Leita í fréttum mbl.is

Skuldir eigenda og stjórnenda bankanna námu fimmfaldri þjóðarframleiðslu. - Brostin siðgæðisvitund eigenda og stjórnenda bankanna

Það eru merkilegar tölur sem birtar eru í fréttum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins í dag.  Skuldir eigenda bankanna, fyrirtækja sem þeir áttu, stjórnenda bankanna og tengdra aðila við íslensku fjármálafyrirtæki sem féllu námu yfir 7.100 milljörðum kr.  Þetta er nærri því fimmföld þjóðarframleiðsla Íslands árið 2008 og örugglega meira en fimmföld þjóðarframleiðsla árið 2009.  Þetta á ekki að geta gerst og bendir til ótrúlegrar vanrækslu og vanhæfni stjórnenda og eigenda bankanna.  Fyrir utan að í þessu flest gróf markaðsmisnotkun, þar sem fjármagni er hreinlega beint í tiltekinn farveg á kostnað annarra lántaka.  Með þessu var einnig byggð inn gríðarleg áhætta, þar sem fall einnar einingar í þessari keðju myndi verði til þess að öll keðjan leystist upp, eins og reyndin var.

Bætum svo við þetta eignum lífeyrissjóðanna og almennings sem lagðar voru að veði og þá getum við örugglega hækkað töluna um 500 - 1.000 milljarða kr.  Bætum þá við Icesave innistæðum og tapið hækkar um 1.000 milljarða til viðbótar.

Heimilin í landinu eru að biðja um að lán þeirra verði leiðrétt sem nemur um 300 milljörðum.  Það er innan við 4% af þeirri upphæð sem fjárhættuspil eigenda bankanna og tengdra aðila kostaði þjóðina.  Já, heil 4%.  Ef hægt er að afskrifa 7.100 milljarða hjá þessu innan við 100 fjárhættuspilurum, þá ætti varla vera mikið mál að stroka út 300 milljarða kr. hjá almenningi.  Gerum það og það strax.  Hættum að bíða.  Hættum að finna afsakanir.  Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis sýnir fram á, að þetta var vel skipulagður glæpur.

Ég krefst þess, að komið verði í veg fyrir  að nokkur þessara aðila fái að eignast fyrirtækin sín aftur eða fái að eignast eða reka fyrirtæki hér á landi um aldur og ævi.  Ég krefst þess að ákærur verði gefnar út á hendur öllu þessu fólki fyrir að rústa efnahag heimilanna, fyrirtækjanna sem voru ekki í þeirra eigu, fjármálakerfisins, sveitarfélaganna og hins opinbera.  Ég krefst þess jafnframt að Fjármálaeftirlitið noti þær heimildir sem stofnunin hefur, til að svipta alla þessa einstaklinga rétt til að vinna í fjármálafyrirtækjum.  Ég krefst þess að eignir þessara einstaklinga verði frystar strax.  Ég krefst þess að þetta nái til allra þeirra innan bankanna sem sniðgengu lög, reglur, verkferla, góða viðskiptahætti, almenna varúð, eðlilega áhættustýringu og góða stjórnhætti.  Þeir sem gerðu það, eru alveg jafnsekir og þeir sem fyrirskipuðu bullið.  Það er greinilega eitthvað verulegt að siðgæðisvitund þeirra einstaklinga, sem tóku þátt í þessu rugli.  Það er ekki afsökun að annars hefði fólk misst vinnuna.  Það er ekki afsökun að þetta hafi verið hluti af stefnu bankans eða fyrirtækisins.  Það er ekki afsökun að þetta hafi bara verið viðskipti.  Þetta var græðgi, þetta var drambsemi, þetta var valdafíkn.  Kannski er til of mikils ætlast að þetta fólk missi allt störf sín hjá bönkunum.  Samt er ég ekki viss.  Það er vegna verka þessara einstaklinga, að fjölmörg heimili í landinu eru komin á vonar völ eða eru á leiðinni þangað.  Það er vegna verka þessa fólks sem mörg fyrirtæki eru komin í þrot.  Kaldhæðnin er svo að í einhverjum bönkum, eru þeir sem voru frekastir í því að brjóta reglurnar, settir yfir þær einingar bankanna sem eru að gera upp og taka yfir fyrirtæki og eignir heimilanna.  Þetta er náttúrulega bara skandall.  Skammist ykkar.


mbl.is Allra stærsti skuldarinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þetta er góð grein hjá þér Marinó og skorinort. Ég vil þó benda á þá staðreynd að erfitt gæti reynst að verða við þeirri kröfu að fella niður eða lækka skuldir heimilanna. Þessi "glæsilega velferðarstjórn" sem lofaði að slá skjaldborg um heimilin er ný búin að gera samkomulag við IMF um að ekki skuli farið í slíkar framkvæmdir. Væntanlega má ekki eyða peningum í slíka vitleysu, það þarf að bjarga útrásarglæpamönnunum fyrst.

Gunnar Heiðarsson, 19.4.2010 kl. 12:42

2 identicon

Já þarna er eitthvað mikið að svo mikið er víst. Það er ekki eðlilegt hvernig þetta gekk allt fyrir sig og öruggt að það eru ekki öll kurl komin til grafar.

Þó vissulega sé ábyrgðin bankamannana og helstu eigenda þá er aumingjagangur FME og SÍ alveg yfirgengilegur og þeir aðilar geta ekki skorist undan ábyrgð.

Það er svo enn annar skadanllin að eftirlitsaðilarnir hafi ekki knúið fram þær heimildir sem þeir þurftu að hafa frá löggjafanum. Því miður bendir það til þess að FME og SÍ hafi verið á tvöföldum launum þ.e. frá alþingi og svo viðbótarlaunum frá fjármálakerfinu.

Hluti alþingis hefur svo verið á þessum sömu launagreiðslum líka (en þar er þetta kallað styrkir).

Magnús Orri Einarsson (IP-tala skráð) 19.4.2010 kl. 13:28

3 Smámynd: Billi bilaði

Heyr, heyr!

Billi bilaði, 19.4.2010 kl. 14:33

4 identicon

Sæll Marínó,

Þetta er góð greining hjá þér, en vandamálið hvernig á að fjármagna þetta.

Það þarf klárlega að endurfjármagna vitrænt fjármálakerfi sem er sniðið að þörfum landsmanna enda þurfa þessar stofnanir að lifa á vaxtamuni.  Annars búum við til ófreskjur sem liggja ofan á heimilum og fyrirtækjum þessa lands.

Áframhaldandi skuldaafsal verður til að það þarf að endurfjármagna bankakerfið og það verður einungis gert með því að fjárvana ríkissjóður þarf að skrapa saman lánsfé og leggja í bankakerfið og það er fé sem kemur frá íslenskum skattgreiðendum og frá lífeyrisþegum með hækkuðum sköttum, álögum og skertum eftirlaunum.

Umræðan um Icesave er vonandi endanlega dauð eftir "hrunsskýrsluna".

Kanski ætti að gera þjóðaratkvæðagreiðslu og þar sem fjármögnin komi fram.  Skuldaafsal verður að mestu kostað af Íslendinum sjálfum hversu nú ömurlegt það er nú.  Hefur annars einhver heyrt um skuldaafsal sem nær til heillar þjóðar?  Þetta á án vafa eftir að vekja athygli út fyrir landsteinanna.

Gunnr (IP-tala skráð) 19.4.2010 kl. 15:09

5 Smámynd: Dingli

Fín grein. Það er virkilega fróðlegt að sjá það svart á hvítu, að þyngd drápsklafans sem hengja skal á ungar fjölskyldur (og aðra sosum líka) til lífstíðar, er svipuð þyngd gullsins sem konungur Svörtulofta jós af rausn sinni úr fjárhirslum Íslensku þjóðarinnar, til óreiðumanna síðustu metrana fram af hengifluginu. Manna sem hann segist þó hafa varað við mánuðum ef ekki árum saman. Það afsakar þó varla vesaldóm núverandi ráðamanna.

Ef hægt er að létta áratuga oki af því unga fólki þessa lands sem er að hefja lífsgöngu sína með ungum börnum sínum, fyrir mun lægri upphæð en Baugs-fjölskyldan ein skuldar þjóðinni, þá skulu níðstangir reistar með höfðum þeirra sem svo ekki gera í þjónkun sinni við alþjóðasamtök þjóðarauðsræningja.

Dingli, 19.4.2010 kl. 16:00

6 identicon

Kannski ef bankamenn hefðu haft bein í nefinu og neitað að taka þátt í þessu þá hefðu eigendurnir ekki komist upp með að ganga eins langt og þeir gengu. Að sjálfsögðu áttu þeir á hættu að verða reknir. Því miður finnst mér hafa skort það nauðsynlega siðgæði sem til hefði þurft. Stjórnendur bankanna mátu launin sín greinilega meir en siðgæði, mannorð sitt, hagsmuni bankans sjálfs og annarra umbjóðenda sinna.

Magnús B Jóhannesson (IP-tala skráð) 19.4.2010 kl. 16:18

7 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Marinó,

Ég tek heilshugar undir kröfur þínar!  Þeir sem stóðu að þessu eða á bak við þetta eiga aldrei að koma nálægt viðskiptum eða eignarhaldi aftur.  Þetta var skipulagður glæpur.  Sennilega frá því að bankarnir voru keyptir.  Það átti að nota þá sem einkasparibauka eigendanna þvers og kruss og skítt með alla aðra.  Ekkert í þessari bankastarfsemi nær nokkurri einustu átt ef hagur bankanna sem fyrirtækja hefði verið hafður að leiðarljósi.  Þessi fyrirtæki voru gersamlega mergsogin og varla skilin króna með gati eftir.  Eignasöfnin féllu úr hvað 12 þúsund milljörðum niður í 4 þúsund milljarða á einum mánuði eftir hrunið skv. rannsóknarskýrslunni, þ.e. frá 1. október 2008 til 1. nóvember 2008.  Landsbankamenn klöppuðu sér svo á bakið fyrir að "það ætti að vera nóg fyrir Icesave" í eignum Landsbankans!  Eftirlitsstofnunum var haldið í skötulíki til þess að eigendurnir gætu haldið áfram að tæma kassann.  Enginn mátti komast að því hvað var að ske. 

Það varð ákveðin múgsefjun á Íslandi þennan fyrsta áratug 21. aldar.  Það var sterkur straumur hjá fólki.  Ég fann þetta þegar ég var að koma upp á árunum 2003-2005.  Það voru peningar allstaðar.  Maður sá ótrúlegt flæði peninga hvar sem maður fór.  Það var uppbygging allstaðar.  Það voru nýjar, rándýrar vinnuvélar upp um allt og út um allt hvar sem maður fór.  Ný hús, nýir bílar, ný fyrirtæki, nýtt fólk.  Það pældi enginn í hvaðan þessir peningar komu eða hvernig þeir höfðu ratað til Íslands.

"Make hay while the sun shines" segja menn hérna megin við pollinn og það var akkúrat það sem maður sá.  Menn á fullu í heyskap með nýjan traktor og nýjar vélar á nýjum túnum og allt í fullum gangi.  En það sem enginn tók eftir var að það var engin geymsla fyrir heyið, enginn markaður og engin skepna til að éta það.  En menn hrifust af heyskapnum og töðulyktinni og héldu bara áfram að heyja.  Menn voru svo uppteknir af þessu að menn fóru erlendis og heyjuðu og fluttu heyið til Íslands.  Og enginn tók eftir því að það var kominn hiti í stæðuna úti á túni og á haustdögum 2008 kviknaði svo í öllu saman og allt brann til ösku.  Menn áttuðu sig heldur ekki á að allir nýju traktorarnir og vélarnar og jarðirnar voru allar keyptar fyrir lánsfé og það var ekkert hey til að selja, enginn markaður fyrir það til að byrja með en nú var heldur ekkert eftir, allt brunnið! 

Utan frá hefur verið afskaplega sérkennilegt að horfa upp á þetta.  Maður hreifst af þessu og ég held flestir hafi að einhverju leiti.  Íslendingar voru lagstir í víking í annað sinn og þessum mönnum virtist allt verða að gulli.  En það var bara ekkert gull, það var bara akkúrat ekkert á bak við megnið af þessum draumórum.  Maður fann ólguna vorið og sumarið 2008 en þá var líka mikil ólga og órói hér í Bandaríkjunum og allir stóðu á öndinni síðla sumars. 

Við fluttum um þetta leiti og þegar við fórum frá San Antonio seinni part September þá virtist Ísland í góðum gír.  Þegar við höfðum komið okkur í hús hér í Port Angeles, fengið internet tengingu og komið tölvunum upp þá var Ísland ein rjúkandi rúst, algjör upplausn á öllum sviðum og maður velti fyrir sér í alvöru hvort borgarastyrjöld myndi ekki brjótast út á næsta klukkutíma!  Og maður fann fyrir ákveðinni skömm, þó maður væri svo víðsfjarri.  Skömm á því sem hafði gerst, hvernig í ósköpunum gat þetta skeð???  Hvað var að?  Var þetta allt efnahagskreppunni að kenna eða var eitthvað meira að?  Fljótlega fóru að heyrast fréttir af sérkennilegum aðgerðum innan bankanna, svo skelltu Bretar hryðjuverkalögum á Ísland, sem við vitum núna að var vegna stórfelldra fjármagnflutning til Íslands, og allt fór í baklás.  Maður átti allt eins von á því þegar maður slagaði að tölvunni í morgunsárið að Ísland væri dottið úr sambandi við umheiminn og allt væri farið til fjandans. 

En einhvernvegin þraukuðu menn og einhvernvegin komust menn í gegnum þetta.  Það verður enginn dans á rósum að komast út úr þessu en ég hef fulla trú á að það takist.  Íslendingar eru ráðagóðir og hæfileg bjartsýni þegar útlitið er dökkt er kannski brjálæði en hefur oft reynst Íslendingum góður bakhjarl.  Mörgum hefðu fallist hendur í Vestmannaeyjum 1973 þegar eldgos hófst í bæjarjaðrinum, en manni og mús var bjargað til lands.  Samastaðan var sterk þegar snjóflóðið féll á Neskaupstað 1974, Flateyri og Súðavík 1995.  Sömuleiðis þegar flóðið frá eldgosinu í Gjálp sópaði nánast öllum mannvirkjum af Skeiðarársandi 1996 og svo mætti lengi telja.  Þessi brjálsemisbjartsýni hefur komið okkur í gegnum marga erfiðleika en líka spurning hvort hún hefur ekki komið okkur í suma. 

(fyrirgefðu að þetta varð í lengra lagi, mér hættir við skrifræpu þegar þessi mál ber á góma;)

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 19.4.2010 kl. 16:26

8 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég tek undir allar kröfur þínar. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 19.4.2010 kl. 16:49

9 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Það er eitt sem mér finnst þurfa breyta í umræðunni um skuldir almennings og þá sérstaklega með gengistryggðu bílalánin, og það er að þar er ekki um afskriftir á almenning að ræða.  Þar er fyrst og fremst um leiðréttingu á bókhaldi banka og fjármálafyrirtækja að ræða.  Bókfært virði skuldanna var of mikið.  Það kemur ekki heim við lánaskjölin sem almenningur hefur.  Almenningur á ekki að borga fyrir slík bókhaldssvik eftirlitsskyldra aðila.

Erlingur Alfreð Jónsson, 19.4.2010 kl. 21:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 247
  • Sl. viku: 425
  • Frá upphafi: 1680811

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband