Leita í fréttum mbl.is

Hugvekja um ótrúlegt ástand í landinu

Mér barst í gær afrit af tölvupósti sem m.a. var sendur nokkrum þingmönnum.  Mér fannst efni þessa pósts eiga erindi við fleiri og óskaði eftir leyfi höfundar til að birta það hér.  Það leyfi var góðfúslega veitt.  Hér er pósturinn:

Mér datt í hug að senda þér smá hugvekju vegna hins ótrúlega ástands í landinu, nú þegar Héraðsdómur Reykjavíkur hefur í tvígang staðfest ólögmæti gengistryggingar, annars vegar í dómi frá 12. febrúar sl. og nú aftur í úrskurði frá 30. apríl sl.  Þetta virðist engu breyta – þessi fjármálafyrirtæki eru öll við sama heygarðshornið og pönkast í viðskipta(vinum) sínum með lögfræðihótunum, vörslusviptingum, fjárnámsgerðum, gjaldþrotabeiðnum og nauðungarsölum, eins og ekkert hafi í skorist.  Hvers vegna grípa stjórnvöldin í landinu ekki inn í þetta ferli og knýja í það minnsta þessa starfsleyfisskyldu aðila til að bíða niðurstöðu Hæstaréttar?

 

FME (sem n.b. veitir þessum aðilum starfsheimildir) gerir ekkert.   Neytendastofa ekkert.  Lögreglan hlær að fólki þegar það í öngum sínum tilkynnir um að brotist hafi verið inn til þeirra og bifreiðir fjarlægðar.  Brotist er inn í opinberar stofnanir einnig í sama tilgangi, allt án dóms og úrskurða, lögreglan brosir bara blíðlega og segir um „einkaréttarlegan ágreining“ að ræða, þrátt fyrir að við blasi skýr brot gegn 260. gr. hegningarlaga (Gertæki).  Viðskipta- og dóms- og mannréttindaráðherra virðast bara alls ekki vera með meðvitund, en þetta eru þó yfirmenn þessara málaflokka og bera á þeim stjórnskipulega ábyrgð.  Munum hvernig R[annsóknar]N[efnd] A[lþingins] fjallar um ábyrgð ráðamanna vegna AÐGERÐARLEYSIS.  Á sama tíma fylgjumst við með félagsmálaráðherranum sem með örvæntingarfullu lagafrumvarpi sínu um breytingar á bílalánaskilmálum (sem samið er á skrifstofu SP fjármögnunar skv. frétt Mbl.) er að reyna að tryggja stöðu þessara lögbrjóta áður en dómur Hæstaréttar verður kveðinn upp.  Því í ósköpunum liggur svona á þessu núna?

 

Með því að Hæstiréttur Íslands dæmi skv. lögunum í samræmi við tvær áðurgreindar niðurstöður Héraðsdóms Reykjavíkur, væri í raun framundan ein mikilvægasta „efnahagsaðgerð“ sem fram hefði farið hér á landi frá Hruni.  Allt í einu myndi stærstur hluti lánþega, bæði einstaklinga og fyrirtækja, endurheimta þá skuldastöðu sem þessir aðilar raunverulega sömdu um.  Allt í einu væru hér forsendur til að halda áfram að lifa eðlilegu lífi og reka starfsemi með raunverulegan rekstrargrundvöll, laus undan ólögmætri aðför fjármálafyrirtækjanna sem komu okkur í þessa dæmalausu stöðu.  Þetta getur varla heldur komið mönnum á óvart eða komið illa niður á hinum nýju bönkum, enda sendi ég öllum þingmönnum og ráðherrum í ríkisstjórn Íslands bréf hinn 29. maí í fyrra, þar sem ég vakti sérstaka athygli á þessum málum og að gera þyrfti ráð fyrir að þessir samningar væru ólögmætir við yfirfærslu eigna gömlu bankanna yfir í þá nýju.  Að vísu sagði Birna Einarsdóttir bankastýra Íslandsbanka mér það persónulega fyrir nokkrum vikum, að við yfirfærslu lánasafns gamla bankans til hins nýja, hefði ekki tekist að koma inn fyrirvörum varðandi ólögmætið „þrátt fyrir þessa miklu lagalegu óvissu“ svo ég kvóti beint í Birnu sjálfa.  Ég get þó allavega sagt að ég hafi varað við í tíma...  Stjórnvöld hafa ekki viljað taka neina opinbera umræðu um málið, viðskiptaráðherrann lúrir á „leyniskýrslu“ um málið og enginn bregst við þeim úrlausnum Héraðsdóms sem ég nefndi.

 

Annað mál sem hefur að talsverðu leyti plagað mig að undanförnu varðandi lyklafrumvarpið.., sem ... situr á og ætlar sér að svæfa í Alsherjarnefnd.  Mér barst nýlega í hendur umsögn Viðskiptaráðs vegna frumvarpsins.  Þar er lamið frá sér með ákvæði 72. gr. stjskr. eins og við var að búast.  Ég vek sérstaka athygli á að 72. gr. mælir fyrir um skilyrði þess að aðilum verði gert að láta af hendi „eign“ sína.  Þar er krafist „almannaþarfar“ og þá einnig að „fullt verð“ komi fyrir.  Þarna liggur lykillinn að Lyklafrumvarpinu.  Það getur varla verð vafa undirorpið að almannaþörf er til staðar, enda hefur verið sýnt fram á að 40-50% heimila eru í neikvæðri eiginfjárstöðu og stór hluti þeirra mun velja gjaldþrotaleiðina út úr sínum vandamálum, fremur en að hneppa sig í „greiðslufangelsi“.  Slíkt hefði gríðarlega neikvæð hagfræðileg og samfélagsleg áhrif, enda upplifir slíkt fólk sig sem útlaga í hinu efnahagslega umhverfi hér á landi – því miður.  Þá komum við að „fullu verði“.  Hvert skyldi vera raunverulegt verðmæti samningskrafna í eftirfarandi dæmi, sem nb. er raunverulegt dæmi af mínu borði:

 

Fólk flutti heim úr framhaldsnámi 2007, fjárfesti í 70 millj. kr. fasteign.  Þau áttu 20 millj. (tæp 30%) og tóku 50 að láni.  Í dag stendur húsið í 50 millj. skv. mati bankans og lánið er reiknað út í 130 millj.  Það hafa því tapast kr. 100.000.000,- á þessari einu fjárfestingu í fasteign!  Annar aðilinn hefur misst vinnuna (var í banka) og hinn þurft að taka á sig launaskerðingu.  Fólkið er búið að greiða allt sem það getur inn á lánin, taka m.a. út tæpar 3,5 millj. af séreignarsparnaðinum sínum og dæla í hítina.  Til hvers?  Þetta fólk getur ekki og vill ekki halda áfram að greiða umfram verðgildi hússins, það er alveg á hreinu.  Krafan er því töpuð, því blessað fólkið er meira að segja búið að hirða af ellilífeyrinum til að borga bankanum, allt í trausti þess að hin raunverulega skjaldborg færi að rísa.  Fólkið skynjar óréttlætið loksins og fyrirverður sig nú fyrir að hafa látið gabbast af loforðum um raunveruleg úrræði sem síðan hafa ekki skilað sér.  Skítt með kennitöluna, fólkið heldur þó sínum framtíðartekjum þrátt fyrir gjaldþrot, þá er a.m.k. hægt að byrja aftur á núlli og byrja eignamyndun (n.b. skráð á aðrar kennitölur).  Þetta fólk ætlar aftur úr landi – lætur ekki bjóða sér skuldaþrælkun og skattpíningu í sínu lífi.  Það eina sem eftir er er framtíðin – hana vilja bankarnir hirða líka, með dæmalausum þvergirðingshætti sínum og áskilnaði um ósanngjarna hlutdeild í framtíðartekjum.

 

Skv. þessu er virði þess sem umfram er hið raunverulega og áþreifanlega virði veðandlagsins EKKERT!  Bankinn VERÐUR að horfast í augu við þessa stöðu – og stjórnvöld líka!  Það gæti orðið þrautin þyngri fyrir lánastofnanir að sanna tjón sitt, séu þær yfir höfuð svo skyni skroppnar að láta sér detta í hug að stefna ríkinu fyrir brot á 72. gr. stjskr., enda er það þeirra að sanna hið raunverulega tjón ef í slíkt er komið.  Neytendur eru að vakna til vitundar, þeir munu boycottera slík fyrirtæki, láti þau sér þetta til hugar koma.  Ríkissjóður er okkar allra! 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er hnitmiðað. Stjórnvöld vita ekkert í sinn haus. Við búum við fávitaræði.

Marat (IP-tala skráð) 6.5.2010 kl. 15:07

2 identicon

Þess má geta að við Guðmundur Andri áttum fund með dómsmálaráðherra og aðstoðarkonu hans/hennar þar sem vörslusviptingarnar og innheimtugaðgerðir fjármögnunarfyrirtækjanna voru m.a. ræddar.

Þórdís (IP-tala skráð) 6.5.2010 kl. 16:15

3 Smámynd: Billi bilaði

Frábært bréf.

Billi bilaði, 6.5.2010 kl. 16:15

4 identicon

Sammála Billa bilaða. Takk fyrir að upplýsa mig.

Valdís (IP-tala skráð) 6.5.2010 kl. 20:50

5 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Ótrúlega sterkt og gott bréf.

Gunnar Skúli Ármannsson, 7.5.2010 kl. 16:23

6 identicon

Gott bréf - en ég efast um að fleiri en tíu þingmenn hafi lesið það, og færri en fimm svarað...

Skorrdal (IP-tala skráð) 7.5.2010 kl. 17:22

7 Smámynd: Vilhjálmur Árnason

Við erum búin að lifa lengi í voninni.

http://vilhjalmurarnason.blog.is/blog/vilhjalmurarnason/entry/898734/#comments

Vilhjálmur Árnason, 8.5.2010 kl. 02:52

8 identicon

Frábær samantekt um það ástand sem ríkir á Íslandi, því miður ber að efast um að margir þingmenn hafi lesið það.

Við vorum nokkur sem mættum á fund félagsmálaráðherra um daginn í salnum í Kópavogi, og virðist sem félagsmálaráðherranum veitti ekki af að lesa þetta bréf. Þó ber Því miður að efast um að hann myndi skilja efni þess, tæki hann upp á því að lesa það. Það er ótrúlegt hvað við ráðum lélegt starfsfólk í vinnu hjá okkur.

Jón Þorvarðarson (IP-tala skráð) 11.5.2010 kl. 01:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 38
  • Frá upphafi: 1680019

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband