Leita í fréttum mbl.is

Játning óráðsíumanns og áhættufíkils

Ég fékk í kvöld einu sinni sem oftar þessa klassísku spurningu um áhættusækni þeirra sem tóku gengistryggð lán.  Ég er búinn að fá þessa spurningu svo oft að ég hef ákveðið að hætta allri "afneitun" og viðurkenna syndir mínar og mistök.  Fyrst er það spurningin, en henni var beint til mín á Eyjunni:

Cola 1.7 2010 22:54

Marinó:
Var það ekki meðvituð ákvörðun hjá þér að taka erlent lán? Og skildirðu ekki að lánið myndu hækka/lækka eftir því hvernig gengi íslenski krónunnar þróaðist miðað við aðra gjaldmiðla?

Og finnst þér allt í lagi nú að skýla þér á bak við formsgalla í samningnum?

Hér er svo svar mitt:

Cola, já, ég viðurkenni að ég tók svona lán af vandlega íhuguðu máli.  Ég hef aldrei neitað því og ég hef aldrei neitað því að ég gerði ráð fyrir að gengið gæti veikst.  Ég tók lánin á nokkurra ára tímabili og því sveiflaðist gengisvísitalan frá því að vera 124 niður í 100 og upp í 122 á þeim tíma sem ég tók lánin.  Samkvæmt spám á árunum 2004 - 2007 frá greiningadeildum bankanna, fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans, þá var gert ráð fyrir að gengið myndi haldast nokkuð stöðugt, en þó gæti það tekið snöggum breytingum og upp og niður.  Talað var um að jafnvægisgengi væri 128 (gengisvísitala) og mjög svartsýn spá var að gengið færi í 136.  Í minni áætlun, þá gerði ég ráð fyrir tveimur sviðsmyndum um veikingu gengisins.  Fyrri var að gengið veiktist um 0,5% á ári að jafnaði, en það var í dúr og moll við þróun þess síðustu 10 ár á undan, þ.e. jafnaðar veiking án sveiflna.  Bar ég þetta saman við að Seðlabankanum tækist að halda verðbólgu innan 2,5% verðbólgumarkmiða sinna.  Seinna dæmið var að gengið veiktist um 2% á ári að jafnaði á 30 árum og verðbólga væri óbreytt frá fyrra dæmi.  Ég nýtti mér alls konar gögn og tölulegar upplýsingar til að styðja útreikninga mína og fá þannig sem raunhæfustu niðurstöður.  Við útreikninga mína gerði ég ráð fyrir stuttum dýfum eða toppum, sem gengju yfir á 6 - 12 mánuðum og væru í líkingu við sveiflurnar 2001 og með seinni lánin það sem gerðist 2006.  Spá mín er svo sem ekki orðin röng ennþá fyrir utan að toppurinn varð hærri og hefur varað lengur, en þetta með 2% jafnaðarvöxt á 30 árum gæti ennþá ræst, þó ólíklegt sé.  A.m.k. gerði ég ekki ráð fyrir að öll 30 ára hækkunin kæmi á nokkrum mánuðum.

Ég verð að viðurkenna, að mér yfirsást einn veigamikill þáttur sem skiptist í um 50 undirliði, en ég held að mér sé nokkur vorkunn með það.  Mér yfirsást sá möguleiki að verið væri að ljúga að okkur um hagstærðir, þróun gengis, áhættu í fjármálakerfinu og við fengum ekki að vita að bankarnir væru í raun risastór seðlaveski nokkurra manna sem hefðu það að markmiði að kreista úr þeim alla þá peninga sem þar voru.  Mér yfirsást að taka tillit til þess að bankarnir fölsuðu afkomutölur sínar og hlutabréfaverð með grófri markaðsmisnotkun.  Ég gleymdi að taka með í reikninginn að nokkrir ósvífnir einstaklingar (og líka erlendir vogunarsjóðir) hefðu saman eða í nokkrum hópum ákveðið að íslenska krónan og íslenska hagkerfið væri verðugt fórnarlamb fyrir sísvanga varúlfa fjármálaheimsins. 

Já, ég gerði alvarleg mistök og um ástæðu mistaka minna má lesa á hátt í 3000 bls. í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.  Mér finnst einhvern veginn að ég hafi nokkuð þokkalega afsökun fyrir mistökum mínum, sérstaklega þar sem ég hef aldrei verið innvígður né innmúraður í innsta hring fjárglæframanna Íslands. 

Ég gerði líka þau mistök að trúa sérfræðingum greiningardeildar Íslandsbanka, sem gáfu út þá spá 28. maí 2008 (sjá frétt mbl.is http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frettir/2008/05/28/glitnir_gengishaekkun_i_haust/) að lokagengisvísitala ársins 2008 myndi verða 135 og meðalgengisvísitalan yrði 142.  Fyrir árið 2009 hljóðaði spáin upp á meðalgengi 128.  Segðu mér nú, Cola, hverju átti maður að trúa?  Ég tek það fram að spáin í júní var svartari, en hún var samt góð miðað við það sem varð.

Ekki má gleyma því að ég trúði ráðherrum, þingmönnum, eftirlitsstofnunum, embættismönnum og því að upplýsingar á verðbréfaþingi væru réttar og sannar.  Já, ég féll í þá gryfju að halda að menn hefðu heiðarleika að leiðarljósi, en væru ekki útsmognir svikarar, lygarar, fjárglæframenn og hugsuðu bara um eigin hag á kostnað almennings og þjóðfélagsins.  Ég hélt að þeir væru eins og ég.  En mikið er ég feginn að ég er ekki eins og þeir.

Ég játa á mig þá fákunnáttu, að hafa ekki kunnað á öll trixin í bókinni, svo sem að vera með framvirkar varnir, færa áhættuna af lántökum mínum yfir í nær eignalaus eignarhaldsfélög, sem auðvelt væri að setja á hausinn án þess að ég tapaði nokkru, láta eignarhaldsfélagið kaupa húsið mitt á uppsprengdu verði og veðsetja það fyrir margfalt verðmæti þess og leigja mér svo húsið á skúringarkonutaxta.  Nú að láta síðan hið gjaldþrota eignarhaldsfélag taka himin hátt lán til þess að greiða mér allt lánið sem arð sem ég færði í snatri yfir á huldufélag á aflandseyju.  Já, mistök mín voru mörg.  Líklegast þau stærstu og afdrifaríkustu eru að ég tel mig þokkalega heiðralegan og með vel við unandi siðgæðisvitund, hvorutveggja sem ég met meira en allt hitt.

Geri þetta mig að óráðsíumanni og áhættufíkli, þá verður svo að vera.

Varðandi síðustu spurninguna þína, Cola, þá hef ég aldrei skýlt mér bak við formgalla lánanna.  Ég hef alltaf talað um að sanngirni þurfi að ganga í allar áttir.  En núna er Hæstiréttur búinn að dæma um þessi "mistök" fjármálafyrirtækjanna og ég fæ bara engu um það ráðið.  Ég bað ekki um þessa niðurstöðu og hafði allt fram til 12. febrúar á þessu ári talað fyrir öðrum lausnum.  Þann dag reis vonarsól almennings og við sáum í fyrsta sinn, að kannski, já kannski, yrðu það réttlætið (þ.e. lögin) en ekki manneskjuleg úrræði (sanngirni), sem kæmi okkur til hjálpar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Mögnuð svör við einfeldningslegum spurningum.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 2.7.2010 kl. 04:05

2 identicon

Snilldarsamantekt.

HA (IP-tala skráð) 2.7.2010 kl. 06:24

3 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Marinó,

Það má heldur alls ekki gleyma því að matsfyrirtækin, sem allt snérist um og allt stóð og féll með, héldu fram þokkalega góðri stöðu íslenska fjármálakerfisins, þó aðeins væri farið að falla á hana og horfur væru taldar neikvæðar, alveg þar til allt var hrunið!  Það er auðvelt að vera vitur eftir á og það gat enginn séð fram á þá gengisþróun sem varð á Íslandi árið 2008.  Þessi þróun var ekki í nokkru samræmi við spár eða væntingar, jafnvel ekki allara svartsýnustu manna!

Skoðum aðeins þann gjaldmiðil sem ég þekki best.  Þegar Bandaríski dollarinn var lægstur í byrjun og seinni hluta árs 2007 var hann að róla í kringum 60 krónur.  Lægst fer hann 24. Júlí 2007 eða í 59,46 krónur.  Í mars 2008 tekur hann kipp upp á við og er í kringum 80 krónur og rólar þar þangað til í byrjun September 2008, mánuði fyrir hrun.  Þá fer hann að síga upp á við og rennur yfir hundraðkallinn 29. September 2008 (þá hefði verið alveg kjörið að eiga dollara millu keypta á sextíukall og selja á hundrað kall!  C'est la vie;)  Þann 1. Desember 2008 fer hann í 148,42 krónur sem er hæsta gengið.  Þetta er 249,61% hækkun frá því í Júlí 2007 þar til í Desember 2008 eða á um 16 mánuðum.  Á tímabilinu 1. Janúar, 2000 til 1. Ágúst 2007 hafði gengið farið lægst í 58,49 árið 2005 og hæst í 110.38 árið 2001. 

Gengisþróunin þessa áratugar hafði því verið í stökkum, en að meðaltali niður á við þar til það fer að síga upp á við haustið 2007.  Þ.e. að sú gengisþróun sem hafði verið árin á undan var heldur niður á við en snýst aðeins við um mitt ár 2007, en ekkert meira en hafði skeð t.d. 2004, 2005 og 2006.  Alveg fram til áramóta 2007-2008 er þetta nokkuð jöfn þróun þó það séu toppar og lægðir þá er dollarinn að róla í kringum 75 krónur.  Það að taka lán miðað við dollar (og dollarinn var óstöðugur á þessum tíma) held ég að geti ekki hafi talist meiri áhætta en að taka verðtryggð lán. 

Á sama tíma sýnist mér að lægstu vextir Seðlabankans hafi verið 4,15% og hæstu vextir 15,65% á verðtryggðum skuldabréfalánum.  Ef skoðaðir eru hæstu og lægstu vextir óverðtryggðra skuldabréfalána þá eru lægstu vextir 7,75% en hæstu 26,85%.  Munur á lægstu og hæstu vöxtum verðtryggðra skuldabréfalána er því 377,11% og 346,45% á óverðtryggðum skuldabréfalánum.  Gengi dollars hefur því "aðeins" sveiflast til um 249,61% en vextir hafa sveiflast til um 377,11% á verðtryggðum lánum, en 346,45 á óverðtryggðum lánum.  Því má segja að þeir sem tóku verðtryggð lán hafa tekið mesta áhættu á vaxtasveiflum.  Athugaðu að þetta hefur ekkert með verðtrygginguna að gera og hvernig hún hefur sveiflast, svo þetta er ekki alveg sambærilegt, en sýnir að þeir sem tóku verðtryggð eða óverðtryggð lán án gengistryggingar eða í gjaldeyri tóku síst minni áhættu þegar kom að vaxtaþættinum heldur en þeir sem tóku myntkörfulán eða önnur gengistengd lán.

Það er auðvelt að vera vitur eftir á.  Ég hefði getað keypt dollara þegar hann var á sextíukall og selt þá með hagnaði.  Ég sé núna alveg nákvæmlega hvaða daga ég hefði átt að kaupa og selja;)  Að vera vitur fyrirfram er allt annar handleggur og ekki öllum gefið, a.m.k. hef ég verið seinheppinn í þeirri deild!;)

Baráttukveðjur,

Arnór Baldvinsson, 2.7.2010 kl. 07:30

4 identicon

Við hjónin settumst líka niður og skoðuðum lánamöguleika út frá öllum þekktum forsendum og stærðum. Það varð úr að taka ("áður") gengistryggt lán. Við töldum okkur ráða við mögulega styrkingu upp á 30, jafnvel 40% en við höfðum ekki hugmyndaflug til að láta sér detta allt þetta í hug sem þú tínir til hér að ofan.

Þetta er greinargóð samantekt hjá þér og forsendubresturinn og ruglið sem þú ferð yfir í samantektinni á það til að gleymast í umræðunni.

Svo vona ég (maður má víst ekki missa vonina) að enn búum við í réttarríki og sjálfstæði dómstóla. 

Jóna Ingibjörg Jónsdóttir (IP-tala skráð) 2.7.2010 kl. 08:01

5 identicon

Ég fullyrði að allir sem á annað borð lögðu málið eitthvað niður fyrir sig tóku erlend lán, annaðhvort að fullu eða til hluta. Aðrir sem ekki nenntu því, eða höfðu ekki skilning á viðfangsefninu, tóku verðtryggð lán eða óverðtryggð.

Sjálfur er ég viðskiptafræðingur og tók 50/50 eftir vandlega skoðun, bæði til að fjármagna bifreiðakaup og fasteignabyggingu.

Á það má einnig benda að 75% allra fjármálastjóra á landinu tók erlend lán...það eru ekki allir í þeim hóp bjánar!

Ég er hættur að láta "áhættusæknihópinn" pirra mig. Ég er farinn að skilja að þetta fólk er fyrst og fremst að sækjast eftir valideringu á eigin ákvörðunum í fortíðinni.

Ég er líka hættur að láta þá pirra mig sem halda því fram að fólkið sem tók erlendu lánin séu þröngur eiginhagsmunahópur. Í fyrsta lagi þá hefur mér lærst að ef ég gæti ekki hagsmuna minna sjálfur þá gerir það enginn (Þakkir samt til HH, Marinós ofl.)

Í öðru lagi þá eru allir Íslendingar, beint eða óbeint með erlent lán. Ef þú ert Reykvíkingur...í gegnum OR, Álftnesingur, Reyknesingur eða Hafnfirðingur í gegnum bæjarsjóð, Íslendingur í gegnum Landsvirkjun osfrv...osfrv..

Strögglið er því í allra þágu....hvort sem allir vilja viðurkenna það eða ekki.

Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 2.7.2010 kl. 09:21

6 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Frábær samantekt og málsvörn allra "áhættufíkla".

Guðmundur St Ragnarsson, 2.7.2010 kl. 10:19

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég átti í gær fund með háttsettum manni í bankakerfinu.  Hann er nýtekinn við sinni stöðu og vill greinilega láta vita um styrk sinn, en sýndi að mínu mati í staðinn helstu veikleika sína og einn af þeim var að fullyrða að fólkið sem tók gengistryggð lán hafi vitað af gengisáhættunni.

Marinó G. Njálsson, 2.7.2010 kl. 10:52

8 identicon

Frábær samantekt.

Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 2.7.2010 kl. 11:10

9 identicon

Þá geri ég ráð fyrir því að þú hafir treyst þér til að fullyrða við hinn nýráðna bankamann, að bankarnir hafi allan tímann vitað að lánin voru/eru ólögleg.

Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 2.7.2010 kl. 11:13

10 identicon

Lykilatriðið er ekki gengistryggingin heldur vextirnir. Fólk var að taka lágvaxtalán. Þótt höfuðstóllinn hafi hækkað (nú er ég að tala um langtímalánin) eru þau ennþá langbestu lánin á markaðnum. Ef vextir hækka í Japan og Sviss mun það haldast í hendur með lækkun á gengi þessara gjaldmiðla. Þannig að lágvaxtalánin eru til langs tíma reiknað, öruggustu og bestu lánin sem eru í gangi.

Það að bankarnir hafi klúðrað sínum tryggingum, (það er að segja notað ólöglega aðferð við að tryggja sig), eru þeirra mistök og þeir verða súpa seyðið af því. Þeir eru fagmenn og lána til að græða. Lántaki sem tekur lán til að kaupa íbúð, er ekki í bisniss, hann er neytandi og nýtur neytendaverndar. Það kemur honum ekkert við hvort fagmennirnir eru starfi sínu vaxnir eða ekki.

Það eru ekki lántakendur sem hafa verið með skítkast út í bankana. Það er öfugt. 

Björn Jónasson (IP-tala skráð) 2.7.2010 kl. 11:15

11 Smámynd: Inga Sæland Ástvaldsdóttir

Takk fyrir frábæra samantekt Marinó. Það er alltaf jafn fróðlegt að lesa pistlana þína.  Getur þú sagt mér hvort ég er að misskilja eitthvað þegar ég heyri endalaust talað um hin ólöglega gengistryggðu bílalán, var Hæstiréttur ekki að dæma öll gengistryggð lán ólögleg, þ.e lán þar sem lántakandinn sá aldrei gjaldmiðilinn sem hann var að taka að láni?

Inga Sæland Ástvaldsdóttir, 2.7.2010 kl. 12:47

12 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Inga, takk fyrir hlý orð.

Við skulum hafa eitt á hreinu: 

Hæstiréttur dæmdi engin lán ólögleg.  Rétturinn dæmdi ólöglegt að tengja höfuðstól og afborganir við dagsgengi erlendra gjaldmiðla.  Lánasamningarnir eru í fullu gildi, en bara án gengistryggingarinnar.

Eins og ég fjalla um í siðustu færslu á undan, Hvað sagði Hæstiréttur? - Tilmælin virka sem lög, þá lít ég svo á og raunar allir þeir lögfræðingar/lögmenn sem ég hef rætt við nema yfirmaður lögfræðisviðs Landsbankans, að dómurinn sé fordæmisgefandi fyrir alla lánasamninga með gengistryggingu án tillits til þess hver ástæða lántökunnar var.

Marinó G. Njálsson, 2.7.2010 kl. 13:00

13 identicon

Ekki hægt að svara þessu betur.

Kristján Þorvaldsson (IP-tala skráð) 2.7.2010 kl. 13:41

14 Smámynd: Einar Þór Strand

Marinó það er eitt sem þú áttir að geta sagt þér og það var að þegar dollarinn var í 60 kr og minna þá vissu allir sem vildu hugsa að það væri von á 50% gengisfalli í það minnsta á næstu 2 - 4 árum því hann hefur alltaf verið um 90 kr

Einar Þór Strand, 2.7.2010 kl. 15:30

15 identicon

Einhverra hluta vegna datt mér þetta hér í huga við lesturinn:

http://en.wikipedia.org/wiki/Black_swan_theory

Það er óhætt að segja að einn allsherjar svartur svanur hafi flogið yfir lánamál landsmanna.

Daði (IP-tala skráð) 2.7.2010 kl. 16:12

16 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

Vel mælt!

Brjánn Guðjónsson, 2.7.2010 kl. 16:59

17 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Góður pistill Marinó,

vil skjóta inn smá sögulegum vinkli vegna þeirrar ranghugmyndar að skuldir séu fyrirbæri sem hafi eilíft líf.

"Vextir komu fram um 3 öldum fyrir Krist og  þegar bændur komust í vanskil vegna uppskerubrests voru lagðir á þá vanskilavextir. Það leiddi til þess að þeir misstu búfénað eða réttinn til ræktunar. Af þeim sökum voru þeir í verri stöðu til að endurgreiða skuldina. Því var fljótlega farið að fella niður skuldir þegar uppskerubrestur var orsökin fyrir vangreiðslu. Þessi barátta milli þeirra sem vildu safna vöxtum sér til handa og hinna sem vildu reka þjóðfélag  þar sem jafnræði gilti milli lánadrottna og skuldara hefur æ staðið síðan. Til að halda þjóðfélögum saman og í jafnvægi, komst sá siður á að konungar aflýstu öllum óbærilegum skuldum við upphaf valdatímabils  síns. Á þann hátt héldust samfélögin saman. Skuldabyrðin varð viðráðanleg. Yfirvaldið gat framkvæmt þetta sökum möguleika á valdbeitingu. Vegna þess að yfirvöld höfðu einkaleyfa á valdbeytingu og lánadrottnarnir urðu að sætta sig við ákvörðun þeirra. Þegar sá möguleiki hvarf eins og í Róm þá náði hástéttin að komast hjá sköttum og ríkiskassinn tæmdist og Rómaveldi leið undir lok."

Gunnar Skúli Ármannsson, 2.7.2010 kl. 19:52

18 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ég var líka meðvitaður um gengisáhættu sem og verðbólguáhættu verðtryggðra lána, og tel mig því líka hafa tekið upplýsta og ábyrga ákvörðun byggða á fyrirliggjandi upplýsingum. Ekki nóg með það heldur bætti ég um betur og stundaði markvissa áhættudreifingu og þurfti ekki að kaupa einhverja flókna fjármálaafurð sérstaklega til þess. Heldur er bílasamningurinn minn einfaldlega 50% á erlendum kjörum (LIBOR+gengisviðmið) og 50% á innlendum kjörum (ISK+verðtrygging). Ég mat það sem svo að hver svo sem útkoman yrði þá yrði ég þó a.m.k. í betri málum en þeir sem færu verst út úr slíkum lántökum. Mig óraði hinsvegar aldrei fyrir því að verðtryggingin myndi rjúka upp eins og helíumblaðra, og því síður að gengi myntkörfunnar ætti eftir að margfaldast. Fyrir utan þetta eru flest mín lán verðtryggð.

Er ég þá "áhættusækinn" af því að innan við 10% af mínu lánsfé var gengistryggt með ólögmætum hætti af lánveitandanum?

Ég þykist vita að langflestir sem tóku gengistryggð lán séu líka með einhver verðtryggð, það gildir t.d. um öll námslán, námslokalán og flest önnur skuldabréfalán einstaklinga. Þess utan þá er ég af þeirri grátlega sjaldgæfu manngerð sem les alltaf smá letrið og samþykki aldrei neitt sem ég hef ekki lesið. Þessum eiginleika fékk bankinn að kynnast þegar hann reyndi að plata mig til að skrifa undir húsnæðislán með mun óhagstæðara greiðslufyrirkomulagi (jafngreiðslu/annuitet) en því sem ég hafði sótt um (jafnar afborganir af höfuðstól). Ég las líka smáa letrið í bílasamningnum áður en ég skrifaði undir hann, og minnist þess ekki að hafa séð neina fyrirvara í vaxtaákvæðinu um að það sé háð lögmæti annara samningsákvæða, sbr. gengistrygginguna.

Einnig má nefna að þegar valið stóð um hvort taka ætti bílalán eða bílasamning (kaupleigu) þá mælti sölumaðurinn frekar með kaupleiguforminu þar sem þá þyrfti ég ekki að greiða stimpilgjald vegna lántökunnar. Ég hafði reyndar ekki rænu á því þá að spyrja hvort fjármálafyrirtækið, sem segist hafa tekið gjaldeyrislán fyrir kaupverðinu, myndi þess í stað greiða fyrir mig stimpilgjaldið af þeirri lántöku af einskærum velvilja? Auðvitað kom síðar í ljós að það var annað en góðmennska sem réði för, og eins og við vitum þá er það lygi að tekið hafi verið lán erlendis fyrir hverjum og einum bíl sem var svo endurlánað fyrir. Heldur var a.m.k. þetta ákveðna fyrirtæki einfaldlega rekið á opnum yfirdrætti hjá sínum viðskiptabanka sem var um leið aðaleigandi þess, og hirti þannig líklega hagnaðinn af því í formi vaxta frekar en arðs til að komast hjá fjármagnstekjuskatti. Með því að bjóða mér "hagstæðari" kjör var viðkomandi bankasasteypa hugsanlega að plata mig til að hjálpa sér við þessa bókhaldsfölsun. Bílasalinn taldi mér líka trú um að réttaráhrif kaupleiguformsins væru þau sömu og með lántöku, en auðvitað reyndist sú fullyrðing á veikum grunni byggð.

Er ég þá ekki líka ginningarfífl að hafa tekið mark á ráðgjöf starfsmanna hjá sitthvoru fyrirtækinu sem bæði leggja stund á leyfis- og eftirlitsskyld viðskipti? Var það ekki líka barnaskapur af mér að trúa því að svona samskonar viðskipti og almennt tíðkuðust væru lögleg?

Þess má geta að áður en ég skrifaði undir viðskiptin spurði ég bílasalann hvort bílinn sem ég fengi væri útbúinn með MP3 geislaspilara eins og annar bíll sem ég skoðaði líka, og hann játti því. Eins heimskur og vitlaus og ég hlýt að vera samkvæmt röksemdum þeirra sem þjást nú af verðtryggingaröfund, þá hefur mér einmitt ekki tekist að spila MP3 diskana mína í bílnum. Hey... bíddu nú við.....  D'OH!

Guðmundur Ásgeirsson, 2.7.2010 kl. 20:08

19 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Takk fyrir þetta. Þú stendur þig frábærlega gegn svíðingsmafíunni.

Ævar Rafn Kjartansson, 2.7.2010 kl. 22:02

20 identicon

Dittó - og takk fyrir að taka frumkvæðið í þessu máli jafnt og mörgum öðrum. Vek þó athygli á því að framvirkir samningar eða áhættuvarnir voru EKKI í boði fyrir einstaklinga eins og okkur. Þú, jafnt og ég, hafðir því engan möguleika né tækifæri til að verja þig gegn áhættunni.

BB

Arney

Arney Einarsdóttir (IP-tala skráð) 2.7.2010 kl. 22:11

21 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Mig langar að bæta við einu atriði varðandi áhættustjórnun mína, af því að ég er nú einu sinni sérfræðingur í þvi sem heitir stjórnun rekstrarsamfellu.  Ég reiknaði með því, að ef allt færi á versta veg og gengið veiktist of mikið, þá gæti ég alltaf selt húsið sem ég hef verið að byggja og komið nokkurn veginn á sléttu út.  Það var mín neyðaráætlun.  Þessi neyðaráætlun er ennþá til staðar og ekki er komið á hreint hvort ég þurfi að nýta mér hana.

Annars er gott að sjá öll viðbrögðin að ofan og þakka ég fyrir það.  Ég þakka líka fyrir "Til fyrirmyndar"-bréfin þrjú sem ég fékk í  dag.

Marinó G. Njálsson, 3.7.2010 kl. 00:09

22 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Marinó, mér finnst þú líka til fyrirmyndar þó ég hafi ekki sent þér nein bréf út af því!

Guðmundur Ásgeirsson, 3.7.2010 kl. 00:11

23 identicon

Ég játa að ég hef margvíslega syndgað í hugarfari, orðum og gjörðum og síðast en ekki síst í áhættufíkn.  Ég játa að ég er NEI-tandi.  Það tekur á að þurfa að svara fyrir þessa áhættufíkn í umræðunni.  Ótrúlegt hvernig tekist hefur að etja saman landsmönnum og stilla okkur upp í tvo hópa.  1) þeir sem tóku gengistryggt lán 2) þeir sem tóku verðtryggt lán.  En þetta var viðbúið og í stað þess að standa saman öll sem eitt gegn hinum raunverulega órétti sem við erum beitt, þá eru landsmenn að höggva hvorn í annan.  Mörg okkar eru líka með fleiri en eina lántegund í gangi.

Flestir þeirra sem ég hef hitt og tóku gengistryggt lán eða skiptu öllu yfir í slíkt lán gerðu það að vandlega yfirlögðu ráði.  Margir hverjir höfðu kynnst verðtryggingunni á eigin skinni og sáu loks fram á raunhæfan kost á markaði.  Aðrir höfðu einnig gengið í gegnum óðaverðbólgu og gengisfellingar hér í denn og höfðu misst allt sitt og héldu að nú væri loks kominn sanngjarn möguleiki á markaðinn. 

Landsmenn þurfa að standa saman í þessu réttlætismáli.  Það er jú búið að fella dóm en við eigum ekki að fá njóta hans, eftir 2ja ára baráttu og hremmingar.  Hagsmunasamtök hafa jafnlengi verið að kalla eftir sanngjörnum lausnum og almennum aðgerðum.  Það, að fara dómstólaleiðina er alltaf neyðarúrræði.

Nú þegar dómur fellur lánþegum í hag, er allt í einu riggað upp nefnd hjá FME á "no-time" til að yfirfara öll gengistryggð lán og lánsform þeirra hjá öllum fjármálastofnunum í landinu og þessu skal lokið á mettíma.  Erlendir sérfræðingar kallaðir til og alles. Nú fer allt á fullt hjá kerfinu, en hvers vegna í ósköpunum sá "kerfið" ekki þörf á að gera þetta fyrr? Málaferlin eru búin að vera í pípunum allan þennan tíma og stjórnvöld hafa hvorki viljað taka afstöðu til málsins, né að setja fram "tilmæli" fyrir margt löngu síðan til fjármálafyrirtækja að slaka á í innheimtuaðgerðum og vörslusviptingum á meðan á þessari réttaróvissu stóð.

Það sem var einbeittur samningsvilji lánþega fyrir ekki svo löngu síðan er að snúast upp í þvermóðsku yfir meðferðinni á fólkinu í landinu.  Eitt stykki rannsóknarskýrsla ætti að vera nægilegt bakland til að styðja við okkur áhættufíkla þessa lands og skítugu börnin hennar Evu.  Þar er getið um hina raunverulegu áhættufíkla. 

Ágústa Sigrún Ágústsdóttir (IP-tala skráð) 3.7.2010 kl. 02:06

24 identicon

Til upprifjunar þá lögðu Hagsmunasamtökin til að lánunum yrði breytt í verðtryggð lán og miðað yrði við verðbólgumarkmiðsþak Seðlabankans sem var 4%.

Við vorum tilbúin að semja um það á sínum tíma, en hvorki stjórnvöld né fjármálafyrirtæki voru tilbúin til þess. Það voru þessir aðilar sem stefndu okkur í raun fyrir dómstóla. Okkur var þröngvað til  þess að  að fara fyrir dómstóla vegna skorts á vilja ofangreindra aðila til að semja um málið. Þá skiptu sanngirnissjónarmið þá engu máli. Nú þegar dómar eru fallnir okkur í vil, þá er enn ekki reynt að semja heldur bara ákveðið án samræðu eða samningsumleitana. Það er of seint að semja eftir allt það sem yfir okkur hefur verið látið ganga - vaðið á skítugum skónum...

Áhættufíkill mun ég þó seint geta kallast... 

Arney Einarsdóttir (IP-tala skráð) 3.7.2010 kl. 13:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband