Leita í fréttum mbl.is

Virðingarverð fyrstu viðbrögð SPRON og Frjálsa - Landsbankinn í afneitun

Ég get ekki annað en fagnað þessum fyrstu viðbrögðum SPRON og Frjálsa fjárfestingabankans við dómi Hæstaréttar.  Fyrirtækin, sem hafa setið undir ámæli um að gera ekkert og hlusta lítið á viðskiptavini sína, hafa núna tekið virðingarvert skref til móts við lántaka sína.  Vil ég hrósa þeim fyrir þetta framtak þeirra.

Úrræðið er ekki nýtt, því Frjálsi bauð, a.m.k. sumum, viðskiptavinum sínum þetta úrræði strax í september eða október 2008.  Margir viðskiptavinir nýttu sér það, þar á meðal færsluhöfundur.

Ég get ekki annað en hvatt fólk til að taka þessu úrræði, því vandséð er að betri boð fáist.  Ég get ekki séð að þetta skaði lántaka eða að þeir missi einhvern rétt til leiðréttinga síðar.

Nú bíð ég bara eftir því að önnur fjármálafyrirtæki taki við sér.  Fyrstu viðbrögð frá Landsbankanum benda til að hann ég í algjörri afneitun.  Í orðsendingu frá bankastjóra vegna dóms Hæstaréttar um lögmæti gengistryggðra lána segir m.a.:

Dómurinn náði ekki beint til erlendra lána Landsbankans og yfirstjórn bankans telur þau lán séu í fullu samræmi við íslensk lög.

Hér er yfirstjórn Landsbankans í afneitun.  Lán Landsbankans eru sambærileg jafngildislán og annað af þeim bílalánum sem dæmt var um.  Höfuðstóll lána Landsbankans, a.m.k. þeirra sem ég er með hjá bankanum, er tilgreindur í íslenskum krónum sagður jafngilda tiltekinni upphæð í erlendum myntum.   Ég get ekki séð að Landsbankinn græði eitt eða neitt á þessari afstöðu sinni og vil minna á, að við tilfærslu lánasafna heimilanna frá gamla Landsbankanum til þess nýja var veittur um 50% afsláttur á gengistryggðum lánum heimilanna og 70% afsláttur af gengistryggðum fyrirtækja.  Það er hrein ósvífni að bankinn ætli að innheimta þessi lán miðað við dagsgengi eftir hina mjög svo ótvíræðu niðurstöðu Hæstaréttar.


mbl.is Bjóða lántakendum upp á framlengingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björgvin P

Sorry en það er akkúrat EKKERT virðingarvert við Frjálsa Fjárfestingarbankann og þeir koma fram við flesta viðskiptavini sína eins og skít undir skónum á sér.... Það eru alltaf falin skilyrði fyrir öllu sem þeir bjóða uppá í "góðmennsku " sinni við okkur almúgann...

Björgvin P, 18.6.2010 kl. 13:26

2 Smámynd: Bragi Sigurður Guðmundsson

Marinó, það sem þú ert alltaf að biðja um er að það borgi einhver "annar" fyrir þá sem fóru óvarlega, þeirra sem eyddu á kostnað þeirra sem spöruðu.

Þú virðist alltaf gleyma því þegar þú biður um að skuldin þín lækki  sem allra mest, (jafnvel farið fram á að greitt sé minna en raunvirði til baka) að þá ert þú að reyna að nálgast fé þeirra sem fóru varlegar en þeir skuldugu fóru, þeirra sem spöruðu við sig og lánuðu lántakendum eign sína. Þetta þykir mér óréttlátt.

Varðandi afslátt við færslu á kröfum. Það skiptir auðvitað engu máli hvort lán voru færð á milli lánastofnana með afslætti eða ekki, það sem þú færð afskrifað þarf alltaf einhver annar að greiða.

Bragi Sigurður Guðmundsson, 18.6.2010 kl. 13:58

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Björgvin, menn geta haft alls konar álit á SPRON/FF, en þeir eru samt fyrstir til að gera eitthvað og það er virðingarvert.  Ég hef stundum reitt hár mitt yfir svörum fyrirtækjanna og heyrt margar ljótar sögur, en það á við um held ég flest fjármálafyrirtækin.

Sigurður, þegar ég tók mín lán, þá gerði ég ráð fyrir heiðarleika af lánveitanda mínum.  Í ljós hefur komið að sumir lánveitendur mínir höguðu sér óheiðarlega.  Þeir seldu mér ólöglega afurð.  Á ég að gjalda fyrir það?

Ég kannast ekki við að hafa farið meira óvarlega en aðrir landsmenn.  Það er efnahagslegur áhættustuðull innifalinn í því að búa á Íslandi.  Frá 1970 hefur verðbólga verið 82.262%, síðustu 30 ár hefur verðbólga verið 5.214%, 154% síðustu 20 ár og 84,7% síðustu 10 ár.  Hver sá sem hefur tekið verðtryggt lán hefur farið mjög óvarlega í sínum lántökum?

En þú talar um þá sem spöruðu og lánuðu lántakendum eign sína.  Gott að þú gerir það.  Mér vitanlega, þá var trygging á því sparifé upp á EUR 20.887 eða eitthvað um 3 milljónir við fall bankanna.  Allt umfram það var ótryggt.  Með neyðarlögunum, sem ég veit að þú þekkir vel, var ákveðið að verja innstæður allra án tillits til upphæðar.  Ekki var einu sinni látið duga að tryggja höfuðstól innstæðnanna, nei, vextir og verðbætur voru líka tryggð í botn.  Þetta þótti mér óréttlátt vegna þess að þetta var gert á minn kostnað.

Loks varðandi afskriftir.  Hæstiréttur er ekki að ákveða afskriftir.  Hann er að segja að höfuðstóllinn hafi verið rangt reiknaður.  Það er engin afskrift í því.  Þetta er leiðrétting.  Fjármálafyrirtækin beittu ólöglegum aðferðum við að hækka kröfur sínar á lántaka.  Í þessu tilfelli er enginn að borga eitt eða neitt fyrir mig.  Ég var ekki aðili að þessum málu, að ég best viti.

Það eina sem ég hef beðið um er réttlæti og sanngirni.  Það var hrun í hagkerfinu og mér finnst óréttlátt að sumir þjóðfélagshópar eigi að greiða fyrir þetta hrun með eignum sínum meðan aðrir, frekar afmarkaðir hópar innstæðueigenda fá allt sitt bætt í topp.  Segðu mér hver borgaði það og hvers vegna var rétt að borga það?

Marinó G. Njálsson, 18.6.2010 kl. 14:24

4 Smámynd: Bragi Sigurður Guðmundsson

Takk Marinó.

Talandi um réttlæti og sanngirni þá dreg ég upp eftirfarandi raunhæft dæmi:

Ég gat valið um að kaupa mér Audi A4 bíl á þrjár milljónir króna árið 2008 sem ég átti í  peningum eða að bíða í eitt ár og lána þessar þrjár milljónir og kaupa síðan bílinn eftir eitt ár eftir að vera búinn að fá vexti uppá 300.000 krónur og raunverðshækkun á láninu/höfuðstólnum.

Nú segja hagsmunasamtök heimilanna að ég eigi aðeins að fá þrjár milljónirnar + vexti sem eru jafnvel lægri en verðbólgan, segjum 3,6 milljónir. En Audi A4 kostar núna 6 milljónir!!

Ég lánaði sem sagt "þér" einn Audi A4 og fæ til baka hálfan A4 því það er svo mikið réttlæti. 

Bragi Sigurður Guðmundsson, 18.6.2010 kl. 16:46

5 identicon

Siggi Bragi.

Þú veist það sjálfur að ástæðan fyrir því Audi kostar helmingi meira í dag, en fyrir 2 árum, er vegna þess að bankarnir og fleiri aðilar (jafnvel þú sjálfur) voru að braska með krónuna okkar.

 Marinó.   Takk fyrir þína framgöngu í baráttunni.   Og til lukku með dóminn.

Palli (IP-tala skráð) 18.6.2010 kl. 17:19

6 identicon

Heill og Sæll Marinó

Það vakna upp spurningar hjá eflaust fleiri en mér varðandi íbúðarlánin, Frjálsi er að bjóða fólki að borga samkvæmt upphaflega höfuðstól bílalána hinsvegar gefa þeir út í yfirlýsingunni að íbúðarlánum sé ekki eins háttað. Ætla bankarnir sér að fara með íbúðarlánin fyrir dóm líka. Maður hefði haldið að dómurinn sem varðar bílalánin væri nógu fordæmisgildandi. Hvert er þitt mat á húsnæðislánin, er ekki alveg öruggt mál að þau falli undir sama hatt og bílalánin.

Kv Axel

Axel Överby (IP-tala skráð) 18.6.2010 kl. 17:22

7 Smámynd: Þórdís Björk Sigurþórsdóttir

Sæll Bragi, viltu meina að allir þeir sem tóku myntkörfulán hafi farið óvarlega og/eða séu að láta aðra borga fyrir sig?

Þórdís Björk Sigurþórsdóttir, 18.6.2010 kl. 17:46

8 Smámynd: Halldór Björgvin Jóhannsson

Marinó, það sem þú ert alltaf að biðja um er að það borgi einhver "annar" fyrir þá sem fóru óvarlega, þeirra sem eyddu á kostnað þeirra sem spöruðu.

Málið er það að bankarnir lánuðu íslenskar krónur og tengdu þær við erlendan gjaldmiðil, það er það sem fólk er að tala um leiðrétting á láninu, 2 milljón króna lán í íslenksum krónum tengt við erlendan gjaldmiðil síðan kemur hrunið og þetta lán hækkaði kannski í 4 milljónir á blaði þrátt fyrir að vera lán í Íslenskum krónum, þetta var enginn auka kostnaður fyrir bankann, svo leiðrétting á þessu er ekki afskrift og því þarf enginn að borga þetta fyrir þá sem fá þessa leiðréttingu, þetta þýðir bara minni hagnaður fyrir bankann.

Halldór Björgvin Jóhannsson, 18.6.2010 kl. 18:07

9 identicon

"Marinó, það sem þú ert alltaf að biðja um er að það borgi einhver "annar" fyrir þá sem fóru óvarlega, þeirra sem eyddu á kostnað þeirra sem spöruðu.

Þú virðist alltaf gleyma því þegar þú biður um að skuldin þín lækki sem allra mest, (jafnvel farið fram á að greitt sé minna en raunvirði til baka) að þá ert þú að reyna að nálgast fé þeirra sem fóru varlegar en þeir skuldugu fóru, þeirra sem spöruðu við sig og lánuðu lántakendum eign sína. Þetta þykir mér óréttlátt.

Varðandi afslátt við færslu á kröfum. Það skiptir auðvitað engu máli hvort lán voru færð á milli lánastofnana með afslætti eða ekki, það sem þú færð afskrifað þarf alltaf einhver annar að greiða."

Ertu að trúa þessari heimsku sem þú setur fram hérna??

Ertu að segja að fólk sem er að fá leiðréttingu á lánu m sínum sé að leita í fé annarra!! Veistu eitthvað um hvað þetta mál snýst?? Þeir sem lána fé vita það að það er ábyrgð þeirra hvort þeir gera þetta löglega eða ekki. Ef fyrirtæki ákveður að setja pening í að lána fyrir dópkaupum og þannig að fá mikið fyrir lítinn pening þá getur fyrirtækinu ekki komið á óvart að það sé dæmt ólöglegt ef þeir séu teknir, þeir geta þá ekki heimtað að lánið eigi þá að fá einhverja aðra háa "vexti" í staðinn afþví að hitt ólöglega dæmið sem þeir reyndu að gera klikkaði. Við skulum ekki gleyma því að þessir aðilar se lánuðu með ólöglegri tengingu við erlenda gjaldmiðla eru þeir sömu og grófu svo undan krónunni og sköpuðu sé því mikla og ólöglega eign í formi erlendra skulda venjulegs íslensk fólks

Það má geta þess að í flestum málum er ekki verið að afskrifa neitt, 99% þeirra sem keyptu ökutæki með tengingu við erlenda gjaldmiðla fengu ekki upphæðina í erlendri mynt heldur aðeins tenginguna og því er kröfuhafinn ekki að tapa neinu þótt krónan hafi gjörfallið (m.a vegna þeirra ) en lánsaðilinn getur núna bitið sig í rassinn fyrir að hafa ekki lánað skv. lögum og reglum t.d með tengingu við ísl. neysluvísitölu, það er þeirra tap og þeir sem standa í að brjóta lög geta og eiga aldrei að koma betur útúr því eftir á.

Þeir einu sem fóru óvarlega í þessu máli eru þau fyritæki sem lánuðu peningana, þau brutu lög sem núna hefur verið staðfest, eftir standa eðlilegar skuldir fólks!!!

Gummi (IP-tala skráð) 18.6.2010 kl. 19:36

10 Smámynd: Halldór Björgvin Jóhannsson

Varðandi afslátt við færslu á kröfum. Það skiptir auðvitað engu máli hvort lán voru færð á milli lánastofnana með afslætti eða ekki, það sem þú færð afskrifað þarf alltaf einhver annar að greiða."

Ég hefði alveg haft áhuga á því að kaupa mína skuld á þessum tíma af fallna bankanum á 50% afslætti, ég hefði jafnvel boðið 5% betur, afhverju var okkur ekki boðið upp á það?

Halldór Björgvin Jóhannsson, 18.6.2010 kl. 19:55

11 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Hungurverkfall hefur ekki enn verið prófað á Austurvellinum hans Jóns gamla Sigurðssonar!

Ég fer frekar í hungurverkfall en að horfa áfram upp á þá fátæku verða fátækari og þá ríku verða ríkari?

Og það er betra að fara í hungurverkfall en að þurfa að betla mat hjá hjálparstofnunum, meðan svika-ríkis-bubbarnir keyra framhjá á jeppum sem brenna jafn mikið á einni viku og fátæk og sjúk fjölskylda þarf til  að lifa af í heilan mánuð?

Sumir Íslendingar (sjúkir láglauna-þrælar) ganga heldur þegjandi og sveltir í gröfina langþráðu, heldur en að láta teyma sig áfram á ölmusum og betli frá hinum "ríku" í svona ríku og stéttskiptu landi!!! M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 18.6.2010 kl. 20:46

12 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Sigurður, með fullri virðingu, þá voru það lögin sem sögðu að þú hefðir bara átt að fá 3 m.kr. þar til ríkisstjórnin breytti leikreglunum.  Ekki vera að klína þessu á einhverja aðra.  Það varð hrun allra stærstu fjármálafyrirtækja landsins og samkvæmt þeim lögum sem giltu þegar innistæðueigendur lögðu inn á reikningana sína, þá voru bara innstæður upp að 3 m.kr. tryggðar án tillits til þess hvort um var að ræða höfuðstóll, vextir eða verðbætur.  Allt umfram það var ótryggt hvort sem það taldist höfuðstóll, vextir og verðbætur.  Hagsmunasamtök heimilanna hafa aldrei svo ég muni ályktað eitt eða neitt um innstæðurnar.  Aftur á móti hef ég oft gert það.  Minn málflutningur hefur gengið út á, að eingöngu hefði átt að verja höfuðstóll innstæðna umfram 3 m.kr., ekki vexti og verðbætur.  Með því hefðu innistæðueigengur misst einhvern hluta innstæðna sinna, en í staðinn hefði verið hægt að koma til móts við þá sem lögðu sparnað sinn í fasteignir.

Í tilfelli gengistryggðra lána, þá er Hæstiréttur að dæma gengistrygginguna ólöglega.  Það á sér því stað leiðrétting ekki afskrift.

Ég blæs algjörlega á allt tal um glæframennsku, eins og ég bendi á að ofan, þá er það að búa á Íslandi fjárhagsleg glæframennska.  Ég veit, t.d. ekki hversu oft ég hef komið eftirstöðvum námslána minna niður fyrir 1,5 m.kr.  Í hvert skipti sem það gerist, þá kemur verðbólguskot sem setur eftirstöðvarnar upp 1,8 - 2 m.kr.  Ég spyr  bara hvort það hafi ekki verið algjört rugl hjá mér að taka verðtryggð námslán?

Marinó G. Njálsson, 18.6.2010 kl. 22:30

13 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Bragi er greinilega ekki að skilja hvernig bankakerfið virkar. Fjármögnunin átti sér stað þegar lánin voru veitt, ekki þegar þau verða leiðrétt eftir á. Það eina sem þarf að gera til að leiðrétta þau er að breyta nokkrum tölum á blaði, því skuldir eru jú ekkert annað en það: skuldir á blaði eða í tölvu. Ef einhver efast um að svo sé, þá skal bent á grein mína: Vestræna blekkingin um hið sanna eðli fjármagns þar sem er útskýrt hvers vegna eðlilegar afskriftir kosta engan neitt heldur eru til hagsbóta fyrir þjóðfélagið í heild. Ef eitthvað er ennþá óskýrt eftir lestur greinarinnar þá er ég fús til að reyna að útskýra þetta betur fyrir fólki.

Guðmundur Ásgeirsson, 23.6.2010 kl. 17:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband