Leita í fréttum mbl.is

Látum í okkur heyrast

Eftir góðan fund stjórnarmanna úr Hagsmunasamtökum heimilanna með tveimur fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þeim Mark Flanagan og Franek Rozwadowsky, þá virðist mér sem raddir okkar heyrist betur á skrifstofum AGS í Reykjavík og Washington, en hjá ráðamönnum þjóðarinnar.  Við þurfum því að láta betur í okkur heyra.  Ráðamenn mega ekki komast upp með að hunsa vilja okkar.

Tveir bankar komu í dag fram með nýjar tillögur um lausn gengistryggðra lána.  Arion býður 30% afslátt og 6,0% óverðtryggða vexti með Frjálsi býður 26% afslátt og 6,95% óverðtryggða vexti.  Fyrir nokkru bauð Íslandsbanki 25% afslátt og 7,5% óverðtryggða vexti.  Þetta er allt á réttri leið en betur má ef duga skal.  Samkvæmt þessu er best að skulda Arion banka, en verst að skulda Landsbankanum, þar til annað kemur í ljós.  Ég býst við að SPRON bjóði sama og Frjálsi eða jafnvel að lán veitt af SPRON falli undir Arion.

Þessi tilboð bankanna koma núna í kjölfar dóms héraðsdóma Reykjavíkur í bílalánsmáli.  Sá dómur olli miklum vonbrigðum, en þó þessi orrusta hafi tapast, þá er stríðið ekki búið.  Baráttan fyrir leiðréttingu lána heimilanna (og fyrirtækja) verður því að halda áfram. Fundurinn á Austurvelli er mikilvægur líður í þeirri baráttu.  Vil ég því hvetja alla sem vettlingnum geta valdið að mæta á Austurvöll kl. 15.00 á morgun laugardaginn 5. desember.  Sýnum stjórnvöldum að við erum menn en ekki mýs.  Stöndum föst á okkar kröfu um réttlæti, sanngirni og jafnræði.  Sendum stjórnvöldum þau skilaboð að vilji okkar verði ekki hunsaður.  Síðasta bylting byrjað á Austurvelli.  Hver segir að hún hafi verið sú síðasta.


mbl.is Efna til kröfufundar á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Offari

Heyr! Heyr!....

Offari, 4.12.2009 kl. 17:34

2 identicon

Er þetta raunhæf leiðrétting? Við hvern er best að tala til að ganga úr skugga um hvort "greiðsluskjól" sé betra en "greiðslujöfnun" vegna stökkbreyttra myntkörfulána?

Jóna (IP-tala skráð) 4.12.2009 kl. 17:41

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Gangi ykkur vel á morgun, ég myndi vera þar ef ég væri ekki stödd á Ísafirði.  Takk fyrir að standa með þjóðinni.  Oft var þörf en nú er nauðsyn. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.12.2009 kl. 18:58

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Jóna, ég hef ekki skoðað hvort þetta sé raunhæft eða hagstætt.  30% leiðrétting jafngildir að ríflega 60% af hækkun erlendu gjaldmiðlanna er farin til baka.  Ef við skoðum kröfur HH um að gengistryggð lán verði færð yfir í verðtryggð íslensk krónulán frá lántökudegi og síðan að öll verðtryggð lán fái á sig 4% þak á hækkun verðbóta, þá þýðir það fyrir gengistryggt lán tekið um mitt ár 2006 að höfuðstóll þess hefði hækkað frá lántökudegi til 1. jan. 2008 um einhver 12-14%.  Frá janúar 2008 hefur verðbólga verið um 26%, þannig að þessar tvær tölur gera um 40%.  Upp á ítrustu kröfur HH vantar því einhver 14 - 18%.  Þér að segja, þá er ég ágætlega sáttur við árangurinn gagnvart Arion, en vildi gjarnan sjá hina tvo teygja sig lengra.  Málið er að þetta er almenn aðgerð og því mun fólk fá mismunandi mikla nálgun að upprunalega höfuðstólnum.  Sá sem tók lán í júlí 2007 er ekki að fá eins mikið til baka og sá sem tók lánið á öðrum tíma.  Ég ætla að bíða með að segja nákvæmlega hvort þetta sé gott, en jákvætt er það.  Nú skora ég á Íslandsbanka og alla aðra sem veitt hafa gengistryggð lán að jafna boð Arion banka.

Marinó G. Njálsson, 4.12.2009 kl. 19:45

5 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Þetta eru virkilega góðar fréttir og væru trúlega ekki að koma núna nema fyrir þrotlausa baráttu ykkar hjá HH. Allt sem næst í viðbót er auðvitað bara bónus. Fyrst Arion banki er farinn að bjóða þetta góða leiðréttingu, má ætla að fleiri fylgi á eftir.

Kannski tekur svo félagsmálaráðherra (flokksbróðir minn) sig saman í andlitinu og setur saman frumvarp um raunverulega skjaldborg fyrir heimilin.

Áfram HH

Hólmfríður Bjarnadóttir, 4.12.2009 kl. 22:50

6 identicon

Þakka þér fyrir svar þitt Marínó, við hjónin ætlum að skoða þennan frumskóg betur en það verður að segjast að traust okkar á fjármálastofnunum er ekki hátt og því erum við á varðbergi.

Jóna (IP-tala skráð) 5.12.2009 kl. 11:27

7 identicon

Ef þið ætlið að ná árangri með "bílalánamálið" þá verðið þið að skipta út Birni Þorra. Hann hefur enga málflutningsreynslu og er því "étinn" eins og einn góður og slúnginn lögfræðingur orðaði það við mig.

Eins og ég skil dóminn er ekki verið að taka á aðal álitamálinu, þ.e.a.s. hvort það sé löglegt að gengistengja lán við myntir annara landa. Dómurinn tekur bara á því, fyrst að skuldarinn skrifaði upp á þetta þá var það hann sem varð að taka því að gengið fór í steik.

Það er ekkert tekið á margræddum forsendubresti né hvort að það sé löglegt að lána í erlendum myntum.

Því er þetta mál nánast ónýtt nema að það sé endurflutt eða fundið nýtt og betra mál til að láta reyna á þetta. Mögulega þá líka með öðrum lögfræðingi sem hefur málflutningsreynslu.

Hagfræðingur (IP-tala skráð) 5.12.2009 kl. 23:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 44
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband