8.5.2010 | 11:38
Ragnar Reykás í öllum hornum - Bráðgreindur eða ekki, Hreiðari varð verulega á í messunni
Hún er sérkennileg myndin sem birtist mér á síðum vefmiðla og fjölmiðla eftir að tveimur hvítflibbum var stungið í steininn. Í marga mánuði hefur gagnrýnin dunið á Ólafi Þór Haukssyni (sem ég vil taka fram að er góður vinur minn) fyrir að hafa ekki handtekið neinn og sýni ítrekað getuleysi sitt, reynsluleysi, þekkingarleysi og ég veit ekki hvað. (Tekið fram að þetta eru ekki mínar skoðanir.) Í rólegheitum hefur hann og embættið hans verið að byggja upp mál gegn hinum og þessum meintum gerendum í því að setja íslenska hagkerfið á hliðina. Auk þess hefur komið út rannsóknaskýrsla í 9 bindum auk fjölmargra viðauka, þar sem gefið er í skyn eða beint haldið fram að þessir sömu aðilar hafi framið alvarleg brot. Í þrjár vikur hefur þjóðin getað lesið um hin ótrúlegustu mál í blessaðri skýrslunni og heimtað handtökur.
Síðast liðinn fimmtudag var gengið rösklega til verka. Tveir hvítflibbar voru handteknir og þeim stungið í steininn. Þá stiga fram í hrönnum, og fá góða athygli á tilteknum fjölmiðlum, einstaklingar sem ásaka Ólaf Þór, sem varla hefur verið hægt að draga í fjölmiðlaviðtal, um "fjölmiðlasirkus" "fljótræði", "örvæntingu" og ég veit ekki hvað. Eða þá að menn birta lofgreinar um annan sakborninginn, þar sem teiknuð er upp englamynd af viðkomandi. Mér datt frekar í hug "the killer with the baby face", sem haft er um svona yfirmáta sakleysislega útlítandi menn er hafa sýnt að þeir eru til alls líklegir.
Ég þekki hvorugan sakborning og veit því ekkert hvort þeir eru englar eða djöflar í mannsmynd. Ég veit bara að fyrirtækið, sem þeir unnu hjá, hefur (samkvæmt skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis) á ósvífinn hátt grafið undan hagkerfinu, krónunni, stöðugleika verðlags, greiðsluhæfi viðskiptavina sinna og raunar alls almennings og fyrirtækja í landinu. Það getur vel verið að þetta séu hinir ljúfustu menn og bráðgreindir, en þeir tóku þátt í þessu og annar þeirra var æðsti yfirmaður Kaupþings. Hafi hann verið jafn "bráðgreindur" og menn segja, þá gerði hann sér fullkomlega grein fyrir afleiðingum gjörða sinna. Ef hann gerði það ekki, þá var hann einfaldlega ekki jafn "bráðgreindur" og menn láta vera.
Kannski gerði Hreiðar Már ekkert af þessu viljandi. Líiklegast var ætlunin að hlutirnir færu á hinn veginn, en sé hann jafn "bráðgreindur" og af er látið, þá hefur hann hugleitt þann möguleika að hlutirnir gætu farið úrskeiðis og afleiðingarnar gætu hneppt íslenskt þjóðfélag í skuldafangelsi. Því hafi hann ekki hugsað út í aðra möguleika, en að allt færi á besta veg, þá var hann einfaldlega gjörsamlega vanhæfur í sínu starfi.
Ég hef áður lýst minni sýn á framferði eigenda og stjórnenda bankanna. Hún er sú, að menn hegðuðu sér eins og þeir veðjuðu bara á stöðugt á rautt í rúllettu. Þeir lögðu allt undir í hvert skipti. Fyrir algjöra tilviljun, þá unnu þeir nokkur skipti í röð. Svo kom upp svart (!) og þá kom í ljós, að þeir höfðu ekki bara lagt sína peninga undir, heldur líka allar eignir okkar, lífeyrissjóðanna, erlendra lánadrottna og ég veit ekki hvað. Þeir höfðu lánað eigendum sínum allt laust fjármagn í bönkunum og síðan, að því virðist, tælt lífeyrissjóðina og almenning til að lána helling í viðbót.
Nú verða sjálfskipaðir verjendur Hreiðars Más að ákveð hvort hann hafi verið "bráðgreindur" og þá vitað upp á hár hvaða afleiðingar gjörðir hans kynnu að hafa, eða ekki svo "bráðgreindur" og í raun langt frá því að vera það og því fór sem fór. Ég er sannfærður um að hluti stjórnenda og eigenda Kaupþings, Glitnis og Landsbankans tóku meðvitað gríðarlega áhættu. Þessir aðilar vissu upp á hár hvað þeir voru að gera. Síðan misstu þeir tökin á aðstæðunum og þá varð til þessi Ponzi-svikamylla, sem byggir á því að fá peningalánaða til að borga fyrri lán og vexti af þeim og síðan þarf að fá lán til að greiða þau lán. Það sem þessir aðilar gerðu var í litlu frábrugðið því sem Bernie Madoff gerði eða bara gjaldkeri sem stundar fjárdrátt. Loks kom að því að ekki fékkst meiri peningur til að halda svikamyllunni gangandi eða upphæðirnar voru orðnar svo háar að fólk tók eftir því og þá hrundi allt.
Ef eigendur og stjórnendur föllnu bankanna hefðu viðurkennt árið 2006, að viðfangsefnið var vaxið þeim upp fyrir höfuð, þá hefði margt farið á annan veg. Nei, þeir voru eins og alkólista í afneitun. Þeir áttu ekki í neinum vanda og þurftu því ekki hjálp og hvernig voguðu erlendir greinendur sér að halda því fram að þeir væru búnir að missa tökin á fyrirtækjum sínum. Og hin meðvirka íslenska þjóð (og þar á meðal ég) varði þá út í eitt.
Þannig að, ef Hreiðar Már er jafn "bráðgreindur" og haldið er fram í ansi mörgum pistlum og fréttaskýringum, þá er núna hans tækifæri til að færa sönnur á það. Hann getur greint rétt og satt frá hvernig hann og félagar hans misstu tökin á rekstri Kaupþings sem varð til þess að allt féll hér í október 2008. Hann þarf að hætta að koma með gáfumannlegar skýringar, réttlætingar og afsakanir. Við vitum öll að Kaupþing missti tökin. Við finnum það á eigin skinni. Nú hefur hann tækifæri til að viðurkenna og lýsa þætti sínum og Kaupþings í þessu öllu.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 9
- Sl. sólarhring: 9
- Sl. viku: 43
- Frá upphafi: 1680024
Annað
- Innlit í dag: 9
- Innlit sl. viku: 39
- Gestir í dag: 9
- IP-tölur í dag: 9
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Þú talr um þann möguleika að þetta hafi einhvern tíma verið heiðarlegur bisness. Ég er einn af þessum efasemdarmönnum (samsæris?). Í fyrra sumar eða haust var í Íslandi í dag (Stöð2) stutt innslag þar sem ung fréttakona talaði við íslenskan mann sem þá þegar var búinn að eyða 5 árum í að byggja nýtt þorp frá grunni utan við Luxemborg. Talaði hann um að erfiðast hefði verið að finna suma eigendur vínekra sem þar voru (á landsvæðinu). Þurfti hann að kaupa þjónustu einkalögreglu (Private eye) til að grafa þá upp, til að geta svo keypt af þeim landið. Þarna var hann búinn að búa til götur og nokkur hús (villur). Það vantaði inn í "fréttina" hver fjármagnaði dæmið. Mér þótti það rakið að útrásar/bankaræningjar kæmu þar við sögu. Ef svo er þá sannar það að hrunið var þaulskipulagt.
Villi (IP-tala skráð) 8.5.2010 kl. 12:24
En heldurðu að klíkuþjóðfélagið sé hæft til að lögsækja og dæma? Ekki eru sjáanleg nein merki um að alþingismenn séu að undirbúa réttarhöld yfir fyrrum ráðherrum.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 8.5.2010 kl. 12:25
Það missti engin tökin! Kaupþing var skipulögð svikamilla frá upphafi.
Dingli, 8.5.2010 kl. 12:31
Það sem er alvarlegast ef Hreiðar már verður fundin sekur (sem ég efast eiginlega ekki um lengur) er að allir meðstjórnendur og það faglærða fólk sem starfaði með honum er þá sekt um yfirhylmingu og eða afglöp. Sá lög og viðskiptafræðinga her hlýtur að hafa vitað og skilið hvað þarna fór fram annað er útilokað.
Og þetta er fólkið sem er að stjórna bönkunum núna.
Guðmundur Jónsson, 8.5.2010 kl. 12:43
Guðmundur - allir þeir sem þú telur upp - meðstjórnendur og faglærðir í bönkunum tóku beinan þátt í verknaðinum öðruvísi hefðu þeir ekki haft vinnu í bankanum/ bönkunum - allt bankafólkið tók þátt meira að segja þjónustufulltrúarnir tóku þátt með hvata kerfi - fengu aukagreiðslu fyrir hvert svindl sem þeir framkvæmdu eftir fyrirmælum - með því að véla kúnnann með lyginni - gjaldkerarnir eru kannski þeir einu sem ekki voru gerendur í glæpagenginu ...........?
Gleymum ekki greiningadeildum bankanna.........!
Það hefði átt að vera búið að hreinsa út úr bönkunum frá toppi og niður á gólf fyrir löngu síðan og leiða alla "heiðarana" út í handjárnum í tukthúsið.
Leggjum af meðvirknina við höfum bara ekki efni á henni frekar en því að greiða reikningana okkar.
Góður pistill hjá þér Marinó eins og þín er von og vísa - Takk fyrir þitt framlag til okkar samborgara þinna - nú sem áður.
Sameinuð stöndum vér.
Benedikta E, 8.5.2010 kl. 13:23
Þakka þér mjög svo góðan pistil Marinó, hef lesið þá marga eftir þig. Þessi meðvirkni var komin út yfir allt, held að þjófélagið hafi verið gegnum sýkt af henni,fjölmiðlar meðtaldir.
Og varðandi klíkusamfélagið, hverjir skyldu eiga að dæma í öllum þessum málum sem framundan eru???
Elínborg, 8.5.2010 kl. 13:30
Benedikta E
Ég ætla ekki að segja að þjónustufulltrúar séu sekir þeir unnu bara vinnuna sína held ég og flestir í góðri trú.
Hinsvegar má færa rök fyrir að meðstjórnendur með menntun á viðskiptasviði geti ekki annað en hafa vitað hvað þarna fór fram og þegar við bætist að þeir fengu hluta af þýfinu, til dæmis í gegn um kaupréttarsamninga þá er vandséð annað en að þeir séu sekir um auðgunarbrot.
Annars var þessi meðvirkni ekki jafn mikil og margir vilja halda fram. En hún var mikil hjá blaðmönnum stjórmálamönnum og í háskólasamfélaginu enda virðast ætlaðir glæpamenn hafa borið mikið fé á þessar stéttir. Ég held að þorri fólks á íslandi hafi áttað sig á að þetta var ekki í lagi í það minnsta frá þeim degi er forsætisráðherra tók út innistæður sínar hjá bankanum og launamál kaupþingsmanna komust í hámæli.
Guðmundur Jónsson, 8.5.2010 kl. 14:47
Dingli, ég er sannfærður um að allir bankarnir, og þar með Kaupþing, hafi lagt af stað með viðskiptaáætlanir sem virkuðu í augum þessara manna. Það getur vel verið að viðskiptaáætlanir hafi innifalið í sér eitthvað sem við flokkum undir vafasaman business, en þær áttu alveg örugglega ekki að verða til þess að hér færi allt á hliðina og þeir töpuðu mannorði sínu. (Ég get ekki sagt að þeir hafi tapað eignum sínum, þar sem ég er ekki viss um að það sé rétt.) Ég held líka að þessar áætlanir hafi verið einfeldnislegar. Datt mönnum t.d. í hug að þeir gætu spilað sig sem einhverja stórlaxa á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Það eru alls staðar stórir bræður sem ákveða hverjir fá að vera með og hvernig þeir eigi að haga sér. Það er með þetta eins og allt annað. Menn þurfa að vinna sér inn virðingu og fá fyrst fá menn sæti við stóra borðið. Íslenskir bankamenn burtu þessa reglu og við erum að taka út refsinguna fyrir það.
Marinó G. Njálsson, 8.5.2010 kl. 17:23
Ólafur Hauksson hefur verið að vinn erfitt verk með littlum mannafla til að byrja með, en hann hefur hægt og rólega náð að vinna sig í gegn um þetta, ég tel að hann eigi skilið mikið hrós fyrir vandþakklátt starf.
Guðmudur júlíusson (IP-tala skráð) 8.5.2010 kl. 18:42
Marinó þú segir að það séu engir stórir bræður að alþjóðlegum fjármálamörkuðum, en ertu nú alveg viss?
Einar Þór Strand, 9.5.2010 kl. 00:05
Einar, nú snýrð þú þessu á hvolf. Ég segi: "Það eru alls staðar stórir bræður sem ákveða hverjir fá að vera með og hvernig þeir eigi að haga sér."
Ég er sannfærður um að enginn fær að taka þátt í einhverjum alvöru leik á fjármálamarkaði eða alþjóðlegu viðskiptalífi án þess að hafa borgað inntökugjald. Ég er lika sannfærður um að þessi öfl þau munu ganga eins langt og þau komast upp með. Tók fólk eftir því að stóru bankarnir í Bandaríkjunum fór að ganga betur um leið og Obama sagði að þeir fengju ekki meira fé úr ríkiskassanum.
Marinó G. Njálsson, 9.5.2010 kl. 00:20
Já það er jú þannig að Obama segir eitt fyrir almenning en svo er annað gert til að bjarga gráðuga liðinu.
Einar Þór Strand, 9.5.2010 kl. 01:39
Góð grein, Marinó.
Það er í raun rannsóknarverkefni að átta sig á af hverju viðkomandi einstaklingar ráðast gegn sérstökum saksóknara. Þá er ég ekki að tala um sem sakamál, heldur lítur út fyrir að þetta sé mynd af hinum afar flókna og víðförla spillingarvef, sem sumir einfaldlega átta sig ekki enn á hvað er og telja hann vera eitthvað eðlilegt fyrirbæri.
Hrannar Baldursson, 9.5.2010 kl. 06:02
Þakka góða grein Marinó . Hvar voru endurskoðendurnir.?Sáu þeir ekki neitt athugunarvert.Hér er kópí peistað úr Mbl.is 12/4 ´10
"Rannsóknarnefnd Alþingis telur tilefni til þess að rannsakað verði hvort
endurskoðendur þeirra fjármálafyrirtækja sem féllu haustið 2008 og í upphafi
árs 2009 hafi brotið starfsskyldur sínar við endurskoðun þessara fjármálafyrirtækja þannig að refsingu varði.Rannsóknarnefndin segir í skýrslu sinni, að skort hafi á að endurskoðendur
sinntu nægilega skyldum sínum við endurskoðun reikningsskila fjármálafyrirtækjanna árið 2007 og við hálfsársuppgjör 2008, að því er varðar rannsókn þeirra og mat á virði útlána til stærstu viðskiptaaðila fyrirtækjanna, meðferð á hlutabréfaeign starfsmanna og fyrirgreiðslu fjármálafyrirtækja til kaupa á hlutabréfum í sjálfum sér.
Nefnt er dæmi, að rekstrarkostnaður útibús Kaupþings í Lundúnum, sem virðist aðallega hafa verið starfrækt utan um stjórnarformanninn, Sigurð Einarsson, virðist hvorki hafa verið undir eftirliti innri eða ytri endurskoðenda Kaupþings banka. "
Hörður Halldórsson, 9.5.2010 kl. 10:32
Takk fyrir frábæra grein. Ég verð að segja að það væri fengur af að fá mann eins og þig inn í pólitíkina. Alltaf málefnalegur, rökfastur og aldrei með neitt skítkast.
Hákon (IP-tala skráð) 9.5.2010 kl. 10:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.