Leita í fréttum mbl.is

Á ósvífnin sér engin takmörk?

Svipan birti frétt í gær laugardag undir fyrirsögninni Lánveitandinn reyndi að innheimta afborganir af skuldabréfi sem hann hafði selt.  Í fréttinni er því haldið fram að a.m.k. eitt fjármálafyrirtæki og líklegast fleiri hefðu haldið áfram að innheimta lán, sem þau áttu alls ekki og höfðu því engan rétt á að innheimta.  Fjármálafyrirtækin eru ekki nefnd á nafn, en sagt berum orðum að um banka sé að ræða.

Ásökunin sem sett er fram í frétt Svipunnar hljóðar upp á, að banki hafi selt lán til hollensks fjármálafyrirtækis, en þrátt fyrir það látið líta út gagnvart lántakanum að bankinn væri ennþá lögmætur kröfuhafi.  Þegar lántakinn/greiðandinn óskaði eftir því að sjá frumrit skuldabréfsins, þ.e. gerði meira en óska eftir "staðfestu" afriti, þá tókst bankanum ekki að sýna fram á að hann hefði skuldabréfið í vörslu sinni.  Við frekari eftirgrennslan kom í ljós að viðkomandi skuldabréf hafði verið selt til hollensks fjármálafyrirtækis fyrir talsverðum tíma og að hollenska fjármálafyrirtækið hafði strax afskrifað bréfið til að nýta þarlend lög um skattaafslátt (eða lækkunar á skattskyldum tekjum/eignum).  Eftir að það komst upp greiddi íslenski svikarinn, því þetta er ekkert annað en rakin fjársvik, háar upphæðir til að þagga málið niður.

Nú veit ég ekkert hvort umrædd saga sé sönn, en verð þó að viðurkenna, að ég hef haft veður af svona löguðu, en þó bara sem kjaftasögum.  Þessi ásökun er samt svo alvarleg að hana verður að rannsaka.  Þar sem viðkomandi banki er ekki nafngreindur þá liggja allir undir grun.  Raunar segir í fréttinni, að fleiri en einn banki eigi í hlut.

Ég ætla ekki að fara að geta mér til opinberlega hvaða bankar eiga í hlut.  Ég er þó þess full viss að Svipan hefði ekki birt þessa frétt sína nema vera með áreiðanlegar heimildir fyrir henni.  

Traustið endanlega farið

Reynist þessi frétt sönn, þá er einfaldlega endanlega búið að rústa öllu trausti sem bankarnir endurreistu hafa mögulega náð að byggja upp.  Staða lántaka er sú, að þeir hafa enga tryggingu fyrir því, að fjármálafyrirtækið sem er að innheimta lán þeirra hafi yfirhöfuð umboð til þeirrar innheimtu. Fyrirtækin sjálf, fyrirtæki sem þau tóku yfir eða jafnvel fyrirtækin sem hrundu gætu hafa selt kröfurnar til einhverra aðila úti í heimi (eða hér á landi) sem keyptu kröfurnar í þeim eina tilgangi að nýta til skattahagræðis.

Hvers vegna er skuldara ekki tilkynnt, þegar kröfuhafaskipti verða á kröfu en kröfuhafanum er tilkynnt þegar skuldaraskipti verða?  Af hverju hefur skuldari minni rétt á að vita hver er kröfuhafinn hans, en kröfuhafinn að vita hver er skuldarinn? Af hverju fékk ég ekki tilkynningu frá mínum viðskiptabanka eða sparisjóði, þegar krafan á mig var færð frá einu aðila til annars?  Fóru kröfurnar þessa leið eða eru þeir aðilar sem eru að innheimta lánin bara að gera það í umboði einhverra?  Af hverju veit ég yfirhöfuð ekki hver er eigandi kröfunnar á mig og veit því ekki við hvern ég á að tala til að fá niðurstöðu í málin?  Ég komst t.d. fyrst að því í maí 2012 að Arion banki átti kröfu sem ég var búinn að reyna að semja við Dróma um frá því 24. ágúst 2009!  Samt hafði Arion banki ítrekað neitað að semja við mig um kröfuna, þar sem Drómi átti hana!

Ég hef raunar heyrt skýringuna á því af hverju skuldari fær ekki að vita af breytingu á stöðu kröfuhafa.  Það er svo flókið og síðan vilja kröfuhafar oft vera nafnlausir!  Einmitt, svo hægt sé að svindla á skuldurum eins og lýst er í frétt Svipunnar?

Ótrúlega auðvelt í framkvæmd

Hvort sem þessi frétt Svipunnar er rétt eða ekki, þá er þetta greinilega möguleiki.  Upprunalegur kröfuhafi (og þeir sem á eftir koma) getur hvenær sem er selt kröfuna einhverjum andlitslausum aðila en samt haldið áfram að innheimta reglulegar greiðslur af henni, þó viðkomandi hafi engan rétt til þess, í þeirri trú að hinn nýi kröfuhafi sé fyrst og fremst að kaupa kröfuna til að nýta til afskrifta í skattalegu hagræði.

Málið er að þetta er svo auðvelt í framkvæmd.  Íslenski svikarinn þarf bara að koma sér í samband við erlendan svikahrapp sem er til í að taka þátt í leiknum.  Lánasafn er að nafninu til selt hinum erlenda aðila á fáránlegu undirverði sem strax afskrifar safnið til að nýta sér skattareglur í viðkomandi landi.  Íslenski svikarinn fær í sinn hlut 10-15% af andvirði lánasafnsins og getur haldið áfram að innheimta það upp í topp, meðan erlendi svikahrappurinn gefur upp í sínu heimalandi, að lánasafnið sé óinnheimtanlegt, færir heildarupphæð safnsins til gjalda hjá sér og nýtur skattalækkunar sem nemur 20-30% (ef ekki meira) af heildarupphæðinni.  Báðir svikararnir fá eitthvað í sinn vasa.  Íslenski skuldarinn er hvorki að græða né tapa, en það gera íslenskir skattgreiðendur og skattgreiðendur í heimalandi erlenda svikarans.  (Svo er náttúrulega spurningin hvort greiðslur skuldarans af láninu renni inn á reikning fjármálafyrirtækisins eða einhvers annars.)

Staðfest afrit sanna ekkert

Staðfest afrit skuldabréfa hafa hingað til þótt fullnægjandi sönnun fyrir eignarhaldi þess sem leggur afritið fram á kröfunni.  Sýslumenn og dómstólar hafa raunar ítrekað látið duga að fjármálafyrirtæki leggi fram slík staðfest afrit. Miðað við frétt Svipunnar, þá eru þau ekki jafnörugg sönnun og ætla þætti.

Minnsta mál er að falsa slík skjöl. Einfaldlega er tekið afrit af skuldabréfi, sem hefur verið selt samverkamanni í svikunum og það geymt í skjalahirslu fjármálafyrirtækisins í staðfrumritsins.  Slíkt afrit getur verið ótrúlega nákvæm eftirgerð frumritsins, t.d. ef frumritið hefur verið skannað inn og síðan prentað út.  Þegar óskað er eftir staðfestu afriti, er tekið ljósrit af afritinu og á það skráðar upplýsingar um að um staðfest afrit sé að ræða.  Jafnvel fyrir fagmann er erfitt að greina hvort ljósrit af skjali sé af frumriti skjalsins eða hvort útprentun innskannaðs skjals hafi verið ljósritað.  Er því raunar með ólíkindum, að sýslumenn og dómstólar skuli láta duga að leggja fram staðfest afrit nema að fulltrúi sýslumannsins eða dómstólsins hafi verið viðstaddur þegar hið staðfesta afrit var útbúið og geti vottuð um að um ósvikið skjal sé að ræða.  Hér á landi virðist það aftur í verkahring skuldarans að afsanna að skjal sé ósvikið fremur en kröfuhafans að sannað að svo sé.

Sé frétt Svipunnar rétt, þá er kominn upp ótvíræður vafi um hvort staðfest afrit af frumriti staðfesti nokkurn skapaðan hlut.  Eins og fram kemur í fréttinni, þá sýndi bankinn lántakanum "allskonar pappíra stimplaða og undirritaða sem staðfest afrit af skuldabréfinu".  Þetta reyndist allt vera ómerkilegt skjalafals eða löngu úrelt gögn.  Spurningin sem þarf að svara er: Hversu algengt er þetta?

Ósvífni sem á sér engin takmörk

Því miður, þá verð ég að viðurkenna, að ég trúi þessari frétt Svipunnar fullkomlega.  Þetta er bara enn eitt dæmið um þá ósvífni sem virðist viðgangast innan íslensku fjármálafyrirtækjanna.  Ég hef orðið vitni að alls konar ósvífni og þessi gengur ekki meira fram af mér en margar aðrar.  Ég þori til dæmis að fullyrða, að ekki eitt einasta fjármálafyrirtæki á Íslandi fer eftir ákvæðum laga 107/2009 í skuldaúrvinnslu einstaklinga, heimila og fyrirtækja.  Nánast alls staðar virðist gilda sú regla, að skuldi skuldari fjármálafyrirtækinu tiltölulega lága upphæði (undir 500 m.kr.) þá frýs fyrr í helvíti en að fjármálafyrirtækið gefi nokkuð eftir fyrr en búið er að strípa skuldarann af öllum eignum og eftir það er viðkomandi helst keyrður í gjaldþrot.  Sé skuldin hins vegar yfir 500 m.kr., þá er eins og afskrifað sé hægri-vinstri og viðkomandi heldur öllum eignum sínum að auki.  Alls staðar virðist gilda sú regla (fyrir þá sem skulda undir 500 m.kr.), að draga mál á langinn eins og hægt er og gæta þess að á þau hlaðist allur mögulegur og ómögulegur kostnaður og reyni skuldari að halda uppi mótrökum í málinu, þá eru stefnuvottar sendir með hótanir um uppboð og gjaldþrot.

Leið bankanna er allt of oft leið þvingunar frekar en leið umræðu.  Því miður fyrir alla hafa bankarnir allt of oft haft rangt fyrir sér í túlkun laga, en það hefur enn ekki orðið til þess, að þeir hafi óskað eftir viðræðum við hagsmunasamtök lántaka til að fá botn í málin.  Hversu mörg heimili og fjölskyldur verða svipt öllu sínu og lögð í rúst áður en bankarnir ná áttum?  Hversu mörg dómsmál þurfa að falla bönkunum í óhag áður en þeir ná áttum?  Hvers vegna láta stjórnvöld bankana vera einráða um svo kölluð úrræði fyrir skuldug heimili og fyrirtæki, þegar ljóst er að þetta eru úrræði fyrir fjármálafyrirtækin til að hafa sem mest af heimilunum og fyrirtækjunum en ekki úrræði í samræmi við ákvæði laga nr. 107/2009 um úrræði fyrir einstaklinga, heimili og fyrirtæki vegna banka- og gjaldmiðilshruns.  Ég veit ekki svörin, en í mínum huga er ljóst að almenningur mun ekki ná rétti sínum nema í gegn um dómstóla.


Bloggfærslur 6. janúar 2013

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.11.): 12
  • Sl. sólarhring: 19
  • Sl. viku: 93
  • Frá upphafi: 1679720

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 85
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband