11.2.2010 | 20:57
Tikk-tikk-tikk, tímasprengjan tifar, almenningur er að springa
Ég hef aldrei upplifað eins ástand og núna er í þjóðfélaginu. Hver afhjúpunin á fætur annarri um viðskipti svo kallaðra auðmanna, þar sem í ljós kemur að þeir áttu ekkert annað en nafnið, veltur yfir landsmenn. Ólafur Ólafsson átti ekki einn aur í því sem notað var til að kaupa hlutabréf í hinu eða þessu fyrirtæki. Jón Ásgeir Jóhannesson átti ekki einn aur í því sem notað til að kaupa hlutabréf í hinu eða þessu fyrirtæki. Brim keypti Icelandic Group og átti ekki einn aur af þeim peningum sem notaðir voru við kaup á félaginu. Jóhannes Jónsson býr í lúxusvillu sem hann hefur ekki lagt einn aur í. Hinir svo kölluðu auðmenn voru upp til hópa menn án peninga eða að þeir hættu aldrei sínu eigin aur í þær fjárfestingar sem þeir tóku þátt í. Veldi þeirra var loftbóla byggð á afleiðum.
Hér á landi byggðust eignir "auðmanna" á hlutabréfum sem þeir höfðu "keypt" í bönkunum. Kaupverðið hafði nánast alltaf verið að fullu tekið að láni hjá bönkunum sjálfum í gegn um eitthvað leppfélag. Peningurinn kom úr bankanum, tók tvo, þrjú hopp og skiluðu sér svo aftur inn í bankann, þar sem hlutabréfin voru oftast keypt af aðila sem notaði peninginn til að gera upp skuld við bankann. Nú hlutabréfin í bönkunum voru svo notuð sem trygging fyrir lánum sem notuð voru til að kaupa önnur hlutabréf, sem notuð voru sem trygging fyrir nýjum lánum, sem notuð voru til að kaup enn önnur hlutabréf, sem notuð voru sem trygging fyrir enn öðrum lánum, o.s.frv. Hvergi í allri keðjunni er lögð til ein króna af eigin fé. Eins og allir vita, þá er engin keðja sterkari en veikasti hlekkurinn og fall bankanna haustið 2008 varð til þess að keðja brast. Málið er að nær öll hlutabréfaeign "auðmanna" hékk saman í svona keðju sem er að leysast upp, eins og þegar lykkjufall verður. Allir sem þekkja til prjónamennsku vita að nóg er að ein lykkja falli til að allar lykkjur fyrir ofan missa festingu sína og ef ekki er gripið í snarhasti til heklunálarinnar, þá getur flíkin eyðilagst.
"Auður" íslenskra "auðmanna" lítur núna út eins og peysa alsett lykkjuföllum. Hann er að engu orðinn. Hann var líklegast enginn allan tímann. Það var allt fengið að láni. Dapurleg staðreynd, sem margir af þessum mönnum munu þurfa að lifa við sem eftir er ævi sinnar. Þeir skreyttu sig með stolnum fjöðrum og gengu um í nýju fötum keisarans.
Þetta var hin opinbera eignahlið á "viðskiptaveldi" þeirra, en hvað með hina óopinberu hlið. Það runnu jú stórar fjárhæðir til þeirra út úr félögum "viðskiptaveldisins". Þessar fjárhæðir virðast vera týndar nema þær hafi bara horfið í hítina. Satt best að segja, þá held ég að stór hluti af þessum peningum séu löngu búnir í eyðslufylleríi "auðmannanna" og þegar sjóðirnir tæmdust, þá var eina leiðin til að tryggja meira aðgang að peningum að kaupa banka.
Ég sagði að ástandið í þjóðfélaginu væri viðkvæmt. Það er allt við að springa. Almenningur sér flett ofan af hverri svikamyllunni á fætur annarri. Við þurfum að horfa upp á bankana leysa til sín hvert fyrirtækið á fætur öðru. Fyrirtæki sem "auðmennirnir" og leppar þeirra áttu að nafninu til, en bankarnir áttu í raun og veru. "Auðmenn" og leppar sem hafa lifað hátt á okkar kostnað og við eigum að borga reikninginn. "Auðmenn" og leppar þeirra eru að fá allar sínar skuldir felldar niður vegna þess að þeir kunnu á kerfið og höfðu her lögmanna á sínum snærum, en í almenning er kastað brauðmolum. Jón Ásgeir fær meiri afskrift í einni færslu hjá einu af svo kölluðu fyrirtækjum hans, en öll heimili landsins fá af húsnæðislánum sínum! Þess vegna er almenningur að springa. Og eins og einn bankamaður komst svo snilldarlega að í dag, þá verður fólk "að sætta sig við það". Ég viðurkenni það fúslega, að það sauð á mér við þessi orð sem viðhöfð voru í hópi fólks sem er að fást við vanda almennings alla daga, hver á sinn hátt. Málið er að við þurfum ekki að sætta okkur við það og við eigum ekki að sætta okkur við það. Það verður bankinn að sætta sig við.
En það var ekki bara viðskiptaveldi "auðmannanna" sem var svikamylla. Eignasafn gömlu bankanna sem tengdist viðskiptum við "auðmennina" var ekki byggt á neinu. Viðskiptalíkan gömlu bankanna byggði á afleiðuviðskiptum, þ.e. loftbólu eða sápukúlu. Eða á ég að nota kunnuglega samlíkingu við lauk úr bíómynd. Hvað er inni í lauk? Maður flettir hverju laginu á fætur öðru af og innst er ekkert. Það er enginn kjarni í lauk og þannig var það með kröfur bankanna á "auðmennina". Það var ekkert þar að baki. Ekkert. Þrátt fyrir það mokuðu bankarnir peningum í "auðmennina", sem eru núna að fá allar sínar skuldir felldar niður vegna þess að þessir sömu bankar hjálpuðu "auðmönnunum" að komast hjá því að taka ábyrgð. Það sem meira er, verið er að aðstoða þessa sömu "auðmenn" við að eignast aftur fyrirtækin sem þeir stjórnuðu en áttu raunar aldrei neitt í. Svo virðist sem "auðmennirnir" munu "eiga" meira eftir uppgjörið, en þeir áttu nokkru sinni áður. Þess vegna er almenningur að springa.
Tikk, tikk, tikk - búmm!
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (8.11.): 1
- Sl. sólarhring: 11
- Sl. viku: 212
- Frá upphafi: 1679945
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 193
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Þetta er frábær færsla Marínó.
Ég veit ég er að endurtaka mig en ég geri það samt. Ég hef enga trú á að þetta plan stjórnvalda og bankanna gangi upp. Það er of siðlaust til þess að fólk sætti sig við það. Almenningur er að springa og eitthvað verður undan að láta.
Og hrunskýrslan ekki einu sinni komin út.
Tikk, takk, tikk, takk ....
Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 11.2.2010 kl. 21:15
Sértæk íslensk pólitísk spilling !
Bankastjórar gömlu ríkisbankana segjast hafa lánað væntanlegum eigendum hins bankans fyrir bankanum !
Engir rússapeningar og engin þýskur banki !
Allt í plati og Halldór Ásgrímsson getur ekki sagt neitt af viti varðandi sína þátttöku í bankasölu !
Hvernig væri að leggja fram lánabók Landsbankans ?
Við þurfum að fá að vita hvort Björgúlfar hafi bara komið með skottið á milli lappanna frá mafíuforingjunum í Rússlandi !
JR (IP-tala skráð) 11.2.2010 kl. 21:21
Ég velti því stundum fyrir mér varðandi ýmsa bankamenn, lögfræðinga og stjórnmálamenn hvort þeir haldi að þeir geti endalaust skýlt sér á bak við það að vera í vinnunni þegar þeir ræna náunga sinn.
Magnús Sigurðsson, 11.2.2010 kl. 21:52
Þetta hyski plataði fólk til að kaupa verðbréf í félögum sem voru bara loftbólur.
Þegar almenningur hafði keypt hluti í þessum ófögnuði, hurfu þeir peningar hið snarasta í vasa þeirra sem stjórnuðu svikamyllunum.
Við viljum byltingu, burt með allt stjórnmála og embættismannahyskið sem er í vinnu hjá ræningjunum.
Sveinn Elías Hansson, 11.2.2010 kl. 22:22
Frábær færsla Marinó, holl lesning fyrir háttinn.
Gunnar Skúli Ármannsson, 11.2.2010 kl. 22:38
Endalok sögunar um nýju fötin Keisarans á frummálinu............. “Men han har jo ikke noget på,” sagde et lille barn. “Herregud, hør den uskyldiges røst,” sagde faderen; og den ene hviskede til den anden, hvad barnet sagde.
“Men han har jo ikke noget på,” råbte til sidst hele folket. Det krøb i kejseren, thi han syntes, de havde ret, men han tænkte som så: “Nu må jeg holde processionen ud”. Og kammerherrerne gik og bar på slæbet, som der slet ikke var
Hörður Halldórsson, 11.2.2010 kl. 23:12
Marinó! Búmmið þarf að koma hið snarasta áður en bankarnir (með blessun stjórnvalda) fá að hirða til sín húsnæði og aðrar eigur saklausra landsmanna sem vissu ekki hvað var að gerast á bak við tjöldin. Heimavarnarliðið er komið í startholurnar til að varna því að fólk verði borið út úr húsnæði sínu og er það virðingarvert en það þarf meira til. Við þurfum eitt allsherjar BÚMM núna... Almenningur er búinn að fá nóg, nú þarf að fella niður skuldir hjá venjulegu fólki sem hefur orðið fyrir barðinu á sukki banka og auðmanna að undanförnu. Hingað og ekki lengra!!!
Edda Karlsdóttir (IP-tala skráð) 11.2.2010 kl. 23:31
Tikk, takk, tikk, takk..........
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 12.2.2010 kl. 00:08
Þetta er dúndurfærsla hjá þér Marinó! og vonandi mun ályktun þín reynast sönn. Ég býð eftir búmminu! því það er ekki séns að lifa við þá viðbjóslegu spillingu sem okkur almenningi er boðið upp á.
Mig langar til að leggja niður vinnu og berjast þar til siðblindingjarnir hafa verið flæmdir út úr skítaholunum sínum, leiddir fyrir dómstóla og settir inn á viðeigandi stofnanir. Mér finnst það óþolandi að hversdagslífi alls almennings í nútíð og framtíð skuli ógnað af hrægömmum eins og þeim sem hafa verið afhjúpaðir á undanförnum dögum.
Mér þykir enn verra að þeir sem eiga að heita valdhafar gera ekkert nema kalla saman fundi og nefndir til að álykta um málin. M.ö.o. þá eru þeir valdalausir og samþykkja það í þokkabót með aðgerðaleysi sínu!
Þess vegna sé ég ekki aðra leið en berjast. Mig langar til að berjast með orðin ein að vopni en ég er virkilega farin að efast um að það muni duga til. Held þó enn í veika von þar um en líkurnar verða veikari með hverjum deginum sem líður...
Rakel Sigurgeirsdóttir, 12.2.2010 kl. 01:12
Kæri Marinó, ég skil bara ekki hvernig stendur á því að Samspilling hefur ekki VIT á því að VIRKJA þig og annað frábært fólk sem tengist hreyfingunni?????? Alveg óskiljanlegt. Við skulum ekki gleyma því að ALLIR þingmenn Samspillingarinnar samþykktu IceSLAVE samninganna ólesna, og svo samþykktu þeir þessar DRÁPSKLYFJAR tvisvar sinnum á þinginu "allir sem einn". Spunameistarar Samspillingarinnar lofuðu "skjaldborg" en við upplifum "gjaldborg" - það er vitlaust gefið - maður upplifir eins og þú samfélagið sem "spilaborg" þar sem JOKERINN endar alltaf í höndunum á almenningi. Okkur er GRÓFLEGA misboðið, nú er mál að linni..!!!!!!!!!!!
kv. Heilbrigð skynsemi (fun.blog.is)
Jakob Þór Haraldsson, 12.2.2010 kl. 01:26
þinglýsum kosningaloforðum í framtíðinni, og þinglýsum nú þegar skuldum útrásarglæpamanna sem fá afskriftir daglega.
arni (IP-tala skráð) 12.2.2010 kl. 02:37
Stjórnvöldum og auðmönnum hefur þegar tekist að vinna stríðið gegn almenningi sem sagan segir okkur að lætur kúga sig endalaust. Veruleikinn er sá að brauðmolarnir virðast duga til að halda múgnum rólegum. Þeim hefur tekist á láta líta út fyrir að almenningur sé auðmönnum samsekur með því að hafa keypt sér flatskjái, tekið sér húsnæðislán eða bílalán.
Almenningur virðist hafa álíka mikla sjálfsvirðingu og svín í svínastíu. Étur bara það sem að kjafti kemur.
Hvað þarf að gera til að fá samstöðu gegn þessari spillingu og þessum óréttlátu ákörðunum?
Ég mæli með að fyrir fundinn á Austurvelli á morgun, fari hópur um hverfi borgarinnar með gjallarhorn og smali þeim saman sem sætta sig ekki við ástandið. Þó ekki væri nema einn maður með gjallarhorn, þá væri það þó byrjun. Því fleiri því betra.
Það þarf að ræsa fólk frá sjónvarpstækjunum.
Hrannar Baldursson, 12.2.2010 kl. 06:20
Frábær grein og frábær svör. Loksins fær maður smá von um að fólk rísi upp og mótmæli. Það er með ólíkindum langlundargeð fólks, og ró yfir ástandinu, jafnvel þó verið sé að ræna það húsnæði og fjölskyldum sínum. Aleigunni. Af hverju mætir fólk ekki niður á Ausutvöll á laugardögum? Af hverju lætur það ekki meira í sér heyra, en bíður endalaust eftir að einhverjir aðrir geri það.
Af hverju vill fólk ekki skilja að Enginn af fjórflokknum er hvítþveginn gagnvart ástandinu. Menn vilja treysta sínum flokki og forystu. Það nákvæmlega er að drepa lýðræðið í landinu. Þessi endalausa hlýðni við sinn foringja. Hvað er að fólki að hræðast svo aðra að þora ekki að refsa sínum fyrir vanhæfnina. Hér verður að hreinsa út og fá utanþings stjórn, neyðarstjórn sem ekki verður einn einasti pólitíkus í, heldur einungis fagfólk sem getur leitt okkur út úr þessum ógöngum. Fagfólk sem við og alheimurinn treystir. Þar kemur Eva Joly strax upp í hugann. Gunnar Tómasson og nokkrir fleiri.
Við sjáum líka að þetta er allt aðö springa ekki bara almenningur heldur stjórnin líka. Og hvað tekur þá við? ef við höfum ekki undirbúið að einhverjir sem kunna geta og vilja taki við þjóðarskútunni og sigli henni í höfn. Því núna er hún stjórnlaus á reki upp við brim og kletta.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.2.2010 kl. 08:40
Hrannar, það er ekið um hverfi borgarinnar á hverjum laugardegi með gjallarhorn. Þeir félagar í Nýju Íslandi hafa staðið fyrir því. Vandamálið er að árangurinn af búsáhaldabyltingunni var hreinlega ekki nægilega mikill til þess að fólk telji borga sig að standa í þessu, eða það er mín túlkun á aðstæðum. Íslensk þjóð hefur verið tamin, ef svo má segja, í gegn um tíðina til hlíðni við yfirvöld. Í fyrra brutumst við út úr okkar comfort zone og margir urðu óöruggir í kjölfarið. Og hvert leitar fólk þá? Jú, í gamla ástandið.
Marinó G. Njálsson, 12.2.2010 kl. 08:43
Það er eindregin vilji og ásetningur stjórnvalda að endurnýja og endurheimta fyrri tíma með fyrri völdum og áhrifum. Brauðmolarnir duga okkur. Fólk er reitt, jafnvel öskureitt en það er ekkert sem það getur gert nema með fjöldaþátttöku í mótmælum. Meðan ekki er skipt algjörlega um forystu í stjórnmálaflokkunum og við taki fólk sem ósnortið er af spillingaröflunum er engin von.
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 12.2.2010 kl. 08:44
Marinó: Gott að vita. Ég heyri nefnilega aldrei í þessum gjallarhornum til Noregs, en finnst óbærilegt hvernig áhugaleysi og doði virðist ríkja um þessi mál. Við hvað er fólk hrætt? Hræðslan og aðgerðarleysið gefur þessum öflum aðeins meira vald.
Ég gleymdi að taka það fram í síðustu athugasemd: þetta er ein besta grein sem ég hef lesið í kjölfar Hrunsins, og skora á þig að birta hana einnig á prenti, og lesa hana á fundinum á morgun.
Bestu kveðjur frá Noregi,
Hrannar
Hrannar Baldursson, 12.2.2010 kl. 08:49
Af viðræðum mínum við fólk héðan og þaðan úr þjóðfélaginu síðustu vikur og mánuði þá veit ég að fólk er tilbúið til að leggja mikið á sig og fórna miklu til, svo að þjóðin megi aftur rétta úr kútnum.
En það byggist þó á því að landinu sé stjórnað sé af sanngirni og réttlæti. Fréttir af málum Haga, Samskipa og Icelandic Group, svo nýleg mál séu nefnd, leggjast afar illa í fólk sem ég veit að myndu annars vilja gjalda blóð, svita og tár þjóðinni til bjargar.
Af hverju skilja menn þetta ekki?
Davíð Pálsson, 12.2.2010 kl. 10:10
Maður er tilbúinn að leggja mikið á sig ef uppskeran er heiðarlegt og sanngjarnt þjóðfélag. En að ætlast til að fólk greiði lánin sín margföld, bara til að standa undir lifnaðarhætti auðmanna, aftur og aftur, NEI !
Engar afskriftir á auðmenn ! Það á að hirða af þeim hverja einustu krónu og gera þá gjaldþrota, geti þeir ekki greitt þjóðinni skuld sína.
Anna Einarsdóttir, 12.2.2010 kl. 10:20
Frábær færsla hjá þér Marinó
Ég held að það sé að koma að því að við rísum upp aftur.
Norrænt velferðarsamfélag.. ekki beint.
Tikk, tikk, tikk - búmm!
vj (IP-tala skráð) 12.2.2010 kl. 10:34
Mikið er ég sammála þér Marinó. Þessi ríkisstjórn er í afneitun og sennilega er ekki langt í að hún verði sett af með handafli. Gremjan og reiðin magnast. Fólk er farið að tala saman og skipuleggja aðgerðir. Og þegar skýrsla rannsóknarnefndarinnar kemur út? Það verður sennilega ekkert tikk eftir það.
Ævar Rafn Kjartansson, 12.2.2010 kl. 10:44
Frábært hjá þér. Gæti ekki verið meira sammála. það sýður líka á mér og eru mörg orða þinna eins og töluð út úr mínu hjarta. Takk fyrir þetta.
Bergþóra Þorsteinsdóttir
Bergþóra Þorsteinsdóttir (IP-tala skráð) 12.2.2010 kl. 11:20
Frábær pistill Marinó
Hrannar og Marinó:
Berið ástandið fyrir hrun og eftir hrun saman.
Nei, Íslensk þjóð er ekki kominn í gamla farið. Maður beinlínis finnur ólguna undir yfirborðinu. En fólk breytist ekki úr lötum sófadýrum í aðgerðasinna á einni nóttu. þetta tekur tíma. Viðhorfið er að breytast smátt og smátt. Þó búsáhaldabyltingin hafi ekki skilað neinum breytingum inn í stjórnkerfið, skilaði hún örugglega breytingum á "þjóðarsálinni"
Þetta sjá valdaöflin miklu betur en þið sem standið í miðri baráttunni.
Dæmi.
Hefði fyrir hrun, einhverjum bankastjóra dottið í hug að afsaka meðferð sína á (t.d.) Jóhannesi í bónus í fjölmiðlum? Ég held ekki. Það var meira að segja bakkað með þá meðferð sem Björgólfarnir áttu að fá (allavega í orði). Þetta hefði verið óhugsandi fyrir hrun.
Hefði fyrir hrun, stjórnvöldum dottið í hug að birta samning eins og Icesave opinberlega? ég held ekki. Icesave samningarnir voru fyrst og fremst birtir vegna almenns þrýstings. Brauðmolarnir sem heimilin eru þó að fá eru fyrst og fremst til kominn vegna þess að hagsmunasamtök heimilanna hafa verið óþreytandi í baráttunni. Samtökin hafa einfaldlega svo mikinn almennan stuðing að það er ekki hægt að hunsa þau alveg. Þó þessar aðgerðir séu fyrst og fremst sýndarmenska þá gera stjórnvöld sér grein fyrir því að það er ekki lengur hægt að hunsa almenningsálitið eins og áður.
Ég held að valdaöflin í landinu séu skíthrædd við þjóðina því að þau finna að kveikiþráðurinn hefur styst verulega. Þess vegna eru þau alltaf í vörn og alltaf að afsaka sig.En pirringur þeirra sem draga vagninn er samt mjög skiljanlegur. Hugarfarsbreytingar eru hægfara breytingar.
Benedikt Gunnar Ófeigsson, 12.2.2010 kl. 12:19
Takk fyrir góða grein og góðar umræður. Fyrir mér er ástandið orðið að andlegu ofbeldi. Réttlætiskend okkar er gróflega misboðið. Brauðmolarnir eru hættir að hafa bragð og manni verður óglatt af þeim. Obama sagði við viðtöku friðarverðlananna að "stríð væri réttlætanlegt til að ná fram friði". Ég er ekki að mæla með stríði, en ég held að margir séu tilbúnir að gera hans orð að sínum. Þessari andlegu og fjárhagslegu nauðgun sem við látum yfir okkur ganga verður að stoppa.
Arnar Már Ólafsson (IP-tala skráð) 12.2.2010 kl. 12:24
Frábær færsla hjá þér Marinó. En ekki skrítið að fólk sé orðið agndofa þegar það sér svona greinar skrifaðar til að hræða.Í Norska blaðinu Aftonposten.no 2/2 2010 af hálærðum prófessor . Þórólfur Matthíasson,landsníðingur og prófessor við Háskóla Jóhönnu. Sem er að vinna gegn okkur. Hann hefur verið við í kennslu í þessari loftbólu hagfræði Miltons Friedemans, sem var spáð að mundi sprínga eftir ca. 30 til 35 ár, og það hefur hún svo sannalega gert.
Ingolf (IP-tala skráð) 12.2.2010 kl. 12:55
Allir ættu að hurfa á videoin um bankakerfið sem finna má á þessum link http://www.youtube.com/watch?v=_doYllBk5No
Þegar menn eru búnir að því er tími til kominn að stofna nýjan banka allra landsmanna sem sér um að lána til húsnæðiskaupa.
Síðan neita allir að greiða gömlu bönkunum okurlánin og við pínum þá til að selja okkur lánin á réttu verði, sem okkar eigin banki fjármagnar.
Við getum jafnvel gefið út okkar eigin mynt.
Varðandi prófessor Þórólf þá verð ég að segja að hann virðist ekki hugsa mikið karlinn sá. hann fann það út að ef við núvirum Icesave skuldina þá sé hún ekki svo há.
Eftir 7 á þegar við eigum sð fara að borga verði þetta eiginlega ekki neytt.
Ég skora á alla sem tóku lán til íbúðarkaupa fyrir 7 árum að athuga hvort það sé orðið að engu.
Sigurjón Jónsson, 12.2.2010 kl. 15:02
Eftir því sem sprengjan hleðst meira upp verður hvellurinn stærri.
Offari, 12.2.2010 kl. 15:15
Takk allir fyrir innleggin ykkar. Er búinn að vera á tveimur fundum í dag, þar sem skuldavandi heimilanna er aðalmálið. Spennan er að byggjast upp og fólk vill úrræði sem fyrst. Það er enginn að tala um að fá tjónið bætt upp í topp, bara að fá sanngjarna og réttláta lausn. Sjálfur er ég alveg til í þiggja svona pennastriksafskrift eins og sumir "auðmenn" eru að fá, en munurinn á mér og þeim er að ég veigra mér ekki undan því að taka hluta tjónsins, sem ég átti engan þátt í að valda, á mig. Þeir aftur óðu hér yfir á skítugum skónum og eyðilögðu allt og finnst þeir ekki bera nein skylda til að bæta fyrir misgjörðir sínar. Mér detta í hug alls konar orð um þessa einstaklinga, en ætla að halda þeim fyrir mig.
Marinó G. Njálsson, 12.2.2010 kl. 16:28
Takk Marinó fyrir góðan pistil, þrautseigju og baráttu fyrir hönd okkar venjulega fólksins!
Og takk Benedikt Gunnar, ég er alveg sammála þinni greiningu, að búsáhaldabyltingin hafi alls ekki verið til einskis. Við megum ekki gera lítið úr því sem hún færði okkur. Hún færði okkur t.d. þá trú (amk von!)að við getum haft áhrif ef við stöndum saman og látum í okkur heyra. Það er andstaðan við hið lærða hjálparleysi sem við höfum verið þjökuð af lengi! Trúin á eigin áhrifamátt er grundvallaratriði fyrir framtíðina, aðgerðir eða aðgerðaleysi sem í henni felast.
Þetta heitir í sálfræðinni, Locus of control og hefur úrslitaáhrif á það hvernig við upplifum tilveruna, þ.e. hvar við teljum að "stjórn" hlutanna liggi, utan við okkur sjálf, eða innra með okkur. Það hefur aftur veruleg áhrif á það hvort við erum tilbúin til að reyna að hafa áhrif á umhverfi okkar eða aðstæður, bregðumst aktivt við eða bara reaktivt.
Við megum ekki gera lítið úr þessu, búsáhaldabyltingin sáði amk þessum fræjum. Svo er okkar að missa ekki þá trú, því þá fyrst missum við móðinn!
Landa (IP-tala skráð) 12.2.2010 kl. 18:57
He, he, he, he.
Það er smá von. Fyrsti myntkörfulána dómurinn fellur neytendum í hag í dag. 12. feb.
http://www.domstolar.is/domaleit/nanar/?ID=E200907206&Domur=2&type=1&Serial=1&Words=
Lesið þennan dóm samhliða SP dómnum. Ótrúlegur munur. Sjáum hvað gerist í hæstarétti, en þetta er allt á réttri leið.
Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 12.2.2010 kl. 20:19
"Hver afhjúpunin á fætur annarri um viðskipti.." eða öllu heldur þú hérna, hver glæpurinn og hneykslið á fætur öðru, en ekki viðskipti.
Nú og svo tala menn um að banna eigi Hells Angels -mótorhjólaklúbbnum að koma hér til lands og semja sérstök lög og ákvæði og hvað eina um það, en hvað með útrásavíkinganna sem ganga ennþá lausir, og er hafa núna síðast verið verðlaunaðir með afskriftum?
Þorsteinn Sch Thorsteinsson (IP-tala skráð) 13.2.2010 kl. 00:38
Þessi pistill er góð samantekt á því sem gerðist.
Máltækið "Margur verður af aurum api" hefur sannast þarna eins og oft áður.
Það vekur einnig athygli hvað aparnir á Íslandi urðu (eru) margir miðað við höfðatölu.
Að það sé erfitt að koma dýrunum í hús lýsir sér vel í ICESAVE umræðunni sem líkist mest skítkasti í apagarði.
Það er vonandi að birting rannsóknarskýrslunnar (ef aparnir rífa hana ekki í tætlur áður) veki fólk til umhugsunar.
Það er þörf á róttækum kerfisbreytingum ef Íslenska samfélagið á að lifa þetta af.
Jónsi (IP-tala skráð) 13.2.2010 kl. 23:32
Hverju orði sannara Marínó. Raunar skrifuðu danskir rannsóknarblaðamenn á BT blaðinu fyrir 4 árum þeas 2006 og höfðu notað 6 mánuði og niðurstaðan var sú að Björgólfsfeðgar ættu í raun sáralítið fé þeir skrifuðu um þessa fjármálahringrás via Lux/Holland/Bresku jómfrúareyjar og Ísland og um furðulegt eignarhald á íslenskum fyrirtækjum. Fókusinn hjá þeim var þá í fyrstu skattasvindl þar sem arður frá dönskum fyrirtækjum ekki var skattlagður í Danmörku og síðan breytis fókusinn. Sá viðtal við þá en aðeins sáralítill hluti af þeirra greinum var birtur og virtust þeir svektir út af því. Ástæðan var gefin lögsókn og eins að aðilar hefðu borið á blaðið fé til að stöðva birtingu.
Á þeim tíma var brugðis við þessu eins og árásum á íslenska þjóð og öfundsýki.
Það voru nánast engir erlendir og engir norrænir fjárfestar á Íslandi enda var þegar búið að greina svæðið sem efnahagslega "geislavirkt" og "no-go-zone". Það voru sagðir brandarar af íslenskri hagstjórn síðustu 2 árin og hrunið var í raun óumflýjanlegt.
Klárlega voru lánakóngarnir sjálfir sk. eigendur og jafnframt aðallántakendur bankanna. Ein teikning Halldórs sem kom núna í haust varpar skýru ljósi á þetta þar situr gjaldkjeri bak við afgreiðsluborð í banka og grímuklæddir menn hlaupa út með peningapoka og þar hrópar gjaldkerinn BANKALÁN.
Við getum því miður ekki kennt öðrum um en að hafa valið fólk til forystu þessarar þjóðar sem hefur látið þetta gerast hygglað þeim fáu á kostnað hinna mörgu og því miður eru engir góðir leikir í þessari hörmulegu stöðu sem við blasir þegar allir dómínókubbarnir verða loksins fallnir.
Gríðarleg mistök voru að tryggja innistæður á Íslandi að fullu og í raun á kostnað íslenskra lántakenda en raunar ef það hefði ekki verið gert hefði bankekerfið í raun verið búið og ennþá erfiðara að endurreysa það.
Fjármögnun þessara bankastofnanna er geysilega tæp og þeir eru langt frá því að vera solid og til þess hefði þurft að dæla miklu miklu meira fé og það alvöru peningum. Klárlega verður þetta fé takið af skattborgurum þessa lands á einn eða annan hátt og draumsýn að halda eitthvað annað.
Klárlega er ennþá ekki ráðist að halla á ríkisútgjöldum og umræðan snýst að 99% um 10% af skuldunum þessum Icesave skuldbindingum sem því miður er lang minsta vandamálið enda er íslensk þjóð með Icesave heilkennið.
Gunnr (IP-tala skráð) 14.2.2010 kl. 09:16
Sæll félagi og óska þér og okkur öllum til hamingju með að það hefur þrátt fyrir allt unnist áfangi í baráttunni við fjármálavaldið - með dómnum sl. föstudag.
Vil líka taka undir með þeim sem halda því fram að eitthvað hafi þrátt fyrir allt áunnist með "Búsáhalda-byltingunni" - þó við séum sjálfsagt öll sammála um að of hægt miði og of lítið hafi raunverulega breyst.
Þess vegna er mikilvægt að Hagsmunasamtök Heimilanna og allir velviljaðir sjálfboðaliðar og talsmenn almannahagsmuna og jafnræðis og opinnar stjórnsýslu - láti nú ekki deigan síga.
'Afram! -við fögnum hverjum minnsta áfanga og látum slíkt efla okkur til frekari árangurs.
Kveðja
Bensi
Benedikt Sigurðarson, 15.2.2010 kl. 21:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.