "lögfræðinga bæði í viðskiptaráðuneytinu og annars staðar í stjórnsýslunni".

Til hvaða álits var SÍ að vísa til einum og hálfum mánuði áður, þegar fyrirvarinn var settur? Hvaða faglega úttekt komst að því að þessi lán væru líkast til lögleg?

sr (IP-tala skráð) 6.8.2010 kl. 23:52

10 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég fékk gestabókarfærslu frá manni sem gefur mér ekki sjens að svara sér beint, þannig að ég ætla að gera það hér.  Fyrst er það gestabókarfærslan:

Sæll Marinó Mig langar að vita hvort þú telur þig ekki vera fulltrúa allra heimila á landinu. Eru samtök þín ekki samtök skuldlítilla heimila líka? Eru samtök þín ekki samtök þeirra heimila sem hafa sparað í staðin fyrir að taka myntkörfulán? Hver á að borga mismunin fyrir þá sem eru að sleppa við endurgreiðslu stórra hluta lána sinna? Ekki getur þú réttlætt það að þeir sem bera enga ábyrgð á hruninu, eigi að borga klúður þeirra sem stjórnuðu bankakerfinu? Mér finnst þú eigir ekki að tjá þig á þennan hátt um vandamálið eins og þú gerðir í dag í fjölmiðlum (6/8/10), þú ert klárlega að taka málstað hinna stórskuldugu sem eiga stóran þátt í hvernig fór fyrir landinu. Hinir skuldlitlu eiga heimili líka og hafa líka tapað peningum á hruninu. Kveðja Ragnar 

Sæll Ragnar, ég skil ekki orð þín.  Hvernig var ég að taka málstað stórskuldugra sem komu landinu í þessa stöðu, þegar ég gagnrýni Seðlabankann fyrir að halda leyndum mikilvægum upplýsingum, sem hefðu getað breytt miklu um uppbyggingu hagkerfisins.  Hver er stórskuldugur?  Er einhver einn þjóðfélagshópur jafnari en annar svo vísað sé til Animal Farm George Orwell.  Er spurningin um lögmæti gengistryggingarinnar einkamál fárra?  Samkvæmt tölum sem Gylfi Magnússon nefndi á Alþingi 1. júlí 2009, þá skulduðu 40.150 Íslendingar bílalán sem tengd voru erlendum gjaldmiðlum.  Eru þetta allt stórskuldugir?

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð í kringum lánamál heimilanna.  Samtökin vilja sjá leiðréttingu á forsendubresti allra lána, þak og síðan afnám verðtryggingar og gjörbreytt lánakerfi til framtíðar.  Samtökin vilja breyta Íslandi úr kreditþjóðfélagi (þ.e. sem gerir allt á lánum) í debetþjóðfélag (þ.e. sem notar sparnað til fjárfestinga m.a. í bílum og húsnæði).  En nú vill svo til að það hallar á þá sem skulda, meðan þeir sem spöruðu valfrjálst á innstæðureikningum fengu allt sitt bætt upp í topp, þó svo að innstæðutryggingar sem voru í gildi fyrir hrun gæfu ekki tilefni til þess.  Við teljum þetta vera grófa mismunun á sparnaðarformum.  Hver er þess umborin að segja að sparnaður á innstæðureikningum sé merkilegri sparnaður en í húsnæði eða í lífeyrissjóði?

Ég kaupi ekki þá fullyrðingu þína að skattgreiðendur eigi að borga skuldir annarra einstaklinga.  það hefur enginn getað sýnt mér fram á að það gerist til viðbótar við það sem ríkisstjórnin hefur þegar gert.  En höfum í huga, að skattgreiðendur eru líklega að greiða um 350 - 400 milljarða vegna sparnaðar á innstæðureikningum.  Það setur enginn út á það.  Trúðu mér, Ragnar, það mun sáralítið eða jafnvel ekki neitt þurfa að fara frá skattgreiðendum til einstaklinga vegna gengislánadóma Hæstaréttar.  Kannski mun eitthvað falla á skattgreiðendur vegna lánafyrirtækja, en málflutningur þinn snýst ekki um það.

Í dag var ég ekki að taka málstað lántaka.  Nei, ég var að taka málstað sannleikans og réttlætis.  Ég var að mótmæla því að Seðlabankinn hafi legið á mikilvægum upplýsingum.  Ég var að benda á að tölur FME um möguleg áhrif dóma Hæstaréttar væru byggðar á sandi.  Ég hef hvergi fjallað um leiðréttingu lána, en aftur bent á að bankarnir hafi fengið mikinn afslátt á lánasöfnunum.

Marinó G. Njálsson, 6.8.2010 kl. 23:56

11 Smámynd: Marinó G. Njálsson

sr, ég svaraði þessu áðan.  Ég hef ekki frekari upplýsingar en ég gef þar.  Eingöngu aðallögfræðingur Seðlabankans getur svarað því.

Marinó G. Njálsson, 6.8.2010 kl. 23:58

12 identicon

Þakka þér þolinmæðina Marinó, veit að þú stendur í ströngu.

Væru HH og/eða einhverjir fjölmiðlar til í að óska eftir svörum vegna þessa frá aðallögfræðingi SÍ?

sr (IP-tala skráð) 7.8.2010 kl. 00:07

13 Smámynd: Marinó G. Njálsson

sr, ég skal koma þessu á framfæri við Margréti Tryggva, Eygló Harðar eða Lilju Móses.

Marinó G. Njálsson, 7.8.2010 kl. 00:12

14 identicon

Bestu þakkir fyrir það Marinó. Finnst full ástæða til að kanna hvers vegna og á hvaða forsendum SÍ skyldi álit sitt eftir opið í báða enda.

sr (IP-tala skráð) 7.8.2010 kl. 00:26

15 identicon

Sæll Marinó.

Ég biðst afsökunar á vankunnáttu minni, HH eru semsagt klárlega samtök lántakenda en ekki hagsmunasamtök allra heimila.

þar með var tóninn í yfirlýsingum þínum í dag skiljanlegur, því eðli málsins samkvæmt er erfitt að vera báðum megin borðsins þegar kemur að hagsmunum skuldlítilla heimila og heimila sem offjárfestu í fasteignabólunni.

Á einhvern óskiljanlegan hátt færð þú það út að það sé sparnaður, að eyða peningum í húsnæði sem öll rök voru fyrir því að var of dýrt. Gengur þvert á allar gildandi kenningar í hagfræði.

Varðandi fullyrðingu þína um að það halli á þá sem valfrjálst keyptu of dýrt húsnæði en hinir sem völdu að spara getur ekki alveg verið svona einfallt.

Eigendur íslenskra króna í íslenskum bönkum, sitja líka uppi með verðlausa kreppukrónu í gjaldeyrishöftum.

það er hins vegar rétt hjá þér að bankakerfinu var reddað komplett og það má vera að það hafi verið óréttlátt að þeim hafi verið reddað sem telja peningana sína í milljörðum en ekki örfáum milljónum.

En hvernig ætlarðu að skapa traust um bankakerfi án innistæðutryggingar?

Auðvitað lendir þessi mismunur einhversstaðar á kreppukrónunni og góðæriskrónunni ef að myntkörfulánafólkið á að sleppa við hann, þá er bara einhver annar sem greiðir hann.

Ég persónulega gef nú lítið fyrir baráttu þína um sannleika og réttlæti, því þessar dyggðir lántakenda snúast nú bara um það að lánin eru óhagstæð fyrir fólk núna. Fólk þyrsti nú ekki svo mikið í sannleika og réttlæti þegar lánin voru hagstæð og menn voru að græða á að taka þau í staðin fyrir vísitölutryggð.

Ég hefði fengið álíka mikinn skít í góðærinu fyrir að skrifa um ólögleg myntkörfulán, og ég fæ sjálfsagt fyrir þessa athugasemd mína nú.

kveðja Ragnar

Ragnar Thorisson (IP-tala skráð) 7.8.2010 kl. 03:38

16 Smámynd: Dingli

Þakka þér enn og einu sinni Marinó. Skil ekki hvernig þú hefur tíma og orku í alla þessa vinnu ásamt því að reka fyrirtæki. Það fer því svakalega í pirrurnar mínar fínu, að þú þurfir sí & æ að leiðbeina fólki sem telur sig tapa e-h, ef náunginn fær óréttlæti sem hann hefur verið beittur leiðrétt.

En það var eitt smá, smá-atriði sem læddist að mér áðan. Getur verið að Seðlabankinn hafi haldið uppi óskiljanlega háum vöxtum m.a. af þeirri ástæðu að búið var að plana þessa atburðarás. Voru AGS og Steingrímur búnir að reiknað þetta allt út strax eftir áramótin 08-09. Tryggja sig gegn mögulega töpuðum málaferlum vegna forsendubrests af einhverju tagi, með því að flýja í meðalvexti S-banka?

Kannski leynimakks og ósanninda-óstjórnin sé "bara" að valda hjá mér ofsókna og samsæris-brjálsemi, hver veit??

Dingli, 7.8.2010 kl. 04:25

17 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ragnar, ég veit ekki hvar þú hefur alið manninn, en hér á landi hefur um árabil (fyrir utan tímabilið frá desember 2004 fram á seinni hluta árs 2007) þurft að eiga eigið fé til að kaupa húsnæði.  Segðu mér nú hvaðan þetta eigið fé á að koma.  Ofan af himnum eða af sparnaði?  Auðvitað hefur fólk lagt valfrjálsan sparnað sinn í það að kaupa húsnæði.  Ég þarf engar hagfræðinkenningar til að segja mér það.  (Og svona til að þú hafir það á hreinu, þá er ég að hluta með menntun í hagfræðigreinum auk þess sem lokaverkefni mitt við Stanfordháskóla fjallaði um hagfræðihugtak sem ekki er notað hér á landi, þ.e. verðteygni.  Ég er með menntun í aðgerðarannsóknum, sem stundum er vísað til sem hagfræðileg stærðfræði eða stærðfræðileg hagfræði.  Þannig að þú þarft ekkert að kenna mér um þessi efni.)

Hafir þú eitthvað misskilið starf Hagsmunasamtaka heimilanna, þá er sökin ekki mín.  Stefnuskrá samtakanna er aðgengileg hverjum sem vill á netinu.  Samtökin voru stofnuð í kringum skuldavanda heimilanna enda teljum við það vera stærsta réttindamál þeirra og þar með þjóðarinnar.

Annars legg ég til að þú kynnir þér málflutning minn og þá kannski kemstu að því að við eru ekki á svo ólíkri línu.  Ég hef talað fyrir því að innstæðutryggingin upp á EUR 20.887 haldi og allir sem áttu innstæður upp að þeirri upphæð haldi sínum peningum.  Það sem er umfram, hef ég bent á að rétt hefði verið að verja höfuðstólinn eins og hann var um áramót 2008 (upp að vissu marki) og tekið tillit til breytinga á höfuðstóli, en innstæðueigendur töpuðu vöxtum og verðbótum frá áramótum til 6. okt 2008.  Þessu hef ég haldi fram frá því í október 2008, svo það sé á hreinu.

Annað.  Ég hef aldrei talað um að verja eigið fé í húsnæði á annan hátt, en að leiðrétta forsendubrest lána fólks.  Húsnæðisverð tekur breytingum og ekkert við því að gera.  Það er ekki málið, heldur skuldsetningin.

Ég veit ekki hvað þú hefur fylgst með umræðunni.  Mér finnst eins og þú hafir ákveðið að lesa Hringadrottinssögu, en talið nóg að byrja að lesa þegar 100 blaðsíður eru eftir af síðasta bindinu.  Þrátt fyrir það telur þú þig vita með vissu hvað gerðist á hinum 1500 blaðsíðunum á undan.  Þannig er það ekki.  Maður kemur ekki inn í svona umræðu með sleggjudóma um einstaklinga og ætlast til að vera tekinn alvarlega.  Þrátt fyrir þetta, þá reyni ég að svara þér af kurteisi, en bið þig nú að leggjast yfir það sem ég hef sagt í gegn um tíðina, áður en þú kemur með rangar fullyrðingar um það sem ég stend fyrir.  Það nefnilega stóðst ekki ein einasta þeirra, hvorki í póstinum sem þú settir hér á né þeim sem þú sendir mér í gærkvöldi sem gestabókafærslu og síðan á Eyjunni.

Á þessari síðu er skítkast ekki liðið.  Annað hvort tjáir fólk sig málefnalega eða athugasemdin er þurrkuðu út.  Ég hef ekki þurft að gera það oft.  Þú getur því óhræddur komið með þitt sjónarhorn og þín rök meðan að það fjallar um málefni en ekki einstaklinga.  Hér eru allar skoðanir velkomnar, en ekki er víst að aðrir taki undir þær.

Marinó G. Njálsson, 7.8.2010 kl. 13:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 38
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband