Leita í fréttum mbl.is

Bull rök fyrir háum stýrivöxtum

Ég hef verið að skoða rök Seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir háum stýrivöxtum, en þau eru að styrkja við gengi krónunnar.  Mér finnst þetta á engan hátt standast, þar sem slík rök eiga eingöngu við þegar markaður með krónuna er frjáls.  Núna eru gjaldeyrishöft og þau þýða að stýrt er hvaða gjaldeyrir má koma inn í landið og hvaða gjaldeyrir má fara út.  Það er þess vegna ekki við neitt að styðja eða hvað þá eitthvað að styrkja.

Mér sýnist ástæðan fyrir háum stýrivöxtum fyrst og fremst vera að tryggja þeim erlendu aðilum, sem eru fastir með peninga sína í landinu, háa ávöxtun á peningana sína.  Ef 600 milljarðar eru fastir í landinu og þeir eru á 18% vöxtum, þá vex þessi upphæð um 9 milljarða á mánuði eða alls 108 milljarða á ári.  Það þýðir að bæta þarf 108 milljörðum á ári í gjaldeyrisforða þjóðarinnar til að geta greitt þessum aðilum eignir sínar.  Með því erum við að veikja krónuna, ekki styrkja.

Ég get ekki séð, að það þurfi háa stýrivexti til að halda innistæðu og  eignum erlendra aðila hér á landi.  Ég hef fjallað um þetta áður (sjá Gjaldeyrislögin - skynsemi eða afleikur?) þar sem ég tel mig færa fín rök fyrir því að það sé hagur hinna erlendu aðila, að krónan styrkist.  Hvort ætli sé betra fyrir þá að skipta krónum í evru á genginu 200 eða 100?  Svarið er augljóst.  600 milljarðar duga fyrir 100% fleiri evrum á genginu 100 miðað við gengið 200.  Gjaldeyrishöftin eru því í reynd neikvæð fyrir stöðu krónunnar, þar sem þau ganga að því sem vísu að menn vilji frekar tapa 50% af eignum sínum með því að fara út með peninginn strax.  Gott og vel, en er það ekki betra fyrir gjaldeyrisforða þjóðarinnar að menn fari út með peninginn strax.  Ef Seðlabankinn á, segjum, jafngildi 5 milljarða evra í gjaldeyri, þá eru það 500 milljarðar á genginu 100, en 1000 milljarðar á genginu 200. 

Hvort er þá betra fyrir gjaldeyrisforðann?  Í mínum huga er svarið augljóst.  Opnum gjaldeyrismarkaðinn, losum út þann gjaldeyri sem vill út.  Þetta hefur aðra hlið, en hún er að innlendir aðilar sem hafa fjárfest í útlöndum geta notað tækifærið til að losa um fjárfestingar sínar og flutt gjaldeyri heim.  Slíkt gæti styrkt verulega stöðu lífeyrissjóðanna og bankanna, svo dæmi séu tekin.  Vissulega hefði þetta tímabundið neikvæð áhrif á erlend lán en með því að frysta slíkar greiðslur meðan kúfurinn gengur yfir, þá verða áhrif minni en efni standa til.

Ef halda á stýrivöxtum háum, þá mun það eitt vinnast, að eignir sem flytjast munu úr landi aukast.  Og ekki bara það, það þarf sífellt meiri gjaldeyri til að skipta þessum fjármunum úr krónum í gjaldeyri.  Háir stýrivextir eru því fyrst og fremst hagsmunir erlendra aðila, ekki landsmanna.  Háir stýrivextir auka eignir útlendinga hér á landi og veikja stöðu innlendra aðila.  Háir stýrivextir ýta undir verðbólgu, þar sem þeir halda uppi vaxtastigi, sem síðan mælist í verðbólgunni.  Háir stýrivextir þýða að ganga þarf meira á gjaldeyrisforða þjóðarinnar til að losa um fjármuni erlendra aðila hér á landi.

Eitt að lokum.  Víðast hvar í heiminum eru stýrivextir langt undir verðbólgumælingu í viðkomandi landi.  Þau halda því ekki heldur rökin að raunstýrivextir þurfi að vera jákvæðir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Mig langar líka að benda á að samkvæmt vefsíðunni Barclays Business Banking er gengi evru gagnvart krónunni núna kr. 152,608 saman borið við kr. 170,58 hjá Glitni.  Gengi USD er 109,130 en 121,96 hjá Glitni.  Hvernig stendur á því að krónan er ríflega 10% veikar skráð hér á landi en hjá Barclays, þar sem hún á samkvæmt öllu að verða verðlaus.  Er krónunni viljandi haldið veikari í skráningu hér á landi, en hún er í raun og veru?  Tekið skal fram að Barclays skráir gengi krónunnar á hverjum degi og það tekur breytingum milli daga.

Marinó G. Njálsson, 22.12.2008 kl. 14:22

2 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ég hallast alltaf meira og meira að því að Seðlabankinn og ríkisstjórnin séu viljandi að reyna að blekkja fólk. Röksemdir þeirra halda ekki vatni, eins og þú bendir á um rökin fyrir háum stýrivöxtum.

En jafnvel þó krónubréfin komist úr landi, er ekki hætta á að fleiri fjárfestar muni vilja nýta sér vaxtamuninn meðan stýrivextir eru svona háir?

Þ.e.a.s. um leið og líkindi eru til að krónan styrkist, því ekki vilja þeir taka áhættuna á öðru 50% gengisfalli krónunnar og þar með verðminni krónubréfa?

Theódór Norðkvist, 22.12.2008 kl. 16:58

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Mér finnst að Seðlabankinn eigi að hætta að bjóða ríkisskuldabréf með hærra en 5% óverðtryggðum vöxtum, þar sem það í mesta lagi það sem ríkið ætti að vilja að borga til langframa.  Að ríki og Seðlabanki séu að ýta undir hátt vaxtastig er út í hött, þó ekki sé sterkar vekið til orða.  Það eru þessir háu vextir ríkisins og Seðlabanka sem, m.a., hafa dregið fjárfesta að.  Það er rangt að halda áfram að gefa út skuldabréf með háum vöxtum fyrir komandi kynslóðir að greiða.

Einnig vil ég að ríkið og Seðlabankinn gangi á undan í því að hætta að gefa út verðtryggð skuldabréf.  Það er raunar stór furðulegt, að þessir aðilar hafi gefið út verðtryggð bréf á undangengnum árum, þegar lánsfjárþörf ríkissjóðs var nánast engin.  Tilgangurinn var eingöngu að bjóða slík bréf af markaðsástæðum.  Að ríkið og Seðlabanki sé að keppast við almennan markað um hæstu vexti er rangt.

Marinó G. Njálsson, 22.12.2008 kl. 19:26

4 Smámynd: Baldur Fjölnisson

IMF er ma. stjórnað af þessum erlendu kröfuhöfum eða þeir tengjast amk. náið yfirstjórn sjóðsins og ríkisstjórn og seðlabanki hér komust nýlega formlega í eigu IMF. Do the math.

Baldur Fjölnisson, 22.12.2008 kl. 21:50

5 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Mér finnst raunar skrítið hvað heyrist lítið í fólki um þessa himin háu vexti.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 23.12.2008 kl. 00:13

6 identicon

Ég er þeirrar skoðunar að þessir háu vextir þjóni hagsmunum einhverra fjármagnseigenda og hafi alltaf verið til þess, við sjáum það að stjórnvöld eru ekki í vandræðum með að aftengja vísitöluna þegar þeim finnst það óhætt eins og varðandi greiðslur til aldraðra og öryrkja en þessi sömum stjórnvöld hika þegar kemur að því að gera slíkt hið sama við verðtryggingu lána hjá almenningi. Ég get ekki betur séð en enn sé verið að reyna að láta almenning blæða til að halda uppi einhverjum hluta af þeim sem áttu peninga og réðu miklu fyrir bankahrunið. Svo vita það allir sem vilja vita að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur ekki gengið erinda þeirra minni máttar hingað til svo það kemur nú ekki á óvart að þeir séu að passa hagsmuni þeirra erlendu aðila sem eiga hér kröfur. Látum ekki blekkjast af einhverju rugli sem reynt er að matreiða ofan í okkur.

Sigurður Kristjánsson (IP-tala skráð) 23.12.2008 kl. 08:57

7 Smámynd: Vilhjálmur Árnason

Þið eruð æðisleg og frábær gleðileg Jól.

Þú ert snjall.

Og þú ert líka alveg með þetta baldur.

Vilhjálmur Árnason, 23.12.2008 kl. 15:20

8 Smámynd: Karl Ólafsson

Marinó, þetta gengi sem þú vísar til hjá Barclays, er þetta ekki örugglega sölugengi, þ.e. það verð sem þeir setja upp fyrir krónurnar sem þeir selja þér sem t.d. túrista á leið til Íslands? Þú færð sem sagt afar fáar krónur fyrir Evruna eða Pundið þitt.

Ég þori (næstum) að hengja mig upp á að kaupverð krónunnar er talsvert mikið lægra hjá þeim, þ.e. að þegar þú kæmir til baka frá Íslandi og vildir skipta afgangnum af gjaldeyrinum þínum yfir í Evru eða Pund yrðu tölurnar aðrar, ef slík viðskipti stæðu yfirleitt til boða.

Þetta væri sennilega líka auðvelt að kanna hjá gjaldeyrismiðlurum á Heathrow flugvelli, sem bjóðast til að kaupa af þér alls konar myntir. Hvað skyldu þeir bjóða fyrir krónuna?

Karl Ólafsson, 5.1.2009 kl. 01:24

9 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Karl, mér sýnist gengið hjá Barclays á evrunni gagnvart öðrum gjaldmiðlum vera nokkurn veginn miðgengi samkvæmt gjaldmiðlakrossum Glitnis (sjá http://www2.glitnir.is/Markadir/Gjaldmidlar/Stundargengi.aspx).  Nú er bara spurningin hver er munurinn á miðgengi annars vegar og kaup- og sölugengi hins vegar.

Marinó G. Njálsson, 5.1.2009 kl. 10:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 1678169

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband