Leita í fréttum mbl.is

Bónusgreiðslur - einn af sjúkleikum bankakerfisins.

Fimmtudaginn 20. maí féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli Flemmings Bendsens gegn Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka vegna kröfu Flemmings um að kröfur hans til slitastjórnar bankans verði viðurkenndar sem forgangskröfur.  Ég ætla ekki að fjalla um dóminn hér heldur kröfurnar.  Í dómnum segir um þessar kröfur (feitletrun er mín):

Dómkröfur sóknaraðila eru þær aðallega að kröfur hans til slitastjórnar varnaraðila dagsettar 7. júlí 2009 að fjárhæð GBP 532.082,89 og að fjárhæð GBP 40.648,11 verði samþykktar sem forgangskröfur samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991.

Til vara krefst sóknaraðili þess að kröfur hans til slitastjórnar varnaraðila, dagsettar 7. júlí 2009 að fjárhæð GBP 532,082,98 og að fjárhæð GBP 40.648,11, verði samþykktar sem almennar kröfur samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

Skoðum nú hvernig þessar kröfur eru til komnar, en því er lýst í dómnum (feitletrun er mín):

Sóknaraðili gerði ráðningarsamning við varnaraðila hinn 2. mars 2007 er hann réði sig til starfa sem starfsmaður á sviði eigin viðskipta hjá varnaraðila.  Í 4. grein ráðningarsamningsins er fjallað um endurgjald sóknaraðila fyrir vinnu í þjónustu varnaraðila.  Samkvæmt grein 4.1 voru grunnlaun sóknaraðila EUR 187.000 á ári.  Í grein 4.2, sbr. viðauka 1 við ráðningarsamninginn er fjallað um kaupaukagreiðslur. Í lið 2 í viðauka 1 við ráðningarsamninginn er fjallað um hagnaðarhlutdeild sóknaraðila og kaupaukagreiðslur hans skilgreindar.  Í lið 2.3 í viðauka 1 við ráðningarsamninginn er tekið fram að varnaraðili geti frestað 25% af kaupaukagreiðslum í 12 mánuði og öðrum 25% í 24 mánuði.  .

Samhliða ráðningarsamningi gerðu aðilar með sér samkomulag um að sóknaraðili tæki að sér nánar tilgreint verkefni fyrir varnaraðila.  Þar kemur fram að sóknaraðili skuli fá fyrir verkefnið greiddar EUR 1.550.000, eða sambærilegt verðmæti hluta í varnaraðila, í einni greiðslu eða þremur jöfnum afborgunum á þriggja ára tímabili, enda sé hann enn starfandi eða að deild á sviði eigin viðskipta sé enn starfrækt.   Þá segir enn fremur að ef starfsmaður hættir vegna ástæðna sem tilgreindar eru í liðum 3.1 og 3.2 í viðauka 1 við ráðningarsamninginn, meðal annars þeirrar að því að dregið sé úr starfsemi fyrirtækis og því nauðsynlegt að fækka starfsfólki, eigi hann rétt á fullri greiðslu samkvæmt samkomulaginu.

Ég veit ekkert hver þessi Flemming Bendsen er og veit því ekki hvort hann sé EUR 1.550.000 virði fyrir verkefni utan vinnutíma til viðbótar við EUR 187.000 sem hann fékk fyrir vinnu frá 9 - 5 virka daga, auk ýmissa hlunninda og aukagreiðslna sem almennt fylgja störfum.  Þessar tölur sýna fyrst og fremst hvaða rugl viðgekkst og viðgengst ennþá í fjármálakerfinu.  Maðurinn fær EUR 187.000 + hlunnindi árlega fyrir að gera það sem hann á að gera og svo þrefalda þá tölu fyrir eitthvað sem hann gerir utan vinnutíma.  Maður getur svo sem velt fyrir sér hvað það var sem Flemming var að gera aukalega fyrir Straum, en líklegast var hann ekki fylgdarsveinn bankastjórans.  Augljósa svarið er að verið var að kaupa mann með tengsl, sem þýðir þá líka að hann var fenginn frá öðru fjármálafyrirtæki og byrjaði á því að brjóta trúnað við viðskiptavini þess með því að kjafta í sinn nýja vinnuveitanda hverja hann hafði áður í viðskiptum.  Þetta var svo kallað "sign-on fee".  Öll fjármálafyrirtæki ganga meira og minna út á slíkan óheiðarleika starfsmanna, þ.e. menn eru keyptir frá einu fyrirtæki til annars til að tappa af tengslaneti þeirra.

Ég get tekið mýmörg dæmi um fáránleikann í skiplagi launamála hjá fjármálafyrirtækjum.  Hvað hafa t.d. starfsmenn Goldman Sachs að gera við nokkra milljarða dala í bónusa, þegar launagreiðslur til þeirra námu um 20% af bónusum.  Hvers konar bónus kerfi er það, sem greiðir fólki fimmföld laun fyrir að vinna vinnuna sína?  Og hvaða áhrif hefur slíkt bónusakerfi á fjármálakerfið?

Því hefur verið haldið fram, að hluti af skýringunni á fjármálakreppunni séu hinir brjálæðislegu kaupaukar sem menn fengu.  Ekki var spurt út í gæði teknanna eða framtíðarávöxtun, stundargróðinn var það eina sem skipti máli.  Hér á landi höfum við heyrt af kaupaukum Hreiðars Más Sigurðssonar sem virtust hafa þann eina tilgang að gera hann að skattkóngi landsins.  Já, metnaður manna er misjafn.  Það hefði kannski verið betra að metnaður hans hafi verið til heiðarlegra viðskiptahátta.

Ég er hlynntur því að komið sé á ofurtekjuskatti í anda Bítlalagsins Taxman, þ.e. 95% skatt á launa- eða launatengdar tekjur yfir 100 milljónum á ári.  Ok, 95% er kannski nokkuð snarpt, en eitthvað verulega meira en þessi 48% sem ýmsir almennir launamenn þurfa að greiða í dag.  Ég tek með launatengdar tekjur, þar sem taka þarf fyrir það, að hægt sé að færa tekjur yfir í eitthvað torkennilegt form til þess eins að borga lægri skatt.  Mér finnst t.d. vera regin munur á því að fólk fái kauprétt á hlutabréfum í samræmi við starfstíma þess hjá fyrirtæki, þ.e. ávinni sér rétt með hverjum mánuðinum sem það vinnur, og að fá kauprétt sem árlegan kaupauka vegna þess að launin eru ekki talin duga til að halda viðkomandi ánægðum.

Breyta verður skattkerfinu til að koma í veg fyrir svona vitleysu og það verður líka að breyta skattkerfinu, þannig að ekki sé hægt að flytja hagnað eða arð úr landi til lands með lægri skatthlutfall nema að greiddur sé munurinn á þeim skatti sem þar er greiddur og þeim skatti sem ætti að greiða hér á landi.  Með þessu er lokum skotið fyrir skattahagræðingu í skattaparadísum.  Mín hugmynd er að skattleggja tekjur/fjármagnstekjur hér á landi samkvæmt íslenskum reglum áður en fjármagnið er flutt úr landi, en síðan getur viðkomandi aðili sótt um endurgreiðslu gegn kvittun fyrir sannanlega greiddum skatti annars staðar og þá eingöngu á þeirri upphæð sem var greidd annars staðar.  Með þessu er einfaldlega ekki hægt að skjóta tekjum og eignum undan skatti.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 82
  • Sl. viku: 276
  • Frá upphafi: 1680564

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband