Leita í fréttum mbl.is

Leiðrétting verðtryggðra húsnæðislána

Þá eru það komið fram frumvarpið um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána heimilanna.  Hugmyndin tekur smávægilegum breytingum, sem er til bóta miðað við tillögur nefndarinnar.  Breytingin felst í því að viðmiðunartímabilið er stytt frá því að vera desember 2007 til ágúst 2010 niður í að vera bara almanaksárin 2008 og 2009.  Við breytinguna hækkar afslátturinn sem veittur er lítillega.

Umræðan um frumvörpin hefur verið nokkuð skrautleg á netinu síðasta sólarhringinn.  Ekki allt verið sannleikanum samkvæmt og étur þar hver vitleysuna upp eftir öðrum.  Annað hefur byggt á óraunhæfum væntingum eða misskilningi á kröfum Hagsmunasamtaka heimilanna og að hér sé á ferð tillaga Framsóknar um 20% leiðréttingu.  Svo eins og venjulega er hópur hælbíta og nettrölla.  Finnst mér merkilegt hvað sá hópur á sér marga viðhlæjendur.

Tímabilið

Ég er alveg sammála þeirri breytingu sem gerð er á tímabilinu.  Það er jú verið að leiðrétta forsendubrest, en engum slíkum var fyrir að fara árið 2010 og erfitt að reikna út forsendubrest vegna eins mánaðar árið 2007.  Ef 2011 hefði verið tekið með, þá var hækkun vísitölu neysluverðs vissulega hærri en 4,8%, en samanlögð áhrif 2010 og 2011 eru upp á 8,5%.  Niðurstaðan er að miðað við að forsendubresturinn er allt umfram 4,8%, þá er tímabilið sem varð fyrir valinu skuldurum hagstæðast af þeim tímabilum hægt var að velja úr.

300 milljarðar

Einhverjum datt í hug að tengja saman ummæli um að 300 milljarðar gætu verið til ráðstöfunar við það að allir þessi 300 milljarðar ættu að fara í leiðréttingu skulda.  Mér vitanlega, og hef ég fylgst mjög vel með umræðunni, þá hefur það aldrei staðið til.  Það sem meira er, að slík upphæð er langt umfram það sem þarf til að leiðrétta þann forsendubrest sem barist hefur verið fyrir að sé leiðréttur.

Tillögur Hreyfingarinnar um leiðréttingu verðtryggðra lána gekk út á að allar verðbætur umfram 2,5% á ári yrðu leiðréttar frá 1.1.2008 til 31.12.2012.  Þrátt fyrir lengra tímabil og meiri leiðréttingu, þá náði upphæð leiðréttinga "bara" upp í 250 ma.kr. og að teknu tilliti til annarra úrræða (að sérstökum vaxtabótum undanteknum) endaði upphæðin í 200 ma.kr.

Hugmyndir Hagsmunasamtaka heimilanna um leiðréttingu forsendubrests umfram 4,0% árlegar verðbætur gaf miðað við sama tímabil um 185 ma.kr. í leiðréttingu og að teknu tilliti til annarra úrræða (á sérstöku vaxtabótanna) væri upphæðin 135 ma.kr.

Það er því ljóst að aldrei hefur staðið til að 300 ma.kr. færu í þessa aðgerð.

Forsendubresturinn

Ég er ekki sammála þeirri viðmiðun sem notuð er til að mæla forsendubrestinn.  Ég hefði viljað fara niður í 4,0% árlega hækkun vísitölu, en nefnd ríkisstjórnarinnar kom með góð og gild rök fyrir sínu vali.  Við getum því deilt um hvort talan sé rétt eða röng.  Leiðrétting á 10 m.kr. láni hefði orðið um 170.000 kr. hærri við 4% mörkin, en hún er við 4,8% mörkin.  Fyrir einhverja er þetta upphæð sem munar um, en fyrir flesta, þá skiptir meira máli að fá þessa 1,5 m.kr. eða svo sem leiðréttingin veitir.

Margir vilja miða forsendubrestinn við 2,5%, eins og gert var ráð fyrir í tillögum Hreyfingarinnar.  Ég leit nú alltaf á þá tölu sem taktískt útspil til að geta endað í 4,0% í samningum um niðurstöðuna.

Upphæðir

[Uppfærð grein, þar sem ég sneri samanburði á hvolf.]

Samkvæmt athugasemd með frumvarpinu, þá segir að meðalleiðrétting að teknu tilliti til annarra úrræða sé um 1,1 m.kr.  Ég er ekki með neinar forsendur til að reikna þessa tölu út, en finnst hún full lág.  Hver og einn getur slegið á sína tölu, en sé miðað við hækkun vísitölu neysluverðs frá janúar 2008 til janúar 2010 (þ.e. 26,4% hækkun) hafi bæst á lánin en "aðeins" 4,8% fyrir hvort ár  (þ.e. 9,83%, 1,048x1,048-1) hafi átt að bætast á þau, þá þarf að leiðrétt um mismuninn.  Til að finna út hlutfalli þarna á milli þá reiknar maður 1 - 1,0983/1,264 = 0,131, þ.e. leiðréttingin er 13,1% af stöðu lánsins.  Fyrir 10 m.kr. eftirstöðvar, þá gerir þetta 1.310.886 kr. Ef miðað hefði verið við 4% í stað 4,8%, þá hefði leiðréttingin orðið 1.443.038 kr. eða mismunur upp á 132.152 kr.

Frá upphæðum þarf síðan að draga þau úrræði sem lántakar hafa nýtt sér eða fengið í gegn um sérstakar vaxtabætur.

Dreifing eftir tekjum

Mikið hefur verið gert út því að heimili með háar tekjur séu að fá drjúgan hluta leiðréttinganna.  Skoðum hvað þarf til að hafa 6, 8 eða 10 m.kr. í tekjur á ári.  Gerum ráð fyrir tveimur fyrirvinnum sem hafa sömu laun.  Miðað við 6 m.kr. tekjur, þá þýðir það að hvor aðili um sig er með 250.000 kr. mánuði, séu tekjurnar 8 m.kr. þá fær hvor um sig 333.333 kr. á mánuði og við 10 m.kr. tekjur fær hvor um sig 416.667 kr. á mánuði.  Heimili með 10 m.kr. í árstekjur og tvær fyrirvinnur er ekki einu sinni að ná miðgildi launa eins og Hagstofan mældi fyrir 2012.  (Ath. að miðgildið er það gildi þar sem 50% launþega er fyrir neðan og 50% fyrir ofan.  Meðaltal er yfirleitt hærra en miðgildi.)  Það er því alls ekkert óeðlilegt, að hópurinn með 8 m.kr. eða meira í árstekjur sé að fá 40% leiðréttingarinnar til sín.  Hann er einfaldlega ágætlega fjölmennur.

Þeir sem skulda mest fá mest

Eðli aðgerðanna er að veitt er hlutfallsleg leiðréttingin.  Því er ljóst að eftir því sem skuldin er meiri verður leiðréttingin meiri í krónum talið, en jafnframt kom hækkun verðbóta einnig mest fram í krónum talið hjá þessum hópi.  Hlutdeild þeirra sem skulda 30 m.kr. eða meira er hins vegar rétt rúmlega 20% af heildinni.  Hvort það er mikið eða lítið læt ég öðrum um að dæma.  Þar sem flest heimili skulda á bilinu 10-30 m.kr., þá kemur obbinn af leiðréttingunni hjá þeim hópi eða um 65% upphæðarinnar.  Lægri skuld leiðir af sér lægri leiðréttingu.  Heimili sem skulda 30 m.kr. geta þó átt von á því að lánin lækki um allt að 4 m.kr. að frádregnum áður fengnum úrræðum.

Fjölskyldugerð

Eigum við ekki að segja, að sem betur fer fá heimili með börnum að jafnaði meira en heimili þar sem ekki eru börn.  Höfum þó í huga, að mörg heimili sem ekki hafa börn undir 18 ára aldri, hafa ungmenni heimabúandi.  Því gæti þörf þessara heimila til að fá sömu leiðréttingu og heimili með börn verið engu að síður brýn.

Hjálpar öllum, en bjargar ekki öllum

Því er gjarnan haldið fram að ekki sé nóg gert.  Höfum í huga að þetta er almenn aðgerð.  Henni er ekki ætlað að taka á vanda þeirra verst settu.  Síðasta ríkisstjórn fullyrti ítrekað að þær aðgerðir sem hún fór út í, hafi tekið á þeim vanda.  Ég gagnrýndi hana oft fyrir að hafa ekki gengið nógu langt og met enn mikla þörf fyrir frekari aðgerðir.  Núverandi ríkisstjórn er að mínu mati að byrja á hlutunum frá réttum enda.  Þ.e. að vinna fyrst með þá sem hægt er að ná til með almennri aðgerð og síðan að fara út í aðgerðir fyrir þá sem almenn aðgerð hjálpar ekki nægilega mikið.  Almenn aðgerð hjálpar öllum, en hún bjargar ekki öllum.  Almennri aðgerð er heldur ekki ætlað að bjarga öllum.  Megin tilgangur hennar er að fækka þeim sem bjarga þarf eftir öðrum leiðum.

Hvað þarf að gera

Á sínum tíma lagði ég til eftirfarandi aðgerðir í þessari röð.  (Ath. að dugi aðgerð sem á undan er nefnd, heimili þá standa aðgerðir sem á eftir koma því ekki til boða):

  1. Almenn niðurfærsla
  2. Aðlögun skulda að eignastöðu, sbr. 110% leið
  3. Laga skuldir að greiðslugetu, sbr. sértæk skuldaaðlögun en þó í breyttri mynd
  4. Hækkun vaxtabóta/húsaleigubóta til tekjulægri hópa
  5. Hjálpa fólki að skipta um húsnæði og fara í ódýrara.  (Laga skuldastöðu að greiðslugetu.)
  6. Lyklafrumvarp
  7. Sértækar aðgerðir vegna framfærsluvanda

Vissulega má bæta við þarna greiðsluaðlögun og gjaldþrot, því stundum er staðan einfaldlega orðin óviðráðanleg.

Mikilvægasta breytingin verður þó að verða til framtíðar, en það er lækkun lánskostnaðar.  Búið er að afnema stimpilgjald (a.m.k. í bili).  Næst er afnám verðtryggingar, lækkun vaxta, auðvelda endurfjármögnun lána og fjölgun búsetuforma.  Stærsta aðgerðin er þó líklegast að lækka húsnæðiskostnað sem hlutfall af ráðstöfunartekjum.  Þetta þarf að gera þannig að fólk geti búið í húsnæði af eigin vali (með hliðsjón af fjölskyldustærð og fjárhagsgetu) án tilkomu bóta frá hinu opinbera.  Annað hvort verður fasteignamarkaðurinn að laga sig að greiðslugetu fólks eða laun og lífeyrir verða að hækka.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Marinó

Þakka þér fyrir greinagóðar útskýringar á skuldaleiðréttingunum. Mig hefði langað til að spyrja þig um þá sem misst hafa húsnæðið sitt að undanförnu, t.d. til Íbúðalánasjóðs, veistu til þess að fólk geti kanski keypt eignirnar aftur eða væri möguleiki að spóla aftur áður en húsnæðið fór á uppboð og nýta sér leiðréttingarnar ef húsnæðið er t.d. óselt.

kær kveðja

Heimir Hávarðsson

Heimir Hávarðsson (IP-tala skráð) 27.3.2014 kl. 12:56

2 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Sæll Marinó!

Takk fyrir málefnalegan pistil. Ég er ósammála þér um að skattfé sé vel varið í þessa leiðréttingu eins og hún er útfærð, en það byggir væntanlega á ólíkri lífsskoðun.

Vil gera smá athugasemd við útreikningana hjá þér. Tökum til einföldunar lán sem stóð í 10 mkr. í byrjun árs 2008 og sleppum áhrifum vaxta og afborgana á tímabilinu, þær skipta ekki verulegu máli í þessu sambandi. Í lok árs 2009 stóð lánið í 12.640 þúsundum (m.v. vísitölu jan 2008 og jan 2010). Ef ekki hefði orðið "forsendubrestur" þá hefði lánið staðið í 10.983 þúsundum (1,048^2, rétt að nota veldi en ekki samlagningu). Niðurfærslan nemur þá 12.640-10.983 = 1.656 þúsundum. Það eru 13,1% af 12.640 þúsundum, ekki 15,3% eins og þú segir. Þar að auki verður að hafa í huga að þessi 1.656 þúsund dragast af stöðu lánsins eins og hún verður í sumar, væntanlega maí eða júní-stöðu 2014. Þá er lánið raunar komið í a.m.k. 14.867 þúsund (vísitala mars 2014) og leiðréttingin því 11,1% af höfuðstól lánsins eins og það stendur nú. Ekki satt?

Vilhjálmur Þorsteinsson, 27.3.2014 kl. 15:15

3 identicon

Góður

og málefnalegur

ólíkt öðrum

ónefndum 

Grímur (IP-tala skráð) 27.3.2014 kl. 15:15

4 identicon

Þetta fjármagn sem varið í þessa margumtöluðu niðurfellingu , mætti nýta betur og frekar til að byggja upp virkan og heibrigðan leigumarkað. Með slíkum markaði munu allir hagnast. En á hinn bóginn mun verðbólgan éta upp þessa niðurfellingu ef það á ekki að setja þak á verðtryggingu, hver man ekki eftir 110% leiðinni ? Þá borgar sig fyrir ríkið að nota "peningana" í annað og virkur leigumarkaður væri efst á blaði hjá mér.

Jóhann Már Sigurbjörnsson (IP-tala skráð) 27.3.2014 kl. 15:49

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Vilhjálmur, leiðréttingin er hlutfallstala ekki krónutala.  Sé lánið komið í 14.867.000, þá leiðréttist sú upphæð um hvort heldur 13,1% eða 15,3%.  Verðbætur frá 1.1.2010 til dagsins í dag lækka nefnilega líka, þar sem þær reiknast af lægri höfuðstól.

Ég nefni hvergi afstöðu mína til þess að nota skattfé á þennan hátt.  Þannig að ég átta mig ekki á þeirri tengingu.

Jóhann, ég efast ekki um að nýta mætti féð á annan hátt, en það er ekki efni pistilsins.

Óskar, ég nenni ekki eltast við skæting og fjarlægði athugasemdina þína.

Marinó G. Njálsson, 27.3.2014 kl. 16:16

6 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Heimir, ég veit ekki svarið við spurningu þinni.

Marinó G. Njálsson, 27.3.2014 kl. 16:18

7 identicon

Ekki kemur á óvart að skautað er snyrtilega framhjá þaki á verðtryggingu, að ekki sé minnst á guðlastið um afnám hennar á neytendalán!  Ennþá er opið galopið veiðileyfi á lántakendur. Á meðan er "Skuldaleiðréttingin" lélegur farsi í boði fjármagnseigenda (hrægammanna)...

Þjóðólfur (IP-tala skráð) 27.3.2014 kl. 16:27

8 Smámynd: Benedikt Helgason

Ef ég man rétt Óskar þá var það Össur sem lofaði 300 milljörðum fyrir hönd Framsóknar en Samfylkingarbloggherinn hefur slegist við þennan strámann linnulaust síðan og tvísýnt hvor aðilinn mun ganga uppréttur frá þeirri glímu.

En þegar það er sagt þá má segja að þetta hafi verið snjallt pólítískt útspil hjá Össurri því það er erfitt að verjast þessu. Hins vegar má öllum sem fylgdust með umræðunni á þessum tíma vera ljóst að nálgun Framsóknar í kosningabaráttunni var einmitt að leggja ekki fram tölur eða útfærðar aðferðir að fenginni reynslu úr kosningabaráttunni 2009 en í staðinn bjóða kjósendum til sölu viljann til þess að fara í þessi skuldamál. Og ætli það hafi ekki verið einmitt þess vegna sem Össur spilaði þessu út því það var erfitt að verjast þessu tilboði Framsóknar.

Hvað vogunnarsjóði varðar þá óska ég mér fyrst og fremst að þeim verði snýtt rækilega í þessari rimmu sem væntanlega er framundan. Ef það koma hins vegar bara 300 milljarðar í hlut ríkisins/SÍ við það uppgjör þá held ég að við séum í vondum málum. Upphæðin þyrfti að vera miklu hærri sýnist mér ef að það á að takast að aflétta höftum.   

Benedikt Helgason, 27.3.2014 kl. 16:30

9 identicon

merkilegt hvernig menn finna 300.ma.kr. var að hlusta sjónvarpsvital sem illugi setti á EYJUNA þar heiri ég hvergji sigmund lofa 300.ma.kr. heldur kom fullirðíngin frá fréttamanninum en hitt er annað að hann taldi að menn feingju jafnvel meiri peníng en 300.ma.kr. útúr þrotabúunum. það er alt annað mál. en hitt er annað hvernig framhvæmdin er af þessari framhvæmd. afhverju 3.mánuðir. hvernig á að skuldfæra þessa 70-80. ma.kr.til þeirra sem eiga skuldirnar verður þá lækkaður svokkallaður bankaskattur ´g geri ekki ráð fyrir að þessir gufi bara upp í fjármálaráðuneitinu. ibúðarlánasjóður géta menn efalaust aukið eigiðfé það annað mál með bankana. séreignapakkinngétur varla talist ríkinu til tekna. dagsetníng kemur rétt fyrir kosníngar af algöri tilviljun ef menn drúa því. en vonandi kemst tryggvi þór í gegnum þettað skamlaust. þettað gétur ekki verið auðvelt að setja upp forit í kríngum þettað. og verður þettað gert þanig að venjulegur íslendíngur skilji þettað vonandi.

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 27.3.2014 kl. 16:42

10 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Á ég þá að trúa því að þar sem um hvað 40 eða 50 þúsund af 70 þúsund skulgum heimilum fá undir 1,5 milljónum í lækkun á höfuðstól og mega svo nota séreignarsparnað til a greiða hann niður um hvað 1,5 í viðbót að það sé það sem fólk var að tala um þegar að það sagði að þessar leiðréttingar yrðu að vera til að fólk lenti ekki á götunni. Sýnist að mánaðargreiðslur þessara aðila lækku kannski um  6 til 15 þúsund! Hefðu þau ekki fengið meira út úr sérstökum vaxtabótum áfram?

Magnús Helgi Björgvinsson, 27.3.2014 kl. 18:50

11 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Merkilegur tregi fólks til að halda sig við efni færslunnar.

Marinó G. Njálsson, 27.3.2014 kl. 19:01

12 identicon

Það má reikna þetta fram og aftur og rífast um hverju var lofað og hverju ekki. Málið snýst fyrst og fremst um grundvallar mun á lífssýn og heiðarleika. Það er ekki heiðarlegt að berjast fyrir bættum hag skuldara sem voru að missa húsin sín og töldu fyrri ríkisstjórn ekki hafa gert nóg og eiga í raun við almenna leiðréttingu til handa þeim sem ekki féllu undir skilyrði fyrri ríkisstjórnar. Ég þarf ekki annað en að horfa til mínnar eigin fjölskyldu og sjá að niðurstaðan samræmist engan veginn skoðunum og lífsýn jafnaðarmanna þar sem þeir sem fá lr. eiga einbýlishús og hafa hagnast verulega á sinni lántöku til húsnæðiskaupa og þeir sem fá hana ekki hafa tapað eða búa í leiguhúsnæði með verðtryggðri leigu.

Sigthor Ari Sigthorsson (IP-tala skráð) 27.3.2014 kl. 19:47

13 identicon

þettað merkilega merkilegt. 1.almenn niðurfærsla: hefur nokkra ókosti ef menn hafa lítin peníng til að ráðstafa því verða menn að forgangsraða. það er lítið fé til nú um stundir. 2.3. aðlögun skulda að eignastöðu: skiptir eingu máli ef menn hafa ekki efni á greiðslu eftir aðlögun. væri betra að reina að miða við greiðslugétu. lækka vexti og eða lækka lán. 110% leiðin skilaði litlu því það var ekki tekið á greiðsluvandanum. en skilst að það sé til einhver skuldaleiðrétíng eftir áhveðin tíma 3. er af hinu góða. 4. skil ekki afhverju ríkisjóður er að niðurgreiða vexti og verðbætur. nema það lætur bankana borga með samsvarandi sköttum. en tilhvers er þá leikurin gerður 5.6. er af hinu góða virðist skorta vilja hjá stjórnini. en skilst að frumvarp sé á leiðinni um eithvað þessu teingt kanski er framhvæmdin flókinn 7. sértækar aðgerðir vegna framfærsluvanda: höfuðverkur ef menn birja er erfit að hætta. en góðar hugleiðíngar eingu að síður en það er víst að koma skýrla um framfærluvandan frá eyklóu á næstuni verða menn ekki að lifa í voninniað hún komi með lausnir

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 27.3.2014 kl. 21:14

14 identicon

Takk Marinó,

Þú hefur hjálpað okkur meðaljónunum (í góðum skilningi þess orðs) virkilega til að fylgjast með og skilja framvindu skuldaleiðréttingar, ásamt því að hafa verið öflugasti málsvari okkar með þolinmóðri og málefnalegri umræðu og skrifum. Takk - Takk!

Berglin Hilmarsdottir (IP-tala skráð) 27.3.2014 kl. 21:21

15 Smámynd: Benedikt Helgason

Já Sissi, það er þetta með lífsýn jafnaðarmanna sem hægt væri að eyða heilli kvöldstund í að ræða.

Hún virðist samt í grófum dráttum hafa snúist um það undanfarin ár að vera til skiptist í vörn fyrir kröfuhafa með tilheyrandi sakvæðingu á fólkinu í landinu og svo þess á milli beita fyrir sig þeim sem minnst mega sín til þess að sveipa "jafnaðarmennskuna" einhverjum ljóma.

Og öll þekkjum við sennilega dæmi þess að einhver í okkar fjölskyldum hafi misst eigur sínar í kjölfar hrunsins.  Í minni fjölskyldu missti fólk t.d. íbúðir vegna ólöglegra gengistryggðra lána.  Og hvar voru jafnaðarmennirnir þá þegar verið var að hirða þetta af fólki allt síðasta kjörtímabil þegar öllum mátti vera það ljóst að fjármálafyrirtæki voru að stunda þetta byggt á vafasömum lagalegum forsendum? Fór þá ekki öll ykkar orka í að reyna að hafa áhrif á dómsstóla með lagasetningum eða SÍ/FME tilmælum svo að fólk færi eins illa út úr þessu og mögulegt væri?

En hvaðan í andskotanum kemur sú hugmynd Sissi, að uppfærsla á virði lánasafna vegna hruns fjármálakerfisins, sé eitthvað sem íslenskum jafnaðarmönnum sé ætlað að ráðstafa (til kröfuhafa?) samkvæmt sinni lífsýn og að þeir sem sitja eftir með þessi lán eigi að standa undir því með veði í öllum sínum framtíðartekjum? 

Benedikt Helgason, 27.3.2014 kl. 21:40

16 identicon

Takk fyrir þetta, Marinó. Góður pistill eins og alltaf. Þar sem þetta á að ganga yfir á fjórum árum, veistu hvernig það virkar? Sem dæmi, fyrir þann sem getur átt von á 4ja milljón króna lækkun, lækkar lánið um eina milljón á ári og afborganir samsvarandi?

Örn Johnson ´43 (IP-tala skráð) 27.3.2014 kl. 22:09

17 identicon

Benni þessvegna hrundi fylgið og nýtt fólk var kosið sem ætlaði að breyta þessu. Niðurstaðan er að nóg er gert fyrir þá fengu sitt á grundvelli bágrar stöðu.

sigthor (IP-tala skráð) 27.3.2014 kl. 22:15

18 Smámynd: Benedikt Helgason

Sissi. Niðurstaða skuldahópsins sem Marínó sat í á sínum tíma (eða kannski var það niðurstaðan í séráliti Marínós) var sú að það væri til hópur í landinu sem enginn skuldaúrræði dyggðu fyrir. Þessi hópur gæti hvorki leigt né keypt og hann ætti í raun ekki fyrir sinni eigin framfærslu. 

Þessum hóp verður ekki bjargað nema með meiriháttar efnahagsbata í landinu og að mínu mati þá mun sá bati ekki eiga sér stað nema að það takist að losa landið úr þeirri efnahagslegu herhví sem það er í. Það þýðir að kröfuhafar verði beittir botnlausri hörku svo tryggt verði að landið skuldsetji sig ekki í gjaldeyri til þess að koma þeim úr landi. Það er í raun ósamrýmanlegt megin stefnu Samfylkingarinnar í þessu efni sem hefur verið sú að taka lán til þess að borga út kröfuhafa. Það er spurning hvort að gengisfallið sem af því hlytist myndi ekki ganga endanlega frá þessum verst setta hópi?

En á staða þessa hóps að koma í veg fyrir að fólk sem orðið hefur fyrir tjóni vegna stökkbreytingu lána fáu þá stökkbreytingu færða að hluta til tilbaka? Það finnst mér ekki Sissi og sú stökkbreyting er ekki einhver eign sem aðrir geti nýtt til þess að ráðstafa eftir hentugleik.   

Benedikt Helgason, 27.3.2014 kl. 22:53

19 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Örn, þó sagt sé að þetta gangi yfir á fjórum árum, þá er eingöngu átt við að ríkið greiði leiðréttingarhluta lánsins/lánanna upp á fjórum árum.  Frumhlutinn breytist strax, þ.e. sá hluti sem lántakinn heldur áfram að greiða af.  Sá böggull fylgir þó skammrifi, að lántakinn er í ábyrgð fyrir hluta ríkisins, þar til hann er uppgreiddur, þannig að komist ríkisstjórn til valda, sem ekki vill klára málið, þá fær lántakinn restina í hausinn.

Sem sagt, lánið breytist strax og þar með greiðslubyrðin.

Marinó G. Njálsson, 27.3.2014 kl. 22:54

20 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæll Marinó, þetta er merkilegt mál og það hefur gegnsýrt umræðuna frá 2008. Ekki skrýtið að fólk hafi skoðanir. Í raun ekki hægt að meta þessi frumvörp fyrr en þau gefa niðurstöðu hjá fólki.

Gunnar Skúli Ármannsson, 28.3.2014 kl. 00:27

21 identicon

Það er gott að "pakkinn " sé komin fram.  Nú keppist hver framsóknarmaðurinn á fætur öðrum að hrópa húrra og tala um "stæðstu efndir í sögu okkar þjóðar".   Þessi hópur hefur logið svo mikið upp á síðkastið að mörgum finnst komin tími til að finna á þessa nýju lygi nýtt nafn því þetta sé eiginlega orðið nýtt hugtak, " grand lygi " eða eitthvað svoleiðis.  Ég bið um hjálp við þetta verkefni.

Annað atriði poppar upp nokkuð oft á síðustu dögum er sá mikli miskilningur sem farið hefur víða að við kjósendur eigum einhvern rétt á því að þingmenn og ríkisstjórnin eigi  að standa við það sem þeir lofa.  Það er nefnilega bara helvítis frekja í okkur kjósendum að fara fram á þetta.  þetta fólk hefur náttúrulega svo mikið að gera að það getur ekki verið að hlaupa á eftir svona smámunum.

Ríkisstjórn Íslands í dag er full af lygurum og fer þar forsætisráðherra fremstur í flokki. 

Brynjar (IP-tala skráð) 28.3.2014 kl. 01:36

22 identicon

Held að enginn sé í raun á bandi kröfuhafa. Menn sem eiga ekki fyrir framfærslu og eru í vandræðum féllu all flestir undir urræði fyrri ríkisstjórnar. Auðvitað á að hjálpa þeim í þvi fólust aðgerðir fyrri ríkisstjórnar sem voru réttmætt gagnrýndar fyrir að vera ekki nægjanlegar. Aðgerðir núverandi ríkisstjórnar felast hinsvegar ekki í því að gera meira fyrir þá semm minnst mega sín einsog þá sem þurftu að fara 110 % leið og fengu vaxtabætur. Enn er verið að reyna fela sig bak við fólk í vandræðum til að deila peningum út til fólks sem grætt hefur á sinni lántöku. Það mætti t.d. takmarka aðgerðirna við fólk sem keypti húsnæði (og hafði ekki hagnast á sölu) á árunum 2002-hruns. Og hafa bæturnar hærri

Sigthor (IP-tala skráð) 28.3.2014 kl. 06:22

23 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Um leið og ég þakka þér fyrir greinargóðan pistil um þetta mál þá er ég ekki enn sannfærður um að frumvarpið eins og Tryggvi Þór lagði það fram við stjórnarflokkanna (veit ekki til þess að frumvarpið hafi tekið neinum breytingum) sé eins áhrifaríkt og kemur fram í stjórnarsáttmálunum. Ég læt nægja að miða við hann enda er það niðurstaða sem fæst á milli stjórnarflokkanna við stjórnarmyndun. Þú hefur sakað mig um að vera bókstafatrúar í þessu, en ef það að vera prinsippmaður kallast það, þá skal ég gangast við því.

En tvær spurningar um útfærsluna hans Tryggva Þórs.

Í fyrsta lagi þá er í frumvarpinu talað um ,,viðmiðunarvísitölu" sem er ekki skilgreint frekar í frumvarpinu. Hvað er átt við með því? Jón Magnússon, lögmaður, hefur bent á þetta hér á Moggablogginu.

Í öðru lagi, sem e.t.v. tengist fyrri spurningunni, þá kom fram í máli fjármálaráðherra í gær að ekki væri fest í hendi hvort miðað yrði við 4,8% þakið, heldur yrði það ákveðið þegar allar umsóknir væri komnar inn á borð, og þátttaka í séreignarsparnaðarleiðinni skipti þar einnig máli. Hvað þýðir þetta á mannamáli?

Jón Baldur Lorange, 28.3.2014 kl. 11:19

24 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Ég held að þú sért að misskilja lagafrumvarpið, Marinó, hvað varðar hlutfallslega vs. krónutöluleiðréttingu. Í 7.-9. gr. er ákveðið hvernig reikna skuli niðurfærsluupphæðina. Í 11. gr. er fjallað um hvernig skipta skuli lánum upp í frum- og leiðréttingarhluta. Þar kemur ekkert annað fram en að leiðréttingarhlutinn sé búinn til úr niðurfærsluupphæðinni eins og hún stendur á útreikningsdegi, þ.e. óverðbættri til útreikningsdags. Upphæðin gengur upp á móti áföllnum vöxtum, verðbótum og höfuðstól eins og þau standa á útreikningsdegi. Leiðréttingarhluti lánsins ber síðan sömu vexti og frumhluti lánsins frá útreikningsdegi. Ekkert af þessu passar við að leiðréttingarfjárhæðin gangi afturvirkt upp á móti stöðu láns í lok viðmiðunartímabils, þ.e. í lok 2009.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 28.3.2014 kl. 16:04

25 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Fróðleg lesning.

Varðandi það atriði að ef verðtrygging verður dæmd ólögleg og fólk fyrirgeri rétti sínum ef það velur þá leið sem þú lýsir í pistlinum. Liggur þá, að þínu mati, sá dómur ekki til grundvallar á öllum verðtryggðum lánum, hvort heldur gömlum og nýjum?

Annars er flott að sjá færslur hér inni sem eltast við eitt prósent hér eða þar, þegar prinsippið skiptir meira máli en aurarnir, að mínu viti.

Sindri Karl Sigurðsson, 29.3.2014 kl. 22:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 1680018

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband