Leita í fréttum mbl.is

Ef eitthvað væri gert, þyrfti ekki að biðja um uppboð - Kröfur okkar eru einfaldar

Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, lýsti því yfir við fréttastofu RÚV, að engin lausn sé í því að fresta uppboðum.  Mikið er það rétt hjá blessuðum ráðherranum.  Það er engin lausn, en það vill svo til að það er EINA lausnin sem fólki býðst.

Þremur ríkisstjórnum hefur tekist að gera nánast ekki neitt á þeim rúmum 15 mánuðum frá falli bankanna og um 22 mánuðum frá falli krónunnar.  Úrræðaleysi stjórnvalda og seinagangur bankanna að koma til móts við viðskiptavini sína er með ólíkindum.  Fólk sem hefur nákvæmlega ekkert sér til sakar unnið annað en að treysta fjármálakerfi landsins þarf núna að sjá á eftir ævisparnaði sínum í hendur þessu sama fjármálakerfi, þar sem stjórnvöld hafa ákveðið að verja það með kjafti og klóm á kostnað heimilanna í landinu.

Árni Páll vonast til þess að hægt verði að finna úrræði fyrir sem flesta.  Það eru 6 vikur þar til frestur á uppboðum rennur út.  Ríkisstjórnin er búin að 8 mánuði til að koma með úrræði.  Það eina sem hefur komið eru úrræði úr smiðju fjármálafyrirtækjanna.  Þau reyndust ekki betur en svo að 1400 beiðnir um nauðungarsölur frá Íbúðalánasjóði einum liggja hjá sýslumönnum landsins.  Já, 1400 stykki.  Mikið eru þau frábær úrræði ráðherrans.

Komið hefur í ljós að úrræði fjármálafyrirtækjanna duga ekki til að koma heimilum landsins til bjargar.  Nú er kominn tími til að hlusta á almenning.  Kröfurnar eru einfaldar. 

Við viljum:

  • tafarlausa 20% lækkun höfuðstóls verðtryggðra lána,
  • tafarlausa 50% lækkun höfuðstóls gengistryggðra lána,
  • 4% þak á árlegar verðbætur afturvirkt frá 1. janúar 2008,
  • að veð (eign) dugi fyrir veðandlagi (veðláni) (taki strax til allra veðlán vegna kaupa á húsnæði og bifreiðum),
  • jafna ábyrgð lántaka og lánveitenda,
  • að stjórnendur fjármálafyrirtækja, stjórnmálamenn og embættismenn verði dregnir til ábyrgðar fyrir þátt sinn á árunum 2006 til 2008 í hruni krónunnar, bankanna og hagkerfisins,
  • heimilunum verði bættur sá skaði sem ofangreindir aðilar ollu heimilunum með aðgerðum sínum eða aðgerðaleysi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rauða Ljónið

 Hið rétta er  að Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, lýsti því yfir við fréttastofu RÚV, að munur væri að létta á lánum íbúðaeiganda og fasteignafélaga í eigu auðmanna  að engin lausn sé í því að fresta uppboðum hins venjulega manns en önnur lög gengi fyrir stóreignarmenn.

 Eins og  fasteignina Skúlagötu 51 var í eigu félagsins Vindsúla en fyrir því félagi eru skráðir feðgarnir Karl Steingrímsson og Aron Karlsson. Fasteignin var veðsett fyrir rúman milljarð króna vegna lána í Arion banka, Íslandsbanka og Glitni.

Gegnið var í desember að tilboði frá indversku fyrirtæki í fasteignina fyrir 575 milljónir króna. Féllust bankarni á þá sölu. Í kjölfarið var fasteignin flutt í nýtt félag, 2007 ehf. sem er einnig í eigu feðganna. Þremur dögum síðar var tekið öðru tilboði í húsið, nú frá kínverska sendiráðinu og hljóðaði það upp á 875 milljónir.

Rauða Ljónið, 19.1.2010 kl. 22:37

2 identicon

Ég var einmitt að hlusta á snillinginn Árna Pál og veit varla hvað á að segja yfir þessu algjöra skilningsleysi varðandi vanda heimilanna í dag. Hlustaði reyndar á Lilju Mósesdóttur í gær og hélt reyndar að hún hefði aðeins betri skilning á vandamálunum en það virðist ekki vera. Hún virkaði furðu lostin yfir því að lántakendur hefðu ekki nýtt sér betur þau úrræði sem væru á boðstólnum!! Ég held hreint út sagt að ríkisstjórnin SKILJI EKKI vandann til fulls! Held helst að það þurfi að taka einn og einn í einu í sérmeðferð og útskýra vandann vel og vandlega.  Það eru ekki allir sem fatta hlutina fljótt og vel en mér þykir þetta "fattleysi" einum of mikið satt best að segja! Eiga bankarnir sem áttu stóran þátt í því efnahagshruni sem við búum við núna virkilega að fá að hirða eignir þeirra sem ALLTAF hafa staðið í skilum með sitt þar til allt fór á hvolf í þjóðfélaginu vegna stjórnleysis og græðgi þessara sömu stofnanna? Það má ekki eiga sér stað!! 

Edda Karlsdóttir (IP-tala skráð) 19.1.2010 kl. 22:41

3 identicon

Sæll Marinó

veistu eða þekkir þú dæmi um fólk sem tekur tilboð íslandsbanka ( glitnir ) , landsbanaka eða arionbanka ( kaupthing)   , semsagt leiðrétting og svo skuldabreyting  frá verðtyggt yfir óverðtryggt ? og hvað er kostur  / og gall / við óverðtryggð lán ?

baráttu kveðja .

Ari (IP-tala skráð) 19.1.2010 kl. 22:41

4 Smámynd: Offari

Í mörgun tilvikum tel ég betra fyrir skuldara að skila lyklunum.  En það er hinsvegar langt frá því að vera besta lausnin fyrir kröfuhafa.  Þetta er eina vopn skuldar í baráttuni, En vonandi neyðast þeir ekki til að þurfa að beita því vopni.

Offari, 19.1.2010 kl. 22:44

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Rauða ljón, ég er að vitna í orð hans á vef RÚV.  Þar segir:

Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra segir það enga lausn fyrir skuldara að fresta nauðungaruppboðum á íbúðarhúsnæði enn og aftur. Það sé hagur skuldara að ljúka málum sem fyrst.

Síðan segir:

Hann segist vonast til að hægt verði að finna úrræði fyrir sem flesta. Frestur sem stjórnvöld gáfu þeim sem eiga það á hættu að missa eignir sínar á nauðungarsölu vegna vanskila rennur út 1. mars.

Nú veit ég ekki hvað þú ert að vitna í.  Nánari upplýsingar væru vel þegnar.

Marinó G. Njálsson, 19.1.2010 kl. 22:45

6 identicon

Ef nærri 90% heimila í landinu er með íbúðalán, önnur veðlán og yfirdrátt hjá bönkunum (+visa-skuldir) þá gefur auga leið að engin ríkisstjórn vildi fella niður eitthvað af þessum skuldum. Því þá var verið að gjaldfella bankana. Þess vegna kom skjaldborgin aldrei!

Almenningur þarf heldur ekki að vænta hjálpar frá verkalýðshreyfingunni því henni er að þakka lágu launin og líka þessi húsnæðisstefna.

Verkalýðshreyfingin og ríkisvaldið skrifuðu undir samkomulag um að hér á landi skyldi ríkja séreignastefna í íbúðarhúsnæði, tvisvar á síðustu öld var samið um að setja íslenska launamenn í þessa ánauð.

Og Íslendingar þurfa að kaupa sér íbúð hvort sem þeir ráða við það eða ekki, en á meðan hafa þeir alltaf haldist vinnusamir. En nú koma tímar þar sem ekki er hægt að reikna með endalausri yfirvinnu fyrir nú utan bankahrunið.

Það skiptir engu hvaða ríkisstjórn er, fjórflokkurinn vill ekki breyta strúktúr en það er það sem þarf.

Rósa (IP-tala skráð) 19.1.2010 kl. 22:51

7 Smámynd: Elle_

Núverandi stjórnarflokkar ætlaðu aldrei að vinna fyrir almúgann í skuldamálunum.  Heldur auðvaldið og bankana, Marinó.  Hefði það verið ætlunin hefðu þau gert það fyrir löngu.  Kannski eru þeir sem vildu ekki fyrst koma stjórninni frá völdum, orðnir opnari í þá veru.  Og ekki hjálpar að hafa skaðlegt AGS enn þarna yfir okkur.  Almenningur er rukkaður fyrir beint tap bankanna, sem ríkissjóður kastar skattpeningum okkar í eins og þeir væru sandur, og situr líka uppi með okkar tap af völdum bankanna sjálfra.

Elle_, 19.1.2010 kl. 22:51

8 identicon

Hafið þið í HH eitthvað skoðað möguleikan á að tengja húsnæðislán við vísitölu fasteignaverðs í stað verðbólguvísitölu? Og, ef svo er, möguleikana á að koma á slíkri breytingu í núverandi ástandi?

Ég geri mér grein fyrir því að það kæmi ekki fyllilega í stað höfuðstólsleiðréttingar á þessum tímapunkti en lausnin gæti verið þess virði að hugleiða hana með langtímasjónarmið í huga.

Mér sýnist sem að það geti verið tiltölulega raunhæf og réttlátari aðferð við að deila áhættu en felst í verðbólgutengingunni. Lánadrottnar væru þá nokkurn vegin varðir gegn áhrifum verðbólgu á uppgangstímum en skuldarar gegn áhrifum verðbólu, sem bankarnir bæru hvort eð er höfuðsök á.

Helsta hættan sem ég sé er að ef bankar létu stjórnast af skammtímasjónarmiðum þá blésu þeir út bólu til að bæta stöðu sína tímabundið en hjá því mætti e.t.v komast með einhverjum hætti.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 19.1.2010 kl. 23:04

9 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Svo virðist að það sé aðeins eitt úrræði eftir: byltingu

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 19.1.2010 kl. 23:33

10 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þrír stjórnarmenn HH áttu fund með einum af bönkunum í síðustu viku.  Þar komu fram áhugaverðar upplýsingar:

Tæplega fjórðungur allra lánþega eru með íbúðalán.  Af þeim eru 20% með gengistryggð lán.  65% þeirra sem eru með gengistryggð lán eru í greiðsluerfiðleikum.  30% allra lánataka eru í greiðsluerfiðleikum.  Það þýðir að stærri hluti lántaka er í vandræðum, en eru með íbúðalán!

Síðan kom fréttin í gær um að 60% félagsmanna Félags vélstjóra og málmiðnaðarmanna næðu ekki endum saman.

Ef stjórnvöld fara ekki að vakna, þá verður ekkert eftir til að vakna til.

Marinó G. Njálsson, 19.1.2010 kl. 23:33

11 Smámynd: Rauða Ljónið

Sæll. Skuldarstaða fasteignarinnar við Skúlagötu 51 sem var í eigu félagsins Vindsúlavar um 1200 milljónir eða yfir.
Samið var um að fella niður skuldir og samningur gerður við bankana að söluverðmæti eignarinn yrði 575 milljónir, feldar voru niður skuldir um 625 milljónir til að samningar tækjust, væri félagsmálaráðherra ríkisstjórn tilbúin að hafa sama hlutfall til skuldsettra heimila sem bíða uppboðs og þeirra heimila sem eftir eiga að koma bankarnir eru ríkis eign.

Rauða Ljónið, 19.1.2010 kl. 23:38

12 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Heyr, heyr....Marinó. Við þurfum að færa hörku í þetta. Þetta stefnir í mikið óefni!

Haraldur Haraldsson, 19.1.2010 kl. 23:50

13 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Hans, það á ekki að tengja höfuðstól lána við eitt eða neitt annað en afborganir. 

Hættum þessari vitleysu að nota einhvers konar vísitölur.  Húsnæðislán eiga að vera með föstum, breytilegum eða fljótandi vöxtum sem eru með þaki, en endurskoðanlegir á þriggja til fimm ára fresti.  Lánin eiga að vera laus á sama tíma án uppgreiðslugjalds.  Stimpilgjöld á að leggja niður.

Marinó G. Njálsson, 20.1.2010 kl. 00:09

14 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég er búin að borga samviskusamlega af mínu verðtryggða láni í yfir 20 ár samt er höfuðstóllinn í dag hærri en hann var fyrir 20 árum.  Það er skömm að þessu. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 20.1.2010 kl. 02:24

15 identicon

Nú rétt í þessu eru Magnús Orri Schram og Lúðvík Lúðvíksson á Útvarpi Sögu að ræða  skuldamálin,Lúðvík kynntur áðan sem fulltrúi Hagsmunasamtakanna, ég hefði frekar viljað sjá þig þar á móti Magnúsi til að reka vitleysuna ofan í hann, með fullri virðingu fyrir Lúðvík og hans baráttu.

Jón Á Benediktsson (IP-tala skráð) 20.1.2010 kl. 08:45

16 identicon

að veð (eign) dugi fyrir veðandlagi (veðláni) (taki strax til allra veðlán vegna kaupa á húsnæði og bifreiðum),

Þetta er stóra málið, um leið og búið er að breyta þessu verða almennir launamenn komnir með snefil af samningsstöðu.  Ef gjaldþrotalögum verður ekki breytt og það tryggt að veð sé það eina sem lánveitandi getur fengið upp í skuld eru engar líkur á að neitt breytist.  Lánveitandi þarf ekki að leggja sig fram um að sýna ráðdeild við lánveitingar, ef hann lánar of mikið hefur hann bara eignast langtímaskuldara í stað skammtímaskuldara.  Íslenskar fjármálastofnanir eru íslenskum skuldurum það sama og AGS er skuldsettum þróunarríkjum. 

Bjorn Jonasson (IP-tala skráð) 20.1.2010 kl. 10:35

17 Smámynd: Maelstrom

Marinó, sumar þessara hugmynda ykkar eru út í hött.  Þarna er allt of langt gengið og Hagsmunasamtök heimilanna eru einfaldlega að skrifa sig út af borðinu með fáránlegum hugmyndum.

 20% niðurfelling verðtryggðra lána og auk þess 4% afturvirkt hámark á verðbótaþátt þýðir einfaldlega að verðtryggðu lánin myndu lækka stórlega frá því sem þau voru í janúar 2008.  Fáránleg hugmynd.  Ef fólk hefur borgað 5-10% verðbólgu svo áratugum skiptir, þá er ekki raunhæft að ætlast til að lánin lækki á árinu sem bæði krónan og bankakerfi landsins hrynja.

50% lækkun á gengistryggðum lánum myndi þýða að lánið mitt væri lægra en þegar ég tók það!  Jafn fáránlegt og hugmyndin með verðtryggðu lánin.  Mér reiknast til að 35% leiðrétting á myntkörfulánum myndi þýða að ég væri í sömu sporum og þeir sem eru með verðtryggð lán.  Ég var því mjög sáttur við 30% leiðréttingu Arion banka og sætti mig við 5% skellinn sem ég fékk fyrir að taka gengisáhættuna.

 Bílalánin eru auðvitað verst því lánstíminn er svo stuttur.  Þar ætti að takmarka ábyrgðin við bílinn, eins og þú leggur til.  Skila lyklunum og málið er dautt.

Ég held að besta skjaldborgin sem hægt væri að bjóða sem almennt úrræði væri að hægt sé að skila inn lyklum.  Úrræði Arion banka þykja mér nokkuð sanngjörn og skora ég á aðra banka að jafna þau tilboð.  Held það sé það besta sem hægt er að bjóða sem almennt úrræði.

Sum úrræði þurfa einfaldlega að vera sértæk en ekki almenn.

Maelstrom, 20.1.2010 kl. 11:57

18 Smámynd: Offari

Mér finnst eðlilegt að lán lækki jafnóðum og borgað sé af þeim.  Konan tók miljón að láni 2003. Afborgun hefur verið kringum 30þá mánuð og hef alltaf staðið í skilum.  Eftir að hafa borgað ca 360þ á ári í 6 ár stendur nú lánið í 1300þ  Satt best að segja held ég að bankinn sé búinn að fá sína miljón til baka því vart hægt að tala um að bankinn tapi á því að afskrifa.

Offari, 20.1.2010 kl. 12:59

19 Smámynd: Maelstrom

Eitthvað held ég að þetta dæmi sé skrítið hjá þér Offari.  Verðtryggt lán upp á milljón, 10% verðbólga, 5% vextir þýðir að lánið er komið í 1.150þ - 360þ ~= 800þ eftir fyrsta árið.  Ekki reyna að halda þessum tölum að okkur.  Þetta lán með þessari greiðslubyrði er uppgreitt á 5 árum.

Ég tók verðtryggt lán 2002.  Það var þá 3,6 milljónir.  Nú er það 4,6 milljónir.  En fúlt...en klárum myndina.

Launin mín hafa meira en tvöfaldast frá því sem ég var með 2002 og greiðslubyrði mín er því minni en hún var þá sem hlutfall af launum.  Það er töluvert auðveldara fyrir mig að greiða af þessu láni núna en þegar ég tók það.  Miðað við greiðslugetu mín hefur lánið næstum helmingast sem þýðir að laun mín hafa hækkað hraðar en vísitala neysluverðs. 

Það sem fólk þarf að átta sig á er að verðtryggð annuity-lán eiga að þýða að fast hlutfall launa fari í að greiða af láninu allan lánstímann.  Ef það er erfitt að borga af láninu í fyrstu afborgun, þá verður jafn erfitt að borga af láninu út lánstímann.  Það skiptir ekki máli hve hátt lánið er, ef launin hafa hækkað með.

Maelstrom, 20.1.2010 kl. 13:45

20 identicon

Marinó, mér líst vel á þessa 7 punkta enn þau verða að vera raunhæf.

Miðað við mitt verðtryggðalán væri ég sáttur við -20% eins og þið gefið upp eins að hafa 4% þak á árlega verðbætur ... í gegnum árin hafa þessir háu herrar alltaf verið að lofa 2,5 % verðbólgu markmiðinu og ef þetta þak er 4% halda þeir kannski betur á spöðunum og auka eftirlitið svo svona hörmungar endurtaka sig ekki ....

 VILL ENDILEGA AÐ HH HALDI ÞESSUM 7 PUNKTUM MEIRA UPPI OG NÁI AÐ KOMA FL. NIÐRÍ BÆ Á LAUGARDÖGUM ..... GERIST EKKERT FYRR EN NOKKUR ÞÚSUND MÆTA NIÐRÍ BÆ MEÐ HÁVAÐA ..... SVO ÞURFA FRÉTTASTOFUR LANDSINS AÐ VERA MEIRA MEÐ ÞESSU EN EKKI AÐ DRAGA ÚR ÞESSU GÓÐA STARFI.

Vill segja við Maelstrom, þessi leið sem Arion banki er að bjóða mönnum með verðtryggð lán er ekki góð 110% af fasteignaverði er nánast engin lækkun! - væri nær að bjóða 10-25% lækkun á höfuðstól án þess að þurfa að fara í óverðtryggð lán eins og Íslandsbanki bíður uppá því sú leið hækkar mánaðargreiðslunar mikið .... nóg er af hækkunum í dag....

Friðrik Gestsson (IP-tala skráð) 20.1.2010 kl. 13:46

21 Smámynd: Offari

Láni er til tíu ára ég held reyndar að greiðslubirðin hafi verið lægri í upphafi.   En samt held ég að það sé rétt hjá þér að lánið hafi greiðst upp á fimm árum og rest séu oftekjur hjá bankanum.

Hvað varðar hvort hún þurfi einhverja sértæka lausn þá ráðum við þetta eina lán okkar.  En ég tel að hún eigi jafn mikinn rétt á afskriftu og þeir sem skulda miljarða.   Afskriftir til sumra en ekki annara má líkja við að þar sé þeim sem fjárfestu óvarlega verðlaunað.

Staðreyndin er sú að flestir skulda í sínum húsum. Verði farið að afskrifa munm fasteignaverð lækka því eina sem heldur uppi fasteignaverðinu er ofveðsetningin. Lækkunin er því óummflýjanleg því enginn vill kaupa núna á þeim kjörum sem bjóðast og verði farin uppoðsleiðin þurfa bankarnir að selja á útsölu til að losna við eignir.

Fólk gefst upp á því að henda pening í fasteignir sem stöðugt falla í verði. Ekki dettur mér til hugar að kaupa eins og staðan er í dag, margir eru í þeirri stöðu að þurfa að borga með sínum eignum vilji þeir losna við þær. Þetta er öfug þróun því menn eiga að eignast hlutina með því að borga af þeim en ekki minka þær jafnóðum og greitt er af.

Það skal tekið fram að ég er ekki með nákvæmar tölur af þessu láni sem konan tók á sínum tíma en ég veit vela að skuldin hefur hækkað úr miljón í ca 1,3 millur á þeim sex áru sem greitt hefur verið af því.

Offari, 20.1.2010 kl. 14:25

22 Smámynd: Maelstrom

110% leiðin á verðtryggðu lán Arion banka er ekki almenn lækkun.  Hún er í raun sértæk leið sett upp á almennan hátt.  Þeir sem eru ekki yfirveðsettir nýta ekki þessa lausn og hún er því bara fyrir þá verst settu.  Þetta er plástur fyrir þá sem eru í slæmum málum og ekki mikið meira.

20% leiðrétting á verðtryggðum lánum er einfaldlega allt of mikið.  Frá ársbyrjun 2008 hefur vísitalan hækkað um 26%.  20% leiðrétting á það þýðir að allar verðbætur eru teknar af fyrir 2008 og 2009.  Það þýðir að þeir sem voru með verðtryggð lán á 5% vöxtum sleppa við allar verðbætur í tvö ár.

Hvað eigum við þá að gera fyrir þá sem voru með óverðtryggð lán og borguðu kannski 20% óverðtryggða vexti fyrri hlut árs 2009?  Eigum við ekki að endurgreiða það líka?  Þetta voru samt vextir sem voru ákvarðaðir af Seðlabanka Íslands.

 HH talar um að jafna ábyrgð lántakanda og lánveitanda.  Þessar tillögur fara yfir á hinn pólinn og svipta allri ábyrgð af lántakendum.  Þessar tillögur eru einfaldlega arfavitlausar.

Maelstrom, 20.1.2010 kl. 14:26

23 identicon

Maelstrom: Þú segir,

Það sem fólk þarf að átta sig á er að verðtryggð annuity-lán eiga að þýða að fast hlutfall launa fari í að greiða af láninu allan lánstímann.  Ef það er erfitt að borga af láninu í fyrstu afborgun, þá verður jafn erfitt að borga af láninu út lánstímann.  Það skiptir ekki máli hve hátt lánið er, ef launin hafa hækkað með.

Ég tók mitt verðtryggða lán (stórt lán) 2005 og það var ekkert erfitt að borga það þá en núna verður það alltaf erfiðara (er í sömu vinnunni + laun) .... hvað er að ?

Friðrik (IP-tala skráð) 20.1.2010 kl. 14:35

24 Smámynd: Offari

Hvað eigum við þá að gera fyrir þá sem voru með óverðtryggð lán og borguðu kannski 20% óverðtryggða vexti fyrri hlut árs 2009?  Eigum við ekki að endurgreiða það líka?  Þetta voru samt vextir sem voru ákvarðaðir af Seðlabanka Íslands.

Maelstorm.

Þetta er akkúrat það sem átt er við með almennri lausn, Það hefur aldrei verið réttlætnalegt að mismuna fólki.

Offari, 20.1.2010 kl. 14:37

25 Smámynd: Maelstrom

Það liggur í hlutarins eðli að fólki verður mismunað.  Þeir sem áttu innlán fengu allt tryggt.  Hver borgar það? Jú, þeir sem skulduðu, það er ekki öðrum fyrir að fara.

Efnahagsreikningur banka er einfaldur.  Einföldum hann samt aðeins.  Eignir eru útlán.  Skuldir eru innlán og eigið fé.  Í hruninu tapaðist allt eigið fé en ríkið ákvað að tryggja innlánin.  Hvernig?  Með því að rukka útlánin í botn.

Af hverju vill HH leiðrétta erlendu myntkörfurnar og verðtryggðu lánin en ekki óverðtryggðu lánin?  Ef verðtryggðu lánin verða leiðrétt um 20%, þá vil ég fá sömu leiðréttingu á yfirdráttarlán!  Annars er verið að mismuna skuldurum § (nú vantar mig illilega kaldhæðnismerkið sem var í blöðunum í vikunni)

Maelstrom, 20.1.2010 kl. 14:53

26 Smámynd: Elle_

50% lækkun á gengistryggðum lánum myndi þýða að lánið mitt væri lægra en þegar ég tók það!

Ætti það kannski ekki að vera lægra en þegar þú tókst það ef þú hefur verið að borga nógu lengi og nógu oft?   Það færi líka eftir því hvenær þú tókst það.  Fólk sem tók gengislán um mitt ár 07 þurfti að sætta sig við milli 100 og 130% hækkun á 15 mánuðum og finnst þér það ekki nokkuð gróft? 

Elle_, 20.1.2010 kl. 19:41

27 identicon

Ég skil ekki þessa meinloku í fólki að húsnæðislán eigi alltaf að vera eitthvað sem rokkar upp og niður.  Afhverju í ósköpunum er ekki hægt að hafa  óverðtryggt lán á föstum vöxtum hérna ? Fyrst þegar það er innleitt fara bankarnir að haga sér á ábyrgan hátt því þá bera þeir kostnað af of hárri verðbólgu.

Sömuleiðis líka þetta með að húsnæðislánin eigi alltaf að vera sama hlutfall að laununum þínum allan lánstímann. Erlendis er einmitt málið að húsnæðislánið verður alltaf minni og minni hluti af útgjöldunum hjá fólki þegar það eldist(gefið að það hækki í launum).  Það er með ólíkindum að einhver skuli standi vörð um þetta úldna séríslenska kerfi.

Lilja (IP-tala skráð) 20.1.2010 kl. 21:41

28 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Maelstrom, það má alveg setja þann varnagla á lækkun höfuðstóls, að lánþegi fái ekki meiri lækkun en nemur upphaflegum höfuðstóli að teknu tilliti til afborgana.  Það mætti líka setja þak á upphæðir o.s.frv., o.s.frv.  Ekki búast við að sett sé fram fullbúin útfærsla á kröfum í bloggfærslu.

Marinó G. Njálsson, 20.1.2010 kl. 22:45

29 Smámynd: Maelstrom

Marínó, mér finnst bara eins og þessar kröfur taki til baka ALLA hækkun á höfuðstól lána, líka þá sem lántakandinn mátti alveg búast við m.v. söguleg gögn síðustu 30 ára.  Að segja að verðtryggð lán hækki ekki meira en 4% á ári er göfugt og hefði kannski virkað í góðærinu en nú er það bara óraunhæft.  Ef fólk vill ekki borga verðtrygginguna á einfaldlega að skuldbreyta og taka óverðtryggt lán.  Menn segja kannski að það sé klikkun að taka lán á 10-15% óverðtryggðum vöxtum og vilja frekar taka 5% verðtryggt.  Það er bara sjálfblekking.  Peningur á Íslandi kostar bara 15% á ári og ekkert við því að gera (nema taka erlent lán og taka sénsins á genginu.  Við vitum hvernig það fór).

Ég er ekki að verja lánin og bankana í málflutningi mínum.  Ég vil fá lækkun á þessu rugli eins og allir aðrir.  Ég held bara að kröfurnar hérna séu svo ýktar að það verði ekki einu sinni rætt við ykkur um þær.

Það er ákaflega einfalt að láta verða alltaf afborganir verða lægra og lægra hlutfall útgjalda.  EKKI VELJA ANNUITY LÁN (og alls ekki verðtryggt í þokkabót).

Bankastarfsemi á Íslandi er að mörgu leyti óheilbrigð því neytendasamtök eru ekki að standa sig.  Sumt sem í boði er er löglegt og mjög almennt en algerlega áhættulaust fyrir lánveitanda.  Hvað vantar?

Gera kröfu um að ákveðnar lánasamsetningar verði bannaðar, t.d. verðtryggð annuity lán.  Þau eru djöfulleg.

Gera kröfu um að húsnæðislán verði á föstum vöxtum eða breytilegum markaðsvöxtum.  ATH markaðsvöxtum og EKKI kjörvöxtum

Ég myndi mælast til þess að kjörvextir bankanna yrðu bannaðir.  Talandi um belti og axlabönd!!  Verðtryggt annuity lán á kjörvöxtum.  Fáránlegasta samsetning sem hægt er að hugsa sér og fólk fær svona lán í massavís.

Maelstrom, 21.1.2010 kl. 11:52

30 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Gerum bara eins og þeir gera nú í Ameríku. Ég var að blogga aðeins um það og endurtek það bara hér fyrir neðan.

Ég sá hér á netinu ágæta grein um ástandið á húsnæðismarkaði í USA. Þar kemur fram að búist er við að fleiri en nokkru sinni muni skila húsnæði sínu til bankanna á árinu 2010. Verð hefur fallið á húsnæði á sama tíma og vextir eru háir. Algengt er að fólk geti lækkað húsnæðiskostnað sinn um helming eða meira með því að skila lyklunum, hætta að borga af lánunum og kaupa aftur eða fara á leigumarkað. Og það sem mest athygli vekur í USA nú er að fólk er að hætta að greiða af lánum og skila húslyklum í stórum stíl vegna þess að það er fjárhagslega skynsamlegt, hagkvæmt. Þetta snýst ekki lengur eingöngu um greiðslugetu, heldur skynsemi.

Þar sem ekkert er verið að gera hér á landi til að koma til móts við lántakendur verð ég að mæla með að fólk skoði þessa leið. Í USA fara menn auðvitað á svartan lista vegna vanskilanna og það fylgir því kostnaður að fara í þrot, en þegar dæmið er reiknað til enda marg borgar það sig samt. Það sama á auðvitað við hér á landi, en ef það sparar stórar fjárhæðir að fara þessa leið, þá ber það líka vott um að lántakendur velja skynsemi fram yfir kúgun og það er mikils virði.

Sá heiðarleiki sem okkur flestum hefur verið innrættur, að borga skuldir okkar, hefur um langt skeið verið misnotaður af fjármálafyrirtækjum til að kúga fé af okkur. Við tökum lán á tilteknum forsendum og flest eða öll sjáum við fram á að geta greitt lánin til baka og að við séum að eignast það húsnæði sem við erum að borga fyrir með láninu. En fjármálafyrirtækin taka af okkur verðtryggingu langt umfram það sem þau sjálf telja að þau þurfi í upphafi, auk þess taka þau af okkur breytilega vexti af verðtryggðu lánunum. Eða þá að lánin eru gengistryggð og vextir breytilegir. Með þessum hætti hafa bankarnir hirt allt eigið fé af fjölmörgum skuldurum, fé sem menn hafa greitt út við kaup á íbúðum eða vinnu sem menn hafa lagt í eigið húsnæði.

Það var í eina tíð talinn jafnmikilvægur heiðarleiki að standa við samninga eins og að borga skuldir sínar. Nú hafa bankarnir löngu hætt þeim heiðarleika að standa við samninga, það gerðu þeir þegar samningarnir voru gerðir teygjanlegir og sveigjanlegir þeim í hag. Það hefur sýnt sig vel undanfarið. Bankarnir hafa flestir farið á hausinn og skipt um kennitölur. Þrotabú þeirra borga sáralítið af skuldum sínum, gert er ráð fyrir að þeir komist þó langt með að greiða forgangskröfur. Ríkisstjórnin leggur blessun sína yfir þetta sukk og svindl og stendur með bönkunum í blíðu og stríðu.

Ríkisstjórnin setti neyðarlög til að bjarga innistæðum á venjulegum bankareikningum þegar allt bankakerfið hrundi 2008. Með þessu var verið að velta megninu af hruninu yfir á skuldara. Hver trúir því að skuldarar geti einir borið hrunið ef þeir sem áttu peninga geta lítið sem ekkert borið?

Á sama tíma er verið að höfða til heiðarleika skuldara til að plata þá til að láta féfletta sig áfram.

Ég vil skora á alla skuldara að skoða það vel og vandlega hvort ekki borgi sig að hætta að borga af bankalánum. Þrátt fyrir svarta lista og jafnvel gjaldþrot. Þrátt fyrir að menn verði að yfirgefa húseignir sem þeir eiga hvort eð er ekkert í og fara á leigumarkað eða kaupa ódýrara húsnæði.

Ég er þess fullviss að ef ekkert verður aðhafst varðandi leiðréttingu skulda af íbúðarhúsnæði umfram það málamyndafix sem aðeins hefur örlað á þá er skynsamlegt fyrir fólk að hætta að borga af lánunum og fara að koma sér fyrir annars staðar.

Siðferðilega tel ég að ekkert sé athugavert við þetta í ljósi þess hvernig bankarnir hafa snúið út úr heiðarleika í viðskiptum, þetta er bara ein hliðin á hinum frjálsa markaði og öfluga kapítalisma sem við höfum tileinkað okkur á undanförnum árum. Spilum bara þann leik til enda, þá fer allt vel að lokum.

Hér er svo tenging á greinina um þetta í USA.

http://finance.yahoo.com/news/Strategic-Defaults-and-the-usnews-2190373684.html?x=0&mod=loans

Jón Pétur Líndal, 21.1.2010 kl. 23:19

31 Smámynd: Axel Pétur Axelsson

Sæll Marinó,

Aðferðafræði ríkisÓsómans er röng, ef hún væri húsasmiður þá væri hún að gera við þakið þegar undirstöðurnar bresta. Vandamálið er einfalt, prufið að fara inna þessa vefsíðu; http://www.ils.is/index.aspx?GroupId=975 og setjið inn 20m með 5% verðbólgu, þetta er það sem Íslendingar þurfa að greiða til baka;

Afborgun = 20.000.000

5% vextir = 26.609.232

5% verðbólga = 97.934.209

Og þetta eru "skárri" lánin eins og staðan er núna. Í Noregi má sleppa 97 milljónkróna liðnum og vextirnir eru 3-4%. Íslenska efnahagskerfið er helsjúkt.

Það er sama hvað maður málar þakið oft, það lagar ekki skemmdir í sökklum.

Axel Pétur Axelsson, 22.1.2010 kl. 00:39

32 Smámynd: Jakob Þór Haraldsson

Kæri Marinó takk fyrir að standa ávalt vaktina og veita þessari "Norrænu velferðastjórn...lol..lol...lol..." aðhald.  Það stóð nefnilega aldrei til hjá þeim að gera neytt fyrir skuldugar fjölskyldur.  Engin leiðrétting, enginn niðurfelling - ótrúlegt lið - svo þykkjast þeir vera vinstri menn og tala um VELFERÐ...lol.....!  Núverandi stjórnvöld eru góð í klækjastjórnmálum, það er það eina sem þau gera vel!

kv. Heilbrigð skynsemi (fun.blog.is)

Jakob Þór Haraldsson, 22.1.2010 kl. 11:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband