Leita í fréttum mbl.is

Á sundi með hákörlunum - Fundur um bílalánafrumvarp

Síðast liðinn föstudag fór ég fyrir hönd Hagsmunasamtaka heimilanna á fund efnahags- og skattanefndar til að greina frá afstöðu samtakanna til bílalánafrumvarps félags- og tryggingamálaráðherra.  Samtökin voru ekki ein um að vera boðuð á fund nefndarinnar þarna á föstudagskvöldi.  Sessunautar mínir samanstóðu af stórskotaliði bílalánafyrirtækjanna, þ.e. Magnús Gunnarsson, framkvæmdastjóri Avant, Halldór Jörgensen, framkvæmdastjóri Lýsingar, Kjartan Georg Gunnarsson, framkvæmdastjóri SP-fjármögnunar og Una Steinsdóttir frá Íslandsbanka.  Magnús, Kjartan og Una komu hvert um sig við annan mann.

Ég var síðastur til að mæta á nefndasvið Alþingis og biðu þau því öll í biðstofunni.  Magnús glotti þegar hann sá mig og kom með góðlátlegt grín um að ég væri að hætta mér út í með hákörlunum.  Ég veit svo sem ekki hvort bílalánafyrirtækjunum stendur meiri ógn af HH, en samtökunum af þeim.  A.m.k. hef ég aldrei orðið var við að fyrirtækjunum væri illa við samtökin, en alveg er ljóst að við hjá HH höfum ekki alltaf verið hrifin af því sem fyrirtækin hafa staðið fyrir.  Ég greip grín Magnúsar á lofti og sagðist ekki standa nein ógn af þeim, en hvort ekki hefði verið sniðugra að hittast undir öðrum kringumstæðum.

Ekki höfðum við mikinn tíma til að skiptast á orðum í biðstofunni, því við vorum kölluð inn til nefndarinnar.  Halldór Jörgensen tók fyrstur til máls.  Honum fannst fyrirvarinn stuttur og betra væri að fá að ræða málin á vettvangi SFF.  Hann sagði að ekki stæði annað til en að fyrirtækið hliti lögunum, en benti á að ákvæði frumvarpsins hentuðu ekki öllum.  Hann líkt og aðrir sessunautar okkar hafi mestar áhyggjur af 5. gr. sem gerir fólki í reynd kleift að skila bílum án þess að fyrirtækin hafi of mikla möguleika á að innheimta það sem eftir stendur (að þeirra mati).  Setja fyrirtækin út á tölulið c, en hann hljómar sem hér segir:

Lánveitandi getur ekki leitað fullnustu vegna eftirstöðva skuldbindingarinnar í íbúðarhúsnæði lántaka þar sem hann hefur skráð lögheimili og heldur heimili.

Ég er gjörsamlega ósammála fyrirtækjunum um að þetta útiloki innheimtu eftirstöðva.  Þau þurfa bara í sumum tilfellum að hafa meira fyrir því.

Halldór taldi að Lýsing myndi leita bóta verði frumvarpið samþykkt sem lög, þar sem verið væri að skerða lögvarinn eignarétt þess.  Þessi ummæli eru nokkuð merkileg í ljósi þess sem hann sagði síðar.  Inntakið í því sem hann sagði þá var:

Það væri betra fyrir Lýsingu, ef allir verða neyddir í þetta, þar sem áhrifin myndu verða mjög jákvæð fyrir fyrirtækið.  Tekjur þessu myndu stór aukast, vegna miklu hærri vaxta.  Vissulega myndi eigið fé lækka, en hagnaður eykst.

Fyrir mig var gott að heyra þetta, þar sem við hjá HH höfum einmitt haldið þessu fram, allt frá því að fjármálafyrirtækin fóru að bjóða höfuðstólslækkun gengistryggðra lána.

Una Steinsdóttir hjá Íslandsbanka benti á að frumvarpið byggði á frumdrögum af samkomulagi eignaleigufyrirtækjanna sem, að því mér skildist, hafði verið svæft vegna samstöðuleysis.  Hún, eins og aðrir frá fjármögnunarfyrirtækjunum, setti út á tæknileg atriði og vildi að SFF sendi inn sameiginlega umsögn.  Helgi Hjörvar, formaður nefndarinnar, sagði um það, að mikilvægt væri að fá umsögn frá hverju og einu fyrirtæki.  Hann vildi fá afstöðu fyrirtækjanna sjálfra til frumvarpsins.

Kjartan Georg Gunnarsson kvartaði yfir því að einstök atriði væru alls ekki aðgengileg, svo sem að mega ekki rukka vegna skilmálabreytinga.  Það er furðulegt, þar sem SP-fjármögnun stærir sig af því að hafa aldrei rukkað fyrir slíkt.  Verð ég að viðurkenna að sumt sem hann sagði var ekki alveg í samræmi við það sem fyrirtækið hans er að gera.  Hann kvartaði líka yfir því, að geta ekki gengið að íbúðarhúsnæði, ef fólk greiddi ekki eftirstöðvar lána eftir að bíllinn væri kominn í vörslu fyrirtækisins.

Ingvar frá Íslandsbanka bætti þá við að ákvæði 5. gr. gæti hreinlega kvatt fólk til að standa ekki í skilum eftir að það hafi fengið sína leiðréttingu.  Ástæðan er að í greininni er gert ráð fyrir að skuldir umfram verðmæti bifreiðarinnar lækki tvöfalt fyrir hverja krónu sem lántaki greiðir inn á eftirstöðvarnar.  Þannig gæti fólk með mjög dýra bíla í raun skilað þeim inn og fengið 50% afslátt á eftirstöðvarnar.  Mér finnst fyrirtækin gleyma því, að verð á notuðum bílum mun hækka til jafns við hækkun nýrra, þannig að líklega verða eftirstöðvarnar ekki svo miklar.  Einnig er að vænta dóms Hæstaréttar og þó ég gefi mér ekki niðurstöður dómsins, þá er ákveðnar líkur á því að hann falli lántökum í hag.

Magnús Gunnarsson hjá Avant var sá eini sem byrjaði á að lýsa yfir áhyggjum af viðskiptavinum sínum.  Staða þeirra væri slæm og nauðsynlegt væri að koma með úrræði sem bættu stöðu þeirra.  Kallaði hann eftir frekari úrræðum af hálfu stjórnvalda.  Umræðan um þessa aðgerð, sem felst í frumvarpinu, væri búin að taka allt of langan tíma.  Síðar viðurkenndi Magnús að fyrirtæki hans myndi að sjálfsögðu leita réttar síns yrði þessi lög sett.

Var þá röðin komin að mér.  Ólíkt sessunautum mínum, þá hafði ég gert ráð fyrir að samtökin yrðu boðuð með stuttum fyrirvara á þennan fund.  Höfðum við því byrjað að undirbúa okkur áður en fundarboðið kom og var ég því með tilbúna skriflega umsögn.   Í henni er farið yfir grunninn, þ.e. hrun krónunnar, efasemdir um lögmæti gengistryggingar, forsendubrest og fleiri slík mál.  En ég dvaldi ekki við það, þar sem ég ætlaði ekki að koma af stað deilum í salnum.  Benti ég þó á að í 1. gr. frumvarpsins er talað um höfuðstól í erlendri mynt á einum stað en að endurgreiðslur taki mið af gengi erlendra gjaldmiðla á öðrum.  Þetta er svona kjánalegt misræmi, þar sem flestir lántakar eru með lán af síðari gerðinni, en ekki þeirri fyrri.  Þegar ég ræddi þetta frekar, þá heyrðist hljóð úr horni: "Ég er ekki kominn hér til að fá fyrirlestur um lögmæti gengistryggðra lána".  Mér finnst þessi skoðun alltaf einkennilegri eftir því sem ég hugsa meira um hana, þar sem ég var einmitt að reyna að skýra betur út hvaða lán þetta eru, sem eiga að falla undir lögin, og tryggja að báðir aðilar, þ.e. lánveitendur og lántakar, geti verið vissir um að tiltekið lán falli undir lögin.  En líklegast var munurinn á mér og þeim sem rumdi þessu út úr sér, að ég hafði lesið frumvarpið, en viðkomandi ekki.  Ég tók það fram, að ekkert réttlæti væri í því að vera með 15% álag á hin skilmálabreyttu lán.  Refsingin væri nóg að breyta þeim í verðtryggð með 7,95% vöxtum eða óverðtryggð með 12,6% vöxtum.  Samtökin leggi áherslu á að fá 4% þak á árlegar verðbætur til að þvinga fjármagnseigendur til að taka þátt í að halda verðbólgunni niðri.

Kom þá að spurningum nefndarmanna.  Helgi Hjörvar spurði Kjartan Georg að því af hverju SP-fjármögnun væri að bjóða meiri afslátt en eigandinn (þ.e. ríkið) vildi að væri boðinn.  Hann velti líka fyrir sér hvort fyrirtækin færu í skaðabótamál.  Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hafði áhyggjur af skattaafslætti.  Þór Saari fannst skrítið að undanþiggja rekstrar- og einkaleigu?  Tryggvi Þór Herbertsson spurði um áætlaðan kostnað.   Pétur Blöndal velti fyrir sér væntanlegum dómi Hæstaréttar og áhrifum hans, en jafnframt furðaði hann sig á tali um skattskyldu, þar sem ekki hafði fólk fengið skattaafslátt þegar lánin hækkuðu.  Birkir Jón Jónsson vildi bíða eftir dómi Hæstaréttar.  Anna Margrét Guðjónsdóttir hafði áhyggjur af því að leiðréttingin væri ekki tekjutengd og spurði um afstöðu HH til þess.  Loks velti Helgi því upp hvernig fólk gæti notið ráðsendar.

Una tók af allan vafa um að Íslandsbanki ætlaði ekki í skaðabótamál.  Bankinn (þ.e. Glitnir) hafi verið þátttakandi í hruninu og vildi axla þá ábyrgð sem í því fælist.  Kjartan Georg benti á að oft lækkuðu greiðslur ekki vegna hærri vaxta (sama og HH hefur marg bent á).  Varðandi að SP væri að undirbjóða eiganda sinn, þá sagði hann að þegar væri búið að gera ráð fyrir vissum afföllum í uppgjöri milli nýja og gamla Landsbankans og fyrirtækisins.  Hann vissi ekki til að ríkið hefði beint einum eða neinum tilmælum til SP út af þessu, auk þess sem þetta hefði verið borið undir Árna Pál.  Svar Halldórs var ég búinn að nefna, þ.e. betra fyrir Lýsingu ef allir þæðu úrræðið.  Svar Magnúsar snerist um málsókn.  Auk þess nefndu allir hugsanlegan kostnað af þessu og stærð lánasafnanna, en þeim var nógu illa við að nefna þær tölur á fundinum, þó ég fari nú ekki að birta þær líka.  Allir voru loks sammála um að vanskil færu vaxandi, en væru samt ekki eins mikil og af hefur verið látið.  (Slíkar upplýsingar eiga að vera aðgengilegar á vef efnahags- og viðskiptaráðuneytisins, en ég fann þær ekki þegar ég kíkti áðan.)

Ég tók undir með Pétri (aldrei þessu vant Smile við erum mjög sjaldan sammála) að væri rangt að tala um skattskyldu á eitthvað sem fólk hafði ekki notið skattafsláttar af, né fæli í sér tekjur fyrir viðkomandi.  Ég svaraði spurningu Önnu Margrétar að samtökin hafi ekki viljað setjast í dómarasæti og kveða upp úr hverjir væru verðugir og hverjir ekki.  Samtökin teldu þó mikilvægt að fólk nyti ráðsendar, þ.e. að þeir sem hafi greitt af lánunum allan tímann eigi að njóta þess í svona aðgerð.  Ég sagði að í sjálfu sér skyldi ég ekki tilganginn með þessu frumvarpi.  Tveir sessunautar mínir hefðu bent á, að líklegast væri þetta fyrirkomulag hagstæðara fyrir fyrirtækin.  Sagðist ég ekki sjá muninn á að greiða 70 þús. kr. til Íslandsbanka í hverjum mánuði, annars vegar ef greiðslan skiptist jafnt á milli vaxta og afborgunar og hins vegar ef vextir væru 50 þ.kr. og afborgun 20 þ.kr.  Fyrir mér væri þetta sami peningurinn.

Að fundi loknum ræddu menn aðeins saman og var ljóst af þeim samræðum hverjir vilja sátt við viðskiptavini sína og hverjir eru bara fúlir á móti.  Nefni ég engin nöfn.  En niðurstaðan af þessu öllu er að hákarlarnir eru flestir illa tenntir og orðnir heilsulausir.  Staða þeirra er mjög erfið og þessi fyrirtæki eru að róa lífróður.  Ég er alveg sannfærður um að staða þeirra væri mun betri, ef þau hefðu tekið einhverju af þeim mörgu boðum Hagsmunasamtaka heimilanna að setjast niður og ræða málin.  Aldrei verður samstaða um úrlausnir á skuldavanda heimilanna sem koma frá fjármálafyrirtækjunum og miða bara við þeirra hagsmuni.  Skiptir þá engu máli hvort Árni Páll láti starfsmenn sína yfirfara efni tillagnanna eða ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Takk fyrir þennan fróðleik Marínó. Þú ert sannarlega einn af okkar betri baráttumönum og átt mikið heiður skilið. Það er ekki öfundsvert að sitja þarna gengt hákörlum af þessu kaliberi, fólki sem jafnvel er gersneytt allri hluttekningu og réttlætiskennd. Fólki sem samsamar sig fyrirtæki því sem það vinnur hjá og sér ekki út fyrir ramma þess. Sér ekki samhengi hlutanna og stóru myndina. Fólk sem á þó að vera vel menntað og þjálfað í að sjá stóru myndina.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 8.6.2010 kl. 09:03

2 Smámynd: Billi bilaði

Takk fyrir góðan pistil og frábært starf.

Billi bilaði, 8.6.2010 kl. 12:18

3 identicon

Góður pistill að vanda - ég er líka sammála Pétri Blöndal (þó ég sé það langt í frá alltaf) af hverju ætti að skattleggja lækkun þegar aldrei var gefinn neinn skattaafsláttur við hækkunina (stökkbreytinguna réttara sagt)... Ótrúlegt réttlæti eða hitt þó heldur ef slíkt væri framkvæmt - þá tel ég nú ástæðu til að fara fyrir mannréttindadómstólinn og ég myndi ekki hika við það. Síðan gleymist alltaf þetta með eignarétt þeirra sem eiga íbúðir - af hverju má sá sem veitir lán endalaust seilast inn í eign þess sem tók lániið og fara út fyrir þá eign sem tekin var að veði. Ótrúlegt réttlæti enn og aftur. Hvað varðar "áhyggjur" Önnu Margrétar af því að leiðrétting sé ekki tekjutengd þa held ég að hún ætti að hafa áhyggjur af öðru en því þar sem ég skil ekki hvað tekjur koma málinu við - það gæti farið að borga sig að segja starfi sínu lausu og fá leiðréttingar - og hvar er þá hvatinn í kerfinu til að vinna og skapa verðmæti í þessu samfélagi ef þeir sem eru með meðal eða hærri tekjur þurfa að taka á sig ALLT tjónið af hruninu. Anna Margrét þér er alveg óhætt að sofa róleg yfir því - ýmislegt annað merkilegra og meira sem má hafa áhyggjur af núna.

Arney Einarsdóttir (IP-tala skráð) 8.6.2010 kl. 21:41

4 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Mér finnst full ástæða til þess að þú nefnir hverjir eru tilbúnir til sátta við viðskiptavini sína og hverjir eru fúlir á móti. Þá geta alla vega þeir sem vilja sátt notið sannmælis þar að lútandi.

Erlingur Alfreð Jónsson, 15.6.2010 kl. 21:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband