Leita í fréttum mbl.is

Færa þarf höfuðstól lánanna niður

28. september sl. skrifaði ég færslu undir heitinu Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum þar sem lýst er hugmyndum að leiðum til að hjálpa fólki sem er í vanda vegna hækkun lána.  9. október birti ég færsluna Tillögur talsmanns neytenda sem tillögur mínar um aðgerðir vegna síhækkandi höfuðsstóls íbúðalána og var síðan endurbirt 4. nóvember.  Ennþá örlar ekkert á raunhæfum tillögum frá ríkisstjórninni og vil ég því endurbirta tillögu mína einu sinni enn:

  1. Íbúðalánasjóður yfirtekur lán að fullu hjá banka, sparisjóði eða lífeyrissjóði samkvæmt nánari ákvörðun ríkisstjórnar.
  2. Fundið er viðmiðunargengi/vísitala, sem láni er stillt í, fyrir lántakanda að greiða.
  3. Upphæð sem verður afgangs er sett til hliðar og geymd.
  4. Lántakandi greiðir af sínum hluta lánsins eins og áður og tekur þaðan í frá á sig vísitölu- eða gengishækkanir eða nýtur vísitölu- eða gengislækkana.
  5. Verði annað hvort mjög mikil styrking á krónunni/verðhjöðnun eða mikil kaupmáttaraukning, þá tekur lántakandi á sig stærri hluta lánsins.
  6. Stofnaður verði sjóður sem renna í einhverjir X milljarðar á ári, t.d. af fjármagnstekjuskatti eða söluandvirði bankanna þegar þeir verða seldir, og hann notaður til að afskrifa þann hluta lánanna sem er geymdur.

Sú leið að frysta höfuðstólinn í nokkra mánuði bara til þess að lánin safni meiri vöxtum og hækka þannig heildargreiðslur lánatakanda er engin lausn.

Auðvitað er þetta ekkert annað en niðurfærsla höfuðstóls, en þó með þeim formerkjum að ekki er um endanlega niðurfærslu að ræða.  Hugmyndin var fyrst sett fram, þegar talið var að Landsbankinn og Kaupþing myndu standa storminn af sér, þannig að á þeim tímapunkti var gert ráð fyrir að bankar myndu greiða í sjóðinn.  Þar sem ekki er einu sinni vitað hverjir standa þennan storm af sér, þá er einfaldara að nota fjármagnstekjuskatt í þetta eða söluandvirði bankanna.

Til að skýra betur hvað er átt við:

Verðtryggðalán eru stillt af þannig að höfuðstóllinn þeirra er færður í það horf sem hann var þegar vísitalaneysluverðs var 281,8, sem er vísitalan um síðustu áramót.  Þessum höfuðstól er haldið óbreyttum þar til verðbólga milli mánaða er komin niður fyrir efri vikmörk Seðlabankans, en við það hefst aftur tenging höfuðstólsins við vísitöluna. 

Gengistryggð lán eru stillt af þannig að höfuðstóll þeirra sé miðaður við gengi um síðustu áramót.  Það má annað hvort gera með því að færa lánið yfir í íslenska mynt á þessu gengi og láta lánið eftir það breytast eins og um innlent lán sé að ræða eða með því að færa niður höfuðstól lánsins sem því nemur.  Verði farin sú leið að færa lánið yfir í íslenskar krónur, þá byrjar lánið strax að breytast í samræmi við skilmála nýs láns.  Verði farin sú leið að halda gengistengingunni, þá helst lánið í áramótagenginu, þar til nýtt ásættanlegt og fyrirfram ákveðið jafnvægi er komið á krónuna.  Þar sem algjörlega er óvíst hvert jafnvægisgengi krónunnar er, þá gæti þurft að endurskoða endanlega stöðu höfuðstóls þegar því jafnvægi er náð.

Sá hluti höfuðsstólsins, sem settur var til hliðar vegna þessa, er settur á sérstakan "afskriftarreikning".  Þessi reikningur getur lækkað með þrennu móti: 1. a) Verðtryggt lán: Ef breyting á vísitölu neysluverð fer niður fyrir verðbólguviðmið Seðlabankans, þá greiðir skuldarinn hærra hlutfall af skuldinni.  1. b) Gengistryggt lán: Ef gengisvísitala fer niður fyrir ákveðið gildi, þá lækkar höfuðstólsgreiðslan ekki, en skuldarinn greiðir í staðinn hærri hluta skuldarinnar.  2. Stofnaður er sérstakur afskriftarsjóður sem greiðir árlega niður lán á "afskriftarreikninginum".  Afskriftarsjóður hefur tekjur sínar af hagnaði ríkisbankanna, fjármagnstekjuskatti lögaðila og söluandvirði eins eða fleiri af ríkisbönkunum, þegar bankarnir verða seldir aftur.  3.  Við fyrstu sölu eignar rennur ákveðinn hluti andvirðis húsnæðisins í afskriftarsjóðinn.

Auðvitað þarfnast þetta allt nánari útfærslu, en markmiðið er að vera með sanngjarnar reglur.

---

Síðan hvet ég fólk til að mæta í salur HT102 á vinnuráðstefnu Félags viðskiptafræðinga og hagfræðina í fyrramálið kl. 09:00.  Salur HT102 er í Háskólatorgi.

 


mbl.is Hætti að greiða af lánum sínum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta finnst mér mjög athyglisverð hugmynd hjá þér Marinó og ég get ekki verið annað en sammála þér. Hvað græðist á að láta ótalinn fjölda fjölskyldna fara í gjaldþrot? Hreint ekkert að mínu mati. Það eina sem í raun breytist er andlegt heilsufar viðkomandi fjölskyldna, sundrun þeirra og vanlíðan. Eftir sem áður þurfa allir að hafa einhvers staðar þak yfir höfuðið og í sig og á. Í heildina litið breytist ekkert við að gera fólk gjaldþrota annað en að framangreind vandamál koma því miður upp.

Þar að auki má í raun segja að húsnæði sé "eign ríkisins" þar sem það er fast á sínum stað og er þar eingöngu til afnota fyrir íbúana, þó nafn þeirra sé skráð á einhverja pappírssnepla. Hvers vegna þarf hver "afnotahafi" fasteignar að greiða hana fullu verði þegar jafnvel er um að ræða eignir sem eiga eftir að standa jafnvel í mörghundruð ár? Er ekki nóg að greiða einhvers konar afskriftaprósentu og einhverja vexti þar að auki? Hér er klárlega ekki um neitt lausafé að ræða.

Kveðja.

Páll Rúnar Pálsson (IP-tala skráð) 22.11.2008 kl. 00:06

2 Smámynd: Einar Þór Strand

Þetta er sennilega ein besta leiðin sem hægt er að fara.

En varðandi Félag viskptafræðinga og hagfræðinga væri þá ekki rétta að það myndi senda út afsökunarbeiðni til þjóðarinnar fyrir hönd félagsmanna sinna?

Einar Þór Strand, 22.11.2008 kl. 09:30

3 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Mér lýst vel á að aftengja verðtrygginguna af lánunum okkar þangað til þessi hrina er afstaðin. Það er engan veginn eðlilegt að við eigum að taka á okkur yfir 20% verðbólgu ofan á lánin okkar auk þess að taka á okkur skerðingu tekna OG verðhækkanir á öllum vörum. Þetta bara verður til þess að nánast öll heimili fara á hausinn, nema þau sem eiga sínar fasteignir að fullu eða nánast að fullu.

Mér finnst hins vegar alveg með ólíkindum að sjá tregðu stjórnvalda til að setja fram einhverjar alvöru lausnir á vandanum eins og þessar, sérstaklega með tilliti til þess að það eru þau ásamt fjármálageiranum sem hafa komið okkur í þessar aðstæður. Það bara er ekki réttlætanlegt að láta þennan skell á okkur eins og ætlunin virðist vera.

Andrea J. Ólafsdóttir, 22.11.2008 kl. 10:59

4 identicon

Hvernig er hægt að styðja þig í því að gera þessa hugmynd að veruleika? Hún er sú marktækasta og ekki síst mannúðlegasta sem alvöru aðgerð til björgun heimilanna. Sundrun þeirra og óhamingja skapar nýtt böl - nýja holskeflu. Þetta tel ég að jafnvel sálarlausar stofnanir fatti - alla vega skilja þær vel hvað það þýðir að tíu þúsund virðisaukaskapandi einstaklingar fari úr landi - því það er eini kosturinn sem virðist eftir. Tveir-þriðju þeirra sem ég þekki eru byrjaðir að pakka niður.

Þórdís Bachmann (IP-tala skráð) 22.11.2008 kl. 14:16

5 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Hljómar vel

Kjartan Pétur Sigurðsson, 22.11.2008 kl. 15:22

6 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þessari tillögu var komið á framfæri við stjórnvöld.  TAlsmaður neytenda gerði það á sínum tíma.  Við verðum að hafa í huga, að grundvöllur hugmyndarinnar er að Íbúðalánasjóður hafi tekið lánin yfir.  Vissulega væri hægt að hrinda henni í framkvæmd hjá bönkunum, en það yrði erfiðara.  Annars hef ég, eins og margir aðrir, verið að breyta mínum lánum og hef haft það fyrir sið að spyrja banka menn um þennan tilflutning lánanna yfir í ÍLS.  Ég fæ sömu svörin alls staðar.  Það eru allir að bíða eftir reglum frá ríkisstjórninni.  Það virðist því miður allt of algengt að ráðherrar slái einhverju fram og síðan þurfum við að bíða og bíða eftir því að þeir efni loforð sín eða þá að við uppgötvum að þeir lofuðu upp í ermina á sér.

Marinó G. Njálsson, 22.11.2008 kl. 16:38

7 identicon

Erfitt mál.

Það er spurning hver á að borga brúsann.  Bankarnir eru gjaldþrota en eru ennþá ekki komnir í gjaldþrotameðferð, en það er tímaspursmál hvenær það verði. Þetta eru núna stórskrýtnar stofnanir.  Þeir virka ekki sem venjulegar bankastofnanir njóta hvergi alþýðlegs trausts og það er búið að slíta þá úr samhengi við alþjóðlegt bankaumhverfi, þeir eru nokkurs konar þjóðnýttir sparisjóðir með pólitískt kjörnum fulltrúum.  Mikilvægt er að fá úr því skorið hver réttarstaða er og hlutverk þeirra verði framvegis enda er þetta einungis tímabundin staða til að hindra algjört hrun en þetta getur í raun ekki gengið svona nema til fáeinna vikna kannski mánaða.

Lánaveitendur bankanna erlendis eiga í raun lánakröfur til einstaklinga og það verður náttúrulega í þeirra höndum hver sú meðferð verður og væntanlega verður það eftir reglum evrópska efnahagssvæðisins sem varðar gjaldþrot og uppgjör bankanna. Við Íslendingar erum aldeilis búin að misstíga okkur þegar ríkisstjórnin hélt að það var hægt að mismuna innlendum og erlendum innlánseigendum samanber Icesave dæmið.
Undirritaður veit ekki hvernig þetta er hægt að leysa.  Væntanlega bera lántakendur stærsta hluta tapsins. Ríkið, þar með skattborgarar geta ákveðið að taka þetta á sig með hækkuðum sköttum og minnkaðri og skertri opinberri þjónustu til næstu ára og áratuga með skertri heilbrigðisþjónustu og menntakerfi.  Þetta eru álögur sem ekki allir eru tilbúnir að taka.  Þetta mun þá bætast við byrðar þjóðfélagsins með niðurgreiðslu á gífurlegum erlendum lánum og vaxtagreiðslum.  Ef ríkið ákveður að greiða niður lán verður það á kostnað ríkisins og það mun enn fremur draga úr lánstrausti þjóðarinnar og þar á meðal gjaldmiðlinum. Það er ljóst að ungt fólk sem ekki er komið á húsnæðismarkaðinn sætti sig við þetta og mun væntanlega flytjast af landi brott í stórum stíl ef þessi leið verði farin.  Það er náttúrulega val lánþega að neita að greiða af láni og þá er það réttur lánsveitanda að innheimta skuldina með  fjárnám og væntanlega nauðungarsölu og persónulegu gjaldþroti.

Ég get ekki annað séð en að ríkið getur ekki umbunað lánsþegum á kostnað lífeyrissjóðseigenda eða skuldunauta bankanna í því að það brýtur í bága við eignarhaldsákvæði íslensku stjórnarskráarinnar og önnur ákvæði sem við erum skuldbundin. 
Tek því undir þitt síðasta komment Marinó.  Eitt er að vilja gera eitthvað og annað er að geta gert eitthvað. Fólk er náttúrulega áhyggjufullt og það með réttu.   Eins og ég hef skrifað hér áður hef ég haft litla trú á að ríkið geti og hafi burði til að bjarga íslenskum skuldurum sem eru að breytast í skuldaþræla og leiguliða.  Þetta geta þeir að sumu leiti kennt sér sjálfir um kennt.  Reikningurinn kemur til með að falla á landsmenn hvort sem það verður í hækkuðum sköttum og skertri þjónustu eða stórlega skertum lífeyrisgreiðslum.  Erlendir skuldunautar bankanna munu hugsanlega yfirtaka þetta og vilja náttúrulega fá mest fyrir sínar kröfur.  

Gunn (IP-tala skráð) 23.11.2008 kl. 13:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband