27.11.2008 | 01:54
Hvar setjum við varnarlínuna?
Skyndilega er afrakstur vinnu ríkisstjórnarinnar síðustu vikurnar að koma fram. Ekki get ég sagt að ég sé sáttur við allt sem þar kemur fram, en annað er gott. Mér finnst eins og í sumum þáttum sé ekki alveg ljóst hvar menn ætli að staðsetja varnarlínuna eða að hún sé staðsett of aftarlega.
Að undanförnu hefur oft verið vísað til þeirrar myndlíkingar, að íslenska hagkerfið hafi fengið 14-2 rassskellingu í fótboltaleik og nú sé verið að stilla upp liði fyrir næsta leik. Mörgum finnst rétt að skipt verði um þjálfara, fyrirliða og einhverja liðsmenn. Þessu hefur verið hafnað af ríkisstjórninni og því mun sama liði verða stillt upp í næsta leik. Þar sem ég þekki nokkuð til leikfræði í fótbolta, þá langar mig að leggja til að ekki bara í næsta leik, heldur næstu leikjum, verði lögð höfuð áhersla á vörnina. Það er nefnilega þannig, að fái maður ekki á sig mark, þá þarf aðeins að skora eitt til að vinna.
Hægt er að færa þessa myndlíkingu yfir á fjölmargt í íslensku þjóðfélagi. En tvennt skiptir að mínu mati mestu máli. Annað er að halda fyrirtækjum landsins gangandi og þar með varðveita störfin í landinu og hitt er að tryggja hag heimilanna. Mér finnst ríkisstjórnin vera að ná einhverjum árangri varðandi hag heimilanna, en samt eru einhverjir boltar að leka inn. Betur má ef duga skal. Skoðum þó fyrst fyrirtækin, þar sem staða þeirra leggur grunninn að stöðu heimilanna.
Gagnvart fyrirtækjunum skiptir þrennt höfuð máli. Fyrsta er að útvega fyrirtækjunum rekstrarfé, annað að tryggja þeim aðföng og það þriðja er að þau geti haldið fólki í vinnu. Við skulum vona, að lán AGS hjálpi til við tvennt það fyrra, en viðbrögð stjórnvalda getur hjálpað til við það þriðja. Hvert starf sem tapast þýðir að vinna verður upp eitt starf. Þetta er eins og með mörkin. Fyrir hvert mark sem lið fær á sig þarf það að skora eitt til að halda jöfnu. Þar sem sóknarfæri eru fá í augnablikinu, þá segir skynsemin mér, að best sé að verja hvert einasta starf eins og kostur er. Það á ekki að vera ásættanlegur kostur að störf glatist. Þar vil ég setja varnarlínuna.
Margt vinnst með því að verja störfin. Vinnandi fólk hefur atvinnutekjur, það greiðir skatta, það verður síður veikt, það missir síður trú á sjálfan sig, það heldur reisn sinni, það hefur tekjur til að framfleyta sér og sínum. Vinnandi fólk hefur meiri möguleika á að standa í skilum við lánastofnanir og hefur almennt meira á milli handanna til að skapa veltu í þjóðfélaginu. Fyrirtækin halda starfsmönnum í verðmætasköpun eða við að veita þjónustu. Verðmæt þekking helst innan fyrirtækjanna og þar með viðskiptatengsl, en þau byggja mjög oft á persónulegum samskiptum. Svo má ekki gleyma öllum afleiddu störfunum. Fyrirtæki sem minnkar um 30%, þarf að öllum líkindum 30% minna af aðkeyptri þjónustu. Mér finnst því nauðsynlegt að líta svo á að hvert einasta tapað starf feli í sér ósigur í baráttunni við kreppuna. Hvert tapað starf felur í sér að við þurfum að vinna upp þetta starf annars staðar eða síðar. Hvert tapað starf hefur í för með sér að nýr aðili bætist á atvinnuleysisskrá og á rétt á bótum frá ríkinu. Hvert tapað starf eykur útgjöld ríkisins og minnkar tekjur í formi lægri skatta. Hvert tapað starf gerir einni fjölskyldu í viðbót erfiðara um vik að ná endum saman.
Þá komum við að heimilunum. Hagur heimilanna verður helst tryggður með því að verja innkomu þeirra. Afkoma ræðst af tekjum og útgjöldum. Ef tekjurnar skerðast, þá minnka líkurnar á því að þær dugi fyrir útgjöldum. Lægri tekjur þýða minni velta í verslunum og meiri líkur á því að lán verði ekki greidd.
Talið er að undirmálslánakreppan í Bandaríkjunum hafi orðið jafn djúp og raun ber vitni, vegna þess að lántakendur gengu þvert á viðteknar venjur. Menn hafa alltaf gengið út frá því að hvað sem á gengi, þá greiddi fólk af íbúðarlánunum sínum. Þetta brást og þar með hrundi spilaborgin. Grunnforsenda lánanna, að íbúðarlán yrðu alltaf í forgangi, gekk ekki eftir. Hætta er á að þetta endurtaki sig hér á landi. Það gerir það örugglega, ef fólk þarf að velja á milli þess að eiga fyrir mat eða greiða af ÍLS láni. Þess vegna verður að koma í veg fyrir að innkoma heimilanna skerðist of mikið.
Búið er að grípa til aðgerða sem lækkar greiðslubyrði lána til skamms tíma, en slík aðgerð má síns lítið, ef tekjustreymið dregst saman. Af þeim sökum þarf að gera allt til að viðhalda tekjustreyminu. Besta leiðin til þess er að verja störf fólksins. Því segi ég enn og aftur, setjum varnarlínuna við að halda í störfin með öllum tiltækum ráðum. Ég geri mér grein fyrir að við björgum ekki öllum störfum, en fyrir hvert starf sem bjargast er einu færra að vinna upp.
Svona í lokin, þá lýst mér vel á tillögur Skógræktarinnar um atvinnusköpun. Ég hef bent á að ráðast megi á skjalastafla Þjóðskjalasafns og héraðsskjalasafna. Einnig mætti snúa sér að því að laga aðstöðu á ferðamannastöðum, en hún er víða fyrir neðan allar hellur. Síðan vil ég einu sinni sem oftar minna á síðu Kjartans Péturs Sigurðssonar, ljósmyndara og leiðsögumanns, photo.blog.is, þar sem Kjartan veltir fyrir sér hvernig stórauka megi verðmætasköpun í landinu. Hvet ég alla sem ekki hafa kynnt sér efni síðunnar að skoða hana.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.12.): 37
- Sl. sólarhring: 66
- Sl. viku: 345
- Frá upphafi: 1680483
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 40
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Marínó, mig langar að benda þér á 19. lið samkomulagsins við IMF sem þeir Davíð og Árni skrifuðu undir. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg hvað er verið að segja þarna og ég hef ekki orðið var við umfjöllun um þennan lið neins staðar, en mig grunar að þarna sé verið að reyna að koma í veg fyrir eða skerða verulega getu bankanna til að veita útlán. Sem sagt, þvert á það sem þú ert að leggja til og allir geta verið sammála um. En hér er þetta:
19. liður er í nokkrum undirliðum, sá fyrsti er um hækkun stýrivaxta.
Annar undirliður er svohljóðandi:
"Að beita miklu aðhaldi í aðgangi bankanna að lánum frá Seðlabankanum. Við hyggjumst herða á reglum um lausafjárstýringu, sérstaklega aðgang að lausu fé í því skyni að Seðlabankinn geti haft meira frumkvæði við stjórnun grunnfjár; og við höfum hækkað vaxtamun á lausafjáraðgangi til að koma í veg fyrir að dregið verði um of á mikið lausafé eftir þessum farvegi. Við höfum þrengt skilgreiningu á þeim tryggingum sem Seðlabankinn tekur gildar - nýútgefin ótryggð bankabréf verða ekki lengur teki gild. Reynist það nauðsynlegt, erum við reiðubúin til að aðlaga reglur um stjórnun grunnfjár enn frekar, svo sem með því að breyta grunnviðmiðum fyrir meðaltal gjaldeyrisforða og veðviðmið. Til að byrja með munum við leyfa litla sem enga aukningu í lánum frá Seðlabanka."
Þriðji og fjórði liður fjalla svo um gjaldeyrisforðann og gjaldeyrisviðskipti.
En mér sýnist inntak þessa liðar vera að takmarka verulega útlánastarfsemi bankanna - eins og reyndar staðan er í dag. Lán fást ekki til nokkurra hluta og það er hreinlega að kæfa fyrirtækjareksturinn. Skammtímalán eru smurningin sem heldur vélinni gangandi, án þeirra er voðinn vís.
Mikið væri gaman ef einhver sem skildi almennilega hvað hér er á ferðinni í þessum 19. lið gæti upplýst okkur um það!
Brynjólfur Þorvarðsson, 27.11.2008 kl. 09:16
Þetta er annars ágætt hjá þér Marinó en þú gleymir að grundvallaratriðið er að gera almennilegt tjónamat, "damage control". Núna nær 8 vikum eftir hrunið mikla er þetta enn ekki á borðum. Ennþá er verið að pukrast með þetta.
Ástandið er það skelfilegt að enginn hefur ennþá þorað að segja þetta við þjóðina.
Það er víst hvergi hægt að finna aðra eins hliðstæðu í vestrænu samfélagi. Að gjaldmiðillin hrynur, traustið á landinu hrunið, allt fjármálkerfið hrunið, meginþorri fyrirtækja tæknilega gjaldþrota og fjöldatvinnuleysi að skella á. Ofurskuldsett heimili eiga litla von að bjarga sér.
Menn hafa verið að nefna dæmi fra Finnlandi, Færeyjum, Svíþjóð en okkar dæmi slær þessi alveg niður í skó.
Okkur hefur,eiginlega ætti ég að segja ÞEIM. Tekist gjörsamlega að tæta sundur fjárhaginn. Ísland verður rannsóknarverkefni næstu ára og áratugi fyrir hagfræðinga. Þetta er "the perfect storm".
Við erum orðin nokkurs konar Surtsey fjármálanna. Það kemur enginn nálægt okkur nema með langri spítu. Það er gjörsamlega búið að klippa á alla fjármálaþræði við Ísland. Mikka Mús bankarnir 3, eða "Nýju" bankarnir eru náttúrulega sér kapítuli. Seðlabanki Íslands er heldur ekki með neina beina fjármáltengingu allt fer í gegnum JP Morgan. Landið er gjörsamlega rúið trausti og fáum einungis lán frá vinveittum þjóðum undir ströngum skilyrðum. Við erum beiningarmenn og óreiðumenn í augum flestra annara þjóða.
Það hefur ríkt fjármálaspilling á Íslandi og lögleysa þar sem efnahagsafbrotadeild Ríkislögregluembættisins hefur ekki haft burði til að rannsaka eitt eða neitt. Það kemur fram að bakland íslensku bankanna er mikil og ofurveðsett froða þar sem tugir miljarða eru lánaðar skúffu/eingarhaldsfélögum oft án veða. Það hafa verið framin stórfelld afbrot og væntanlega mun lítill hluti þeirra verða upplýstur og óvísst er hvort nokkur mun verða dæmdur. Það er nú þegar komin í gang lögreglurannsókn í Noregi á stuldi, já stuldi á 700 miljónum norskra úr opinberum sjóðum sem eru núna yfir 14 miljarðar Íkr sem fluttir voru inn í Glitni á Íslandi. Þetta verður einungis eitt dæmi af ótalmörgum.
Grundvöllurinn undir bankastarfsemi er trúnaðarleiki og skilyrðin undir endurreisn eru að það sé ærlega hreinsað til og allur þessi "skítur" dreginn fram í dagsljósið. Ef það er ekki gert mun enginn hafa trú á okkur. Það tekur áraraðir að vinna upp trúnað. Því miður hafa þúsundir manna menntað sig og undirbúið sína framtíð í fjármálageiranum. Þetta fólk verður hér að snúa við blaðinu. Það verður ekki næstu áratugi neinn fjármálamiðstöð á Íslandi og væntanlega aldrei aftur. Okkar tími er liðinn.
Það er fylgst með okkur frá erlendum aðilum og geta okkar metin eftir makrohagfræði. Við erum núna eins og gullfiskurinn í skálinni. Það sem við skítum fáum við að éta og skipt verður um vatn í skálinni endrum og eins. Hallalaus fjárlög eru frumskilyrðið nánast hvað sem það kostar. Það þarf að halda uppi krónunni og hátt vaxtastig er afleiðingin og það er eitt af skilyrðum IMF fyrir láni. Það þarf að auka sparnað. Við þurfum að borga skuldir og vexti.
Það bætist einnig á við þessa hræðilegu stöðu okkar er að það er kröpp undiralda á alþjóðafjármálamörkuðum. Hagkerfi heimsins virðast stefna í kreppu. Þetta eru válegir tímar.
Ryrir 2 mánuðum höfðu menn áhyggjur af hlutabréfunum. Núna hefur fólk áhyggjur af húsunum og eftir nokkra mánuði gæti fólk haft áhyggjur af að hafa nóg að borða. Já Marinó það voru súpueldhús í Finnlandi í kringum 1990 og þetta verður mun harðara hér.
Það þarf að gera sér grein fyrir þeirri stöðu sem við erum í áður en hafist er handa og ég sé að margir eru ekki ennþá búnir að gera sér grein fyrir því hversu alvarlegt þetta er. Man eftir fyrsta fundi Geirs Haarde hann sagði Guð blessi Ísland. Já okkur veitir ekki af því. Þetta verður gríðarlegur stormur og mörgum skolar fyrir borð það er að binda sig við rá og reiða. Losa sig við skuldur og sauma niður alla neyslu. Það þarf að forgangsraða og mörgum verður ekki hægt að bjarga. Bjarga verður því sem bjarga verður á þessum stutta tíma sem er til stefnu.
Það eru margir með metnaðarfullar hugmyndir sem allar virðast felast í fjármögnun frá ríkinu og margar þeirra eru við nánari skoðun góðar hugmyndir en verður ekki hægt að komast í vegna fjárskorts. Allt sem þarf að gera þarf að rúmast innan fjárlaga.
hefur ekki fyrirfundist á byggðu bóli.
Gunn (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 11:07
Gunn, ég held að þetta sé dálítið kjarni málsins. Við þurfum að greina stöðuna heildstætt en við megum samt ekki geyma það að hefja "damage control". Það er þetta sem ég á við með að setja varnarlínu við störfin. Það er svo margt sem hangir á því að fólk haldi störfum sínum. Það er allt frá verðmætasköpun yfir í að varðveita verðmæti til þess að tryggja tekjuöflun fyrirtækja og heimila og svo endar boltinn í því að viðhalda hringrásinni.
Það er mikið talað um að heimilin muni borga brúsann. Eru það ekki í reynd fyrirtækin sem borga brúsann? Það er jú hjá þeim sem verðmætin verða til. Það er frá þeim sem fólkið fær tekjurnar sínar, ýmist beint sem launþegar eða óbeint sem opinberir starfsmenn í gegnum skattheimtu. Ef við höldum ekki atvinnulífinu gangandi, þá fyrst verður kreppan djúp.
Brynjólfur, ég tók eftir þessu, en sá líka á öðrum stað, að fara á út í umfangsmikla útgáfu ríkisskuldabréfa til að útvega bönkunum lausafé. Ég býst við að Seðlabankinn ætli eitthvað að vera með puttana í því í hvað peningar bankanna geta farið. Annars er svo margt á huldu og það sem verra er að mótsagnir eru margar. Mér finnst ég ekki geta treyst nokkru sem kemur frá íslenskum ráðamönnum.
Marinó G. Njálsson, 27.11.2008 kl. 11:21
Ef við tökum dæmi þitt úr fótboltanum. Er þetta ekki eins og við höfum tapað 14:2. Og við þurfum að mæta í næsta leik.
Þetta er eins og við höfum tapað 20:0. Að fótboltafélagið okkar sé gjaldþrota og að fótboltavöllurinn okkar er yfirtekinn af öðru liði. Við erum uppvís að svindli rekin úr deildinni og þurfum að starta í 6. deild og höfum ekki efni á að greiða þjálfaranum eða leikmönnunum.
Gunn (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 11:23
Gunn, það má endalaust vefja upp á þess myndlíkingu.
Marinó G. Njálsson, 27.11.2008 kl. 11:27
Einn á léttu nótunum.
Loksins fáum við erlendan sérfræðing til að hjálpa okkur!
Það sem meira er, við Íslendingar höfum efni á að borga honum enda getum við nú borgað í Zimbawe dollurum.
Ríkisstjórnin hefur nú gert gjaldeyris-, vináttu- og varnarsamning við Zimbawe enda eiga þjóðirnar margt sameiginlegt. Verðlausan gjaldmiðil, “frumlega” efnahagsstjórn þar sem áhugamenn hafa fengið að spreyta sig, botnlausar skuldir, stórfellda spillingu, útskúfun meðal þjóða, stórfeldan fólksflótta og atvinnuleysi og ekki minnst, má minna á andstöðuna við Breta. Það er þó með kvíðablöndnum ótta sem margir Íslendingar vænta hersveitanna frá Zimbabwe. Það var einnig reynt að koma á sambandi við Norður-Kóreu en þeir hefur enn sem komið er, enginn svarað í síma.
Sérfræðingurinn hefur um árabil stjórnað hagkerfi Zimbawe með ótrúlegum árangri. Það var mælt með honum á greiningardeild Baggalúts.
Dr. Rama Maramurtimurti er prófessor við konunglega háskólann á Túvalúeyjum.
http://baggalutur.is/index.php?id=4371
Helsta verkefni Dr. Maramurtimurti verður, að sögn Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, „að leita leiða út úr þeim vanda sem nú steðjar að íslenskri þjóð og samfélagi og beita til þess viðurkenndum, klassískum aðferðum stjórnmála- viðskipta- og félagsfræða.
Hann mun í þessu starfi sínu beita sérhæfðu afbrigði af hinni íslensku strútarannsóknartækni sem beitt verður framvegis í öllum opinberum rannsóknum í þessum löndum. Þessi rannsóknaraðferð tryggir að gríðarlegir fjármunir muni sparast þar sem tryggt er að enginn mun nokkurn tíma verða lögsóttur, dæmdur eða þurfa að sitja í fangelsi.
Þjóðin bindur miklar vonir við þetta framtak og þessa samvinnu. Menn binda einnig vonir um að þetta gæti verið sproti að næstu útrásarbylgju þar sem Íslendingar ásamt Zimbawe gætu veitt mikilvæga alþjóðlega ráðgjöf um hreinsun eftir fjármála og spillingasukk.
Gunn (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 15:47
Það stendur ekkert atvinnulíf undir þessu vaxtastigi.
Theódór Norðkvist, 27.11.2008 kl. 23:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.