Leita í fréttum mbl.is

Er Landsbankinn að bregðast við gagnrýni Hagsmunasamtaka heimilanna? - Bankarnir geta gert betur!

Landsbankinn hefur ákveðið að feta í fótspor hinna bankanna og bjóða niðurfærslu skulda.  Bjóða núna allir bankarnir, þ.e. Íslandsbanki, Arion banki og Landsbankinn sambærilegan "pakka", þó vissulega sé einhver bitamunur á útfærslunni.  Ég get ekki annað en velt því fyrir mér hvort Landsbankinn sé með þessu að bregðast við útreikningum Hagsmunasamtaka heimilanna, sem birtur var í vikunni fyrir jól, en þar kom Landsbankinn langverst út í samburði.

Annars er það með þessi úrræði eins og önnur sem sett hafa verið fram.  Þau ganga of skammt.  Svigrúm bankanna þriggja er umtalsvert meira en það sem þeir nýta.  Samkvæmt skýrslu AGS þá voru lán heimilanna færð frá gömlu bönkunum til þeirra nýju með um 45% afslætti.  Komið hefur fram í gögnum, að skuldir heimilanna hjá bönkunum námu um 700 milljörðum.  Af því nema gengistryggð lán um 30% og verðtryggð því um 70%.  Heimildir HH greina, að gengistryggð lán hafi verið flutt yfir með a.m.k. 50% afslætti og verðtryggð með allt að 30% afslætti.  Þetta eru hvorutveggja tölur sem áreiðanlegur aðili gaf mér upp fyrir um þremur vikum.  En gefum okkur að gengistryggð lán séu færð niður um 50% og verðtryggð lán um 20%.  Þá hefur verðmæti lánasafnanna færst úr því að vera 100% í 0,5*30% + 0,8*70% = 71% eða lækkað um 29%.  Eftir standa þá 45% - 29% = 16% sem hægt er að nota á tvo vegu.  Annars vegar til að mæta meiri afskriftum af einstökum lánum eða greiða fyrir hærri fjármögnunarkostnað bankanna.

Varðandi hærri fjármögnunarkostnað, þá snýst það eingöngu um gengistryggða hluta lánanna.  Verðtryggð lán eru fjármögnuð með verðtryggðum innlánum og þar hefur vaxtamunurinn haldist nokkurn veginn óbreyttur í nokkurn tíma og banka- og gjaldeyrishrun breytir því ekkert.  Það er því eingöngu fjármögnunarkostnaður gengistryggðra lána sem hefur mögulega hækkað eða hvað?  Gengistryggð lán voru áður fjármögnuð með vaxtaskiptasamningum sem fólu það í sér að íslensku bankarnir tóku erlend lán og erlendir aðila gáfu út svo kölluð jöklabréf.  Íslensku bankarnir skiptu síðan á skuldbindingum við jöklabréfaútgefendur, þ.e. íslensku bankarnir tóku að sér að greiða jöklabréfin en erlendu aðilarnir greiða af erlendu lánunum.  Það var þess vegna sem krónan féll.  Svo íslensku bankarnir gætu fengið gengishagnað á útlánin sín án þess að það hefði áhrif á útgreiðslu þeirra til jöklabréfaeigenda.  En aftur að fjármögnunarkostnaði gengistryggðra lána.  Raunar skiptir ekki megin máli hver sá kostnaður var.  Það sem skiptir megin máli er hve miklu hærri vexti geta bankarnir greitt fyrir fjármögnun lánanna í dag.  Þar skipta þessi 16% sem ekki fóru í lækkun höfuðstóls öllu máli, en þau er hægt að nota til að greiða hærri vexti.

Ef við gefum okkur að gengistryggðu lán séu til 25 ára, þá verður að dreifa 16%-unum yfir öll 25 árin.  Þar sem upphæðin lækkar jafnt og þétt, þá lækkar vaxtagreiðslan einnig.  Gengisþróun spilar einnig inn í þetta og því gef ég mér að lánum sé breytt yfir í óverðtryggð lán í íslenskum krónu (sem er í sjálfu sér bara viðurkenning á því að lánin voru alltaf íslensk).  Eðlilegasta leiðin til að fjármagna þessi lán er að nota óverðtryggð innlán, en slíkir reikningar bera allt niður í 0,5% vexti samkvæmt vaxtatöflum bankanna.  En aftur að 16%-unum.  Ef við dreifum vaxtagreiðslunum á 25 ár, þá duga þessi 16% fyrir ríflega 4,5 prósentustigum í hærri fjármögnunarkostnað en áður.  Þ.e. hafi bankinn fjármagnað sig á 1% vöxtum, þá gæti hann fjármagnað sig á 5,5% vöxtum og samt komið út með smávægilegan afgang, ÞÓ SVO AÐ VEXTIR ÓVERÐTRYGGÐU LÁNANNA YRÐU ÞEIR SÖMU OG VORU Á GENGISTRYGGÐU LÁNUNUM.  Gengisþróun hefur verið tekin út úr vandamálinu, þar sem nú eru lánin óverðtryggð í íslenskum krónum.  Með 50% afslátt, þá ættu allir að vilja að skipta yfir, sérstaklega þar sem óverðtryggðu vextirnir yrðu mjög lágir.

Með þessari aðgerð, þ.e. að færa verðtryggð lán niður um 20% og gengistryggð niður um 50% og breyta þeim jafnframt í óverðtryggð lán, þá leyfi ég mér að fullyrða, að stærstur hluti lántaka hjá bönkunum þremur mun komast á beinu brautina.  Í þeim tilfellum, sem það tekst ekki, verður verðmæti trygginga (þ.e. veðs) oftast nægilega hátt til að standa undir skuldinni.  (Höfum í huga að viðkomandi verður búinn að fá 20 eða 50% niðurfærslu.)  Vissulega gætu bankarnir myndað varasjóði með því að færa verðtryggð lán niður um, segjum, 18% og gengistryggð um, segjum, 45% og býst ekki við því að nokkur lántaki andmælti því.  Eftir standa mun betri lán og bjartari rekstrarhorfum fyrir bankana, þar sem búið væri að greiða úr 99% vandans.

Hafa skal í huga, að Íbúðalánasjóður stendur fyrir utan þetta og samgildir um lífeyrissjóðina og alla smærri sparisjóðina.  SPRON, Frjálsi og BYR (samkvæmt nýjustu fréttum) virðast hafa sama/svipað svigrúm og bankarnir.  Því þarf að finna lausn á vanda hinna.  Ég hef áður bent á að fyrir lífeyrissjóðina, þá er þetta lítið mál.  Sjóðfélagalán námu um 10% af eignarsafni sjóðanna 31.12.2008 og 20% niðurfærsla nemur því 2% af eignarsafninu.  Það nemur suma daga ekki einu sinni dagsveiflunni.  ÍLS og smærri sparisjóðir eru verra mál.  Þessir aðilar þurfa að semja við sína lánadrottna eða að þetta verði fjármagnað eftir öðrum leiðum, svo með andvirði af sölu eignarhluta ríkisins í bönkunum, sérstökum fjármagnstekjuskatti eða með skuldbreytingu sem leyfir þessum aðilum að afskrifa niðurfærsluna yfir lengri tíma.


mbl.is Landsbankinn boðar aðgerðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hafa skal í huga að þetta miðast við 110% af markaðsverði. Sem þýðir að bankarnir hafa hagsmuni af háu húsnæðisverði. Sem aftur þýðir að þeir munu fara að lána óábyrgt til að halda uppi verði o.s.frv.... Gott eða slæmt?

Kristján Kristjánsson (IP-tala skráð) 4.1.2010 kl. 13:40

2 identicon

Eins og alltaf, góðar greinar hjá þér og á mannamáli!

Gæti maður þá ekki beðið sinn fasteignasala um að færa verðmat íbúðar niður í fasteignamat + lóðamat og þá 10% ofan á það mat. Samtals 110%. Getur bankinn með einhverju móti haft áhrif eða hafnað slíku verðmati ef tiltekin íbúð selst ekki, hvort sem hún sé lækkuð í verði því sem nemur 110% af lánum eða ekki?

Sem sagt, íbúð sem ekki selst og mun ekki seljast á næstu misserum eða árum. Er e-ð óeðlilegt að sú íbúð/hús sé metin að lágmarki miðað við fasteignamat + lóðamat + 10%? Fólk gæti lækkað höfustól og afborganir verulega með þessu.

Ekki nema bankar ætli að halda uppi fölskum verðmætum í lánasafni sínu og láta okkur borga í samræmi við það.

Hlynur Gudlaugsson (IP-tala skráð) 4.1.2010 kl. 13:44

3 Smámynd: Sigurður Grétar Guðmundsson

Sæll Marínó, ég hef áður sent þér línu og þú svaraðir mér málefnalega þó ég væri nokkuð hvass. En ég er enn og aftur að hamra á því að íslenskur almenningur hefur áður lent í miklum hremmingum fjárhagslega, það veit ég vel sem var að halda upp á 75 ára afmæli mitt. En í dag finnst mér því miður hver og einn emja og veina og kenna öllum öðrum um allt sem aflaga fer í eigin ranni. Ég missti mitt einbýlishús undir hamarinn 1985 og það var selt hæstbjóðanda, við hjónin stóðum á götunni eignalaus en með miklar skuldir og fimm börn. Við gengum ekki um stræti og gatnamót og kenndum öllum öðrum um. Við neituðum að gefst upp, við neituðum að lýsa okkur gjaldþrota og við höfum náð þeim árangri að eignir eru í dag umfram skuldir, búum í eigin einbýlishúsi, en það var hörð barátta. Ég geri mér grein fyrir að mörgum er hægt og á að hjálpa. Minn banki, Íslandsbanki, er stórlega búinn að minnka mína greiðslubyrði og ætlar að gera betur. En þið hamrið á því að ekkert sé gert til að hjálpa heimilum í landinu, á að færa öllum allt á silfurfati? Svo koma þeir sem voru búnir að skuldsetja sig þannig að það þurfti ekki hrun til að allt færi norður og niður, þar get ég nefnt sem samnefnara manninn sem braut húsið á Álftanesi. Svo býð ég þér á bloggið mitt til að lesa minn pistil um fremsta lýðskrumara og hræsnara sem nú er upp á Íslandi, Sturlu vörubílstjóra.

Menn af þessum "gæðum" eru því miður æði fjölmennir á Íslandi í dag og satt best að segja virðast allt of margir skríða fyir þeim.

Sigurður Grétar Guðmundsson, 4.1.2010 kl. 14:07

4 identicon

Bara svo þið vitið að þá eru engin úrræði enn fyrir þá sem tóku íbúðarlán hjá SPRON og Netbankanum, en þau lán eru í eigu skilanefndar, og Arion banki sér einungis um að innheimta þau.

... en þetta er hvort sem er allt ónýt úrræði.

Halldór Gunnarsson (IP-tala skráð) 4.1.2010 kl. 14:09

5 identicon

Sigurður Grétar Guðmundsson. Innlegg þitt má lesa á eftirfarandi hátt:

Þar sem að ég missti handlegg árið 1985 finnst mér bara allt í lagi að aðrir samlandar mínir missi handlegg nú árið 2010. Þar sem að ég þurfti að ganga í gegnum þetta er bara allt í lagi að aðrir geri það líka.

Þitt innlegg lýsir því sem er að gerast í huga ákveðins hóps sem hefur gaman að því að sjá aðra kveljast og þjást. Það sem þú virðist þó ekki sjá í þessu öllu saman er að það er stigs munur á því sem gerðist hér á árum áður og er að gerast núna. Í dag eru tækifæri fyrir almenning að fá leiðréttingu á sínum hlut. Þau tækifæri voru ekki jafn auðséð á árum áður þar sem að það voru ekki beint bankarnir sem brugðust og eignaumsýsla var með öðrum hætti. Þótt svo að þú hafir misst handlegg árið 1985 þurfa samlandar þínir ekki að missa handlegginn í dag, þrátt fyrir að hlutirnir líti ekki vel út.

Kristinn (IP-tala skráð) 4.1.2010 kl. 15:38

6 identicon

Er þetta útspil ekki hluti af því að laga aðeins ímyndina hjá mesta glæpafyrirtæki íslandssögunar.

Æ nafni, ekki koma eina ferðina enn með þessa sögu, auðvitað var hundleiðinlegt að þú skyldir missa húsið en hvað kemur það málinu við í dag. 1985 voru þokkalega grandvarir bankamenn til en núna var bönkunum stjórnað af bófagengi sem hafði eitt að markmiði að skara eld að eigin köku. Ekki bera saman epli og appelsínur Sigurður.

Góð grein Marinó eins og venjulega þegar þú skrifar um þessi mál. Bankarnir hafa fengið alltof mikin frið upp á síðkastið.

Sigurður Sigurðsson (IP-tala skráð) 5.1.2010 kl. 02:55

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Það er rétt athugað, Halldór, að engin úrræi hafa verið birt hjá SPRON og NB og er það furðulegt.  Lýsi ég því eftir slíkum úrræðum. 

Ég vil líka vekja athygli á því, að fjármálafyrirtækin hunsa sínar eigin undirskriftir frá því í apríl um að bjóða lántökum þau greiðsluerfiðleikaúrræði sem Íbúðalánasjóður hefur upp á að bjóða.  Þar er meðal annars úrræði vegna söluerfiðleika sem felur í sér að lántakar eigi að geta fengið frystingu lána sinna í allt að 3 ár, eitt ár í einu.  Hef ég reynt það sjálfur, að sum fjármálafyrirtæki hafa engan áhuga á að bjóða lántökum þetta.  Undirskrift þeirra á skjalið var upp á punt.

Marinó G. Njálsson, 6.1.2010 kl. 00:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 1680018

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband