Leita í fréttum mbl.is

Smákökubakstur og skriftir á vefsvæðum

Ég get ekki annað en furða mig á öllum þeim smákökum (cookies) sem ætlast er til að maður baki á ferð um veraldarvefinn.  Varla er hægt að opna eina einustu síðu án þess að beðið er um skrifa smáköku niður á tölvu hjá manni eða óskað er eftir að smákaka sé send út.  Ég verð að viðurkenna, að ég skil ekki þessa hnýsni sem í þessu felst.  Til hvers þarf einhver vefþjónn að vita að ein eða önnur mynd hafi verið birt í vafra úti í bæ frekar en á Akureyri.  Og hvers vegna þarf að senda köku fyrir hverja einustu mynd, sem birtist á síðu, þegar ljóst er að sá sem opnar síðuna mun óhjákvæmilega fá þær allar upp á skjáinn hjá sér. 

Sama á við skrift (script).  Í mjög mörgum tilfellum er nánast enginn tilgangur með því að keyra skrift á tölvu notanda (annar en hnýsni).  Oft er skrift notað vegna þess að vefforritarinn annað hvort kann ekki á vefforritið eða nennir ekki að nota aðra aðferð.

Þessar endalausu beiðnir um að hlaða niður eða senda smákökur og keyra upp skrift er gjörsamlega óþolandi.  Fyrir utan alla umferðina sem þetta veldur á internetinu, þá hægir þetta á vöfrum og flytur oft með sér óværur.

Ég loka fyrir allar smákökur, nema þær sem ég sérstaklega samþykki.  Sama á við um skriftir.  Niðurstaðan er mun hraðvirkari vafri, þó það valdi stundum óþægindum, þar sem sumar síður vilja ekki birtast nema þetta rusl sé samþykkt.  Oft er það bara af hinu góða, en alloft verð ég að gefa eftir og hleypa þessum óþverra inn á tölvuna.  Sem stendur hef ég lokað á 13.754 smákökusendingar og 3.750 skriftir.  Ég hef líka neyðst til að opna fyrir allt of margar skriftir, sem er mér mjög á móti skapi, þar sem skriftir innihalda oft njósnaforrit eða opna leið fyrir þau inn á tölvur.  Hef ég nokkrum sinnum staðið skriftir að slíku.  Mikið verður gaman, þegar menn læra að búa til vefsíður án þess að treysta á smákökur og skriftir.

Stærsti vandinn við þessa útbreiddu notkun á smákökum, er að það er líklegast brot á persónuverndarlögum.  Í eðli sínu eru smákökur alveg sambærilegar við eftirlitsmyndavélar.  Verið er að fylgjast með því hverjir heimsækja vefsíður, hvaða síður eru skoðaðar, hvaðan viðkomandi kom og jafnvel hvert hann fer.  Þetta er oft mjög gróf kortlagning á vefsiðum einstaklingsins.  Sumar skriftir æða beint í söguslóð vafrans og drekka þar allt í sig.  Upplýsingarnar eru miskunnarlaust sendar í heimildarleysi til vefþjóns á internetinu og síðan seldar til aðila sem sérhæfa sig í að búa til persónusnið.  Þetta eru oft mjög grófar persónunjósnir, þó oftast sé þetta sárasaklaust.  Hvort sem það er, þá eru flestar smákökur gjörsamlega óþarfar.

Ein óværan er í viðbót byrjuð að herja á fréttasíður hér á landi.  Ég get ekki kallað þetta neitt annað en óværu, þar sem þetta drepur niður alla umferð og stoppar vafrann.  Það er þegar síður sækja efni til ytra vefþjóns, sem ræður engan veginn við álagið sem þessu fylgir.  Þó maður vilji er ekki hægt að loka á slóðina, þar sem vefsíðan heimtar að gagnastreymið sé sótt.  Skæðasti vefþjónninn í þessum hópi er án efa upload.jl.is, en hann virðist eitthvað vanstilltur.  Það getur ekki verið skynsamlegt að sækja gagnastreymi þangað í tíma og ótíma bara svo hægt sé að sýna trailer eða ofhlaðna bankaauglýsingu viðstöðulaust í glugga vafrans.  Mér finnst ég geta gert þá kröfu til þeirra sem hanna veðsíður að halda í lágmarki þeim gögnum sem hlaða þarf niður í hvert sinn sem síða er opnuð.  Tökum t.d. síðu á dv.is þar sem birt er hver einasta forsíða blaðsins frá því 2007.  Til hvers?  Algengast er að maður ætli að skoða nýjasta tölublaðið, þegar síðan er opnuð og því er nóg að sýna það og kannski það síðasta á undan.  Svona sóun á auðlindum internetsins ætti að vera refsiverð.Grin

Mér finnst oft sem það vanti betra skipulag og meiri hugsun bakvið hönnun vefsíðna.  Það er eins og þeir sem sjái um slíkt séu meira og minna sjálfmenntaðir og hafi því ekki skilning á því hvaða kostnað síða hefur í för með sér og hve oft er auðvelt að gera síðunna ódýrari án þess að það sé á kostnað gæða.  Ekki að ég hafi neina haldbæra reynslu af vefsíðuhönnun í seinni tíð, en þegar ég bjó til mína fyrstu síðu í kring um 1994, þá voru smákökur og skriftur ekki notað.  Í seinni tíð hef ég eftirlátið fagmönnum að hanna síður fyrir mig og komist að því að það er bæði fljótlegra, ódýrara og gefur betri árangur.  Vandinn við fagmennina er á hinn bóginn, að þeir kunna betur á alla hnýsitæknina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Ég loka fyrir allar smákökur, nema þær sem ég sérstaklega samþykki. 

Þetta er ástæðan fyrir ónæðinu hjá þér ..

Óskar Þorkelsson, 27.5.2010 kl. 04:02

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Óskar, ég hefði haldið að ónæðið ykist með því að opna allt upp á gátt, þó svo að það verði ekki eins sýnilegt.

Marinó G. Njálsson, 27.5.2010 kl. 08:58

3 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Ég hef allt mitt á middels low security, samþykki allar kökur.. og hef vírusvörnina í lagi. Ég hef enn ekki fengið nein vandamál á tölvuna mína og hef ég verið nettengdur í amk 15 ár. 

Þetta kökudót flýtir fyrir hleðslunni á síðunni.. eneins og þú segir í greininni þá getur allskonar drasl fylgt með

Óskar Þorkelsson, 27.5.2010 kl. 14:16

4 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Marinó,

Ef þú átt við Active-X script þá læt ég IE spyrja um leyfi til þess að nota Active script.  Ég nota javascript talsvert og hef ekkert við það að athuga, þó ber að huga að stærð skráa og sama á við um css skrár og hugsanlega nota "minifier" forrit til að þjappa skrárnar áður en þær eru settar á server.  Hvað cookies varðar þá læt ég þær að mestu leyti afskiptalausar - flestar sem koma inn hjá mér eru notaðar til þess að munda eftir login (ég nota það aldrei á ferðatölvunni!) og ég fer nokkuð reglulega í gegnum þetta dót og hreinsa út.  Ef ég man rétt þá eru Session líka meðhöndlaðar sem cookies en Sessions eru mikið notaðar til að geyma login eða authorization upplýsingar, t.d. nota ég Sessions á mínum svæðum (skrifuð í php).  En ég fer mjög sparlega með þetta!  Sum vefsvæði eru alveg ömurleg og eru með sessions og cookies sem og active-x script út um allt. 

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 27.5.2010 kl. 23:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband