28.10.2008 | 00:17
Verðbólga sem hefði geta orðið - Endurbirt vegna áskorunar
Í vor (28.4.) birti ég færslu sem ég hef verið beðinn um að endurbirta svo hægt sé að bæta við hana athugasemdum. Hún kemur hér fyrir neðan. Þetta er að sjálfsögðu bara pæling og ekkert sem þarna er sagt getur orðið að veruleika núna. Með því að smella á fyrirsögnina er farið í upprunalegu færsluna og getur fólk þá lesið það sem fór á milli mín og Steingríms Jónssonar (Delberts).
Verðbólga sem hefði geta orðið
Það var í einmánuði 2001 að Seðlabanki Íslands ákvað að setja gengið á flot og taka upp verðbólgumarkmið til að stjórna peningamálum. Af einhverri ástæðu ákvað Seðlabankinn að nota hina séríslensku vísitölumælingu með húsnæðiskostnaði sem viðmið í staðinn fyrir að nota alþjóðlega viðurkenndar og samanburðarhæfar aðferðir við að mæla verðbólguna. Vissulega er rík hefð hér á landi að nota þessa vísitölumælingu og vísitala með og án húsnæðis stóðu í svipuðu gildi á þeim tíma, þ.e. í 206,5 með húsnæðisliðnum og 205,0 án hans. Vandamálið er og var að hún var og er hvergi notuð í nágrannalöndum okkar og ekki innan Evrópusambandsins. Það var því rangt af Seðlabankanum að nota vísitölu með húsnæðisliðnum sem viðmið sitt. Þessi ranga ákvörðun hefur haft ansi margt neikvætt í för með sér. Það sem gerðist á næstu mánuðum og árum eftir að þetta verðbólguviðmið var tekið upp, var svo sem ekki með öllu fyrirséð, en margt hefði farið á annan veg ef verðbólga hefði verið mæld án húsnæðisliðar.
Þróun vísitalna
Mismunurinn á breytingum á þessum tveimur vísitölu er ótrúlegur á síðustu 7 árum. Vísitala með húsnæðislið hefur hækkað úr 206,5 í 300,3 eða um 45,4% meðan vísitalan án húsnæðisliðar hefur farið úr 205 stigum í 269,6 eða um 31,5%. Reikna má með því að hluti þessarar hækkunar sé afleidd hækkun vegna fyrri vísitöluhækkunar.
Á tímabilinu frá apríl 2001 til apríl 2008 hefur verðbólga samkvæmt viðmiði Seðlabankans verið 68 sinnum (af 85 mánuðum) yfir verðbólgumarkmiði bankans og því kallað á aðgerðir bankans við stjórn peningamála (sjá nánar athugasemd nr. 6 við blogg mitt 11.4.). Eina tímabilið sem verðbólga með húsnæði hefur verið innan markmiða Seðlabankans er frá nóvember 2002 til apríl 2004. Ef notast hefði verið við vísitölu án húsnæðis, þá hefði verðbólga aðeins mælst 39 sinnum yfir verðbólgumarkmiðum, þar af 17 fyrstu mánuðina meðan markaðurinn var að venjast þeirri breytingu að krónan væri á floti. Næst fór verðbólga án húsnæðis óverulega upp fyrir verðbólgumarkmið á tímabilinu frá júní til desember 2004, þá í ,,bankakreppunni fyrri" frá maí 2006 til apríl 2007 og loks síðustu 3 mánuði.
Hvað hefði farið á annan veg?
En hverju hefði það breytt fyrir íslenskt efnahagslíf, ef verðbólgumarkmið Seðlabankans hefðu stuðst við vísitölu án húsnæðisliðar. Í fljótu bragði virðist mér það vera eftirfarandi:
- Stöðugleiki væri í íslensku efnahagslífi.
- Stýrivextir væru á bilinu 3 - 5%.
- Hækkun á markaðsverði húsnæðis hefði ekki farið jafnmikið út í verðlag í formi afleiddra hækkana og verðbólgumæling án húsnæðisliðar hefði verið ennþá lægri. Verðbólgan núna stæði í kringum 1,2% í staðinn fyrir 10,6% (11,8%).
- Íslenska krónan stæði traust og gengisvísitalan væri í kringum 120, ef ekki lægri. Það teldist góð staða, þar sem verðbólga á Íslandi hefði verið með lægsta móti á Evrópska efnahagssvæðinu samhliða góðum hagvexti.
- Hinn mikli hagvöxtur hefði skilað sér betur til samfélagsins, en ekki brunnið upp í verðbólgu.
- Kaupmáttur launa hefði haldist góður sem hefði leitt af sér meira jafnvægi á vinnumarkaði.
- Verðtryggð lán hefðu hækkað óverulega (1,5 - 2% á ári) fyrir utan tímabilið frá apríl 2001 til ágúst 2002 og síðan frá maí 2006 til apríl 2007, þar sem hækkunin hefði numið 6 - 10% í hvort skipti. Raunar er ekki víst að ,,bankakreppan fyrri" hefði orðið jafn skörp og raun bar vitni.
- Skuldir heimilanna hefðu aukist minna, m.a. vegna minni áhrifa af verðbótaþætti lána. Þessi áhrif gætu numið 20 - 30%, m.a. vegna afleiddra áhrifa.
- Þjóðfélagið hefði ekki verið jafn berskjaldað fyrir lausafjárkreppunni og raun ber vitni, þar sem gengi krónunnar hefði verið sterkt af eigin rammleika, en ekki vegna vaxtastefnu Seðlabankans. Spákaupmennska með vaxtamunasamninga hefði því ekki haft þær afleiðingar sem við höfum mátt horfa upp á síðustu mánuði. Jöklabréfin hefðu ekki komið til.
- Rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja væri þeim mun hagstæðara og talsverðar líkur væru á því að þetta hagstæða umhverfi hefði laðað hingað erlenda aðila til frekari fjárfestinga.
- Staða ríkissjóðs væri ennþá sterkari en raun ber vitni.
Búið og gert
Það er náttúrulega um seinan að horfa á þetta þessum augum. Þetta er búið og gert og verður ekki aftur tekið. Þessi íslenska sérviska að mæla verðbólgu á annan hátt en gert er í kringum okkur hefur reynst þjóðarbúskapnum dýr. Það getur vel verið að aðrir hafi sýnt þessari mælingu áhuga og hún sé ekki svo vitlaus, en hún hefur skekkt allan samanburð. Í samfélagi þjóða er samanburðarhæfni mjög mikilvæg. Hún hefur líka skekkt samkeppni, þar sem ósamanburðarhæf mælingin hefur gert það að verkum að stýrivextir hafa verið hækkaðir upp úr öllu valdi sem dregið hefur úr samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja. Í 33 mánuði á tímabilinu frá ágúst 2002 til apríl 2008 hefur Seðlabankinn talið sig hafa ástæði til að halda stýrivöxtum uppi, þegar í reynd hann hefði ekki þurft þess. (Teknir allir mánuðir á þessum tímabili þar sem vísitala neysluverðs án húsnæðis var undir 3%, en vísitala með húsnæði yfir 3%.) Þarna fór Seðlabankinn á mis við tækifæri til að styrkja hagkerfið og auka stöðugleika þess, en í staðinn ýttu aðgerðir hans undir óstöðugleika. Fyrst varð vaxtamunurinn til þess að gengið styrktist meira en góðu hófi gegndi og undanfarna mánuði hefur hann stuðlað að veikingu krónunnar (að hluta vegna spákaupmennsku). Hvorugt af þessu hefði gerst á jafn öfgakenndan hátt og raun bar vitni ef stýrivextir Seðlabankans hefðu verið nær stýrivöxtum seðlabanka í nágrannalöndum okkar.
Hvað er framundan?
Stóra spurningin núna er hvort þetta verðbólguskot sé liðið hjá. Það er ýmislegt sem bendir til annars. Í fyrsta lagi, þá er húsnæðisliðurinn ennþá að halda uppi 12 mánaða vísitölumælingunni. Það mun líklegast halda áfram fram á mitt ár og þá mun verðbólgan fara hægt og sígandi niður á við. Þetta ræðst þó mikið af þróun gengis. Haldist krónan veik áfram (yfir 140 stigum), þá munu áhrifin vara lengur. Hækki gengi krónunnar tiltölulega hratt, þannig að gengisvísitala fari í um 130 á næstu 4 vikum, þá munum við sjá verðbólgutölur í kringum 6% með haustinu. Síðast þegar gengisvísitalan fór í 150 (þ.e. í nóv. 2001), þá hélst verðbólga (án húsnæðisliðar) yfir 6% fram í maí 2002. Eftir gengislækkunina á vormánuðum 2006, hélst verðbólgan án húsnæðisliðar yfir 5,5% fram í febrúar 2007. Það er því ljóst að svona verðbólguskot það mælist lengi, þó svo að verðbólga milli mánaða lækki hratt.
Þegar jafnvægi verður náð á húsnæðismarkaði, þá verður líklegast tímabært að breyta verðbólgumarkmiðum Seðlabankans, þannig að miðað verði við vísitölu neysluverðs án húsnæðisliðar. Slík mæling endurspeglar mun betur raunverulega breytingu á útgjöldum heimilanna en vísitala með húsnæðisliðnum. Ekki gera ráð fyrir að það gerist fyrr en eftir 3 - 5 ár. Um sama leiti er skynsamlegt að leggja af verðtryggingu lána. Hún er barn síns tíma og þó hún hafi átt rétt á sér í kringum 1980, þá eru aðstæður allt aðrar í dag. Þó verðtryggð lán hverfi, þá er ekki þar með sagt að ekki megi nota vísitölur til viðmiðunar við alls konar útreikninga. Ýmsir hafa haldið því fram að verðtrygging sé nauðsynleg fyrir lífeyrissjóðina, en ég held að það sé ekki rétt. Sjóðirnir þurfa áfram að ávaxta fé sitt eins vel og hægt er og reikna síðan áunnin réttindi sjóðfélaga út frá því. Verðtrygging hefur ekki komið í veg fyrir skerðingu réttinda né stuðlað að hækkun þeirra. Það hefur alfarið ráðist af því hve góðir stjórnendur sjóðanna hafa verið í að ávaxta eigur sjóðanna/sjóðfélaganna. Þeir sem ég þekki til (og þekki nokkuð marga) hafa verið einstaklega góðir í gegnum tíðina, þó síðasta ár hafi kannski ekki gefið sömu ávöxtun og árin þar á undan. En við skulum muna að þetta er langhlaup, ekki spretthlaup.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 0
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 51
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 46
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Þetta var/er auðvitað hárrétt hjá þér, Steingrími og fleirum sem ígrunduðu ástandið almennilega. Hér er nýr fyrirlestur sem vert er að hlusta á - allar 40 mínúturnar! http://video.google.ca/videoplay?docid=7382297202053077236
H G, 28.10.2008 kl. 00:44
Takk fyrir þessa endurbirtingu Marinó.
Þetta er einfaldlega frábær grein og einhver skynsamlegasta röksemdafærsla sem ég hef séð um þetta efni.
En hvernig fáum við lífeyrissjóðina og stjórnvöld til þess að samþykkja þá stefnu að verðtrygging verði afnumin? Hví ætti það ekki einmitt að gerast í dag, í gjörbreyttu landslagi? Þá er ég að meina að þegar lánsfjármarkaður fer að hreyfast að nýju, þá verði nýju lánin án verðtryggingar. Eldri lánasamningar breytast væntanlega ekki, nema ef vera skyldi að verðtryggingarstuðull þeirra yrði endurreiknaður. Það hlýtur reyndar að vera krafa okkar (skuldaranna) að höfuðstóll lána verði endurreiknaður (lækkaður) í ljósi þess að 80% nýleg lán verða nú á bilinu 110-200% vegna verðfalls fasteigna, sem hlýtur að vera óhjákvæmilegt. Ég og sennilega ansi margir aðrir einfaldlega missa húsin sín og þurfa að byrja upp á nýtt með svo sem hálft húsverð í neikvæða forgjöf. Mjög árennilegt eða hitt þó heldur og e.t.v. skynsamlegra að byrja með hreint borð annars staðar í heiminum en að reyna að vinda ofan af þessu, eða hvað?
Karl Ólafsson, 28.10.2008 kl. 12:03
Sæll Steingrímur, ég svo sem áttaði mig á þessum klofna persónuleika, en var ekki viss um að ég ætti að fara segja Söguna af Evu (The Story of Eve) til að skýra út tengslin milli innri og ytri sjálfsins í þér
En þú (eða var það Delbert) hittir alveg í mark með blöðruna. Flott samlíking. Það er með þetta eins og Nostradamus, að spakmælin skiljast ekki fyrr en eftir atburðina.
Marinó G. Njálsson, 31.10.2008 kl. 13:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.