Leita í fréttum mbl.is

Vogunarsjóðirnir vinna - Evrópa lögð að veði

Risastór björgunarsjóður hefur verið stofnaður.  Í hann eiga að renna 750 milljarðar evra.  Þetta er engin smá upphæð, en samt ætlar enginn að leggja fram eitt cent, ef marka má fréttaflutning á BBC World.

Mér sýnist sem stofnun þessa sjóðs sýni og sanni að vogunarsjóðir og spákaupmenn hafa unnið.  Fyrir þremur árum hófst mikil atlaga að fjármálakerfi heimsins.  Áður var búið að skapa þær aðstæður, að alls konar eignarbólur höfðu myndast hér og þar.  Búið var að fá alla til að spenna bogann til fulls.  Fjölbreyttum, vafasömum fjármálavafningum hafði verið smyglað inn á markað með aðstoð matsfyrirtækja, en framhjá eftirlitsaðilum.  Með þessu var hluti fjármálafyrirtækja og fjárfesta um allan heim í raun þurrmjólkaðir og skuldsettir upp í topp.  Þetta var fyrsti hluti í þríleik, en hann felst í því að undirbúa jarðveginn.  Í þætti tvö er skrúfað fyrir flæði hagstæðs fjármagns inn á markaðinn.  Þetta er sama trix og notað hefur verið varðandi ýmsa hrávöru. Framboð á hrávöru var heft af aðilum sem yfirbuðu gömlu markaðsaðila, þannig að framleiðendur gátu ekki lengur fengið hrávöruna nema gegn uppsprengdu verði.  Þetta veldur annars vegar skorti og hins vegar miklum verðhækkunum.  Þar sem þetta samráð nær yfir landamæri, er engin stofnun sem fylgist með þessu.

Nú var komið að því að nota þessa aðferð á fjármálakerfið.  Menn vildu sjá hve langt væri hægt að ganga, hvort stjórnvöld og seðlabankar kæmu bönkunum til bjargar og hve miklu fé þessir aðilar væru til í að veita til fjármálafyrirtækjanna.  Fyrsta skrefið var að veita ótakmörkuðu fé inn á markaði sem þurfti að endurfjármagna eftir nokkur ár.  Skref tvö var að skrúfa upp vexti.  Fjármálafyrirtækjum stóð allt í einu ekki lengur til boða ódýrt fjármagn.  Það varð til þess, að vextir viðskiptavina fjármálafyrirtækjanna urðu að hækka.  Tímasetningin var valin af kostgæfni.  Komið var að endurskoðun vaxta íbúðalána hjá stórum hópum bandarískra húsnæðiskaupenda.  Þessir aðilar höfðu reiknað með því að geta endurfjármagnað lán sín á lágum vöxtum, enda hafði þeim verið talin trú um það við lántöku.  Nei, nú buðust ekki lengur lágir vextir og því margfölduðust vextir lánannaí samræmi við ákvæði lánasamningsins.  Afleiðing var greiðslufall gríðarlegs fjölda lántaka.  Í gang fór keðjuverkun og fjármálafyrirtæki um allan heim börðust fyrir lífi sínu.  Fjármálafyrirtæki um allan heim þurftu nauðsynlega innspýtingu fjármagns.  Þeir sem mergsogið höfðu fyrirtækin lögðu ekkert fram sjálfir.  Hlutafé fyrirtækjanna var ekki aukið með útboði.  Nei, fé var sótt til stjórnvalda.  Þáttur þrjú í þríleiknum hófst og hann felst í að ná í sem mest opinbert fé.

Bretum og Bandaríkjamönnum dældu ómældum upphæðum í sínar fjármálastofnanir, meðan  stjórnvöld í nokkrum öðrum löndum sögðu strax að þau ætluðu ekki að gera neitt, heldur ættu bankarnir að taka til í eiginn ranni.  Menn tóku við peningunum fyrrnefndu löndunum og vildu meira, en í Þýskalandi, Sviss og Frakklandi, þá gerðist ekkert.  Vissulega stóðu bankar tæpt, en ekkert meira en það.  Einn og einn fór á hliðina, en það gerist af og til alls staðar.  Sama átti við um Spán, Ítalíu, Írland, Portúgal og mörg önnur Evrópulönd.  Ríkisstjórnir lofuðu svo sem alls konar stuðningi, en ekki innspýtingu fjármagns eða þá að slíkri innspýtingu fylgdu skilyrði sem tryggðu að peningana var bara hægt að nota á tiltekinn hátt.

Mér fannst þetta allt lykta af kúgun þá og ennþá finn ég lykt af kúgun.  Vogunarsjóðir og spákaupmenn eru að skoða hvað þeir geta gengið langt.  Hvað þeir geta náð í háar upphæðir úr ríkissjóðum hinna ýmsu landa.  Þegar ekkert gekk með voldugu þjóðirnar innan evrusvæðisins, þá var fundin önnur leið.  Leitað var að veikasta hlekknum.  Gerð var atlaga að Grikklandi.  Knýja átti evruríkin til að leggja fram pening.  Og það tókst.  Vissulega er staða Grikkja slæm, en undir eðlilegum kringumstæðum á fjármálamörkuðum, þá hefðu þeir líklegast unnið sig út úr vandanum.  En þá komu matsfyrirtækin og spiluðu út sínum trompum.  "Lækkum lánshæfiseinkunn Grikklands.  Landið ræður ekki við það."  Seðlabanki Evrópu er svo ósáttur við þessa ákvörðun, að hann ákvað að hunsa hana!  Svo var sótt að Portúgal með sama hætti, þó svo að ríkisfjármál þar séu í nokkuð góðum málum.  Mun betri en t.d. í Bretlandi.  Sama á raunar við um Grikkland.  Halli á breskum fjárlögum er meiri en í flestum löndum Evrópu að Íslandi undanskyldu.  En það furðulega við stöðu Portúgals var, að ekkert hafði breyst í fjármálum ríkisins í nokkra mánuði áður en matsfyrirtækin ákváðu að lækka lánshæfismat ríkisins. Lækkunin var tilhæfulaus með öllu og raunar hafði ríkisstjórn landsins reiknað með að einkunnin myndi hækka við næsta endurmat.

Nú Grikkir leituðu á náði AGS í síðustu viku.  Þá hefði maður nú haldið, að menn yrðu rólegir.  Nei, heldur betur ekki.  Gerð var árás á evruna með það í huga að splundra evrusamstarfinu.  Það hrikti í ýmsum stoðum síðustu 5 daga og á neyðarfundi um helgina gáfu fjármálaráðherrar ESB eftir.  750 milljarða evru sjóður var stofnaður til að verja evrusvæðið, en ekki bara það.  Samkvæmt frétt á BBC World í dag, þá eiga lönd utan evrusvæðisins og jafnvel utan ESB að geta fengið stuðning frá þessum sjóði.  Sjóðurinn og Seðlabanki Evrópu eiga að geta keypt bæði ríkisskuldabréf og skuldir ríkisstjórna og einkaaðila (BBC World: "The European Central Bank (ECB) also announced that it would buy eurozone government and private debt".) Þetta er 180 gráðu stefnubreyting hjá ECB.  Við stofnun hans var tekið skýrt fram að bankinn myndi aldrei kaupa ríkisskuldabréf.  (Var þetta kannski umræðan í stjórnarráðinu um helgina, að ECB hafi boðið íslenskum stjórnvöldum slíkan pakka?  Fundurinn minnti eitthvað svo á nokkra daga haustið 2008.)

Niðurstaðan er sem sagt, að vogunarsjóðum og spákaupmönnum tókst að fá ESB ríkin til að veðsetja Evrópu til að bjarga Grikklandi og evrunni. 750 milljarðar evra er meira en 1.000 evrur á hvert mannsbarn í ESB.  Það er vissulega ekki eins mikið og lagt hefur verið á okkur vesalings Íslendinga, en 1.000 evrur eru fyrir suma Evrópubúa eins og 10.000 evrur eru fyrir okkur.  Og það á eftir að koma í ljós hvort þetta sé nóg.

Ætli þessu sé lokið núna?  Það er búið að fella Suður-Ameríku, Japan, Suð-austur Asíu, Rússland, Bandaríkin, Bretland og núna ESB.  Ætli Kína sé næst.  Ástralía og Nýja-Sjáland eru líklegast ekki nógu merkileg svæði.  Indland og Afríka urðu fyrir ótrúlega ósvífinni árás í formi matvælaskorts.  Síðan hafa allir þurft að líða fyrir bensínkreppu eða eigum við kalla það bólu. 

Ég held að það sé kominn tími til að stöðva þessa aðila sem telja sig geta ráðskast með allt og alla.  En það er hægara sagt en gert.  Ástæðan fyrir öllu þessu er afleiðuviðskipti sem eru jú ekkert annað en hrein og bein veðmál.  Þetta er eins og með íþróttakappleiki.  Þegar of margir eru búnir að veðja á sömu úrslit í sama leik, þá er maðkur í mysunni.  Sama á við um þessa óreglu í fjármálalífi heimsins og viðskiptum.  En höfum í huga, að afleiður í gangi í heimunum er sagðar vera að verðmæti 700.000 milljarðar USD (e. 700 trillion dollars).  Það er 750 föld talan sem ESB og AGS ætla að leggja í evrópska björgunarsjóðinn.  Árleg heimsframleiðsla er um 60.000 milljarðar USD.  Menn munu gera allt til að verja þessa 700.000 milljarða USD.  Fall Lehman Brothers sannaði það.  Í fleiri daga sátu menn á sérstökum fundum við að vinda ofan af afleiðunum sem Lehman átti og ekki hefur verið gefið upp hver niðurstaðan var.  Líklegast töpuðu fáir, þar sem eðli afleiða er að menn taka stöðu í einu og síðan mótstöðu í einhverju öðru.  En afleiðurnar munu halda áfram að sveima um hagkerfi heimsins og veðmál verða lögð einhverju nýju svæði til höfuðs fljótlega.  Líklegast verður reynt að ná í eins mikið af 750 milljarðar sjóðnum og hægt er og síðan færa menn sig um set.  Þríleikurinn góði verður endurtekinn aftur og aftur:  1) undirbúa jarðveginn, 2) stoppa blóðflæðið, 3) ná í sem mest af innspýtingunni hvort sem hún er í formi ríkisframlaga eða endurfjármögnunar.

Ef einhver heldur að ég sé haldinn einhverri paranoju, þá er það alveg vel hugsanlegt.  Ég er bara búinn að fylgjast með þessu gerast of oft of víða til að trúa því að þetta sé allt tilviljun.  Ég þarf svo sem ekki að líta út fyrir landsteinana, því þetta er nákvæmlega það sem gert var hér á landi varðandi gengistryggðu lánin, er galdurinn á bak við verðtryggðu lánin, var markmiðið með húsnæðisbólunni og hlutabréfabólunni.  Markmiðið er alltaf það sama:  Eins mikil eignatilfærsla og hægt er að koma í kring frá fórnarlambinu til gerandans.  Gerandinn finnur til máttar síns og telur sig hafa völdin, en um leið og sigurvíman líður úr honum, þá þarf hann nýtt plott og nýtt fórnarlamb.


mbl.is Gríðarlegar hækkanir á mörkuðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Davíð Þ. Löve

Góður pistill hjá þér.Eðlilegt að menn furði sig á þessu rugli. Þetta er eins og krabbamein í kerfinu. Hvernig í djöflinum er hægt að eyða þessari óværu?

Davíð Þ. Löve, 10.5.2010 kl. 23:27

2 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Ég bendi á eigin umfjöllun -

-------------

Þakka góðan pistil.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 10.5.2010 kl. 23:30

3 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Áhugaverð samsæris kenning - ekki viss hvort ég kaupi hana.

En, ég bendi á, að Grikkland stendur frammi fyrir þeim vanda, að mjög margir hafa stæka vantrú á, að Grikkland geti mögulega staðið undir þeim skuldum, sem munu hlaðast á landið.

Þ.e. alveg rökrétt þá, ef þ.e. útbreidd skoðun, að þá sefist markaðurinn ekki, heldur verði hann enn hræddari.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 10.5.2010 kl. 23:35

4 identicon

Einmitt.

Það þarf að hugsa þetta kerfi upp á nýtt. Þessi áhlaup eru í raun ekkert annað en ráðabrugg ákveðinna aðila sem ákveða í krafti stærðar og sameiginlegra innherjaupplýsinga hvert markaðurinn fer.

Anna María (IP-tala skráð) 10.5.2010 kl. 23:49

5 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Góð pæling. En af hverju getum við ekki alla vegana, bannað starfsemi vogunarsjóða og stöðutökur og afleiðuviðskipti? Allt eru þetta loftbóluviðskipti með engin verðmæti. Þetta er eins og þegar menn eignfærðu kvótann og bjuggu til verðmæti sem eru ekki til.
Og í stað þess að núlla þessa eignfærslu núna og taka kvótann af útgerðunum með einu pennastriki, þá gapir hver hagfræðingurinn upp í annan með yfirlýsingar byggðar á þessari grundvallarvillu að útgerðirnar þoli ekki þessa útgjalda aukningu.

(Var þetta kannski umræðan í stjórnarráðinu um helgina, að ECB hafi boðið íslenskum stjórnvöldum slíkan pakka?  Fundurinn minnti eitthvað svo á nokkra daga haustið 2008.)

Kæmi mér ekki á óvart. Þessi Ríkisstjórnarfundur var sko enginn "vinnufundur" 

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 11.5.2010 kl. 04:13

6 Smámynd: Dingli

 paranoju

Dingli, 11.5.2010 kl. 04:22

7 Smámynd: Dingli

 Úbs! Var eitthvað að bakka, hálf missti af músinni og sendi óvart.

Þú ert ekki með paranoju. Jóhannes Björn, hefur talað á þessum nótum í mörg ár. Man eftir merkum kana (sem ég man ekki hvað heitir) tala um það í Silfrinu, að fjármálakerfi heimsins væri ónýtt vegna afleiðusamninga sem væru margfalt efnahagskerfi allra landa heims.

Það virðist sem svo, að flestir viti að kerfið er ónýtt, en vandinn við að uppræta ósóman er pólitískt viljaleysi. Beinar og óbeinar mútur til flokka og einstaklinga, er hugsanleg ástæða þess að ekki hefur verið á þessu tekið enn. Nú virðist þó sem að stutt sé í endalokin og þá gerist auðvitað, tja..eitthvað? 

Dingli, 11.5.2010 kl. 04:54

8 Smámynd: Gerður Pálma

Be aware if you dare. Það sem nú er að gerast í fjármálum alheimsins er stjórnað af helsjúku  fólki  þar sem græðgin hefur yfirtekið siðferðið og orsakað samfélagsblindu. Þetta er veiki sem virðist eiga greiðan aðgang að stórum hluta mannkyns og erfitt er að lækna en til þess að viðhalda lífi á jörð verður að ráðast gegn af öllu afli.  

Gerður Pálma, 11.5.2010 kl. 06:51

9 Smámynd: Jón Lárusson

Þetta kemur svo sem ekki á óvart, enda kerfið gírað inn á þetta. Ég hef nú verið að benda á gallana við þetta og reyndar hef minnst á það á blogginu hjá mér að það sé stutt í seinna fallið á mörkuðum.

Ef benda þarf á einhvern sökudólg eða áhrifavald í núverandi ástandi, þá er það fjármálakerfið sem við búum við. En það virkar einfaldlega þannig að við erum keyrð í þrot á um 15 til 20 ára fresti. Þetta kerfi gengur út á skuldsetningu einstaklinga og samfélaga í þeim eina tilgangi að hafa af þeim verðmæti, það er að segja raunveruleg, ekki peninga.

Ég ætla ekki að fara út í smáatriði hér, enda væri það allt of mikill texti til að nokkur gæti lesið hann, en ég bendi hins vegar á www.umbot.org, en þar er hægt að lesa sig til um hvernig þetta kerfi virkar, en ekki síður er þar hægt að finna leiðir til að losna undan þessu kerfi.

Mín skoðun er einfaldlega þessi; ef við ætlum að nota núverandi fjármálakerfi til að byggja upp "nýtt Ísland" þá höfum við ekkert lært. Ef við hins vegar stígum skrefið sem þarf að stíga og skiptum um fjármálakerfi, þá munum við ná okkur út úr þessu rugli á um 12 mánuðum og ekki standa frammi fyrir því að vera tekin í bakaríið að 15 til 20 árum liðnum.

Lausnin er til staðar, spurningin er bara hvort við höfum hugrekkið til að stíga skrefið.

Jón Lárusson, 11.5.2010 kl. 08:48

10 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sælir. Þessi lækning dugði vel í einn dag. Nú er kominn annar dagur og allt á niðurleið aftur. Það sem er að drepa vestræn ríki er stöðugleikinn. Eina leiðin út úr þessum vanda er verðbólga án verðtryggingar lána. Hún verðfellir peningana, gerir skuldirnar viðráðanlegar. Við skulum hafa í huga í fjármálaöflunum þótti hér áður fyrr of margir gjaldmiðlar, of mikil verðbólga og of mikill óstöðugleiki í efnahagsmálum ríka koma í veg fyrir að fjármálakerfi heimsins þrifist vel. Það var of mikið um töp í því. Nú hefur verið fækkað gjaldmiðlum, komið á stöðugleika og dregið úr verðbólgu í öllum helstu hagkerfum heimsins. Í staðinn höfum við fengið fjármálakerfi sem er að drepa öll vestræn ríki. Þetta kerfi er að éta allra síðustu molana af diski Evrópu. M.a. að þessi 10 þús. milljarða aðstoð saddi hungrið bara í einn dag, þá tekur ekki margar vikur að klára þessa mola.

En eina leiðin út úr þessum vanda, til að ná einhverju jafnvægi aftur, er verðbólga og óstöðugleiki. Þannig verða peningarnir aftur fluttir frá vogunarsjóðum og alls kynns fjármálasvartholum inn í hagkerfi ríkjanna á ný.

Jón Pétur Líndal, 11.5.2010 kl. 08:57

11 identicon

Sammála , afleiðuviðskipti og vogunarsjóðir sem er í raun skilgetin afkvæmi slíkra viðskipta eru eiturpakkar í fjármálaldæmi heimsins, og þetta "senario" sem þú setur upp gæti vel verið raunverulegt, frekar en að það sé uppkast af plotti í næsta metsölureyfara.

Hér fyrir neðan er  'linkur' í grein frá 2008 á fjármálasíðu Daily Telegraph í Fretlandi  þar sem er verið að fjalla um Bear-Stearns hrunið í USA sem var þá nýbúið að ske (og var í raun einn af fyrirboðunum um það sem koma skyldi) , hún er nokkuð fróðleg svona eftirá að hyggja, og tónnin í skrifaranum væri sennilega nokkuð annar í dag en þá.

 "Afleiðu -Tsjernobyl afstýrt"

En af sumum athugasemdunum hérna virðist mér augljóst að viðkomandi höfundar hafi ekki mikla hugmynd um hvað þessar svokölluðu afleiður eru. Mig langar því að setja upp smá einföldun, á hvað þetta í fyrirbæri er , ( reyndar stolið og stílfært úr Wikipedia , fyrir þá sem hafa áhuga : gúggla "financial derivaties" og finna Wikipedia linkinn á það), og þetta verður svolítil langloka en .

 Þú ert á búðarrölti á ónýtum skóm, fullt af útsölum í gangi og sérð einhver staðar skó á verði sem þér líkar , ferð inn í búðina, það er bara eitt par eftir , en þú ert heppinn þetta er þitt númer , þú kaupir skóna , borgar þá , hendir þeim gömlu, og labbar út á nýjum skóm. . Á máli fjármálaspekulanta og lögfræðinga heitir þetta að þú hafir gert viðskiptasamning við skókaupmanninn um að skipta við hann á verðmætum sem þú ræður yfir ( aurunum þínum) og einhverri vöru ( skónum ) sem hann hefur á boðstólum samkv. verðmat (gengi) sem kaupmaðurinn hefur ákvarðað að hann geti sætt sig við. Báðir aðilar hafa fengið eitthvað raunverulegt fyrir sinn snúð , og samningurinn hefur þegar verið fullnustaður- ´Case closed '   

 En gerum nú ráð fyrir að þú hafir verið búinn að versla full grimmt í öðrum búðum , þú er jú á útsölurápi, hafðir skilið kreditkortin eftir heima til að hafa þak á eyðsludæminu, þegar þú fórst á stað, og bara stungið einhverjum þúsundköllum í vasann. Þegar þú kemur að skóbúðinni og sérð skóna ertu líka búinn með aurana , en finnur allt of vel fyrir ónýtu skónum þeir eru einfaldlega að gera út af við þig og  veist  að þú einfaldlega verður að splæsa í nýja, og telur sennilegt að þú finnir ekki betra verð en þarna í náinni framtíð. Hvað er til ráða? Jú þú ferð inn í skóbúðina mátar, allt passar fínt mál, vantar bara aura til að borga , svo þú segir við kaupmanninn " heyrðu , ég er ekki með peninga á mér , geturðu merkt mér skóna og ég sæki þá á morgun" og færð svarið " ég veit það ekki, en ég get geymt þá það sem eftir er dagsins, ef það nægir þér" , og þú segir "fínt ég kem aftur fyrir lokun".  Þú ert búinn að gera afleiðusamning við skókaupmanninn, reyndar bara munnlegan, og eina sem hefur ennþá gerst er að það er skókassi merktur þér í búðinni, engin vermætaskipti hafa átt sér stað, og ef þú mætir ekki fyrir lokun þá fellur samningurinn fallin úr gildi.

Hvaða vermæti hefur þessi afleiðusamningur þíns og kaupmannsins í sjálfu sér , nákvæmlega 0 kr. Þú verður ekki fyrir neinum aukaútgjöldum þó að þú hættir við, og þú getur ekki heldur farið í bankann þinn með geymsluloforðið og veðsett það, né heldur er á kaupmaðurinn ekkert á hættu , nema kannski að þú farir í fýlu og nöldrir um siðblindu, ef hann hefur selt skóna einhverjum öðrum (sem kannski bauð meira fyrir þá en upprunalega uppsett verð) , þegar þú kemur aftur.

Hvað um það þú ferð í bankann til að sækja aura fyrir skónum og fattar að gjaldkerinn sem er góður kunningi notar sama númer og þú af skóm , svo þú þú segir við hann " Heyrðu ég fann þessa flottu skó á fínu verði á útsölunni, alveg eins og þú ert með á fótunum núna " , hann/hún  segir "Jæja ég hef eiginlega verið að leita að pari eins ég er í en ekki fundið og þetta eru svo þægilegir skór, en eru að byrja að gefa sig, svo að ég væri til í að kaupa þá af þér á meira en þú borgaðir fyrir þá ."  Þú svarar  " ég var ekki með aura fyrir þeim , svo ég lét taka þá frá , og þarf að sækja þá fyrir lokun, borgaðu mér þúsundkall núna strax , ég læt þig hafa nafnið á búðinni og þú sækir þá sjálf/ur fyrir lokun í mínu nafni, og tekur sjensinn á að það sé ekki búið að selja þá þegar þú kemur á staðinn" Hann/hún svarar "Ókei it´s a deal", sækir þúsundkall í veskið sitt réttir þér og þú lætur hana fá miða með búðarnafninu,  svona meðfram því að þú tekur út einhverja þúsundkalla a reikningnum þínum stingur þeim í vasann ásamt þessum nýfengna sem þú fékkst fyrir nafnið  á skóbúðinni.

Þú er all í einu búinn að verða þér út um "alvöru" þúsundkall án þess að hafa lagt nokkur ný verðmæti á móti, í sjálfu sér má kalla að þú hafir lagt fram einhverja vinnu , við að fá geymslusamninginn við skókaupmanninum, og finna aðila sem var til í að láta af hendi við þig eitthvað fé til að fá nýta það loforð, og allir fara heim happy kaupmaðurinn selur skóna og fær það sem hann setti upp , kunninginn fær nýja skó á reyndar á hærra verði en hann/hún hefði hugsanlega þurft að  borga með því að leita eftir því annars staðar, og þú stakkst svona spekulasjónsþúsundkalli í vasann, og notar hann hugsanlega sem hluta af greiðslu fyrir skó sem þig vantar hvort eð er ennþá , "and everbody goes home happy" , en nei þú ert kominn bragðið, rúllar beint í útsölukraðakið aftur og ferð að leita að fleiri "dílum" , sérð helling tilboðum sem þú heldur að þú getir gert þér mat úr, og semur við viðkomandi sölumenn um að geyma draslið fyrir þig upp í allt að mánuð, þú þarft svo bara svolitla útsjónasemi til að finna réttu kaupendurna að viðskiptaloforðunum sem þú ert búinn að gera  ---> þú hefur fundið þér nýjan starfsvettvang þú er orðinn afleiðubraskari, og jafnvel búinn að skapa nýja atvinnugrein eða hvað ?

Meiningin með þessari  lýsing minni er eiginlega að reyna að gera fólki grein fyrir hvers konar fyrirbæri afleiðusamningar eru, þetta eru að meiri hluta til prívatsamningar milli tveggja eða fleiri aðila eitthvað í líkingu við þetta að ofan og þess vegna er nánast ógjörningur, að banna þetta , nema bara að að banna prívatsamninga yfirleitt, það er einn allsherjarhausverkur að einhverjum böndum á þetta spil.

Afleiðusamningar eru  því marki brenndir að þeir ekki  nein áþreifanleg verðmæti einir og sér geta því ekki talist eign i bókhaldslegu tilliti í líkingu við hlutbréf, útistandandi kröfur , innistæður og þvíumlíkt  , heldur snúast þeir um eitthvað sem kallast undirliggjandi verðmæti, og uppgefið nafnverð þeirra er tekur mið þeirri stærð. Hugsanlegt raunvirði ef eitthvað er, er venjulega  allt önnur stærð. Sama gildir um skuldbindingar fyrirtækja sem eru að spila á þessum markaði þær geta verið allverulegar en eru þó oftast einhverstaðar á milli 2-10 % af nafnvirðinu svokallaða  

Það er þvi  reyndar varasamt að bera saman nafnverð á afleiðusamningi sem er ekki hægt að kalla annað en mattadorpening , og "alvöru" peningum, raunverulegar upphæðir sem endanlega skipta um hendur  eru oft ekki nema svo sem 4% af því, það er aðallega stærðin á þessu dæmi sem gerir þetta þetta að einskonar fjármálavetnisbombu, ég hef nú grun um að talan 700 trilljón US$ sem talað er um að ofan sé kannski svona 4-5 ára gömul og að í dag liggi kannski heildarnafnvirðið í kring um 1000 trilljónir,  og 4% af því er hugsanlega svona c.a helmingur árlegrar heimsframleiðslu.  Umtalsvert fé  og miklu meira en atvinnulíf heimsins má við að gufi oní vasa einhverra fjármálamafíosa, en samt ekki nema brot af nafnvirðinu.

Afleiðusamningar einkanlega svokallaðir framvirkir samningar geta stundum átt rétt á sér , og þurfa ekki endanlega að vera af hinu illa t.d. var gjaldeyriskiptasamningar sem Seðlabankinn við samsvarandi banka á Norðurlöndum þegar hann var undir stjórn Dabbans, afleiðusamningur, og tilgangurinn sá að styðja við krónugengið, þótt það  tækist ekki sérlega vel til , ég eins man þá t.d. þá tíð að á meðan sovétríkin sálugu voru upp á sitt "besta" , og allt var vaðandi í síld hérna kring um landið, þá komu hingað reglulega viðskiptanefndir frá Sovét, eða héðan fór viðskiptanefnd til Moskvu til að gera vöruskiptasamning við Rússa , það var til hérna sérstakt fyrirbæri sem hét síldarútvegsnefnd sem hafi þetta á sinni könnu,  gerðir voru framvirkir samningar (afleiðusamningar) til eins eða tveggja ára í enn um sölu á síld  á einhverju tilbúnu föstu samkomulagsverðmati , sem Rússar borguðu með olíu, timbri og moskuvítum líka á einhverju tilbúnu samkomulagsverði, og það gekk ágætlega, þótt oft færi það fyrir brjóstið á ákveðnum hópi landsmanna, en þessir samningar komu til af því að við og Norðmenn í sameiningu vorum venjulega búnir að metta alla aðra markaði fyrir afurðina, en veiðigetan  stóð undir miklu meira framleiðslumagni, en Rússar áttu enga vestræna valútu afgangs, og  Nojarinn  vildi ekki  versla við þá á þessum grundvelli.  Endanlegt verðmæti viðskiptanna réðst auðvitað mest af því hvað við af þeim fór auðvitað eftir því hvort okkur tókst að veiða og verka mikið af síld. En það datt engum í hug þá að setja upp veðbanka og selja mönnum veðmál ( afleiddar afleiður) um hvert endanlegt vermæti þessara viðskipta yrði um hver árslok eins og nú er stundað, þegar verið er að selja skuldatrygginga og vaxtaprósentuafleiður, það er bara fíflagangur sem dregur til sín alvöru fjármuni (þegar sparifé fólks er lánað í slík viðskipti) sem annars gæti nýst í alvöru vermætasköpun, og þetta virkar stundum á mann eins og að það sé eitt allsherjar plott í gangi.

En þetta er orðið miklu lengra hjá mér en það átti að verða , ég kann mér ekki allta hóf, það sem ég ætlaði að koma að hérna , var eiginlega að ég er sammála þeim sem telja vogunarsjóði ekki vera neitt annað en glæpamafíur, a.m.k. móralskt séð , og til þess að komast fyrir svoleiðis starfsemi þarf einhvern veginn að koma böndum  á þetta afleiðubull sem tröllríður fjármálaheiminum, helst þarf að koma því niður á svipað "level" og það var fyrir kannski 15 árum án þess að setja þá þætti fjármálastarfseminnar sem er nauðsynleg til þess að hjóloin snúist á hliðina, heildarnafnverð  kannski um 250-300 milljarðar BNR$  og spilararnir eiginlega bara ríkisstjórnir, seðlabankar og kannski nokkrir stórir aðilar sem voru að tryggja sér hráefni og  aðföng fyrir framleiðslustarfsemi sína. Ég veit bara ekki hvernig á að fara að því, frekar en aðrir, nema kannski að gera út leynisveitir sem hausar og flakar liðið sem stundar nígeríusvindlið í þessari starfsemi , humm Goggi Sóros gæti nú litið ágætlega út afhausaður og innvolshreinsaður, og þurrkaður á skreiðarhjalli í nokkra mánuði"" , en nei það gengur ekki heldur upp, og hefur aldrei gert. Svo hvað er til ráði ? Any Ideas anybody?

Bjössi (IP-tala skráð) 11.5.2010 kl. 12:09

12 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sæll Bjössi. Það er bara eins og ég sagði í morgun. Ráðið er verðbólga og óstöðugleiki. Ef kaupmaðurinn getur gengið að því vísu að hann geti hækkað verðið á skónum í lok dags eða fyrramálið vegna verðbólgu þrátt fyrir að þeir séu á útsölu er hann ekkert að taka þá frá fyrir þig og þú ert þá ekkert með neinn afleiðsamning í höndunum til að braska með. Stöðugleiki í gengi, verðþróun og efnhagsmálum almennt er nauðsynleg undirstaða fyrir braskið. Við höfum einfaldlega farið yfir strikið í stöðugleika, stöðugleikinn er bóla sem er að springa. Efnahagskerfi sem byggjast á því að flestir búi til verðmæti sem örfáir taka svo til sín og geyma í bankahólfum eða grafa í jörðu geta aldrei virkað. Efnahagslífið þarf á því að halda að peningarnir séu sífellt að skipta um hendur en safnist ekki upp í fárra höndum. Verðbólga og óstöðugleiki eru fín verkfæri til að halda peningum í umferð. Háir raunvextir, verðtrygging og stöðugleiki eru verkfæri til að taka peninga úr umferð og geyma þá. Verðbólga hvetur menn til að breyta peningum sem hraðast í raunveruleg verðmæti eins og steinsteypu eða til að nota þá í lífsins lystisemdir, eins og ferðalög, bíla, alls kyns lúxus o.s.frv. Og þá snúast hjól atvinnulífsins og efnahagurinn blómstar. Var ekki Ísland byggt upp í þessu umhverfi? Og er ekki allt farið til fjandans síðan stöðugleiki komst á með verðtryggingu og öruggri ávöxtun peninganna?

Mér sýnist það.

Jón Pétur Líndal, 11.5.2010 kl. 13:28

13 identicon

Jón Pétur , ég  get  verið sammála um að peningahringsin er málið þa er að segja , þ.e.a.s þannig að þar sem eru með meira á milli handanna hafi ekki mikið upp úr því geyma aurana undir koddanum, annað en bakverk, og magasár , eyðslan geti drifi atvinnilífið áfram, en það getur líka farið úr böndunum , samanber Þýskaland millistríðsárann og resultatið af því þegar brauðsneið kostaði einar hjólbörur af peningaseðlum líkt hjá honum þarna Mugabe í Afríku í dag. Í þeim vandtræðum kusu yfir sig klikkhaus frá Austurríki að nafni Schiklgrüber til að taka til í landinu , og áður en þeir vissu af voru þeir komnir í stríð við umheiminn, þetta er ekki neitt patentlausn heldur.

Ástæðan fyrir því að það gekk upp að á seinustu öld að hjá okkur hérna að keyra enhvers konar svartholshagfræði, var sú að við áttum svo mikið í handraðanum, í t.d. ónytjuðum orkulindum, fullt af fiski og svo framvegis ( það var enginn kvóti ), þegar t.d. síldarjammið datt upp fyrir, þökk sé vinum vorum Norðmönnum, sem ákváðu að slátar stofninum heima hjá áður en hann gekk hingað upp til að hrygna , til að losa sig við keppinautinn Ísland af markaðinum,  þá datt þjóðarframleiðsla okkar niður um 50%. Sem er var kannski svipað högg og bankahrunið núna þegar endatölur verða komnar. En það var miklu minna áfall, bátarnir skiftu yfir á annan veiðiskap, og fólkið í bæjunum  fyrir norðan, og austan  sem byggðu eiginlega alla sína afkomu á síldinni og fóru  tæknilega séð á hausinn  tekjulega séð ýttu trillunum , sem höfðu staðið upp á kambi meðan allt snérist um síldina á flot  og fór að sækja sér í soðið á þann veginn , og verkuðu og seldu svo það sem umfram var, og fólk bætti á sig vinnu ef með þurfti og eitthvað var að hafa  , auðvitað hjálpaði það til að það var passleg verðbólga í gangi svo hrunskuldirnar týndust , en það skifti ekki máli við áttum hvort eð er alla bankana og sparisjóðina sjálf svo það gerði ekkert til þótt þeir töpuðu pínulítið, þeir höfðu fitnað vel í síldargóðærinu, og voru ekki í mattadorleik og áttu sumir aðgang að dágóðum gjaldeyrissjóði , því sölusamtök fiskútflytendanna földu alltaf einhvern hluta gjaldeyrisins sem þeir fengu í útlöndum á reikningum fyrirtækjanna sem þau ráku þar , og það var látið óátalið   þó svo það væri tæknilega séð lögbrot,stjórnvöld og framleiðendur hér heima náðu því bara aftur af þeim með því að hækka verið á hráefninu og afurðunum til þeirra, og sjórnin skammtaði þeim úr hnefa með því að handstýra krónugenginnu, svoleiðis að þetta gekk eiginlega allt upp ,fólk náði í flestum tilfellum að halda húsunum og í mörgum tilfellum einnig að  halda atvinnutækjunum gangandi a.m.k. því sem helst var þörf fyrir, og þess utan var nóga atvinnu að hafa í löndunum í kring um okkur, og víðar  þar var all í full swing, þannig að  þegar verst áraði hoppaði kannski 5-10% af tiltæku vinnuafli upp í flugvél , til Svíþjóðar Danmerku ,Kanada og jafnvel Ástraliu til að hafa ofan af fyrir sér , stór hluti kom heim aftur þegar árferði batnaði, samt eru dágóður slatti annars og þriðju kynslóðar Íslendingum borgarar þessara landa, og reglulega kemur eitthvað af þeim í heimsókn, sem túrhestar, og landið á víða innskot vegna þessara "útrása".

Við búum við allt annað dæmi í dag skömmtun á landsgæðum í bak og fyrir, fiskikvótar í fámenniseign, umhverfisreglugerðir, mun viðameiri og dýrari ríkisbúskap , tvöfalt fleiri íbúa með kannski  helming  vinnuaflsins í starfsemi  sem ekki skilar neinum rauntekjum svona með  tilliti til gjaldeyristekna, negatífa gjaldeyrissjóði  og kostnaður á  ýmsum nauðsynleg aðföng út úr kortinu, ónýtt orðspor ytra, og í ofanálag með ríkisstjórn sem lifír í einhverjum 19 aldar hugsun og  virðist ekki sjá hafa nein úrræði önnur en að reyna að draga okkur á öll á asnaeyrunum inn í Rómarveldi hið nýja (ES) eins og það leysi öll vandræði, og stjórnarandstöðu sem veit heldur sitt rjúkandi ráð  o.s.frv.

Ég hel að við höfum ekki séð það svartara síðan í móðuharðindunum,  og  er svo sem ekkert betur staddur en þingmennirnir , hef í raun patenlausn á hvenig við snúa okkur í dæminu, en hef samt fulla trú á að ef við látum skynsemina ráða þá  og leggjum niður fyri okkur hvað er framkvæmanlegt, á einhvers tilfinningabulls þá eigum við góða möguleika á að rétta úr kútnum, og einhvern veginn finnum við út úr þessu, það getur hisvegar tekið svolítinn tíma , og það er eiginlega fyrsta skerfið tel ég að fólk fari að losa sig við reiðina sem situr í mörgum, eða ef það gengur ekki að beina henni inn á einhverjar tekjuskapandi brautir

Úff ég á grinilega erfitt með að stoppa þegar ég byrja, þetta átti bara að vera ein eða tvær stuttar málsgreinar.  

Eigið góðan dag öll.

Bjössi (IP-tala skráð) 11.5.2010 kl. 15:56

14 identicon

æ é las ekki yfir seinustu athugasemd áður en ég sendi hana , svo fyrigefið mér stafsetninguna , en verst var þó að á einum stað neðarlega datt út orð sem átti að vera með ,

það stendur ".. ég hef í raun patentlausn á .. " .

þar átti að standa " .. ég hef í raun enga patentlausn á... ".

Villan  breytir inntakinu á setningunni talsvert, ekki satt?

Bjössi (IP-tala skráð) 11.5.2010 kl. 16:08

15 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Marinó,

Ég ætla nú ekki að halda því fram að ég botni í því sem ESB gerir;)  Ég hlustaði á viðtal í gær á CBC Radio One við prófessor í hagfræði við UBC sem hefur sérhæft sig í ESB.  Hann var verulega hissa á þessum trilljón dollara sjóði sem ESB ætlar að búa til án þess að leggja fjármuni fram og hann sagði að skv. lögum og reglum ESB séu þessir lánasamningar sem þeir ætli að gera ólöglegir innan ESB.  Sem þýðir að þessi sjóður á eftir, og verður, að fá samþykki þjóðþinga allra 16 ríkjanna sem eru hluti af myntbandalaginu svo hægt sé að gera hann löglegan.  Þetta sagði þessi spaki maður og ég sel það ekki dýrar en ég keypti það, datt bara í hug að henda þessu hérna inn:)

Perónulega held ég að gerfihagkerfin, sem eru byggð upp af fjármála "products" s.s. derivatives, futures, o.s.frv. sem hafa ekkert raunverulegt á bak við sig og allir vafningarnir sem búnir eru til út frá því eru orðin svo stór að raunverulegu hagkerfin sem byggjast á eign og hagnaði eru að verða núll og nix.  Þegar þetta fór allt á flot 2008 þá setti Financial Times fram tölu sem var ef ég man rétt 516 trilljónir bandaríkjadollara, eða sem nemur fjárlögum Bandaríska alríkisins í 224 ár ($2.3 trillion 2010 budget)!  Eins og kom fram hér að ofan voru þetta sennilega gamlar tölur þá og hafa örugglega vaxið mikið.  Sagt er að Chase Manhattan hefði komið út á sléttu nýlega vegna stórra lána viðskipta sem þeir voru með vegna þess að þeir settu upp afleiður þar sem þeir tóku stöðu bæði með og á móti viðskiptavininum og gátu þar af leiðandi ekki tapað og þegar viðskiptamaðurinn gat ekki borgað, þá fengu þeir meira í aðra hönd frá afleiðunum heldur en þeir töpuðu!  Hvernig eiga þessir bankar að hafa ábyrgan rekstur þegar þeir geta baktryggt sig þannig? 

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 11.5.2010 kl. 16:21

16 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Arnór, það er heila málið.  Bankarnir taka stöður út og suður og því munu t.d. þessir 700.000 milljarðar USD líklegast að talsverðu leiti núllast út, ef þetta væri gert upp.  Svo máttu ekki gleyma skuldatryggingunum.  Allt var þetta svo utan hinna eftirlitsskyldu starfsemi fjármálafyrirtækja.

Basel III reglunum er ætlað að taka eitthvað á þessu, en ég held að þær gangi bara ekki nógu langt.

Marinó G. Njálsson, 11.5.2010 kl. 16:31

17 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sælir. Það er kannski engin ein patentlausn til, hvorki fyrir Íslendinga eina og sér eða heiminn í heild sinni á þessum efnahagsvandræðum. Það er alveg rétt Bjössi, að það er búið að setja björgunaraðgerðum þröngar skorður með kvótum, ríkisafskiftum og reglum um allt mögulegt. Bæði hér heima og í ESB. Þetta heitir á hversdagslegu máli sósíalismi. Og það hefur hvergi verið neitt sérlega góð reynsla af sósíalisma, sagan sýnir það. En þessi nýji sósíalismi undanfarinna ára er þó sérstakur að því leiti að hans hlutverk er að þjóna fjármagnsöflunum, svo þau geti rakað saman auðæfum heimsins. Ekki veit ég til hvers, því ekkert verulegt gagn sé ég af því.

En ef við horfum bara þröngt á íslenska hagsmuni, sem er það eina sem við eigum að gera, þá er augljóst að okkar leið til betri tíma er verðbólga, afnám verðtryggingar, lágt gengi og niðurskurður hjá ríkinu. Innganga í ESB og enn víðtækari alþjóðasósíalismi virkar ekkert frekar hjá okkur en öðrum. Við þurfum að leysa okkar mál með fjármálaóstöðugleika sem ver okkur fyrir alþjóðasósíalismabraski vogunarsjóða og annarra sérvalinn heimskapítalista og með alvöru verðmætasköpun, hvort sem það heitir fiskur, ferðaþjónusta, iðnaður, hugvit eða eitthvað annað, og með því að gæta sjálf að eigin hagsmunum. Það gera það ekki aðrir fyrir okkur og ef við getum það ekki sjálf eigum við enga framtíð hér.

Við þurfum að loka okkar hagkerfi þannig að það þjóni okkar hagsmunum. Ef við stöndum eins og asnar á heimsmarkaðstorginu í Brussel og veifum fjármunum og vörum okkar framan í alla þar með orðunum "Takið það sem þið viljið" erum við fljót að láta rýja okkur inn að skinni eins og ágætlega hefur komið í ljós undanfarið. Ef við hins vegar geymum budduna í jakkavasanum og vörurnar í vöruhúsi og högum okkur skynsamlega farnast okkur vel.

Jón Pétur Líndal, 11.5.2010 kl. 16:48

18 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Mjög áhugaverð umræða -

-ég vil minna ykkur á hugmynd Stiglitz, um hvernig má ef til vill, minnka tíðni stöðutaka gegn krónunni.

En, hann stakk upp á að settur yrði skattur, á gróða af slíkum stöðutökum.

----------------------

Svipaðri hugmynd, má einnig beita á verðbréfamarkaði, þ.e. að setja skatt per sölu/kaup.

Miða við ákveðna lágkarmsupphæð og síðan prósentu.

Þetta ætti, að útrýma tíðum sölum, sem algengar eru í dag, þ.s. tölvum er beitt, til að ná inn mjög smaúm verðbreytingum sem eiga sér jafnvel stað, á tíma mældum í sekúndum.

En, í dag, fer kaup og sala, mjög mikið fram með tölvum, sem miða einfaldlega við tilteknar gefnar forsendur, og kaupa-selja, jafnvel oftsinnis á hverri mínútu.

Þetta er víst orðið hátt hlutfall umferðarinnar á markaðinum, og gefur þeim sem eiga þessar rándýru tölvur, mikið forskot á aðra.

Það gæti verið gagn, af því að takmarka þessa tilteknu iðju.

----------------------

Varðandi afleiðusaminga, má ef til vill beita svipuðu prinsippi, þ.e. að skattleggja hverja hreyfingu um ákveðna lágkarksupphæð, og síðan að taka tiltekna prósentu.

En, auðvitað þarf þá í þeim lögum, að skilgreina þau viðskipti, sem lögin ná yfir - sem þarf sérfræðiþekkingu til

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 11.5.2010 kl. 20:03

19 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Einar, Lilja Mósesdóttir hefur lagt til að settur sé 30% skattur á útgreiddar krónur jöklabréfa og fleiri þannig fjármálaafurða áður en þeim er skipt yfir í gjaldeyri.

Skatturinn sem AGS og G-8 ríkin hafa rætt á fjármagnsaðgerðir er svipaður því sem þú ert að tala um.

Marinó G. Njálsson, 11.5.2010 kl. 20:15

20 identicon

Fjórfrelsið gengur ekki upp í núverandi mynd.  Það er bara ekki hægt að fylgjast með fjármagnsflutningum á heimsvísu og þar með er völlurinn opinn fyrir spekúlanta.

Af hverju var Bretton Woods aflagt??

Annars góður pistill Marinó.

itg (IP-tala skráð) 11.5.2010 kl. 21:17

21 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Getur verið erfitt að setja slíkann skatt á núverandi Jöklabréf, þ.s. þá er væntanlega verið að breita lögum fyrir þá aðila eftir á - en, sjálfsagt að látt það gilda fyrir alla nýja gerninga.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 11.5.2010 kl. 22:17

22 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Einar, það er ekkert flókið við að breyta lögum.  Semja frumvarp, þrjár umræður á Alþingi og tvær í þingnefnd.  Búið og gert.  Vandinn felst í því að frumvarpið sé vel samið og taki á öllum lagalegum vandamálum.

Annars er ég þeirrar skoðunar, að sá hluti gjaldeyrishaftanna, sem snýr að því að halda "óþolinmóðu" fjármagni í landinu, sé arfavitlaus.  Við áttum að losa okkur við þetta fé þegar gengið var mjög lágt.  Vissulega hefði gengið lækkað meira, en um leið og þetta fé er farið þá minnkar þrýstingurinn á krónuna og hún myndi rétt fljótt úr kútnum.  Síðan hefði mátt skattleggja þetta útflæði.  Nei, við ætlum að gefa eigendum þessara peninga stærri hluta af gjaldeyrisforða landsins með því að bíða þar til krónan hefur styrkst.  Vandann varðandi verðtryggð lán er hægt að leysa með því að setja 4% þak á árlegar verðbætur meðan kúfurinn er að ganga yfir.

Marinó G. Njálsson, 11.5.2010 kl. 22:26

23 Smámynd: Dingli

Mikil og flott umræða.  Þetta að vandalítið sé að breyta lögum. Stöðugt meðan Alþingi starfar er verið að breyta lögum, aðlaga þau að nýum tímum, bæta lög sem illa hafa reynst, setja ný, afnema gömul o.s.v.f. og megnið af þessu rennur ljúflega yfir afgreiðsluborðið.

Nema, breyta eigi lögum sem varða sérhagsmuni þeirra sem sleikja rjóman af þjóðarkökunni, þá situr allt fast. Það var nánast grátlegt að fylgjast með leiðilegasta apakött Alþingis, Birgi Ármanssyni, koma ca. hundrað sinnum upp til að tala um fundarstjórn forseta og fleira álíka til að koma í veg fyrir að sett yrðu lög um eignarhald þjóðarinnar yfir auðlindum sínum. Og það var ekki bara hann einn. Allur Sjálfstæðisflokkurinn þók þátt í þessu, og minnihlutastjórnin sem var þá, varð að hætta við málið til þess að þingið yrði starfhæft á örlaga tímum. Og dæmin eru fleiri, en nóg komið í bili.

Dingli, 12.5.2010 kl. 00:30

24 Smámynd: Jakob Þór Haraldsson

Alltaf SAMHJÓMUR með þinni speki & minni speki - bara "Heilbrigð skynsemi" en það er vissulega skortur á slíkri hugsun..lol..!  Ég hvet þig Marinó til að lesa færslu mína (Fjármálakreppa seinni bylgja á leiðinni - www.fun.blog.is) - ef stjórnvöldum í t.d. Evrópu ber ekki gæfa til að breyta "lögum & reglum" tengt fjármálamarkaðinum þá stefnir auðvitað bara í samfélagslegt hrun & stöðnun fyrir alla heimsbyggðina.

kv. Heilbrigð skynsemi (www.fun.blog.is)

Jakob Þór Haraldsson, 12.5.2010 kl. 11:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.11.): 8
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 1679981

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband