Leita í fréttum mbl.is

Samdráttur í neyslu eftir hrun. Skattheimta á almenning leysir ekki tekjuvanda ríkisins.

Það fór ekki mikið fyrir þessari frétt á mbl.is í gær (föstudag).  Hún fór framhjá mér og það var ekki fyrr en ég sá hana í Morgunblaðinu í dag að ég las hana.  Ég er ekki að tala um breytingu á neyslumynstri milli áranna 2006-2008 miðað við 2005- 2007.  Nei, ég er að tala um það sem stendur neðarlega í fréttinni um að neysluútgjöld hafi dregist saman um 17% að raungildi síðustu þrjá mánuði síðasta árs miðað við sömu mánuði 2007.  Þetta þýðir umtalsverðan samdrátt í tekjum ríkisins, velta fyrirtækja minnkar og þar með þörf fyrir starfsfólk.

Mikið er ég fenginn að fá þessa staðfestingu á því sem ýmist ég eða Hagsmunasamtök heimilanna höfum verið að halda fram í meira en ár.  Hækkun á greiðslubyrði lán hefur leitt til samdráttar í neyslu heimilanna.  Þetta er hluti af því sem heitir á hagfræðimáli, samdráttur í innanlandseftirspurn.  Vissulega er þetta samdráttur að raungildi, en þar sem verðbólga var mjög svipuð hluta tímans, þá er hægt að segja að neysluútgjöld hafi nokkurn veginn staðið í stað á milli ára, þrátt fyrir nokkra hækkun launa.

Því miður verðum við að bíða eitthvað eftir upplýsingum um samanburð neyslu á þessu ári og því síðasta, en ég er sannfærður um að þar verður myndin ennþá dekkri.  Venjulega hefur svona samdráttur í sér verulega lækkun verðbólgu, en sú lækkun lét bíða eftir sér.  Ástæðan er einfaldlega að peningamagn í umferð jókst svo gríðarlega við fall krónunnar og vegna verðbólgunnar sem fylgi.  Þegar slík aukning peningamagns á sér stað án hagsvaxtar eða verðmætaaukningar, þá getur það ekki farið í neitt annað en að auka verðbólguna enn frekar og veikja krónuna.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa lengi varað við því, að neyslusamdrátturinn muni aukast meðan bankakerfið og stjórnvöld telja sig geta gengið með sjálftöku í sjóði heimilanna.  Við höfum einnig varað við því að samdráttur í innanlandseftirspurn mun vinda upp á sig meðan sífellt stærri hluti tekna fyrirtækja og heimila fer inn í bankakerfið og til ríkisins.  Kakan sem skorið er af minnkar í hverjum hring og kallar á að ríkið og bankarnir þurfa að skera stærri sneið í hvert sinn.  Þetta gerir ekkert annað en að auka líkurnar á öðru hruni og ennþá alvarlegra.  Eina leiðin til að afstýra þessu, er að bankarnir og ríkið gefi eftir.  Bankarnir verða að fara út í verulega niðurfærslu skulda- og greiðslubyrði lána heimila og fyrirtækja og það ekki seinna en strax.  Ríkið verður að hætta við auka skattheimtu hjá atvinnulífinu og heimilunum og sækja tekjur þangað sem ekki hefur í för með íþyngjandi byrðar á þessa aðila.  Möguleikarnir eru ekki margir, en þeir eru fyrir hendi.

Hagsmunasamtök heimilanna stungu upp á því í sumar og gerðu það aftur í umsögn um skattafrumvörpin sem núna liggja fyrir Alþingi.  Hugmyndin okkar er einföld, hún er skjótvirk og kostar heimilin og fyrirtækin ekki neitt.  Okkar tillaga er að taka tímabundið altl að helming af mótframlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóði og færa til ríkisins í formi tryggingargjalds eða sértækra skatta.  Þetta mun vissulega skerða getu lífeyrissjóðanna til nýrra fjárfestinga nema þeir losi um pening annars staðar.  Ef þessu er hrint í framkvæmd með tillögum Sjálfstæðisflokksins um skattlagningu séreignarsparnaðar, þá mun ekki þurfa að fara út í neina aðra skattlagningu á almennar launatekjur og neyslu.  Hægt verður að standa vörð um kjör lífeyrisþega og velferðarkerfið. 

Mér skilst að þessi hugmynd hafi verið skoðuð, en mætt andstöðu hjá launþegahreyfingunni.  Ég verð að viðurkenna, að ég skil ekki þá andstöðu.  Er betra að fólk missi vinnuna?  Er betra að skerða kjör fólks með meiri skattlagningu?  Er betra að skerða þegar of knöpp kjör aldraðra og öryrkja?  Þessi aðgerð, sem Hagsmunasamtök heimilanna hafa lagt til er líklegast gjörsamlega sársaukalaus.  Áhrif hennar er hægari uppsöfnun lífeyrisréttinda en annars, en við núverandi aðstæður, þá bendir hvort eð er allt til þess að hægja muni á þeirri uppsöfnun, auk þess sem búast má við að eftir því sem fleiri fyrirtæki og heimili komast í vanda mun ávöxtun lífeyrissjóðanna dragast saman.  Þessi leið er því í öllu tilfellum betri en skattaleið stjórnvalda fyrir utan að hún kemur EKKERT niður á skuldum heimilanna.  Hækkun höfuðstóls lána heimilanna vegna verðbóta mun ekki verða að veruleika og höfum í huga að heildargreiðslubyrði lána heimilanna mun aukast um nálægt 50 milljörðum vegna fyrirhugaðra skattahækkana.  Já, 50 milljarða viðbótarreikningur er sendur til heimilanna á líftíma lánanna, vegna þess að embættismenn í fjármálaráðuneytinu geta ekki hugsað út fyrir boxið og forystumenn launþegahreyfingarinnar hugsa bara um að sitja á sjóðum sínum.

Annars fór ég á fund efnahags- og skattnefndar á fimmtudaginn.  Það virðist gjörsamlega tilgangslaust að mæta á slíka fundi.  Til hvers er verið að biðja hagsmunaaðila að leggja fram umsagnir, ef ekki er hugmyndin að skoða þær?  Hroki stjórnarliða í garð almennings kemur líklega best fram í því.  Mér er sagt, að umsagnir sendar nefndum séu nær aldrei ræddar í nefndunum.  Í besta falli tekur meirihlutaklíkan afstöðu, en að það eigi sér stað málefnaleg umræða á nefndarfundi er víst mjög sjaldgæft.  Formaður nefndarinnar nennti ekki einu sinni að hlusta á okkur sem vorum þarna, heldur var fjarverandi mest allan tímann.  Enda vorum með mér fulltrúar annarra "grátkóra" býst ég við, þ.e. Öryrkjabandalagið og Landsamband eldri borgara.  Þessir þrír hópar hafa jú ekkert að segja.  Ríkisvaldið ætlar t.d. að gefa sjómönnum og útgerðum fjögur ár til að laga sig að niðurfellingu sjómannaafsláttar, en tekjur lífeyrisþega er hægt að skerða um þúsundir, ef ekki tugi þúsunda á mánuði með þriggja daga fyrirvara.  Ég held að ríkisstjórnarflokkarnir ættu að fara að sýna fólkinu í landinu meiri virðingu og hlusta á vilja þess.  Við viljum ekki meiri álögur á heimilin.


mbl.is Neysluútgjöld hækka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Helgason

Málið er einfallt, Við eru blönk og eigum litla peninga. Flóknara er það nú ekki. Þetta er kreppan. Og hún er vond.

Sævar Helgason, 13.12.2009 kl. 00:12

2 identicon

Auðvitað viljum við ekki meiri álögur á heimilin. Við viljum heldur ekki þennan niðurskurð og ekki hinn. Það vilja allir að "eitthvað sé skorið niður, bara ekki hjá mér eða minum hópi."

Það eru engar patentlausnir. Þessum byrðum verður bara að dreifa, og þeim verður að dreifa á sanngjarnari hátt en áður, þannig að þeim verst stöddu sé hlýft sem mest, aðrir taki á sig meiri byrðar.

Þið vinnið frábæra vinnu við að berjast fyrir hagsmunum heimilanna, en það verður líka að vera sanngjarnt. Við erum þokkalega fucked, og einhverjir þurfa að bera þessar byrðar. Helst ætti auðvitað að ganga að eignum þeirra sem bera ábyrgðina hið snarasta, restina þyrfti auðvitað að dreifa á ríkið/þjóðina, en það verður aldrei sátt um að taka á sig byrðar á meðan þessir jólasveinar a) ganga lausir og b) peningarnir þeirra ganga lausir!  Verst af öllu að sjá þetta lið enn með stórkostlegar eignir, lifandi í vellystingum. Það nærir þessa tilfinningu óréttlætis, mismununar og yfirgangs sem við erum búin að fá okkur fullsödd á!

En það er náttúrulega ömurlegt ef það er þannig að álit og hugmyndir fulltrúa hagsmunahópa fái ekki almennilegar viðtökur í nefndum sem þeir eru kallaðir til. Það er lágmarksvirðing og almenn kurteisi!

landa (IP-tala skráð) 13.12.2009 kl. 02:51

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Á fundi efnahags- og skattanefndar á fimmtudaginn tókum við öll fram, sem þar voru, þ.e. fulltrúar eldri borgara, öryrkja og ég frá HH, að við værum, ólíkt ýmsum betur settum hópum, ekki að víkja okkur undan því að takast á við vandamálið.  Hugmynd HH um notkun mótframlags launagreiðenda er sársaukalítil leið til að gera það öfugt á við það sem ríkisstjórnin er að leggja til.  Það er enginn vandi að innleiða líka inn hátekjuskatt og endilega hækka fjármagnstekjuskattinn á fjármagnstekjur yfir 5 milljónir á ári.  Það á að hætta að ráðast á eðlilegar tekjur og eðlilegan sparnað.  Skattkerfið á að vernda hinn almenna launamann, en ekki refsa honum.  Það á að vera sanngjarnt gagnvart fjölskyldunni, en ekki sífellt refsa fólki fyrir að vera í sambúð/hjónabandi og eiga börn.  Ég er hlyntur því að inn í skattkerfið séu byggðar inn fleiri aðgerðir til að koma til móts við barnafólk.

Marinó G. Njálsson, 13.12.2009 kl. 13:32

4 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Það þarf að auka framleiðslu, framlegð og bjartsýni. Það verður ekki gert með skattheimtu líkri þeirri sem var í tíð "skattman", sem ef ég man rétt situr nú í háum stól......

Ómar Bjarki Smárason, 13.12.2009 kl. 14:59

5 Smámynd: Þórdís Bachmann

Samkvæmt Economic Outlook nr. 86 frá OECD, birt 19.11.09, hefur einkaneysla á Íslandi dregist saman um 16,5% frá því í fyrra, á meðan hið opinbera hefur minnkað við sig um 1,9%.

Ég endurtek: 1,9%.

Samdráttur einkageirans er semsé áttfaldur hins opinbera - sem er von, því þetta eru sömu peningarnir. Þeir renna bara allir til Skattmanns núna, svo hann þarf ekkert að spara við sig, þótt til málamynda sé verið að selja flottræfilsbústaði út um heim.

Við - sem hvorki erum á jötunni, né óreiðufólk - þurfum hins vegar að spá í hvort við kaupum skólatöskur handa börnunum - eða mat.

Þórdís Bachmann, 13.12.2009 kl. 20:59

6 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Flott fyrir ríkið að hafa úr öllum þessum peningum að spila til að geta kannað alla leyndardóma ESB og kannað með sameiningu stofnana og alls konar hagræðingu, sem kostar stórfé í starfslokasamningum.... og svo verður þetta allt svona rétt að komast í gagnið þegar hjólin fara að snúast að nýju, og þá þarf að fara í að endurskipuleggja allt aftur, kaupa gömlu sendráðin upp á nýtt á miklu hærra verði og svona má vafalaust lengi lengi telja. ÞETTA ERU SNILLINGAR SEM STJÓRNA LANDINU....!!!

Ómar Bjarki Smárason, 13.12.2009 kl. 22:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 4
  • Sl. sólarhring: 123
  • Sl. viku: 687
  • Frá upphafi: 1677709

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 52
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband