Leita í fréttum mbl.is

Enginn að reyna að forðast að greiða það sem rétt er - Leikjafræðin brást fjármálafyrirtækjunum

Ég vona innilega að í eftirfarandi tilvitnun í frétt mbl.is sé eitthvað rangt haft eftir viðmælanda:

„Þessi dómur snýr aðallega um formsatriði málsins þannig að það er vafasamt að það sé hægt að draga af honum víðtækar ályktanir. Ég held að það detti engum í hug að álykta sem svo að menn sleppi frá skuldum sínum,“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, um dóm Hæstaréttar um gengislán.

Í fyrsta lagi, þá er það ekki rétt að dómur Hæstaréttar snúist um formsatriði.  Hann snýst um grundvallaratriði.  Grundvallaratriði getur aldrei verið formsatriði.  Þetta grundvallaratriði er að íslensk lán má ekki binda við gengi erlendra gjaldmiðla.  Hvernig getur Andrési Magnússyni dottið í hug að nota "formsatriði" um það.  Þetta er þvílíkt grundvallaratriði, að mönnum þótti eðlilegt að geta þess tvisvar í athugasemdum við frumvarpi að lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur.  Í öðru lagi, þá hefur aldrei neinn óskað eftir því að kröfurnar falli niður í heild, eingöngu hina ólöglegu viðbót við útreikninga fjármálafyrirtækjanna á eftirstöðvum lánanna.  Lántakar hafa óskað eftir sanngirni og réttlæti og voru tilbúnir að koma til samninga við fjármálafyrirtækin um lausn málanna.  Því boði var ekki tekið og þess vegna kom til afskipta Hæstaréttar.

Andrés heldur áfram:

Hæstiréttur lætur því ósvarað hvað kemur í staðinn. Það er engin varakrafa höfð uppi í málinu. Er það vísitölubinding og vextir? Þessu er ekki svarað og ályktunin sem maður hlýtur að draga er að stjórnvöld verði að höggva á hnútinn og það er það sem ég er að kalla eftir.

Af hverju á eitthvað að koma í staðinn?  Ég get ekki séð að neitt komi í staðinn afturvirkt.  Fjármálafyrirtækin fengu kjaftshögg og þau verða bara að sitja uppi með það.  Framvirkt, þá hafa fjármálafyrirtækin nokkra möguleika og löggjafinn líka.  Eðlilegasta næsta skref er fyrir þessa aðila að setjast niður með hagsmunaaðilum á neytendahliðinni og sjá hvað líklegt er að neytendur eru tilbúnir að sætta sig við.  Varla vilja þau fá annað högg, því reikna má með því að það verði rothögg.  En hvað gæti komið í staðinn?  Hagsmunasamtök heimilanna hafa oftar en einu sinni viðrað þá hugmynd að framtíðarlánakerfi innihaldi hvað varðar íbúðarlán, þak á verðbætur og þak á vexti, hvort heldur verðtryggða eða óverðtryggða.  Það kemur t.d. ekki til greina, að í stað gengistryggingar komi verðtrygging nema að hún sé með þaki á árlegar verðbætur og raunvextir séu svipaðir og þeir sem Íbúðalánasjóður býður í dag.  Varðandi óverðtryggða vexti, þá eru samtökin sátt við þá vexti, sem fjármálafyrirtækin eru að bjóða í dag.  Hér er ég bara að greina frá því sem komið hefur fram opinberlega frá samtökunum og ætti því ekki að koma neinum á óvart.

Komi stjórnvöld með eitthvað inngrip, sem verður í óþökk hagsmunasamtaka lánþega, þá kalla þau yfir sig átök.  Það er því algjört grundvallaratriði að haft sé samráð við þessa aðila, hvort þeir eru talsmaður neytenda, Hagsmunasamtök heimilanna, Neytendasamtökin, Samtök lánþega eða hverjir aðrir það eru sem hafa barist fyrir hagsmunum lánþega og neytenda.  Því miður hafa stjórnvöld ekki verið í þeim hópi í því mæli sem æskilegt hefur verið.

En aftur að Andrési Magnússyni.  Hann hamrar á því að ekki hafi verið um efnisdóma að ræða.  Það er bara ekki rétt.  Hæstiréttur tók á afgerandi hátt á efnisatriðum, eins og málsaðilar lögðu þá fyrir dóminn.  Það er ekki við Hæstarétt að sakast, að fjármálafyrirtækin klikkuðu á leikjafræðinni.  Þau lögðu allt undir og töpuðu.

Ég þekki aðeins til leikjafræðinnar og veit að hún snýst um að hámarka afrakstur sinn að teknu tilliti til aðgerða mótaðilans.  Með því að sleppa varakröfum, þá léku fjármálafyrirtækin af sér.  Ekki er hægt að líta á þennan afleik á neinn annan hátt en fyrirtækin hafi verið full örugg með sig.  Hið ólöglega athæfi hafði fengið að viðgangast svo lengi, að ekki kom til greina að Hæstiréttur færi að fetta fingur út í það.  Á vissan hátt má segja að niðurstaðan hafi verið mátuleg á fyrirtækin vegna hroka þeirra.

Í mínum huga er niðurstaða Hæstaréttar alveg hrein og skýr:  Gengistrygging íslenskra lána er óheimil og hún skal falla niður.  Ekkert kemur í staðinn frá lántökudegi þar til samningur um annað hefur náðst milli lántaka og lánveitenda.

En það er meira:  Fjármálafyrirtækin hafa mjög líklega skapað sér bótaskyldu gagnvart lántökum.  Þá er ég ekki bara að vísa til þess augljósa vegna ofgreiðslu afborgana og vaxta.  Nei, ég er líka að tala um fjárhagslegan skaða sem lántakar hafa orðið fyrir vegna hinnar ólöglegu hækkunar höfuðstóls og greiðslna.  Í mörgum tilfellum hafa lántakar þurft að taka ný og óhagstæð lán, selja eignir á fáránlegu verði, verið sviptir eignum sínum, verið settir í gjaldþrot eða þurft að leita úrræða á borð við sértækrar skuldaaðlögunar og greiðsluaðlögunar.  Þetta hefur sundarð fjölskyldum, valdið heilsutjóni vegna álags og dæmi munu vera um að fólk hafi svipt sig lífi.  Sumt verður ekki bætt og líklega verða fjármálafyrirtækin heldur ekki krafin um það.  Annað munu lántakar sækja á hendur fyrirtækjunum.  Síðan má mjög líklega draga fram alls konar efnahagsleg áhrif.


mbl.is Sleppa ekki frá skuldunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þegar þú segir að ekkert eigi að koma í staðinn fyrir verðtryggingu, ertu þá að segja að það eigi að verðlauna þeim sem tóku áhættu þannig að þeir standi betur en þeir sem tóku íslensk lán ?

Erlendur (IP-tala skráð) 17.6.2010 kl. 22:48

2 identicon

Þetta átti að vera ,,í staðinn fyrir gengistryggingu".

S.s. ef ekki á að bæta við verðbótum eftir að leiðrétting hefur farið fram á gengistryggðu lánunum þá er augljóslega verið að verðlauna þann sem tók gengistryggt lán þegar uppi er staðið

Erlendur (IP-tala skráð) 17.6.2010 kl. 22:54

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Erlendur, hver er að tala um að verðlauna einhvern?  Ekki ég.  Ég er bara að banda á þá augljósu staðreynd að gengistryggingin var dæmd ólögleg og því eru öll ákvæði um hana ógild.  Hæstiréttur er búinn að kveða úr um það.  Fjármálafyrirtækin buðu upp á ólöglega afurð/þjónustu.  Er einhver að fá verðlaun?  Snýst þetta um lántakann eða afurðina/þjónustuna?  Vissulega nýtur lántakinn þess í leiðréttingu, en höfum í huga, að fjármálafyrirtækjunum gáfust mörg tækifæri til að semja um þessi mál og þau kusu að gera það ekki.  Niðurstaðan varð mun betri fyrir lántaka, en ég bjóst við þegar ég hóf mína baráttu.

Dómur Hæstaréttar snýst um að fjármálafyrirtækin brutu lög.

Marinó G. Njálsson, 17.6.2010 kl. 22:56

4 identicon

Erlendur, það er nákvæmlega það sem Marinó er að segja:

"Það kemur t.d. ekki til greina, að í stað gengistryggingar komi verðtrygging nema að hún sé með þaki á árlegar verðbætur og raunvextir séu svipaðir og þeir sem Íbúðalánasjóður býður í dag."

Við hin eigum sumsé að borga fyrir aumingjanna.  Það er í hnotskurn málflutningur "hagsmunasamtaka aumingjanna" ... (fyrirgefið; "heimilanna sem skuldsettu sig upp fyrir rjáfur".)

Svei attann!

Ybbar gogg (IP-tala skráð) 17.6.2010 kl. 22:58

5 Smámynd: Elle_

Já, algerlega Marinó, undarlega orðað hjá Andrési Magnússyni.  Lög voru brotin og nú hefur Hæstiréttur dæmt gegn lögbrjótunum.  Og þegar lög eru brotin gegn mönnum, koma leiðréttingar og skaðabætur.  Í venjulegum löndum í það minnsta.    Vildi að fólk hætti að ræða hvað á að koma í staðinn fyrir ólöglega gengistryggingu.  Það er órökrétt og við ættum ekki að sætta okkur við slík afskipti af hinni lýðræðishatandi núverandi bankaríkisstjórn.

Elle_, 17.6.2010 kl. 23:05

6 Smámynd: Marinó G. Njálsson

"Ybbar gogg", hvernig finnur þú það út að "við hin eigum semsé að borga fyrir aumingjanna" (sic).  Í fyrsta lagi, þá er búið að gera ráð fyrir því í flutningi lánasafnanna frá gömlu bankanna til þeirra nýju að gengistryggð lán séu í besta falli metin á upphaflegum höfuðstóli og í öðru lagi þá er aðeins Landsbankinn í eigu þessarra "við" sem þú talar um og því er tenging þín ótrúlega misheppnuð.

Marinó G. Njálsson, 17.6.2010 kl. 23:06

7 identicon

Einhver mun borga. Ef ekki þið sem tókuð þessi lán, þá við hin. Og "við" hin munum ekki sætta okkur við það. Hér stefnir í blóðugt uppgjör.

Ybbar gogg (IP-tala skráð) 17.6.2010 kl. 23:12

8 Smámynd: Elle_

Ekki rökrétt hjá þessum næst að ofan.  ÞIÐ HIN eruð ekki að borga neitt.  Hæstiréttur dæmdi lögbrjótandi fyrirtæki, ekki YKKUR HIN.  Og hvaða aumingja ætli þú meinir???  Hver er aumingi, lögbrjóturinn sem var dæmdur eða skuldarinn?

Elle_, 17.6.2010 kl. 23:20

9 identicon

Framsóknarmenn eru ógæfa þessa lands. Sama hvaða samtök þeir stofna. Við hentugleika gleyma þeir "gengissigi í einu stökki". Og ætla öðrum að borga gleymsku sína. En ekki lengur.

Fagna því að bankar eigi að borga - ef þeir eiga að borga - fyrir mistök sín. En höfum eitt á hreinu: "Við hin" borgum ekki fyrir mistök græðgislána. Þá fyrst verður allt vitlaust...

Ybbar gogg (IP-tala skráð) 17.6.2010 kl. 23:44

10 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Ybbar gogg er greinilega að miskilja dóm hæstaréttar og málið allt í heild sinni. Málið snýst eingöngu um brot á lögum, lánafyrirtækin buðu fram ólöglega lánasamninga, þau vissu þegar árið 2001 að ólöglegt væri að binda íslensk lán við erlenda gjaldmiðla. Þetta vissu lántakendur hinsvegar ekki.

Hvort lántakendur muni græða á þessu er hægt að skoða á margan veg. Þeir sem voru með þessi lán hafa margir hverjir farið á hausinn vegna þeirra, aðrir ströglast við að borga og hafa þurft að fórna öllu sem fórnað verður til þess. Þetta hefur rústað fjölskildum og fólk hefur flúið land vegna þessara lána. Varla er hægt að segja að það sé gróði þó þetta fólk fái leiðréttingu sinna mála.

Ybbar gogg talar um aumingja og Erlendur nefnir áhættufíkla, vissulega eru slíkir menn í þessum hópi, eins og þeim hópi sem ekki tóku gengistryggð lán. Að stæðstum hluta er þetta þó venjulegt fólk sem var að fjárfesta í takt við sína greyðslugetu á þeim tíma. En auðvitað eru til undartekningar.

Varðandi vísitölutryggðu lánin, þá er það næsta skref. Ef Ybbar gogg heldur að okkur, sem engin gengistryggð lán höfum, gangi betur að fá leiðréttingu á vísitölulánunum með því að fara í blóðugt stríð við þá sem nú fá leiðréttingu, er hann dálítið undarlegur í kollinum.

Vísitölulánin eru erfið, þau eru lúmskari fyrir þær sakir að afborgunin hefur ekki hækkað svo mikið, vísitalan leggst við höfuðstólinn og er því fyrst og fremst eignarýrnun eða eignaupptaka. Þessi hækkun á höfuðstólnum mun fylgja láninu þó svo verðbólga hjaðni. Á þessu verður að sjálf sögðu að fá leiðréttingu.

Hana fáum við ekki með því að fara í stríð við þá sem eru með gengistryggð lán!!

Gunnar Heiðarsson, 18.6.2010 kl. 00:01

11 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Mig langar í þessu samhengi að vitna í svar mitt við spurningu Láru Hönnu sem hún beindi til mín af vefsíðu sinni á Eyjunni.  Svarið var ritað áður en dómur Hæstaréttar var kunnur:

Það er erfitt að átta sig nákvæmlega hvaða pól stjórnvöld munu taka í hæðina. Er svarið því byggt á vangaveltum mínum og því sem ég les úr umhverfinu, orðum fólks og frumvörpum sem hafa verið lögð fram. Fyrst ber að benda á, að Hæstiréttur er að fjalla um afmarkað viðfangsefni. Þau mál verða seint fullkomlega fordæmisgefandi fyrir öll önnur mál er snúa að gengistryggingunni. Næst er að benda á, að núverandi best bjóðandi er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur frá 30. apríl í máli NBI gegn Þráni ehf. Þar var gengistryggingin dæmd ólögleg og engin önnur verðtrygging komi í staðinn. Á móti hefur Árni Páll Árnason reynt að marka línur í sandinn um hvernig honum finnst skynsamlegt að breyta gengistryggðum lánum í verðtryggð lán með 15% álagi. Í mínum huga er það arfavitlaust, þó svo málin tapist í Hæstarétti (þá út frá sjónarhorni lántaka). Falli dómur Hæstaréttar lántökum í hag, má búast við að hann lendi einhvers staðar á milli úrskurðar héraðsdóms og frumvarps ÁPÁ eða í öðrum hvorum endanum. Bráðabirgðalög ríkisstjórnarinnar gætu þá falist í tvennu: 1) Að samræma útfærsluna fyrir öll gengistryggð lán, en ekki bara þau sem eru undir í dómum Hæstaréttar; 2) að tryggja að lántakar með verðtryggð lán sitji ekki uppi með verri stöðu. Falli dómur Hæstaréttarlánveitendum í hag, þá sé ég fyrir mér að stjórnvöld muni gera bílalánafrumvarpið að megin línu fyrir öll gengistryggð lán, en nú þarf ekkert að gera fyrir fólk með verðtryggð lán...

...Ég efast um að nokkur maður velkist í vafa um að lántakar með verðtryggð lán munu ekki taka því þegjandi, ef gengistryggingin verður dæmd ólögleg og engin verðtrygging komi í staðinn. Fólk mun heimta einhverja leiðréttingu sinna lána og það virðist í undirbúningi. Í frumvarpi að lögum sem gengur undir vinnuheitinu skattaleg meðferð á eftirgjöf skulda segir í síðustu mgr. 1. gr. töluliðar b: „Sé skilmálum í lánasamningi milli lánastofnunar og manns breytt með þeim hætti að endurgreiðsla miðist við íslenskar krónur í stað erlends gjaldmiðils telst það vera skilmálabreyting láns en ekki eftirgjöf skuldar í skilningi laganna, þótt uppreiknaður höfuðstóll sé leiðréttur til lækkunar, enda sé breytingin gerð á málefnalegum forsendum og lánskjörum breytt í kjör sem eru almennt í boði við sambærilegar aðstæður. Sama á við ef breyting er gerð á viðmiðunarvísitölu verðtryggðra lána, eða hluti af uppreikningi höfuðstóls verðtryggðra lána er felldur niður…“

Þessi síðustu orð benda til þess að til standi annað hvort eða bæði, að gera breytingu á viðmiðunarvísitölu verðtryggðra lána eða að hluti af verðbótum sem bæst hafa á lán undanfarin ár verði felldar niður. A.m.k. er opnað fyrir þennan möguleika...

Marinó G. Njálsson, 18.6.2010 kl. 00:14

12 identicon

Locke og Montesqiuieu er menn dagsins.

Björn Jónasson (IP-tala skráð) 18.6.2010 kl. 01:10

13 identicon

Locke og Montesquieu eru menn dagsins - átti það að vera

Björn Jónasson (IP-tala skráð) 18.6.2010 kl. 01:13

14 Smámynd: Halldór Heiðar Agnarsson

Sælir.

Svo máta bæta þessu hér við úr viðtalinu:

Það eru engir aðrir en stjórnvöld í samvinnu við fjármálastofnanir sem geta komist að einhverri niðurstöðu um það hvaða viðmið eigi að viðhafa. Væru menn ekki sáttir við það mætti sjá fyrir sér að slíkt mál endi líka fyrir dómi.

Hefur enginn neitt við þetta að athuga?? Hvað með lántakendur eða samtök þeirra? eru þeir ekki aðilar að málinu?

Kveðja

Halldór Heiðar Agnarsson 

Halldór Heiðar Agnarsson, 18.6.2010 kl. 09:31

15 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

Erlendur og ybbar gogg; Hvaða rök hafið þið fyrir því að við sem tókum erlend lán séum áhættusamari en aðrir? Þvert á móti var mín niðurstaða sú að of áhættusamt og kostnaðarsamt væri að taka Íslenskt lán vegna gengissveiflna síðustu 4 áratugina. Verðtryggt lán er nefnilega gengistryggt lán þar sem allar hagstæðar sveiflur fyrir lántakanda eru jafnaðar út en hagstæðar sveiflur fyrir lánveitanda frystist inni. Ég skoðaði gengissveiflur síðustu 4 áratugina og hvaða áhrif þær hefðu haft á verðtrygginguna eftir að hún kom til skjalanna. Niðurstaðan var að verðtrygging hækkar þegar krónan lækkar og lækkar ekki til baka þegar krónan hækkar. Þannig hækkar hún stig af stigi og ávinningurinn af þeim sveiflum sem óhjákvæmilegar hafa verið í svona litlu hagkerfi fer allur til lánveitenda.

Ég hefði frekar sleppt mínum fjárfestingum (sem nota bene voru ekkert öðruvísi en almennt gerist og enginn lúxusjeppi þar heldur keyri ég á Opel Corsa) heldur en taka okurlán með verðtryggðri Íslenskri krónu. Það voru þið sem tókuð þessi lán í öðrum gjaldeyri en tekjurnar eru jafnt sem við hin sem tókum erlendu lánin. Síðast þegar ég vissi voru fæstir ykkar með tekjur í verðtryggðri krónu. Þegar gengið hrundi þá á augabragði hækkuðu verðtryggðu krónurnar ykkar um 30% en launin ykkar hafa misst um 20% kaupmátt.

Neytendur, hvort sem þeir tóku verðtryggð eða erlend lán gátu ekki vitað að glæpamenn væru að störfum í bönkunum sem svifust svo einskins og eyðulögðu krónuna sem endaði í algjöru hruni. Báðir hóparnir eru fórnarlömb og við þurfum að vinna saman að því að fá leiðréttingu. Nýtt Ísland má ekki byggjast upp á eignarhluta fólks sem ekkert hefur gert að sér.

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 18.6.2010 kl. 10:37

16 Smámynd: Tína

Adda Þorbjörg hefði varla geta orðað hugsanir mínar betur og segir allt sem segja þarf.

Ekki skil ég heldur þegar sumir leggjast svo lágt að kalla fólk aumingja vegna þess eins að það tók erlent lán. Þetta eru lánin sem sérfræðingar mæltu með og fólk treysti þessum sérfræðingum. Svona talsmáti segir meira um þann sem talar en þann sem talað er um.

Tína, 18.6.2010 kl. 11:52

17 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég tek undir orð Öddu, en nenni ekki að elta ólar við þann sem kallar sig Ybbar gogg, enda vafalaust gert til að ögra fólki.

Ég vil benda á að stór hópur fólks hefur liðið vítiskvalir vegna stökkbreytingar á lánum sínum.  Vissulega er sú réttarbót sem þessi hópur er mögulega að fá meiri en fólki með verðtryggð lán stendur til boða núna, en hver segir að það verði um aldur og ævi.  Fyrst, þá er ekki bitið úr nálinni með það hvaða kjör verða á hinum fyrrum gengistryggðu lánum og síðan eru mál í gangi vegna forsendubrests verðtryggðra lána.  Ég bið því fólk um að spara stóru orðin um að einhverjir séu að fá meira en þeir eigi skilið.

Marinó G. Njálsson, 18.6.2010 kl. 23:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband