Leita í fréttum mbl.is

Það voru þrír dómar í dag - Úrskurður í máli NBI gegn Þráni staðfestur

Athygli fólks hefur í dag verið á bílalánadómunum tveimur sem féllu í Hæstarétti, en ennþá stærri dómur féll líka í dag.  Það var í máli NBI gegn Þráni ehf., þar sem NBI krafist gjaldþrotaskipta á Þráni ehf.  Héraðsdómur hafnaði í úrskurði sínum 30. apríl sl. beiðni NBI og hélt ég að þeim úrskurði hefði ekki verið áfrýjað, enda komu upplýsingar um slíkt ekki fram á vefi Hæstaréttar.  Nú kemur upp úr dúrnum að dómnum var áfrýjað og niðurstaða í því máli var tilkynnt í dag.  Hæstiréttur staðfestir úrskurð héraðsdóms í einu og öllu sjá:

317/2010 NBI hf. (Aðalsteinn E. Jónasson hrl.) gegn Þráni ehf. (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) (Kveðinn upp: 16.6.2010 ) 

Þessi úrskurður er mun mikilvægari en bílalánamálin, þar sem hann fjallar um lán sem eru með hinum dæmigerðu jafngildisákvæðum, eins og eru hvað algengust í lánasamningum.  Hann er líka mikilvægur vegna þess, að héraðsdómur komast að þeirri niðurstöðu að engin önnur trygging skuli koma í stað gengistryggingar eða eins og segir í dómnum:

Dómari þessa máls er í einu og öllu sammála þeirri niðurstöðu sem er svo skýrlega orðuð í þessum dómi.  Telur hann m.ö.o. að ekki sé heimilt að reikna fjárhæð skuldar varnaraðila með þeirri hækkun sem sóknaraðili reiknar vegna breytinga á gengi jens og svissnesks franka gagnvart íslenskri krónu.  Telur hann að miða verði við upphaflegan höfuðstól auk áfallinna vaxta, en að ekki sé heimilt að reikna annars konar verðtryggingu í stað gengisviðmiðunar.  

Hér það svart á hvítu og enginn vafi.  Gengistryggingin er ólögleg og ekkert annað kemur í staðinn.  Lánin munu ekki taka verðtryggingu eða fá á sig himin háa óverðtryggða vexti.  Þetta er þrefalt yppon hvorki meira né minna.


mbl.is Hafna kröfu um gjaldþrotaskipti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Snilld! Þetta fór líka framhjá mér en ég er búinn að vera að fylgjast með meðferðinni á þessu máli.  Þetta er lykil niðurstaða. Núna getur enginn verið í vafa um hvernig á að reikna þetta út. Ef það er einhver óvissa eftir þá er það tengt því hvaða samningar eiga að falla undir þessa úrskurði og hverjir ekki.

Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 16.6.2010 kl. 19:56

2 identicon

Þú'rt óborganlegur, sagt það áður og segi það aftur.

Ef þú vildir gjöra svo vel að stofna framboð til alþingis þá áttu mitt atkvæði. Alltaf.

Veit ekki um neinn einstakling sem hefur beitt sér jafn mikið í þágu réttlætis síðustu árin á þessu landi.

Í fúlustu alvöru, hringdu í Hönnu Birnu þegar FLokkurinn er búinn að fyrsta hana úti og fáðu eins og hreinan meirihluta. Ykkur tveimur saman eru allir vegir færir. Eruð það Besta sem ég veit um ;)

sr (IP-tala skráð) 16.6.2010 kl. 20:12

3 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Það sem er ekki í umræðunni er: Þessir lánaskilmálar eru og VORU ólöglegir. Þetta þýðir að þessi skuldabréf sem hinir endurreistu bankar keyptu af föllnu bönkunum voru svikin vara.

Samkvæmt því bera þrotabú gömlu bankanna hallan, þetta blasir við. Ég er viss um að lögfræðingar munu fatta þetta að lokum, þó er ekkert víst.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 16.6.2010 kl. 20:18

4 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sæll. Þetta mál Þráins er líka merkilegt fyrir fleiri sakir. Það varðar það hvernig staðið er að fjárnámum og aðgerðum sýslumanna í svona málum.

Venja er þegar beiðst er fjárnáms hjá sýslumönnum að kröfuhafi hefur kannski myndað sér einhverja skoðun á því hvort eignir séu nægilega verðmætar til að tryggja kröfuna eða ekki. Svo er það sá starfsmaður sýslumanns og lögmaður fjárnámsbeiðanda sem meta þetta sín á milli og ákveða þar með hvort fjárnámið er gert í einhverri eign eða hvort það er árangurslaust eins og kallað er þegar eignir teljast ekki vera nægar til tryggingar skuldinni. Oftast er þetta bara gert svona án þess að faglega sé skoðað hver raunveruleg eignastaða sé. Það er því oft órökstudd og illa ígrunduð skoðun þessara aðila sem ræður því hvort krefjast má gjaldþrots þess aðila sem krafist er fjárnáms hjá eða ekki. En lögum skv. má víst fara fram á gjaldþrot þess sem gert er árangurslaust fjárnám hjá næstu 3 mánuði eftir að fjárnámið er gert.

Þetta er nú eitthvað sem þarf að koma í fastari og faglegri skorður nú þegar hart er í ári hjá mörgum. Mér finnst það ekki ganga að fólk og fyrirtæki verði á næstunni sett í gjaldþrot byggð á eignamati sem er fundið út svona cirka einhvernveginn. En ekki á faglegan hátt.

En í þessu Þráins máli er einmitt komið aðeins inn á þessa hluti þegar fjallað er um kyrrsetningargerð sýslumanns eins og því var orðrétt líst á mbl.is svohljóðandi:

"Talið var að sýslumanni hafi brostið heimild til að ljúka kyrrsetningargerðinni án árangurs nema áður yrði staðreynt með virðingu hans eða tilkvaddra sérfræðinga að krafa NBI væri hærri en sem næmi verðmæti fasteigna þeirra er Þráinn ehf. hafði sett til tryggingar skuldum sínum við bankann og þess sem hefði getað staðið utan veðbanda og unnt var að gera kyrrsetningu í. Hefði því verið ástæða til að ætla að árangurslausa kyrrsetningin hefði ekki gefið rétta mynd af fjárhag Þráins ehf."

Þannig að það er margt merkilegt í þessu Þráins máli. Bæði varðandi gengistrygginguna eins og Marínó bendir réttilega á og svo hvernig kröfuhafar hafa getað notað sýslumenn til að koma vilja sínum fram við skuldara án þess að faglegt verðmat á eignum sé til staðar.

Jón Pétur Líndal, 16.6.2010 kl. 20:50

5 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Í sambandi  við þetta Jón þá er brýnt að starfsmenn sýslumanna séu löglærðir og reyndar sýslumenn líka.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 16.6.2010 kl. 20:57

6 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sæll Kristján Sigurður. Ég er sammála því að þeir þurfa að vera löglærðir sem fara með þessi mál. Hélt reyndar að svo væri. En það er samt ekki alltaf nóg, það er auðvelt fyrir menn að freistast til að hespa málin af skv. einhverri venju, hversu góð eða slæm sem hún er og jafnvel þó hún sé ófagleg og jafnvel lögleysa. Ég hef séð dæmi um slíkt.

Jón Pétur Líndal, 16.6.2010 kl. 21:04

7 identicon

Lagatæknar á blogginu hans Marinó.

Helgispjöll.

Nuff said.

sr (IP-tala skráð) 16.6.2010 kl. 21:16

8 identicon

Eyvindur er greinilega ekki á sama máli.

http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/06/16/lan_mogulega_afram_verdtryggd/

Séra Jón (IP-tala skráð) 16.6.2010 kl. 22:24

9 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæll Marinó,

til hamingju þú og öll þín sveit sem barist hefur óeigingjarnri baráttu fyrir þessari niðurstöðu.

Ég tek hatt minn ofan í dag fyrir ykkur, við hin erum í ævarandi þakkarskuld, takk.

Gunnar Skúli Ármannsson, 16.6.2010 kl. 22:27

10 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Stórkostlegt! Þetta er gríðarlega mikilvægur áfangi í átt til endurreisnar siðmenntaðs þjóðfélags. Bestu þakkir til Marinó og félaga í Hagsmunasamtökum Heimilanna, fyrir þrotlaust og málefnalegt starf í þágu heimilanna í landinu.

Eftir að dómarnir féllu birtist tilkynning á heimasíðu SP Fjármögnunar sem hefst á þessum orðum:

Samkvæmt dómi Hæstaréttar, sem kynntur var í dag, miðvikudaginn 16. júní, er staðfest að SP-Fjármögnun hf. var óheimilt að veita lán til bifreiðakaupa í erlendri mynt.

Merkilegt að enn er talað um "lán í erlendri mynt" þrátt fyrir að dómurinn hafi snúist um lán sem voru sannarlega veitt í íslenskum krónum en með gengistryggingu sem tók mið af erlendri mynt. Annaðhvort á SP erfitt með að sætta sig við orðinn hlut, eða þá að stjórnendur þar eru einfaldlega orðnir fastir í sínum eigin rangsnúna hugsunarhætti. Þeir virðast líka ekki hafa verið búnir að lesa dóminn í Þráinsmálinu þegar tilkynningin var skrifuð því í henni stendur einnig:

Í dómi Hæstaréttar er ekki kveðið á um með hvaða hætti samningarnir skulu endurreiknaðir þannig að niðurstöðu réttarins sé fullnægt og er því úrvinnsla samkvæmt breyttri réttarstöðu enn að mörgu leyti óljós. SP-Fjármögnun mun svo fljótt sem auðið er aðlaga viðkomandi samninga að gildandi rétti.

Samkvæmt Þráinsdómnum mætti ætla að "úrvinnsla samkvæmt breyttri réttarstöðu" sé ekki lengur óljós. SP muni því í samræmi við yfirlýsingu sína endurreikna samningana án verðtryggingar, með umsömdum vöxtum (í flestum tilfellum LIBOR), enda samræmist ekkert annað gildandi rétti. Ef það hefur hinsvegar ekki verið ætlunin þá er fyrirtækið líklega búið að skjóta sig illilega í fótinn með þessari yfirlýsingu.

Guðmundur Ásgeirsson, 16.6.2010 kl. 23:11

11 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Þessi dómur hefur ekki farið jafn hátt í fjölmiðlum og bílalánadómarnir. Ekki það að þeir séu ekki mikilvægir fyrir fjöldann allan af heimilum í landinu. Þessi dómur sem þú vísar í Marinó er örugglega afar mikilvægur fyrir fjöldann allan af fyrirtækjum í landinu og á það við um allar greinar atvinnulífsins.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 17.6.2010 kl. 00:43

12 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Gott mál að koma þessu á framfæri.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 17.6.2010 kl. 01:42

13 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ég missti af þessu. Takk fyrir að fylgjast svona vandlega með og láta vita!

Hrannar Baldursson, 17.6.2010 kl. 04:48

14 identicon

Til hamingju Marínó og HH með þrotlausa baráttu, ég get svo svarið það að ef ég myndi hitta þig úti á götu myndi ég knúsa þig í tætlur :D

Mér er sama þó ennþá séu formsatriði sem þarf að leysa að þá ætla ég að leyfa mér að vera bjartsýn í fyrsta skipti í nærri 18 mánuði.  Við fjölskyldan erum búin að flýja land og vaða eld og breinnistein til að missa ekki húsið okkar og sjáum nú í fyrsta skipti smá ljós fyrir enda ganganna.

Takk, takk og aftur takk

Lilja Karlsdóttir (IP-tala skráð) 17.6.2010 kl. 07:44

15 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Ég tel að niðurstaða þín sé því miður röng, Marinó. Hæstiréttur tekur ekki undir allt sem Héraðsdómarinn segir, þótt niðurstaða Héraðsdóms sé staðfest. Sjáum hvað Hæstiréttur segir:

Eins og mál þetta lá fyrir sýslumanni brast af þessum sökum heimild til að ljúka gerðinni án árangurs nema áður yrði staðreynt með virðingu hans eða tilkvaddra sérfræðinga að krafa sóknaraðila væri hærri en sem næmi verðmæti fasteignanna, bæði með tilliti til þess hluta verðmætisins, sem veðréttindi sóknaraðila samkvæmt tryggingarbréfum hans tóku til, og þess, sem kann að hafa staðið utan veðbanda og unnt var að gera kyrrsetningu í. Vegna þessa verður að líta svo á að ástæða sé til að ætla að árangurslausa kyrrsetningin gefi ekki rétta mynd af fjárhag varnaraðila, sbr. 1. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, en að þessu ber dómstólum að gæta af sjálfsdáðum samkvæmt síðari málslið 1. mgr. 71. gr. sömu laga. Niðurstaða hins kærða úrskurðar verður því staðfest.

Dómur Hæstaréttar segir að mistök sýslumanns valdi því að kyrrsetningin hafi ekki verið heimil. Málinu er því í raun vísað til sýslumanns, sem verður að vanda sig betur. Úrskurðurinn er því ekki staðfesting Hæstaréttar á persónulegri skoðun Héraðsdómarans, að:

"ekki sé heimilt að reikna annars konar verðtryggingu í stað gengisviðmiðunar."

Ég er því þeirrar skoðunar að líklegast sé, að í stað gengistryggingar komi vertrygging með neytsluvísitölu.

Loftur Altice Þorsteinsson, 17.6.2010 kl. 09:59

16 identicon

Er ekki lykilatriði í þessu máli að íslenskar krónur séu tilgreindar í samningnum? En ekki eingöngu erlendar myntir.

Það er því áfram réttaróvissa um venjuleg íbúðalán.

Eymundur (IP-tala skráð) 17.6.2010 kl. 10:21

17 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Það er rétt, Loftur, að Hæstiréttur horfir til framkvæmdarinnar.

Eymundur, dómur Hæstaréttar í bílalánamálunum er skýr á þann hátt að gengistrygging er ólögmæt.  Það nær til allra lána eða eins og segir í dómnum:

Lög nr. 38/2001 heimiluðu ekki að lán í íslenskum krónum væru verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla.

Her ekkert verið að tilgreina bílalán eða jafngildislán eða myntkörfu, nei, lán í íslenskum krónum má ekki binda við gengi erlendra gjaldmiðla sama hvert lánið er.

Marinó G. Njálsson, 17.6.2010 kl. 10:41

18 Smámynd: Eiður Ragnarsson

Hvað gerist þá núna??

Má búast við því að láinið verði endurreiknað með sömu vaxtaprósentu og getið er um í upphaflegu greiðsluskilmálum, og verðtryggingu bætt þar við??

Sum lánafyrirtækjana sem lánuðu gengistryggð lán, hafa líka hækkað vextina ofaná gengistrygginguna, og það ða frekar vafasömum forsendum, og ég veit dæmi þess að með stuðningi lögfræðinga hafi menn fengið þeim vaxtahækkunum breytt til baka, en mig rennir í grun að með þessum hækkunum hafi lánafyrirtækin sem þetta gerðu verið að búa sig undir þennan dóm, því vextir hafa ekki verið á uppleið í löndunum í kringum okkur...

Það vantar að þetta sé krufið til mergjar vel og vandlega...

Eiður Ragnarsson, 17.6.2010 kl. 11:19

19 identicon

Marínó.  Þessir bílánasamningar sem fjallað er um í dómnum eru tilgreindir í krónum.  Íbúðalánin eru það ekki í flestum tilvikum.  Dómurinn er að taka tillit til lánasamninga sem eru tilgreindir í krónum (bílasamningar).  Þangað til dómstólar taka á lánum sem tilgreindir eru í samningum í myntum (íbúðalán) þá verður áfram réttaróvissa um íbúðalán.

Eymundur (IP-tala skráð) 17.6.2010 kl. 13:33

20 identicon

Til hamingju með þetta og að réttlætið hafi náð fram að ganga, sem virðist oft ekki hafa verið tilfelli, ef farið er með mál gegn ríkinu eða bönkum.

Í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu er talað um að vextir verði hækkaðir eða verðtryggðir og er m.a. vísað í 36. grein laga um samningsgerð,að umboð og ógilda löggerninga er heimilt að breyta samningi í hluta eða heild ef telja verður ósanngjarnt eða andstætt góðri viðstkiptavenju að bera hann fyrir sig.

Ég er hræddur um að lánafyrirtækin gætu verið að skjóta sig í fótinn ef þeir ætlast til að farið verði eftir þessu.

Margir skilmálar þeirra eru líklega andstæðir góðum viðskiptavenjum, t.d. rekstrarleigusamningar og verðtryggð lán sem lántakandi er látin bera allan skaða af brostnum forsendum.

Ég veit ekki heldur hvort að lána með tengingu við erlenda gjaldmiðla og taka um leið stöðu gegn krónunni , samræmist góðum viðskiptavenjum.

Value Meme (IP-tala skráð) 17.6.2010 kl. 14:06

21 Smámynd: Elle_

Ég sætti mig ekki við verðtryggingu á bílalán og hefði ALDREI skrifað undir verðtryggt lán fyrir bíl, en fólk var látið halda að gengistryggðu lánin væru hagstæð.  Og ekki nóg með að höfuðstóllinn hafi hækkað um 130% á 15 mánuðum, heldur hækkaði Avant vexti að vild.  Og það er nóg að hafa okur-verðtryggð fasteignalán sem hafa flogið upp við fall gengisins og óðaverðbólgu.  Nú ætla ég að vona að fólk sætti sig ekki við að gengistryggðu lánin verði verðtryggð og hafi frekar samband við lögmann og sæki málið gegn svindlurunum.  Hinsvegar þurfa stjórnvöld að lækka höfuðstól allra okur-verðtryggðra skulda sem flugu upp vegna bankaglæpa og óhæfrar landstjórnar.  

Elle_, 17.6.2010 kl. 15:12

22 identicon

Ég held að í stað þess að flækja þessi mál í dómstólum, þyrfti að fara samningaleiðina eins og HH hafa lagt til.  

Þá þyrfti að fara einhverja sanngirnisleið t.d. að verðtryggja 50%, þannig að lánveitandi og lántaki tapi jafn mikið ef forsendur breytast.  Það þarf að endurskoða alla samninga þannig að það samræmist góðum viðskiptavenjum.

Þó er spurning hvort að lánafyrirtækin hafi ekki fyrirgert rétti sínum til þess, þar sem  þau kröfðust þess að þetta færi fyrir dómstóla.

Áður en að farið er í mál vegna verðtryggingar þarf að ýtreka ósk til lánveitenda að farið verði eftir samningalögum og höfða til réttlætiskenndar forsvarsmanna þeirra.   

Þó þarf líklega að fara í mál við þau og krefjast þess að sanngirni verði gætt og endurkrefja þá um fjármuni sem þeir hafa ofrukkað vegna verðtryggingar og brostinna forsendna.

Value Meme (IP-tala skráð) 17.6.2010 kl. 16:15

23 identicon

"Hæstiréttur tekur ekki undir allt sem Héraðsdómarinn segir, þótt niðurstaða Héraðsdóms sé staðfest."

En hann dregur heldur ekki í efa niðustöðu Héraðsdóms! Hæstiréttur bendir hinsvegar á að Sýslumaður komist ekki lengur upp með þau vinnubrögð sem hann hefur viðhaft fram að þessu.

Séra Jón (IP-tala skráð) 17.6.2010 kl. 16:23

24 identicon

Er ekki bara ein leið fyrir SP og Lýsingu?

Það mun enginn greiða krónu af þessum lánum fyrr en sendur er greiðsluseðill með upphaflegum höfuðstól reiknaðann niður miðað við undangengnar greiðslur. Þau fara mjög fljótt í þrot. Dómsmál er ekki góður kostur fyrir því þau færu í þrot í millitíðinni. Þau eru upp við vegg.

Lárus (IP-tala skráð) 17.6.2010 kl. 18:01

25 identicon

Því miður er ég hræddur um að við eigum eftir að sjá sameiginlegt útspil lánastofnana og ríkisstjórnar fljótlega þar sem farið verður gróflega á svig við dóma hæstaréttar á kostnað lántakenda.

Við skulum ekki gleyma því að lánafyrirtækin eru með mestu klækjarefi landsins í vinnu, bæði lögmenn og aðra, sem hafa sérstakt dálæti á því að finna leiðir til að klekkja á lántakendum. Þessir aðilar hafa sýnt það að þeir svífast einskis. Við skulum ekki vanmeta þetta fólk.

Jór (IP-tala skráð) 17.6.2010 kl. 19:01

26 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Þetta er rétt Séra Jón, en rökstuðningur Héraðsdóms skiptir engu máli, þegar Hæstiréttur hefur kveðið upp sinn dóm á eign forsendum. Þess vegna er ekki hægt að leggja út af skoðunum héraðsdómarans.

Hæstiréttur tekur alls ekki undir orð héraðsdómarans, sem eru reyndar í undarlegu samhengi.

Loftur Altice Þorsteinsson, 17.6.2010 kl. 19:12

27 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Lárus: um leið og dómarnir féllu urðu öll fjármögnunarfyrirtækin gjaldþrota samstundis, a.m.k. tæknilega.

Jór: vissulega munu þeir reyna allt til að klóra í bakkann. Við skulum ekki vanmeta það hversu harðsvírað lið þetta er, og héðan í frá líta á sem svo að við séum að eiga við hreinræktaða glæpamenn.

Loftur: Þráinsdómurinn bætir vissulega engu við varðandi gengistrygginguna sjálfa, sem bílalánadómarnir tveir úrskurðuð ólögmæta. Það sem er hinsvegar athyglisvert við Þráinsmálið er að til þess að úrskurða um raunverulegt greiðsluhæfi fyrirtækisins þurfti að leggja mat á raunverulega upphæð undirliggjandi fjárskuldbindinga. Þar með neyddist dómurinn til að taka afstöðu til þess hvernig skyldi reikna lánin eftir brottvikningu hinnar ólögmætu gengistryggingar, og niðurstaðan er ótvíræð:

Telur hann að miða verði við upphaflegan höfuðstól auk áfallinna vaxta, en að ekki sé heimilt að reikna annars konar verðtryggingu í stað gengisviðmiðunar.

Með þessu er komið fordæmi fyrir því að við afnám gengistryggingar skuli að öðru leyti miða við samningana óbreytta, þ.e. án verðtryggingar og á sömu vöxtum og um var samið í upphafi. Þar með er búið að taka af allan vafa um hvernig skuli endurreikna lánin, og þarf engar stjórnvaldsaðgerðir til þess heldur aðeins að farið sé eftir gildandi lögum eins og hæstiréttur hefur túlkað þau.

Guðmundur Ásgeirsson, 18.6.2010 kl. 09:20

28 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Guðmundur, þú virðist vera að rugla saman dómum Héraðsdóms og Hæstaréttar. Báðir komast að sömu niðurstöðu, en Hæstiréttur dæmir á eigin forsendum og tekur ekki undir þau sérkennilegu ummæli sem héraðsdómarinn viðhefur og þú og fleirri kappsfullir óskhggjumenn eru að endurbirta.

Loftur Altice Þorsteinsson, 18.6.2010 kl. 10:18

29 identicon

Loftur, ég held að enginn sé að rugla saman dómum. í þráinsdómnum segir eins ofurskýrt og hugsast getur:

"Dómari þessa máls er í einu og öllu sammála þeirri niðurstöðu sem er svo skýrlega orðuð í þessum dómi (mál nr. E-7206/2009).  Telur hann m.ö.o. að ekki sé heimilt að reikna fjárhæð skuldar varnaraðila með þeirri hækkun sem sóknaraðili reiknar vegna breytinga á gengi jens og svissnesks franka gagnvart íslenskri krónu (Þráinsdómurinn).  Telur hann að miða verði við upphaflegan höfuðstól auk áfallinna vaxta, en að ekki sé heimilt að reikna annars konar verðtryggingu í stað gengisviðmiðunar. Að þessu athuguðu verður að miða við að upphaflegur höfuðstóll skulda varnaraðila hafi verið 357.500.000 krónur (upph. höfuðstóll í Þráinsmálinu) og að hann hafi ekki hækkað. "

Georg Friðriksson (IP-tala skráð) 18.6.2010 kl. 12:24

30 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Georg, þú ert að birta úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá 30. apríl 2010. Hvernig er hægt að ruglast á þessum dómi og dómi Hæstaréttar frá 16. júní 2010 ?

http://www.haestirettur.is/domar?nr=6719

Dómur héraðsdómarans Jón Finnbjörnssonar er að vísu birtur með dómi Hæstaréttar og niðurstaða dómstólanna er sú sama, en Hæstiréttur tekur ekki undir rök héraðsdómarans.

Hvað er Jón Finnbjörnsson að meina þegar hann segir:

Dómari þessa máls er í einu og öllu sammála þeirri niðurstöðu sem er svo skýrlega orðuð í þessum dómi.  Telur hann m.ö.o. að ekki sé heimilt að reikna fjárhæð skuldar varnaraðila með þeirri hækkun sem sóknaraðili reiknar vegna breytinga á gengi jens og svissnesks franka gagnvart íslenskri krónu.  Telur hann að miða verði við upphaflegan höfuðstól auk áfallinna vaxta, en að ekki sé heimilt að reikna annars konar verðtryggingu í stað gengisviðmiðunar. 

Jón Finnbjörnsson er hér hugsanlega að fjalla um sinn eigin dóm, að minnsta kosti var hann felldur í Héraðsdómi Reykjavíkur 12. febrúar 2010. Hann er sammála eigin dómi eða félaga síns við HR og hælist yfir hvað hann er skýrt orðaður !

Ég vek athygli á því, að hvorki Héraðsdómur né Hæstiréttur benda á lagagrein sem bannar gengistryggingu. Athugasemdir með lagafrumvörpum eru gerðar fyrir Alþingi, en lögin sjálf eru það sem dómstólar og almenningur eiga að fara eftir. Er Ísland orðið þannig réttarfarslega, að allt er bannað, nema leyft sé ???

Loftur Altice Þorsteinsson, 18.6.2010 kl. 12:57

31 identicon

Loftur, það ert þú sjálfur sem misskilur. Vissulega er þetta tilvísun í dóminn sem féll í héraði 30. Apr. 2010.

Ef þú hinsvegar staldrar við og lest það sem ég skrifaði, og ekki síst, lest allan texta Þráinsdómsins þá blasir við að Jón Finnbjörnsson vísar með sínu áliti í dóminn sem féll 12. Feb. 2010 (mál nr. E-7206/2009, Lýsing vs. Jóhann Rafn Heiðarsson) í Héraðsdómi Reykjavíkur. Áslaug Björgvinsdóttir dæmdi og segir:

"Grundvöllur verðtryggingar samkvæmt samningi aðila, þ.e. ákvæði 4. og 7. gr. samningsins um gengistryggingu, er því í andstöðu við VI. kafla laga 38/2001 og því ógild. Skiptir þá hvorki máli hvort eftirlitsaðilar, eins og Seðlabanki og Fjármálaeftirlit, hafi vitað af samningunum og ekki gert athugasemdir né lögbundin úrræði eða samkomulag stjórnvalda við fjármálafyrirtæki til létta greiðslubyrði fólks í svipaðri stöðu og stefndi, eins og stefnandi byggir á. Samningurinn er á hinn bóginn ekki ógildur í heild sinni eins og stefndi heldur fram."

Jón Finnbjörnsson vísar í þann dóm í Þráinsmálinu með orðunum:

"Dómari þessa máls er í einu og öllu sammála þeirri niðurstöðu sem er svo skýrlega orðuð í þessum dómi (mál nr. E-7206/2009).  Telur hann m.ö.o. að ekki sé heimilt að reikna fjárhæð skuldar varnaraðila með þeirri hækkun sem sóknaraðili reiknar vegna breytinga á gengi jens og svissnesks franka gagnvart íslenskri krónu (Þráinsdómurinn).  Telur hann að miða verði við upphaflegan höfuðstól auk áfallinna vaxta, en að ekki sé heimilt að reikna annars konar verðtryggingu í stað gengisviðmiðunar. Að þessu athuguðu verður að miða við að upphaflegur höfuðstóll skulda varnaraðila hafi verið 357.500.000 krónur (upph. höfuðstóll í Þráinsmálinu) og að hann hafi ekki hækkað."

Hæstiréttur setur þessa tilvísun inn í dóm sinn í Þráinsmálinu og staðfestir dóm og álit Héraðsdóms !

Georg Friðriksson (IP-tala skráð) 21.6.2010 kl. 11:23

32 identicon

Loftur: "Ég vek athygli á því, að hvorki Héraðsdómur né Hæstiréttur benda á lagagrein sem bannar gengistryggingu."

Þetta segja lög 38/2001 um vexti og verðtryggingu:

VI. kafli. Verðtrygging sparifjár og lánsfjár.
13. gr. Ákvæði þessa kafla gilda um skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofar að greiða peninga og þar sem umsamið eða áskilið er að greiðslurnar skuli verðtryggðar. Með verðtryggingu er í þessum kafla átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu. Um heimildir til verðtryggingar fer skv. 14. gr. nema lög kveði á um annað.
Afleiðusamningar falla ekki undir ákvæði þessa kafla.
14. gr. Heimilt er að verðtryggja sparifé og lánsfé skv. 13. gr. sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði. [Vísitala sem reiknuð er og birt í tilteknum mánuði gildir um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár frá fyrsta degi þar næsta mánaðar.]1)

Í fyrsta lagi er lögmæt verðtrygging skilgreind hér á ljómandi skýran máta. Grundvöllurinn er vísital neysluverðs og ekkert annað.

Skýringarnar við frumvarp laga 38/2001 segja:             "Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi."

Skýringartextinn breytir engu, hann áréttar einfaldlega skilgreininguna á orðinu "verðtrygging".                                Hvort þér sjálfum finnist gengistrygging vera sama og lögmæt verðtrygging eða ekki skiptir tæpast máli úr þessu þar sem búið er að úrskurða að gengistrygging sé ólögmæt (í samræmi við gildandi lög) og að henni hafi með þessum gjörningum verið ætlað að "verðtryggja" lánin (sem er ólöglegt skv. lögum 38/2001).

Georg Friðriksson (IP-tala skráð) 21.6.2010 kl. 11:58

33 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Rangar fullyrðingar þínar Georg, verða ekki réttar þótt þú endurtakir þær oft.

Loftur Altice Þorsteinsson, 21.6.2010 kl. 13:16

34 identicon

Hverjar eru þær þá Loftur ? Þetta eru ekki mín orð heldur dómara.

Georg Friðriksson (IP-tala skráð) 21.6.2010 kl. 13:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 38
  • Frá upphafi: 1680019

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband