Leita í fréttum mbl.is

Þrjú frumvörp um greiðsluaðlögun og umboðsmann skuldara

Jæja, þá er ég snúinn aftur úr bloggfríi.  Vonandi hafið þið ekki saknað mín of mikið Smile

Lögð hafa verið fram þrjú frumvörp á Alþingi.  Eitt um breytingu á lögum um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, annað er að nýjum lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga og þriðja frumvarpið er að lögum um umboðsmann skuldara.  Í öllum þessum frumvörpum felst mikil réttarbót fyrir lántaka, þó svo að þau séu vissulega þeim annmarka háð, að hvergi er gerð nokkur tilraun til að viðurkenna þann forsendubrest sem orðið hefur.

Breytingarnar á lögum um tímabundna greiðsluaðlögun eru margþættar.  Í fyrsta lagi er tekið á lánsveðum og þau felld undir greiðsluaðlögun lántakans.  Þetta er fyrst og fremst réttarbót fyrir þann, sem lánaði veð í fasteign sinni.  Ég er þó ekki alveg viss hvort og þá hvernig er tekið á því þegar lánið er líka fengið í gegn um þriðja aðila.  Verið getur að slíkt verði túlkað sem lánsveð og meðhöndlað eftir því.  Í öðru lagi er mikill bálkur sem fjallar um úrræði fyrir þá sem eiga tvær eignir og hafa ekki getað selt aðra.  Þetta úrræði nær einhverra hluta vegna eingöngu til eigna sem keyptar eru fyrir 8. október 2008 og skilur því útundan, ef svo má að orði komast, fólk sem er að skipta um sambúðarform (hvort heldur að skilja eða hefja sambúð) og neyðist til að minnka eða stækka við sig.  Margt er mjög gott í þessum hluta frumvarpsins, en mér sýnist ýmislegt megi gera til að bæta textann enn frekar.  Bálkurinn um tvær eignir hefur takmarkaðan gildistíma, þannig að það er eins gott að frostið á fasteignamarkaðnum haldist ekki fram yfir þann tíma sem er 31.12.2011.

Frumvarp að lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga færir greiðsluaðlögun einstaklinga út úr lögum um gjaldþrotaskipti yfir í sérlög.  Lagatextinn er auk þess lagaður að þeirri breytingu sem á sér stað við stofnun umboðsmanns skuldara og þau úrræði sem hann mun hafa.  T.d. verður greiðsluaðlögunarferlið fært inn til embættis umboðsmanns skuldara.  Hjá umboðsmanninum verður alltaf fyrst reynt að ná frjálsum samningum um greiðsluaðlögunina, en takist það ekki verður það hlutverk dómara að koma á þvingaðri greiðsluaðlögun.  Of langt mál er að fara í alla þætti frumvarpsins, en að mínu mati er hér mikið framfaraskref.

Loks er það frumvarp um umboðsmann skuldara.  Vissulega vildi ég frekar, miðað við hlutverk embættisins, að það væri kallað umboðsmaður lántaka, þar sem umboðsmanninum er m.a. ætlað að hafa eftirlit með ýmsu í lánastarfsemi.  Á vissan hátt má segja að hér sé verið að færa Ráðgjafastofu um fjármál heimilanna í nýja búning, en nákvæmara er að segja, að ráðgjafastofan sér færð undan forræði fjármálafyrirtækjanna til aðila, sem á að hafa skoðun og taka afstöðu með lántakanum.  Lántakar eru því að fá málsvara með nokkuð mikil völd.  Hér er því annað mjög mikið framfaraskref fyrir almenning.

Í þessu öllu er þó enn og aftur verið að taka á einkennum þess sjúkdóms sem sýkt hefur stóran hluta þjóðlífsins.  Þá á ég við stökkbreytingu höfuðstóls lána í kjölfar gengishrunsins 2008.  Öll eru þessi úrræði góðra gjalda verð, en betra hefði verið, ef ráðist á sjúkdóminn sjálfan.  Hann grasserar ennþá af fullum þunga og krefst sífellt fleiri fórnarlamba.  Fyrir þau er búið að útbúa þessa fínu líknardeild með góðum tækjum og fullt af starfsfólki.  En það er löngu tímabært að finna lækningu við sjúkdómnum og varna því þannig að fólk rati inn á líknardeild.  Fjármálakerfið verður að taka á sig hina miklu leiðréttingu sem þarf að eiga sér stað.  Það gengur ekki lengur, að almenningur þurfi að borga fyrir mistök manna sem höfðu greinilega ekki hundvit á viðskiptum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Það mun ekkert breytast fyrr en almennigur tekur málin í sínar eigin hendur. Það er löngu ljóst.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 7.4.2010 kl. 02:53

2 Smámynd: Elle_

Almenningur er að taka á sig mistök manna, sem höfðu ekki hundsvit á hvað þeir voru að gera og líka á illgjörðum gróðafíkla, sem vissu vel hvað þeir voru að gera og viljandi voru að leggja á grunlausan almúgann.  Og enn sefur ríkisstjórnin, -þau eru of upptekin við að reisa bankana á kostnað sama almúgans og koma Icesave-nauðunginni yfir hann.   

Elle_, 7.4.2010 kl. 07:16

3 identicon

Það var farið að sakna skrifa þinna a.m.k. hjá okkur, takk fyrir þessi skrif og samantekt Marino. Hverning væri nú að halda almennan fund t.d. hjá Hagsmunasamtökum Heimilana um þessi þrjú lagafrumvörp þar sem til væru kvaddir m.a. lagasmiðirnir.

Hvernig er t.d. útfærslu háttað um þá sem eiga tvær eignir en hafa ekki geta selt aðra o.fr.fr.fr.fr.

Kristinn & Inga (IP-tala skráð) 7.4.2010 kl. 09:24

4 Smámynd: Vilborg Eggertsdóttir

~ yfirklór og ekkert annað - aðeins sýndarmennska.

Það er eitthvað meiriháttar AÐ: Legg til að ríkisstjórnin verði rekin út langt á tún og við tökum málin í eigins hendur.

~ Power to the people ~

Vilborg Eggertsdóttir, 7.4.2010 kl. 12:40

5 identicon

Sæll
Verð að játa að ég var farinn að sakna skrifa þinna.
Yfirsýn, traust og dómgreind - ekki margir sem skarta þinum kostum í dag.

kv,

vj (IP-tala skráð) 7.4.2010 kl. 14:30

6 identicon

Ég segi eins og konan mín: Er Marinó búinn að skoða þetta? Maður tekur ekki afstöðu fyrr.

Marat (IP-tala skráð) 8.4.2010 kl. 01:02

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Marat, takk fyrir mig.  Ég þekki svo sem innihald frumvarpanna þokkalega, en hef ekki skoðað þau með það í huga hvað mætti bæta fyrir utan að ég vil gjarnan sjá að greiðsluaðlögunin geti náð til bænda.

Annars vil ég gjarnan fara að sjá frekari úrræði til að leiðrétta stökkbreytingu lánanna án þess að fólk verði langleiðina gert eignalaust í leiðinni.  Stökkbreytingin er afleiðing af forsendubresti, glapræði og fjárglæfrum fáeinna bankamanna og eigenda bankanna, ótrúlega furðulegrar áhættustjórnunar og hræðilegra mistaka í viðskiptum.  Og það er út í hött að senda heimilum og fyrirtækjum landsins reikninginn fyrir þessu öllu.

Marinó G. Njálsson, 8.4.2010 kl. 13:38

8 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Gott að þessi mál eru að þokast í rétta átt. Það tekur alltaf tíma að finna bærileg úrræði oh ekki sístí svo flóknum málum. Haf þú Marinó og þínir félagar í HH góða þökk fyrir alla þá vinnu  sem þið hafið unnið til að gera samfélagið okkar betra.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 8.4.2010 kl. 22:48

9 identicon

Sæll Marinó

Ég er sammála þér með að það sé kominn tími á sjá frekari
úrræði til að leiðrétta lánin. Hvernig metur þú stöðuna?
Sérð þú einhver teikn um að það geti orðið?

kv,

vj (IP-tala skráð) 9.4.2010 kl. 11:16

10 Smámynd: Marinó G. Njálsson

VJ, starfshópur Alþingis, sem ég á sæti í, er að skoða málin frá ýmsum sjónarhornum.  Við þurfum að skoða meira en bara vanda heimilanna og sjáum raunar sama vanda mjög víða.  Efnahgs- og skattanefnd er líka að skoða málið og eigum við hjá HH fund með þeim í dag, þar sem við ætlum að kynna okkar hugmyndir.  Við erum búin að vera að vinna í þeim í nokkra mánuði og teljum okkur vera að færast nær markinu.  Ég var bara að mestu upptekinn síðasta mánuð og því tafðist þessi vinna.  Vinnan er komin á fullt aftur og þá kemur blessuð rannsóknarskýrslan.  Það hefur bæði kosti og galla.  Gallarnir eru að líklegast kemst ekkert annað að í þjóðfélaginu næstu vikur en skýrslan, en kostirnir er að í skýrslunni ætti að vera ýmislegt sem nýtist okkur sem vopn í baráttunni.  Loks er aðalfundur HH 20. apríl og vilji er hjá hluta stjórnar að kynna tillögur samtakanna þar eða a.m.k. stöðu vinnu okkar eins og hún verður þá.

Það fer ekkert á milli mála, að fólk er orðið mjög óþreyjufullt.  Mér finnst það grátlegt, að stjórnvöld telji hina miklu eignaupptöku, sem er að eiga sér stað, vera sjálfsagðan hlut.  Að stökkbreyting lánanna sé bara "shit happens" sem við verðum að taka á kinnina.  Ég mun aldrei sætta mig við það og flyt frekar úr landi en búa við það hér á landi.  Annað hvort verður tekið á málunum á sanngjarnan og réttlátan hátt eða hér verður uppreisn.  Svo einfalt er það.

Marinó G. Njálsson, 9.4.2010 kl. 11:46

11 identicon

Takk kærlega fyrir þetta Marinó
Mjög gott að heyra þitt mat á stöðunni.
Ég er algjörlega sammála þér með að ef ekki verður fundin
sanngjörn niðurstaða, þá verður hreinlega uppreisn!

vj (IP-tala skráð) 9.4.2010 kl. 14:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.12.): 3
  • Sl. sólarhring: 241
  • Sl. viku: 427
  • Frá upphafi: 1680813

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband