Leita í fréttum mbl.is

Ekki öll gagnaver þurfa ríkisstyrk - Miðgarður byggir upp gagnaver í Vogum

Ég verð að viðurkenna, að mér finnst það ekki bera vott um mikinn vilja eigenda Verne Holding til að taka þátt í uppbyggingu atvinnulífs í landinu, að það þurfi að vera í skjóli sérstakrar fyrirgreiðslu af hálfu ríkisvaldsins.  Satt best að segja, þá furða ég mig á því.  Það er flott hugmynd að koma upp þessu gagnaveri, en af hverju þarf ríkisstyrk?

Ekki virðast allir þurfa slíkan styrk og má þar nefna gámaverið í Hafnarfirði, gagnaverið sem á að rísa í Grindavík og síðan gagnaver Miðgarðs í Vogum.

Miðgarður eða Midgard, eins og heiti fyrirtækisins mun vera, hefur unnið að undirbúningi gagnaversins í Vogunum í nokkuð langan tíma.  Ég hef fylgst með verkefninu, en menn hafa ekki talið það vera verkefninu til framdráttar að blása það út í fjölmiðlum.  Fyrir nokkrum dögum var gengið frá lausum endum varðandi fjármögnun, þannig að hægt var að kynna byggingu versins opinberlega.

Að baki Miðgarðs eru m.a. aðstandur fyrirtækisins Basis.  "Basis hver?", veltir einhver fyrir sér og svo sem ekki að furða.  Ég hafði ekki heyrt af fyrirtækinu fyrr en að það hafði samband við mig og falaðist eftir ráðgjöf um upplýsingaöryggismál.  Basis er fyrirtæki á svið kerfisleigu, kerfisrekstrar og hýsingar.  Það er einmitt þessi bakgrunnur sem ég held að eigi eftir að reynast Miðgarði vel og ekki síður að menn eru ekki að spenna bogann of hátt.  A.m.k. þurfti engin lög frá Alþingi til þess að koma fyrirtækinu á koppinn og ekki var ráðherra viðstaddur undirritun orkusamnings.  Eina sem þurfti var nokkrir samstarfsaðilar og þar er ekki sístur hlutur sveitarstjórnar Voga/Vatnsleysustrandar. 

Aðstandendur Miðgarðs ákváðu fyrir nokkuð löngu að setja verið niður í Vogunum.  Fyrir lítið sveitarfélag, eins og Voga, þá mun gagnaverið virka eins og stóriðja.  Þó störfin verði ekki mörg í upphafi við reksturinn, þá verða þau þó nokkur meðan verið verður byggt upp.  (Það var að sjálfsögðu þess vegna, sem samningar um gagnaverið voru undirritaðir korteri fyrir kosningarGrin)  Miðgarðsmenn ætla að byrja smátt og síðan stækka við sig eftir þörfum, enda öll hönnun byggð á einingum sem auðvelt er að bæta við það sem fyrir er. Ja, ég segi smátt, en þar sem fyrirtækið er þegar komið með Orange í viðskipti, þá er þetta ekki svona lítið smátt, heldur að eingöngu verður byggt utan um þann búnað sem þarf í hvert sinn.

Ég hafði raunar tækifæri til að fylgjast með þessum málum frá hlið sveitarfélagsins og þar veit ég að er mikil spenningur.  Sveitarfélagið hefur tekið frá svæði fyrir gagnaverið, þar sem gert er ráð fyrir að það hafa góða stækkunarmöguleika, en sveitarfélagið reiknar með að fleiri fyrirtæki muni fylgja í kjölfarið.  Þarna eru nefnilega á margan hátt kjöraðstæður, eins og nemendur í Leiðsöguskólanum fengu góða kynningu á fyrir rúmu ári.  Þá var okkur boðið í heimsókn á ferð okkar um Reykjanesskagann.  Það er nefnilega þannig, að leiðsögumenn eru oft bestu sölumenn landsins.  Í gegn um starf sitt öðlast þeir almennt góðan skilning á ekki bara staðháttum, heldur einnig mögulegri nýtingu þessara staðhátta.  Þannig er Vatnsleysustrandarhreppur ákaflega ríkur að köldu vatni, hreinum og ferskum vindum, mjög öflugur ljósleiðari fer beint í gegn um sveitarfélagið og síðan eru orkuver HS orku við túnfótinn.  Sem sagt allt sem gagnaver þarf.  Hætturnar eru einhverjar og þá helstar jarðskjálftar og eldgos.  Jarðskjálftarnir hafa líklegast meiri áhrif nær Grindavík og eldgos verða þarna á um 1.000 ára fresti.

Nafnið Miðgarður á vel við starfsemi gagnavers.  Í norrænni goðafræði er Miðgarður staðurinn, þar sem menn búa.  Hann er við rætur heimstrésins, asksins Yggdrasils, sem myndar tengingar út um allt.  Nú undir honum (askinum) er viskubrunnurinn Urðarbrunnur.  Miðgarður tengist öðrum heimum, svo sem Útgarði jötnanna þar sem er Mímisbrunnur, Álfheimum álfanna, undirheimum og Hel, þ.e. Niðheimum, og síðast en ekki síst Ásgarði um brúna Bifröst.  Nú geta aðrir staðir á Reykjanesskaga bara valið úr hvað af þessu þeir vilja tákna Grin

Ég vona að Miðgarður, og raunar öll önnur gagnaver, eigi gjöfula lífdaga framundan og leggi heilmikið til þjóðarbúsins.  Mér finnst rétt að benda á, að litlu gagnaverin þrjú, sem ég minntist á, eru líklegast samanlagt með meiri orkuþörf fullbyggð, en gagnaver Verne Holding.  Það er því heilmikil starfsemi sem er að fara í gang í Hafnarfirði, Vogum, Grindavík og Keflavík.

Svona til að fyrribyggja allan misskilning, þá hef ég ekkert á móti Verne Holding. Megi fyrirtækið vaxa og dafna.  Ég er bara á móti þeim fríðindum sem Alþingi var að veita fyrirtækinu.  Ég skora því á eigendur Verne Holding að afsala sér þessum fríðindum.  Það er nefnilega í þjóðarhag, að þeir geri það og held einhvern veginn að íslenska ríkið hafi um þessar mundir meiri þörf á þessum peningum, en fjárfestarnir að baki Verne Holding. 


mbl.is Lög um gagnaver samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þetta er fróðleg grein hjá þér Marinó, maður var eitthvað búinn að heyra um fleiri gagnaver en Verne Holding, en ekki grunaði mig að þau væru þetta mörg.

Ísland er kjör staður fyrir þessa starfsemi, þeir kostir sem við höfum upp á að bjóða ættu að duga ti að fá fyrirtæki á þessu sviði til landsins, ríkisstyrkir ættu að vera óþarfir.

Ef þrjú af fjórum þeirra fyrirtækja sem eru að koma sér fyrir þurfa ekki ríkisstyrk, hvers vegna þarf eitt þeirra hann?

Gæti skýringin legið í aðferðarfræðinni við uppbygginguna? Gæti verið að Verne Holdig sé að byggja of stórt í upphafi og sé kanski ekki komið með kúnna í samræmi við uppbygginguna?  Er Verne Holding kanski að byggja upp á 2007 mátann? 

Það er ljóst að við eigum eftir að fá fleiri gagnaver til landsins. Mörg tiltölulega lítil gagnaver, dreifð um landið er happadrýgra en fá risstór, jafnvel öll á sama stað.

Mestu skiptir að þau fyrirtæki sem vilja setjast að hjá okkur komi á þeim forsemdum sem upp á er boðið, endurnýjanlegrar orku, hreint og gott loftslag, tæknikunnáttu og fleiri þátta, en ekki vegna ríkisstyrkja.

Gunnar Heiðarsson, 7.6.2010 kl. 20:27

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég veit ekki hvort ástæðan sé stærðin. Ætli það sé ekki frekar að þetta er ein leið til að fjármagna framkvæmdirnar eða öllu heldur draga úr kostnaðinum.

Marinó G. Njálsson, 7.6.2010 kl. 23:29

3 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Það er okkar að verjast þessu ekki gerir fjórflokkurinn það! Hreinsum út úr alþingi byltingin lyfi!

Sigurður Haraldsson, 8.6.2010 kl. 00:38

5 identicon

Ég tek undir með Marinó að samningurinn við Midgard er á margan  hátt merkur og mikilvægur fyrir Sveitarfélagið Voga. "Stóriðja" sem hentar einmitt okkar stærð. Eykur fjölbreytni fábreytts atvinnulífs hér. Hér er að vísu eitt lítið en öflugt tölvufyriræki, Snerta, en annars matvælaframleiðsla (egg, beikon og fiskur), smiðjur og almenn þjónusta sveitarfélagsins.

Flott að fá einmitt svona viðbót. Það grátlega við þetta mál er að bæjarstjórnarmeirihlutinn og bæjarstjórinn sem kom þessu öllu á koppinn var grimmilega refsað í kosningunum um daginn með þeim afleiðingum að bæjartjórinn verður að hætta eftir 4 mjög vel heppnuð ár. Það eru þakkirnar fyrir að hafa stýrt sveitarfélaginu með lagni gegnum kreppuna þannig að það stendum miklu betur nú en fyrir 4 árum. Þeir voru of margir kjósendurnir sem lögðu trú á róg og gróusögur frekar en setja sig inn í það sem sveitarstjórnin hefur raumverulega áorkað.

Þorvaldur Örn (IP-tala skráð) 8.6.2010 kl. 21:13

6 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Marinó,

Veit lítið um þetta en sá frábært vídeó nýlega um nýja gáma prototype sem Microsoft menn eru að setja saman fyrir Windows Azure og Cloud Computing.  Hérna er linkur á þetta, datt í hug að menn hefðu e.t.v. gaman af að skoða þetta:)

http://tv.devexpress.com/#PDC09AzureBox.movie

Kveðja

Arnór Baldvinsson, 9.6.2010 kl. 21:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 201
  • Sl. sólarhring: 253
  • Sl. viku: 476
  • Frá upphafi: 1680764

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband