Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Formgalli eða orðhengilsháttur - dæmi hver fyrir sig

Kjörstjórnir í 4 kjördæmum af 6 hafa ákveðið að framlögð gögn Lýðræðishreyfingarinnar séu fullnægjandi, en í 2 kjör dæmum hafa kjörstjórnir ákveðið að sambærilegar upplýsingar séu ófullnægjandi.  En um hvað snýst deilan.  Svo allir geti gert sér grein fyrir því, þá fletti ég upp hinum umdeildu greinum laga nr. 24/2000 um kosningar til Alþingis.  Í VII. kafla er fjallað um framboð.  Fyrstu greinar kaflans hljóma sem hér segir:

VII. kafli. Framboð.
30. gr. Þegar alþingiskosningar eiga að fara fram skulu öll framboð tilkynnt skriflega yfirkjörstjórn þeirri sem í hlut á eigi síðar en kl. 12 á hádegi 15 dögum fyrir kjördag.
Gæta skal þess um öll framboð að tilgreina skýrlega nafn frambjóðanda, kennitölu hans, stöðu eða starfsheiti og heimili til þess að enginn vafi geti leikið á því hverjir eru í kjöri.
31. gr. Á framboðslista skulu vera nöfn tvöfalt fleiri frambjóðenda en nemur þingsætum í kjördæminu, hvorki fleiri né færri.
32. gr. Hverjum framboðslista skal fylgja skrifleg yfirlýsing allra þeirra sem á listanum eru um að þeir hafi leyft að setja nöfn sín á listann.

 

Það er túlkun á þessum "um að þeir hafi leyft að setja nöfn sín á listann", sem þessi deila snýst um.  Þarna er ekkert talað um að tilgreina þurfi kjördæmið, en auðvitað má segja að listi sé fyrir tiltekið kjördæmi.

Spurningin sem vaknar í mínum huga, er hvort kjörstjórn sé ekki hluti af stjórnsýslu og sé þar af leiðandi skylt að gæta meðalhófs og veita upplýsingar um hvernig staðið skuli að útfyllingu gagna.  Það þýðir líklegast jafnframt, að kjörstjórnir eiga að gefa út leiðbeiningar til framboðanna.

Nú verður úrskurði kjörstjórnanna í Reykjavík skotið til yfirkjörstjórnar.  Hún verður sett í furðulega stöðu nema úrskurðir annarra kjörstjórna verði einnig kærðir.  Verði þeir ekki kærðir, getur yfirkjörstjórn ekki annað en úrskurðað listana í Reykjavík lögmæta, því annars er verið að mismuna listum Lýðræðishreyfingarinnar eftir kjördæmum.  Verði úrskurðir annarra kjörstjórna einnig kærðir, þá gæti niðurstaðan orðið sú að öllum listum Lýðræðishreyfingarinnar yrði hafnað á grunni formgalla.  Illa væri komið fyrir lýðræðinu, ef núverandi valdablokkir ætla að verja sig með vísun í formgalla.


mbl.is Kjörstjórn klofnaði í Kraganum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Námskeið: Áhættustjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu

Dagana 20. og 21. apríl verður haldið á vegum Betri ákvörðunar ráðgjafaþjónustu námskeið um  Áhættustjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu.  Námskeiðið hefst kl. 9.00 báða dagana og stendur til um kl. 17.00.

MARKMIРnámskeiðsins er að kynna aðferðafræði við áhættumat og samspil áhættumats og stjórnunar rekstrarsamfellu.

Áhættustjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu eru tveir af grunnþáttum í góðum stjórnháttum fyrirtækis. Fátt er mikilvægara en að fyrirtæki hafi góða vitneskju um ógnir og hættur í umhverfi sínu og grípi til viðeigandi ráðstafana til að draga úr áhrifum þeirra á rekstrarleg og viðskiptaleg markmið.  Þetta er hægt að gera með því auka þol fyrirtækisins fyrir áhrifum óæskilegra atvika í rekstrarumhverfi þess með því að greina hver slík óæskileg atvik geta verið og grípa til ráðstafana til að styrkja inniviði fyrirtækisins.  Atburðir undanfarinna mánaða ættu að segja fyrirtækjum að slíkt er bráð nauðsynlegt.

Á námskeiðinu er stuðst við staðla og viðurkenndar aðferðir.  Meðal þeirra staðla og aðferða sem stuðst er við á námskeiðinu má nefna ISO 27001, ISO 27002, ISO 27005, BS 25999, BS 31100 og CobiT (Control Objectives for Information and Related Technology).

Leiðbeinandi á námskeiðinu er Marinó G. Njálsson, tölvunarfræðingur og sérfræðingur í stjórnun upplýsingaöryggis, M Sc og Engineer Degree Operations Research, Stanford University.  Marinó hefur undanfarin 9 ár veitt ráðgjöf vegna öryggisstjórnunar, áhættustjórnunar og stjórnunar rekstrarsamfellu.

Verð kr. 80.000, innifalið námskeiðsgögn, léttar veitingar og hádegisverður.  Veittur er 10% afsláttur ef tveir eða fleiri koma frá sama aðila.

Námskeiðið verður haldið í Rúgbrauðsgerðinni, 4. hæð, Borgartúni 6.

Nú eru síðustu forvöð að skrá sig.  Skráning á námskeiðið fer fram með því að senda tölvupóst á oryggi@internet.is.  Þar eru einnig veittar nánari upplýsingar, ef óskað er.

Helgi Hjörvar bullar í sjónvarpi

Ég get ekki orða bundist.  Helgi Hjörvar hélt því fram að Samfylkingin væri hlynnt niðurfærslu skulda og almennum aðgerðum vegna heimila landsins.  Hann ætti að kynna sér stefnumál flokksins.  Samfylking er eingöngu hlynnt sértækum aðgerðum, þar sem hver og einn aðili er skoðaður sérstaklega.  Samfylkingin er á móti almennum aðgerðum.  Ég er eiginlega furðulostinn yfir því að stjórnendur umræðunnar hafi ekki tekið eftir þessu bulli í þingmanninum.

Annað sem hann sagði, sem er beinlínis rangt.  Hann sagði að vaxtabætur hafi verið hækkaðar um milljarða króna til verulegra hagsbóta fyrir skuldsettustu heimilin.  Þetta er líka tóm tjara, svo ég taki ekki dýpra í árinni.  Í fyrst lagi hafa vaxtabætur ekkert með skuldsetningu að gera.  Þær ráðast af vaxtagjöldum, tekjum og eignum.  En þess fyrir utan, þá hafa breytingarnar á vaxtabótunum mun meiri áhrif hjá heimilum með tekjur á bilinu 8 - 12 milljónir, en hjá þeim sem hafa lægri tekjur.  Munar þar allt að tugum þúsunda.  Í öðru lagi, þá nemur hækkun vaxtabóta heilum tveimur milljörðum sem er fengin með staðgreiðsluskatti af innleystum séreignarsparnaði.  Ætli það hefði bara ekki verið nær að sleppa því að skattleggja séreignarsparnaðinn, því þá hefðu fleiri nýtt að taka hann út.

Líklegast sýnir þetta veika málefnastöðu Samfylkingarinnar, að þingmenn hennar þora ekki að greina rétt frá málum.  Sorgleg staðreynd.


Blekkingadeildir - nei - greiningadeildir bankanna

Yfirlýsing Hagsmunasamtaka heimilanna er send út í tilefni einhliða samkomulags lánveitenda um það hvaða kjör eigi að bjóða lántakendum.  Einhvers staðar í heiminum væri talað um samkeppnishamlandi samráð, en hér á landi er látið svo líta út að verið sé að gera lántakendum mikinn greiða. Í yfirlýsingu samtakanna, sem ég sá um að gera tilbúna til birtingar, er bent á að þó sumt af hugmyndum lánveitenda séu góðra gjalda vert, þá er tímasetningin röng.  Íbúðalánasjóður bauð alls konar leiðir fyrir lántakendur síðast liðið sumar.  Hefðu aðrir lánveitendur húsnæðislána boðið þá upp á sömu úrlausnir, þá væru mörg heimili í mun betri stöðu í dag en þau eru.  Þjóðfélagið væri í betri stöðu.

Ég skil ekki af hverju það hefur tekið rúmlega 6 mánuði að koma fram með þessar tillögur og ég skil ekki af hverju lántakendum var ekki boðið til þeirra viðræðna.  Ég veit að talsmaður neytenda sendi inn hugmyndir til félagsmálaráðherra fyrri hluta október mánaðar!  Ef þetta er dæmi um skilvirkni stjórnsýslunnar, þá skil ég vel að þjóðin sé í þessum vanda.  Stofnuð hafa verið samtök sem bera hagsmuni heimilanna fyrir brjósti.  Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon nefndu það á sínum fyrsta blaðamannafundi að haft yrði samráð við samtökin.  Við fengum vissulega fulltrúa inn í eina undirnefnda Velferðarvaktarinnar, en það hefur greinilega gleymst að láta Gylfa Magnússon, viðskiptaráðherra, fá niðurstöður þeirrar vinnu.  Eða er drottnunarvald fjármálafyrirtækjanna ennþá það mikið, að þau eru einráð í því sem gert er.

Mig langar að benda á eftirfarandi texta úr yfirlýsingunni:

Minna má á að ráðgjöf banka í húsnæðismálum síðustu árin snerist í miklu mæli um að vísa lántakendum í áhættusamar lánveitingar í formi gengistryggðra lána á þeirri forsendu að gengið væri stöðugt.  Jafnvel var vísað í hagspár greiningadeilda þessara sömu banka sem ekki bara höfðu birt kolrangar spár, heldur einnig spár sem gátu ekki staðist í ljósi vitneskju sem síðar hefur komið fram.  Ekki er hægt að túlka þessar spár í dag á annan hátt en afbökun á staðreyndum eða blekkingar.  Sem afleiðing af því stóðust verðbólguforsendur við lántöku ekki.  Þetta var allt vegna þess að bankarnir, eigendur þeirra og stjórnendur höfðu, viljandi eða þvingaðir, tekið stöðu gegn krónunni og stuðluðu með því að hækkun höfuðstóls lána, bæði gengis- og verðtryggðra.

Ég er einn af þeim sem tók meðvitaða áhættu um að taka gengistryggt lán.  Inn í mitt áhættumat tók ég þær spár sem greiningadeildir bankanna höfðu komið með um verðbólguþróun og gengisþróun.  Ég reiknaði það út (og held raunar að það eigi ennþá eftir að standast) að öll hækkun á gengi gjaldmiðla eigi á einum eða öðrum tímapunkti eftir að vera étin upp af verðbólgu.  Samanburður minn snerist því um það að vextir á gengistryggðu láni væru lægri en verðtryggðir vextir og að verðbætur sem leggjast á höfuðstól verðtryggðra lána hyrfu ekki meðan höfuðstóll gengistryggðra lána sveiflaðist með gengi.  Ég gekk út frá því (með tilvísun í spár greiningadeildanna) að gengisvísitalan, sem á þeim tíma var um 122, væri ofmetin og gengisvísitalan í kringum 128 væri nær lagi.  Ég taldi mig geta þolað að gengisvísitalan gæti farið í 135, en þá væri samt farið að reyna á.

Það sem ég vissi ekki var að greiningadeildirnar voru að birta falskar spár.  Þær höfðu (eða áttu að hafa) á þessum tíma (þ.e. frá haustinu 2006 fram á sumar 2007) upplýsingar sem bentu til þess að mikil hætta væri á að gengi krónunnar gæti lækkað verulega.  Það sem meira var að síðla árs 2007 og á fyrstu mánuðum 2008, þá héldu greiningadeildirnar áfram að birta spár sem gátu ekki verið annað en gegn betri vitund. Jafnvel eftir fall krónunnar í mars í fyrra héldu greiningadeildirnar áfram að spá tiltölulega sterku gengi.  Mér dettur ekki í hug, að greiningadeildirnar hafi ekki haft nægilega klára einstaklinga hjá sér til að geta lesið í þá þróun sem átti sér stað.  Eina niðurstaða mín er, að spár voru vísvitandi rangfærðar til að fegra myndina.  Hafi það ekki verið gert, þá erum við að tala um algjöra vanhæfni hjá starfsmönnum deildanna.  Nú spyr ég bara hvort var í gangi:  Algjör vanhæfni eða gefnar voru út falsaðar spár?  Einn möguleiki er til staðar í viðbót og það er afneitun manna hafi verið svo sterk.  Þetta gæti bara ekki verið að gerast.  Nú afneitun er eitt form af vanhæfni, þannig að það fer saman.

Það er sama hvernig ég lít á þetta, greiningadeildir bankanna bökkuðu uppi þær blekkingar sem voru í gangi.  Þær voru ekki óháðar og þeim var ekki treystandi.  Þær voru blekkingadeildir, ekki greiningadeildir.


mbl.is Málsókn til varnar heimilum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æ sé gjöf til gjalda

Ég get ekki annað en velt því fyrir mér í tengslum við himinháa styrki fjármála- og fjárfestingafyrirtækja til stjórnmálaflokkanna hvað menn hafi fengið fyrir styrkina.  Er ekki líklegt að fyrirtækin hafi notið einhverrar velvildar hjá forystusveitum flokkanna þriggja sem hæstu styrkina fengu?  Tæpar 100 milljónir fóru beint eða óbeint frá bönkunum þremur árið 2006 til Framsóknarflokks, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.  Hvað höfðu þessir flokkar fengið áður?  Hvernig var styrkjum frá bönkunum háttað fram að þessu?  Höfðu þessir styrkir áhrif á regluverk fjármálageirans?  Drógu þessir styrkir úr aðhaldi ríkisvaldsins gagnvart þessum fyrirtækjum?

Þetta þarf að rannsaka.  Réttast væri að ríkissaksóknari tæki það upp hjá sjálfum sér að rannsaka málið, sérstakur saksóknari þarf að skoða það og síðan segir á eyjan.is að rannsóknarnefnd um bankahrunið ætli að skoða málið.  Mér finnst það vera grafalvarlegur hlutur, þegar aðilar sem hafa jafn mikilla hagsmuna að gæta og hér um ræðir eru að ausa milljóna tugum á milljóna tugi ofan í kosningasjóði þeirra sem almenningur er að velja sem fulltrúa sína á Alþingi.

Við landsmenn, kjósendur og skattgreiðendur eigum rétt á að vita hvort niðurstaðan í þessu tilfelli hafi verið að þessum aðilum hafi verið hyglað. Og við eigum líka rétt á að vita hversu lengi þetta hafði gengið á og hvaða upphæðir höfðu áður verið greiddar. Viðskiptaráð og Samtök fjármálafyrirtækja hafa stært sig af því að Alþingi hafi farið eftir ótrúlegu háu hlutfalli ábendinga þeirra við breytingar á frumvarpstextum. Breytingar sem við erum í dag jafnvel að súpa seyðið af. Eru það launin fyrir styrkina? Spyr sá sem ekki veit.


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn logar vegna styrkjanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki ráð nema í tíma sé tekið

Það verður að segjast eins og er, að uppbyggingar- og endurreisnarvinnan gengur allt of hægt.  Sumt sem hefði virkar ofboðslega gott í október er orðið að klóri í bakkann núna í apríl.  Ég skil ekki af hverju viðbrögð stjórnvalda eru svona ómarkviss og hæg.  Það er ekki eins og margir kostir séu í stöðunni.

Ég hef undanfarna 8 mánuði eða svo bent á ýmislegt sem mætti gera til að létta undir með heimilum og fyrirtækjum.  Sumt hefur orðið að veruleika seint um síðir, annað hefur ekki hlotið hljómgrunn og síðan eru nokkur atriði sem sumir aðhyllast en aðrir ekki.  Langar mig að rifja upp helstu tillögur mínar.  Ítarlegan lista yfir skrif mín um þessi efni er hægt að sjá í færslunni Undanfari falls og uppbygging: Tenglar á skrif mín frá því 16. febrúar.  En skoðum tillögur mínar í dagsetningaröð:

  1. Eftir að Íbúðalánasjóður bauð upp á frystingu lána þeirra sem sitja uppi með tvö hús, þ.e. hafa keypt/byggt og geta ekki selt, stakk ég upp á því að önnur fjármálafyrirtæki gerðu slíkt hið sama.  Þetta var 27. ágúst 2008 (sjá Bankarnir bjóði upp á frystingu lána).  Þessu var loks hrint í framkvæmd í vikunni.  Það tók sjö og hálfan mánuð að gera það sem var augljóst.
  2. Mikið hefur verið ritað um leiðréttingu lána.  Ég lagði slíka leið til fyrst í færslu 28. september 2008 (sjá Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum) og hef síðan ítrekað þetta í nokkrum færslum, svo sem Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning, Tillögur talsmanns neytenda, Hinn almenni borgari á að blæða og Færa þarf höfuðstól lánanna niður sem allar birtust á síðasta ári og síðan ótal færslur á þessu ári.
  3. Hugmyndir um hækkun vaxtabóta setti í fram 6. október (sjá Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning).  Nú liggur frumvarp fyrir Alþingi sem gengur allt of skammt og er bara plástur á fótbrot, en ekki úrræði sem skipta sköpum.  Ég legg til fjór- til sexföldun vaxtabóta og afnám eignamarka.  Einnig að fólki verði heimilt að taka vexti bílalána inn í vaxtabótaútreikning.
  4. Í sömu færslu legg ég til:
    1. Hækkun bóta almannatrygginga sem nemur verðbólgu ársins.
    2. Afnám skerðingar vegna fjármagnstekna gagnvart lífeyrisbótum (var gert gagnvart úttekt á séreignasparnaði, en það er ekki nóg)
  5. Ég hvet til þess að strax verði farið í að verja störfin í landinu og halda uppi atvinnustiginu í færslunum Að halda uppi atvinnu skiptir sköpum, Mikilvægast að varðveita störfin og Hvar setjum við varnarlínuna? og raunar geng svo langt að greiða fyrirtækjum frekar fyrir að hafa fólk í vinnu, en að greiða fólki fyrir að hafa ekki vinnu.  Hvet ég jafnframt til þess að farið verði í mannaflsfrekar framkvæmdir, svo sem við frágang skjala í skjalasöfnum, viðhaldsvinnu við byggingar ríkisins og umbætur á ferðamannastöðum.
  6. Ég hef tvisvar komið fram með tillögur að aðgerðahópum, fyrst 6.11.2008 (sjá Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum), og hefur einn þeirra komist á koppinn (Velferðarvaktin).  Ég hef síðan ítrekað þetta nokkrum sinnum (sjá Aðgerðaráætlun fyrir Ísland og aftur hér Aðgerðaráætlun fyrir nýtt Ísland).
  7. Í gríni eða kannski frekar ákúru DV með vali á ríkisstjórn alþýðunnar (sjá Ríkisstjórn alþýðunnar í DV) kom ég með nokkra hugmyndir (8.11.2008):
    1. Skipt yrði um Seðlabankastjóra og útlendingur fenginn í starfið. - Búið og gert
    2. Ég lagði líka til að William H. Buiter og fleiri málsmetandi aðilar yrðu fengnir Seðlabankastjóra til aðstoðar.  - Búið og gert
    3. Ég lagði til að efnt yrði til kosninga og þær haldnar 1. mars 2009.  - Búið og gert, þó dagsetningin sé 25. apríl.
    4. Einnig er gerð tillaga að þjóðstjórn/neyðarstjórn sem starfaði fram á haustið 2010.
  8. 10. nóvember spurði ég Þurfum við stjórnarbyltingu?  - Óhætt er að segja:  Búið og gert.
  9. Nú Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð í janúar og þar hef ég beitt mér fyrir aðgerðum.
  10. Ég bendi síðan á í færslu frá 19. janúar að hægt er að nota ýmsar aðgerðir sem boðaðar hafa verið til að bjarga Seðlabankanum til að bjarga heimilunum (sjá Björgunaraðgerðir vegna Seðlabankans geta nýst heimilunum og Tillaga um aðgerðir fyrir heimilin) og síðar bendi ég á að nota megi afskriftir bankanna í sama tilgangi (sjá meðal annars Taka á sig tapið hjá þeim stóru, en hvað með litlu aðilana?, Það er víst hægt að færa lánin niður).  Þetta er í grunninn það sem Framsókn, Tryggvi Þór Herbertsson og Lilja Mósesdóttir hafa öll tekið upp á sína arma og eru útfærslur á hugmyndum mínum í lið 2 að ofan.
  11. 23. janúar geri ég aftur tillögu að þjóðstjórn/neyðarstjórn, en auk þess tillögu að stjórnlagaþingi með meiru (sjá Oft var þörf en nú er nauðsyn).
  12. Ég geri síðan tilraun til að greina vanda heimilanna í færslunni Vandi heimilanna: Tilraun til greiningar.  Þar skoða ég ýmis úrræði og hugmyndir, sumt frá mér komin annað frá öðrum:
    1. Greiðsluaðlögun (upphafleg hugmynd frá Halli Magnússyni) - Búið og gert vegna almennra skulda, veðskuldir ennþá í meðferð þingsins.
    2. Útgreiðsla séreignasparnaðar (veit ekki hver átti fyrstur hugmyndina) - Komið í framkvæmd (Viðbót:  Samkvæmt athugasemd þá segir Jakob Þór Haraldsson að hann hafi fyrst komið fram með þessa hugmynd í ágúst eða september 2008.)
    3. Kúlulán (Guðlaugur Þór kom með þessa hugmynd)
    4. Frysting eða lenging lána (m.a. hugmynd frá mér í ágúst 2008) - komið í framkvæmd
    5. Skilmálabreytingar lána (hugmynd Hagsmunasamtaka heimilanna)
    6. Niðurfærsla og afskriftir höfuðstóls lána (upphafleg hugmynd frá mér í september 2008)
    7. Stöðvun aðfara (krafa Hagsmunasamtaka heimilanna) - komið í framkvæmd
    8. Breyta lögum um nauðungarsölur til að koma í veg fyrir að sýslumenn standi fyrir brunaútsölu. (Krafa HH)
    9. Jafna ábyrgð milli lánatakanda og lánveitanda (krafa HH).
    10. Skuldir takmarkist við það sem sett er að veði (krafa HH).
    11. Skoða áhrif minnkandi neyslu á hagkerfið og velferðarkerfið
    12. Takmarka áhrif einstakra kröfuhafa (með óverulega hagsmuni) til að koma í veg fyrir samninga
  13. Í færslu 13. febrúar velti ég fyrir mér hvort lagalegur grundvöllur er fyrir því að ógilda lánasamninga, þar sem forsendubrestur hafi orðið.  Nokkrir hópar eru þegar að skoða þetta.
  14. Stöðvun nauðungarsölu var komið á með lögum fyrir nokkrum vikum.  Í upphaflega frumvarpinu var gert ráð fyrir að nauðungarsölur yrðu stöðvaðar til 31. ágúst.  Ég kom að þessu máli sem umsagnaraðili fyrir höng Hagsmunasamtaka heimilanna og gerði þar þá tillögu að frestunin yrði til 31. október.  Alþingi féllst á það.
  15. Um miðjan febrúar geri ég tillögu um að það sé hreinlega gefið upp á nýtt (sjá Game over - Gefa þarf upp á nýtt).  Ég var svo sem ekki einn um þá hugmynd á þessum tíma, en henni hefur vissulega vaxtið fiskur um hrygg.
  16. 19. febrúar bendi ég á þá augljósu staðreynd að bHagsmunir heimilanna eru hagsmunir þjóðarinnar.  Nú bíð ég eftir því að stjórnmálamenn átti sig á því.
  17. Ég hef ítrekað hvatt til jafnræði sparnaðarforma, en þar hefur lítið gengið.  600 milljarðar fóru í að bjarga innistæðum í bönkunum og yfir 200 milljarðar í að rétta að nokkru við peningasjóði, en almennir hlutabréfaeigendur, sjóðfélagar í lífeyrissjóðum og fasteignaeigendur eiga að bera tap sitt að fullu.  Hvers vegna á einn aðili að taka á sig milljóna eða tug milljóna tap á eigin fé í fasteign meðan nágranni hans fær milljónir eða tugir milljóna af ótryggðum innistæðum greiddar út?  Mér finnst þetta ekki snúast um að ekki eigi að tryggja innistæðurnar.  Það á að gæta jafnræðis.
  18. Loks vil ég nefna nokkrar tillögur að nýjum lánum.  Landsbankinn heldur greinilega að fólk sé kálhausar.  Ég segi ekki meir.  Stýrivaxtatryggðu lánin þeirra er einn stór brandari og vara ég fólk sterklega við að falla í þá gildru að taka slík lán.  Ég kom því í færslunni Óverðtryggt en samt betur tryggt en verðtryggt! með nokkrar hugmyndir sem eru mun hagstæðari fyrir lántakendur:
    1. Tengja vexti af lánunum við vexti af sparifé.   Nú eru t.d. vextir af almennum sparisjóðsbókum Landsbankans 6,5%, þ.e. 10,5% lægri en stýrivextir.
    2. Haldið verði áfram að bjóða upp á verðtryggð lán, þar sem hækkun höfuðstóls er greidd upp jafnóðum.  Það er alveg sama trix, bara önnur aðferð við tryggingu. 
    3. Að bankinn taki á sig sömu áhættu af verðbólgu og lántakandinn, þ.e. aðilar deili verðbólguáhættunni á milli sín.  Sé verðbólgan 10%, þá greiðir lántakandinn 5% og lánveitandinn tekur á sig 5%. 
    4. Að boðið verði upp á verðtryggð lán með þaki á verðtrygginguna.  Þetta þak verði 4%.  Fari verðbólga umfram 4%, þá falli það sem umfram er niður.  Einnig verið sett þak á nafnvexti lánanna.
    5. Boðið verði upp á lán með breytilegum óverðtryggðum vöxtum.  Lánin eru til langs tíma, en vextir haldast fastir í 3 ár í senn.  Þá er samið um vextina til næstu þriggja ára og jafnframt getur lántakandi greitt lánið upp, þ.e. flutt viðskiptin annað.
    6. Síðan það sem ég vildi allra helst sjá.  Óverðtryggð húsnæðislán með 2% nafnvöxtum.
Nú væri gaman að sjá hvort tvær síðustu ríkisstjórnir hafi verið svona frjóar og ekki síður áhugavert að sjá hvort eitthvað af þessum hugmyndum hafi eða muni rata inn í stefnuskrár flokkanna.

Breyting á vaxtabótum - Allt að 500% hækkun hjá tekjuháum, en 30% hjá tekjulágum!!!

Ég get ekki annað en dáðst af þingmönnum.  Nú er komið nefndarálit vegna frumvarps um breytingar á vaxtabótum.  Ég fór á fund efnahags- og skattanefndar vegna málsins fyrir hönd Hagsmunasamtaka heimilanna og hlustaði þar meðal annars á fulltrúa fjármálaráðuneytisins leggja til breytingu á lögunum, sem hefði haft í för með sér allt að 55% hækkun vaxtabóta til hinna tekjulægri á kostnað þess að fyrr hefði verið skorið á vaxtabætur hinna tekjuhærri.  Hélt fulltrúi fjármálaráðuneytisins því fram að kostnaður ríkissjóðs væri hinn sami, þ.e. 2 milljarðar.

Nú hef ég sem sagt nefndarálitið fyrir framan mig og þar kemur fram að nefndin hafnar hugmynd fjármálaráðuneytisins.  Segir að hún muni kosta of mikið eða heila 4 milljarða.  Já, heila 4 milljarða!  Það er 2% af því sem greitt var inn í peningasjóði bankanna, 0,75% af því sem sett var í að verja innistæður í bönkunum og rétt rúmlega 1,6% af því sem greitt var inn í Seðlabankann.  Já, mikil er rausn þingmanna þegar kemur að heimilum landsins.  Svo má ekki gleyma því að minnst 2 milljarðar af þessari upphæð eiga að koma frá sköttum af útteknum séreignasparnaði.  Það er eins og mönnum sjáist alveg yfir að þessir peningar fara að mikluleiti í neyslu, sem gefur ríkissjóði skatttekjur og fyrirtækjum veltufé.

En þetta er kannski ekki það merkilegasta við nefndarálitið, heldur hitt að nefndi leggur til breytingar á frumvarpinu.  Í álitinu (sjá töflu í fylgiskjali 1) eru áhrif þessara breytinga útlistaðar.  Þar kemur m.a. fram að óbreytt hefði frumvarpið fært hjónum með 5 milljónir og minna í tekjur að hámarki kr. 78.534 í hækkaðar vaxtabætur og hjónum sem eru með 8 milljónir eða meira ekki neitt.  Breytingarnar sem nefndi leggja til valda aftur því að hjón með 7 milljónir eða minna í tekjur fá allt að 94.240 kr. hækkun vaxtabóta eða alls kr. 408.374.  Hinir tekjuhærri, þ.e. með á bilinu 7 - 14 milljónir í árslaun, fá aftur á móti allt að 150.000 kr. hækkun vaxtabóta eða 45.760 kr. meiri hækkun!  Hvers konar rugl er þetta?

Ég get vel skilið að hjón með heimilistekjur upp á 7 - 14 milljónir hafi lent í greiðsluvanda og þurfi einhverjar vaxtabætur til að fylla upp í útgjöldin, en að hjón með 3 milljónir í árstekjur eigi að fá allt að 94.240 kr. hækkun á vaxtabæturnar sínar meðan hjón með 12 milljónir í árstekjur eiga að fá allt að 150.000 kr. hækkun, það skil ég ekki.   Hér hefði átt að snúa hlutunum við.  Þeir tekjulægstu eru í mestum vanda!  Hinir tekjuhærri verða að bjarga sér sjálfir.  Eins og ég segi, þá hef ég fulla samúð með fólki með mikla vaxtabyrði, en menn verða að líta á þær sem hlutfall af tekjum.  Síðan get ég alls ekki skilið, að fyrst 2 milljarðar var svona himinhá upphæð, af hverju þá ekki að beina þeim allri til þeirra tekjulægri?  Mér finnst það skjóta skökku við að vaxtabætur hjóna með 12 milljónir í tekjur eru sexfaldaðar, þ.e. 500% hækkun, meðan hjónin með 3 milljónir fá 30% hækkun.  Er ekki eitthvað öfugsnúið við þetta?

Eitt hef ég aldrei skilið varðandi vaxtabæturnar.  Af hverju er ekki tekið tillit til fjölskyldustærðar við úthlutun þeirra?  Það þykir sjálfsagt að taka tillit til þess þegar einn fullorðinn er á heimili, hvort viðkomandi sé einstætt foreldri.  En þegar kemur að hjónum, þá skiptir engu máli hvort börn séu á heimilinu eða ekki.  Ef nota ætti sama hlutfallsmun milli vaxtabóta til einstæðings og einstæðs foreldris og barnlausra hjóna og hjóna með barn/börn, þá ættu hámarks vaxtabætur hjóna með barn/börn að vera 28,6% hærri en þær eru, þ.e. kr. 525.200 miðað við breytingartillögu nefndarinnar samanborið við 408.374.  Mér finnst þetta vera bara enn eitt atriðið sem sýnir að skattkerfið gerir lítið til að auðvelda kjarnafjölskyldunni lífið.

Nú vísar einhver í barnabæturnar og telur þær bjarga öllu, en þær eru aumkunarverðar.  Hvaða snillingi datt í hug að setja skerðingarmörk barnabóta til einstæðs foreldris við 150.000 kr. á mánuði og hjóna við 300.000 kr. á mánuði?  Sýnið mér það einstætt foreldri sem er það vel statt með 151.000 á mánuði, að það megi við því að barnabætur skerðist.  Ég legg til að því foreldri verði veitt Fálkaorðan.  Það er bara með þetta eins og allt annað í löggjöf þessa lands, að þegar kemur að því að bæta hag heimilanna, þá er allt ómögulegt, en svo er hægt að henda sjöfaldri hækkun vaxtabóta í að klára tónlistahús án þess að blikka auga.  Og svona til viðbótar:  Af hverju hækkar skerðingarhlutfall barnabóta eftir því sem börnunum fjölgar?


Algjörlega fyrirséð

Séu einhverjir hér á landi, sem sáu ekki fyrir mikinn samdrátt í einkaneyslu, þá held ég að það sé rétt að vekja þá.  Hávaxtastefna Seðlabankans, hrun krónunnar og mikil verðbólga hafa gert það að verkum að sífellt stærri hluti ráðstöfunartekna heimilanna fer beint til bankanna.  Meðan ekkert er gert til að létta greiðslubyrðina, þá mun þetta ekki breytast.  Það er sorglegt til þess að vita, að í 13 mánuði hefur almenningur í landinu mátt taka á sig sífellt auknar byrðar vegna efnahagsóstjórnar undanfarinna ára, vegna handónýttrar peningastefnu Seðlabankans og síðast en ekki síst vegna fjárhættuspils og svikastarfsemi bankanna og eigenda þeirra.

Afleiðingarnar af glannaskapnum er að koma í ljós.  16,6% samdráttur veltu dagvöruverslana, 21,6% samdráttur hjá fataverslunum, 54,7% í húsgagnaverslun og 50,6% í raftækjaverslun.   Þetta endar ekki nema á einn veg.  Fyrirtækin leggja upp laupana og störf tapast.  Þá tekur við ennþá meiri samdráttur og svona heldur spírallinn áfram niður á við.

Í hagfræði er til hugtakið sokkinn kostnaður.  Á Vísindavefnum er sokkinn kostnaður útskýrður á eftirfarandi hátt:

Sokkinn kostnaður er allur kostnaður sem fallið hefur til vegna kaupa á vöru eða þjónustu sem ekki er hægt að selja aftur og ekki er hægt að nýta til annars en upphaflega var ætlað. Slíkur kostnaður ætti ekki að hafa áhrif á ákvarðanir í framtíðinni.

Vissulega er ekki hægt að nota hugtakið "sokkinn kostnaður" beint um lán heimila og fyrirtækja, en það má gera það óbeint.  Staðreyndin er nefnilega sú, að stór hluti útlána er tapaður.  Það er því ekki rétt hjá fjármálafyrirtækjum að tala um þann hluta sem eign eða eitthvað sem er endurheimtanlegt. Upphæð þess hluta lánanna, sem er tapaður, ætti því ekki að hafa áhrif á ákvarðanir í framtíðinni.  Fjármálafyrirtækin þurfa að setja alla sína orku í að verja þann hluta sem er ekki tapaður.  Það gera þau best með því að gera núverandi skuldurum kleift að halda áfram að borga af lánunum með því að afskrifa þann hluta sem er í raun tapaður. 

Það skiptir ekki máli hvaða leið fjármálafyrirtækin fara, þ.e. gjaldþrotaleiðina eða afskriftaleiðina, svo og svo stór hluti útlána mun ekki innheimtast!  Þetta gerðu menn sér grein fyrir, þegar gert var frummat á innlendum útlánum þríburanna.  Gert var ráð fyrir að lánasafn Kaupþings rýrnaði um 954 milljarða, lánasöfn Landsbankans um 1.100 milljarða og nýjustu tölur eru að lánasöfn Glitnis verði færð niður um 1.000 milljarða.  Samtals eru þetta rúmlega 3.000 milljarðar.  Ef litið er á þessa 3.000 milljarða sem sokkinn kostnað, þá eiga ákvarðanir bankanna að snúast um að verja hinn hluta lánasafna sinna.  Það verður ekki gert með því að ganga fram af hörku og mergsjúga heimilin í landinu.  Nei, það verður best gert með því að hjálpa heimilunum við að auka neysluna sína.  Með aukinni neyslu eykst geta fyrirtækja til að standa í skilum og að halda uppi atvinnu.  Meiri tekjur einstaklinga og fyrirtækja skila sér í hærri skatttekjum ríkissjóðs og sveitafélaga.  Það er sama hvernig litið er á þetta.  Það er allra hagur að létt sé á greiðslubyrði heimilanna.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa lagt til að sett verði 4% þak á verðbætur frá 1. janúar 2008.  Við köllum þetta sanngjarna leiðréttingu, þar sem það voru fjármálastofnanir þessa lands sem komu okkur í þessa stöðu.  Við höfum einnig lagt til að boðið verði upp á að breyta upphaflegri lánsfjárhæð gengistryggðra lána yfir í verðtryggð lán frá útgáfudegi.  Þau beri óskerta verðtryggingu til 1. janúar 2008, en færist undir 4% þakið eftir það.  Við viljum einnig að 4% þakið haldi áfram út árið 2010 og verði eftir það lækkað í 2,5%.  Við teljum, að verði ekki fljótlega gripið til róttækra aðgerða til að auka við neyslu heimilanna, þá munum við hverfa ofan í hyldýpið.


mbl.is Einkaneysla dregst hratt saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óverðtryggt en samt betur tryggt en verðtryggt!

Ég fagna því að Landsbankinn ætli að bjóða óverðtryggð húsnæðislán, en vil samt vara við því að lánin eru samt á vissan hátt verðtryggð eða a.m.k. vel tryggð.  Stýrivaxtatenging lánanna gerir það nefnilega að verkum, að á þeim eru nær undantekningarlaust raunvextir upp á 3,5 til 9,5%.  Það er nefnilega þannig að frá því í janúar 1994 hafa raunstýrivextir, þ.e. stýrivextir umfram verðbólgu, aðeins 10 sinnum farið undir 2%, 45 sinnum verið á bilinu 2 - 4%, 75 sinnum verið á bilinu 4 - 6%, 39 sinnum verið á bilinu 6 - 8% og 9 sinnum verið hærri en 8%.  Við erum að tala um RAUNSTÝRIVEXTI.  Meðalraunstýrivextir frá janúar 1994 eru 4,70% og miðgildi 4,69%.  Miðað við þetta, þá væru meðalvextir af þessum lánum 6,2% umfram verðbólgu eða talsvert hærri en þegar best lét haustið 2004 og 0,8% hærra en núverandi vextir Íbúðalánasjóðs.  Ef við horfum 5 ár aftur í tímann, þá eru meðalraunstýrivextir 5,1% og meðalgildið 5,28%.

Eins og þetta boð Landsbankans lítur út í mínum augum, þá er þetta bara enn ein leið til verðtryggingar.  Eina leiðin fyrir þessa vexti til að lækka er að verðbólgan lækki.  Munurinn er að verðbótaþátturinn leggst ekki á höfuðstólinn heldur greiðist út á hverjum gjalddaga.  Miðað við 18% stýrivexti og 10 milljón króna eftirstöðvar, þá þýðir það 1.950 þúsund á ári eða 162 þúsund á mánuði í vaxtagreiðslu.

Ég vara fólk við að taka svona láni án þess að liggja vel yfir öllum tölum.

Mig langar að koma með nokkrar hugmyndir að lánum, sem lánastofnanir geta velt fyrir sér að bjóða upp á:

  1. Tengja vexti af lánunum við vexti af sparifé.   Nú eru t.d. vextir af almennum sparisjóðsbókum Landsbankans 6,5%, þ.e. 10,5% lægri en stýrivextir.
  2. Haldið verði áfram að bjóða upp á verðtryggð lán, þar sem hækkun höfuðstóls er greidd upp jafnóðum.  Það er alveg sama trix, bara önnur aðferð við tryggingu. 
  3. Að bankinn taki á sig sömu áhættu af verðbólgu og lántakandinn, þ.e. aðilar deili verðbólguáhættunni á milli sín.  Sé verðbólgan 10%, þá greiðir lántakandinn 5% og lánveitandinn tekur á sig 5%. 
  4. Að boðið verði upp á verðtryggð lán með þaki á verðtrygginguna.  Þetta þak verði 4%.  Fari verðbólga umfram 4%, þá falli það sem umfram er niður.  Einnig verið sett þak á nafnvexti lánanna.
  5. Boðið verði upp á lán með breytilegum óverðtryggðum vöxtum.  Lánin eru til langs tíma, en vextir haldast fastir í 3 ár í senn.  Þá er samið um vextina til næstu þriggja ára og jafnframt getur lántakandi greitt lánið upp, þ.e. flutt viðskiptin annað.
  6. Síðan það sem ég vildi allra helst sjá.  Óverðtryggð húsnæðislán með 2% nafnvöxtum.
Núverandi lánafyrirkomulag er eiginlega aðför að lántakendum og verðbólguhvetjandi.  Viljum við fá stöðugleika í efnahagslífið, þá verða lánveitendur að taka ábyrgð.  Það gengur ekki að Seðlabankinn sé einn um að stjórna peningamálum, ef lánastofnanir fara sínu fram.  Ég held að þurfi lánastofnanir að taka á sig hluta verðbólgunnar, þá breytist útlánastefna þeirra.  Þenslan verður óvinur þeirra, en ekki helsta tekjulind, eins og núna.
mbl.is Landsbankinn býður óverðtryggð íbúðalán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

John Perkins: Efnahagsböðlar

Ég var að hlusta á John Perkins í Silfrinu hjá Agli.  Hann talaði um efnahagsböðla sem fara til landa sem búa yfir miklum auðlindum.  Þar selja þeir ráðamönnum þá hugmynd að fara út í miklar framkvæmdir við t.d. virkjanir eða vegakerfi.  Málið er að íbúar landsins njóta ekki þessara framkvæmda heldur erlendir auðhringar sem byggja stóriðjuver eða nýta vegina til að flytja góðmála frá námum til hafnar.

Mér hryllti nokkuð við þessi orð Perkins, þar sem ég fæ ekki betur séð en að Kárahnjúkastíflan og Fljótsdalsvirkjun séu nákvæmlega dæmi um slíka framkvæmd.  Þjóðin er skuldsett upp á meira en 100 milljarða fyrir einn aðila, sem þannig hefur í reynd fjöregg þjóðarinnar í höndum sér.  Afrakstur þjóðarinnar er lítill sem enginn. 

Ekki það, að þetta komi mér á óvart, þar sem þetta var niðurstaða lokaverkefnis míns við Stanford háskóla árið 1988.  Bara það hve rétt niðurstaða mín var og að heyra mann, eins og John Perkins, taka svona gjörsamlega undir niðurstöðu mína 21 ári síðar, var það sem gaf mér þennan hroll.

Hér er stubbur úr grein sem ég skrifaði árið 2000 til að mótmæla Fljótsdalsvirkjun hinni fyrri:

Ekki eru allir sammála því að hagnaður verði af þessu brölti. Nýlega birtist í Frjálsri verslun grein eftir Sigurð Jóhannesson, hagfræðing, þar sem hann kemst að þeirri niðurstöðu að 13 milljarða króna tap verði af Fljótsdalsvirkjun. Í útreikningum sínum notar Sigurður tölur úr ársreikningum Landsvirkjunar og setur sér ákveðnar arðsemiskröfur og gengur út frá tilteknu raforkuverði til stóriðju. Líkt og Landsvirkjun tekur hann ekki inn í útreikninga sína kostnað eða tekjutap vegna landsgæða sem tapast. Landsvirkjun hefur mótmælt niðurstöðum Sigurðar. Forstjóri Landsvirkjunar þorir að vísu ekki að segja annað en að Sigurður reikni rétt en noti bara vitlausar forsendur.

Guðmundur Ólafsson hagfræðingur kemst að líkri niðurstöðu í útreikningum sem hann birtir á heimasíðu sinni. Hann segir í viðtali við Morgunblaðið 16. desember að hann hafi byrjað útreikninga sína með það í huga að Fljótsdalsvirkjun væri arðbær, en honum til mikillar furðu varð niðurstaðan á allt annan veg.

Ég var mjög glaður að sjá skrif Sigurðar og Guðmundar vegna þess að fyrir 12 árum komst ég að sambærilegri niðurstöðu, þ.e. að raforkusala frá Fljótsdalsvirkjun til stóriðju borgar sig ekki. Á þeim árum var ég við nám við Stanford háskóla í Kaliforníu í fræðum sem heita aðgerðarannsóknir (operations reserach). Lokaverkefni mitt var reiknilíkan sem var ætlað að líkja eftir virkjanakerfi landsins. Líkanið tók á samspili framboðs og eftirspurnar á raforku og áhrif þess á raforkuverð. Í heilt ár velti ég fyrir mér öllu mögulegu og ómögulegu varðandi áform Landsvirkjunar. Á þeim árum var verið að virkja Blöndu og hafði hún verið tekin fram yfir Fljótsdalsvirkjun í mikilli óþökk við Austfirðinga. Búið var að fullhanna virkjanir kenndar við Sultartanga, Fljótsdal, Vatnsfell og Villingarnes, stækkun á Búrfellsvirkjun og fimm stig Kvíslaveitna. Einnig voru vangaveltur um útflutning á raforku um sæstreng og umfangsmikla uppbyggingu orkufreksiðnaðar. Allar upplýsingar um stofnkostnað, rekstrarkostnað, raforkuverð, rennsli fallvatna, burðargetu raforkukerfisins og spár um raforkunotkun voru fengnar frá Landsvirkjun og Orkustofnun. Ég gat því tekið inn í líkanið allar helstu stærðir sem þurfti til að reikna út hagkvæmni og arðsemi virkjananna, þó svo að það hafi ekki verið aðalmarkmiðið heldur að finna út hagkvæmustu virkjunarröð. Ég hafði mér til ráðgjafar prófessor Allan Manne við Stanford háskóla, sem hefur meðal annars verið ráðgjafi Alþjóðabankans í orkumálum sem og ríkisstjórna víða um heim.

Meginforsendur líkans míns, fyrir utan ofangreindar tölulegar upplýsingar og spár, voru að raforkuverð ákvarðaðist af langtímajaðarkostnaði afls (MW) og orku (GW stundir) og að það verð sem kaupendur voru tilbúnir greiða liti sambærilegri verðteygni og viðgekkst í Noregi á þessum árum. Verðteygni lýsir vilja orkukaupandans að greiða uppsett verð þó forsendur breytast hjá honum. Þannig er í flestum samningum við stóriðju sett inn ákvæði um að raforkuverð breytist með heimsmarkaðsverði á afurðum. Út úr þessu öllu kom það sem heitir ólínulegt bestunarlíkan sem túlkaði tengsl framboðs og eftirspurnar á þremur tímapunktum, þ.e. 1995, 2005 og 2015, miðað við ólíkar spár um orkueftirspurn og röð virkjana.

Niðurstöður útreikninga minna komu mér virkilega á óvart. Mér hafði alltaf fundist sjálfgefið að virkjanir væru með því hagkvæmasta sem við Íslendingar leggðum fyrir okkur. Líkan mitt sýndi því miður að ýmsar nýjar virkjanir reyndust vera á mörkunum að borga sig. Kvað svo rammt við, að oft sýndi líkanið að eini hagur ríkisins af virkjunum og stóriðjuverum tengdum þeim væru skattar starfsmanna og uppsöfnunaráhrif vegna launa þeirra. Tekið skal fram að líkan mitt reyndi ekki að taka á uppsöfnunaráhrifum vegna þjónustu við stóriðjuverin. Ein af þeim virkjunum sem fékk falleinkunn var Fljótsdalsvirkjun.

 

Ég hef svo sem oft birt þessa tilvitun, en ekki datt mér í hug að það myndi taka yfir 20 ár að heyra annan aðila viðra sömu skoðun. Ekki það að ég er vanur því að fólk taki smá tíma að skilja mig, en það hefst að lokum.Grin


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 5
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 48
  • Frá upphafi: 1678243

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 45
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband