Leita í fréttum mbl.is

Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar

Ég veit ekki hvað það eru margir sem hafa lesið svarið hans Gylfa Magnússonar, dósents í hagfræði við Háskóla Íslands, á Vísindavefnum við spurningunni Hvað eru jöklabréf?  Ég vil hvetja alla til að kynna sér þetta svar, vegna þess að það gæti verið lykill að því hve auðvelt er að niðurfæra stóran hluta erlendra lána sem tekin hafa verið í gegnum innlend fjármálafyrirtæki.  Skoðum fyrst svar Gylfa, eða öllu heldur hluta þess:

Í grundvallaratriðum er enginn munur á jöklabréfum og skuldabréfi sem íslenskur banki hefur gefið út í sömu mynt, nema hvað útgefandinn er erlendur í öðru tilfellinu og innlendur í hinu. Í báðum tilfellum á sá sem kaupir bréfið kröfu á útgefandann um greiðslu á vöxtum og höfuðstól í íslenskum krónum. Erlendir aðilar hafa hins vegar yfirleitt ekki mikinn áhuga á að skulda í krónum og þurfa þar með bæði að búa við gengisáhættu og háa vexti. Því semja útgefendur jöklabréfa alla jafna við íslenskan banka um vaxta- og gjaldmiðilskipti. Með því er átt við að íslenski bankinn tekur að sér að greiða vexti og afborganir í krónum. Íslenski bankinn tekur á sama tíma lán í erlendri mynt sem útgefandi jöklabréfsins tekur að sér að greiða af í staðinn. Íslenski bankinn fær síðan krónurnar sem fengust fyrir sölu jöklabréfsins en útgefandi jöklabréfsins fær andvirði erlenda lánsins. Alla jafna eru reyndar ýmsir milliliðir í þessu ferli en það breytir lítt heildarmyndinni og verður hlutverk þeirra því ekki rakið hér.

Hér erum við með þá stöðu, að erlendir aðilar gáfu út jöklabréfin.  Kaupendur voru ýmsir aðilar, bæði erlendir og innlendir. Íslensku bankarnir tóku að sér a selja bréfin og líka að greiða þau til baka.  Á móti tóku íslensku bankarnir erlend lán, sem útgefendur jöklabréfanna taka að sér að greiða.  Hvor um sig tekur því áhættu í eigin mynt þó lánin/skuldabréfin séu í mynt annars lands.

Peningarnir sem komu inn í íslensku bankana með jöklabréfunum voru m.a. notaðir til að lána út í erlendri mynt til innlendra aðila.  Þó upphaflega skuldbindingin hafi verið í erlendri mynt, þá er endurgreiðslan í íslenskum krónum, en ekki erlendum gjaldeyri.  Það þýðir að upphæðin sem við (almenningur) skuldum í CHF, EUR, USD eða JPY yfirfært á núverandi gengi er ekki sama upphæð og bankarnir skulda vegna þessara útlána.  Við þessar aðstæður hefur því í reynd myndast gríðarlegur gengishagnaður. 

Segjum að innlendar fjármálastofnanir hafi lánað út 100 milljarða í gengiskörfum fyrir tveimur árum.  Í dag eru þessi gengistryggðu lán komin í 220 milljarða miðað við upphaflegu fjárhæð í hverri mynt fyrir sig. (Vissulega er hækkun GVT ekki svona mikil en hlutur JPY og CHF er hærri en annarra mynta í útlánunum og skýrir það mismuninn.)  Við þetta bætast síðan vextir og vaxtaálag sem í þessu dæmi eru reiknað alls 5%.  Að teknu tilliti til þess að gengið hefur verið misjafnt á þessu tveggja ára tímabili, þá gef ég mér að vaxtagreiðslur nemi alls 5 milljörðum.  Á bakvið þetta stendur hins vegar 135 milljarða skuld bankanna í íslenskum krónum, þ.e. upprunalegu 100 milljarðarnir auk 17,5% vaxta á ári í 2 ár.  Þarna hefur því myndast rými fyrir bankana til að lækka skuldina um allt að 85 milljarða án þess að bankinn sé að tapa neinu.  Raunar væri hægt að segja að bankarnir hefðu meira svigrúm, þar sem lántakendur eru búnir að borga vexti af þessum lánum.  Vandamálið er líklegast, að ekki tóku allir bankar að sér að selja jöklabréf og því er svigrúm einstakra banka til að lækka kröfur ekki eins mikið og annarra. Á móti kemur að þeir bankar sem ekki gerðu vaxtaskiptasamninga vegna jöklabréfanna, fengu að öllum líkindum lán frá bönkum sem gerðu það.

Nú er spurningin hvort bankarnir vilja láta viðskiptavinina njóta þess, að skuldir bankanna vegna erlendu lánanna til viðskiptavinanna hafa ekki hækkað eins mikið og gjaldmiðlarnir sem notaðir voru til viðmiðunar í gengiskörfum lánanna.  Svigrúmið er augljóslega fyrir hendi.  Síðan má ekki gleyma því að það voru m.a. þessir vaxtaskiptasamningar sem áttu ekki hvað minnstan þátt í hruni krónunnar.

Nánari útskýring fyrir þá sem hafa gaman af tölum

Best er að nota dæmi til að sýna hvað þetta þýðir í raun og veru.  Hér er stillt upp dæmi, þar sem tekin eru lán og gefin út jöklabréf til tveggja ára.  Miðað er við að útgáfudagur sé 3. janúar 2007 og gjalddagi því 3. janúar 2009: 

  1. Íslenskur banki tekur lán til tveggja ára í CHF (svissneskir frankar) með LIBOR vöxtum.  Andvirði lánsins er 100 milljarðar króna eða CHF 1,75 milljarðar miðað við gengi CHF = 57,28 IKR.
  2. Erlendur aðili gefur út jöklabréf fyrir 100 milljarða til tveggja ára með 17,5% vöxtum.
  3. Þessir aðilar gera með sér vaxta- og gjaldmiðilsskipti, þannig að erlendi aðilinn fær fjárhæð CHF lánsins og tekur yfir greiðslur vegna þess, en íslenski bankinn sér um sölu á jöklabréfunum, fær andvirðið til sín og tekur að sér að greiða bréfin að lánstímanum liðnum.  Í samningi aðila er gerður upp vaxtamunur á þessu tveimur lánum.
  4. Í bókum íslenska bankans koma fram lánið í CHF, skiptisamningurinn og jöklabréfin.
  5. Íslenski bankinn notar peningana sem hann fær vegna jöklabréfanna til að lána til innlendra aðila.  Þar sem bankinn tók upphaflega lán í CHF, þá lánar hann út með viðmið í CHF alls 100 milljarða kr. eða CHF 1,75 milljarða.  Þessi lán eru til langs tíma, segjum 20 ára, og eru án greiðslu af höfuðstól fyrsta árið en með 3% vaxtaálagi.
  6. Að tveimur árum liðnum koma bæði lánið sem bankinn tók í CHF og jöklabréfin á gjalddaga.  Erlendi aðilinn greiðir CHF-lánið, en íslenski bankinn jöklabréfin.  Þá kemur upp forvitnileg staða.  Skuld íslenska bankans er 100 milljarðar króna plús vextir eða alls 135 milljarðar króna.  Skuld erlenda aðilans er CHF 1,75 milljarðar auk vaxta. Gefum okkur að vextir hafi verið 2% á ári.  Það þýðir að endurgreiðslan er CHF 1,82 milljarða eða alls kr. 207 milljarðar.  Málið er að upphæð CHF-lánsins skiptir ekki máli í krónum talið, þar sem að erlendi aðilinn tekur að sér að greiða lánið.
  7. Staða lána innlendu aðilanna fylgir aftur gengi CHF. Þær greiðslur sem íslenski bankinn er búinn að fá eru vaxtagreiðslur vegna alls lánsins fyrir 2007 sem eru 5% af CHF 1,75 milljörðum eða 87,5 milljónir CHF = 4,9 milljarða króna miðað við að 1 CHF = 56 IKR.  Seinna árið greiða lántakendur til baka 1/19 af láninu og 5% vexti af höfuðstól hverju sinni.  Höfuðstólsgreiðslan er því CHF 92 milljónir og vaxtagreiðslan um CHF 85 milljónir eða alls CHF 177 milljónir sem gerir 14,2 milljarða króna miðað við meðalgengi CHF á síðast ári upp á 80,36 IKR.  Alls hafa greiðslur til íslenska bankans því numið rúmlega 19 milljörðum króna.  Eftirstöðvar lánanna eru aftur CHF 1,66 milljarðar eða kr. 190 milljarðar miðað við gengi CHF = 114,76.
  8. Niðurstaðan er að íslenski bankinn situr upp með kröfu vegna jöklabréfa upp á kr. 135 milljarða, en á kröfu á innlenda lántakendur upp á kr. 190 milljarða auk þess að hafa fengið 19 milljarða greidda.  Hagnaður íslenska bankans á þessu viðskiptum á uppgjörsdegi jöklabréfanna er því 74 milljarðar IKR plús/mínus greiðslur sem fara á milli íslenska bankana og hins erlenda útgefenda jöklabréfanna í samræmi við ákvæði samningsins.  Þetta er dágóður gengishagnaður og nemur hann 74% af upphaflegu fjárhæðinni.  Ekki slæm ávöxtun það.

Það er örugglega margt gagnrýnivert í þessu dæmi og því væri fróðlegt, ef einhver sem hefur betri upplýsingar um eðli svona vaxta- og gjaldmiðlaskiptasamninga gæti endurreiknað þetta.  Eftir stendur að hagnaður íslenska bankans er gríðarlegur vegna gengisfalls krónunnar.  Þennan hagnað er hægt að nota til að færa lánin niður, t.d. með því að miða við annað gengi á CHF.  Ef við tökum t.d. upphæð eftirstöðva í CHF ákveðum að sú upphæð eigi að jafngilda 135 milljörðum, þá fáum við út gengið 1 CHF = 81,33 IKR sem er alveg ásættanlegt gengi miðað við hamfarir síðustu mánaða.  Ef notaður er upphaflegi höfuðstólinn, þ.e. 1,75 milljarða, þá fæst út gengið 1 CHF = 77,14 IKR.

Ef ég er alveg út í móa með þessar pælingar mínar, þá þætti mér vænt um að fá ábendingu um slíkt og ég mun strax endurskoða útreikninga mína eða fjarlægja færsluna.  Komi ekki slíkar ábendingar, þá lít ég svo á, að ég hafi talsvert til míns máls.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Árnason

já það virðist vera að erlent fjármagn sé til mikillar blessunnar eða hitt og heldur.

Það er einfaldlega verið að gera menn að þrælum. Og setja Ísland á hliðina.

Er það ekki svona sem þýska markið féll í fyrra stríðinu, það var innfutt ódýrara mark. Og svo hrundi markið.

Ég skal skoða sögu heimildir.

Vilhjálmur Árnason, 17.1.2009 kl. 03:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband