Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Niðurfærsla lána er nauðsynleg

Það er búin að vera mikil umræða á blogginu og í fjölmiðlum um hvort eigi að færa niður höfuðstól lána.  Þeir sem eru á móti því telja óforsvaranlegt að færa niður skuldir stóreignamanna eða stórfyrirtækja.  Ég spyr bara:  Er umræðan virkilega ekki þroskaðri en svo, að það kemur í veg fyrir að við leysum vanda 40- 60% heimila vegna þess að einhverjir eiga það ekki skilið?  Er ekki tími til kominn að hætta sandkassaleiknum og hefja björgunaraðgerðir, þar sem ekki er farið í mannamun.

Gagnvart niðurfærslu lána, þá finnst mér fólk horfa kolvitlaust á þetta.  Þar sem að ég setti nú þessa hugmynd fyrst fram 28. sept. 2008 á blogginu mínu (sjá Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum), þá veit ég nokk út á hvað þetta gengur.  Þetta er mjög einfalt.  Stór hluti útlána er í reynd tapaður.  Kröfuhafar geta farið tvær leiðir:

A.  Gert lántakandann gjaldþrota, keypt eigina á uppboð og selt hana aftur á niðursettu verði.  Kröfuhafinn mun líklegast tapa 30 - 50% af höfuðstól lánsins vegna hins mikla kostnaðar sem bætist við, en getur elt lántakandann um aldur ævi án þess að fá neitt meira upp í skuldina.  Skuldarinn getur ekkert eignast og leggur því takmarkað til veltu í þjóðfélaginu, verður jafnvel bótaþegi eða flýr land.   Veltan í samfélaginu dregst saman og fleiri missa vinnuna.  Skatttekjur ríkisins minnka og skera verður niður í velferðarkerfinu.

B.  Ákveðið að færa lánið niður þannig að greiðslubyrði lánanna verði þolanleg fyrir lántakandann.  Bankinn takmarkar tjón sitt hugsanlega við 20-30%, heldur góðu viðskiptasambandi við lántakandann, sem stendur í skilum, tekur fullan þátt í veltunni í samfélaginu og verður áfram góður og gildur skattþegi.  Atvinna er varðveitt, velferðarkerfið er varðveitt.

Í mínum huga þá fer ekkert á milli mála að allir græða á niðurfærsluleiðinni, þ.e. lántakendur, lánveitendur og loks lánadrottnar lánveitenda.

Ég setti þessa hugmynd fram áður en Glitnir var þjóðnýttur, þannig að það sem á eftir fór var ekki inni í myndinni.  Hugmyndin er því óháð falli bankanna.  Það sem gerðist við fall bankanna, var að lánasöfn bankanna er færð yfir í nýju bankana með miklum afslætti.  Þannig stefnir í að lánasöfn svikamyllubankanna verði færð yfir til nýju bankanna með 3.000 milljarða afslætti.  Nú er SPRON farið og Sparisjóðabankinn og því bætast einhverjir tugir milljaðar í púkkið.  Það er bæði eðlilegt og sanngjarnt að skuldunautar nýju bankanna njóti afsláttarins frá þrotabúum svikamyllubankanna.  Það var jú svikamylla gömlu bankanna sem kom okkur í þá stöðu sem við erum í.  Svo einfalt er það.  Mér finnst út í hött að ég beri tjón mitt óbætt, þegar ég er ekki valdur af því.  Svikamyllubankarnir eyðilögðu fjármálakerfi landsins og stuðluðu að falli krónunnar með dyggri aðstoð frá peningastefnu Seðlabankans.  Ríkið ætlar að leggja meira en 500 milljarða inn í endurreisn óráðsíumanna, þ.e. endurbættar útgáfur svikamyllubankanna og Seðlabankann, sem beitti ekki síðri svikamyllu við að blekkja smærri fjármálafyrirtæki til að taka lán upp á 345 milljarða til að freista þess að bjarga svikamyllubönkunum frá falli.  Það er besta mál að bjarga Seðlabankanum sem kunni ekki grundvallaratriði í áhættustjórnun, en það má ekki bjarga undirstöðustofnun samfélagsins, sem heimilið.

Ef heimilunum verður ekki bjargað, þá verður ekkert þjóðskipulag.  Fólk er að missa þolinmæðina.  Núna eru tæpir 13 mánuðir síðan að krónan féll með skell.  Vissulega byrjaði að halla undan fæti í júlí 2007, en það var hægfara aðlögun.  Hvorki ríkisstjórn né Seðlabanki gerðu nokkuð til að spyrna við fæti.  Það var talað og hlustað, en ákvörðunarfælnin var æpandi, ömurleg.  Síðan koma Leppir, Skreppir og Leiðindaskjóður þessa lands og berja sér á brjósti fyrir að hafa varað við eða það hafi ekki verið þeim að kenna.  Mér er alveg sama hver varaði við eða hverjum það var að kenna.  Komið ykkur að verki og stöðvið brunann. Ef þið hafið getu, vilja og þor, þá er best að hisja upp um sig buxurnar og koma sér að verki, annars að víkja og hleypa öðrum að. 

Eitt í viðbót.  Mér finnst það ótrúlegt að stór hópur þeirra sem komu þjóðinni í þá stöðu sem hún er í, telji sig besta til að koma henni út úr vandanum.  Mér finnst að þetta fólk eigi að skammast sín og víkja fyrir nýju fólki.  Það er staðreynd að nýir vendir sópa best.


Námskeið: Áhættustjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu

Dagana 20. og 21. apríl verður haldið á vegum Betri ákvörðunar ráðgjafaþjónustu námskeið um  Áhættustjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu.  Námskeiðið hefst kl. 9.00 báða dagana og stendur til um kl. 17.00.

MARKMIРnámskeiðsins er að kynna aðferðafræði við áhættumat og samspil áhættumats og stjórnunar rekstrarsamfellu.

Áhættustjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu eru tveir af grunnþáttum í góðum stjórnháttum fyrirtækis. Fátt er mikilvægara en að fyrirtæki hafi góða vitneskju um ógnir og hættur í umhverfi sínu og grípi til viðeigandi ráðstafana til að draga úr áhrifum þeirra á rekstrarleg og viðskiptaleg markmið.  Þetta er hægt að gera með því auka þol fyrirtækisins fyrir áhrifum óæskilegra atvika í rekstrarumhverfi þess með því að greina hver slík óæskileg atvik geta verið og grípa til ráðstafana til að styrkja inniviði fyrirtækisins.  Atburðir undanfarinna mánaða ættu að segja fyrirtækjum að slíkt er bráð nauðsynlegt.

Á námskeiðinu er stuðst við staðla og viðurkenndar aðferðir.  Meðal þeirra staðla og aðferða sem stuðst er við á námskeiðinu má nefna ISO 27001, ISO 27002, ISO 27005, BS 25999, BS 31100 og CobiT (Control Objectives for Information and Related Technology).

Leiðbeinandi á námskeiðinu er Marinó G. Njálsson, tölvunarfræðingur og sérfræðingur í stjórnun upplýsingaöryggis, M Sc og Engineer Degree Operations Research, Stanford University.  Marinó hefur undanfarin 9 ár veitt ráðgjöf vegna öryggisstjórnunar, áhættustjórnunar og stjórnunar rekstrarsamfellu.

Verð kr. 80.000, innifalið námskeiðsgögn, léttar veitingar og hádegisverður.  Veittur er 10% afsláttur ef tveir eða fleiri koma frá sama aðila.

Námskeiðið verður haldið miðsvæðis í Reykjavík.  Endanleg staðsetning verður tilkynnt síðar.

Skráning á námskeiðið er hafin og fer hún fram með því að senda tölvupóst á oryggi@internet.is.  Þar eru einnig veittar nánari upplýsingar, ef óskað er.

Bankaleynd úr sögunni!

Var að hlusta á ræðu herra Brúns.  Hann lofar nýju alþjóðlegum reikningsskilastöðlum, endalok skattaskjóla sem veita ekki upplýsingar þegar um þær er beðið og að bankaleynd, eins og við þekkjum hana í dag, sé úr sögunni.  Hér er miklu lofað og spurningin er hverjar verða efndirnar.

En þeir sögðu svo sem meira, blessaðir leiðtogarnir.  Alveg merkilegt hvað margir svona háttsettir aðilar hafa góðan tíma til að semja texta!  En öllu gríni sleppt þá heita þessir heimsleiðtogar ýmsu.  Ætlunin er að:

  • endurheimta trúnað, vöxt og störf
  • endurreisa fjármálakerfið til að koma útlánum af stað
  • styrkja regluverk fjármálakerfisins til að endurbyggja traust
  • fjármagna og umbreyta alþjóðlegum fjármálastofnunum til að sigrast á núverandi kreppu og forðast nýjar í framtíðinni
  • styðja við alþjóðaviðskipti og fjárfestingu og hafna verndarstefnu til að auka velmegun
Þetta er stutt lengri lista yfir aðgerðir, sem innifela atriði eins og 1.000 milljarða dollara í fjármálakerfið, láta eftirlit ná til allra mikilvægra fjármálastofnana, þar á meðal mikilvægra vogunarsjóða!

Nú er bara að sjá hverjar efndirnar verða og hve langan tíma tekur að hrinda hlutum í framkvæmd.
mbl.is OECD birtir skattaskjólalista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 1678291

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband