12.4.2010 | 22:41
Furðuleg villa í Skýrslunni
Ég tók eftir því í umfjöllun RÚV um Skýrsluna, að þar var ótrúleg rangfærsla um áhrif breytinga á húsnæðislánakerfi Íbúðalánasjóðs á íslenska hagkerfið. Þarna létu menn greinilega mata sig af röngum upplýsingum og má spyrja sig af hverju það var gert. Hvernig getur forstöðumaður hagfræðisviðs Seðlabanka Íslands komið með svona rugl eins og hann gerir, vekur furðu mína. Hallur Magnússon hefur margoft hrakið öll þessi rök aftur til föðurhúsanna og ég sé að hann var fljótur til í dag.
Þórarinn G. Pétursson hefði betur skoðað tölulegar staðreyndir sem birtar eru í töflum Seðlabankans. Þar kemur nefnilega fram, að útlán Íbúðalánasjóðs drógust saman frá 2004 til 2008. Hvernig getur samdráttur í útlánum ÍLS leitt til þenslu? Mér er gjörsamlega ómögulegt að skilja þetta. Á sama tíma jukust húsnæðislán bankanna um meira en tvöfalda þá tölu sem lán ÍLS drógust saman um.
Ég er svo sem ekki búinn að lesa mikið í Skýrslunni, en ég hef ekkert heyrst minnst á áhrif Basel II regluverksins á útlánaþenslu bankanna. Hver sem vill getur séð, að útlán bankanna byrjuðu að aukast um leið og Basel II reglurnar tóku gildi hér á landi og samhliða því að bindiskylda bankanna var minnkuð um helming árið 2003. Kannski er þetta skoðað, ég bara veit það ekki enn, en fyrst ekki hefur verið minnst á það í skýringum, þá hefur nefndin líklegast ekki tekið á áhrifum Basel II. Reglurnar koma nefnilega aftur við sögu í mars 2007. Ég heyrði einn nefndarmann gagnrýna skattalækkun til heimilanna 1. mars 2007, en ekki nefna einu orði breytinguna á Basel II reglunum daginn eftir. Þenslan sem varð um sumarið 2007 varð vegna aukinna útlána bankanna, þar sem útlánageta þeirra var aukin um 42% 2. mars 2007. Að heimilin hafi haft 3% meira umleikis skýrir ekki 14% verðbólgu í ágúst/september 2007. Sá sem heldur því fram að 3% lækkun matarverðs hafi meiri áhrif en 42% aukningu á útlánagetu, þarf að skerpa á stærðfræðikunnáttunni.
Viðbót 13.4.2010 kl. 11:00
Hér fyrir neðan er línurit sem sýnir útlánaþróun í lánakerfinu frá aldamótum fram til hruns bankanna. Efsta línan er heildarútlán, þá eru það útlán til atvinnuveganna, heimilanna (er skipt í lán frá Íbúðalánasjóði og lán frá öðrum frá og með 3. ársfjórðungi 2003; ÍLS er appelsínugula línan (neðri)) og loks lán til opinberra aðila. Á þessu línuriti sést að útlán ÍLS til heimilanna stendur nánast í stað á þessu tímabili. Raunar eru útlán ÍLS til heimilanna 444 milljarðar kr. í lok 2. ársfjórðungs 2004 og standa í 455 milljörðum kr. í lok 3. ársfjórðungs 2008. Í millitíðinni voru útlánin ALLTAF vel fyrir neðan þessar tölur og fóru lægst í 342 milljarða kr. í lok 1. ársfjórðungs 2006. Líklegast má rekja hluta "útlánaaukningarinnar" frá þeim tíma til verðbóta á lán, en ekki svo mikið til nýrra lána.
Nú vilja örugglega einhverjir halda því fram að tilkynning ÍLS um að fara í 90% lán sé það sem skiptir máli. Tölurnar segja annað. Það var fyrst og fremst innleiðing FME á Basel II reglunum sem orsökuðu þensluna og algjör dómgreindarskortur Seðlabankans að bregðast ekki við hinni auknu útlánagetu sem í því fólst með mótvægisaðgerðum, eins og t.d. að auka á bindiskylduna í staðinn fyrir að draga úr henni, að hækka stýrivexti verulega eða bara eitthvað annað en að lækka bindiskyldu. Hagstjórnarmistök Seðlabankans eru því æpandi í þessu máli og er bara eðlilegt að núverandi yfirhagfræðingur bankans reyni að beina umræðunni í annan farveg.
Rangfærslur í skýrslunni varðandi húsnæðislánamarkaði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (8.11.): 5
- Sl. sólarhring: 7
- Sl. viku: 216
- Frá upphafi: 1679949
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 197
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Tregða í þinginu til að hleypa 90% lánum af stokkunum olli því að félagar Árna Magnússonar í bönkunum (þáverandi félagsmálráðherra) opnuð sjálfir fyrir 90% lán og lánin sem juku á þensluna komu því öll úr bönkunum. Þegar opnað var fyrir þetta hjá íbúðarlánsjóði var hann því í samkeppni við bankanna. og skaðunn sem þessi 90% lánvitleysa olli var skeður.
Þetta skiptir hinsvegar litlu máli í þessu held ég því eins og kemur fram í skýrslunni ágætu þá var það fölsun á efnahagsreikningum og þjófnaður eigenda bankanna úr þeim sjálfum sem urðu þess valdandi að efnahagur íslands hrundi 2008.
Guðmundur Jónsson, 12.4.2010 kl. 23:23
Það var líka annað sem stakk mig svolítið, því var haldið fram að Neyðarlögin hafi verið barinn saman í flýti og því meingölluð. Meingölluð eru þau vissulega, en ég hef fyrir því nokkuð áreiðanlegar heimildir að fyrstu drög hafi legið fyrir uppi í Seðlabanka í Mars 2008.
Herbert (IP-tala skráð) 12.4.2010 kl. 23:29
Þú og Geir hagfræðingur búið við sömu fötlun, hans er að hafa ekki starfað við hagfræði í langan tíma.
Þú segir: Hvernig getur samdráttur í útlánum ÍLS leitt til þenslu?
Hann gerir það ekki.
Þú segir: Á sama tíma jukust húsnæðislán bankanna um meira en tvöfalda þá tölu sem lán ÍLS drógust saman um.
Bingó. Margkannað og margsannað í hagfræði að (ógreiddur) "nýkeyptur" banki verður að auka markaðshlutdeild sína. Þú manst ekki eftir keppninni sem bankarnir voru í við ÍLS ? Undirbuðu ÍLS í vöxtum og lánshlutfalli. Loforð Árna og Framsóknar var borðleggjandi fyrir hækkandi íbúðaverð, þeir eiga þessa fasteignabólu alveg einir enda ekki nokkur leið að maður treysti þeirra útreikningum (óséðum) í bráð.
Stefanía (IP-tala skráð) 13.4.2010 kl. 00:29
Það er alveg rétt að bankarnir veiti 100% lán áður un ÍLS gerði það og undirbauð ÍLS, en það er hins vegar vandséð hvernig, kosningaloforð um 90% lán ÍLS eigi að orsaka þetta, þegar frjálsir bankar á frjálsum markaði máttu lána að villd í íbúðarhúsnæði,,, þess vegna 130% ef þeir vildu.
Nei.. þarna undurbuðu bankarnir ÍSL með ódýru lánsfé og ég man vel eftir dögum þar sem t.d. kaupþing dömpaði skuldabréfum á markaðinn á sama tíma og ÍSL hélt sín útboð.. eingöngu (að því er virðist ) til þess að hækka ávöxtunarkröfu á bréf ÍLS svo kaupþing geti boðið betri kjör en ÍLS. skítalykt af þessu þá og nú. Bankarnir, en hvorki pólitíkusar né ÍLS hleyptu íbúðaverði upp.
stebbi (IP-tala skráð) 13.4.2010 kl. 00:37
Þetta var bara beita. Eftir fengin viðbrögð er nú loks hægt að áætla stærð Framsóknarflokksins.
stefan benediktsson (IP-tala skráð) 13.4.2010 kl. 00:52
Marinó, þú hefur að hluta til rétt fyrir þér - en ekki nema hluta til og það er nóg til að þú hefur algjörlega rangt fyrir þér...
Það er rétt hjá þér að aukið aðgengi bankanna að fjármagni (Basel II og annað) hefði óháð rýmkuðum reglum Íbúðlaánsjóðs leitt til þess að bankarnir hefðu leitað á húsnæðismarkaðinn. Að því leiti hefur þú rétt fyrir þér
En það hafði verið löng hefð fyrir því á Íslandi að Íbúðalánasjóður og forverar hans sáu fólki fyrir grunnupphæð þess sem þurfti til að koma sér upp heimili. Bankarnir lánuðu síðan fyrir nánast öllu því sem á vantaði - eigið fé var í raun afskaplega lítið. Þessi lán voru oftar en ekki með öðru veði, t.d. í eignum foreldra lántaka.
Við það að tilkynna að Íbúðalánasjóður færi að lána 90% lán gerðist tvennt: Annars vegar var Íbúðalánasjóður að sópa bönkunum út af fasteignamarkaðnum og hins vegar að sýna fram á að það væri í lagi að lána svo hátt hlutfall fasteigna.
Viðbrögð bankanna voru því í raun mjög fyrirsjáanleg - þeir fóru líka út á þennan markað með mun meiri hörku en þeir hefðu ella gert.
Steingrímur Jónsson (IP-tala skráð) 13.4.2010 kl. 01:25
Það var auðvitað hin pólitíska ákvörðun um hækkun sem máli skipti en ekki hver lánaði féð.
Maður undrast þessi viðbrögð þín og athugasemdir Marinó!
Árni Gunnarsson, 13.4.2010 kl. 06:00
Framsóknarmaður í afneitun... mátt svo sem við því búast
Jón Ingi Cæsarsson, 13.4.2010 kl. 07:12
Tek undir með Steingrími Jónssyni, en einnig Árna Gunnarssyni.
Sigurður Þorsteinsson, 13.4.2010 kl. 07:15
Húsnæðislánakerfið þekki ég ekki Marinó, en að grófar villur og vanþekking birtist í skýrslunni get ég sannað. Þær varða peningastefnuna og Icesave.
Torgreinda peningastefnan (discretionary monitary policy) og inngangan á Evrópska efnahagssvæðið voru alger forsenda fyrir stækkun bankanna. Enginn skilningur hjá nefndinni.
Kröfur Breta og Hollendinga eru algerlega forsendulausar og engu máli skiptir hvort Icesave var rekið í dótturfélagi eða útibúi. Það var spurningin um starfsstöð (physical presence) sem skipti máli. Landsbankinn var með fullar innistæðutryggingar í Bretlandi og Hollandi, auk tryggingarinnar hjá TIF. Enginn þekking hjá nefndinni.
Loftur Altice Þorsteinsson, 13.4.2010 kl. 09:29
Því má bæta við, að rannsóknarnefndin heldur áfram því tuði Samfylkingarinnar að einkavæðing Landsbankans og Búnaðarbankans hafi valdið hruni alls bankakerfisins. Íslandsbankinn var ekki einkavæddur og stór hluti Kaupþings var fyrir hendi, ásamt fleirri fjármálastofnunum. Var einkavæðingar-glæpurinn hugsanlega fólginn í því að góðvinir Samfylkingarinnar fengu ekki að kaupa bankana ?
Loftur Altice Þorsteinsson, 13.4.2010 kl. 10:43
Samkvæmt upplýsingum frá Íbúðalánasjóði, þá voru 90% lán 30% af útlánum sjóðsins á árunum fyrir 2004. Já, heil 30%. Það sem átti að breyta var að í staðinn fyrir að sérstökum hópum væri boðin 90% lán, þá átti í áföngum að bjóða öllum að uppfylltu ströngum skilyrðum. Þessu átti að vera lokið á vormánuðum 2007. Það hefur líka komið fram í tölum Halls Magnússonar að þeim sem uppfylltu skilyrði um 90% lán fækkaði í reynd við þessa aðgerð, en fjölgaði ekki. Þeim fjölgaði á landsbyggðinni en í staðinn heyrði það til undantekningar að lántakar á höfuðborgarsvæðinu gætu fengið slík lán. Ég bið fólk um að kynna sér staðreyndir.
Ég er búinn að bæta við færsluna línuriti sem sýnir þróun útlána hér innanlands frá aldamótum fram að hruni bankanna samkvæmt upplýsingum af vef Seðlabanka Íslands. Frá þriðja ársfjórðungi 2003 eru til upplýsingar um skuldir heimilanna hjá Íbúðalánasjóði og sýni ég því skiptinguna milli ÍLS og annarra eftir það. Þetta línurit sýnir svo ekki verður um villst, að þenslan var ekki frá ÍLS komin. Raunar er hægt að sjá að útlán bankanna aukast strax á 3. ársfjórðungi 2003, en Basel II reglurnar tóku gildi hér á landi í lok júní það ár. Sú breyting hafði í för með sér allt að 100% aukningu á útlánagetu bankakerfisins miðað við óbreytt eigið fé. Síðan má líka merkja útlánaaukningu á 2. ársfjórðungi 2007, en 2. mars 2007 var gerð breyting á áhættuútreikningi Basel II sem jók útlánagetu bankakerfisins gegn viðurkenndu veði um 42%.
Marinó G. Njálsson, 13.4.2010 kl. 11:19
Marínó,
Við munum vissulega ekki eftir innanhúsáætlunum Framsóknaríbúðalánasjóðsins sem Hallur er nú (selektíft?) að rifja upp og notar til að réttlæta að kosningaloforð flokksins hafi ekki verið glórulaus, en við munum vel eftir kosningabaráttunni 2003 og sjónvarpsauglýsingum xB.
Hallur er líka langt í frá hlutlaus, til að dæma um möguleg pólitísk mistök stjórnvalda, því eins og allir helstu forkólfar ÍLS er hann innmúraður Frammari. Þetta er þeirra stofnun, skv. helmingaskiptareglunni.
Skeggi Skaftason, 13.4.2010 kl. 13:51
Það er merkilegt, að skoðanir séu stimplaða eftir því hvar menn eru í flokkum, en ekki eftir innihaldi þeirra. Ég þekki Hall ekki neitt, en hef lesið skrif hans um þessi mál. Ég hef auk þess myndað mér mína eigin skoðun á þessu máli. Það vill oft verða um ósannindi að séu þau endurtekin nógu oft, þá heldur fólk að um sannleika sé að ræða. Þetta með áhrif tillagna ÍLS á íbúðalánamarkaðinn og þenslu í þjóðfélaginu er eitt dæmi um ósannindi sem allir telja heilagan sannleika. Tölurnar tala sínu máli. Það var engin þensla vegna aðgerða ÍLS, vegna þess að þær komu ekki til framkvæmda fyrr en nokkrum mánuðum eftir að bankarnir voru komnir í blóðugan slag um húsnæðislán landsmanna. Þeim fækkaði sem fengu 90% lán vegna þess að skilyrðin voru mjög stíf. Þetta úrræði hjálpaði síðan fyrst og fremst lántölum af landsbyggðinni, vegna þess að bankarnir voru ekki eins fúsir til að lána þeim og íbúum á SV-horninu.
Það er til línurit (ég er með það í einhverri færslu hjá mér ef ég man rétt) sem sýnir þróun vísitölu neysluverðs annars vegar og útlána bankanna hins vegar. Það er svo merkilegt, að verðbólgan helst í hendur með breytingum á lánshlutfalli bankanna og útlánaþróun, en hefur ENGA fylgni með aðgerðum ÍLS.
Marinó G. Njálsson, 13.4.2010 kl. 14:09
Þetta eru sannfæri röksemdir sem þú heldur fram Marinó. Má ég vísa á frábæra færslu þína um Basel II, hér:
http://marinogn.blog.is/blog/marinogn/entry/1002942/
Loftur Altice Þorsteinsson, 13.4.2010 kl. 15:06
Marinó: Þú svarar athugasemd minni í raun á engan hátt - ég segi að bara að ákvörðunin ein og sér hafi haft í för með sér efnahagslegar afleiðingar - afleiðingar sem eru þvert á það sem menn ætluðu sér með þeirri ákvörðun.
Töluleg gögn frá Íbúðalánasjóði um minnkun útlána eru því ómarktæk - bein afleiðing ákvörðunar um aukin útlán var þvert á móti minnkun útlána - en eins og þú bendir á komu vissulega önnur atriði að líka sem ýkti þetta allt - en það breytir því ekki að grunnurinn og stór hluti alls þessa klúðrs var ákvörðunin um 90% lán og hækkun hámarkslána.
Loftur Altice:
Ef þessi kenning þín um að ábyrgð á Icesave hafi verið í því landi sem útibúið var starfrækt þá fellur ansi margt undir sama hatt:
Bankarnir hefðu aldrei getað starfað nema með sérstöku starfsleyfi í aðildarlöndum ESB - kannski hlutur sem eftir á að hyggja var best mál, en Sjálfstæðisflokkurinn og sér í lagi Davíð Oddsson stærðu sig af.
Íslenskir námsmenn í aðildarrlöndum ESB - þ.m.t. norðurlöndum eftir breytingar ESB hefðu ekki fengið að stunda nám þar nema með auknum skólagjöldum þar sem þeir hefðu verið skilgreindir frá þriðja landi.
Íslendinar hefðu ekki fengið atvinnuheimild í hinum ýmsu löndum sem þeir starfa nú þar sem þeir hefðu verið skilgreindir frá þriðja landi.
Íslensk fyrirtæki hefðu ekki geta ráðið til sín vinnuafl frá aðildarríkjum ESB, á seinni árum t.d. Póllandi og Eystrasaltslöndunum, en fólk frá þessum löndum fylltu upp í störf sem Íslendingar nenntu ekki að vinna, t.d. fiskvinnslu og afgreiðslustörf. Aftur, kannski hefði það eftir á að yggja verið betra í þágu þennslu að þetta hefði ekki verið hægt - en þetta var engu að síður gert.
Þorsteinn Altice: Dæminn sem ég nefni hér að ofan eru bara nákvæmlega það: Dæmi! Og Dæmin eru fleiri. Dæmi um að ef sú heimsmynd sem þú hefur sett upp í kollinum á þér er rétt þá hafi öll þessi dæmi verið byggð á misskilningi!
En - kannski að mörgu leiti því miður - þá var þetta það sem við byggðum á - heimsmyndin sem við byggðum þessa fáránlegu uppsveiflu á.
En það hefði verið hægt að gera þetta öðruvísi. Það hefði t.d. verið hægt að byggja á öðru en bara lágmarksreglum EES og heimildir til að takmarka heimildir eignamanna með lögum.
T.d. með lögum sem nú er verið að leggja til að verði samþykkt án þess að menn telji að nokkrar reglur EES verði brotnar - án þess þó að nokkrar reglur EES hafi verið breytt!!!
Steingrímur Jónsson (IP-tala skráð) 13.4.2010 kl. 20:56
Já, og Loftur Altice:
Íslensk stjórnvöld - með meirihluta Alþingis á bakvið sig og með m.a. samþykki Geirs H. Haarde fyrir sína hönd og Fjármálaráðherra staðfestu með bréfi til breskra stjórnvalda að þau myndu standa á bakvið skyldu innstæðutryggingasjóð til að bæta tap breskra innstæðugeigenda. Bresk stjórnvöld ákváðu að stöðva ekki starfsemi Landsbankans í Bretlandi vegna þessa svars íslenskra stjórnvalda.
Jafnvel þó fullyrðing þín varðandi regluverkið væri rétt þá er þetta svarbréf íslenskra stjórnvalda nægjanlegt til að mynda skaðabótaábyrgð. Eða hvað myndir þú gera ef þú byggðir ákvarðanatöku þína á fullkomlega eðlilegri yfirlýsingu minni sem ég stæði síðan ekki við!
Það er síðan allt, allt annað mál hvort viðkomandi ráðherrar hefðu haft heimild til að lýsa þessari ábyrgð á hendur ríkissjóði Íslands - það kemur Bretum (og Hollendingum) nákvæmlega ekkert við - það er mál sem við verðum að eiga við þessa fyrrum ráðherra okkar. Því miður held ég að þeir verði ekki borgunarmenn fyrir því.
Steingrímur Jónsson (IP-tala skráð) 13.4.2010 kl. 21:32
Steingrímur, ég verð að viðurkenna að röksemdarfærsla þín undrar mig. 1) ÍLS ætlaði aldrei að ýta bönkunum út af markaðinum. 2) 90% lánin áttu að koma til framkvæmda árið 2007 og voru háð ströngum skilyrðum. Skýrðu út fyrir mér hvernig gat yfirlýsingu um að hækka lánshlutfall á 36 mánuðum úr 70% í 90% haft svona mikil áhrif, sérstaklega þegar haft er í huga að 90% hlutfallið var og er miðað við fasteignamat, ekki söluverð? Þessi rök þín halda ekki vatni.
Ef bankarnir hefðu ekki brugðist við á þann hátt sem þeir gerðu, þá má búast við breytingar á fasteignaverði hefðu orðið smávægilegar. Höfum í huga að vorið 2004 var komin stöðnun í sölu stærri eigna. Eingöngu sterkefnað fólk hafði efni á að kaupa eignir sem kostuðu yfir 30 milljónum. Ástæðan var hávaxtastefna bankanna á húsnæðislánum og að hámarkslán ÍLS voru 14 milljónir. Ekki að breyting í 18 milljónir hefði haft mikil áhrif. Stórar sérbýliseignir seldust á svipuðu verði og 4 herbergja íbúð í fjölbýlishúsi. Bankarnir sáu sér leik á borði.
Förum síðan aftur til 2003. Þá vildu bankarnir ÍLS út af íbúðalánamarkaði. Þeir meira að segja kærðu ÍLS til Eftirlitstofnunar EFTA og hvað það var nú fleira. Það sem gerðist hasutið 2004 var síðan tilraun þeirra til að koma ÍLS með undirboðum út af markaðinum. Leiðin var að hækka íbúðaverð það mikið, að lán ÍLS myndu ekki duga til að kaupa eignir, þrátt fyrir að fólk ætti þokkalegt eigið fé. Fólki var neitað um lán á öðrum veðrétti eða boðin betri kjör með því að lánið væri tekið í einu lagi hjá bankanum. Þetta var úthugsað og það tókst. Það er auðvelt að reikna út hve mikið íbúðaverð þurfti að hækka til að "verðleggja" ÍLS út af markaðnum. Mér sýnist það vera um 25%. Eftir það voru áhrifin af hækkun hámarksins horfin og 90% af fasteignamat var komið langt niður fyrir það sem dugði fyrir flesta kaupendur á höfuðborgarsvæðinu. Afleiðingin var að markaðshlutdeild ÍLS minnkaði mjög mikið, íbúðaverð hækkað og skuldsetning heimilanna jókst. Vissulega hefðu bankarnir ekki þurft að hækka fasteignaverðið eins mikið, ef hámark ÍLS hefði ekki verið hækkað í 18 milljónir, en mér finnst rökstuðningur þinn vera eins og kenna stúlku um að henni hafi verið nauðgað vegna þess að klæðnaður hennar var djarfur. Bankarnir fóru inn á íbúðalánamarkaðinn með því hugarfari að verðleggja ÍLS út af markaðinum og þeim tókst það nokkurn veginn hér á höfuðborgarsvæðinu.
Marinó G. Njálsson, 13.4.2010 kl. 21:44
Steingrímur, hvað lest þú úr eftirfarandi upplýsingum frá Financial Services Authority ?
· Icesave was a trading name of Landsbanki Island HF... · Landsbanki Islands HF was authorised by the Financial Services Authority (FSA) from December 2001...· It had an office in London, which meant that, as it had a physical presence in the UK, it was required to top-up to the FSCS...· We would confirm that the FSCS will pay compensation to the maximum limits, irrespective of the size of the levy paid to them.
Loftur Altice Þorsteinsson, 13.4.2010 kl. 23:32
Þó ILS hafi boðað 90% lán þá má ekki gleyma að það voru bankarnir sem byrjuðu þann business.
ILS lántökur stóðu í stað og því má kalla allt það sem bankarnir lánuðu til íbúðakaupa "viðbót".
Þessi viðbót er falin í bókhaldi bankana og því hugsanlega utan seilingar fyrir yfirvöld að vakta líkt og svo margt annað sem falið var í bókum bankana.
En mistökin, að leyfa bönkunum að lána til íbúðakaupa voru gerð af ríkisstjórn þessa tíma.
Kjartan Kjartansson (IP-tala skráð) 14.4.2010 kl. 03:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.