Leita í fréttum mbl.is

Stjórn VR getur ekki stutt Hagsmunasamtök heimilanna né afnám verðtryggingar

Mér finnst með ólíkindum í svari meirihluta stjórnar VR sú yfirlýsing að stjórnin geti ekki stutt við baráttu Hagsmunasamtaka heimilanna vegna samstarfs HH við Nýtt Ísland um baráttufundi á Austurvelli!  Orðrétt segir í svari meirihluta stjórnar VR:

En stjórn VR getur ekki stutt Hagsmunasamtök heimilanna meðan þau eru í samstarfi við samtökin Nýtt Ísland sem varla er hægt að lýsa öðruvísi en sem öfgasamtökum.

Mér finnst það sorglegt að meirihluti stjórnar VR skuli ekki geta greint á milli hagsmunabaráttu Hagsmunasamtaka heimilanna og þess að samtökin haldi útifundi með "stjórnarandstöðunni".  Ég held að það sé kominn tími til að meirihluti stjórnar VR ræði við félagsmenn sína um ástandið í þjóðfélaginu.  Það þarf óvenjulegar aðferðir til að ná athygli, alveg eins og forsvarsmenn verklýðshreyfingarinnar gerðu á árum áður.  Þessu virðist verkalýðshreyfing hafa gleymt.  Með heiðarlegri undantekningu í "stjórnarandstöðu" VR og Vilhjálmi Birgissyni, þá hefur ENGINN forystumaður í launþegahreyfingu þorað að víkja af línunni sem mörkuð var af ASÍ.

Látum vera að stjórn VR lýsi ekki yfir stuðningi við HH, en að bera fyrir sig greiðslum til lífeyrisþega sem ástæðu fyrir því að ekki megi afnema verðtryggingu er ótrúlegt.  Það er ekkert, já ekkert, sem bendir til þess að verðtrygging útlána eða eigna lífeyrissjóðanna ráði um það hvort þeir geta staðið undir verðtryggingu lífeyris.  Lífeyrissjóður verzlunarmanna, svo dæmi sé tekið, fékk inngreidd iðgjöld upp á um 14 milljarðar á síðasta ári meðan útgreiddur lífeyrir nam innan við 7 milljörðum.  Hvað bendir til þess að verðtryggja þurfi um og yfir 50% af eignum sjóðsins?  (Samkvæmt árshlutauppgjöri vegna 3. ársfjórðungs 2009 eru tæp 53% eigna sjóðsins verðtryggðar með vísitöluneysluverðs.) Það er nákvæmlega ekkert, auk þess er það krafa HH að verðtrygging sé tekin úr sambandi vegna fasteignaveðlána.  HH hefur aldrei skipt sér að því hvort önnur lán séu verðtryggð, en það er skoðun samtakanna að verðtrygging sé barn síns tíma.

En skoðum svar meirihluta stjórnar VR við áskorun um að hann styðji kröfuna um afnám verðtryggingar:

Skilja má kröfu þremenninganna þannig að þeir krefjist neikvæðra raunvaxta enda ekki ljóst hvar þeir vilja að vaxtaþakið liggi. Hvernig neikvæð ávöxtun getur samrýmst hagsmunum efnahagslífsins og t.d. sjóðfélaga í lífeyrissjóðum er vandséð. Er það virkilega ásetningur þremenningana (sic) að rýra eignir lífeyrissjóðsfélaga enn frekar sem myndi hafa í för með sér lækkun  á greiðslum til elli- og örorkulífeyrisþega núna  og í framtíðinni? Vilja þeir jafnvel  ganga enn lengra og afnema verðtryggð afkomuréttindi þeirra líka? Lítil er samúð þeirra og samkennd með öldruðum og öryrkjum.

Mér finnst þetta svar benda skýrt til þess, að meirihluti stjórnar VR hefur enga trú á stöðugleika í íslensku hagkerfinu og sá stöðugleiki eigi ekki verða til vegna þess að fjármagnseigendur taki þátt í að skapa hann.  Raunvextir verða þá og því aðeins neikvæðir að óstöðugleikinn haldi áfram.  Hvergi í heiminum er húsnæðiseigendum boði upp á lán sem alltaf bera jákvæða raunvexti.  Hvergi í heiminum eru húsnæðislán alltaf með lágmarksraunvexti.  Alls staðar annars staðar taka lánveitendur áhættu í lánveitingum sínum.  Húsnæðislán eru ekki hugsuð sem gróðrarlind fyrir fjármálafyrirtæki heldur sem traust og örugg lágmarksávöxtun til langs tíma. Þess vegna vilja Hagsmunasamtök heimilanna að verðtrygging fasteignaveðlána verði aflögð.

Með fullri virðingu, þá vissi ég ekki að það væri hlutverk stjórnar VR að gæta hagsmuna lífeyrissjóðanna.  Það væri hlutverk stjórna lífeyrissjóðanna.  Ég hélt að þetta væru tveir óháðir aðilar.  En burt séð frá því, þá vil ég benda stjórn VR á nokkrar staðreyndir, þar sem ég veit talsvert um starfsemi lífeyrissjóðanna:

  • Fjölmargir lífeyrissjóðir hafa skert útgreiðslu til lífeyrisþega á undanförnum árum þrátt fyrir umfangsmiklar verðtryggðar eignir sjóðanna.
  • Verðtryggðar eignir fjögurra stærstu lífeyrissjóða landsins voru í upphafi árs 2009 á bilinu 45-55% af eignasöfnum sjóðanna, þrátt fyrir að verðtryggðar skuldbindingar þeirra væru umtalsvert minni, eða innan við 10% hjá þeim öllum (raunar 4 - 8%).  Það þarf ekki verðtryggðar eignir upp á 45-55% til að standa undir innan við 10% verðtryggðum útgreiðslum.
  • Ávöxtun þessara fjögurra stærstu sjóða hefur undanfarin ár (að 2009 undanskildu) stjórnast alfarið af óverðtryggða hluta eigna þeirra og þrátt fyrir góða ávöxtun, þá hefur þurft að skerða lífeyrisgreiðslur, þar sem menn vanmátu skuldbindingar sjóðanna.
  • Greiðslur inn í lífeyrissjóðina voru of litlar fyrstu ár sjóðakerfisins, sjóðirnir voru margir illa reknir og sýndu lélega ávöxtun.  Þeir, sem greiddu inn í sjóðina á þeim tíma, greiddu einfaldlega of lítið inn og eru að fá meiri greiðslur út en nemur réttindaávinningi þeirra.  Þess vegna var ákveðið að hækka iðgjöldin upp í 12%.
  • Krafan um 3,5% raunávöxtun er bara tala.  Henni má breyta.
  • Ákvæðið um verðtryggingu afkomu lífeyrisþega hefur ekki komið í veg fyrir ítrekaðar skerðingar á lífeyrisgreiðslum.

Annars sýnist mér svar meirihluta stjórnar VR benda til þess, að í lagi sé að vera með mismunandi hægfara eignaupptöku í formi verðtryggðra húsnæðislána.  Gerir stjórn VR sér grein fyrir, að sé tekið 20 m. kr. verðtryggt lán til 40 ára með 5,0% vöxtum og meðalverðbólga síðustu tveggja áratuga upp á um 6% notuð, þá greiðast tæpar 60 m.kr. í verðbætur á lánstímanum!  Það er þreföld lánsupphæðin!  Vaxta- og verðbótaþáttur lánsins nemur samtals 112 m.kr. af 131 m.kr. heildargreiðslu.  Sé verðbótaþátturinn tekinn út, þá lækkar heildargreiðslan í 40 m.kr., þannig að verðbótaþátturinn er alls 91 m.kr.  Hvað ætli mætti hækka greiðslur í lífeyrissjóði mikið, ef greiðandi hefði þessa peninga til eigin ráðstöfunar?

Sjónarmið meirihluta stjórnar VR til verðtryggingarinnar fasteignaveðlána er kolrangt.  Verðtryggingin er böl, ekki kostur.  Hún ýtir undir óstöðugleika og dregur úr þörf fyrir áhættustýringu.  Verðtrygging hefur ekki komið í veg fyrir að lífeyrir hafi verið skertur og hún hefur ekki verið ástæðan, þegar lífeyrir hefur hækkað.  Skjaldborg verðtryggingarinnar um lífeyrinn hefur ekki haldið, ef lífeyrissjóðir hafa klúðrað einhverju eða að forsendur hafa breyst.

Ég tek það skýrt fram, að ég er á engan hátt að gagnrýna félagsmenn eða starfsmenn VR. Sjálfur er ég ekki félagsmaður, en var það fyrir um 20 árum.  Ég er að gagnrýna það, að þrír stjórnarmenn koma með áskorun til meirihlutans um mál sem maður hefði haldið að auðvelt væri að sameinast um.  Í staðinn fyrir að ræða áskorunina er farið í skotgrafirnar og reynt að gera lítið úr málflutningi þremenninganna. Hagsmunasamtök heimilanna eru dreginn inn í skotgrafahernaðinn vegna þess að þau vinna með Nýju Íslandi, en þau samtök eru meirihluta stjórnar VR ekki þóknanleg.  Ég vil skora á stjórn VR að endurmeta afstöðu sína og búa til sína eigin yfirlýsingu til stuðnings heimilum landsins.  Ég skora á meirihluta stjórnar VR að sanna fyrir hvern félagið vinnur með því að taka afstöðu með hinum almenna félagsmanni í baráttunni fyrir bættum kjörum og þá fyrst og fremst lánakjörum.  Þið þurfið ekkert að vinna með Hagsmunasamtökum heimilanna, bara að þið komið út og verið með í baráttu almennings.


mbl.is VR snúi sér að atvinnulausum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Marinó !

Hvað segir þetta svar stjórnar VR þér um fólkið í stjórn VR, sem vill alls ekki gera neitt fyrir fólkið sitt í vanda ?

Jú, þetta segir okkur að svona fólk er þarna til að eyðileggja fyrir verkafólki til að bæta sér upp það sem glæpamennirnir gerðu !

Já, ekki nema von , fyrrverandi formaður og sérstakur vinur þessara stjórnarmanna, er einn af glæpamönnunum !

Forysta VR er eins og forysta ASÍ, eru bara í koktelboðum með glæpasamtökunum verslunarráði og samtökum atvinnulífsins !

JR (IP-tala skráð) 30.1.2010 kl. 17:28

2 Smámynd: Vignir Ari Steingrímsson

já þeir eru að skjóta sig í fótinn og ég er ekki að alveg að skilja þessa yfirlýsingu frá stjórn VR.

og ég hef heldur ekki orðið var við verkalýðshreyfinguna í 2 ár fyrir utan skagamanninn sem er sá eini sem er virkur ...en einn er ekki nóg til að taka þennann slag og mínir menn í VR ættu að sjá sóma sinn í því að vinna í okkar málum í stað þess fara í einhvern leik og benda í allar áttir til að vona  að kastljósið beinist ekki að aðgerðaleysi þeirra og hve mikið þeir vilja hafa hlutina falda undir borði hjá sér.

og ég hefði haldið að það ætti að vera hagsmuna mál fyrir svona stórt verkalýðsfélag eins og VR er að ná að afnema verðtrygginguna til hagsbóta fyrir félagsmenn sína... 

Vignir Ari Steingrímsson, 30.1.2010 kl. 17:44

3 Smámynd: Sveinn Elías Hansson

Stjórnir félaganna og stjórnir lífeyrissjóðanna eru nátengdar, oft sömu mennirnir.

Það þarf að ryðja öllum stjórnum í öllum félögum burt, svo hægt sé að skipta um stjórnarmenn í lífeyrissjóðunum.

Þetta er ein klíka sem vann náið með hrunaöflunum, og gerir enn.

Sveinn Elías Hansson, 31.1.2010 kl. 01:00

4 identicon

Fín grein. Verðtryggingin er stærsta löglega og ólöglega rán í heimi. Þar sem ég veit að mörg heimili eru komin af fótum fram skora ég á alla sem eitthvað geta um málin sagt að berjast fyrir breytingum á gjaldþrotalögunum svo það fólk ,sem búið er að missa allt sitt og því fólk sem er á sömu leið, fái að ganga þokkalega upprétt þegar allt er af þeim tekið. Það á að vera nóg að taka það sem veðsett var upp í skuldina, það á ekki að þurfa æruna líka. Það á ekki að þurfa að valda börnum þessa fólks meiri erfiðleikum en orðið er. Sýnið miskun. Sýnið samúð, við stöndum jú ansi mörg í þessum sporum.

Guðmundur Sigurðsson (IP-tala skráð) 31.1.2010 kl. 03:08

5 identicon

"Með fullri virðingu, þá vissi ég ekki að það væri hlutverk stjórnar VR að gæta hagsmuna lífeyrissjóðanna.  Það væri hlutverk stjórna lífeyrissjóðanna. " Tek heilshugar undir þetta með þér Marinó.

Því miður þá er þetta eitt af því sem að Ragnar Örn virðist ekki skilja

Eins og maður gerði sér væntingar með þessa þrímenninga þá virðast þau upptekin af því að sjá skrattann í hverju horni og öll þeirra orka fer í að leita að fjármálahneyksli og skandölum.  Og ef þú ert ekki sammála þeim í einu og öllu þá ertu "siðspilltur gírugur í völd eða veist ekki nokkurn skapaðan hlut"

Hvernig skrifa þau um Ágúst og aðra stjórnarmenn?

Hvernig stóð Bjarki á móti þeirri kjaraskerðingu sem að Hekla bauð honum uppá hann skrifaði þegjandi uppá það

Er það svona fólk sem viljum að gæti hagsmuna okkar

Hvenig væri að Ragna Örn ; Bjarki  og Guðrún upplýstu hvað spurningum þeirra hefur ekki verið svarað á fundum VR undanfarinn segjum 5 ár ( kannski bara hvað þau hafi mætt á marga fundi

sæmundur (IP-tala skráð) 31.1.2010 kl. 10:30

6 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Sæll Marinó. Verkalýðshreyfingin er stór og þar hefur í gegnum tíðina veriðtekist á og eins er það nú. Á síðasta ári lág við að Samtök Atvinnulífsins mundu ganga svo langt að segja kjarasamningum lausum á miðjum samningstíma. Þetta var mögulegt vegna uppsagnarákvæðis sem Verkalýðshreyfingin fékk samþykkta við gerð síðustu aðalkjarasamningagerð. Þetta ákvæði var sett inn til að tryggja verkafólki hækkun í því góðæri sem enn var í landinu og samningsaðilar launafólks væntu að yrði áfram enn um sinn. Lái þeim hver sem vill.

Á síðasta ári stóð því yfir gríðarleg varnarbarátta innan hreyfingarinnar um að halda inni hluta launahækkana, vegna uppsagnarákvæðanna. Á þeim tímapunti var afar mikilvægt að hreyfingin stæði saman og það gerði hún að mestu. Nokkrir forystu -menn skáru sig þó úr og þar á meðal Vilhjálmur Birgisson á Akranesi.

Hann hefur notað þetta einstaka tækifæri til að spila einleik innan hreyfingarinnar. Ég er alls ekki að segja að hann hafi ekki nokkuð til síns máls, en á þessum tíma þegar samstaðan og liðsheildin skipti öllu, þá tók hann sig út úr og spilaði frítt. Þetta gerðu raunar tveir aðrir forystumenn, en hafa þó ekki gengið lít því eins langt og Vilhjálmur, enda reyndari menn þar á ferð.

Varðandi VR þá þekki ég innviði þar nægilega til að geta tjáð mig um það mál. Gangnrýni Ragnars Ingólfssonar hefur á köflum verið afar ómálefnaleg og alltað því rætin.

Lífeyrissjóðirnir eru ekki hluti af verkalýðshreyfingunni, en þar sem hagsmunir launafólks að lokinni starfsæfi er vissulega eitt af baráttumálum verkalýðsfélaganna í landinu.

Á þeim forsendum skil ég afstöðu stjórnar VR þó ég taki ekki efnislega afstöðu til hennar í heild sinni.+

Hef verið formaður í verkalýðsfélagi í 5 ár, stjórnarmaður í 17 ár og starfsmaður í 16 ár. Tel mig þar afleiðandi þekkja nokkuð til mála.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 31.1.2010 kl. 18:03

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Hólmfríður, ég geri meiri kröfu til verklýðshreyfingarinnar en að hún geti bara fengist við eitt mál í einu.  Verkalýðshreyfingin hefur ekki stutt nægilega við baráttu heimilanna.  Verkalýðshreyfingin hefur ekki barist fyrir því að viðhalda störfunum, heldur var lögð áhersla á að auka rétt fólks til atvinnuleysisbóta!  Það átti strax í október 2008 að hefja vinnu við að verja störf fólks í landinu.  Þar brugðust stjórnvöld, atvinnurekendur og verkalýðshreyfingin.  Það átti líka í október 2008 að vinnu við að setja skjaldborg um heimilin, en það var ekki gert.  Nú eru liðnir 15 mánuðir og við erum í sömu stöðu hvað varðar atvinnustigið og staða heimilanna er alvarlegri en nokkru sinni fyrr.  Veistu, Hólmfríður, ég geri meiri kröfu til verkalýðshreyfingarinnar en hún virðist gera til sjáfrar sín.  Og hvað varðar VR, þá finnst mér sú yfirlýsing meirihluta stjórnar VR um að hún geti ekki stutt HH vegna þess að við erum með útifundi með Nýju Íslandi vera aumkunarverð.  Ég trúi því ekki að þetta sé vilji félagsmanna.

Mér finnst líka meirihluti stjórnar VR vera að kasta grjóti úr glerhúsi.  Það voru stjórnarmenn VR sem sátu í umboði Lífeyrissjóðs verzlunarmanna í stjórnum banka sem ollu þjóðinni hundruð, ef ekki þúsund, milljarða tjóni.  Þeirra "öfgakennda" hegðun hefur skaðað alla landsmenn og ekki síst lífeyrisþega framtíðarinnar hjá LV og fjölmörgum öðrum lífeyrissjóðum.  Skaðinn af þessu er margfalt meiri en ef verðtrygging yrði afnumin af húsnæðislánum.  T.d. var skaði LV yfir 43 milljarðar bara árið 2008 og þá eru líklegast ekki öll kurl komin til grafar. Hvorki NÍ eða HH hafa valdið nokkrum skaða að ég best veit.

Marinó G. Njálsson, 31.1.2010 kl. 18:55

8 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Sæll Marinó. Vissulega á að gera miklar kröfur til okkar sem erum í framlínu verkalýðsfélaga og ég bara fagna því. Það sem ég var fyrst og fremst að útskýra með færslunni hér að ofan, var hvað það var sem bar í milli  Forystu ASÍ og Vilhjálms Birgissonar á Akranesi á síðasta ári og það sem af er þessu ári. Og svo að benda á þau tengsl sem eru milli verkalýðshreyfingarinnar og Lífeyrissjóðanna. VB taldi að verkalýðsfélögin ættu að taka slaginn, en samninganefndir meirihluta félaganna mátu það svo að ekki væri á það hættandi á þeim tíma.

Þú talar um að verkalýðshreyfingin hljóti að geta unnið við fleiri en eitt mál í einu. Svo sannarlega getur hún það, en sumt er unnið án afskipta fjölmiðla.

Ég mun hvorki verja né ásaka Gunnar Pál fyrrverandi formann VR, það eru nægilega margir nú þegar í þeim liðum.

Ég er auðvitað hlynt því að verðtryggingin hverfi á braut og það sem fyrst, en stærðfræðikunnátta mín er ekki næg til að sjá fyrir mér hvernig því verður best fyrirkomið.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 31.1.2010 kl. 22:52

9 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Eitt í viðbót, meginrök samningnefndanna sem ákváðu að taka tilboði SA um minni kauphækkanir en kjarasamningar gerðu ráð fyrir, voru að þau teldu að með samþykkinu væru þær að koma í veg fyrir enn meiri uppsagnir á vinumarkaði. Vissulega hefði verið betra að gera svona og svona á mjög mörgum sviðum.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 31.1.2010 kl. 23:03

10 Smámynd: Þórður Björn Sigurðsson

,,Ályktun um stöðu heimilanna
Framsýn- stéttarfélag tekur heilshugar undir með Hagsmunasamtökum heimilanna um að þegar í stað verði gripið til aðgerða til að forða fjölda heimila í landinu frá gjaldþroti.

Framsýn treystir því að ný ríkistjórn láti það verða eitt af sínum fyrstu verkum að verja stöðu heimilanna sem mörg hver eru komin í gríðarlegan greiðsluvanda.

Samkvæmt gögnum frá Seðlabanka Íslands voru um 42% heimila með bága eða neikvæða eiginfjárstöðu um síðustu áramót. Allt bendir til þess að þessi þróun muni halda áfram nema gripið verði þegar í stað til viðeigandi ráðstafana til að forða þúsundum fjölskyldna frá miklum erfiðleikum.

Framsýn kallar eftir tafarlausum almennum leiðréttingum á gengis- og verðtryggðum lánum heimilanna. Það er skylda stjórnvalda að standa vörð um grunneiningar samfélagsins sem eru heimilin í landinu. Brettum upp ermar og hefjum uppbyggingarstarf í stað þess að tala endalaust um mikilvægi aðgerða án efnda. Við annað verður ekki unað að mati Framsýnar- stéttarfélags."

http://framsyn.is/frett.asp?fID=2348

Þórður Björn Sigurðsson, 1.2.2010 kl. 00:09

11 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Það er rétt, Þórður, Framsýn kom með afdráttarlausa stuðningsyfirlýsingu.  Biðst afsökunar á að gleyma þeim.

Marinó G. Njálsson, 1.2.2010 kl. 08:38

12 Smámynd: Jón Svan Sigurðsson

Guðmundur Sigurðsson (IP-tala skráð) 31.1.2010 kl. 03:08
Mikið ofboðslega er ég hjartanlega sammála því sem þú segir. Þetta er einmitt málið.

Jón Svan Sigurðsson, 7.2.2010 kl. 17:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband