Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Lífseigur misskilningur að allt sé bankamönnum að kenna

Hún er alveg furðulegur þessi söguskýring forsætisráðherra, að staðan í efnahagsmálum þjóðarinnar sé íslenskum bankamönnum einum að kenna.  Efnahagsvandi þjóðarinnar er meira og minna stöðu krónunnar og háu stýrivaxtarstigi að kenna.  Nýlega sett gjaldeyrishöft koma t.d. íslenskum bankamönnum lítið við.  Háir stýrivextir og sterk króna drógu hingað til lands erlenda fjárfesta sem efndu til vaxtaskiptasamninga.  Alls flæddu hátt í 1.000 milljarðar inn í hagkerfið vegna þessa í formi jöklabréfa og kaupa á ríkisskuldabréfum.  Hvernig ætlar Geir að klína þessu öllu á íslenska bankamenn, nema hann sé náttúrulega að tala um seðlabankamenn líka?  Seðlabankinn opnaði fyrir þetta innflæði með peningamálastefnu sinni.

Vandi almennings í dag er ekki fall bankanna.  Vandi almennings er fall krónunnar og háir vextir.  Þessi vandi er búinn að vera viðvarandi allt þetta ár og raunar mun lengur.  Stýrivaxtastefna Seðlabankans hefur alltaf gengið út á að viðhalda vaxtamun milli Íslands og annarra landa.  Menn hafa verið að rembast eins og rjúpan við staur að halda stýrivöxtum háum, þegar stærsti hluti vaxta í landinu er óháður stýrivöxtum.  Það er þessi stefna og verðtryggingarkerfið sem er allt lifandi að drepa.  Fall bankanna er fyrst og fremst að bitna á fjármagnseigendum, sem hingað til hafa verið varðir með belti og axlaböndum.  Vandi almennings er hækkun skulda vegna hárra vaxta og falls krónunnar.  Vissulega eru þeir sem áttu pening í banka að tapa miklu, en það erum við líka að gera sem eigum peningana okkar í steinsteypu.  Hver er munurinn að tapa 10 milljónum á sparireikningi í banka og tapa 10 milljónum af eigin fé í fasteign vegna hækkandi lána eða lækkandi fasteignaverðs?  Ég sé ekki muninn.  En það þykir sjálfsagt að leggja 200 milljarða í peningasjóði bankanna og innistæður í bönkum.  Hvar eru aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að verja eigið fé almennings í húsnæði þess?  Og hvað með lífeyrissparnað, að maður tali nú ekki um séreignalífeyrir?  Viðskiptaráðherra lofaði því á sínum tíma að lífeyrissparnaður landsmanna verði varinn.  En þetta er bara eins og með loforð hans um að enginn bankamaður myndi missa vinnuna.  Hann lofar upp í ermina á sér við öll tækifæri.

Það tapa allir í því ástandi sem nú er í þjóðfélaginu.  Sumir tapa út af falli bankanna, aðrir vegna verðbólgunnar eða falli krónunnar, einhver hópur tapar vegna lækkunar húsnæðisverðs, margir lækka í launum eða missa vinnuna.  Það sem þarf að gera er að meta möguleika fólks og fyrirtækja til að vinna upp tap sitt.  Eru einhverjir sem ekki geta unnið upp tap sitt?  Hvað tekur það aðra langan tíma að vinna upp tap sitt?  Hve mikið af þessu tapi er pappírstap á pappírsgróða?  Hugsanlega þarf að bæta einhverjum tjónið með endurgreiðslu skatta sem þeir voru búnir að greiða af pappírshagnaðinum.

Þar sem allir eru meira og minna að tapa einhverju, þá er það sanngjarnt að björgunaraðgerðir nái til allra.  Ég vil gjarnan sjá 200 milljarða, ef ekki meira í að lækka skuldabyrði lántakenda og þá er ég ekki bara að tala um þá sem tóku húsnæðislán.  Sá sem tók bílalán fyrir tveimur árum er alveg jafnmikið fórnarlamb aðstæðna og sá sem tók íbúðarlán á sama tíma.  En fólk og fyrirtæki þurfa samt að bera hluta tapsins í bili.  Vonandi verður þetta bara tímabundið tap, en hvort það taki eitt ár, 5 eða 10 að vinnu tapið upp, það verður bara að fá að koma í ljós.


mbl.is Geir: Tel mig ekki persónulega ábyrgan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjaldeyrislögin - skynsemi eða afleikur?

Lögin sem sett voru í skjóli nætur sl. nótt komu mér ekkert á óvart.  Þetta mátti lesa í þeim fátæklegu upplýsingum sem þó höfðu lekið út til almennings varðandi samning Íslands við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.  Samkvæmt þeim upplýsingum, þá átti að beita gjaldeyrishöftum til að koma í veg fyrir kollsteypingu krónunnar.  Þessi sömu rök koma fram í málflutningi Seðlabankans og flutningsmanna frumvarpsins.

Það eru augljóslega tvær hliðar á þessu máli.  Önnur snýr að því að koma í veg fyrir kollsteypingu krónunnar, sem gæti leitt til yfir 30% verðbólgu hér á landi í febrúar og mars.  Hin snýr að því að nýta lán AGS eins vel og hægt er.  Gefum okkur að útlendingum verði leyft að færa fjármuni sína úr landi á einhverju takmörkuðum tíma upp úr áramótum.  Mundu þeir vilja það og hvaða áhrif hefði það á gengi krónunnar.  Það er sagt að um 400 milljarða sé að ræða í jöklabréfum og 250 milljarða í viðbót í ríkisskuldabréfum.  Þetta eru gríðarlega háar upphæðir og Seðlabankinn á líklegast ekki slíka fjárhæð í gjaldeyri.  Þá má búast við að annað af tvennu gerist: 

A.  Hinir erlendu aðilar greiða hvað sem er fyrir gjaldeyri.  Krónan snarlækkar og Seðlabankinn selur gjaldeyri á ákaflega hagstæðu gengi.  Hagnaður Seðlabankans gæti hlaupið á hundruðum milljarða.  Afleiðingin fyrir innflytjendur eru hörmulegar og verðbólgan gæti farið í hæstu hæðir.  Útflytjendur hagnast aftur vel á þessu.  Það sama á við aðila sem selja erlendar eignir og flytja peninginn heim meðan á þessu stendur.  Gengistryggð lán fara náttúrulega fjandans til eða þannig.

B.  Hinir erlendu aðilar halda að sér höndum, þar sem þeir sjá að það er glapræði að greiða hvað sem er fyrir gjaldeyrinn og þannig í raun fórna stórum hluta eigna sinna.  Það er nefnilega þessu aðilum í hag að krónan styrkist, þannig að þeir greiða færri krónur fyrir hverja evru eða dollar. Bjóðum þeim því að ávaxta fé sitt áfram hér og gefum þeim kost á að taka þátt í uppbyggingunni.

Spurningin er hvort hægt væri að búa til stuttan glugga, þar sem þeir sem vildu gætu flutt peningana sína úr landi.  Segjum sem svo að á tveggja vikna tímabili upp úr áramótum væri gjaldeyrismarkaðurinn opnaður upp á gátt fyrir fjármagnsflutningi úr landi, en síðan yrði skellt í lás í allt að 2 ár.  Gefum okkur að gengisvísitalan færi þennan hálfa mánuð upp í 350.  Dollarinn og evran hækkuðu meira en aðrir gjaldmiðlar, t.d. að dollarinn færi í 280 kr. og evran í 330 kr.  Gefum okkur líka að menn vildu færa 400 milljarða úr landi, helminginn í dollurum og hinn helminginn í evrum.  Á genginu 280 væru 200 milljarðar jafngildi 714 milljóna dollara og 606 milljóna evra samanborið við tvöfaldar þessar upphæðir í dag.  Það vill svo til að Seðlabankinn á þessar upphæðir annars vegar í gjaldeyrisvarasjóði sínu og hins vegar í láninu frá AGS.  Á einu bretti gæti Seðlabankinn hagnast sem nemur tvöföldu láni AGS.  Þetta hefði líklegast líka í för með sér að útflytjendur myndu hraða sér að færa eins mikinn gjaldeyri til landsins og þeir frekast gætu.  Þeir sem skulda í erlendri mynt þyrftu náttúrulega að passa sig á því að greiða ekki skuldir sínar meðan á þessu stendur.  Þetta kæmi sér örugglega illa við einhverja og þá sérstaklega við námsmenn í útlöndum.  Það má örugglega finna leiðir til að lina þær þjáningar.

Mín hugmynd er að meðhöndla jöklabréfin eins og slæmt kýli.  Lausnin er að stinga á það og láta sorann sprautast út.  Ég er nefnilega nokkuð viss um, að íslenska krónan mun ekki ná sér almennilega á strik fyrr en jöklabréfin eru farin út úr kerfinu.  Með því að velja réttan tíma í aðgerðina, þá væri hægt að komast hjá því að afleiðingarnar yrðu slæmar fyrir þjóðarbúið.  Þetta þyrfti ekki að fara inn í verðbólguna, ef glugginn er stuttur, og með því að gera þetta strax fyrstu dagana eftir áramót, þá hefur þetta ekki áhrif á áramótagengið (sem verður alveg nógu slæmt).  Það þyrfti náttúrulega að gefa þeim sem vildu kost á að losa jöklabréfin sín og það gæti kostað viðkomandi einhver afföll, ef þau eru ekki akkúrat á gjalddaga.  Mörgum er alveg sama.  Þeir eru í "damage control" og þá taka menn skellinn frekar en að eiga á hættu að tapa meira síðar.  Aðrir sjá hag sinn í því að fjárfesta lengur á Íslandi og það yrði að vera hin hliðin á þessu.

Skoðum hana nánar:  Hin hliðin er, að stofnaður yrði endurreisnarsjóður sem erlendum eigendum jöklabréfanna og ríkisskuldabréfa væri gefinn kostur á að setja peningana sína í. Markmið sjóðsins væri að leggja fjármagn í innlend fyrirtæki og atvinnustarfsemi.  Sjóðurinn veitti lán á lágum vöxtum, en um leið og lánin væru endurgreidd, þá gætu hinir erlendu aðilar fært greiðsluna úr landi.  Það verður því ekki í formi vaxtanna sem þeir hagnast, heldur með styrkingu krónunnar.  Eftir því sem krónan er sterkari greiða þeir minna fyrir evruna eða dollarann. Ég hef svo sem heyrt það nefnt í fjölmiðlum að menn hafi áhuga á þessu.  Við skulum ekki bara bíða eftir þeim.  Tökum frumkvæðið og bjóðum þeim til samstarfs.

Það getur vel verið að þessi hugmynd sé algjör fásinna, bull og vitleysa.  Allt í lagi, ég get alveg tekið því.  Þetta er bara hugmynd og það kostar ekkert að setja hana fram.


mbl.is Frumvarpið vottur um uppgjöf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar setjum við varnarlínuna?

Skyndilega er afrakstur vinnu ríkisstjórnarinnar síðustu vikurnar að koma fram.  Ekki get ég sagt að ég sé sáttur við allt sem þar kemur fram, en annað er gott.  Mér finnst eins og í sumum þáttum sé ekki alveg ljóst hvar menn ætli að staðsetja varnarlínuna eða að hún sé staðsett of aftarlega.

Að undanförnu hefur oft verið vísað til þeirrar myndlíkingar, að íslenska hagkerfið hafi fengið 14-2 rassskellingu í fótboltaleik og nú sé verið að stilla upp liði fyrir næsta leik.  Mörgum finnst rétt að skipt verði um þjálfara, fyrirliða og einhverja liðsmenn.  Þessu hefur verið hafnað af ríkisstjórninni og því mun sama liði verða stillt upp í næsta leik.  Þar sem ég þekki nokkuð til leikfræði í fótbolta, þá langar mig að leggja til að ekki bara í næsta leik, heldur næstu leikjum, verði lögð höfuð áhersla á vörnina.  Það er nefnilega þannig, að fái maður ekki á sig mark, þá þarf aðeins að skora eitt til að vinna.

Hægt er að færa þessa myndlíkingu yfir á fjölmargt í íslensku þjóðfélagi.  En tvennt skiptir að mínu mati mestu máli.  Annað er að halda fyrirtækjum landsins gangandi og þar með varðveita störfin í landinu og hitt er að tryggja hag heimilanna.  Mér finnst ríkisstjórnin vera að ná einhverjum árangri varðandi hag heimilanna, en samt eru einhverjir boltar að leka inn.  Betur má ef duga skal.  Skoðum þó fyrst fyrirtækin, þar sem staða þeirra leggur grunninn að stöðu heimilanna.

Gagnvart fyrirtækjunum skiptir þrennt höfuð máli.  Fyrsta er að útvega fyrirtækjunum rekstrarfé, annað að tryggja þeim aðföng og það þriðja er að þau geti haldið fólki í vinnu.  Við skulum vona, að lán AGS hjálpi til við tvennt það fyrra, en viðbrögð stjórnvalda getur hjálpað til við það þriðja.  Hvert starf sem tapast þýðir að vinna verður upp eitt starf.  Þetta er eins og með mörkin.  Fyrir hvert mark sem lið fær á sig þarf það að skora eitt til að halda jöfnu.  Þar sem sóknarfæri eru fá í augnablikinu, þá segir skynsemin mér, að best sé að verja hvert einasta starf eins og kostur er.  Það á ekki að vera ásættanlegur kostur að störf glatist.  Þar vil ég setja varnarlínuna.

Margt vinnst með því að verja störfin.  Vinnandi fólk hefur atvinnutekjur, það greiðir skatta, það verður síður veikt, það missir síður trú á sjálfan sig, það heldur reisn sinni, það hefur tekjur til að framfleyta sér og sínum.  Vinnandi fólk hefur meiri möguleika á að standa í skilum við lánastofnanir og hefur almennt meira á milli handanna til að skapa veltu í þjóðfélaginu.  Fyrirtækin halda starfsmönnum í verðmætasköpun eða við að veita þjónustu.  Verðmæt þekking helst innan fyrirtækjanna og þar með viðskiptatengsl, en þau byggja mjög oft á persónulegum samskiptum.  Svo má ekki gleyma öllum afleiddu störfunum.  Fyrirtæki sem minnkar um 30%, þarf að öllum líkindum 30% minna af aðkeyptri þjónustu.  Mér finnst því nauðsynlegt að líta svo á að hvert einasta tapað starf feli í sér ósigur í baráttunni við kreppuna.  Hvert tapað starf felur í sér að við þurfum að vinna upp þetta starf annars staðar eða síðar.  Hvert tapað starf hefur í för með sér að nýr aðili bætist á atvinnuleysisskrá og á rétt á bótum frá ríkinu.  Hvert tapað starf eykur útgjöld ríkisins og minnkar tekjur í formi lægri skatta.  Hvert tapað starf gerir einni fjölskyldu í viðbót erfiðara um vik að ná endum saman.

Þá komum við að heimilunum.  Hagur heimilanna verður helst tryggður með því að verja innkomu þeirra.  Afkoma ræðst af tekjum og útgjöldum.  Ef tekjurnar skerðast, þá minnka líkurnar á því að þær dugi fyrir útgjöldum.  Lægri tekjur þýða minni velta í verslunum og meiri líkur á því að lán verði ekki greidd.

Talið er að undirmálslánakreppan í Bandaríkjunum hafi orðið jafn djúp og raun ber vitni, vegna þess að lántakendur gengu þvert á viðteknar venjur.  Menn hafa alltaf gengið út frá því að hvað sem á gengi, þá greiddi fólk af íbúðarlánunum sínum.  Þetta brást og þar með hrundi spilaborgin.  Grunnforsenda lánanna, að íbúðarlán yrðu alltaf í forgangi, gekk ekki eftir.  Hætta er á að þetta endurtaki sig hér á landi.  Það gerir það örugglega, ef fólk þarf að velja á milli þess að eiga fyrir mat eða greiða af ÍLS láni.  Þess vegna verður að koma í veg fyrir að innkoma heimilanna skerðist of mikið. 

Búið er að grípa til aðgerða sem lækkar greiðslubyrði lána til skamms tíma, en slík aðgerð má síns lítið, ef tekjustreymið dregst saman.  Af þeim sökum þarf að gera allt til að viðhalda tekjustreyminu.  Besta leiðin til þess er að verja störf fólksins.  Því segi ég enn og aftur, setjum varnarlínuna við að halda í störfin með öllum tiltækum ráðum.  Ég geri mér grein fyrir að við björgum ekki öllum störfum, en fyrir hvert starf sem bjargast er einu færra að vinna upp.

Svona í lokin, þá lýst mér vel á tillögur Skógræktarinnar um atvinnusköpun.  Ég hef bent á að ráðast megi á skjalastafla Þjóðskjalasafns og héraðsskjalasafna.  Einnig mætti snúa sér að því að laga aðstöðu á ferðamannastöðum, en hún er víða fyrir neðan allar hellur.  Síðan vil ég einu sinni sem oftar minna á síðu Kjartans Péturs Sigurðssonar, ljósmyndara og leiðsögumanns, photo.blog.is, þar sem Kjartan veltir fyrir sér hvernig stórauka megi verðmætasköpun í landinu.  Hvet ég alla sem ekki hafa kynnt sér efni síðunnar að skoða hana. 


Villandi, ef ekki rangur fréttaflutningur

Mér þykir ástandið í þjóðfélaginu alveg nógu klikkað og alvarlegt, þó svo að fjölmiðlar snúi ekki út úr upplýsingum á þann hátt sem hér um ræðir.  Fyrirsögnin "Útlánin jukust um 3.500 milljarða á einu ári" er villandi, ef ekki beinlínis röng.

Það er rétt að andvirði útlánasafns bankanna hækkaði um 3.500 milljarða miðað við þær upplýsingar sem koma fram í fréttinni.  Þegar betur er að gáð (og Morgunblaðið greinir skilvíslega frá), þá er ástæða fyrir 2.200 milljörðum breytingar á gengi krónunnar og verðbólga.  Höfuðstóll fyrirliggjandi lána hækkaði af þessum sökum, en ekki er fyrir nýjum útlánum að fara.  Útlánin jukust ekki, heldur varð breyting á höfuðstóli.  Útlán aukast ekki nema nýtt lán sé veitt eða eldra láni er skuldbreytt til hækkunar.

Til þess að svona samanburður sé marktækur, þá verður að gera hann á föstu gengi og á fastri vísitölu.  Morgunblaðið reynir það að hluta og segir að þegar tekið hefur verið tillit til gengisbreytinga, þá sé raunhækkun 1.300 milljarðar króna.  Hér er aftur fetað út á hálan ís.  Er verið að tala um raunhækkun út frá nýjum lánum, sem ekki voru áður til staðar eða raunhækkun sem hækkun umfram það sem hægt er að skýra út frá gengisþróun?  Í okkar verðbólguþjóðfélagi, þá er hugtakið raunhækkun notað um hækkun umfram verðbólgu.  Verðbólga var nálægt 15% frá miðju ári 2007 fram á mitt ár 2008 (ágúst til ágúst).  Nú er bara spurningin hvað stór hluti þessara 1.300 milljarða er umfram verðbólguhækkun útlánasafnsins.

Niðurstaða mín er að Morgunblaðið setur fram í þessum stutta stúf á mbl.is tvær villandi, ef ekki rangar staðhæfingar.  Hin fyrri, sem síðan er leiðrétt í fréttinni, er að útlánin hafi aukist um 3.500 milljarða.  Sú síðari er að raunhækkun hafi verið um 1.300 milljarða.  Hvorugt stenst skoðun.

Síðan skil ég ekki hvers vegna eftirfarandi setningu er skotið inn í frétt mbl.is:

Á tímabilinu var mikil lausafjárkreppa í heiminum og margar lánalínur bankanna höfðu þegar lokast.

Er þarna verið að skýra hækkun andvirði útlánasafnanna eða er verið að skýra út af hverju þau hækkuðu ekki meira?


mbl.is Útlánin jukust um 3.500 milljarða á einu ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðgerðaráætlun fyrir Ísland

Út um allt þjóðfélagið hafa verið mótaðir hópar, þar sem fólk er að ræða hvað þarf að gera til að koma þjóðfélaginu á skrið aftur.  Eitt glæsilegasta framtakið af þessu er í mínum huga síða Kjartans Péturs Sigurðssonar, ljósmyndara og leiðsögumanns, photo.blog.is, þar sem Kjartan veltir fyrir sér hvernig stórauka megi verðmætasköpun í landinu.  Hvet ég alla sem ekki hafa kynnt sér efni síðunnar að skoða hana.  Ekki síst vil ég hvetja þá ráðamenn þjóðarinnar, sem vilja láta taka sig alvarlega að skoða efni hennar.

Á laugardaginn var ég á vinnuráðstefnu hjá Félagi viðskiptafræðinga og hagfræðinga um aðgerðir fyrir Ísland.  Þar kom saman hópur áhugafólks og velti fyrir sér lausnum á efnahagsvandanum út frá sýn til peninga-, gjaldmiðils- og alþjóðamála, aðrir ræddu endurbyggingu bankanna og eignarhald þeirra, ég var í hópi þar sem fólk var að skoða hvernig skapa mætti fleiri störf og þannig afla þjóðinni meiri gjaldeyris og hugaði einn hópur að líðan þjóðarinnar.  Þarna komu fram margar góðar sem verða kynntar á næstunni.

Sjálfur hef ég birt tillögur að aðgerðahópum, sem þarft væri að setja í gang.  Birti ég þá í færslu hér um daginn, en góð vísa er aldrei of oft kveðin, þannig að ég endurbirti þessa tillögu mína hér.

  1. Fjármálaumhverfi: Verkefnið að fara yfir og endurskoða allt regluumhverfi fjármálamarkaðarins.
  2. Bankahrunið og afleiðingar þess:  Verkefnið að fara yfir aðdraganda bankahrunsins svo hægt sé að læra af reynslunni og draga menn til ábyrgða.
  3. Atvinnumál:  Verkefnið að tryggja eins hátt atvinnustig í landinu og hægt er á komandi mánuðum.
  4. Húsnæðismál:  Verkefnið að finna leiðir til að koma veltu á fasteignamarkaði aftur á stað.
  5. Skuldir heimilanna:  Verkefnið að finna leiðir til að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot heimilanna í landinu.
  6. Ímynd Íslands:  Verkefnið að endurreisa ímynd Íslands á alþjóðavettvangi.
  7. Félagslegir þættir:  Verkefnið að byggja upp félagslega innviði landsins.
  8. Ríkisfjármál: Verkefnið að móta hugmyndir um hvernig rétta má af stöðu ríkissjóðs.
  9. Peningamál: Verkefnið að fara ofan í peningamálastefnu Seðlabanka Íslands, endurskoða hana eftir þörfum og hrinda í framkvæmd breyttri stefnu með það að markmiði endurreisa traust umheimsins á Seðlabanka Íslands
  10. Gengismál:  Verkefnið að skoða möguleika í gengismálum og leggja fram tillögur um framtíðartilhögun.
  11. Verðbólga og verðbætur:  Verkefnið að fara yfir fyrirkomulag þessara mála og leggja til umbætur sem gætu stuðlað að auknum stöðugleika.
  12. Framtíð Íslands - Á hverju ætlum við að lifa: Verkefnið að móta framtíðarsýn fyrir Ísland varðandi nýja atvinnuvegi.
  13. Framtíð Íslands - Hvernig þjóðfélag viljum við:  Verkefnið að móta framtíðarsýn fyrir Ísland varðandi inniviði þjóðfélagsins.

Einn þessara hópa er í burðarliðunum hjá hópi fólks sem telur rétt að taka málin í sínar hendur.  Það er hópurinn um skuldir heimilanna.  Haft var samband við mig fyrr í gær og óskað eftir þátttöku minni í hópnum, þar sem nota á hugmynd mína um niðurfærslu höfuðstóls lána sem grunninn að vinnu þessa hóps.

Ég held að við getum ekki beðið mikið lengur með að koma með aðgerðaráætlun fyrir almenning í landinu, ef sýn Spaugstofumanni á laugardaginn á ekki að verða að veruleika.  Almenningur bíður eftir áætlunum frá stjórnvöldum um hvað á að gera.  Þá er ég að tala um áætlanir sem greiða úr þeim vanda sem almenningur stendur frammi fyrir. Þær tillögur sem hingað til hafa komið, hafa einblínt á að auka skuldir fólks og tryggja því atvinnuleysisbætur.  Ég get ekki séð að þetta sé það sem fólkið í landinu vill.  Ég fyrir mína parta vil sjá að tekjur mínar dugi fyrir útgjöldum.  Ég vil sjá að fyrirtækjum verði gert kleift að halda fólki í vinnu og að rekstur þeirra breytist ekki of mikið.  Ég vil sjá að rekstrargrundvöllur fyrirtækja og heimila í landinu verði styrktur, þannig að þjóðfélagið dafni en grotni ekki niður.  Ég vil sjá hið opinbera fara út í mannaflsfrek verkefni, þó svo að það kosti pening.  Ég vil sjá hið opinbera viðhalda þjónustustigi sínu, en ekki samdrátt.  Mér finnst sorglegt að ríkisstjórn sem stýrt er af hagfræðingi skuli ætla að skera niður útgjöld og umsvif í niðursveiflunni í staðinn fyrir að fylgja þeirri algildu hagfræðikenningu, að hið opinbera á auka umsvif sín í samdrætti. Ég hef kallað eftir því farið sé í endurreisn íslenska þjóðfélagsins, en ekki aukið á samdráttinn með niðurskurði.  Það besta sem hægt er að hugsa sér fyrir samfélagið, er að tekjur fólks aukist, að sem flestir borgi skatta, að framleiðsla aukist, að útflutningur aukist.  Þetta er grunnurinn að nýju Íslandi og þennan grunn er hægt að leggja strax.  Við þurfum öll að leggjast á árarnar svo að þetta megi verða. 

Ef núverandi ríkisstjórn er ekki tilbúin að hlusta á fólkið í landinu og fara þessa leið með okkur, þá verður hún að víkja.  Ef núverandi ríkisstjórn hefur ekki betri tillögur fram að færa en að hækka álögur og aukna skuldasöfnun heimilanna, þá verður hún að víkja.  Ef núverandi ríkisstjórn ætlar að fórna hagsmunum almennings, þá verður hún að víkja.  Ef núverandi ríkisstjórn hefur engin úrræði fyrir atvinnulífið í landinu önnur en fjöldauppsagnir og gjaldþrot, þá verður hún að víkja.

Ég hef líst þeirri skoðun minni áður, að boða eigi til kosninga í vor.  Þá eigi að kjósa þing, en jafnframt að setja eigi á fót utanþingsstjórn.  Verkefni þingsins verði aftur að fara í ítarlega skoðun á lagasafninu (með hjálp færustu sérfræðinga).  Þessi skoðun eigi m.a. að hafa það að markmiði að endurskoða alla löggjöf sem við höfum innleitt vegna EES.  Eitt af því sem þarf að gera, er að framkvæma áhættu- og kostnaðarmat á þessum lögum og öðrum lögum sem gætu stefnt þjóðarhag í hættu.  Það er líka mín tillaga, að stofnuð verð ný fastanefnd á Alþingi, laganefnd.  Hennar hlutverk verði m.a. að framkvæma (með aðstoð færustu sérfræðinga) slíkt áhættu- og kostnaðarmat á öllum frumvörpum sem lögð eru fyrir Alþingi.  Verkefni hennar verði einnig að fara yfir öll frumvörp sem koma frá ríkisstjórninni, ekki til að stoppa þau af, heldur til að tryggja að hjá Alþingi verði til skilningur á frumvarpinu áður en það er lagt fram, en ekki eftir að það er samþykkt.

Formaður Samfylkingarinnar lýsti því yfir á laugardaginn að áfallastjórnun væri lokið.  Ég mótmælti þessari staðhæfingu hennar í færslu hér sama dag.  Ég vil ítreka mótmæli mín. Sá sem heldur því fram að áfallastjórnuninni sé lokið hefur ekki mikinn skilning á því viðfangsefnum sem við er að glíma og hefur ekki mikinn skilning á áfallastjórnun.  Ég segi viðfangsefni, þar sem ég vil frekar líta á þetta sem viðfangsefni en vandamál.  Og þau eru mörg og flókin, svo sem að styrkja stöðu heimilanna, að halda fyrirtækjum landsins gangandi, að tryggja aðföng til framleiðslufyrirtækja, að koma í veg fyrir að fólk missi störf sín, að koma hjólum fasteignamarkaðarins af stað, að endurreisa traust Íslands erlendis, að gera upp skuldir gömlu bankanna.  Ef við förum ekki að takast á við þessi viðfangsefni og önnur fyrirliggjandi, þá fjölgar þeim bara.  Þau eru nógu flókin núna og erfið viðureignar, þó svo að við látum ekki aðgerðarleysi gera illt verra.


Mikilvægast að varðveita störfin

Ég var að hlusta á Sjálfstætt fólk Jóns Ársæls, þar sem hann fékk nokkuð mikinn aðgang að forsætisráðherra þjóðarinnar.  Það var fjölmargt áhugavert í viðtalinu og gaman að sjá Geir í þessu ljósi í stað þess atgangs sem hefur verið í kringum hann undanfarnar vikur.

Það var tvennt í þessu viðtali, sem mig langar að minnast á.  Hið fyrra eru ummæli aðstoðarkonu hans að Geir kunni ekki að segja ósatt.  Það er alveg með ólíkindum að manneskjan segi þetta, þar sem blessaður maðurinn er búinn að vera að ljúga þjóðina svo fulla undanfarnar vikur að það væri efni í langa grein að rifja það allt upp.

Hitt atriðið eru ummæli Geirs um að mikilvægast sé að tími atvinnuleysis eins stuttur og hægt er. Ég get alveg tekið undir að mikilvægt sé að fólk verði ekki lengi á atvinnuleysisskrá.  Það sem mér finnst aftur mikilvægast, er að varðveita störf fólksins.  Að koma í veg fyrir með öllum tiltækum ráðum að fólk missi vinnuna.  Ég vil frekar að fyrirtækjum fái greitt ígildi atvinnuleysisbóta eða hluta þeirra fyrir að hafa fólk í vinnu, en að greiða fólki fyrir að hafa ekki vinnu.  Ég geri mér grein fyrir að því að hægt er að misnota þetta, en það er betra að nokkrir misnoti þetta, en að hér verði stór hópur fólks atvinnulaus sem þyrfti ekki að vera það ef fyrirtækjum væri veittur réttur stuðningur.


Er dómsmálaráðherra að hvetja til lögbrota!

Ég verð að viðurkenna, að ég átta mig ekki alltaf á dómsmálaráðherra þjóðarinnar.  Hann heldur úti vefsíðu, þar sem hann tjáir sig sem einstaklingurinn Björn Bjarnason.  Með þessu þá vill hann gera greinarmun á einstaklingnum Birni Bjarnasyni og dómsmálaráðherranum Birni Bjarnasyni.  Eins og margt annað í þessu þjóðfélagi, þá yrði þetta hvergi annars staðar liðið. 

Nú ætla ég ekki að takmarka tjáningarfrelsi Björns á nokkurn hátt, en mér finnst mikilvægt að hann greini á milli almennrar stjórnmálaumræðu og skoðun sinni á málefnum sem ekki falla undir ráðuneyti sitt og þeirra atriða sem falla undir ráðuneytið.  Mér finnst, td., ekki viðeigandi að hann tjái sig um að brot á lögum séu sjálfsögð.  Hann getur alveg haft skoðun á því að breyta eigi þessum ákvæðum í þeirri rannsókn sem fara mun fram, en að hann réttlæti lögbrotin finnst mér ekki hæfa dómsmálaráðherra þjóðarinnar.


mbl.is Björn: Fjölmiðlar marklausir við núverandi aðstæður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfallastjórnun vegna bankanna lokið, en allt hitt er eftir

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir steig í pontu í dag og lýsti því yfir að áfallastjórnuninni eftir fall bankanna væri lokið.  Ég ætla ekki að mótmæla þeirri staðhæfingu hennar, að því leiti sem hún snýr að bönkunum og endurfjármögnun þeirra.  Hitt er annað mál, að viðbragðsáætlunin sem sett var í gang með neyðarlögunum í byrjun október var bara ein af mörgum sem settar voru í gang eða þurfti að setja í gang.  Auk þess er allt endurreisnarstarfið eftir.  Skoðum þetta nánar.

Ég fæst við það að atvinnu að veita fyrirtækjum og stofnunum ráðgjöf um stjórnun rekstrarsamfellu.  Stjórnun rekstrarsamfellu felur m.a. í sér gerð viðbragðsáætlana, skilgreiningu á stjórnskipulagi neyðarstjórnunar og gerð endurreisnaráætlunar.  Neyðarstjórnun getur kallað á að margar viðbragðsáætlanir séu virkjaðar.  Ríkisstjórnin telur einhverra hluta vegna að neyðarástandið hafi bara náð til bankanna og því hafi verið nóg að bregðast við falli þeirra á því takmarkaða sviði sem starfsemi þeirra nær til.  Öll önnur viðbrögð ríkisstjórnarinnar höfðu því greinilega ekkert með fall bankanna að gera!

Eins og ég sé hlutina, þá er fall bankanna aðeins einn angi af mjög stóru máli, þ.e. hrun efnahagskerfis þjóðarinnar.   Það getur verið að einhverjum finnist ég taka djúpt í árinni, en staðreyndirnar tala sínu máli.  Krónan hefur fallið eins steinn og leitt af sér stórfelda hækkun verðlags og lána.  Atvinnuleysi er meira en dæmi er um á síðari tímum og ekki er séð fyrir endann á aukningu þess.  Dregið hefur verulega úr inn- og útflutningi til og frá landinu.  Fjölmörg, ef ekki flest, fyrirtæki eru tæknilega gjaldþrota, þar sem eignir þeirra duga ekki fyrir skuldum.  Skuldir heimilanna hafa vaxið það mikið, að þau standa ekki undir greiðslubyrði þeirra.  Uppfærður höfuðstóll húsnæðislána er í mjög mörgum tilfellum kominn yfir markaðsverð fasteigna.  Námsmenn og lífeyrisþegar í útlöndum eru á vonarvöl vegna þess að framfærslueyrir þeirra dugar ekki fyrir útgjöldum.  Ég gæti haldið svona áfram í góða stund í viðbót, en læt þetta duga. Stóra málið er, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, það á eftir að ljúka áfallastjórnuninni vegna þessara þátta og annarra sem ég taldi ekki upp.  Það er frumhlaup hjá þér að flauta áfallastjórnunina af, þegar eftir á að greiða úr stærsta hluta vandans.  Það merkilega við þessa upptalningu mína, er að ekkert af þessu er hruni bankanna að kenna.  Þetta er allt stöðu krónunnar að kenna.  Gengi hennar er ennþá ákveðið með uppboði og gengisvísitalan er 100% hærri í dag en hún var fyrir ári.

Það er eitt af grundvallaratriðum í neyðarstjórnun, að neyðarástandi er ekki aflýst fyrr en lágmarksvirkni er komin í gang varðandi þau atriði sem neyðarstjórnunin nær til.  Það er alveg á hreinu, að blessuð krónan hefur ekki náð þeim áfanga.  Hvað varðar framfærslueyrir fyrir námsmenn og lífeyrisþega í útlöndum, þá lepja þessir aðilar dauðann úr skel.  Skuldir heimilanna eru ennþá þannig að allt of mörg eiga í miklum vanda að standa undir þeim.  Þarf ég að halda áfram?  Neyðarástandið varir ennþá og það sem verra er, að flestar, ef ekki allar, viðbragðsáætlanir ríkisstjórnarinnar eru annað hvort meingallaðar eða að gripið var í tómt, þegar skoða átti innihald þeirra.  Þessu til viðbótar vantar allar endurreisnaráætlanir.  Sérstaklega vantar þann þátt í endurreisnina, þar sem fjallað er um endurreisn hins pólitíska kerfis.

Þetta er því miður allt of algengt.  Hvort heldur litið er til stjórnvalda, fyrirtækja eða stofnana, þá hefur ekki verið útbúin viðbragðsáætlun.  Skipulag neyðarstjórnunar er ekki fyrirliggjandi.  Ekki hefur verið mótuð ætlun um stjórnun rekstrarsamfellu.  Og í þeim tilfellum sem áætlun um stjórnun rekstrarsamfellu er til staðar, þá nær hún eingöngu til rekstrarsamfellu upplýsingatæknikerfa, en ekki þjónustu, framleiðslu eða annarra viðskiptalegra þátta.

Eins og ég sagði, þá hef ég það að atvinnu að veita fyrirtækjum ráðgjöf um stjórnun rekstrarsamfellu.  8. og 9. desember verð ég með námskeið um áhættustjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu, þar sem þátttakendum verður veitt innsýn í þær aðferðir sem hægt er að nota við að koma upp stjórnkerfi fyrir stjórnun rekstrarsamfellu og aðferðum við áhættustjórnun.  Nánari upplýsingar um námskeiðið er að finna hér og hér


mbl.is Áfallastjórnuninni lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Færa þarf höfuðstól lánanna niður

28. september sl. skrifaði ég færslu undir heitinu Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum þar sem lýst er hugmyndum að leiðum til að hjálpa fólki sem er í vanda vegna hækkun lána.  9. október birti ég færsluna Tillögur talsmanns neytenda sem tillögur mínar um aðgerðir vegna síhækkandi höfuðsstóls íbúðalána og var síðan endurbirt 4. nóvember.  Ennþá örlar ekkert á raunhæfum tillögum frá ríkisstjórninni og vil ég því endurbirta tillögu mína einu sinni enn:

  1. Íbúðalánasjóður yfirtekur lán að fullu hjá banka, sparisjóði eða lífeyrissjóði samkvæmt nánari ákvörðun ríkisstjórnar.
  2. Fundið er viðmiðunargengi/vísitala, sem láni er stillt í, fyrir lántakanda að greiða.
  3. Upphæð sem verður afgangs er sett til hliðar og geymd.
  4. Lántakandi greiðir af sínum hluta lánsins eins og áður og tekur þaðan í frá á sig vísitölu- eða gengishækkanir eða nýtur vísitölu- eða gengislækkana.
  5. Verði annað hvort mjög mikil styrking á krónunni/verðhjöðnun eða mikil kaupmáttaraukning, þá tekur lántakandi á sig stærri hluta lánsins.
  6. Stofnaður verði sjóður sem renna í einhverjir X milljarðar á ári, t.d. af fjármagnstekjuskatti eða söluandvirði bankanna þegar þeir verða seldir, og hann notaður til að afskrifa þann hluta lánanna sem er geymdur.

Sú leið að frysta höfuðstólinn í nokkra mánuði bara til þess að lánin safni meiri vöxtum og hækka þannig heildargreiðslur lánatakanda er engin lausn.

Auðvitað er þetta ekkert annað en niðurfærsla höfuðstóls, en þó með þeim formerkjum að ekki er um endanlega niðurfærslu að ræða.  Hugmyndin var fyrst sett fram, þegar talið var að Landsbankinn og Kaupþing myndu standa storminn af sér, þannig að á þeim tímapunkti var gert ráð fyrir að bankar myndu greiða í sjóðinn.  Þar sem ekki er einu sinni vitað hverjir standa þennan storm af sér, þá er einfaldara að nota fjármagnstekjuskatt í þetta eða söluandvirði bankanna.

Til að skýra betur hvað er átt við:

Verðtryggðalán eru stillt af þannig að höfuðstóllinn þeirra er færður í það horf sem hann var þegar vísitalaneysluverðs var 281,8, sem er vísitalan um síðustu áramót.  Þessum höfuðstól er haldið óbreyttum þar til verðbólga milli mánaða er komin niður fyrir efri vikmörk Seðlabankans, en við það hefst aftur tenging höfuðstólsins við vísitöluna. 

Gengistryggð lán eru stillt af þannig að höfuðstóll þeirra sé miðaður við gengi um síðustu áramót.  Það má annað hvort gera með því að færa lánið yfir í íslenska mynt á þessu gengi og láta lánið eftir það breytast eins og um innlent lán sé að ræða eða með því að færa niður höfuðstól lánsins sem því nemur.  Verði farin sú leið að færa lánið yfir í íslenskar krónur, þá byrjar lánið strax að breytast í samræmi við skilmála nýs láns.  Verði farin sú leið að halda gengistengingunni, þá helst lánið í áramótagenginu, þar til nýtt ásættanlegt og fyrirfram ákveðið jafnvægi er komið á krónuna.  Þar sem algjörlega er óvíst hvert jafnvægisgengi krónunnar er, þá gæti þurft að endurskoða endanlega stöðu höfuðstóls þegar því jafnvægi er náð.

Sá hluti höfuðsstólsins, sem settur var til hliðar vegna þessa, er settur á sérstakan "afskriftarreikning".  Þessi reikningur getur lækkað með þrennu móti: 1. a) Verðtryggt lán: Ef breyting á vísitölu neysluverð fer niður fyrir verðbólguviðmið Seðlabankans, þá greiðir skuldarinn hærra hlutfall af skuldinni.  1. b) Gengistryggt lán: Ef gengisvísitala fer niður fyrir ákveðið gildi, þá lækkar höfuðstólsgreiðslan ekki, en skuldarinn greiðir í staðinn hærri hluta skuldarinnar.  2. Stofnaður er sérstakur afskriftarsjóður sem greiðir árlega niður lán á "afskriftarreikninginum".  Afskriftarsjóður hefur tekjur sínar af hagnaði ríkisbankanna, fjármagnstekjuskatti lögaðila og söluandvirði eins eða fleiri af ríkisbönkunum, þegar bankarnir verða seldir aftur.  3.  Við fyrstu sölu eignar rennur ákveðinn hluti andvirðis húsnæðisins í afskriftarsjóðinn.

Auðvitað þarfnast þetta allt nánari útfærslu, en markmiðið er að vera með sanngjarnar reglur.

---

Síðan hvet ég fólk til að mæta í salur HT102 á vinnuráðstefnu Félags viðskiptafræðinga og hagfræðina í fyrramálið kl. 09:00.  Salur HT102 er í Háskólatorgi.

 


mbl.is Hætti að greiða af lánum sínum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varnarræða FME

Í gær sór Davíð af sér allar sakir og í dag fáum við afsakanir FME.  Ég verð að vísu að viðurkenna, að mér finnast skýringar Jóns Sigurðssonar, formanns stjórnar FME, mun yfirvegaðri og trúverðugri, en þær sem formaður bankastjórnar Seðlabankans gaf í gær.  Jón reynir þó ekki að kenna Seðlabanka og ríkisstjórn um.

Það er tvennt sem mig langar að fjalla betur um í málflutningi Jóns Sigurðssonar:

1.  Jón Sigurðsson segir að það hafi ekki verið verkefni FME að "breyta reglum og lagalegri umgjörð um starfsemi fjármálafyrirtækja".

Mér finnst þetta vera nokkuð áhugaverð staðhæfing í ljósi þess, að FME er útgefandi af stórum hluta þeirra reglugerða sem gilda um fjármálamarkaðinn.  Ég hef svo sem ekki mikla trú á því að FME semji þessar reglur, heldur sé það meira tæknileg framkvæmd að forstjóri FME skrifi undir reglurnar.  Raunar held ég að það sé hreinlega rangt að FME geri slíkt, en nánar um það í lið 2.

En fyrst FME skrifar undir og gefur út reglurnar, þá verðum við að líta svo á að FME geti breytt "reglum og lagalegri umgjörð um starfsemi fjármálafyrirtækja".  Tvær breytingar á undanförnum árum hafa verið mér mjög hugleiknar.  Báðar lúta að sama atriðinu, þ.e. þeim reglum um útreikning á eiginfjárkröfu fjármálafyrirtækja sem kenndur er við Basel II.  Hér eru reglur sem beinlínis opnuðu fyrir vöxt bankanna.  Árið 2003 var eiginfjárkröfu vegna veðlána breytt þannig að áhættavægi af lánum umfram fyrsta veðrétt var lækkað um 50%, sem þýddi að útlánageta bankanna vegna veðlána umfram 1. veðrétt jókst um 100%.  2. mars 2003 var þessari kröfu breytt aftur og nú var áhættuvægið lækkað í 35% af upphaflegu vægi.  Banki sem gat áður lánað 100 kr. fyrir hverjar 8 kr. í eigið fé, gat núna lánað 285 kr.  Þetta er ein af grundvallar ástæðum þess að útlán bankanna jukust jafnmikið og raun bar vitni.  Þegar síðan peningamargfaldarinn (þ.e. áhrifin af því að peningur sem tekinn er að láni verður að innláni sem eykur útlánagetu) er tekinn inn í þetta, þá fáum við enn frekari skýringu á vexti bankanna.  Rétt er að benda á, að breytingin sem framkvæmd var 2. mars 2007 var framkvæmd beint ofan í aðgerðir ríkisstjórnarinnar í verðbólgumálum og í reynd eyðilagði þá aðgerð. Annað sem rétt er að taka fram, að í Basel reglunum er sérstaklega tekið fram að hvert land fyrir sig skuli meta hvort viðeigandi sé að breyta áhættuvæginu úr 50% í 35%.

Hér eru a.m.k. tvær breytingar á reglum sem FME hefði, samkvæmt verkaskiptingu FME og Seðlabanka, getað dregið til baka að hluta eða alveg til að draga úr vexti bankanna.

2.  Jón Siðurðsson segir: "Verkefni FME er að líta eftir því að starfsemi eftirlitsskyldra fjármálafyrirtækja sé í samræmi við gildandi lög og reglur."  Jafnframt finnst honum óráðlegt að FME sameinist Seðlabankanum.

Þetta kemur inn á mitt sérsvið.  Ekki að ég hefi of mikið vit á inniviðum fjármálamarkaðarins, en ég fæst við skilgreiningu reglna, innleiðingu og framkvæmd þeirra og úttektum sem lúta að áhættu- og öryggisstjórnun.  Ég hef rekið áróður fyrir því í langan tíma, að nauðsynlegt sé að tryggja aðskilnað þessara þriggja þátta.  Þá á ég við að sami aðili sé ekki að setja reglur og innleiða þær, að reglusmiðurinn sé ekki jafnfram úttektaraðilinn og að sá sem sér um framkvæmdina taki ekki sjálfan sig út.  Yfirleitt hefur verið auðvelt að skilja á milli framkvæmdar og úttektar, en erfiðara hefur verið að fá menn til að skilja að það sé ekki viðeigandi að sami aðilinn semji reglurnar og sjái um úttekt (nema um óformlega stöðuúttekt sé að ræða). Jafnframt þykir allt of mörgum sjálfsagt, að sami aðili skilgreini kröfurnar sem á að uppfylla og sjái síðan um framkvæmdina.

Þetta gæti verið ein af þeim kerfislægu villum sem Jón Sigurðsson vísar til, þó ég raunar efist um það.  Að mínu áliti er eitt af vandamálum fjármálakerfisins, að FME hefur verið að setja markaðinum reglur og síðan sjá um úttekt á þessum sömu reglum.  Það sem gerist við þetta, er að úttektaraðilinn ber bara framkvæmdina saman við reglurnar, en þá vantar að bera reglurnar sama við kröfurnar, þ.e. lög og alþjóðlega staðla og reglur.

Í mínum bransa sækjast fyrirtæki gjarnan eftir vottun sem krefst vottunarúttektar.  Slík úttekt er tvískipt.  Annars vegar úttekt á því hvernig stjórnkerfið og reglurnar falla að kröfum staðalsins sem um ræðir og hins vegar hvernig fyrirtækinu gengur að vinna í samræmi við hið skilgreinda stjórnkerfi og reglur.  Þar sem FME setur hluta af þeim reglum, sem fjármálafyrirtæki eiga að uppfylla, þá er FME hreinlega vanhæft til að sinna úttektunum.  Ástæðan er sú að með því er FME að taka út sitt eigið regluverk.  Markmið úttektarinnar verður því að skoða framkvæmdina (sem er gott og blessað), en menn missa af því að skoða hvort regluverkið sé rétt.  Það er því alveg rétt, að FME var að standa sig vel í úttektum og bankarnir voru að koma vel út úr þeim, en það vantaði hlutlausan aðila til að spyrja hvort reglurnar, sem úttektirnar voru byggðar á, hafi verið réttar.  Voru kröfur FME og Seðlabankans í samræmi við þá áhættu sem bankakerfið stóð frammi fyrir.  Mín niðurstaða er að svo hafi ekki verið.

Ein alvarlegasta kerfislægan villan í fjármálakerfinu er því að mínu áliti, að ekki er skilið á milli þeirra sem setja reglurnar og þeirra sem sjá um eftirlitið.  Ef við viljum gera breytingar á verkaskiptingu Seðlabanka og FME, þá á að efla eftirlitsþátt FME en flytja reglusmíðina yfir í Seðlabankann.  Þetta kallar örugglega á lagabreytingu varðandi hlutverk Seðlabankans.

Það sem við græðum á þessu er að myndaður er algjör aðskilnaður milli reglusetningar, innleiðingar og framkvæmdar og síðan eftirlits.  Síðan þarf að gera þessa sömu kröfu til allra fjármálafyrirtækja, þ.e. að skilið sé alfarið á milli áhættustýringar (þ.e. mótun stefnu, greining krafna, ákvörðun stýringa), daglegrar öryggisstjórnunar (m.a. gerð verklagsreglna, innleiðing og framkvæmd) og úttekta (þ.e. innra og ytra eftirlits, regluvörslu, o.s.frv.). Mér vitanlega hefur aðeins einn af stóru bönkunum fylgt þessari skiptingu, meðan hinir hafa verið að blanda saman fyrstu tveimur þáttunum. 

Ég mun fara nánar út í mikilvægi þessa aðskilnaðar í námskeiði mínu um áhættustjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu sem fram fer 8. og 9. desember nk. Frekari lýsingu á námskeiðinu er að finna hér.


mbl.is Eftirlitshlutverk Fjármálaeftirlits og Seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 1678173

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 40
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband