Leita í fréttum mbl.is

Samningsstaða NBI er ekki góð, það er aftur geta bankans til að semja.

Samkvæmt frétt á ruv.is, þá segir Steinþór Pálsson, bankastjóri NBI, samningsstaða bankans sé góð.  Hvernig dettur manninum í hug að samningsstaða bankans sé góð?  Hún er ömurleg.  Bankinn tók yfir ólögleg lán frá Landsbankanum og bæði Héraðsdómur Reykjavíkur og Hæstiréttur hafa sagt að gengistrygging þeirra sé óheimil.  Héraðsdómur gekk lengra en Hæstiréttur og þó gengistryggingarhluti dóms héraðsdóms hafi ekki ratað inn í dómsorð Hæstaréttar, þá fer ekkert á milli mála að lán NBI eru ólögleg.

Ég veit ekki hver gaf bankastjóranum lögfræðiráðgjöf varðandi þetta mál, en sá hinn sami hefur greinilega ekki lesið dómsorð Jóns Finnbjörnssonar, héraðsdómara, í máli NBI gegn Þráni.  Þar kemur nefnilega skýrt fram að vextir haldist þó gengistryggingin hverfi:

Dómari þessa máls er í einu og öllu sammála þeirri niðurstöðu sem er svo skýrlega orðuð í þessum dómi [þ.e. héraðsdómi frá 12. febrúar].  Telur hann m.ö.o. að ekki sé heimilt að reikna fjárhæð skuldar varnaraðila með þeirri hækkun sem sóknaraðili reiknar vegna breytinga á gengi jens og svissnesks franka gagnvart íslenskri krónu.  Telur hann að miða verði við upphaflegan höfuðstól auk áfallinna vaxta, en að ekki sé heimilt að reikna annars konar verðtryggingu í stað gengisviðmiðunar.

Þetta getur vart verið skýrar.  Miða skal við upphaflegan höfuðstól auk áfallinna vaxta.  Þó svo að Hæstiréttur hafi ekki tilgreint þetta, þá hefur héraðsdómur gert það og engin ástæða til annars en að Hæstiréttur taki undir það ef til þess kemur að hann taki afstöðu til málsins.  Ég verð að viðurkenna, að mér fannst miður, að rétturinn skyldi ekki gera það í úrskurði sínum.

Við skulum hafa í huga að þegar gengistryggðu lánin voru veitt, þá sættu fjármálafyrirtæki sig við lága, breytilega vexti.  Af hverju ættu þær forsendur að hafa breyst við það að gengistengingin, sem ýmist hækkað eða lækkaði kröfuna, er tekin úr sambandi?  Gleymum því ekki að bankarnir fengu 45% afslátt af lánasöfnum heimilanna við flutning frá gömlu bönkunum til þeirra nýju, samkvæmt upplýsingum í októberskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.  Þessi afsláttur var notaður á síðasta ári til að mynda 80 milljarða hagnað bankanna og allt að 30% ávöxtun eigin fjár, þrátt fyrir að AGS hafi bannað bönkunum að færa gengishagnað vegna lána til tekna!  Ég myndi segja að samningsstaða NBI sé slæm en geta þeirra til að semja sé góð.

Annars er ýmislegt áhugavert í frétt ruv.is og sérstaklega eftirfarandi:

Almenningur hefur frá hruni barist við að greiða af lánum sínum sem Hæstiréttur hefur núna dæmt að hluta til ólögleg. Ekki má gleyma að bönkunum ber skylda til að gæta hagsmuna viðskiptavina sinna en einnig að lánasafnið sem fært var úr gömlu bönkunum og yfir í nýju bankanna hefur þegar verið skrifað niður um tugi prósenta en lántakar rukkaðir að fullu nema þegar sérstökum úrræðum hefur verið beitt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Marinó

Já þetta viðtal sló mig líka. Þessir aðilar virðast ekki ætla að láta segjast.

Er þá nokkuð eftir annað en að stöðva allar greiðslur til þessara fjármálafyrirtækja , hvort sem um gengis eða verðtryggð lán er að ræða og stöðva vitleysuna og siðleysið sem  finnst innan fjármálageirans í eitt skipti fyrir allt.

Það þarf að stokka allt kerfið upp og koma siðblinduni út úr kerfinu.

Lárus (IP-tala skráð) 20.6.2010 kl. 21:05

2 identicon

Fyrir helgi þá taldi Landsbankinn sig einungis vera með lögleg lán í bókunum en núna fallast þeir á að færa niður höfuðstólinn á gengistryggðu lánunum og semja um vextina.  Ég hef það á tilfinningunni að hinn nýinnflutti bankastjóri hafi fengið þann úrskurð frá sínum mönnum fyrr í dag að þetta væri búið spil.

Þessi maður kom inn í íslenskt fjármálaumhverfi sem óskrifað blað í hugum neytenda.  Hann hafði tækifæri til þess að koma með ferska vinda og nýtt hugarfar, en 2007 froðu innleggið hans frá því á föstudag á innra neti bankans og svo samhengislaust sjónvarpsviðtal fyrr í kvöld gefur ekki ástæðu til þess að ætla að hér sé að fæðast ný þjóðhetja.

Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 20.6.2010 kl. 21:09

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þurfum við ekki bara að gefa honum tækifæri til að venjast stólnum og sjá til hvað framtíðin ber í skauti sér.  Ég hef ekki séð viðtalið, bara lesið fréttina á ruv.is, en mér finnst þessi von hans um 8% vexti vera fyrir ofan allt sem er í boði.

Marinó G. Njálsson, 20.6.2010 kl. 21:12

4 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Hefur bankinn um eitthvað að semja? Lántakar telja sig líklega flestir einungis þurfa að greiða sömu vexti og mælt var fyrir um í samningunum (og engar gengisbreytingar). Bankinn mun varla samþykkja það.

Það mun varla fást niðurstaða í þessu máli nema fyrir dómi. Sem bankinn mun væntanlega höfða og gera kröfu um að úr því um sé að ræða lán í íslenskum krónum (að mati Hæstaréttar) og vaxtaákvæðið hafi verið dæmt ólögmætt, skuli lánið bera sambærilega vexti & verðtryggingu eins og sambærileg lán í ISK.

Ketill Sigurjónsson, 20.6.2010 kl. 21:45

5 identicon

Mér finnst ósanngjarnt og óeðlilegt að þeir sem tóku erlend lán eigi núna eftir dóm Hæstaréttar að njóti margfalt betri vaxtakjara en þeir sem tóku verðtryggð lán, eins og þú vilt krefjast. Úr því að svona er komið eiga þeir einfaldlega að sætta sig við að greiða á sömu kjörum og allir hinir sem eru með verðtryggðu lánin.

Annað er lýðskrum og verið að ala á sundrungu í þjóðfélaginu, sem jafnvel gæti endað með blóðugri byltingu. Er það það sem þú vilt Maríno?

Ólafur (IP-tala skráð) 20.6.2010 kl. 22:22

6 identicon

Þetta kallast einbeittur brotavilji.

Samtök þessara manna létu bóka það á sínum tíma að gengistryggingin væri ólögleg og vissu því allan tímann hvað klukkan sló. Í stað þess að reyna að bregðast eins og menn við dómnum þá þráast þeir við og krefjast þess að fórnarlömb glæpsins greiði skaðabæturnar! Lögreglan hlýtur að eiga næsta leik í þessu máli. Er það ekki vaninn þegar menn láta sér ekki segjast og hunsa niðurstöðu Hæstaréttar?

Hvað verðtryggðu lánin varðar þá hlýtur maður að treysta því að hatrammasti andstæðingur verðtryggingar á Alþingi Íslendinga s.l. áratugi, Jóhanna Sigurðardóttir, núverandi forsætisráðherra, afnemi verðtrygginguna núna þegar hún er ein og óvölduð í dauðafæri fyrir framan markmannslaust markið. Varla brennir hún af - eða hvað?

TH (IP-tala skráð) 20.6.2010 kl. 22:43

7 Smámynd: Elle_

Ólafur að ofan ætti að fara í sína byltingu við glæpabankana og glæpafyrirtækin sem níddust á skuldurum og eyðilögðu líf fjölda manna, líka barna þeirra foreldra sem urðu gjaldþrota, misstu heimilin, flúðu lands, tvístruðust, sviptu sig lífi.  Ólafur ætti núna að fara að reikna út hvað þarf til að bæta litlum strák missi föður síns sem svipti sig lífi af völdum þessara bankaníðinga.  Hverjar verða skaðabæturnar, Ólafur???

Elle_, 20.6.2010 kl. 22:57

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ólafur, það er ekki verið að breyta vaxtakjörum svo ég viti.  Menn vilja einmitt meina að þau eigi að vera þau sömu nú og áður.  Það er verðtrygging við gengi sem er afnumin.

Elle, höldum okkur innan siðferðismarka.  Það er líka til fólk sem hefur gefist upp út af verðtryggingunni, lækkun húsnæðisverðs, taps á hlutabréfum og mörgu fleira.

Marinó G. Njálsson, 20.6.2010 kl. 23:03

9 identicon

Elle,

Kannski hefurðu rétt fyrir þér með byltinguna, hennar er þörf. Ég hef ekki trú á dómstólaleiðinni varðandi verðtryggðu lánin. Verðtryggingin verður aldrei dæmd ólögleg - þótt ég viti að fjölmargir hafi svipt sig lífi vegna verðtryggðra lána.

Mér finnst alger mismunun að krefjast þess að til verði 2 ólíkir hópar skuldara í landinu. Þeir sem fá niðurfellingu og lægri vexti vegna gengistryggðra lána - og hinir sem voru "svona heimskir" að taka verðtryggð lán.

Það er svona svipað og innleiða kynþáttarasisma í landinu, svona einhver Apartheidstefna.

Ólafur (IP-tala skráð) 20.6.2010 kl. 23:14

10 Smámynd: Elle_

Hann var að hóta blóðugri byltingu, Marinó, og ég svaraði honum.  Hann getur skilið það að skuldarar skiptast ekki í 2 hópa, þann sem skuldar gengistryggð lán og þann sem skuldar vísitölutryggð lán og hefur gefist upp á báðum tryggingunum.  Og hann ýtir við manni komandi svona hótandi án þess að hafa sjálfur lifað við níðingsskap gengistryggingarinnar. 

Elle_, 20.6.2010 kl. 23:15

11 identicon

Elle,

Eitt enn, ég bæði með gengistryggð og verðtryggð lán (eins og fjölmargir aðrir). Ég get sagt það eitt eftir margra áratuga langa báráttu við verðtryggð lán - að það er vonlaus barátta.

Er annar "níðingsskapurinn" betri en hinn?

Ólafur (IP-tala skráð) 20.6.2010 kl. 23:19

12 Smámynd: Elle_

Ólafur, gengistryggðar skuldir hækkuðu í heild miklu hraðar og á svæsnari veg en verðtryggðu skuldirnar.  Og ég veit það, var með gengistryggt bíllán og vísitölutryggð fasteignalán eins og fjöldi.  Og við getum ekki skipt skuldurunum í 2 hópa.  Verðtryggðu skuldirnar eru nógu slæmar samt og allar forsendur fyrir að lækka höfuðstólinn sem flaug óeðlilega hratt upp af völdum svikabankanna sem felldu gengið.

Elle_, 20.6.2010 kl. 23:28

13 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Málflutningur Ólafs er ósanngjarn og ekki okkur, sem erum með verðrtyggð lán, til hagsbóta. Höfuðstóll verðtryggðra lána mun verða leiðréttur, annað er út í hött. Eiðileggjum ekki störf þeirra sem eru að vinna að því máli með ásökunum og skítkasti. Reynum heldur að þjappa okkur saman að baki þeirra!!

Gunnar Heiðarsson, 20.6.2010 kl. 23:29

14 Smámynd: Kristinn Sigurjónsson

Bankarnir hafa nú ekki sýnt mikinn samningsvilja fram að þessu, og hvers vegna ættu þeir núna njóta samningsvilja almennings.

Það er samt alveg ótrúlegt hversu mikið menn hatast út í verðtrygginguna sem einhvern blóraböggul fjárhagserfiðleika og telja að afnám verðtryggingar muni leysa einhvern vanda.   Vandinn er ekki verðtryggingunni að kenna, heldur lakari lífskjörum og lægri launum.   Fyrir næstum 2 árum bar ég saman launavísitölu og lánskjaravísitölu í bloggi sem ég vil benda mönnum á.  Nú hefur staðan svo sannarlega versnað, en verst var hún áður en verðtryggingin var tekin upp.

slóð: http://kristinnsig.blog.is/blog/kristinnsig/entry/613993/

Kristinn Sigurjónsson, 21.6.2010 kl. 01:09

15 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Ég er að komast á þá skoðun að ég sé fáviti, þó vil ég leyfa mér þær málsbætur að ég sé með heilaskemmd. Skemmdin er á þeim stað þar sem rökhugsun fer fram.

Þessi skemmd lýsir sé í því að sjá ekki að bankarnir beri hallann af Hr. dómunum. Það séu þrotabú gömlu bankana sem hallan eigi að bera. Það voru þrotabúin sem prönguðu ólöglegum gerningum inn á "Nýju" bankana. Skemmdin virkar líka þannig að aðilar (LÖG-aðilar) gátu ekki gert kaup sín á milli sem fyrirfram voru ólöglegir.

(Læknirinn segir mér að það megi laga þetta með ígræðslu, en getur ekki lofað að ígræðslan komi ekki úr lögfræðingi.)

Kristján Sigurður Kristjánsson, 21.6.2010 kl. 15:50

16 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Læknirinn var að hafa samband og sagði að þótt ígræðslan yrði úr lögfræðingi þá gæti ég allltaf farið í lögfræði erlendis.

 Sjúkk!

Kristján Sigurður Kristjánsson, 21.6.2010 kl. 18:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband