Leita í fréttum mbl.is

Gengistrygging ólögleg - eins og ég hef sagt

Hér er komin ótrúlega skýr og afdráttarlaus niðurstaða.  Hún er nákvæmlega sú, sem Hagsmunasamtök heimilanna og björn Þorri Viktorsson hafa haldið á lofti.  Ég hef nokkrum sinnum skrifað um þetta mál og einatt bent á skoðun manna í lagadeildum án þess að nefna neinn á nafn.  Jæja, þarna er nafnið.  Eyvindur G. Gunnarsson er sem sagt einn af þeim, sem ég hef verið í samskiptum við.

Annars var hann ekki í öfundsverðri stöðu, hann Jóhannes Karl Sveinsson, að verja gjörsamlega vonlausan málstað.  Rökin hans voru sum furðuleg og hafði ég á tilfinningunni, að hann hafi ekkert verið allt of æstur að verja gengistryggðu lánin.

Erindi Eyvindar var mjög gott og benti hann á fjölmörg rök máli sínu til stuðnings.  Þau sterkustu voru líklegast, að hann sat í nefndinni, sem samdi frumvarpið að lögum nr. 38/2001, og ætti því að vita hvað menn hefðu verið að hugsa.  En auk þess benti hann á, eins og lesa hefur mátt hér áður, að 2. gr.  laganna tiltekur að greinar 13 og 14 séu ófrávíkjanlegar, en þær innihalda hin mikilvægu ákvæði um að eingöngu megi verðtryggja með vísitölu neysluverðs eða samkvæmt innlendum eða erlendum hlutabréfavísitölum.

Nú er spurningin hvort þetta dugi stjórnvöldum og fjármálafyrirtækjum til að viðurkenna forsendubrest lánanna.  Hagsmunasamtök heimilanna hafa lagt til að gengistryggðum lánum þeirra sem vilja, verði skipt yfir í verðtryggð lán frá lántökudegi.  Ég held að fjármálafyrirtæki eigi að ganga að því hið fyrsta.


mbl.is Gengistrygging ólögleg verðtrygging
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Marinó hvorki bankar né fjármálafyrirtæki munu nokkurn tíman viðurkenna að þetta sé ólöglegt Dómstólar dæma þetta aldrei alþýðu manna í hag, til þess eru dómararnir of innvinklaðir í sukkið og svínaríið sem hefur átt sér stað hérna.Sjáðu dóm hæstaréttar um daginn.Svo við skulum hætta að ímynda okkur að nokkur einasti af þessu fjármálahyski og kerfispakki verði einhvern tíma dregið til ábyrgðar,hvað þá stjórnmálamennirnir sem stóðu á bak við allt saman,dómstólarnir hérna eru jafn spilltir og hin gerfielítan,sem komu öllu til helvítis hér.

magnús steinar (IP-tala skráð) 11.11.2009 kl. 17:38

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Því miður er ég líka farinn að trúa því sem Magnús Steinar segir hér að ofan, að kerfið eins og það leggur sig sé einfaldlega alltof spillt til að leyfa réttlætinu að skína í gegn. Því miður.

Það væri hins vegar stórsigur ef hægt væri að láta reyna á þetta einhvern veginn, og hafa betur einhvers staðar í dómskerfinu.

Er til einhver áætlun um hvernig hægt er að krefjast réttar síns í svona málum?

Hrannar Baldursson, 11.11.2009 kl. 19:22

3 identicon

Ég er nú ekki svona svartsýnn eins og þið strákar. Af hverju ætti dómstólar að hyggla erlendum kröfuhöfum með því að dæma þessi lán lögleg ef góð lagarök hníga að öðru?

En þegar það er sagt/skrifað þá skal ég fúslega viðurkenna að þetta er engan veginn í húsi.

Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 11.11.2009 kl. 19:41

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

Benedikt. Er einhver ástæða til að trúa því að þetta séu allt erlendir kröfuhafar? Má ekki vel vera að þessi blessuðu bílalán hafi einfaldlega verið enn ein svikamyllan sem var hluti af þessari blessuðu stöðutöku gegn krónunni?

Hrannar Baldursson, 11.11.2009 kl. 20:44

5 identicon

Það er auðvitað rétt Hrannar að þetta eru ekki allt erlendir kröfuhafar. Kannski er ég svona bjartsýnn vegna þess að ég held að það fari langt með að koma efnahagskerfinu af stað aftur ef þessi lán verða dæmd ólögleg. 

Og svarið er já. Ég held að bílalánin hafi verið hluti af skipulagðri stöðutöku gegn krónunni. Þessi stöðutaka hefur verið matreidd sem varnir á eiginfé í evrum. En þegar menn eru búnir að blása upp 1000 milljarða plús sápukúlu í formi eignarhaldsfélags, sem svo á að verja gegn falli krónunnar, þá þarf væntanlega að leggja bróðurpartinn af hagkerfinu undir og ráðstöfunnarfé almennings í 7 ár, til þess að það sé yfirleitt hægt.

Ég læt segja mér það tvisvar að fall kaupleigu fyrirtækja verði íslenskum dómstólum einhver harmdauði.

Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 11.11.2009 kl. 22:15

6 Smámynd: Marinó Óskar Gíslason

Ég hef lengi haft það á tilfinningunni að þegar bankarnir voru að lána myntkörfulánin hafi þeir verið að lána íslenskar krónum með erlendu gengismiðviði. Lántakendurnir sáu aldrei þennan erlenda gjaldeyri, svo að eitthvað gruggugt er í þessum málum. Eftir því sem mér hefur skilist, þá eru þessi lán ólögleg.

Marinó Óskar Gíslason, 12.11.2009 kl. 00:59

7 identicon

Ég var í bankanum um daginn og talaði um að væntanlega væru þessi lán ólögleg og fékk það svar að ef svo væri þá færi allt fjármálakerfið á hausinn. Ég svaraði á móti að með þessum lánum og þeirri hækkun sem orðið hefur á húsnæðislánum er verið að setja heimilin á hausinn og hvort væri betra? Ég er því miður hrædd um að Magnús Steinar hafi rétt fyrir sér í því að Dómstólar muni aldrei dæma alþýðu manna í hag þar sem sukkið og svínaríið hafi náð að festa klærnar þar líka.  Ég veit því miður ekki hvort hægt væri að fara með svona mál út fyrir landið til að fá óháða niðurstöðu. Það er algjörlega óásættanlegt að ekki sé gert eitthvað í þessum málum, að bankarnir geti hirt af fólki það sem þeim sýnist, án þess að nokkur taki í taumana og stoppi þetta rán. Þessu verður að linna STRAX!!!

Edda Karlsdóttir (IP-tala skráð) 12.11.2009 kl. 08:40

8 identicon

Sæll Marinó

Getur þú upplýst hvort eða hvað sé í undirbúningi í aðgerðaráætlun HH?
Þurfum við ekki að fara að mæta niður á Austurvöll?

kv,
VJ

VJ (IP-tala skráð) 12.11.2009 kl. 10:04

9 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Magnús Steinar, ég er viss um að fjármálafyrirtækin fallast ekki á þetta án þess að verjast, ekkert frekar en að við féllumst á hitt sjónarmiðið.

Edda, ég er alveg klár á því að sumar fjármálastofnanir þola ekki að lánin verði dæmd ólögleg.  Þessar sömu fyrirtæki hafa gengið hart fram og oft án nokkurrar miskunnar gegn viðskiptavinum sínum, þannig að ég segi bara sök bítur sekan.  Á ensku er sagt:  What goes around, comes around.

VJ, það hefst greiðsluverkfall 15.11. og stendur til 10.12.   Greiðsluverkfallsstjórn er með ýmislegt í undirbúningi í tengslum við það og er ég ekki inni í þeim málum.

Marinó G. Njálsson, 12.11.2009 kl. 10:53

10 identicon

Held að flestir hafi gert sér grein fyrir því þegar þeir skrifuðu undir slík lán að greiða ætti til baka af því í framtíðinni miðað við gengi ísl. kr í þeim myntum sem sem samningarnir tiltaka. Í trausti þess að krónan héldist stöðug vildi fólk með þessu komast hjá verðtryggingu (>+5 ára lána) og háum vöxtum. Sögulega séð voru slík lán hagstæðari til lengri tíma litið en lán með viðmið í ísl verðtryggðum krónum og var fólk því tilbúið til að taka á sig áhættu á gengisflökti íslensku krónunnar. Nú þegar væntingar fólks hafa brostið hvað þetta varðar er rokið upp til handa og fóta og leitað leiða við að finna útgönguleið. Það er ekkert nema mannlegt. Ef einhverju er um að kenna hér er það andvaraleysi stjórnavalda og landráð bankamanna sem meðal annars tóku stöðu gegn krónunni til að fegra árshlutauppgjör sín (og gerðu það að verkum að þessi lán urðu óviðráðanleg), ekki lánasamningunum sem slíkum því fólk vissi fullvel hvað það var að skrifa undir þegar það tók þessi lán. Til að bæta gráu ofan á svart virðist núverandi ríkisstjórn engan vegin höndla það að taka hagstjórnina föstum tökum þannig að þeir sem eru með verðtryggð íslensk lán og gerðu ráð fyrir 2-4 % verðbólguþróun (sbr. yfirlíst verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands) eru að sogast í sömu hítina og þeir sem sitja uppi með óviðráðanleg gengistryggð lán. Eignaupptakan er algjör og öll í boði stjórnmálamanna og útrásarvíkinga sem eru "laughing all the way to Tortola" 

Jóhann Ólafsson (IP-tala skráð) 12.11.2009 kl. 14:10

11 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Jóhann. það er alveg rétt að fólk áttaði sig á þessu, en það sem fólk vissi ekki er að verið væri að bjóða því ólöglega þjónustu og að ráðandi aðilar á fjármálamarkaði og eigendur þeirra myndu taka eins grófa stöðu gegn viðskiptavinum sínum (það sem þú kallar landráð).  Mörg fjármálafyrirtæki eru jafn mikil fórnarlömb fjárglæfra annarra fjármálafyrirtækja eins og viðskiptavinirnir, en það var þeirra val að bjóða ólöglega afurð og þau verða því að súpa seyðið af því.  Svo má ekki gleyma greiningardeildum bankanna, sem virðast hafa a) verið þátttakendur; b) fengið rangar upplýsingar innan úr bönkunum; c) verið búnar of auðtrúa fólki; d) verið gjörsamlega úti á þekju, nema allt fernt gildi.

Ég vil síðan nefna, að Hagsmunasamtökum heimilanna hefur borist til eyrna, að ríkisstjórnin hafi látið útbúa lögfræðiálit um lögmæti gengistryggðra lána.  Niðurstaða þess hafi verið í samræmi við álit Eyvindar.  Af þeim sökum hafi álitinu verið stungið undir stól.  Hvort það er rétt að álitið sé til eða að það hafi fengið þessa meðferð vitum við ekki, en satt best að segja trúum við öllu.

Marinó G. Njálsson, 12.11.2009 kl. 14:27

12 identicon

Held að flestir hafi gert sér grein fyrir því þegar þeir skrifuðu undir slík lán að greiða ætti til baka af því í framtíðinni miðað við gengi ísl. kr í þeim myntum sem sem samningarnir tiltaka.

Jóhann, ég er þér sammála upp að vissu marki. En alveg er ég viss um að þetta sama fólk gerði einnig ráð fyrir því að gengi krónunnar væri/yrði innan EÐLILEGRA skekkjumarka næstu árin.

60% rýrnun er EKKI eðlilegt fall á vestrænum gjaldmiðli á friðartímum !!! Að lán hækki um 100-150% (misjafnt eftir gjaldmiðlum) er EKKI eitthvað sem fólk sér fyrir, jafnvel þeir sem svartsýnir eða ofurvarkárir eru í eðli sínu.

Margir "eftir á besserwisserar" hafa bent á að ef saga krónunnar er skoðuð frá upphafi þá má fullyrða að stefna "gildis" krónunnar hefur aðeins verið í suðurátt, en það má einnig segja um alla aðra gjaldmiðla sem notaðir eru.

Ég hef aldrei verið hrifinn af gengislánunum, enda unnið lengi sem frystitogarasjómaður, fengið þar beint í æð hve flökt krónunnar gat haft dramatísk áhrif á tekjur mínar , einnig hef ég alltaf verið áhugamaður um fjármál og nem nú fjármálaverkfræði.

Eftir að nám hófst þá sá maður hve hroðalega brothætt hið Íslenska kerfi var og einnig sá maður að flestir einstaklingar með lágmarksmenntun í þessum geira hefðu átt að átta sig á yfirvofandi hruni, hvað þá fræðingar ríkisstjórnarinnar og fjármálakerfisins.

Við hefðum fengið þennan skell jafnvel þótt heimskreppan hefði aldrei orðið, það var óumflýjanlegt !!

Hrunið hefði bara átt sér stað aðeins seinna og skaðinn eflaust meiri !!!

runar (IP-tala skráð) 12.11.2009 kl. 15:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 1678164

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband