Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2011

Er aðkoma Samtaka atvinnulífsins að kjarasamningum brot á samkeppnislögum? - Röng taktík launþegahreyfinga dregur úr launahækkunum

Undanfarin ár hafa nokkur áberandi samtök verið sektuð af Samkeppniseftirliti fyrir það sem er að mati stofnunarinnar ólöglegt samráð um verðhækkanir.  Ein af þessum samtökum voru Bændasamtökin eða einhver grein innan þeirra.  Glæpur þeirra var að stuðla að hækkun verð á landbúnaðarafurðum og hafa þannig bein áhrif á hækkun tekna bænda.  Ekki ætla ég að mæla þessu bót, langt því frá.

Ástæðan fyrir því að ég rifja þetta upp, er aðkoma Samtaka atvinnulífsins (SA) að kjarasamningum.  Mér sýnist sem  séu með samkeppnishindrandi tilburði með því að gefa út alls konar skilaboð til atvinnurekenda og einstakra starfsgreinasambanda innan sinna vébanda, að engir munu "fá aðrar launahækkanir en aðrir hópar semja um", eins og haft er eftir Vilmundi Jósefssyni.  Ég sé ekki muninn á því að samræmast um takmörkun á kauphækkunum og að samræmast um hækkun matarverðs.

Líklegast hafa samtök atvinnurekenda tryggt að undanþága er til staðar í samkeppnislögum sem heimilar hömlur á samkeppni af þessum toga.  Hefur ekki Verslunarráð stært sig af því að 90% allra tillagna þeirra um lagabreytingar hafi ratað inn í lög.  Því ættu félagar þeirra innan SA að hafa verið einhverjir eftirbátar?

Frelsi til samninga í orði en ekki borði

Nú segir vafalaust einhver, að það sé frjáls samkeppni á launamarkaði og atvinnurekendum sé frjálst að bjóða hærra kaup en kjarasamningar gera ráð fyrir.  Satt og rétt svo langt sem það nær.  Ég leyfi mér að fullyrða að nær öll laun í landinu taka á einn eða annan hátt mið af kjarasamningum.  Þau eru ýmist bein taxtalaun, eitthvert margfeldi af launataxta eða taka fasta krónutölu ofan á taxta.  Hækki launataxtar um 2,5% þá ratar sú prósentutala á einn eða annan hátt til allra sem hafa laun sín tengd við taxtana.  Annað sem ég þori að fullyrða, að ekki væri þörf fyrir launahækkanir, ef hér á landi ríkti algjört frelsi í launamálum.  Við værum ekki með stóra hópa í landinu á lágmarkslaunum sem að auki duga ekki fyrir framfærslu einstaklings.  Raunar væri ekki þörf fyrir jafn víðtækar kjaraviðræður ef hér á landi ríkti í raun og veru algjört frelsi í launamálum.  Nei, slíkt frelsi er ekki til staðar og það hindrar samkeppni að atvinnurekendur skuli fá að sammælast um þær hækkanir og kjör sem launþegum eru boðin.  Skiptir þá í mínum huga ekki máli hver viðsemjandinn er, þ.e. Samtök atvinnulífsins, launanefnd sveitarfélaganna eða ríkið.

Af hverju eiga öll fyrirtæki að bjóða sömu hækkun á laun óháð stöðu þeirra?  Af hverju eiga fyrirtæki sem eru svo heppin að standa vel, að láta hin sem standa illa ákvarða hvaða launahækkanir starfsmenn þeirra fá?  Hvers vegna eiga sveitarfélög í vanda að ráða því hve vel er gert við starfsmenn sveitarfélaga sem eru á grænni grein (ef slíkt sveitarfélag er þá til)?  Hvers vegna á opinber vinnustaður, þar sem vantar starfsmenn (vegna slakra launa eða lítt áhugaverðs starfsumhverfis), að vera felldur undir sömu launastefnu og launahækkanir og vinnustaður sem ekki skortir starfsfólk?  Ekkert af þessu stenst heilbrigða skynsemi, en launagreiðendur komast upp með þess framkomu, þar sem viðsemjendurnir leyfa þeim það eða geta ekkert við því gert.

Á hinn bóginn má segja að óeðlilegt sé að launþegahreyfingarnar fái að komast upp með samráð um kröfur.  Það á heldur ekki að vera leyfilegt út frá samkeppnissjónarmiðum.

Allir að verða jafnilla settir

Þessi einsleitni í velferðarsamfélaginu sem samflot í kjaraviðræðum hefur skapað er að verða til þess að allir verða smátt og smátt eins illa settir.  Leitað verður sátt á lægsta samnefnaranum sem færir öllum sömu fingurbjörgina, þ.e. nánast ekki neitt og oft minna en ekki neitt.  Jafnaðarmennskuhugsun ASÍ er að leiða til þess að félagsmenn bera í reynd sífellt minna úr bítum.  Í hvert sinn sem lægstu taxtar eru hækkaðir umfram taxtana fyrir ofan, þá færast lægstu taxta nær meðaltöxtum.  Eftir þrjár til fjórar umferðir er bilið á milli lægstu taxta og meðaltaxta orðið svo lítið, að nær allir launamenn eru komnir nánast á lægstu taxta og launagreiðendur sem greiddu einu sinni 30 - 40% hærri laun en lægstu taxtar voru, greiða núna laun sem eru 10 - 15% yfir lægstu töxtum.  Núna líður sem sagt nær öllum launamönnum að meðaltali jafnilla.  Jafnaðarmennskan hefur unnið.

Laun byggja á goggunarröð

Fyrir tæpum 15 árum sat ég ásamt tveimur öðrum í samninganefnd aðstoðarstjórnenda í framhaldsskólum.  Elna Katrín Jónsdóttir fór fyrir samninganefnd kennara þá og var ljóst frá upphafi að enn einu sinni átti að hunsa kaupkröfur okkar aðstoðarstjórnenda.  En þegar við vorum búinn að leggja málin á borðið fyrir Elnu Katrínu, þá gat hún ekki annað en samþykkt aðgerðaáætlun okkar.  Staðan á þeim tíma var sú, að hæsti taxti kennara var um kr. 168.000.  Skipti þá ekki máli hvort hann var aðstoðarstjórnandi eða bara svona sprenglærður.  Stefna KÍ var að hrófla ekki við þessu þaki en færa þá sem voru á lægri grunnlaunum (algeng á bilinu 110 - 135 þúsund) ofar.  Þetta hefði haft tvennt í för með sér, sem okkur fannst óæskilegt: 1) umbunin fyrir að taka að sér starf aðstoðarstjórnanda fór minnkandi og jafnvel hvarf alveg; 2) best menntuðu kennararnir (þar með þeir sem voru komnir í hæstu launaflokka) misstu hluta af umbun sinni fyrir að vera vel menntaðir.  Planið sem lagt var fyrir Elnu var einfalt.  Svipta þyrfti þakinu af launatöflunni og leyfa aðstoðarstjórnendum að vinna upp það sem tapast hafði í undanförnum samningum.  Rýmið milli aðstoðarstjórnenda og kennara stækkaði tímabundið, en um leið væri rudd leiðin fyrir launahækkun kennara í framhaldsskólum í komandi samningum og það sem meira var grunnskólakennarar gætu fylgt í kjölfarið og síðan leikskólakennarar.

Taktík sem ekki gengur upp

Staðreyndin er sú að launakerfi er byggt á goggunarröð.  Innan þess hluta skólakerfisins sem lítur samningum við ríki og sveitarfélög, þá er goggunarröðin sú að rektor Háskóla Íslands er best launaður.  Út frá rektor HÍ myndast þrjár raðir.  Fyrsta er aðrir rektorar, önnur er skólameistarar framhaldsskóla og sú þriðja kennarar og starfsmenn HÍ.  Efsti einstaklingur á hverjum lista raðast a.m.k. þrepi neðar en rektor HÍ og svo koll af kolli.  Nú efstur á lista skólameistara framhaldsskólanna kemur sá skólameistari sem er með stærsta skólann (þá voru það Iðnskólinn og FB) og síðan raðast aðrir skólameistarar þar fyrir neðan.  Aðstoðarstjórnendur í hverjum skóla raðast fyrir neðan skólameistara sinn, þannig að laun aðstoðarstjórnenda ráðast m.a. af stærð skólans.  Auk þess taka laun kennara í framhaldsskólum mið af launum skólameistara og síðan laun skólastjóra í grunnskólum.  Þetta goggunarraðarkerfi ásamt jafnaðarmennsku launastefnunni að sífellt þrengra bil verður á milli þeirra sem eru í efstu þrepum goggunarraðarinnar og þeirra sem eru í neðstu þrepum.  Munurinn á kaupmætti þeirra best launuðu og þeirra sem lökust hafa launin minnkar auk þess vegna skattastefnu stjórnvalda, sem halda að hafi maður 350 þús.kr. á mánuði, þá sé viðkomandi hátekjumaður. 

Mergur málsins er að þeir sem semja fyrir launþegahreyfinguna hafa látið viðsemjendur sína plata sig til víðtæks samráðs sem hefur dregið úr launakostnaði atvinnurekenda á undanförnum árum á þeim grunni að bæta þurfi kjör þeirra verst settu samanborið við þá sem eru fyrir ofan án þess að gæta að því að bæta kjör þeirra sem eru fyrir ofan nægilega mikið.  Ég skil vel að launþegahreyfingin vilji bæta kjör hinna lægst launuðu, en ef þakið er ekki hækkað nægilega um leið, þá verður fljótlega orðið ansi þröngt þar uppi.

Yfirborganir að hverfa - ríkið niðurgreiðir launakostnað

Stærsti munurinn á launakerfinu sem nú er ríkjandi og því sem var fyrir 20 árum eða svo, er að þá voru miklar og almennar yfirborganir á launataxta.  Ég tók t.d. laun á þeim tíma samkvæmt taxta VR með umtalsverðri yfirborgun.  Samkvæmt því sem ég hef heyrt, þá eru þessar yfirborganir nær alveg úr sögunni.  Fólk fær strípuð taxtalaun (sem er ekkert athugavert við) og því er mikilvægt að þau séu nægilega há til þess að fólk geti framfleytt sér og sínum á þeim launum.  Ríkið hefur með persónuafslætti vegna skatta og sjómannaafslætti í reynd greitt niður launakostnað atvinnulífsins.  Vissulega þyrfti skattprósentan ekki að vera eins há, ef enginn væri afslátturinn, en hér er samt um niðurgreiðslu á launum að ræða.  Sjómannaafslátturinn er ennþá skýrara dæmi um þessa niðurgreiðslu launakostnaðar.  Varla eru gerðir samningar án þess að launafólk taki þátt í því að greiða fyrir launahækkanir.  Hvað er inngrip ríkisins annað en það að launþegar eru að greiða fyrir eigin launahækkanir?

Réttlát leiðrétting skulda dregur úr þörf fyrir kauphækkunum

Kaldhæðnin er að rekja má ástæðuna fyrir mikilli þörf á launahækkunum til örfárra fyrirtækja innan Samtaka atvinnulífsins.  Þá er ég að vísa til hinna föllnu fjármálafyrirtækja.  Þessi fyrirtæki eiga jafnframt sök á því að launagreiðendur eiga ekki eins hægt um vik að hækka launin.  Lausnin virðist því vera að ráðast á rót vandans, þ.e. skuldabyrði fyrirtækja og heimila sem er afleiðing gjörða fjármálafyrirtækjanna í aðdraganda hrunsins. Staðreyndin er að það myndi koma nær öllum heimilum og fyrirtækjum landsins betur að leiðrétta skuldsetningu þeirra og stilla launahækkunum í hóf.  Meðan ekki er hróflað svo nokkru nemur við skuldsetningunni, þá er eina lausn heimilanna að laun hækki umtalsvert.


mbl.is Fá ekki meiri hækkanir en aðrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúleg játning varaformanns Sjálfstæðisflokksins: Óvanalegt að foringi í stjórnarandstöðu standi með því sem er rétt fyrir þjóðina

Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, varð heldur betur fótaskortur á tungunni í viðtali á Bylgjunni í morgun.  Heimir og Kolla voru að spyrja hana út í ólguna innan Sjálfstæðisflokksins með afstöðu Bjarna Benediktssonar, formanns flokksins, og átta annarra þingmanna gagnvart Icesave.  Viðbrögð hennar voru nokkurn veginn eftirfarandi:

Formaður flokksins stígur það skref, sem er mjög óvanalegt, tel ég, fyrir foringja í stjórnarandstöðu, að standa með því sem hann telur rétt fyrir þjóðina.

Hvorki Heimir né Kolla kveiktu á þessari ótrúlegu játningu Ólafar, að markmið stjórnarandstöðu Sjálfstæðisflokksins (a.m.k. miðað við hennar orð) sé ekki að gera það sem flokkurinn telur rétt fyrir þjóðina.   Það kom síðan fram í máli Ólafar að þingflokkurinn hafi verið lengi að komast að þessari niðurstöðu, þ.e. "að standa með því sem hann telur rétt fyrir þjóðina" og ekki voru allir sammála í þingflokknum um það.

Þetta kom hugsanlega eitthvað öfugt út úr varaformanninum,en hún sagði þetta.  Hún sagði það vera óvanalegt að foringi í stjórnarandstöðu tæki afstöðu til mála með hagsmuni þjóðarinnar í huga. Ólöf talar ekki fyrir hönd annarra stjórnarandstöðuflokka, fyrr eða síðar, og því ber ekki að yfirfæra orð hennar yfir á Hreyfinguna eða Framsókn.  Orð hennar voru samt mjög skýr og hún gerði enga tilraun til að leiðrétta þau:

Formaður flokksins stígur það skref, sem er mjög óvanalegt, tel ég, fyrir foringja í stjórnarandstöðu, að standa með því sem hann telur rétt fyrir þjóðina.

Hún segir síðar í viðtalinu, að Sjálfstæðisflokkurinn sé óvanur að vera í stjórnarandstöðu.  Reikna ég með því að sú staðreynd liti þessa afstöðu, þ.e. stjórnarandstöðuflokkurinn Sjálfstæðisflokkurinn heldur, að í því felist að vera í stjórnarandstöðu, að taka almennt þá afstöðu til mála að standa EKKI "með því sem hann telur rétt fyrir þjóðina".

Skýrir þetta, í mínum huga, margt í framgöngu flokksins, t.d. í málefnum heimilanna.  Hefur mér fundist flokkurinn mjög oft hafa lagt sig í líma við að strjúka þjóðinni öfugt og ýfa því sárin frekar en að finna lækningu.  Það sést líka í afstöðu flokksins til auðvaldsins (og þar með kvótahafa), þar sem ekki hefur mátt skerða á nokkurn hátt réttindi þessara aðila, en á sama tíma berst flokkurinn (mér liggur við að segja) fyrir því að heimilin beri eins skertan hlut frá borði eftir svik, lögbrot og pretti eigenda og stjórnenda fjármálafyrirtækjanna, sem svo virðist að séu ótrúlega margir flokksbundnir eða a.m.k. yfirlýstir Sjálfstæðismenn.  Það er mín upplifun, að Sjálfstæðisflokkurinn vilji að sem flestir hlutir fari í hund og kött í þjóðfélaginu, svo hann geti barið sér á brjósti fyrir næstu kosningar og bent á það sem úrskeiðis fór, þegar hann var ekki á vaktinni.  Kannski varð Ólöfu ekkert fótaskortur á tungunni. 

Kannski er það í raun og veru stefna Sjálfstæðisflokksins í stjórnarandstöðu að standa bara í undantekningartilfellum við það sem flokkurinn telur vera rétt fyrir þjóðina. 

Ég náði ekki að hlusta á viðtalið strax til enda, mér varð svo um ummæli hennar, en hún eiginlega bítur höfuðið af skömminni síðar í viðtalinu og dregur ennþá frekar línu undir það, að foringi í stjórnarandstöðu eigi fyrst og fremst að vinna gegn hagsmunum þjóðarinnar. Þá var hún spurð um það sem koma skal og sagðist hún hafa gott dæmi um það í þessari ákvörðun Bjarna Benediktssonar í síðustu viku og sagði:

Hvað gerði hann? Tók hann ákvörðun, eins og formaður hefði venjulega gert í stjórnarandstöðu? Nei, hann gerði það ekki.  Hann ákvað að standa með því sem hans flokkur hafði gert.

Svona heldur maður stundum að fólki hafi orðið fótaskortur á tungunni, en í ljós kemur að svo var alls ekki.  Hitt er annað mál, að Bjarni Benediktsson tók, samkvæmt orðum Ólafar, eingöngu þessa afstöðu til Icesave vegna þess að Geir H. Haarde hafi þessa afstöðu á sínum tíma.  Niðurstaðan er í mínum huga einföld:

Hafi Sjálfstæðisflokkurinn gert mistök í fortíðinni, þá ætlar núverandi forysta flokksins ekki að viðurkenna það heldur standa við mistökin.  Það er nefnilega betra að viðurkenna ekki að mistök hafi verið gerð, því þá halda kjósendur flokksins að hann sé óskeikull.  Sjálfstæðisflokkurinn er ekki flokkur sem ætlar að læra af reynslunni.

Annars er svo margt ótrúlega merkilegt í þessu viðtali, að ég skora á fólk að hlusta á það.  Má þar nefna stóriðju, nýtt viðhorf Sjálfstæðisflokksins til ráðherraábyrgðar (þ.e. Ögmundur eigi að segja af sér en ekki Geir, Þorgerður, Árni Matt, Björn og þeir aðrir sem sátu þegar allt hrundi yfir okkur), gagnrýni á afturhald í atvinnumálum frá flokki sem gerði ekkert til að verja störfin í kjölfar hrunsins og margt fleira.  Tengilinn á það má finna hér.


Ekki láta blekkjast. Grunnviðmið er án bíls og húsnæðis.

Ég bið fólk að láta ekki blekkjast. Grunnviðmiðið er í reynd hærri tala en skammtíma viðmiðið, þegar maður bera saman hvað er talið með í hvoru um sig. Inn í grunnviðmiðið vantar húsnæðiskostnað og eingöngu er reiknað með almenningssamgöngum. Á móti kemur að neysluvörur, þjónusta og tómstundir vega þyngra í grunnviðmiðinu en í skammtíma viðmiðinu.  Þegar maður tekur neysluvörur, þjónustu og tómstundir frá grunnviðmiði og samgöngu og húsnæði frá skammtímaviðmiði, þá fæst kr. 214.027 sem er nærri 13.000 kr. hærri tala en skammtíma viðmiðið er. 

Sé einstaklingur með framfærslukostnað upp á kr. 214.027, þá þurfa ráðstöfunartekjur að lágmarki að ná þeirri upphæð.  Næst hlýtur maður að spyrja hve háar þurfa tekjurnar að vera.  Svarið er:

kr. 288.288

miðað við núverandi skattprósentu og persónuafslátt, að greidd séu 4% í lífeyrissjóð og 1% í stéttarfélagsgjald.  Nú er spurningin hvernig verkalýðshreyfingin notar þessar upplýsingar.  Höfum í huga að hækki ríkisstjórnin persónuafslátt um t.d. 30.000 kr., þá duga kr. 240.000 til að eiga fyrir grunnneysluviðmiði einstaklings miðað við að hann lifi nákvæmlega eftir forskriftinni. 


mbl.is Grunnviðmið 86.530 krónur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er ég hlessa - Viðmið sem sýna raunveruleikann

Ég vil byrja á því að fagna útkomu skýrslu starfshóps velferðarráðuneytisins um neysluviðmið.  Lagt hefur verið í talsverða vinnu við að ákvarða fjölmörg viðmið og skilgreina hver þeirra eru breytileg, þ.e. hægt að vera án í stuttan tíma, og hver þeirra eru nánast óbreytileg.  Auðvitað má deila um margt í skýrslu hópsins, en mér finnst ekki vera tími til þess núna.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa verið mjög gagnrýnin á þau neysluviðmið sem stuðst hefur verið við í  mati á skuldavanda heimilanna.  Ítrekað hefur verið bent á að viðmið ráðgjafastofu um fjármál heimilanna væru allt of knöpp og þar með allar viðmiðanir bankanna við úrvinnslu mála.  Finnst mér sem HH hafi fengið viðurkenningu á sínum málflutningi með skýrslu starfshópsins.

Eitt helsta ágreiningsefnið í vinnu hins svo nefnda sérfræðingahóps forsætisráðuneytisins um skuldavanda heimilanna, sem ég sat í, var hvaða neysluviðmið ætti að styðjast við, þegar verið væri að meta stöðu heimilanna.  Ég var nokkuð sér á báti og hvatti til þess að viðmið úr neyslukönnun Hagstofu Íslands væru notuð meðan fulltrúar stjórnvalda (og fjármálafyrirtækjanna) vildu halda í örlítið upppoppað naumhyggjuframfærsluviðmið embættis umboðsmanns skuldara.  (Hafa skal í huga að umboðsmaður skuldara hafði lýst þvi yfir í fyrra starfi sínu sem forstöðumaður ráðgjafastofu um fjármála heimilanna, að þau viðmið væru gagnslaus.)  Staða heimilanna fór nefnilega frá því að vera alvarleg yfir í að vera grafalvarleg, ef gögn Hagstofunnar voru notuð.  Nú eru komnir nýir útreikningar og þó þeir séu ekkert heilagri en aðrir, þá benda þeir til þess að ef eitthvað var, þá var ég of bjartsýnn á getu fólks til að lifa á litlum pening.

Fyrir þá sem vilja kynna sér neysluviðmið umboðsmanns skuldara þá er þau að finna hér.   Fyrir einstakling eru þau kr. 58.100.  Þessi tala var margfölduð með 1,5 og síðan bætt við bíl ef það átti við.  Það gaf okkur neyslu upp á kr. 129.150 kr. án húsnæðiskostnaðar.  Sambærileg tala hjá velferðarráðuneytinu er kr. 218.960 mismunur upp á kr. 89.810 eða tæp 70%.  Vissulega gefur velferðarráðuneytið upp skammtímaviðmið sem fólk á að geta lifað við í nokkra mánuði (miðað við allt að 9 mánuði).  Er það mjög svipað grunnviðmiði "sérfræðingahópsins" og munar eingöngu um 4.000 kr.  Einhver myndi segja að grunnviðmið "sérfræðingahópsins" hafi þá bara verið nokkuð nærri lagi fyrst munurinn er ekki meiri.  Svo er ekki.  Ástæðan er að útreikningar "sérfræðingahópsins" áttu ekki að miða við naumhyggjuframfærslu í skamman tíma heldur framfærslu sem hægt væri að halda við í 3 ár.  Á þessu er mikill munur.

En svona til gamans þá koma hér nokkrar tölur fyrir annars vegar einstakling og hins vegar hjón með tvö börn:

Einstaklingur:

Hagstofan - meðalneysla kr. 256.068 (verðlag 2008)

Hagstofan - lægsti tekjuhópur kr. 203.346 (verðlag 2008)

Dæmigert viðmið kr. 291.932

Skammtíma viðmið (með húsnæði og bíl) kr. 201.132

Grunnviðmið (án húsnæðis og bíls) kr.  86.530

Grunnviðmið með húsnæði frá skammtíma viðmið kr. 154.431

Grunnviðmið með húsnæði + bíll frá skammt.viðmiði kr. 214.027

Neysluviðmið umboðsmanns skuldara (án húsnæðis og bíls) kr. 58.100

Neysluviðmið umb.s. með húsnæði frá skammtíma viðmiði kr. 126.001

Neysluviðmið umb.s. með húsnæði og bíl kr. 177.001

Hjón með tvö börn :

Hagstofan - meðalneysla kr. 559.131 (verðlag 2008)

Hagstofan - lægsti tekjuhópur kr. 549.035 (verðlag 2008)

Dæmigert viðmið kr. 617.610

Skammtíma viðmið (með húsnæði og bíl) kr. 447.544

Grunnviðmið (án húsnæðis og bíls) kr.  286.365

Grunnviðmið með húsnæði frá skammtíma viðmið kr. 402.949

Grunnviðmið með húsnæði + bíll frá skammt.viðmiði kr. 480.243

Neysluviðmið umboðsmanns skuldara (án húsnæðis og bíls) kr. 157.300

Neysluviðmið umb.s. með húsnæði frá skammtíma viðmiði kr.  273.884

Neysluviðmið umb.s. með húsnæði og bíl kr.  314.884

 

Ég veit ekki hvort einhverjir hópar falla í raun og veru inn í þau neysluviðmið sem sýnd eru að ofan.   Viðmiðin segja ýmislegt varðandi möguleika fólks á að lifa mannsæmandi lífi á þeim launum sem boðið er upp á vinnumarkaði, hvað þá bótum lífeyriskerfisins.  Ríkisskattstjóri getur síðan velt fyrir sér hvort allar tekjur, sem fólk þyrfti að hafa, komi fram í skattframtölum.


mbl.is Viðmið einstaklings 292 þús
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upplýsingar um heiðarleg viðskipti óskast

Í ljósi frétta í fjölmiðlum um að varla nokkur viðskipti yfir einum milljarði króna að verðmæti sem hin föllnu íslensku fjármálafyrirtæki áttu á einn eða annan hátt aðkomu að á undanförnum árum hafi verið heiðarleg heldur hafi eitthvað plott búið að baki, þá langar mig að freista þess að afsanna það.  Ég held að það sé orðið mikilvægt fyrir þjóðina að fram komi a.m.k. einn af fyrrverandi eigendum föllnu fjármálafyrirtækjanna eða úr hópi vildarviðskiptavina þeirra, sem tók lán að fjárhæð yfir 1 ma.kr. og var með öruggar og fullgildar tryggingar fyrir lánum sínum og hefur staðið í skilum með greiðslur af þeim, þ.e. ekki fengið lánin afskrifuð.  Á sama hátt er mikilvægt að einhver gefi sig fram, sem keypti hlutabréf eða stofnbréf að fjárhæð yfir 1 ma.kr. og átti fyrir þeim, fékk lán fyrir þeim sem ekki var komið frá viðkomandi fjármálastofnun og setti örugg og fullgild veð fyrir þeim (veð í bréfunum sjálfum teljast ekki örugg). Ég tek það fram að ég legg að jöfnu einstaklinginn og öll félög sem hann notaði til að vista eignarhald sitt og lántökur í.

Ég auglýsi því hér með eftir upplýsingum um heiðarleg og eðlileg viðskipti milli einhvers af bönkunum þremur annars vegar og eigenda þeirra eða vildarviðskiptavina hins vegar.  Jafnframt óska ég eftir upplýsingum um heiðarleg viðskipti með annars vegar hlutabréf í bönkunum eða skuldabréf útgefnum af þeim að fjárhæð hærri en 1 milljarður.  Þá auglýsi ég eftir sams konar upplýsingum sem snerta SPRON, Straum, BYR og Sparisjóð Keflavíkur.

Leit að heiðarlegum og eðlilegum viðskiptum við fjármálafyrirtæki eða bréf þeirra að fjárhæð yfir 1 milljarð á tímabilinu frá ársbyrjun 2006 og til ársloka 2010 mun vonandi bera árangur fljótt og vel, þó ég sé sjálfur ekki vongóður.  Skora ég á fjölmiðla að taka þátt í þessari leit, því verið getur að hér á landi finnist heiðarleiki meðal efnafólks og bankamanna.  Fjölmiðlar geta þannig hjálpað til við að hressa upp á sálartetur þjóðarinnar með því að birta upplýsingar um þess heiðarlegu einstaklinga, efnafólk sem ekki var á kafi í ruglinu með fjármálalífinu.

(Þó þetta sé sett fram í kaldhæðni, þá fylgir þessu viss alvara.  Svo virðist sem ekki sé til eitt einasta dæmi um heiðarleg viðskipti með aðkomu hinna föllnu fjármálafyrirtækja eða bréf þeirra hafi upphæð viðskiptanna farið yfir tiltekna upphæð.)


mbl.is Viðskiptin geta vart talist eðlileg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gróf sögufölsun

Það er bull að bönkunum hafi verið leyft að falla.  Hér rembdust ríkisstjórn Geirs H. Haarde og Seðlabanki Íslands undir stjórn Davíðs Oddssonar eins og rjúpan við staurinn í hátt í ár við að halda þessum svikamyllum gangandi.  Leyfðu þeim á meðan að mergsjúga almenning og fyrirtæki í landinu.  Bankarnir féllu þegar úrræði stjórnvalda og Seðlabanka þrutu.  Þegar það kom í ljós að svikin og prettirnir voru svo mikil að þeim var ekki bjargað.  Eftir að stjórnendur og eigendur bankanna höfðu ákveðið að það skipti meira máli að bjarga eigendunum og vildarvinum en ekki bönkunum sjálfum.  þeir féllu út af meðvirkni stjórnvalda, Seðlabanka og Fjármálaeftirlits sem köstuðu sér fyrir fætur fjárglæframönnunum í hvert sinn sem þeir opnuðu munninn og vegsömuðu þá, fóru með fagurgala um grundir til að lýsa snilld þeirra.  Þeir væru misskildir snillingar.  Hefðu fundið töfrauppskriftina sem reyndari bankamenn kunnu ekki vegna þess að þeir væru ekki nægilegir snillingar.

Að Ólafur Ragnar Grímsson komi núna fram í erlendum fjölmiðlum og segi að við hefðum leyft bönkunum að falla er að núa salti í sár almennings sem þarf að bera stríðskostnaðinn á herðum sér.  Stjórnvöld leyfðu þeim vissulega ýmislegt.  Svo sem að vaða yfir almenna viðskiptavini sína á skítugum skónum, að tæma sjóði Seðlabankans, brjóta lög og reglur hægri vinstri, að fella krónuna, að ræna eigin banka innan frá og svona mætti lengi telja.  En að ein vanhæfasta ríkisstjórn Íslandssögunnar, ríkisstjórn Geirs H. Haarde, hafi leyft bönkunum að falla er fáránlegasta söguskýring sem ég hef heyrt og sýnir að annað hvort er Ólafur Ragnar ekki í neinum tengslum við raunveruleikann eða að hafin er áróðurherferð á alþjóðavísu til að fela fyrir umheiminum vanhæfi allra þeirra sem áttu að gæta þess að bankarnir gerðu ekki það sem þeir gerðu.  Hvítþvotturinn er hafinn, moka á yfir spillinguna og vanhæfið.  Ætli þetta verði líka vörn Geirs H. Haarde fyrir Landsdómi.

Höfum það alveg á hreinu, að bankarnir féllu ekki af því að einhver leyfði þeim það.  Stjórnvöld hefðu ekki getað komið veg fyrir það október 2008, þó þau hefðu reynt.  Vil ég rifja upp orð Geirs H. Haarde sem höfð eru eftir honum á mbl.is í frétt sem birtist kl. 23:17 5. október 2008:

Þessi helgi hefur skilað því að við teljum núna ekki lengur nauðsynlegt að vera með sérstakan pakka með aðgerðum..

Og svo segir í fréttinni:

Geir sagði að ekki yrði gripið til neinna sérstakra ráðstafana hér og nú og hann teldi heldur ekki ástæðu til þess. Hann neitaði því að búið væri að útvega 500 milljarða lánalínu frá Seðlabanka Evrópu. Hann vildi ekki gefa upp hvort von væri á tilkynningu fyrir opnun markaða í fyrramálið.

Fundi ríkisstjórnarinnar er nú lokið og sagðist Geir vera á leið á fund með þingflokki Sjálfstæðisflokksins. „Svo ætla ég heim og vonast til að geta fengið smá hvíld. Það er varla að ég sé búinn að borða morgunmat.“

Já, blessaður maðurinn hafði áhyggjur af því að hafa varla borðað morgunmat.  Hann hefur kannski ekki fengið morgunkaffið heldur eða hvernig var þetta hjá Hobbitunum:   "Hvað með morgunmat? En morgndegismat? Hádegismat og kaffi? Seinna kaffi og kvöldmat ásamt seinni kvöldmat, kvöldnasli, kvöldnarti og te fyrir svefninn?"  Var það nema von að hann tók rangar ákvarðanir hafandi verið sveltur allan daginn!

Ber þetta allt vott um að stjórnvöld hafi haft eitthvað val, hvað þá getu?  Nei, hér sat vanhæf ríkisstjórn og hún lét bankana falla á heimilin í landinu en ákvað að bjarga þeim sem áttu innstæður í bönkum.


mbl.is Leyfðum bönkunum að falla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frétt um fund eða fréttatilkynning og auglýsing - Hjáróma fagurgali meðan að tjónið hefur ekki verið bætt

Stundum finnst mér fréttamiðlar gjörsamlega gleyma því að þeir eiga að segja fréttir en ekki endursegja fréttatilkynningar.  Eitt svona dæmi er að finna á visir.is þar sem "fjallað" er um fund NBI ehf. (Landsbankans) á Akureyri í gærkvöldi.  Fyrirsögnin er Fullt út úr dyrum á Landsbankafundi.  Ég hélt í einfeldni minni að fréttin yrði um fundinn, en svo var ekki.  Fréttin fjallar um innihald opnuauglýsinga sem NBI hefur birt m.a. í Fréttablaðinu undanfarna daga.  Allt sem sagt var um fundinn er eftirfarandi:

..mjög góð mæting hafi verið á fundinn og sköpuðust líflegar umræður að loknum erindum..

Var ekki sendur blaðamaður frá visir.is eða Fréttablaðinu á þennan fund?  Það er alveg vitað, að á þessum fundum NBI mun koma fram heiftarleg gagnrýni á stjórnendur bankans og stefnu hans í málefnum heimilanna og lítilla og meðalstórra fyrirtækja.  Er það kannski ekki ritstjórnarstefna visir.is að fjalla um gagnrýni á einn stærsta auglýsanda sinn?

Með fullri virðingu fyrir vilja NBI að setja fyrirtækinu siðferðisreglur, þá er tjónið sem fyrirrennarinn hans olli svo mikið að miklu meira þarf til en segja "ég lofa að haga mér vel í framtíðinni".  Það þarf að byrja á því að bæta fólki tjónið.

Gott fyrsta skref í siðbót NBI er að innheimta lán í samræmi við útgefna greiðsluáætlun og færa höfuðstól lána niður í þá stöðu sem var áður en svik, lögbrot og prettir Landsbanka Íslands hófust.  Næsta skref er að falla frá öllum kröfum á hendur ábyrgðarmönnum, enda ekki hægt að álykta annað en að þeir hafi verið vélaðir til að veita ábyrgðir sínar.  Þriðja skrefið er að taka upp mál þar sem fólk og fyrirtæki hafa verið knúin í þrot af bankanum þar sem gengið var fram af óbilgirni og hörku gegn fólki sem trúið því og treysti að Landsbanki Íslands hafi verið heiðarlegt fyrirtæki.

Heitin sem NBI gefur eru heldur hjáróma þegar tjónið er haft í huga sem Landsbanki Íslands olli.  Skoðum þau nánar:

  • Við heitum því að setja bankanum og starfsfólki hans nýjan siðasáttmála og birta hann opinberlega fyrir 1. mars.
  • Við bjóðum viðskiptavinum sem þegar hafa fengið birtan endurútreikning í Einkabankanum að ganga frá sínum málum nú þegar.
  • Við ætlum að bjóða öllum fyrirtækjum sem falla undir skilgreininguna um Beinu brautina skuldaaðlögun fyrir 1. júní.
  • Við ætlum að efla sérhæfða fræðslu fyrir starfsmenn með það að leiðarljósi að bæta ráðgjöf til viðskiptavina.
  • Við ætlum að birta helstu ábendingar og athugasemdir viðskiptavina ásamt viðbrögðum okkar og lausnum á heimasíðu bankans í síðasta lagi 15. mars.
  • Við ætlum fyrir 1. júlí að kynna skráningu tveggja félaga í eigu bankans á markað og efla þannig íslenskan hlutabréfamarkað.
  • Við ætlum að kynna nýja og heilsteypta stefnu um samfélagslega ábyrgð ásamt lykilverkefnum fyrir 1. maí.

Nýr siðasáttmáli er góðra gjalda verður, en hann á að vera óþarfur.  Er verið að gefa í skyn að núverandi siðferðiskennd starfsfólks og stjórnenda NBI sé ekki nógu góð.  Að siðferðiskennd þeirra sem unnu hjá Landsbanka Íslands hafi ekki verið nógu góð.  Ef ég mætti leggja orð í belg, þá væri það fyrsta sem NBI gæti gert, er að bæta fólki það óheyrilega tjón sem Landsbanki Íslands olli því.

Bjóða á fólki og fyrirtækjum að sætta sig við svik, lögbrot og pretti Landsbanka Íslands.  Enn hvað það er rausnarlegt hjá NBI.  Skilaboð bankans til lántakenda eru:

Við ætlum í góðmennsku okkar að leyfa ykkur að greiða stökkbreytta höfuðstóla lána ykkar.  Stökkbreytingin er að vísu komin til vegna þess að fyrirrennari okkar, Landsbanki Íslands, viðhafi svik og pretti og braut lög hægri vinstri.  En þar sem siðferðiskennd okkar býður okkur að NBI eigi að halda þessari illa fengnu hækkun lánanna, þá ætlum við að hanga á henni eins og hundur á roði.  Við höfum að vísu samviskubit vegna þeirra sem fá enga leiðréttingu við endurútreikning og ætlum í góðmennsku okkar að bjóða þeim að greiða aðeins 60-70% hækkunarinnar.

Efla á fræðslu til starfsmanna.  Gott og blessað, en er þetta ekki samt þekking sem starfsmaður á að búa yfir þegar hann hefur störf?

Af hverju á að bíða þar til 15. mars að birta ábendingar og athugasemdir.  Það var fundur í gær á Akureyri.  Hvað er því til fyrirstöðu að landsmenn fái að vita strax hvað brann á Norðlendingum?  Ég hef haft fregnir af því að það hafi ekki allt verið fallegt sem þar kom fram.  Þola slíkar upplýsingar ekki dagsljósið.  Ég skora á NBI að birta jafnóðum ágrip af þeirri umræðu sem á sér stað á þessum fundum.

Samfélagsleg ábyrgð er góðra gjalda verð.  Fyrir framtíðarlántaka skilar hún vonandi mörgu, en hvað með samfélagslegu ábyrgðina gagnvart þeim sem sitja uppi með gríðarlegt tjón vegna Landsbanka Íslands?  Hver verður sú ábyrgð?

Ef NBI heldur að bankinn sleppi frá fortíðinni með því að koma með fagurgala fyrir framtíðina, þá er það misskilningur.  Mikilvægasta skref NBI til að undirbúa framtíðina er að gera upp fortíðina af réttsýni og sanngirni, nokkuð sem hann hefur ekki gert.   Annað mikilvægt skref er að skipta um nafn á bankanum.  Hvað ætli það séu margir Íslendingar sem fá óbragð í munninn við það að tala um NBI sem Landsbanka Íslands?  Ég er einn af þeim og meðan bankinn ber þetta nafn, þá mun honum í mínum huga alltaf fylgja skuggi svika, lögbrota og pretta fyrirrennara hans.  Ég fæ hroll í hvert sinn sem ég geng inn í húsakynni bankans enda er nafn svikamyllunnar upp um alla veggi.  Mér finnst bankinn misbjóða landsmönnum með því að halda í nafnið.  Það er ekki nóg með að nafnið er tengt órjúfanlega við þær kvalir og sársauka sem landsmenn hafa mátt ganga í gegn um, heldur skulu viðskiptavinir hans minntir á kvalara sinn í hvert sinn sem bankaviðskipti eiga sér stað.  Þetta er ekkert annað en sadismi af verstu sort og sýnir siðblindu eigenda og æðstu stjórnenda bankans.  Eina leiðin til þess að ég get hugsað um hann sem viðskiptabanka minn er að hann heitir samkvæmt fyrirtækjaskrá NBI ehf.


Maður að meiri - fordæmi fyrir aðra í sömu sporum

Kristján G. Gunnarsson er maður að meiri að hafa sagt af sér.  Hann hefur tekið skref sem ætti að vera fordæmi fyrir forsvarsmenn í verkalýðshreyfingu og atvinnulífi.  Það er ekki hægt að segja "ég gerði mitt besta" eða "ég gat ekkert gert", þegar afleiðingarnar eru hrun grunnstoða nærsamfélagsins eða hagkerfisins í heild.

Viðtal Helja Seljan við Kristján sl. miðvikudag afhjúpaði því miður hvers konar sýndarmennska stjórnarseta í mörgum fyrirtækjum og samtökum er.  Menn sitja þar í markindum til að fá greitt, en þegar kemur að því að taka forystu, þá gera þeir það ekki.  Kristján viðurkenndi hvað eftir annað að hafa tekið við matreiddum upplýsingum, en ekki upplýsingum sem hann gekk eftir að fá.  Hann viðurkenndi að hafa ekki verið nægilega vel á verði.  Afsögn hans sýnir að augu hans hafa opnast fyrir þeim trúnaðarbresti sem slík hegðun er gagnvart stofnfjáreigendum og viðskiptavinum Sparisjóðs Keflavíkur, sjóðfélögum í Festu lífeyrissjóði og þeim félagsmönnum í Starfsgreinasambandinu hverra hagsmuna hann átti að gæta.

Það getur vel verið að betur vakandi Kristján G. Gunnarsson hefði ekki geta komið í veg fyrir það sem gerðist, en honum (og öðrum í hans sporum) bar skylda til að vara fólk við ruglinu sem viðgekkst innan fjármálafyrirtækjanna.  Hvort sem hann gerði það viljandi eða af einfeldni þá tók hann þátt í hrunadansinum.

Hann hefur nú axlað ábyrgð gjörða sinna og er maður að meiri.  Óska ég honum góðs gengis við það sem nú tekur við hjá honum.


mbl.is Kristján segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frjálst þjónustuflæði á líka við útsendingar íþróttaleikja - Kaupa má áskrift á Grikklandi og horfa á útsendingu í Englandi

Aðallögsögumaður (Advocate General) dómstóls EB, Juliane Kokott, hef sett fram það álit að ekkert sé athugavert við það að áskrifendur kaupi sér áskrift hjá erlendum aðila að efni sem annað fjarskiptafyrirtæki er með einkarétt til dreifinga í viðkomandi landi.  Í því máli sem um ræðir keypti kráareigandi í Englandi áskrift að ensku úrvalsdeildinni hjá gríska fjarskiptafyrirtækinu NOVA.

Í tilkynningu frá dómstól EB segir:

''In the view of Advocate General Kokott, territorial exclusivity agreements relating to the transmission of football matches are contrary to European Union law. European Union law does not make it possible to prohibit the live transmission of Premier League football matches in pubs by means of foreign decoder cards.''

("Það er skoðun Kokott aðallögsöumanns, að svæðisbundnir einkaréttarsamningar varðandi útsendingu knattspyrnuleikja eru andstæðir Evrópurétti.  Evrópuréttur gerir það ekki mögulegt að banna beina útsendingu á leikjum í ensku úrvalsdeildinni á krám með áskrift að erlendri áskriftarstöð.")

Tekið skal fram að þetta er álit, ekki dómur, og dómarar dómstóls EB geta komist að annarri niðurstöðu.  Verði þetta álit hins vegar staðfest af dómstóli EB mun það breyta mjög miklu um sölu áskriftar að beinum íþróttaútsendingum.  Svæðisbundnarstöðvar, sbr. Stöð 2 Sport, hafa getað rukkað fáránlega hátt verð fyrir áskrift eða hreinlega ekki sent út viðburð á þeim grunni að útsendingar sömu leikja/viðburðar um gervihnött sé brot á einkarétti.  Álit Juliane Kokott er að áskrifandinn hafi frelsi til að velja það fjarskiptafyrirtæki sem sér um útsendingu á grunni frjáls flæðis þjónustu milli aðildarríkja.

Áhugavert verður að sjá hver niðurstaða dómstóls EB verður og ekki síður viðbrögð íþróttahreyfingarinnar.  Veldi ákveðinna sérsambanda íþróttahreyfingarinnar, svo sem Alþjóða olympíunefndarinnar, Alþjóða knattspyrnusambandsins (FIFA) og Knattspyrnusambands Evrópu (UEFA), hafa mikið til byggst á því að selja einkaleyfi á útsendingu viðburða til sjónvarpsstöðva um allan heim.  Sjónvarpsstöðvarnar hafa síðan geta okrað á neytendum og stjórnað því hvað þeir fá að horfa á í krafti einkaréttar síns.  Þó neytandinn hafi haft áskrift að sjónvarpi um gervihnött eða bara fjölvarp annars fjarskiptafyrirtækis, þá hefur fyrirtækið með einkaréttinn geta krafist þess að útsendingin sé blokkeruð, jafnvel þó viðkomandi einkaréttarhafi sýni sjálfur ekki leikinn!  Nú er aldrei að vita nema slíkt heyri sögunni til og öflugri samkeppni verði um útsendingu íþróttaviðburða.

(Sjá hérna frétt á ESPN Soccernet um álitið.)


Hvenær lýkur undirlægjuhættinum gagnvart svikastarfsemi og kröfuhöfum?

Maður verður sífellt meira bit á undirlægjuhætti stjórnvalda gagnvart svikastarfsemi.  Hvenær á þessu að ljúka?  Fjármálaráðherra hefur samkvæmt ráðgjöf Fjármálaeftirlits og embættismanna lagt milljarða tugi í fjármálafyrirtæki sem rænd voru innan frá af stjórnendum sínum og eigendum.  Sum þessara fyrirtækja lögðu sig í framakróka við að svíkja peninga út úr auðtrúa fólki sem lagði aleigu sína að veði fyrir mjúkróma málflutning fólks sem á sömu stundu var að koma sínum hagsmunum í var fyrir storminum sem það vissi að var í aðsigi.

Þór Saari nefnir nokkrar fjármálastofnanir sem fjármálaráðherra hefur lagt að mati Þórs 87 milljarða í.  Hann gerir líka að því skóna, að rekstur þessara stofnana hafi ekki bara verið ámælisverður heldur líka refsiverður.  Ekki er hægt að vísa málum þessara stofnana til sérstaks saksóknara fyrr en Fjármálaeftirlitið kærir málin þangað.  En mistök og ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins eru m.a. ein helsta ástæða fyrir því að ausið hefur verið milljarða tugum í fyrirtækin. 

Eftirlit með fjármálastarfsemi var í mýflugumynd fyrir hrun og þó eitthvað vonandi skánað, þá kemur í ljós, að ýmsar aðgerðir þess og ráðleggingar eftir hrun hafa verið athugunarverðar, ef ekki ámælisverðar.  Þær hafa borið með sér ótrúlegan undirlægjuhátt sem gengið hefur út á að bjarga fjármagnseigendum.  Stundum hefur um sýndargerning verið að ræða til að fela klúður Seðlabankans, eins og lánveitingar til Saga Capital og VBS bera vitni.  Í öðrum tilfellum hefur röng leið verið farin til að freista þess að bjarga gjaldþrota stofnunum.  Menn sýndu fljótfærni vegna þess að þeim lá svo mikið á, þó reynslan hafi sýnt að nægur tími var til stefnu.

Joseph Stiglitz hrósaði íslenskum stjórnvöldum fyrir að taka réttar ákvarðanir um að hjálpa ekki kröfuhöfum.  En hann hefur rangt fyrir sér.  Það er verið að hjálpa kröfuhöfum mun meira en þeir eiga skilið.  Landlæg minniháttarkennd gagnvart útlendingum fékk fjármálaráðherra og hans ráðgjafa til þess að vorkenna kröfuhöfum bankanna alveg svakalega.  Á sama hátt og innstæðueigendum hefur verið lofað og lofað án þess að nokkur innistæða sé fyrir loforðunum.  Björgun íslensku bankanna er ekki á kostnað erlendra kröfuhafa.  Hún er til þess að bjarga eins miklu og kostur er fyrir erlenda kröfuhafa á kostnað fórnarlamba hrunsins sem eru almennir lántakar.  Það á að leyfa íslensku bönkunum að gera upptækar eins miklar eignir almennra lántaka (þ.e. þeirra sem ekki voru og eru innvígðir og innmúraðir), þannig að erlendir kröfuhafar geti fengið eins mikið til baka og kostur er.  Eða eru þetta virkilega "erlendir" kröfuhafar.  Hvað vitum við nema að íslenskir bankaræningjar séu búnir að koma ránsfengnum í vinnu og hafi keypt kröfurnar á spottprís?

Farsinn í kringum Sparisjóð Keflavíkur er lýsandi fyrir siðblinduna sem var í gangi.  Ég stóð alltaf í þeirri trú að hinn gamli sparisjóðsstjóri hafi verið einn af grandvörustu mönnum fjármálageirans.  Nú kemur í ljós, ef marka má fréttir, að hann var illa sýktur af siðblinduveirunni.  Stjórnarformaður Sparisjóðs Svarfdælinga var stjórnarmaður í Saga Capital á sama tíma og SC fór með fagurgala gagnvart stofnfjáreigendum.  Ætli hann hafi vitað að fagurgalinn var bara gildra sem var verið að egna fólk í?  Og hver eru viðbrögð fjármálaráðherra? Jú, að bjarga fagurgalanum!

Svona er þetta út um allt.  Viðbrögð fjármálaráðherra ganga út á að almenningur á að borga, en burgeisarnir sleppa án teljandi tjóns.  Þeir halda öllum persónulegum eigum sínum vegna þess að þeir földu sig bak við röð af eignarhaldsfélögum.  Er búið að breyta lögunum sem leyfa slíka svikamyllu?  Nei, að sjálfsögðu ekki.  En það er búið að breyta lögum svo almennir lántakar þurfa að greiða það sem ranglega hefur verið krafist af þeim.

Meira að segja dómstólar meta forsendur svikaranna meira en fórnarlambanna.  Bæði Héraðsdómur Reykjavíkur og Hæstiréttur hunsuðu í dómum sínum, að stjórnendur og eigendur fjármálafyrirtækja hefðu farið fram með grófri markaðsmisnotkun til að fella krónuna og þar með snarhækka höfuðstól lána almennra lántaka.  Það var ekki talin gild ástæða fyrir dómi, að lántaki hafi gert ráð fyrir að forsendur gengisþróunar stæðust.  Það var ekki talin gild ástæða fyrir dómi að fjármálafyrirtæki hafi farið með fagurgala um héruð og mært stöðugleikann sem þau voru á sömu stundu byrjuð að grafa undan.  Nei, Hæstiréttur ákvað að almennir lántaka ættu að bera tjónið af lögbrotum lánveitenda.  Já, merkileg er lagatúlkun Hæstaréttar, þegar hann lætur lögbrotin borga sig.

Það er sama hvert er litið til stjórnvalda, Alþingis, Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlits eða dómstóla undirlægjuhátturinn er alls ráðandi.  Er það nema vona að almenningur ber ekki traust til þessara aðila.  Hvenær ætla þessir aðilar að hætta að ganga erindi þeirra sem settu landið á hausinn eða hjálpuðu þeim að setja það á hausinn?  Mér er alveg sama hvort þeir gerðu það viljandi eða af gáleysi.  Hverja er ég að tala um?  Jú, kröfuhafa fallna fjármálakerfisins.  Þeir eru samsekir, þar sem með óábyrgri útlánum til íslenskra fjárglæframanna þá fór hagkerfið á hliðina.  Steingrímur og þið öll:  Hættið að vorkenna kröfuhöfunum og snúið ykkur að því að verja hagsmuni almennings.  Það er hans sem þið sækið umboð ykkar (dómarar líka þar sem þeir eru skipaðir af ráðherra), en ekki nafnlausra kröfuhafa sem tóku áhættu og töpuðu.  Já, það er staðreynd sem ekki má gleyma, að hver einasti aðili, sem leggur fjármuni sína inn í fjármálafyrirtæki og að ég tali nú ekki um þá sem veita þeim lán gegn vafasömum eða engum veðum eða tryggingum, er að taka áhættu sem viðkomandi verður að lifa með.  Það er ekki hlutverk íslenskra stjórnvalda að vera tryggingasjóður fyrir þessa aðila.


mbl.is Hefur sett 87 milljarða í fjármálastofnanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 45
  • Frá upphafi: 1678172

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 44
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband