19.6.2010 | 00:48
Skuldauppgjör er einfalt í mínum huga - Öll gengistryggð lán undir
Ég hef lengi velt fyrir mér hvernig skuldauppgjör ætti að fara fram ef gengistrygging yrði dæmd ólögleg, eins og gerðist sl. miðvikudag. Ég hef jú haft í rúmt ár þá bjargföstu trú að gengistryggingin væri ólögleg og að dómstólar gætu ekki komist að annarri niðurstöðu. Af þeim sökum hef ég velt uppgjörinu fyrir mér.
Óvissan varðandi uppgjörið veltur fyrst og fremst á vöxtunum. Það er mín skoðun að ekkert banni LIBOR vaxtaviðmið til að ákvarða breytilega vexti lána. Ég reikna því með að hinir breytilegu vextir lánanna haldist og breytist eftir sömu forsendu og áður. Skoðað til baka er einfalt að gera nauðsynlega útreikninga. Greiðslur eru bornar saman við greiðsluáætlun. Það sem er vangreitt er fært fjármálafyrirtækinu til tekna, en það sem er ofgreitt er fært því til gjalda. Vextir eru reiknaðir af nettóstöðu og þeim bætt við hvora hlið eins og við á. Svo er lagt saman og fundinn mismunur á hliðunum tveimur. Sé mismunurinn fjármálafyrirtækinu í hag, þá greiðir lántakinn, en annars er annað hvort hægt að færa inneign lántakans til lækkunar á höfuðstóli lánsins eða sem beina greiðslu lántakans.
Ástæðurnar fyrir því, að ég tel upprunalega vexti gilda eru tvær:
- Vaxtalögin nr. 38/2001 tiltaka á tveimur stöðum atriði sem eru lántökum í hag. Í 2. gr. segir að eingöngu ákvæði II. og IV. kafla séu frávíkjanleg og síðan segir: "Þó er ávallt heimilt að víkja frá ákvæðum laganna til hagsbóta fyrir skuldara." Fyrst er það að nefna að ákvæði um bann við annarri verðtryggingu en við vísitölu neysluverðs er að finna í VI. kafla og ákvæði um viðurlög er að finna í 18. gr. VII. kafla, en þar segir: "Ef samningur um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti telst ógildur og hafi endurgjald verið greitt ber kröfuhafa að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur þannig ranglega af honum haft. Við ákvörðun endurgreiðslu skal miða við vexti skv. 4. gr., eftir því sem við getur átt." Fyrst skal nefna að vissulega má túlka dóm Hæstaréttar að samningur um "annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar" hafi verið gerður ógildur. En þessi grein á eingöngu við ef kröfuhafi þarf að endurgreiða lántaka. Í 4. gr. er aftur ákvæði um vexti, en þar segir: "Þegar greiða ber vexti skv. 3. gr., en hundraðshluti þeirra eða vaxtaviðmiðun er að öðru leyti ekki tiltekin, skulu vextir vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr." Skoðum þetta þrennt í samhengi. Ákvæði 4.gr. eru fjárvíkjanleg, en ekki hinna tveggja. 13. og 14. gr. banna gengistryggingu og 18. gr. segir eingöngu til um hvernig reikna á út vexti til að finna út upphæð endurgreiðslu. 4. gr. tiltekur síðan hvernig ákveða eigi vexti ef "hundraðshluti þeirra eða vaxtaviðmiðun er að öðru leyti ekki tiltekin". Málið er að hvorutveggja er gert. Hundraðshluti og vaxtaviðmið eru samviskusamlega gefin upp, þ.e. LIBOR-vextir eru gefnir sem vaxtaviðmið og vaxtaálag er gefið upp sem hundraðshluti.
- Í 36. gr. 1.mgr. í lögum nr. 7/1936, samningalögum segir: "Samningi má víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig, sbr. þó 36. gr. c. Hið sama á við um aðra löggerninga." Í tölulið c segir svo: "Samningur telst ósanngjarn stríði hann gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag. Ef slíkum skilmála er vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða breytt, skal samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans." Þarna er tiltekið að eingöngu er hægt að víkja samningi til hliðar að hann sé neytanda í óhag.
Hér er ég með tvær tilvitnanir í mjög mikilvæg lög er snerta lánasamninga og í báðum tilfellum er sagt að eingöngu megi breyta samningi að það sé neytanda ekki í óhag. Samkvæmt þessu verður ekki hægt að gera afturvirkar breytingar á áður gengistryggðum lánasamningum hvað sem gerist svo í framtíðinni. Fjármálafyrirtækin sitja uppi með þá vexti sem ákveðnir voru hverju sinni og geta eingöngu breytt þeim síðar í samræmi við ákvæði lánasamningsins, ef neytandinn (lántakinn) gerir kröfu um slíkt.
Nú varðandi hvaða vexti á að reikna á vangreiðslur eða ofgreiðslur, þá gildir 4. gr. laga nr. 38/2001 og síðan ákvæði III. kafla sem fjallar um dráttavexti. Hingað til hefur það ekki vafist fyrir dómstólum að reikna þessar fjárhæðir út, þannig að fjármálafyrirtækin ættu að vera í enn minni vanda.
Öll gengistryggð lán undir
Nokkur fjármálafyrirtæki hafa sent frá sér tilkynningar í dag, þar sem efast er um að þeirra lán falli undir niðurstöðu Hæstaréttar. Mér fannst Hæstiréttur vera nokkuð skýr með þetta, þar sem hann segir:
Lög nr. 38/2001 heimila ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Reglur 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 eru ófrávíkjanlegar, sbr. 2. gr. laganna, og verður því ekki samið um grundvöll verðtryggingar, sem ekki er stoð fyrir í lögum.
Gengistryggðir lánasamningar margra fjármálafyrirtækja eru í myntkörfum og breytast ákvæði samninganna lítið, ef nokkuð, þó íslenskar krónur flækist inn í myntkörfuna. Þeir samningar sem snerta mig persónulega, hafa allir orðið "gengistryggingu" eða aðra tilvísun í breytingar á gengi inni í ákvæðum samninganna. Hvaða þörf er á slíkum ákvæðum, ef upprunalega samningsupphæðin var ekki í íslenskum krónum? Lán í svissneskum frönkum þarf ekki gengistryggingu eða tilvísun í að höfuðstóll breytist í samræmi við gengi frankans. Það er öllu ljóst, að lán í frönkum helst í frönkum og höfuðstóllinn lækkar í frönkum eftir því sem greitt er af láninu. Ég get alveg skilið, að fyrirtækin vilji fá endanlega úr því skorið fyrir dómstólum hvernig túlka beri einhver jaðartilfelli, en það er alveg á hreinu í mínum huga, að velflestir gengistryggðir/"erlendir" lánasamningar einstaklinga og heimila við fjármálafyrirtæki falla undir dóm Hæstaréttar.
"Óverðugir" fá líka leiðréttingu
Í netheimaumræðunni hefur víða komið upp sú gagnrýni að þeir sem tóku gengistryggð lán hafi tekið meiri áhættu en aðrir og því sé óréttlátt, að þeir fái þessa "afskrift". Fyrst er um þetta að segja, að þetta er ekki afskrift. Þetta er leiðrétting. Hitt er að það er sama hvað er gert, það fá alltaf einhverjir leiðréttingu sem ekki þurfa á því að halda eða hafa hagað fjármálum sínum af gáleysi eða glæfraskap. Það er ekkert við því að gera. Auk þess: Hver er þess verður að segja til um hver er verður leiðréttingarinnar? Ég er það alveg örugglega ekki og þekki raunar engan sem er það.
Að lokum vil ég benda á, að baráttan um forsendubrest verðtryggðra lána er í gangi. Reykjavíkurborg og Orkuveita Reykjavíkur hafa varðað þá leið með því að samþykkja forsendubrest í verðtryggðum samningum við verktaka. Þó svo að slíkar ákvarðanir verði seint fordæmisgefandi, þá hjálpa þær í baráttu okkar hinna. Nú vantar okkur bara lög um hópmálsóknir til að geta lokið því stríði og er ég jafnsannfærður um að það vinnist, eins og ég var sannfærður um að gengistryggingin væri óheimil.
Vill sátt um skuldauppgjör | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 46
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 41
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Marinó, þegar rætt er um ákvæði 36.gr. samningalaga finnst mér eitt gleymast í umræðunni. Lögunum var breytt 1995 með setningu laga númer 14, til að uppfylla ákvæði tilskipunar Evrópuráðsins nr. 93/13/EBE. Sú tilskipun tekur til óréttmætra samningsskilmála í neytendassamningum. Í henni segir berum orðum í fororði: „Það er á ábyrgð aðildarríkjanna að tryggja að í samningum sem gerðir eru við neytendur séu ekki óréttmætir skilmálar.“ Og ennfremur: „Í bandalagsáætlununum tveimur um neytendavernd og miðlun upplýsinga (4 ) var lögð áhersla á mikilvægi þess að tryggja rétt neytenda gagnvart óréttmætum samningsskilmálum. Þessa vernd þarf að veita með laga- og reglugerðarákvæðum sem eru annaðhvort samræmd á bandalagsvísu eða samþykkt beint af bandalaginu.“ Og síðar: „Samningar skulu orðaðir á eðlilegu, skiljanlegu máli, neytandi skal fá tækifæri til þess að skoða alla skilmála og í vafamálum gildir sú túlkun sem neytandanum kemur best.
Aðildarríkin skulu tryggja að óréttmæta skilmála sé ekki að finna í samningum sem seljandi eða veitandi gerir við neytendur og ef slíkir skilmálar finnast þrátt fyrir allt, þá séu þeir ekki bindandi fyrir neytendur og samningur verði áfram bindandi fyrir samningsaðila með þessum skilmálum ef hann getur gilt áfram án hinna óréttmætu ákvæða.“ Á þessu tekur c-liður 36.gr. samningalaganna eftir breytinguna sem var gerð 1995 neytendum til hagsbóta. Ekki atvinnurekendum.
Og þarna komum við einmitt að lykilatriðinu. Getur lánssamningur, sem upphaflega var gengistryggður, verið efndur að kröfu neytenda án gengistryggingar? Með öðrum orðum, getur neytandi efnt samninginn án gengistryggingar? Svarið er einfalt: Já, neytandi getur efnt samninginn því hann þarf að borga LIBOR vexti eins og um var samið í upphafi, því það má semja um annað vaxtaviðmið en Seðlabanki gefur út.
Að ofangreindu sögðu geta lántakar gengistryggðra lána líklega krafist þess að vaxtaviðmiðið gildi eins og um var samið í upphafi. Fjármálafyrirtækin áttu að vita betur en bjóða upp á ólöglega gjörninga. Og þau vissu raunar betur sé tekið mið af bréfi Guðjóns Rúnarssonar framkvæmdastjóra Samtaka fjármálafyrirtækja til viðskiptanefndar, fyrir setningu laga um vexti og verðtryggingu árið 2001.
Erlingur Alfreð Jónsson, 19.6.2010 kl. 10:51
Þakka þér kærlega fyrir að hjálpa mér að skilja þennan lagatexta Marínó. Þar sem ég er bara dauðlegur verkfræðingur þá á ég erfitt með að innbyrða svona lagatexta án nokkurrar yfirlegu. Innlegg Erlings er líka mjög upplýsandi um forsendu laganna og ennfremur hvernig neytendavernd kemur þessum samningum við.
Þráinn Guðbjörnsson (IP-tala skráð) 19.6.2010 kl. 18:08
Hæ Marinó og takk fyrir þessar frábæru upplýsingar. Það er þó eitt sem velkist um hjá mér, veistu um lögmæti þess þegar fólk var með íslensk verðtryggð húsnæðislán sem það breytti yfir í erlend? Þá fékk það ekki fjárhæðina út greidda heldur þurfti það að skrifa undir svokallaða "myntbreytingu" en þar skrifar það undir að núna skuldi það áðurnefndar íslenskar krónum í nýum gjaldmiðlum....?
Helga , 20.6.2010 kl. 21:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.