Leita í fréttum mbl.is

Ill eru úrræði Jóhönnu

Hún er merkileg þessi frétt um áhrif greiðsluaðlögunarinnar á möguleika fólks til eðlilegs lífs.  Hér hefur manneskja neyðst til að fara þessa leið vegna þess að hún gat ekki selt húsið sitt og henni er refsað með því að vera stimpluð vanskilamanneskja.  Já, ill eru úrræði Jóhönnu, ef satt reynist.

Ríkisstjórn Samfylkingarinnar og VG hefur ítrekað bent á greiðsluaðlögunina sem skynsamlegt úrræði fyrir þá sem verst eru standir.  Jafnan er bent á að þetta sé til að koma í veg fyrir nauðungasölu og gjaldþrot.  Mér sýnist niðurstaðan vera nákvæmlega sú sama.

Hagsmunasamtök heimilanna höfðu varað við því að greiðsluaðlögunin væri illur kostur af þessari ástæðu.  Hún væri því alls ekki lausn fjöldans, heldur bæri aðeins að nota hana í neyð.  Samtökin vöruðu einnig við því að skilja á milli greiðsluaðlögunar vegna veðlán og samningskrafna (t.d. yfirdráttur, kortaskuldir, o.s.frv.).   Þessi varnaðarorð hafa nú reynst orð í tíma töluð.  Það er bara verst að Alþingi hlustaði ekki betur á samtökin.

Ég held að þessi frétt Morgunblaðsins eigi eftir að fæla marga frá því að feta þessa slóð.  T.d. má lesa út úr fréttinni, að ekki voru öll lán tekin inn í greiðsluaðlögunina, enda hér greinilega bara um greiðsluaðlögun veðlána. Síðan gleypti bankinn launin með húð og hári fyrstu mánaðarmótin eftir að aðlögunin hafði verið samþykkt og ekkert svigrúm gefið til að greiða óveðtryggðar skuldir.  Ég hélt að tilgangur greiðsluaðlögunarinnar hafi verið að stilla greiðslur þannig af, að viðkomandi gæti borgað af lánunum sínum og hefði samt pening til framfærslu.  Þetta dæmi virðist ekki benda til þess.  Ástæðan er fyrst og fremst þetta furðulega fyrirkomulag að greina á milli greiðsluaðlögunar vegna veðlána annars vegar og annarra lána hins vegar.  Galli sem er æpandi augljós og varða var við.

Ég vona, að þegar fólk selur íbúðir, að ég tali nú ekki um á undirverði, þá setji það í kaupsamninga, að verði lán sem fylgja í kaupunum leiðrétt/færð niður, þá njóti seljandi þess.  Í tilfelli þess einstaklings, sem frétt Morgunblaðsins fjallar um, þá gæti þetta skipt sköpum varðandi það að koma undir sig fótunum aftur.  Það er mikið réttlætismál, að sá sem varð fyrir tjóninu njóti leiðréttinganna.  Sama á við, ef fólk er neytt eða sér sig tilneytt að fara út í greiðsluaðlögun, að allar síðari tíma leiðréttingar skili sér til lækkunar á útistandandi kröfum.  Annað er ekki sanngjarnt.  Nauðasamningur, eins og greiðsluaðlögun er, á ekki að rýra rétt viðkomandi til leiðréttinga síðar.  Við gerð samkomulags um greiðsluaðlögun verður að tryggja slíkan rétt skuldarans.  Hafi það ekki verið gert, þá hefur umsjónarmaður greiðsluaðlögunarinnar ekki staðið sig í stykkinu.


mbl.is Á vanskilaskrá í greiðsluaðlögun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinar Immanúel Sörensson

Þetta er bara hræðilegt - ég hef ítrekað haldið þvi fram að úrræðin fyrir heimilin séu engin - og þetta sannar það.

Steinar Immanúel Sörensson, 25.8.2009 kl. 10:26

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Já, Steinar, það er alveg ljóst að sé fjármálafyrirtækjum gefið svigrúm til að túlka lög og reglur, þá virðast þau alltaf finna eitthvað sem er í andstöðu við tilgang laganna og vilja löggjafans.

Marinó G. Njálsson, 25.8.2009 kl. 11:34

3 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Þessi alvarlegi veikleiki, að hafa ekki allar kröfur inni, sýnist mér fara mjög langt með, að fullkomlega ónýta þetta úrræði, þ.s. greiðsluaðlögun.

Annars, leist mér ílla á það, frá fyrsta degi er ég heyrði um hugmyndir stjórnarflokkanna, í þá veru.

------------------------------------

Síðan, má ekki heldur gleyma hrikalegum hallarekstri bankanna. Hef ekki hugmynd, hvort þeir raunverulega eru reknir með 8. milljarða króna halla á mánuði. En, vitað er fyrir víst, að hallinn er mikill, og alvarlegur. En, ekki er fyrir hendi, opinberlega, nein staðfest tala, um hver akkúrat hann er.

Ég hef, fyrir utan Icesave, miklar áhyggjur af þessum hallarekstri, ekki síst í ljósi gríðarlegrar afskriftar þarfa, sem er fullkomlega fyrirsjáanleg, og vegna þess að endurreistir bankar 2. hafa einungis verið endurreistir, með 12% eiginfjárlrhlutfall. Það held ég, í ljósi ofantalins, sé hvergi nóg, og óttast að eiginfé verði uppurið þegar fyrir mitt næsta ár.

Það væri mjö slæm útkoma, einnig vegna þess, að ríkið stendur frammi fyrir að hrinda í framkvæmd, stærstu niðurskurðar plönum Lýðveldissögunnar, hvað opinberan rekstur varðar.

------------------------------------

Minn ótti, þegar allt er súmmerað, er að deilur næsta árs, geti orðið enn harðari, en deilur þessa.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 25.8.2009 kl. 11:58

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Einar, þú getur andað rólega varðandi þörfina fyrir afskriftir.  Gert er ráð fyrir þeim í þeim afslætti sem bankarnir fá á lánasöfnunum sem færð eru úr gömlu bönkunum.  Samkvæmt upplýsingum sem birtust í vetur, þá nema þeir afslættir um 2.800 milljörðum.  935 hjá Kaupþingi, 1.100 hjá NBI og 790 hjá Íslandsbanka.  Þessar tölur hafa vafalaust eitthvað breyst síðan, en stærðin er af þessari gráðu.

Marinó G. Njálsson, 25.8.2009 kl. 12:06

5 Smámynd: Jón Lárusson

Ég velti því fyrir mér hvort lántakendur geti gert kröfu til þess að fá að kaupa sjálfir lánin á sama verði og "nýju" bankarnir fengu þau, með vísan í jafnræðisregluna og bara eðlilegt "fair play". Lántakendur eru annar aðilinn að gjörningnum og þegar þriðji aðili kemur inn, er þá eðlilegt að hann geti hagnast óeðlilega án þess að öðrum aðila gjörningsins, þ.e. lántakanda verði gefinn kostur á að koma inn í sinn hluta samningsins? Ég væri tilbúinn að kaupa húsnæðislánið mitt með 80% afföllum, jafnvel bara 20%.

Jón Lárusson, 25.8.2009 kl. 12:17

6 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Ertu alveg viss um þetta?

Mig rennir nefnilega í grun, að mismunur milli afsláttar virðis og skráðs virðis, sé notað sem grunnur að eigin fé bankanna.

Þeir með öðrum orðum, eignfæri lánin á 100, og þó þeir hafi t.d. fengið þau á 50 eða 60, þá sé þau 40 eða 50 sem þá vantar upp á, einfaldlega eifnfært og myndi hluta af hinu 12% eiginfjárhlutfalli.

Ef þetta er rétt, þá skilur maður betur, en ella. Af hverju bankarnir, eru svo gersamlega - fram að þessu - mótfallnir tillögum um almennar afskriftir.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 25.8.2009 kl. 12:27

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Einar, já, ég er viss.  Ég veit líka að erlendir kröfuhafar ahfa krafist þess að þessi afsláttur verði látinn ganga til lántakenda annars verði afslátturinn endurskoðaður.  Þeim finnst út í hött að þeir veiti 70-90% afslátt meðan bankarnir ætli að reyna að rukka sína viðskiptavini að fullu.

Marinó G. Njálsson, 25.8.2009 kl. 12:32

8 identicon

Sæll, Marinó, takk fyrir bloggið þitt við greininni um aðstæður mínar.  Ég sé að greinilega hefur þú kynnt þér þessi mál vel, alla vega betur en ég var búin að gera, þegar ákvað að sækja um s.k. greiðsluaðlögun hjá Ráðgjafastofu um fjármál heimilanna.  Ég hefði áhuga á að heyra frá þér um þessi mál nánar.  Því verði verklag og vinnureglur ekki bættar af stjórnvöldum (þeim sömu og settu lögin um greiðsluaðlögun), þá mun ég draga umsókn mína til baka.  'Eg get ekki hugsað mér að vera "ófjárráða einstaklingur" til margra ára !!

Bestu kveðjur, Guðbjörg Þ.

Guðbjörg Þórðardóttir (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 14:10

9 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Guðbjörg, þar sem ég er í stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna, þá fengum við öll frumvörpin um greiðsluaðlögun til umsagnar.  Við kynntum okkur því kosti og galla þessara frumvarpa og fannst ýmislegt meingallað í þeim frumvörpum sem urðu að lögum.  Við sáum t.d. fyrir okkur óhagræðið af því að hafa tvenns konar úrræði eftir því hvort um væri að ræða veðskuldir eða samningsskuldir.  Nauðsynlegt væri að taka á öllum skuldum með einum samningi í stað tveggja, eins og gert er ráð fyrir.  Það var eins og aðilar með veðkröfur ættu að fá meiri vernd en hinir sem ekki voru með veðkröfur, þó svo að veðkrafan væri umfram veð.  Við sáum líka fram á að fólki í greiðsluaðlögun yrði haldið nokkuð óvirku í þjóðfélaginu, eins og um gjaldþrota einstaklinga, þó svo að það hafi ekki átt að vera tilgangurinn sem úrræðinu.  Ástæðan er sú, að greiðsluaðlögun veðskulda var felld inn í sömu lög og ákvæði um nauðungarsölu.  Við töldum leið Framsóknar vera betri, en hún gerði ráð fyrir sérlögum um þessi mál.

Ég veit ekki nákvæmlega hver þín staða er, Guðbjörg, en hafi þetta ekki gengið í gegn ennþá, þá hefur þú svigrúm til að leita annarra leiða.  Bankarnir eru farnir að gefa undirfótinn með leiðréttingu/afskriftir/niðurfærslu lána og hugsanlega átt þú kost á því.  Ég er ekki í aðstöðu til að veita ráð um það eða skipta mér að því ferli sem er komið í gang og því vil ég gjarnan halda mér utan við slíkt.  En hafir þú ennþá svigrúm, nýttu það vel og athugaðu hvort aðrir möguleikar eru í stöðunni.  Ræddu síðan við einhvern sem þú treystir eða t.d. lögfræðing Öryrkjabandalagsins og renndu í gegnum þetta með viðkomandi.  Síðan sakar ekki að ræða betur við bankann.

Ég er sammála því að það er ekki góður kostur að vera "ófjárráða einstaklingur" til margra ára.  Þetta fyrirkomulag greiðsluaðlögunarinnar var eitt af því sem okkur hjá HH hraus við, þ.e. að hafa tilsjónarmann yfir sér til margra ára.  Málið er að stjórnvöld voru ekkert að benda fólki á þessa agnúa, hvað þá skýra út áhrif þeirra.  Ég held hreinlega að þeir sem sömdu frumvarpið hafi ekki áttað sig á þessum hliðarverkunum.  Mér finnst alltaf vera mikilvægt, þegar svona lög eru samin, að þeir sem semji þau og síðan samþykkja þau, séu reiðubúnir að lifa eftir þeim.  Ég get ómögulega séð að svo hafi verið í þetta sinn.

Marinó G. Njálsson, 25.8.2009 kl. 15:25

10 Smámynd: Jón Lárusson

Það eru til ýmsar leiðir til að "byggja upp eignastöðu" bankanna. Láta þá fá lánin með afföllum, sem þeir svo eignfæra á fullu verði (enda hefur einhver tekið eftir því að lánin þeirra hafa lækkað). Hin leiðin er svo að keyra vísitöluna upp úr öllu valdi þannig að eftirstöðvar lánanna hækki enn frekar. Það er ágætis hækkun þegar lán upp á 20 milljónir standa núna í 26 milljónum, þrátt fyrir afborganir af þessu láni í einhver þrjú ár eða svo. Það er nefnilega áhugavert til þess að hugsa að ríkistjórnin tók snemma á ferlinum ákvarðanir um hækkanir á vörugjöldum og tollum sem í raun höfðu ekkert með auknar tekjur í ríkisjóð að gera, t.d. hækkanir á gjöldum innfluttra bifreiða. Hins vegar skall þetta á vísitölunni af fullum þunga og þar með hækkuðu lánin.

Það er ótrúlegt að vinstristjórn, þið vitið þessar sem þykjast vera mikklu meiri húmanistar en þessar hörðu kapítalísku hægristjórnir, skuli standa að svona brjálaðri undirlátssemi við fjármagnið. Er virkilega ekkert að marka þetta fólk. Það er lágmarks krafa að afföll á skuldum fari áfram til lántakenda, tali maður ekki um þegar erlendir lánadrottnar hafa sjálfir afskrifað skuldirnar til bankanna og þeir því engan vegin skuldbundnir til að borga þennan pening neitt annað en í eigin vasa.

Jón Lárusson, 25.8.2009 kl. 16:51

11 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

"Samkvæmt upplýsingum sem birtust í vetur, þá nema þeir afslættir um 2.800 milljörðum.  935 hjá Kaupþingi, 1.100 hjá NBI og 790 hjá Íslandsbanka. "

Þakka þér fyrir þessar tölur.

Hverjar voru aftur upphaflegu upphæðirnar, svo maður hafi betri tilfinningu fyrir því, um hve mikinn afslátt er að ræða frá upphaflega skráðu virði?

Þá, eru það hallarekstur bankanna, sem væntanlega stafar af því að þeir eru að halda uppi rekstri, umtalsverðs fjölda fyrirtækja - sem er þá hreinn kostnaður fyrir þá; sem er einn helsti vandi þeirra.

Kv.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 25.8.2009 kl. 18:43

12 Smámynd: Elle_

Marinó:  Vonandi verður það lýðum ljóst sem þú lýstir um Ástu "fulltrúa banka, fjármálastofnana og yfirvalda".   Mikil skömm bara.  Man eftir ummælum þessarar sömu Ástu í fjölmiðlum þegar opinbera umræðan um hrikaleg gengislán fór af stað.   Þar sagði þessi Ásta að hún "efaðist ekki um að bankarnir hefðu útskýrt gengislánin fyrir fölki".   Haft var samband við hana vegna þessara röngu ummæla og útskýrt fyrir henni að það væri alrangt, að bankar og fjármálasfyrirtæki hefðu AKKÚRAT  OFT EKKI útskýrt neina hættu fyrir neytendum fyrir undirskrift gengilánasamninga.  Hún þóttist"ALDREI hafa heyrt það fyrr"!?   Enginn vafi er að kona þessi, sem ætti að vera að vinna fyrir neytendur, vinnur akkúrat EKKI fyrir neytendur.   Og fólk niðurlægt í óhagstæðu prógrammi þar með gæslumanni.    Það er orðið alvarlegt mál að neytendur eru hafðir að féþúfum og fíflum út um allt þjóðfélag og yfirvöld halda ekki hlifiskildi yfir þeim.  

Elle_, 25.8.2009 kl. 21:04

13 Smámynd: Marinó G. Njálsson

ElleE, ég tók það út úr færslunni minni, þar sem ég vissi ekki hvort það myndi orka tvímælis, en er hugsanlega málið að það eru fjármálastofnanirnar sem kosta rekstur Ráðgjafastofu heimilanna.  Satt best að segja hefur mér alltaf þótt það dúbíus og kasta vissa rýrð á stofuna.  Það er nær að peningarnir renni til ríkisins og það úthluti síðan framlögum á fjárlögum til stofunnar.

Marinó G. Njálsson, 25.8.2009 kl. 21:31

14 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Annars horfði ég á viðtalið við hana Guðbjörgu í Kastljósi og vil þakka henni fyrir það hugrekki að koma í þetta viðtal. 

Guðbjörg, við þig vil ég segja, ef þú lest þetta, að þú hefur verið beitt miklum órétti í krafti laga sem áttu að verja þig.  Meðferðin á þér er ekki í samræmi við vilja löggjafans og alls ekki í samræmi við það sem lagt var upp með.  Framkoma Íslandsbanka er til skammar burt séð frá öllum verkferlum.  Ef þetta eru verkferlarnir sem starfsmönnum er gert að fylgja, þá er tími til kominn að breyta verkferlunum.  Ég skora á Íslandsbanka að taka mál þín upp aftur og bæta þér það tjón sem bankinn hefur valdið þér.  Þú varst ekki vanskilamanneskja frekar en fjölmargir aðrir sem eru í þeirri stöðu að sitja uppi með tvær eignir.  Það getur verið að þú hafir ekki vitað hver réttur þinn var eða hvaða úrræði þér stóðu til boða.  Það var bankans að kynna fyrir þér þau úrræði sem hann hafði upp á að bjóða.  Það var ekki hans að ýta þér inn í eitthvað ferli sem þú gast ekki annað en tapað á.  Það var síðan Ráðgjafastofu heimilanna að vara þig við hvað fólst í greiðsluaðlöguninni.  Stofan brást algjörlega sem er skammarlegt.  Það er ekki hægt að skýla sér bakvið að um nýtt úrræði er að ræða.  Í slíkum tilfellum eiga menn að stíga varlega til jarðar.  Þar klikkaði Íslandsbanki illilega og mun það verða honum til skammar.  Birna Einarsdóttir ætti að kalla þig á sinn fund og biðja þig persónulega afsökunar á klúðri bankans.  Creditinfo ætti líka kalla á þig og biðja þig afsökunar.  Samkvæmt starfsreglum sem Persónuvernd setti fyrirtækinu ber því að vara fólk við með nægum fyrirvara að nafni þeirra verði bætt á vanskilaskrá svo hægt sé að koma í veg fyrir að einstaklingur sé skráður fyrir mistök.  Þú varst ekki í vanskilum, þegar þú fórst fram á greiðsluaðlögun og því voru ekki til staðar skilyrði fyrir skráningu þinni.  Það voru aðgerðir Creditinfo sem komu þér í vanskil, ekki öfugt.  Lán í frystingu eru ekki vanskil.  Beiðni um greiðsluaðlögun jafngildir ekki vanskilum.  Ég segi bara að lítilla sanda, lítilla sjáva er atgervi Creditinfo og Íslandsbanka í þessu máli.

Guðbjörg, í þínum sporum færi ég með málið til talsmanns neytenda, Gísla Tryggvasonar.  Ég myndi einnig kvarta til umboðsmanns viðskiptavina hjá Íslandsbanka.  Þú varst beitt ótrúlegum órétti og átt að fá tjón þitt bætt.

Lágkúrulegast í þessu öllu fannst mér yfirlýsingin sem Þórhallur Gunnarsson las upp í lok umfjöllunarinnar.  Þar lýsir Íslandsbanki því yfir að hann hafi gert allt rétt.  Kunna menn ekki að skammast sín?  Hvers konar almannatengsl eru þetta?  Það var fjölmargt rangt gert í þessu ferli.  Viðskiptavinur með að því virðist flekklausan viðskiptaferli er meðhöndlaður eins og hættulegur vanskilamaður. Einstaklingur sem er hugsanlega búinn að vera í áratugi í viðskiptum við bankann er hengdur í snöru af gjaldkera eða þjónustufulltrúa sem greinilega vissi ekki hvað hann átti að gera.  Gleymum því ekki að þetta er afsprengi bankans sem ekki gat borgað eitt stykki lán í haust og fór þess vegna á hliðina.  Nei, almannatengslafulltrúi Íslandsbanka (eða hver það nú var sem sendi Kastljósi yfirlýsinguna) gerði alvarleg mistök.  Það hefði hljómað mun betur, ef Íslandsbanki hefði látið hafa eftir sér að þetta mál yrði tekið til skoðunar og athugað hvað gerðist og hvers vegna.  Hvítþvottaryfirlýsing eins og Þórhallur las upp er mjög dapurt PR, svo ekki sé meira sagt.

Marinó G. Njálsson, 25.8.2009 kl. 22:05

15 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Einar, ég er ekki með upphaflegu upphæðina nema hjá Kaupþingi.  Lánasöfn sem flutt voru frá gamla bankanum yfir í þann nýja, samkvæmt bráðabirgðaefnahagsreikningi, eru upp á 1.410 milljarða.  Þar af var búið að færa 19 milljarða á afskriftareikning og síðan er lagt til að til viðbótar verði 935 milljarðar afskrifaðir.  Nýja Kaupþing fær því 1.410 milljarða lánasöfn á 456 milljarða.

Marinó G. Njálsson, 25.8.2009 kl. 22:11

16 identicon

Já há og jæja já.

Þá er nú ljóst hvað fjármagnar nýju bankana, eða hvað?

Svanborg E. O. (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 23:18

17 identicon

"Hagsmunasamtök heimilanna höfðu varað við því að greiðsluaðlögunin væri illur kostur af þessari ástæðu.  Hún væri því alls ekki lausn fjöldans, heldur bæri aðeins að nota hana í neyð.  Samtökin vöruðu einnig við því að skilja á milli greiðsluaðlögunar vegna veðlán og samningskrafna (t.d. yfirdráttur, kortaskuldir, o.s.frv.).   Þessi varnaðarorð hafa nú reynst orð í tíma töluð.  Það er bara verst að alþingi hlustaði ekki betur á samtökin."  Já - Já, það er ólíðandi að alþingi skuli ekki vinna með Hagsmunasamtökum heimilanna, alveg óskiljanlegt hjá þessari svo kallaðri vinstri stjórn...!

kv. Heilbrigð skynsemi

Jakob Þór Haraldsson (IP-tala skráð) 26.8.2009 kl. 03:44

18 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

"Einar, ég er ekki með upphaflegu upphæðina nema hjá Kaupþingi.  Lánasöfn sem flutt voru frá gamla bankanum yfir í þann nýja, samkvæmt bráðabirgðaefnahagsreikningi, eru upp á 1.410 milljarða.  Þar af var búið að færa 19 milljarða á afskriftareikning og síðan er lagt til að til viðbótar verði 935 milljarðar afskrifaðir.  Nýja Kaupþing fær því 1.410 milljarða lánasöfn á 456 milljarða.
Marinó G. Njálsson, 25.8.2009 kl. 22:11"

Sko,,,ég hef reyndar, verið þeirrar skoðunar, allt frá því um upphaf árs, að hægt væri að fella niður skuldir af hluta, án verulegs kostnaðar fyrir ríkið. 

En, þú hefur eiginlega ekki brugðist við einu atriði, sem ég benti á. En, þ.e. að mig grunar, að bankarnir séu að nota mismuninn, milli skráðs andvirðis og þess andvirðis sem þeir fá lánapakkana á, til eiginfjár myndunar.

Það gæti einfaldlega verið þannig, að þ.s. þetta sé skráð sem eign skv. nær fullu upphaflegu skráðu andvirði, þá kalli þeir það kostnað skv. eigin bókum, ef slegið er af lánunum - eins og þú réttilega bendir á, að þeir hafi efni á að gera.

Þannig, hafi verið búið til, ákveðið eiginfjár hlutfall, án þess að láta inn neitt verulegt raunverulegt fjármagn í bankana sem hlutafé.

Spurningin, ef auðvitað, á hvaða formi - akkúrat - var sú hlutafjárinnspýting, sem ríkisstjórnin, sagðist hafa framkvæmt.

-------------------------------

Ef þetta er þannig, þá er ef til vill, komin skýring þess, hvers vegna bankamenn, eru svo sterkt öndverðir gegn því að fallast á einhverskonar almennar afskriftir.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 27.8.2009 kl. 00:16

19 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Einar, ég brást kannski ekki við því núna, en 3. febrúar kom þessi færsla:

Heimilin eiga að fjármagna bankana með fasteignum sínum

Ég held að þessi skoðun getur vart verið skýrari.

Marinó G. Njálsson, 27.8.2009 kl. 07:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband