Leita í fréttum mbl.is

15 staðreyndavillur Guðjóns Rúnarssonar í Kastljósi kvöldsins

Ég var að horfa á Kastljóssþátt kvöldsins, þar sem m.a. sátu fyrir svörum Andrea J. Ólafsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, og Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja.  Umræðu efnið var afskriftir af útlánum gamalla og nýrra banka.

Þátturinn byrjaði með samantekt þáttarstjórnenda og var ekki alveg farið rétt með allt þar, en hægt er að fyrirgefa þeim mistökin, þar sem þetta mál er einstaklega flókið.  Eina villu í inngangi stjórnanda verð ég þó að leiðrétta.  Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sagði að nýju bankarnir ættu að nýta allt svigrúm sitt til afskrifta, hvorki krónu minna né krónu meira.  Hann sagði líka að ekki kæmi til greina að láta einn hóp lántaka greiða fyrir afskriftir annarra, sem þýðir að afskriftir á lánum heimilanna (sem áttu sér stað í gömlu bönkunum) eiga að renna að öllu leiti til heimila sem tóku lán í þeim bönkum.

Guðjón Rúnarsson hefur ekki í langan tíma komið í fjölmiðla (svo ég hef séð) og sagt undanbragðalaust frá staðreyndum.  Hann gerði það ekki heldur í kvöld.  Ég taldi minnst 15 staðreyndavillur í málflutningi hans.  (Einhver myndi tala um lygar, en ég læt það ógert.)  Ari fróði Þorgilsson sagði að hafa ætti það sem sannara reynist og langar mig að hlýða hans ráði.

Spurður um hvernig lánin voru flutt á milli, hvers vegna þau voru afskrifuð í gömlu bönkunum og hvað þetta þýddi fyrir nýju bankana:

1. Guðjón þekkir vel þá list að svara ekki óþægilegum spurningum, þannig að hann reyndi að víkja sér undan og reyndi því að slá ryki í augu áhorfenda.  Hann lætur sem upplýsingar í fjölmiðlum, þá líklegast hjá mér og DV, byggi á misskilningi, þar sem lán til erlendra aðila og hluta til innlendra aðila hafi ekki verið færð á milli.

Staðreynd:  Í málflutningi mínum og DV hefur þess verið gætt að horfa fyrst og fremst til stöðu lána heimila og fyrirtækja, ekki eignarhaldsfélaga og alls ekki erlendra aðila.  Ég hef t.d. alltaf passað mig á að benda á, að lán eingarhaldsfélaga hafi að talsverðum hluta orðið eftir í gömlu bönkunum.  Enginn annar fjölmiðill hefur birt aðrar tölur en hafa komið frá ráðherrum og þær hafa verið byggðar á upplýsingum frá Fjármálaeftirliti sem aftur fékk þær frá bönkunum.  Enginn aðili hefur ruglað saman erlendum aðilum og innlendum aðilum.  Meira að segja hafa menn reynt að áætla hlut útlána SPRON og tengdra fyrirtækja í mismuninum á tölum Seðlabanka Íslands fyrir september 2008 og leiðrétta þannig lækkun á virði útlána um þá upphæð.

2.  Guðjón bætir svo við að "sama var um stóran stabba af íbúðarlánum bankanna, sem veðsettur var Seðlabanka Íslands" og gefur þannig í skyn að verið sé að ofreikna niðurfærslu íbúðalána sem nemur "stórum stabba af íbúðarlánum bankanna".

Staðreynd:  Eingöngu íbúðalán Kaupþings urðu eftir hjá Seðlabankanum vegna veðkalls sem hann gerði.  Slitastjórn Glitnis keypti íbúðalán sín til baka strax í október og færði þau inn í Íslandsbanka.  Þau voru því strax inni í útlánatölum Íslandsbanka vegna október 2008 og alveg örugglega inni í tölum fyrir júlí 2011, sem DV notar.  Slitastjórn Kaupþings keypti lánin til baka í janúar 2010 og færði inn í Arion banka.  Lánin voru því ekki inni í tölum í október 2008, en eru inni í tölu fyrir júlí 2011, sem DV notar.  Landsbanki Íslands veðsetti engin lán til Seðlabanka Íslands.  Þannig að eingöngu hluti íbúðalána eins banka fóru til Seðlabanka Íslands og þau voru færð til baka í janúar 2011.

3.  Guðjón segir að "talnamengun sé í gangi, þar sem ýmist er verið að tala um gamla og nýja bankakerfið eða tölur sem snúa bara að nýja..".  Með þessu virðist hann segja, að ekki megi bera saman upplýsingar um gömlu bankana og nýju bankana.

Staðreynd:  Ekki er hægt að skoða meintar afskriftir nema skoða tölur frá bæði gamla og nýja bankakerfinu.  Í því fellst engin "talnamengun".  Í mínum skrifum hef ég alltaf vitnað í opinberar tölur.  Ég hef alltaf reynt að vera varkár í mati og notast við tölur frá fjármálaráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra, þegar það hefur verið hægt.  DV notast við tölur Seðlabanka Íslands.  Það er engin talnamengun í gangi nema að Seðlabankinn, Steingrímur J og  Árni Páll hafi fengið mengaðar tölur.

4.  Spurður að því hvað svigrúmið þýði, þá svarar hann því ekki, en segir svo:  "Tveir bankar segjast vera búnir að nýta svigrúmið vegna íbúðalána."

Staðreynd:  Samkvæmt tölum bankanna sjálfra sem Samtök fjármálafyrirtækja birtu, þá höfðu bankarnir afskrifað 23,9 ma.kr. af lánum heimilanna á árunum 2009 og 2010.  Í árshlutareikningi bankanna vegna fyrri hluta árs 2011 fer mjög lítið fyrir afskriftum á skuldum heimilanna.  Séu tölur Seðlabanka Íslands skoðaðar, þá hefur staða útlána vegna verðtryggðra húsnæðislána bankakerfisins lækkað um 296 ma.kr. frá september 2008 til júlíloka 2011.  Lækkunin milli september og október 2008 var 248 ma.kr.  Gefum okkur að SPRON hafi átt 50 ma.kr. í verðtryggðum húsnæðislánum og Byr og SpKef umtalsvert minna eða um 30 ma.kr. samanlagt.  Þá eru 216 ma.kr. eftir af þessari tölu.  SFF segir að 23,9 hafi verið afskrifaðir, en útlánin lækka um 216 ma.kr. Þó hægt væri að skýra 100 ma.kr. með öðrum hætti (sem ég efast um), þá væru samt rúmlega 90 ma.kr. eftir.

5.  Guðjón mótmælir því að tala um markaðsmisnotkun.

Staðreynd:  Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er ítrekað talað um markaðsmisnotkun.  Sama á við um skýrslur sem erlendir endurskoðendur unnu fyrir skilanefndri og slitastjórnir gömlu bankanna.  Kominn er tími til að SFF og framkvæmdastjóri þeirra hætti að kóa gömlu bankana og stjórnendur þeirra.  Lögbrot, blekkingar, svik og markaðsmisnotkun gömlu bankanna eru því miður, að því virðist, óhrekjanlegar staðreyndir, ef marka á þær heimildir sem ég vísa til.

6.  Guðjón:  "Menn eru að skipta milli þess að tala um tölur sem snúa að gamla bankakerfinu og þeim sem snúa að því nýja.  Það er ruglingslegt."  (Kannski ekki orðrétt eftir honum sagt.)

Staðreynd:  Ég hef notast við tölur frá fjármálafyrirtækjunum, ráðherrum og Seðlabanka Íslands.  Þessir aðilar hafa reynt að gera umræðuna ruglingslega með því að birta sem mest af ósamanburðarhæfum upplýsingum.  Þess vegna var svar Steingríms J við fyrirspurn Guðlaugs Þórs einmitt svo gott (svo langt sem það náði).  Þar var i fyrsta skipti hægt að sjá svart á hvítu hvaða afslátt tveir af bönkunum fengu á útlánum.   Áhugavert er að sjá hvað þessar tölur eru ólíkar afskriftartölum þeirra.

7.  Guðjón:  "Það er búið að lækka skuldir heimilanna um 144 ma.kr. og meira er í gangi.  Einn banki er búinn að tilkynna um á þriðja tug milljarða í viðbót, þannig að talan er komin upp í 170 ma.kr."

Staðreynd:  Bankarnir segjast vera búnir að afskrifa 23,9 ma.kr., SFF fullyrðir að talan sé 144 ma.kr.  Þessir 120 ma. sem munar koma hvergi fram í bókhaldi fjármálafyrirtækjanna.  Síðan má nefna, að öll gengistryggð lán, heimila og fyrirtækja, voru lækkuð um 50% samkvæmt mati Deloitte LLP.  Stóran hluta tímabilsins frá október 2008 til dagsins í dag hækkuðu vaxtatekjur bankanna af þessum lánum vegna áhrifa af lögum nr. 151/2010.  Þessi hækkun vóg upp hluta af 120 ma.kr. lækkuninni, að ég tali nú ekki um vaxtahækkun fyrir það tímabil sem lánin voru í eigu fyrri kröfurhafa.  Engir útreikningar hafa verið birtir sem styðja þá fullyrðingu að áður gengistryggð lán hafi lækkað um 120 ma.kr. og meðan svo er, þá er talan fengin upp úr hatti sjónhverfingarmannsins.

8.  Guðjón vitnar í tölu frá Árna Páli um 90 ma.kr. svigrúm bankanna til að lækka húsnæðislán.

Staðreynd:  Þessi tala á eingöngu við verðtryggð húsnæðislán.  Hún á ekki við gengistryggð, þar sem öll gengistryggð lán voru, samkvæmt skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn bankakerfisins, færð yfir með 50% afslætti.  Auk þess er ég ekki viss um að þessi tala eigi við nokkur rök að styðjast.  Henni hafi verið slengt fram vegna þess að ráðherra var í vörn.  Bara tölur Seðlabanka Íslands hafa allt aðra sögu að segja, þ.e að verðtryggð íbúðalán hafi lækkað um 248 ma.kr. frá september 2008 til júlí 2011 og gengistryggð íbúðalán stóðu í 107,6 ma.kr í september 2008 og hefðu því átt samkvæmt 50% reglunni að lækka í 53,8 ma.kr.  Þó einhver skekkja sé í tölunum, þá endar svigrúmið í mun hærri tölu en 90 ma.kr.  (Guðjón væri ekki að vitna í tölu Árna Páls nema vegna þess að hún kemur fjármálafyrirtækjunum betur en rétt tala.)

9.  Guðjóni var tíðrætt um erlend lán.

Staðreynd:  Þau lán sem hann talar um sem "erlend lán" hafa verið úrskurðuð af Hæstarétti sem íslensk lán í íslenskum krónum.  Orðfærið "erlend lán" er notað til að rugla.

10.  Guðjón minntist á sérfræðingahópinn sem ég sat í.  Segir hann að "mat sérfræðingarnefndar var að vandinn lægi á bilinu 100-120 ma.kr.", ber þetta svo við 144 ma.kr. tölu SFF og telur að um réttan samanburð sé að ræða.  Þannig ályktar hann að búið sé að gera helling.

Staðreynd:  100-120 ma.kr. töluna þarf að bera við 23,9 ma.kr. ekki 144 ma.kr.  (sjá næsta villa).

11.  Guðjón telur að nefndin, sem ég sat í, hafi ekki tekið tillit til dóma Hæstaréttar og því hafi lög nr. 151/2010 verið óvænt viðbót.

Staðreynd:  Dómar Hæstaréttar féllu 16. júní og 16. september 2010.  Nefndin skilaði af sér í byrjun nóvember 2010.  Að sjálfsögðu tók hún tillit til dóma Hæstaréttar.  Hún gekk út frá sjálfvirkri leiðréttingu lána vegna dóma Hæstaréttar og því væri ekki þörf á því að fara út í sértækar aðgerðir vegna þeirra.

12.  Guðjón segir lög nr. 151/2010 lækka álögur á fólk.

Staðreynd:  Lög nr. 151/2010 virka mjög misjafnlega á lán eftir útgáfudegi.  Að teknu tilliti til vaxtahækkunar, þá hækkaði greiðslubyrði hjá mér á einu láni meðan annað stóð nánast í stað.  Bæði voru með mun hærri greiðslubyrði á eftir en t.d. í desember 2008.  Þegar vextir hækka mikið á lægri höfuðstól, þá getur niðurstaðan verið óhagkvæmari en lágir vextir á hærri höfuðstól.

13.  Þetta er svona til dæmi um ónákvæmni Guðjóns varðandi hugtök:  "Verðbólga er bara lögfest.."

Staðreynd:  Ef svo væri, þá væri hægt að koma böndum á hana.  Það er að sjálfsögðu verðbæturnar sem lúta lögum.

14.  Bönkunum gengur vel að keyra í gegn úrræði.

Staðreynd:  Nú eru tæp þrjú ár frá hruni.  Ennþá bíða þúsundir, ef ekki tugþúsunda eftir úrlausn sinna mála.  Samkvæmt skýrslu eftirlitsnefndar með lögum um úrræði fyrir einstaklinga, heimili og fyrirtæki vegna gengis- og bankahruna, svo kallaðrar Maríu-nefndar, þá gengur bönkunum þá og því aðeins vel að keyra í gegn úrræði, ef viðskiptavinurinn er eingöngu með viðskipti á einum stað og ef hann velur það úrræði sem bankinn vill að hann velji!  Á þeim tíma sem sértæk skuldaaðlögun var í höndum bankanna fóru mjög fáir í gegn um það úrræði.  Eina ástæðan fyrir því að bankarnir vilja taka þetta af umboðsmanni skuldara er til að þeir stjórni vinnunni.

15.  Guðjón skaut inn í lokaorð Andreu:  "Búið er að nýta svigrúmið að fullu, íbúðalánin a.m.k."

Staðreynd:  Þetta er rangt og það sýna allar tölur.  Það getur verið að Arion banki sé lengst kominn með sitt svigrúm gagnvart heimilinum, en hvers vegna veitti hann ekki fjármálaráðuneytinu umbeðnar upplýsingar þegar til hans var leitað.  Samkvæmt tölum Seðlabankans voru útlán til heimilanna bókfærð á 1.032 ma.kr. í lok september 2008.  Í lok júlí 2011 stóðu þessi sömu útlán í 487 ma.kr. mismunur upp á 545 ma.kr.  Um 70-75 ma.kr. voru lán hjá SPRON og skyldum fyrirtækjum, einhver hluti af lánum heimilanna fóru til lífeyrissjóðanna, SFF segir að búið sé að afskrifa 144 ma.kr.  Eftir eru því 545 mínus 75 mínus 144 mínus það sem lífeyrissjóðirnir keyptu eða alls 326 ma.kr. mínus það sem lífeyrissjóðirnir keyptu sem var í mesta lagi 100 ma.kr. virði.  Síðan hafa lántakar greitt af lánum sínum og einhver ný lántaka hefur átt sér stað.  Hvernig sem ég skoða þessar tölur og reyni að vera eins vilhallur bönkunum í útreikningum mínum, þá telst mér til að um 200 ma.kr. sé lágmark þess sem eftir er af afskriftum þeim sem gömlu bankarnir veittu miðað við neðri mörk mats Deloitte LLP á virði lánasafna heimilanna sem fóru til nýju bankanna.  Ég hef áður skorað á bankana að gera hreint fyrir sínum dyrum og endurtek hér með áskorun mína.

--

Mér finnst grátlegt, þegar maður sem vinnur fyrir fagsamtök, eins og Samtök fjármálafyrirtækja, þarf að grípa til þess ráðs að fara rangt með staðreyndir í sjónvarpsviðtali til að fegra ásýnd samtakanna.  Ennþá verra finnst mér að enginn var í sjónvarpssal til að reka þetta þveröfugt ofan í hann.  Guðjón Rúnarsson skuldar þjóðinni afsökunarbeiðni og síðan ætti hann að venja sig á að segja satt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það var afar undarlegt-vægt til orða tekið- að heyra talsmann Samtaka fjármálafyrirtækja mótmæla óábyrgu tali um markaðsmisnotkun gömlu bankanna. Hvar var þessi maður þegar umræðan um skýrslu Rannsóknarnefndar fór fram? Skýrslunni var hælt og nefnd sannleiksskýrslan. grunnur sem hægt væri að byggja á. En hver er staðan nú ? hefur SFF mestar áhyggjur af könnun sem gerð var um viðhorf til vátryggingarsvika?

Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 28.9.2011 kl. 11:00

2 identicon

Ég er alveg sammála því að auðvitað gerðu bankarnir sig a.m.k. sumir sekir um markaðsmisnotkun og mjög líklega er svigrúm til frekari afskrifta. En það voru samt hugmyndir Andreu og HH sem gerðu mig orðlausa.  

Hvað finnst þér um hugmyndir Andreu og Hagsmunasamtaka heimilanna um það að ríkið beiti einhvers konar stjórnvaldsaðgerð til þess að yfirtaka öll lánasöfn bankanna (eða lán sem varða heimilin)? Er ekki um að ræða lán upp á hundruðir, ef ekki þúsundir milljarða? Er þetta ekki óðs manns æði?

Hvaðan eiga peningarnir að koma til að kaupa upp þessi lán? Hafa HH reiknað út kostnaðinn?

Anna (IP-tala skráð) 28.9.2011 kl. 11:05

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Hugmyndir Andreu og HH eru góðar. Þá kemur fram raunverulegt verðmæti íbúðalána bankanna, amk. þess hluta sem fluttur var frá gömlu bönkunum og yfir í þá nýju. Hægur vandi er að finna út afskriftir og bera saman við það sem fullyrt hefur verið.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 28.9.2011 kl. 11:16

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Ég horfði á þáttinn Marinó og verð að segja að Andrea olli mér svolitlum vonbrigðum. Hún er greinilega vel fyrir ofan meðaltal í gáfum, hefur kjark til að standa á sinni meiningu og örugglega hörkudugleg, en það vantar eitthvað, eitthvað sannfærandi.

Hún lét Guðjón komast upp með málþvælu sem honum er einum lagið, án þess að reka það ofaní hann. Staðreyndarvillur sem jafnvel ég, aumur verkamaðurinn sá strax í gegnum.

Mestu mistökin gerði hún þó í restina, þegar henni voru færð lokaorðin. Þar talaði hún almennt um málið, í stað þess að nefna nokkur dæmi um vitleysuna hjá Guðjóni. Hún endaði svo mál sitt með því að fara inná hápólitískt málefni, krónuna og missti þar algerlega marks.

Það eru margir sem hafa skoðun á gjaldmiðlinum og er það besta mál, en það kemur ekkert við þeim vanda sem heimilin eiga við að etja nú. Ef gjaldmiðillinn okkar er vandamál er það vandamál framtíðar. Breyting á honum leiðréttir ekki það óréttlæti sem lánþegar hafa orðið fyrir frá falli bankanna.

Megin verkefnið nú er að leiðrétta það sem orðið er, síðan er hægt að taka á vandamálum framtíðar með hliðsjón af fortíðinni.

Um Guðjón Rúnarsson ætla ég ekki að tjá mig hér á annan hátt en þann að sá maður hefur glatað virðingu sinni fyrir löngu og ekki marktækur á neinn hátt!!

Ég hef þegar ritað nóg um þann mann á bloggi mínu.

Gunnar Heiðarsson, 28.9.2011 kl. 11:39

5 Smámynd: Þórhallur Birgir Jósepsson

Varðandi orð Guðjóns, aðallega lið 1 í upptalningu þinni, er fróðlegt að athuga hvað menn voru að hugsa þegar þessar sviptingar urðu í október 2008 (og AGS hefur margstaðfest síðan, eins og þú bendir á). Í frásögn Árna M. Mathiesen þáverandi fjármálaráðherra í bók okkar, Frá bankahruni til byltingar, segir hann frá því að eignir og skuldir voru færðar "til jafns" frá gömlu bönkunum til þeirra nýju (bls. 104-105):

"Hins vegar var þess gætt að hafa borð fyrir báru, þannig var tekið meira af eignum heldur en skuldum, miðað við nafnvirði, því að við gerðum ráð fyrir að ekki mundi allt innheimtast og eitthvað þyrfti því að afskrifa. Þess vegna verður að hafa í huga, þegar rætt er um flutning eigna og skulda til jafns, að þá er um að ræða áætlað virði skuldanna. Síðan átti í uppgjörinu að jafna þetta og gefa út skuldabréf af hálfu nýja bankans til gamla bankans eða á einhvern annan sambærilegan hátt að greiða til baka það sem hefði verið oftekið.

Þegar stjórn Geirs H. Haarde fór frá völdum frá og minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna tók við var þetta  mjög skammt á veg komið. Það er eitt af því sem mér hefur fundist ótrúlegast í þessari atburðarás að allir þessir sérfræðingar frá AGS skyldu ekki hafa áttað sig á hlutunum betur en raun ber vitni. Þau börðu sér á brjóst og sögðu við okkur að við þyrftum ekki að hafa miklar áhyggjur, þau væru nú komin og kynnu þetta alveg. Einn þeirra sagðist hafa gengið í gegnum sjö svona bankakreppur! Þeir ætluðu okkur að vera búin að klára endurreisn bankakerfisins í febrúar 2009, en það er svona á mörkunum að hægt sé að tala um að það sé búið ennþá, tveimur árum seinna.

Endurskoðendur voru að fara að meta eignirnar og skuldirnar og í samkomulaginu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er lýsing á því ferli, hvernig það ætti að gerast. Því var semsagt langt í frá lokið þegar við fórum frá í lok janúar 2009. Endurskoðendurnir áttu að meta hvað mundi endurheimtast og hluti af því hlýtur auðvitað á endanum að hafa verið myntkörfulánin, lánin sem voru tengd erlendum gjaldmiðlum. Ég minnist þess hins vegar ekki að þau hafi verið komin sérstaklega inn í umræðuna á þessum tíma, að menn væru virkilega að gera ráð fyrir að þau gætu verið ólögleg eða að það væri eitthvað sem væri uppi á borði og þyrfti að takast á við.

Engu að síður var ráð fyrir því gert frá upphafi að einhver hluti þessara eigna bankanna mundu tapast, en hlutfallið var ekki ákveðið strax. Það átti að koma í ljós í þessu matsferli öllu og þannig átti að vera hægt að ákveða hvað skuldabréfið svokallaða, eins og jafnan var talað um, til gamla bankans, ætti að vera hátt.

Hins vegar var þess gætt að hafa borð fyrir báru, þannig var tekið meira af eignum heldur en skuldum, miðað við nafnvirði, því að við gerðum ráð fyrir að ekki mundi allt innheimtast og eitthvað þyrfti því að afskrifa. Þess vegna verður að hafa í huga, þegar rætt er um flutning eigna og skulda til jafns, að þá er um að ræða áætlað virði skuldanna. Síðan átti í uppgjörinu að jafna þetta og gefa út skuldabréf af hálfu nýja bankans til gamla bankans eða á einhvern annan sambærilegan hátt að greiða til baka það sem hefði verið oftekið.

Þegar stjórn Geirs H. Haarde fór frá völdum frá og minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna tók við var þetta  mjög skammt á veg komið. Það er eitt af því sem mér hefur fundist ótrúlegast í þessari atburðarás að allir þessir sérfræðingar frá AGS skyldu ekki hafa áttað sig á hlutunum betur en raun ber vitni. Þau börðu sér á brjóst og sögðu við okkur að við þyrftum ekki að hafa miklar áhyggjur, þau væru nú komin og kynnu þetta alveg. Einn þeirra sagðist hafa gengið í gegnum sjö svona bankakreppur! Þeir ætluðu okkur að vera búin að klára endurreisn bankakerfisins í febrúar 2009, en það er svona á mörkunum að hægt sé að tala um að það sé búið ennþá, tveimur árum seinna.

Endurskoðendur voru að fara að meta eignirnar og skuldirnar og í samkomulaginu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er lýsing á því ferli, hvernig það ætti að gerast. Því var semsagt langt í frá lokið þegar við fórum frá í lok janúar 2009. Endurskoðendurnir áttu að meta hvað mundi endurheimtast og hluti af því hlýtur auðvitað á endanum að hafa verið myntkörfulánin, lánin sem voru tengd erlendum gjaldmiðlum. Ég minnist þess hins vegar ekki að þau hafi verið komin sérstaklega inn í umræðuna á þessum tíma, að menn væru virkilega að gera ráð fyrir að þau gætu verið ólögleg eða að það væri eitthvað sem væri uppi á borði og þyrfti að takast á við.

Engu að síður var ráð fyrir því gert frá upphafi að einhver hluti þessara eigna bankanna mundu tapast, en hlutfallið var ekki ákveðið strax. Það átti að koma í ljós í þessu matsferli öllu og þannig átti að vera hægt að ákveða hvað skuldabréfið svokallaða, eins og jafnan var talað um, til gamla bankans, ætti að vera hátt"

 

Þórhallur Birgir Jósepsson, 28.9.2011 kl. 11:45

6 Smámynd: Þórhallur Birgir Jósepsson

Ég bið forláts, fyrir minn klaufaskap er textinn tvöfaldur:-(

Þórhallur Birgir Jósepsson, 28.9.2011 kl. 11:49

7 identicon

frábært blogg!

ein spurning samt, það hefur EKKERT verið fjallað um borgarafundinn á mánudagskvöldið?? sér í lagi þegar Birgitta STAÐFESTI þá grunsemd Björns Þorra að viðbót við lög um fjármálafyrirtæki hefðu ekki verið skrifuð af löggjafavaldinu, heldur sent til þeirra frá samtökum fjármálafyrirtækja???????? - getur alþýðuhetjan eitthvað skoðað þetta? :-)

Bjorn Arnarson (IP-tala skráð) 28.9.2011 kl. 11:52

8 identicon

Ég skal taka að mér að kalla þennan mann lygara.

Þetta er t.d. sami maður og sendi inn skriflega umsögn til AlÞingis árið 2001 þar sem hann mótmælti því að gengistryggð lán yrðu gerð ólögleg.

Þrátt fyrir að hafa alveg sérstaklega mótmælt þessu banni skriflega 2001, þóttist hann alveg koma af fjöllum þegar Hæstiréttur staðfesti að þessi lán væru ólögleg, og hefðu verið það síðan 2001.

Það er engin ærðumeiðing fólgin í því að segja lygara ljúga.

Sigurður #1 (IP-tala skráð) 28.9.2011 kl. 12:20

9 Smámynd: Guðmundur Ingi Kristinsson

Þakka þér Marinó fyrir þín varðgæslu fyrir okkar hönd.

Guðmundur Ingi Kristinsson, 28.9.2011 kl. 12:31

10 identicon

Áfram Marinó!

Mér finnst það aðdáunarvert hvað þú ert duglegur við að reka rangfærslur, lygar og blekkingar ofan í menn sem eru á fullum launum við að blekkja almenning. Ég hef verið dálítið hissa á því hvað almenningur er seinn að átta sig á hvað þín vinna og eljusemi hefur mikla þýðingu fyrir heimilin í landinu. Býst við að það sé vegna ósvífinna rógsherferða sömu aðila að þinni persónu. Ég er feginn hvað þú tekur því af miklu æðruleysi.

Áfram Marinó!

Halldór Friðgeirsson (IP-tala skráð) 28.9.2011 kl. 13:00

11 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þórhallur, ég hef aldrei efast um hver tilgangurinn var með endurmati á lánasöfnunum, en framkvæmdin varð önnur en Árni lýsir.  Framkvæmdin varð sú að setja þak og gólf á þær "greiðslur" sem komu frá nýju bönkunum og færi endurheimturnar undir gólfið, þá væri það tap bankanna, en eins og Mark Flannagan sagði við okkur hjá HH:  Bankarnir áttu að nota allan afsláttinn í niðurfærslur, hvorki krónu minna né krónu meira.  Einnig sagði AGS að ekki mætti færa afsláttinn á milli hópa, þ.e. nota afslátt sem einn banki fékk til að greiða niður afslátt annars staðar.  Stóri punkturinn hér er að nýju bankarnir áttu EKKI að nota afsláttinn til að mynda hagnað.

Varðandi ummæli Guðjóns um svigrúm og að það sé allt búið varðandi húsnæðislánin, þá langar mig að vita:  Ef þetta svigrúm er búið, hvers vegna hagnast bankarnir þá svona mikið?

Marinó G. Njálsson, 28.9.2011 kl. 16:38

12 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Guðjón svarar mér í viðtali við Pressuna.  Þar er ég allt í einu orðinn vondi maðurinn fyrir að  benda á staðreyndavillur í málflutningi hans og segir:

Umræðan á ekki að vera á þessum nótum, það er engum til framdráttar og alls ekki upplýsandi.

Nú segi ég bara á móti:

Ef framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja fer rangt með, má þá ekki benda á það vegna þess að það spillir umræðunni?  Voru það ekki einmitt staðreyndarvillur hans sem spilltu umræðunni og ábendingar mínar voru til þess fólgnar að almenningur gæti átta sig á hvað væri rétt?  Ef hann hefði farið rétt með, þá hefði ekki þurft að leiðrétta eitt eða neitt og almenningur verið rétt upplýstur um leið og umræðunni var lokið.  Nei, í innan við 15 mínútna viðtali, þar sem viðmælendur voru tveir, þá tókst framkvæmdastjóra Samtaka fjármálafyrirtækja að fara minnst 15 sinnum frjálslega með sannleikann.  Það vill svo til að ég var ekki sáttur við það og kom því á framfæri.  Að kenna sendiboðanum um að spilla umræðunni er að byrja á öfugum enda.

Málið snýst ekki um Guðjón sem persónu, heldur um Guðjón sem framkvæmdastjóra SFF.

Marinó G. Njálsson, 28.9.2011 kl. 17:12

13 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Það er rétt hjá þér Gunnar að ég var alltof kurteis í viðtalinu í gær :) og fyrir vikið komst GR upp með of mikið bull. Þáttarstjórnandi stóð sig hins vegar ekki sem skyldi verð ég nú að segja. 

Langar að koma því á framfæri að hugmyndir um stjórnvaldsaðgerð og yfirtöku lánasafna bankanna hefur lengi verið hugmynd HH ... og hún á einungis við um lánasöfn íbúðalánanna. Hugmyndin um gjaldmiðilinn er hugmynd sem rædd hefur verið og er ein leið sem HH leggja til og alla "skiptigengisleiðina" og jú, hún hefur víst að gera með leiðréttingu lána. Bendi áhugasömum á að kynna sér þær leiðir sem HH hafa lagt til í umræðuna sem mögulegar leiðir til að leiðrétta lán heimilanna.

http://www.heimilin.is/varnarthing/rammaadgerdir/undirskriftasofnun/hvernig

Andrea J. Ólafsdóttir, 28.9.2011 kl. 18:24

14 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Það er rétt að bæta við athugasemd Andreu, að um miðjan september 2009 voru nokkrir stjórnarmenn á fundi hjá þáverandi félagsmálaráðherra, Árna Páli Árnasyni.  Á þeim fundi kynnti hann fyrir okkur þá hugmynd að færa öll húsnæðislán yfir til Íbúðalánasjóðs og á móti kæmi greiðsla í samræmi við yfirfærsluvirði lánanna til bankanna.  Hann sagðist eiga eftir að kynna þessa hugmynd fyrir fjármálafyrirtækjunum. Um það bil 10 dögum síðar vorum við aftur boðuð á fund ráðherra.  Þá var hann búinn að kynna hugmyndina fjármálafyrirtækjunum og þess vegna var hún ekki lengur á borðinu.

Hugmyndin var upprunalega komin frá tveimur mönnum, sem kynntu hana á nokkrum fundum, m.a. með okkur hjá HH.  Útfærsla þeirra var mjög góð og hefði lagfært stöðu heimilanna á einu bretti og á mjög skömmum tíma.  Því miður höfnuðu bankarnir hugmyndinni, en það var þó fyrst og fremst AGS sem hafnaði henni, þar sem hún braut gegn þeirri grundvallarreglu sjóðsins að afskriftir sem bankarnir fengu frá gömlu bönkunum ætti BARA að renna til þeirra sem tóku þau lán sem voru afskrifuð/færð niður.

Marinó G. Njálsson, 28.9.2011 kl. 18:48

15 Smámynd: Elle_

Í næsta pistli á undan sagði ég forystumann Samtaka fjármálafyrirtækja ljúga.  Og það var vegna nákvæmlega sama máls og Sigurður1 bendir á að ofan.  Maðurinn laug. 

Elle_, 28.9.2011 kl. 20:00

16 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Anna spurði þann 28.9.2011 kl. 11:05 um þá hugmynd HH að yfirtaka lánasöfnin með stjórnvaldsaðgerð og láta afskriftasvigrúmið ganga jafnt til allra, og hvort við hefðum reiknað hvað þetta kostar og hvaðan peningurinn fyrir því eigi að koma?

Rétt er að benda spyrjanda á að þetta er hugmynd Talsmanns Neytenda, sem ég tók að mér í fyrra að reikna kostnaðinn við þegar auðsýnt var að "sérfræðingahópur" stjórnvalda myndi ekki gera það. Það skal því áréttað að hvorki núverandi formaður eða stjórn fengu þessa hugmynd, það var Gísli Tryggvason sem það gerði og kostnaðurinn var reiknaður af kerfisfræðingi sem vill svo til að var á þeim tíma óbreyttur félagsmaður í Hagsmunasamtökum Heimilanna.

Þegar þetta var reiknað í fyrra voru tölur og reiki og því nokkurrar varkárni gætt í mati sem sýndi fram á heildarsvigrúm til 14-15% afskrifta. Síðan þá hafa nákvæmari tölur komið ljós, bæði frá fjármálaráðherra og seðlabanka, og þær settar í sama reiknilíkan.

Niðurstaðan er einfaldlega sú að hægt væri að kostnaðarlausu að framkvæma flata 17% niðurfærslu á öllum fasteignaveðlánum allra heimila í landinu. Fyrir nákvæmlega núll krónur. Og það yrðu samt níu milljarðar afgangs sem myndu bæta fjárhagsstöðu Íbúðalánasjóðs!

Kostnaðurinn væri enginn. Þjóðhagslegur ávinningur gríðarlegur.

Guðmundur Ásgeirsson, 28.9.2011 kl. 20:20

17 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Athugasemd mín um þig Andrea var ekki illa meint. Ég hef heyrt til þín í útvarpi og lesið töluvert af skrifum þínum, því kom mér á óvart hversu langt þú lést GR komast. Vissulega á þáttarstjórnandi einnig sök þar.

Vona að þú sýnir klærnar aðeins betur í næsta sjónvarpsviðtali, það er engin ástæða til að hlífa guttum eins og GR, hann hefur sannarlega ekki unnið til þess.

Gunnar Heiðarsson, 28.9.2011 kl. 20:21

18 identicon

Ég var að reyna að horfa á þetta rugl áðan en gafst upp. Guðjón var skelfilegur, Þóra hafði ekki áhuga á sannleikanum og svo var Andrea að spila undir getu. Sorry Andrea, ég veit að það er auðveldara að sitja heima og gagnrýna en að mæta í beina útsendingu. Það hlýtur að hafa slegið þig út af laginu að verða vitni að svona lélegum vinnubrögðum.

Það var og er heimild í neyðarlögunum að flytja öll íbúðalán til ÍLS -sjá hér http://www.althingi.is/altext/stjt/2008.125.html

Þannig að sú hugmynd er ekki beint ný. Það sem er áhugavert er að spurja af hverju var þetta ekki gert? Marinó hefur reyndar svarað því og ég gerði það líka í blaðagrein. Þá hefði ekkert orðið eftir í nýju bönkunum til að innheimta og það vildu bankarnir ekki. Auðvitað áttu þeir ekki að ráða neinu um það verandi endurreistir fyrir skattfé okkar. Fjölmiðlar verða að að spurja af hverju þetta var ekki gert. Það var greinilega uppi á borðinu hjá fyrri ríkisstjórn fyrst það var hluti af neyðarlögunum en svo tók þessi gjörspillta ríkisstjórn við og gerði allt eins og bankarnir sögðu enda vita allir hvernig ÁPÁ og SJS eru (ég ætla ekki að skrifa það hér).

Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 28.9.2011 kl. 20:42

19 Smámynd: Þórhallur Birgir Jósepsson

Sæll Marinó. Þetta er vel gert hjá þér. Ástæða þess að ég vitnaði í ÁMM hér að ofan er að ég vildi benda á hvernig málið fór af stað og eins og hann segir var það ekki nema rétt byrjað þegar ríkisstjórnin fór frá, meðal annars ekki ákveðið hvert hlutfall afskrifta yrði í nýju bönkunum. Það gerðist síðar, líklega á fyrstu 10 dögum minnihlutastjórnarinnar sem tók við. Þessi frásögn ÁMM tel ég að skjóti enn fleiri stoðum undir þinn málflutning og er það vel. Um málflutning framkvæmdastjóra SFF hef ég engin orð.

Þórhallur Birgir Jósepsson, 28.9.2011 kl. 20:43

20 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Marinó, ég verð því miður að fækka þessu um eina:

13.  ..."Verðbólga er bara lögfest.."

Staðreynd:  Ef svo væri, þá væri hægt að koma böndum á hana.

Ekki að það sé nein vörn fyrir Guðjón eða SFF, en reyndar hefur hann þarna alveg rétt fyrir sér. Samkvæmt undirrituðu samkomulagi Ríkisstjórnar Íslands og Seðlabanka Íslands sammælast þessir aðilar um að stefna að 1-4% verðbólgu. Samkvæmt lögum ber að virða undirritaða samninga, og því má segja að 1-4% verðbólga sé á vissan hátt lögfest. 18% verðbólgu skortir hinsvegar lagastoð en það er önnur saga.

Góðu fréttirnar eru svo þær að þú hefur rétt fyrir þér líka Marinó. Einmitt vegna þess að þetta eru bara tölur sem er skrifuð á blað, þá væri jafn auðveldlega hægt að skrifa nýtt blað og setja á það lægri tölur, jafnvel neikvæðar og láta þannig höfuðstóla lána lækkka.

Fjármálakerfið er ekki sköpunarverk guðs heldur mannanna verk og ekkert þar er háð neinum sérstökum náttúrulögmálum, heldur aðeins stærðfræðilögmálum og duttlungum mannlegrar hegðunar. Verðbólga er einfaldlega afleiðing af röngum ákvörðunum, og hinn hlutinn af orsakasambandinu er stærðfræðilegs eðlis. Allt sem þarf til að útrýma verðbólgu eru réttar ákvarðanir og svo GoalSeek.

Guðmundur Ásgeirsson, 28.9.2011 kl. 20:54

21 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Þetta er ótrúleg samantekt hjá þér Marinó og vel til hennar vandað. Vonandi leiðir það til þess að einhver, sem á að standa vaktina fyrir almenning, vakni af værum blundi. Andrea var ekki í öfundsverðu hlutverki í Kastljósþættinum og var slegin út af laginu af einhverjum ástæðum. Það getur komið fyrir alla enda við ofurafl að etja. 

En þessari samantekt þinni þarf að halda til haga. Merkilegt að stjórnvöld hafi ekki leitað til þín meira í framhaldi af nefndarstörfum þínum fyrir ári síðan, eftir mótmælin fyrir ári. Kannski fer það svo að stjórnvöld verða aftur hrædd til aðgerða eins og síðast. Þá þarf að fylgja því eftir og passa upp á að málið verði ekki dregið í nefnd.

Jón Baldur Lorange, 28.9.2011 kl. 22:47

22 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Hér er síðan nýjasta innleggið.  Klippa frá Láru Hönnu, þar sem orð Guðjóns og gagnrýni mín er tengt saman:

Marinó G. Njálsson gerir athugasemdir við málflutning Guðjóns Rúnarssonar

Marinó G. Njálsson, 29.9.2011 kl. 01:21

23 identicon

"Niðurstaðan er einfaldlega sú að hægt væri að kostnaðarlausu að framkvæma flata 17% niðurfærslu á öllum fasteignaveðlánum allra heimila í landinu. Fyrir nákvæmlega núll krónur. Og það yrðu samt níu milljarðar afgangs sem myndu bæta fjárhagsstöðu Íbúðalánasjóðs!"

Ég vil fá nánari útskýringu á þessu. Hvaðan nákvæmlega eiga þessir níu milljarðar að koma til að bæta stöðu Íbúðalánasjóðs? Með hvaða lagaheimildum?

Anna (IP-tala skráð) 1.10.2011 kl. 23:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 1681242

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband