Leita í fréttum mbl.is

Fattleysið mitt er með ólíkindum en það tók enda

Enn einn viðburðarríkur dagur er að kveldi kominn og enn einu sinni voru gengistryggð lán mál málanna.  Ég er núna búinn að lesa margar fréttir og horfa á sjónvarpsfréttir á báðum stöðvum, hlusta á viðtöl á útvarpsstöðvum og hér á mbl.is.  Þrátt fyrir þetta og vera talsvert vel inni í þessum málum, líklega betur en meðal Jóninn, þá er ég ekki að fatta allt þetta.

Seðlabankinn og FME gáfu út þessi tilmæli til að verja þjóðarhag.  Við þetta hef ég nokkrar spurningar: 

1) Við erum þjóðin og hvernig getur það verið að verja okkar hag að leggja til mun hærri vexti en eru á lánunum?  

2) Ef dómur Hæstaréttar fjallar aðeins um bílalánin, eins og svo mörg fjármálafyrirtæki halda fram, (okkar lán eru í lagi, segja þau), hvernig getur það staðist að breyting á vöxtum úr breytilegum LIBOR-vöxtum með vaxtaálagi í vexti Seðlabankans geta ógnað þjóðarhagi?  Hafa skal í huga að gengistryggð bílalán eru víst metin á 85 milljarða í bókum bankanna.

3) Ef dómur Hæstaréttar fjallar líka um húsnæðislán heimilanna, hvernig getur það verið meira í þjóðarhag að láta fjármálafyrirtækin fá peninginn beint, en að nota hann í neyslu fyrst sem skapar veltu hjá fyrirtækjunum, sem viðheldur eða fjölgar störfum, og skatttekjur fyrir ríkið og sveitarfélögin, sem gerir þeim kleift að halda uppi meiri þjónustu og viðhalda eða fjölga störfum og sem gerir það að verkum að tekjur heimilanna aukast og hringrásin hefst aftur? 

4) Ef dómur Hæstaréttar nær líka fyrir lán fyrirtækjanna, hvernig getur það verið meira í þjóðarhag að láta fjármálafyrirtækin fá peninginn beint, en að nota hann til að auka veltuna í þjóðfélaginu, sem viðheldur eða fjölgar störfum..sem gerir það að verkum að tekjur heimilanna aukast, sem verður til þess að þau geta notað peninginn í neyslu o.frv.?

Arnór Sighvatsson sagði að SÍ og FME teldu að þeirra skilningur á vaxtalögunum styddu við tilmælin og vísar til 18. gr. og 4. gr. laganna.  Hér fer ég á haus í fattleysi:

1)   Fjórða greinin fjallar um það hvenær má nota vexti Seðlabankans.  Það er þegar "hundraðstala eða viðmið vaxta" kemur ekki fram í samningi eða hefur verið dæmt ógilt.  Nú hef ég bara mína lánasamninga fyrir framan mig, hjá fjórum mismunandi lánveitendum.  Í öllum þessum samningum kemur tvennt fram: a) að lánin séu tengd við LIBOR-vexti; b) að lánafyrirtækið leggi fast vaxtaálag á LIBOR-vextina.  Ég fatta ekki hvernig SÍ og FME geta metið það sem svo að ákvæði 4.gr. leyfi þeim að tengja vexti SÍ við samningana.

2)  Í 18. grein segir:  "Ef samningur um vexti eða annað endurgjald..telst ógildur og hafi endurgjald verið greitt ber kröfuhafa að endurgreiða skuldara..".(Leturbreyting MGN)  Það er sama hvernig ég les dóma Hæstaréttar, þá fæ ég ekki séð að samningur um vexti hafi verið dæmdur ógildur, og þó svo væri þá er ég skuldari en ekki kröfuhafi, þannig að ég fatta ekki hvernig hægt er að nota þessa grein til að réttlæta, hvað þá rökstyðja, að ég eigi að greiða vexti SÍ í stað samningsvaxta.

3)  Ok, gefum þeim sjens og skoðum hvort hægt sé að víkja frá greinum laganna.  Um slíkt er fjallað í 2. gr. laganna og vil ég nú vitna í Eyvind G. Gunnarsson, en hann hefur nokkrum sinnum sagt í minni endursögn:   "Ákvæði II. og IV. kafla [sem innihalda greinar 3, 4, 8 og 9] eru frávíkjanlegar en ekki aðrir kaflar."  Skoðum þá hvenær þessir kaflar geta verið frávíkjanlegir:  "Ákvæði II. og IV. kafla laga þessara gilda því aðeins að ekki leiði annað af samningum, venju eða lögum."  Einmitt "að ekki leiði annað af samningum, venju eða lögum".  Þannig að séu einhverjir samningar sem eru í gildi, þá er ekki hægt að nota 4. gr. til að breyta vöxtunum.

Arnór aftur:  Vissulega kemur högg á eiginfjárstöðu fyrirtækjanna, en með þessu þola þau það.  - Hér keyrir fattleysi mitt um þverbak hvað varðar Landsbankann og dótturfélag bankans SP-fjármögnun, Arion banka, Íslandsbanka, Frjálsa fjárfestingabankann, SPRON, BYR og SpKef og raunar Avant og Lýsingu líka.

1) Ég sat fund hjá efnahags- og skattanefnd með forstjórum fjármögnunarfyrirtækjanna og fulltrúum Íslandsbanka um daginn.  Á þeim fundi kom skýrt fram að þau þyldu hvert um sig að dómur Hæstaréttar félli eins og hann féll.  Fyrirtækin myndu finna fyrir dómnum, en rekstrarhæfi þeirra yrði áfram í lagi.  Þetta eru orð forsvarsmanna fyrirtækjanna fyrir þingnefnd, þannig að varla voru menn að segja ósatt!

2) Samkvæmt októberskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þá fóru innlend lánasöfn gömlu  bankanna til þeirra nýju með 45% afslætti vegna lána heimilanna og allt að 70% afslætti vegna lána fyrirtækja.  Samkvæmt opinberum tölu Seðlabankans lækkaði staða gengisbundinna útlána bankanna úr 2.830 milljörðum í lok þriðja ársfjórðungs 2008 niður í 880 milljarða í lok árs 2009.  Mér sýnist sem með þessu sé meira en borð fyrir báru hjá bönkunum og líklegast sé búið að gera gott betur en að reikna með niðurfærslu lánasafnanna en nemur leiðréttingu á höfuðstóli þeirra vegna dóms Hæstaréttar.  Vissulega koma einhverjar endurgreiðslur til viðbótar og síðan afskriftir, en lækkun á bókfærðu verði úr 2.830 milljörðum í 880 er nokkuð ríflega, sérstaklega þegar haft er í huga að þorri lántaka hefur ekki séð örla fyrir þessu í lánum sínum.

3) FF og SPRON eru þrotabú og endurheimtur af útlánum þessara fyrirtækja hefur ekkert með þol eiginfjárstöðu fyrirtækjanna.  Hún er neikvæð fyrst fyrirtækin eru í þrotameðferð.  Vissulega hefur þetta áhrif á endurheimtur kröfuhafa, en það er þessu máli óviðkomandi.

4) BYR og SpKef eru bæði nýkomin úr endurskipulagningu.  Hafi ekki verið gert fyrir þessari niðurstöðu Hæstaréttar, þar sem niðurstaða héraðsdóms frá 12.2.2010 lá fyrir, þegar þeirri endurskipulagningu lauk, þá hefur einhverjum orðið verulega á í messunni.

Næsta fattleysi mitt er hvernig þeim dettur í hug að þeir komist upp með þetta.

1) Út um allan bæ sýnast mér vera lögspekingar sem trúa ekki sínum eigin augum og eyrum.  Ég hef séð menn nefna að best sé að kæra þetta til lögreglu eða jafnvel alþjóðlegra dómstóla.  Halda menn að fólk skilji ekki hversu lítil lagastoð er í þessum tilmælum.

2) Ég hef aldrei mætt eins mikilli reiði og vantrú fjölmiðlafólks við nokkru í tengslum við baráttu Hagsmunasamtaka heimilanna, eins og í dag.  Hver fjölmiðlamaðurinn á fætur öðrum hringdi og spurði hvað væri í gangi.  Fréttamenn tóku upp vangaveltur okkar á fréttamannafundi ríkisstjórnarinnar og ég hafði það á tilfinningunni að Steingrími liði ekki vel með þessa ákvörðun FME og SÍ.

3) Leikhús fáránleikans náði hæstum hæðum í símaviðtali Síðdegisútvarpsins á Rás 2 við Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóra Samtaka fjármálafyrirtækja, sem allt í einu sá gull í öllum hornum og hélt því blákalt fram að þessir vextir myndu ekki bara standa, heldur yrðu afturvirkir.  Dagskrárgerðarmenn sem voru með mér í stúdíói 2 misstu gjörsamlega andlitið, þegar Guðjón sagði þetta.  Það var ekki fyrr en ég var kominn út, sem ég skyldi hvað klukkan sló.  Þetta er leikrit sem sett er upp til að bæta samningsstöðu fjármálafyrirtækjanna.  Ákveðnar eru gjörsamlega fáránlegar kröfur, ýtrustu kröfur sem hægt væri að gera fyrir dómi, eins og talsmaður neytenda benti á í dag, og síðan á að gefa eftir og þá verða allir glaðir. 

Fattleysið mitt endaði þarna.  Eina rökrétta skýringin á öllum þessum klúðurslegu aðgerðum, rökstuðningi og viðbrögðum voru til að stilla upp réttri varnarlínu.  Við sjáum bara sóknarlínuna, því í hana var eytt miklu púðri, en bak við hana er varnarlína.

Þetta er gamalkunnugt trix.  Núverandi forseti notaði það árið 1989, þegar hann var fjármálaráðherra og skoðanabróðir hans er greinilega að reyna að endurnýta það í örlítið breyttri mynd.  Þá hafði sá orðrómur verið þrálátur, að það ætti að hækka skatta á skattpíndri þjóðinni um 6%.  Þessi orðrómur fór af stað snemma í vikunni og ágerðist eftir því á leið.  Þá tókst fréttamanni útvarps eða sjónvarps loks að króa Ólaf af og bar þetta undir hann.  Svarið kom að bragði:  "Nei, nei, nei.  Þetta er algjör misskilningur.  Það á bara að hækka skatta um 3,5%."  Landinn sem hafði horft upp á mögulega 6% hækkun varð svo glaður að hækkunin átti "bara" að vera 3,5%, að hann unni sæll við sitt.

Það er sem sagt búið að undirbúa, að Steingrímur J eða Gylfi komi frelsandi á hvíta hestinum með vexti sem eru mitt á milli vaxta Seðlabankans og samningsvaxta.  Og hvað er líklegast að gerist þá?  Jú, allir verða ofsa glaðir, enda ekki eins slæmt og hitt, labba áhyggjulausir inn í sólsetrið.

Vilji menn fara svona leið, af hverju ekki bara fara hana strax.  Af hverju halda fjármálafyrirtækin endilega að lántakar séu eins og þeir, þ.e. ósanngjarnir og þverir?  Ég veit ekki betur en að allir hagsmunaaðilar neytenda og lántaka hafi í nærri 17 mánuði beðið um viðræður um sanngjarna niðurstöðu.  Og ég veit að sanngirni er aldrei eineygð.  Kannski er það, að margur heldur mig sig, eins og sagt er, og fjármálafyrirtækin hafi haldið að við myndum haga okkur eins og þau.  Vitið þið til, við erum betri en það.


mbl.is Vilja skoða lagasetningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Það er von að fram af fólki gangi og höfum við þó marga fjöruna sopið undanfarna mánuði. En 30. júní er meðal topp/botn daga fáránleikans í okkar samfélagi.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 1.7.2010 kl. 01:40

2 Smámynd: Sigurður Hrellir

Takk fyrir að standa vaktina og rýna stöðugt í þessi mál, Marinó. Það sem hefur orðið æ ljósara er að fjármálafyrirtækjum er ekki treystandi og eftirlitsstofnunum tæpast heldur.

Sigurður Hrellir, 1.7.2010 kl. 01:56

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég bíð eftir almennum aðgerðum vegna húsnæðismálastjórnarlána, verðtryggðra lána sem hækkað hafa mikið umfram launin, og rýrnum eigna okkar sem eigum húsnæði.  Takk fyrir að standa vaktina fyrir okkur hin. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 1.7.2010 kl. 02:20

4 Smámynd: Klukk

Ég vil líka þakka þér fyrir að standa vaktina, Marinó.

Klukk, 1.7.2010 kl. 02:55

5 Smámynd: Dingli

Í kvöldfréttum sjónvarpsins var nokkuð ítarleg frétt að ótrúlega bíræfnu ráni á milljónum króna. Þjófurinn var nafngreindur og aðferð hans við ránið gerð nokkuð góð skil. Það merkilega er að þessi þjófur er í raun þjófagengi sem gert er út af Landsbankanum og hefur stundað iðju sína árum saman. Og ekki nóg með það, fimm jafnvel sjö! önnur svipuð glæpagengi eru hér starfandi og afrakstur þeirra undan farin tuttugu ár nemur mörg hundruð milljörðum, mjög varlega áætlað!

Þó freistandi sé, þá skal hér ekki farið út í spurningar um ábyrgð þeirra sem létu þetta viðgangast áratugum saman, því mikilvægast af öllu er að almenningur láti pólitískar deilur sín á milli í salt, og sameinist gegn þeim sem hafa sett tvær síðustu  kynslóðir Íslendinga í þrælabönd. Sá sem skuldar er ekki frjáls. Sá sem tekur 10milljónir að láni og borgar fyrir þær 300milljónir  á næstu 40árum er ver settur en niðursetningur, þó hann aki bíl sem bankinn á og búi í fallegri íbúð sem í raun er fangelsi hans til lífstíðar. 

Þakka þér svo fyrir Marinó. Baráttumaður með styrk af því cal. sem þú hefur eru sjalgæfir.

Dingli, 1.7.2010 kl. 03:27

6 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þakka þér hjartanlega fyrir þessa raunönnu greiningu. Þeir menn líta á þetta sem leik, ena er þetta algerlega spilað eftir leikjafræðinni. Hér er verið að rugla fólk í rýminu meðvitað með því að rugla aman eplum og appelsínum og beita taktík, sem er svo úr sér gengin og gagnsæ að hún er nánast barnaleg.

Hagsmunaamtökin eiga ekki að bakka tommu í þessu og mér finnst það raun ótækt að þú bjóðir upp á hér í lokin að fallast á miðjumoð í ana Ólafs Ragnars þegar ekkert tilefni er til. Ófyrirleytni skal mæta af hörku. Þessi framganga er óheiðarleg og meðvituð og því er ekkert tilefni til að hlusta á þetta rugl.

Þú ert ekki fattlaus Marinó, en þetta fattleysi, er það sem stólað er á hjá almenningi.  Það eru kannski skilaboðin.  Guði sé lof fyrir elhuga eins og þig, segi ég trúlau maðurinn.

Jón Steinar Ragnarsson, 1.7.2010 kl. 06:37

7 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hér vantar eitthvað af D-um og S-um. Tölvugarmurinn er eitthvað að slappast. Vonani kilst þetta nú samt þótt þetta hljómi eins og freyingur á fjórða glasi.

Jón Steinar Ragnarsson, 1.7.2010 kl. 06:40

8 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Marinó, ég heyrði þetta símaviðtal við Guðjón í gær, ég heyrði líka undrun þína á eftir. Það var greinilegt að þú varðst eiginlega kjaft stopp, ekki vegna rökleysis heldur yfir rugluinu í Guðjóni.

Það er ekki hægt að kenna fattleysi þínu um, heldur ruglinu í Guðjóni, sem skrifaði undir álit vegna lagafrumvarps árið 2001!!

Það er undarlegt hvernig fjölmiðlar fjalla um þessi mál, nú áðan var verið að éta það upp eftir Arnóri á RUV að þessi lausn muni kosta ríkið "aðeins 50 miljarða" í stað "100 miljarða".

Hvers vegna óska fréttamenn ekki eftir nánari skýringum stjórnvalda fyrir þessum fullyrðingum? Frétt er ekki frétt nema eitthvað standi á baki, fullyrðingar eru ekki nóg!

Hvers vegna hefur enginn fréttamaður spurt Guðjón Rúnarsson um álitið sem hann sendi þinginu árið 2001, þar sem hann gagnrýndi að ekki yrði heimilt að gengisbinda lán, samkvæmt þeim lögum sem þá átti að fara að samþykkja? 

Gunnar Heiðarsson, 1.7.2010 kl. 07:41

9 Smámynd: Edda Karlsdóttir

Kærar þakkir fyrir að standa vaktina Marinó, þú leggur á þig ómælda vinnu í sambandi við þessi mál, það hlýtur að bitna mikið á þinni eigin vinnu. Það er hreint út sagt svívirðilegt hvernig stjórnvöld og ráðamenn haga sér í sambandi við þessi mál en nú er þolinmæðin á þrotum. Ef þeir halda að þeir komist upp með svona aðgerðir þá eru þeir heimskari en góðu hófi gegnir!!

Edda Karlsdóttir, 1.7.2010 kl. 07:55

10 identicon

Eðlilegast er að hver og einn skuldari sæki sinn rétt í dómskerfinu. Það verða 44 þúsund mál. Það tekur auðvitað tíma. En það er rétta leiðin.

Björn Jónasson (IP-tala skráð) 1.7.2010 kl. 08:01

11 identicon

Ýmsar vangaveltur:

Er íslenskt samfélag fjölskylduvænt ?

Er íslenskt samfélag lýðræðislegt ?

Er íslenskt samfélag sanngjarnt ?

Er íslenskt samfélag byggt upp á siðferðislegum gildum ?

Er íslenskt samfélag neytendavænt ?

Er íslenskt samfélag með opið og skilvirkt stjórnkerfi ?

Er íslenskt samfélag með lýðræðislegt stjórnskipulag ?

Er íslenskst samfélag með þingræði ?

Er íslenskt samfélag heilbrigt ?

Er íslenskt samfélag með gott menntakerfi ?

Er íslenskt samfélag með gott velferðarkerfi ?

Ég spyr HVAÐ ER MEÐ ÍSLENSKT SAMFÉLAG Í DAG ?

Það eru of margir mínusar við spurningunum að ofan. Ég held og reyndar tel að samfélagið okkar sé svo sjúkt og við erum á svo rangri leið að við skynjum ekki stöðu okkar. Hér eru valdasjúkir stjórnmálamenn sem gera ekkert annað en að reka löngutöng beint fram í andlit almennings ekki aðeins í orði !

Hér er á landi er stundað lýðskrum á lægsta plani.

Björn Kristinsson (IP-tala skráð) 1.7.2010 kl. 09:27

12 Smámynd: Billi bilaði

Takk fyrir enn einn góða pistilinn, Marínó.

Billi bilaði, 1.7.2010 kl. 10:09

13 Smámynd: Kristján H Theódórsson

Þakka þér fyrir allt þitt framlag til baráttunnar gegn ólíðandi frekju og yfirgangi bankamanna og það sem undrar mann mest, hinnar " Norrænu velferðarstjórnar".  Þvílik öfugmæli, að þetta fólk skyldi voga sér að skreyta sig með því heiti, í ljósi vinnubragðana sem öll hafa virkað gagnstætt þeim fyrirheitum sem það átti að gefa.

En hvað um það þú greinir þetta allt frábærlega og ég trúi ekki fyrr en ég tek á ,að þessum ótrúlegu tilmælum um lögbrot í boði íslenskra eftirlitsaðila , sem bera í raun alla ábyrgð á hvernig komið er í þessum málum , og því í raun vanhæf að fjalla nokkuð um þau, raunar ber að hunsa þau þótt ekki væri nema vegna fyrri svika þeirra við okkur lántakendur, með að taka ekki fyrr í taumana og stöðva þessi óleglegu gengisviðmið lánasamninga, ég semsagt trúi ekki að þau fái að standa.

  Þar fyrir utan er svo svívirðan að ætla að ganga gegn fyrirliggjandi dómi hæstaréttar.

Óvissu, ef væri, sem við erum ekki sammála , ber auðvitað að túlka lántakendum í vil, og því að reikna aðeins samningsvexti þangað til, og ef, annað verður dæmt. 

 Aðferð SÍ og FME er meira í ætt við kjörorðið "skjóta fyrst og spyrja svo" eða "Pabbi minn er sterkari en pabbi þinn". Þótti góð pólitík í  Villta vestrinu forðum og leikskólum, en varla boðleg í réttaríki sem við viljum hafa.

Semsagt Marinó! Þú ert í hópi þeirra aðila sem ég vildi gjarnan senda "Til fyrirmyndar" ef ég á annað borð nennti að standa í svoleiðis, en það ertu í raun.

Snatar auðvaldsins eiga vonandi eftir að lúta í gras fyrir þér og ýmsum fleiri baráttumönnum í þágu fólksins á þessum vettvangi, þegar upp verður staðið.

Kristján H Theódórsson, 1.7.2010 kl. 10:49

14 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Þetta er allt svo satt og rétt hjá þér Marínó. Það sem mér hugnast hvað verst er að það er komið í veg fyrir að neytendur geti smurt vél atvinnulífsins með því að neyta vöru og þjónustu vegna ofmetinna skulda sem á þeim hvíla. Á sama tíma fengu fjármálastofnanir skuldir heimilanna færðar niður um 45%. Heimilin fá hinsvegar enga niðurfærslu á sömu lánum. Hvar er réttlætið í þessu?

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 1.7.2010 kl. 10:54

15 identicon

Oft var þörf en nú er nauðsyn. Þakkir fyrir að standa vaktina í þessu máli sem og öðrum. Hér er verið að berjast við ógurlegan dreka sem verður að leggja af velli. HH má ekki bakka svo mikið sem 1mm í þessu máli né öðrum, látum þetta bara vera fyrsta málið af mörgum sem keyra þarf í gegn. Það hvort fjármálakerfið sé eitthvað valt er bara aukaatriði því það er alltaf hægt að nota eignir til að endurreisa innistæður við.

Munum bara að vandi kröfuhafana má ekki vera og er ekki okkar vandi.

Magnús Orri Einarsson (IP-tala skráð) 1.7.2010 kl. 11:18

16 identicon

Búið er að setja brynvörn á skjaldborgina um fjármálafyrirtækin og fánaborgin um íslenskan almenning hefur verið dregin í hálfa stöng.

Vonandi að Drottinn geti fyrirgefið þeim sem koma fram eins og embættismenn í SÍ og FME gerðu í gær því Hann veit líka að það mun ég ekki geta gert.

Arnar (IP-tala skráð) 1.7.2010 kl. 12:00

17 identicon

Ég vil eins og margir aðrir hér þakka þér, Marinó, fyrir þitt ómetanlega framlag í þessari baráttu. Eins og margir aðrir er ég eiginlega orðlaus yfir því hvernig talað er um og komið fram við venjulegt fólk í þessu landi sem hefur ekki annað gert af sér en að reyna að koma sér upp heimili.

Ég vil sérstaklega taka undir með því sem einhver segir hér fyrir ofan um hlut fjölmiðla. Þá ekki síst af hverju Guðjón Rúnarsson er ekki spurður um bréfið sem hann skrifaði undir þar sem fram kemur að honum var fullkunnugt um að gengistrygging yrði ólögleg, yrði frumvarpið sem þá var til umræðu að lögum, sem varð síðan? Þessi sami maður kemur nú fram fyrir hönd fjármálafyrirtækja í þessu máli, með þær fáránlegu kröfur sem þú minnist á en enginn spyr hann af hverju hann hafi ekki bent fyrirtækjunum á að lánin væru ólögleg.

Mér finnst líka stærsta hagsmunamál okkar fólksins að fá úr því skorið að gengistryggðu fasteignalánin falli líka undir dóm Hæstaréttar.

Ég tek það fram að stærsti hluti minna húsnæðisskulda er verðtryggð íslensk lán en einmitt til að dreifa áhættunni, er hluti af þeim gengistryggður svo og bílalánið.

Björk (IP-tala skráð) 1.7.2010 kl. 12:18

18 identicon

Já þú ert ekkert einn um að vera fattlaus.

Málið er, að mér sýnist, að hér er engin við völd. Það er enginn hér að taka á skarðið, VG eru klofnir í þessu einsog öðru og engar ákvarðanir eru teknar.

En hvert leitar maður þegar Ríkið neitar að fylgja eftir Hæstaréttardómi? Hvert fer maður þegar hið opinbera "ignorar" stjórnarskrána?

Hannes Þórisson (IP-tala skráð) 1.7.2010 kl. 12:41

19 Smámynd: Billi bilaði

Ég tek undir með Kristjáni H. Theódórssyni hér að ofan og sendi þér hér með bréf:

Til Fyrirmyndar.

Marínó.

Þú ert til fyrirmyndar hér á blogginu. Í réttlæti, rökfestu, baráttuvilja og kurteisi, berð þú höfuð og herðar yfir þá sem ég hef kynnst á síðustu árum.

Allra bestu þakkir fyrir það.

Kristján Gaukur Kristjánsson

Billi bilaði, 1.7.2010 kl. 12:45

20 identicon

Auk kaupmáttar aukningu sem myndi eiga sér stað ef farið væri eftir settum lögum (halda samningsvöxtum) þá væri forvitnilegt að vita hversu mikil niðurfæslureikningur bankanna myndi lækka við þetta. Því það er sá peningur sem fjármálafyrirtækin verða að setja til hliðar fyrir mögulegu tapi.

Það var ansi forvitnilegt að hluta á Gunnar Andersn á Bylgjunni í morgun. Þar var hann búinn að reikna verstu mögulegu niðurstöðuað öll erlend lán væru dæmd ógild og það myndi kosta 100 milljarða. Þar sem ríkið á ýmist fjáfmálafyrirtækin beint þá myndi það vera tap ríkisins. En ég spyr, eru ekki fleiri kröfuhafar af hverju er ekki gert ráð fyrir því að þeir taki á sig hluta af tapinu. Ríkið stendur nú ekki eitt á bak við þetta.

Nema búið sé að ríkistryggja íbúðalánin en ekki má gleyma því að í góðærinu þá fjármögnuðu viðskiptabankarni sig á hina ýmsa vegu með útboðum sem fengu hæsta mögulega lánshæfismat (hærra en ríkissjóður á sínum tíma). Hvernig var það mögulegt, var kanski ríkisábyrgð á bak við þær fléttur?

Annað, hefur ríkið reiknað hversu mikið skilar sér í ríkisskassann við það að láta samninga standa og mögulega fara í almennar skuldaleiðréttingar?

DD (IP-tala skráð) 1.7.2010 kl. 14:29

21 Smámynd: Elle_

Stórmerkilegt að Guðjón Rúnarsson eða hvað hann nú heitir, í forsvari Samtaka fjármálafyrirtækja, skuli fá að standa þarna eins og dólgur og koma með ófyrirleitnar kröfur af þeim sömu fórnarlömbum og hann sjálfur braut gegn meðan hann þagði.   Hann ætti í minnsta lagi að vera brottrækur úr starfi og stórsektaður.   Og hvað með Gunnar Andersen, forstjóra FME?  Hann er líka sekur um að gera ekkert og kemur nú og hjálpar lögbrjótunum gegn skuldurum.   Gerum ekki eins og þeir vilja.  Nei, eins og Jón Steinar skrifaði að ofan: Ófyrirleytni skal mæta af hörku. 

Elle_, 1.7.2010 kl. 16:49

22 Smámynd: Elle_

Og getur ekki vel verið að fyrirskipunin til FME og SÍ hafi komið frá Gylfa Magnússyni?  Lögmaður nokkur hefur haldið fram að hann gæti orðið lögsóttur, virði hann ekki Hæstaréttardóminn.   Og fyrir utan hina sem brutu lög. 

Elle_, 1.7.2010 kl. 17:01

23 identicon

Þakka frábæran pistil Marinó, gott að fá það sem maður er búinn að hafa á tilfinningunni lengi vel, staðfest.

Til að eyða einu hugsanlegu fattleysi hér fyrir ofan, vissulega er stjórn á þessu landi, hún heitir AGS og hefur afar takmarkaðan áhuga á dómum hæstaréttar. Leppur þeirra, svo kölluð fyrsta vinstri stjórnin í sögunni, keppist við að sundra samstöðu almennings og slá ryki í augu hans.

Hef svo sem engar áhyggur meðan Marinó greinir jafnóðum.

sr (IP-tala skráð) 1.7.2010 kl. 17:39

24 identicon

Kæri Marinó, þú eins og fjöldi annara einstaklinga átt erfitt með að skilja stjórnvöld sem velja að sniðganga lög í eiginn landi, slíkt er ekki bara ólöglegt, heldur gefur innsýn í "fábjánaskap & mannvonsku þeirra í garð eiginn þegna" - ég sem hélt að vont gæti bara ekki versnað eftir aðkomu þeirra að IceSLAVE dæminu, en hvern einasta dag fæ ég staðfest þá sorglegu staðreynd sem ég hef haldið fram síðustu 2 árin, þ.e.a.s. að "þessi auma ríkisstjórn er stórhættuleg land & þjóð" - ég held að ALLIR sjái það í dag að verkstjórn LadyGaGa & SteinFREÐS (frosinn heili) snýst bara um að gleðja AGS & fjármagnseigendur, alþýða landsins er ávalt aukstærð og illa á að fara með íslenska þrællinn.  Enn & aftur er brotið gróflega á okkar rétti.
Ekki gleyma heldur þeirri augljósu staðreynd að síðar á árinu mun einnig falla dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur sem staðfestir þá staðreynd að hérlendis hafi augljóslega orðið "forsendubrestur" þegar heilt bankakerfi hrundi, og við slíku "ber lánafyrirtækjum að bregðast við með leiðréttingu lána og taka á sig hluta af þeim skaða - tjóni sem orðið hefur" - í stað þess að allt tjón lendi á skuldara.  Þegar sá dómur verður kveðin þá segir þessi "falska viðbjóðslega ríkisstjórn" - hver hefði geta séð þetta fyrir - við getum ekki látið þetta ganga eftir - kerfið hrynur aftur = setjum bráðarbirgðarlög á lýðin! 
Að lokum átt þú, Talsmaður neytenda og fjöldi annara einstaklinga skilið "mjög mikið HRÓS fyrir hversu vel þið hafið reynt að standa vaktina fyrir okkur neytendur í þessu landi, hafið þökk fyrir".
kv. Heilbrigð skynsemi (www.fun.blog.is)

Jakob Þór Haraldsson (IP-tala skráð) 1.7.2010 kl. 18:28

25 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Þetta er góður og gagnlegur pistill. Ég verð að segja að mér finnst þú Marínó oft vera með frábærlega vandaða umfjöllun um það sem þið eruð að fást við hjá HH. Það er gott að fá svona góðar greiningar á því sem er í gangi.

Jón Pétur Líndal, 1.7.2010 kl. 18:43

26 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Meiriháttar pistill Marinó, enn einu sinni.

Eins og kemur fram í pistlinum þá hefur ítrekað verið reynt að fá lánafyrirtækin til að semja við lántakendur á sanngjörnum nótum, en þau hafa afþakkað það tækifæri á meðan það gafst og farið fram gegn lántakendum í fjárhagsvanda með ófyrirleitnum hætti.

Ég er hjartanlega Jóni Steinari, Elle og fleirum, að slíku framferði skuli svarað af fullri hörku og ekki gefa tommu eftir! Brotaviljinn er svo yfirgengilegur að það er útilokað að nokkurt mál gegn lánafyrirtækjum sem byggir á heilbrigðum forsendum verði dæmt þeim í vil. Þess vegna legg ég til að einhverjir sem eru í aðstöðu til þess taki einfaldlega að sér að "skjóta niður" þessi glæpafyrirtæki.

Það sem ég á við er að einhverjir skuldarar sem nú eru orðnir kröfuhafar, lýsi þeim kröfum sínum fyrir dómi og höfði fullnustumál gegn viðkomandi fjármálafyrirtækjum. Undir slíkum kringumstæðum myndi dómstóllinn þurfa að verðmeta eignir fyrirtækjanna (þ.m.t. gengislánin) og þar með neyðast til að taka afstöðu til þess hvaða vaxtastig skuli leggja til grundvallar. Ávinningurinn gæti orðið:

  1. Það þyrfti ekki að höfða nema eitt mál á hvert fyrirtæki
  2. Niðurstaðan næði til allra lána frá viðkomandi fyrirtæki
  3. Niðurstaðan yrði endanleg, þ.e. eftir áfrýjun til hæstaréttar
  4. Mjög víðtækri óvissu yrði eytt eins fljótt og auðið er
  5. Þjóðarskuldir minnka nokkuð fljótt = almannahagur
  6. Mikilvægar upplýsingar um efnahag fjármálastofnana fengju að líta dagsins ljós = svarar kröfum um aukið gegnsæi
  7. Rekstri þeirra fyrirtækja sem reynast með neikvæða stöðu yrði hætt samstundis og stjórnendur þeirra leystir frá störfum
  8. Möguleiki á að rifta arðgreiðslum og öðrum gjörningum aftur í tímann til að endurheimta illa fenginn hagnað
  9. Á endanum gætu lánþegar jafnvel eignast fyrirtækin að hluta eða öllu leyti (skaðabætur eru líklega forgangskröfur?)
  10. Síðast en ekki síst falla glæponarnir á eigin bragði = sætt :)
Það skal tekið fram að ég er ekki lögfræðingur en það væri gaman að fá slíkt sjónarhorn á þessa hugmynd. Kannski það endi bara með því að ég fari í lögfræðinám sjálfur, það virðist eiga eftir að verða góður bissness í mörg mörg mörg ár í viðbót.

Guðmundur Ásgeirsson, 1.7.2010 kl. 20:09

27 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Jæja, það lítur út fyrir að menn séu þegar byrjaðir að beita vopnum fjármálafyrirtækjanna gegn þeim sjálfum. Þessi beið ekki einu sinni eftir dómsúrskurði heldur fór að eigin frumkvæði og framkvæmdi einhliða vörslusviptingu hjá fjármálafyrirtæki til tryggingar endurgreiðslu:

Vísir - Gengislánaskuldari stal bíl af Lýsingu   = =

Er kannski skrattinn sloppinn úr sauðaleggnum ?

Ég hef það á tilfinningunni að héðan verði trauðla aftur snúið. Í þetta sinn munu stjórnvöld ekki geta kennt okkur lánþegum um, sem höfðum margoft varað hástöfum við afleiðingum þess að málin væru sett í þennan óbilgjarna farveg. Og ekki eru öll kurl komin til grafar, ég vona bara að þessi ágæti maður eigi réttmæta kröfu og ef svo þá fínt.

Guðmundur Ásgeirsson, 1.7.2010 kl. 20:20

28 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Takk fyrir alla þína vinnu í þessu argaþrasi Marinó, en hvur þeirra var það sem sagði fyrir framan efnahags og skattanefnd að fjármögnunnarfyrirtækin myndu bara ná fénu í gegnum vexti ef að hæstaréttur kæmist að þeirri niðurstöðu sem það svo komst, var það þesssi Aron eða þessi Guðjón? Ég veit ekki hver það var en veit að þetta var sagt af einhverjum af þeirra mönnum og ef það er þá er einhver helv......... ríkisstjórn á kafi í sukkinu með þeim í framhaldi af dóminum.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 1.7.2010 kl. 21:12

29 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæll Marinó,

ég er löngu orðinn hattlaus því ég búinn að taka svo oft ofan fyrir ykkur í stjórn HH. TAKK!

Nú er nauðsyn að við stöndum þétt við bakið á ykkur.

Gunnar Skúli Ármannsson, 1.7.2010 kl. 21:36

30 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Marinó, ég er líka búinn að vera í vandræðum með að fatta þetta, og í þeim vangaveltum datt ég niður á svolítið annað sjónarhorn sem kemur í ljós ef maður skoðar bókhaldslegu hliðina. Ekki síst með hliðsjón af þvi að á grundvelli fram kominna upplýsinga lítur út fyrir að mörg fjármálafyrirtæki verði eða séu jafnvel nú þegar tæknilega gjaldþrota vegna gengislánasvika, og fálmkennd viðbrögð bera vott um að engin viðbragðsáætlun sé til staðar frekar en við fyrra hrunið eins og fólk mun líklega seint gleyma. Það sem mér datt í hug er eftirfarandi:

Tilmælin til fjármálafyrirtækjanna eru í fjórum liðum, sá fyrsti lýtur að því hvernig skuli endurreiknað sem hefur engin réttaráhrif heldur er hreint bókhaldsatriði, sá næsti hvernig skuli farið með innheimtu frá viðskiptavinum sem er verklegi þátturinn, en hinir síðar tveir eða helmingur af tilmælunum lúta að endurmati á gjaldeyrisjöfnuði, lausafjárstöðu og eiginfjárstöðu, og skýrslugjöf um það til FME og SÍ, sem eru líka hreinræktuð bókhaldsatriði. Áhrifin eru hinsvegar þau að með því að leyfa slíku uppgjöri að fara fram á þessum forsendum er höggið á bókhaldsstærðirnar dempað þannig að á pappírum halda fyrirtækin vatni enn um sinn og að þeim beinist öll athyglin. En getur verið að stjórnvöld séu einfaldlega að leiðbeina þeim um þessar bókhaldsfalsanir til þess að breiða yfir eigin vanbúnað til að takast á við kringumstæðurnar, og kaupa sér tíma á meðan rifist er um leiðir til lausna? Ef svo er, þá minnir það óþyrmilega á aðdragandann að hruninu 2008, en eins og fram kemur í skýrslu RNA þá voru það einmitt slík vinnubrögð sem seinkuðu hinu óhjákvæmilega og gerðu það fyrir vikið mun verra en ella hefði getað orðið.

Mér varð satt að segja ekki um sel eftir að hafa velt þessari hugleiðingu fyrir mér nokkrum sinnum.

Guðmundur Ásgeirsson, 2.7.2010 kl. 20:17

31 identicon

Og á vefnum er bloggað og bloggað.  Kvartað og kveinað að réttu.  Ekkert stórtækt gert.  Bara yppt upp öxlum og hneykslast. 

Á meðan íslenskur almenningur NENNIR ekki að fara út á götu og mótmæla því hróplega óréttlæti sem hefur viðgengist og viðgengst enn, munu þau öfl í þjóðfélaginu, sem ætla sér að halda áfram að ræna okkur, takast það.

Af hverju íslenskur almenningur er latari og auðsveipnari en flestar þjóðir heims, er mér illskiljanlegt.  Kvart og kvein er þjóðaríþrótt.  Þegar kemur að því að standa upp frá tölvunni eða koma sér úr hægindunum, til að sýna samstöðu, nennir íslendingurinn engu. 

ÞAРVITA ÞEIR SEM RÁNIN FREMJA OG BÍÐA BARA RÓLEGIR - FÁRIÐ GENGUR FLJÓTT YFIR Í LATRA MANNA LANDI.  

MargrétJ (IP-tala skráð) 3.7.2010 kl. 09:04

32 identicon

Vek athygli á því að búið er að boða til mótmæla á hádegi á mánudag við Seðlabankann.

Að auki vil ég vekja athygli á því að ég og aðrir gengislánaskuldarar bera ekki ábyrðg á fjárhagslegum stöðugleika og við eigum ekki að leyfa þeim að setja þá ábyrgð á okkur. Þá ábyrgð bera aðrir, t.d. þeir sem sáu um endurreisn bankanna, þeir sem stjórna bönkunum í dag og stjórnvöld. En alls ekki skuldarar.

Arney Einarsdóttir (IP-tala skráð) 3.7.2010 kl. 22:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 1680018

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband