Leita í fréttum mbl.is

Er í lagi að skuldirnar hækki bara og hækki vegna lélegrar efnahagsstjórnunar?

Ég veit ekki til hvaða talna Jóhanna er að vísa, en sé hún að vísa til þeirra talna sem Seðlabankinn kom með fyrir tveimur mánuðum eða svo, þá er ætti hún að vita að þær tölur segja ekki neitt.  Sé hún með einhverjar nýjar tölur, þá væri gott að alþjóð fái að sjá þær.  Ég held að það skipti ekki máli hvort hún sé að vísa í nýjar tölur eða gamlar.  Síðast vantaði lífeyrissjóðslán, námslán, bílalán, öll bankalán sem ekki voru með veði þar á meðal yfirdráttarlán og síðan öll önnur samningslán. Var bætt úr þessu núna?

En skoðum aðeins það sem kemur fram í frétt mbl.is:

Jóhanna segir að tölurnar sýni að um 74% heimila með fasteignaveðlán verji innan við 30% ráðstöfunartekna sinna til að standa undir fasteignalánum sínum. Og um 80% heimila verji innan við 20% af ráðstöfunartekjum sínum í bílalán.

„Langstærstur hluti heimila landsins býr því við viðráðanlega greiðslubyrði vegna fasteigna- og bílalána, skv. nýjum niðurstöðum seðlabankans. Um er að ræða um 60% af húsnæðisskuldum landsmanna,“ segir Jóhanna.

Við þetta má gera ýmsar athugasemdir og vona ég að þingmenn hafi haft gæfu til að þess að spyrja rétt.

  1. Það þykir í góðu lagi að 60% heimilanna noti allt að helming ráðstöfunartekna í fasteignalán og bílalán.  Hvert var þetta hlutfall (þ.e. heimila) í árslok 2006 og 2007?
  2. Var tekið tillit til þess við þessa útreikninga hvort lán höfðu verið fryst eða aðrar skilmálabreytingar átt sér stað?
  3. Kemur fram í þessum útreikningum hve mikið greiðslubyrði fasteignalána og bílalána hefur breyst á síðustu tveimur árum?
  4. Hefur verið reiknað út hve stór hluti þeirra 40% heimila sem nota meira en 50% af ráðstöfunartekjum sínum til greiðslu fasteigna- og bílalána notuðu minna en 50% af ráðstöfunartekjum sínum í þessar greiðslur annars vegar 2007 og hins vegar 2006?
  5. Þykir forsætisráðherra eðlilegt og sjálfsagt að afsprengi gömlu bankanna, eigi að geta krafist fullrar greiðslu lánasamninga sem gömlu bönkunum tókst einhliða að hækka upp úr öllu valdi?

Skuldir heimilanna við lánakerfið

Samkvæmt upplýsingum sem Íslandsbanki birti í vetur voru skuldir heimilanna við lánakerfið  2.017 milljarðar um síðustu áramót.  Seðlabankinn hefur því miður ekki geta birt sundurliðaðar tölur fyrir árslok 2008 og því er ekki hægt að gera samanburð, en hér fyrir neðan má sjá tölur fyrir lok 3. ársfjórðungs og samburð við stöðu í árslok 2006 og 2007:

Staða í m.kr. í lok tímabils

2006

2007

2008,3

Skuldir heimila við lánakerfið, alls

1.323.415

1.546.907

1.890.374

    Bankakerfi

707.531

834.596

1.029.558

    Ýmis lánafyrirtæki

421.834

493.097

593.852

    Lífeyrissjóðir

109.177

129.708

155.958

    Tryggingafélög

7.153

4.450

10.896

    Lánasjóður íslenskra námsmanna

77.720

85.056

100.110

Skoðum síðan skuldir sem hlutfall af fasteignamati íbúðahúsnæðis  (hér eru heildarskuldir í árslok 2008 notaðar):

 

2006

2007

2008

Fasteignamat íbúðarhúsnæðis

2.311.443

2.770.000

2.894.081

Skuldir heimila við lánakerfið, alls

1.323.415

1.546.907

2.017.000

Hlutfall

57,3%

55,8%

69,7%

 

Það kemur sem sagt í ljós að skuldir heimilanna við lánakerfið hafa hækkað úr tæpum 56% af fasteignamati í tæp 70% af fasteignamati, þrátt fyrir 4,4% hækkun fasteignamats.  Þetta er veruleg hækkun, svo ekki sé meira sagt. Stærsti hluti þessarar hækkunar er tilkomin án þess að lántakendur hafi fengið svo mikið sem eina krónu í viðbót að láni.  Raunar má reikna með því að hátt í 800 milljarðar hafi bæst við þessi lán frá árinu 2000 án þess að ein einasta króna af því hafi runnið til lántakandans.

Nú er vitað (samkvæmt fyrri tölum Seðlabankans) að verulegur hópur fólks á skuldlaust húsnæði.  Það er ekki þar með sagt að fólk sé skuldlaust.  Við vitum líka að eiginfjárstaða og skuldabyrði þurfa ekki að lýsa greiðslugetu fólks.  Einstaklingur eða sambúðarfólk með lága skuldabyrði sem hlutfall af eignum getur verið komið í mikinn greiðsluvanda og á móti geta aðrir sem eru með neikvæða eiginfjárstöðu ráðið ágætlega við greiðslubyrðina.  Þetta vitum við ekki nema að fá upplýsingar um tekjur og útgjöld.  Líklegast er stærsta vandamál heimilanna um þessar mundir, að greiðslugetan hefur minnkað vegna lægri tekna eða hærri greiðslubyrði af lánum.  Skiptir þetta Jóhönnu engu?

Hagsmunasamtök heimilanna gera ráð fyrir að 25 - 40 þúsund heimili séu í bráðum fjárhagsvanda eða stefni í það á næstu mánuðum.  Samtökin telja að ekki sé hægt að álykta út frá skuldastöðu og greiðslubyrði heldur verði að líta á greiðslugetu.  Samtökin telja að það sé réttlætismál (burt séð frá skuldastöðu eða greiðslugetu) að skuldir heimilanna séu leiðréttar vegna þess að samtökin sætta sig ekki við, að þrír ræningjar hafi ráðist að heimilunum úr launsátri og ýmist hirt af þeim eigur þeirra eða krefjast þess að þau greiði þeim lausnargjald.  Samtökin furða sig á því að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, skuli ekki skilja þetta réttlætismál og taka í raun stöðu gegn heimilunum í landinu.


mbl.is Skuldavandinn minni en talið var
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gòd grein Marinò, og audsèd à thìnum skrifum nù sem fyrr ad thù ert talna-glöggur med afbrygdum, rikisstjòrnin tharf mann eins og thig. Sìdast ì gaer töludu Jòhanna og S-grimur um ad àstandid vaeri verra en menn bjuggust vid!!?? hèlt ad allir vissu ad skùtan vaeri sokkin?? Vona ad thù haldir fòkus og gòdum skrifum um màlin sem eru brynust. Kvedja. gulli

gulli spanjol (IP-tala skráð) 3.6.2009 kl. 19:07

2 identicon

Það er fyrirsjáanlegt hvernig mál munu þróast næstu mánuði, rétt eins og það var fyrirsjáanlegt hver staðan væri orðin núna strax í haust.

það sem var ekki fyrirsjáanlegt þá er að ríkisstjórnin myndi ekki vera búin að átta sig á hve alvarleg staðan væri orðin núna í dag.

Þessi afneitun samfylkingarinnar hlýtur að vekja furðu, ef ekki ógn í huga margra.

Toni (IP-tala skráð) 3.6.2009 kl. 19:50

3 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Einhvern vegin get ég ekki alveg trúað orðum Jóhönnu, séu upplýsingar hennar réttar þá er bara allt í gúddý er það ekki?

Arinbjörn Kúld, 3.6.2009 kl. 21:13

4 Smámynd: Elfur Logadóttir

Eigum við ekki að bíða eftir tölunum áður en við gagnrýnum þær, Marinó?

Arinbjörn, það er alls ekki það sem hún er að segja, hún er bara að reyna að leiðrétta flökkusögurnar sem fljúga með tölulegum staðreyndum, að hennar sögn. 

Ég efast ekki um að seðlabankinn birtir gögninn þegar greiningu á þeim lýkur, þá skulum við fara í rýnina og samlesturinn og finna út hvort talan sé 10, 20, 30 eða 40%.

Elfur Logadóttir, 3.6.2009 kl. 21:31

5 identicon

Hvaða völd hefur IMF þarna?  Steingrímur J. vildi engan samning við IMF sl. vetur.  Hann talaði um harðlínustefnu og ógn og þvingun IMF.  Var fyrri ríkisstjórn búin að skrifa undir ógn og þvingun sem við ekki komumst út úr núna?  Og megum við ekkert um samninginn vita?  Steingrímur getur bara ekki verið svo óskynsamur að hann skilji ekki vanda skuldara. 

EE elle (IP-tala skráð) 3.6.2009 kl. 21:57

6 identicon

Og tek undir með Arinbirni: "Einhvern vegin get ég ekki alveg trúað orðum Jóhönnu". Líka Marinó og HH um að þetta sé réttlætismál og að ræningjar hafi rænt fólkið í landinu.  Við sættum okkur EKKI við að borga  þýfi.

EE elle (IP-tala skráð) 3.6.2009 kl. 22:30

7 Smámynd: Eiður Ragnarsson

Þetta er einmitt kjarni málsins...

Hlutfall eigin fjár segir ekkert um það hversu vel mér gengur að standa í skilum... Þar spila margir þættir miklu stærra hlutverk..

Tekur Jóhanna með í reikninginn að matvælaverð hefur hækkað töluvert, líklega í kringum 35%..

Ef allt er talið þá gengur dæmið ekki upp hjá stórum parti heimila, einmitt vegna hækkana allra lána, matarreikninga og annara útgjaldaliða heimilana...

Það skiptir sáralitlu hvað við eigum í eigið fé...

Eiður Ragnarsson, 3.6.2009 kl. 23:09

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Elfur, hvað þarf ég að bíða með.  Jóhanna vitnar í einhverjar huldutölur og ég efast ekkert um að þær séu réttar.  Eina sem ég segi, er að ég vona að menn hafi spurt hana út í tölurnar nánar.  Síðan gagnrýni ég það að henni finnist í lagi að um eða yfir 50% ráðstöfunartekna fari í greiðslur fasteignaveðlána og bílalána og spyr hvað með allt annað sem heimilin þurfa að greiða.  Loks birti ég tölur frá Seðlabankanum (og Íslandsbanka) um skuldir heimilanna og ber þær saman við fasteignamatsverð eignanna.

Elfur, ég hef heyrt það frá fólki innan VG að þessi ríkisstjórn rétt hangi saman.  Það sé raunar enginn grundvöllur fyrir henni og þingmenn VG séu meira og minna í áfallahjálp, ekki vegna ástandsins í þjóðfélaginu, heldur vegna vonbrigða með Samfylkinguna.

Marinó G. Njálsson, 3.6.2009 kl. 23:31

9 Smámynd: Elfur Logadóttir

ég hef líka heyrt það innan úr þinginu að það eigi að skrifa undir Icesave í London á morgun ... gerir það fullyrðinguna rétta?

Það er nákvæmlega sú gagnrýni að "um eða yfir 50% ráðstöfunartekna fari í greiðslur fasteignaveðlána og bílalána" hjá  "60% heimilanna" sem er tölfræði sem þú getur ekki gefið þér byggt á þeim upplýsingum sem þegar liggja fyrir.

Þú getur ekki sagt hvort það er þetta stór hluti heimilanna sem hefur þetta stóran hluta ráðstöfunarteknanna fastan í þessum tilteknu greiðslum, fyrr en þú hefur gögnin í heild sinni. Þú veist ekki nema nákvæmlega sömu 26% sem ætla má að noti meira en 30% af ráðstöfunartekjunum í fasteignaveðlánagrteiðslur séu 20 prósentin sem verja meira en 20% af ráðstöfunartekjum sínum í bílalán, mv. þær upplýsingar sem Jóhanna setur fram. Það gerir vanda þess fólks vissulega stóran - gríðarstóran - en það leiðir til þess að ef svo væri, þá stenst fullyrðing þín ekki nánari skoðun.

en, til þess að rengja, rétta eða staðfesta þá þarf nánari tölur og nánari upplýsingar. Ég þekki þig af nákvæmni og greiningu og geri þá kröfu til þín að þú sýnir hana í þessum efnum líka, en viljirðu byggja ályktanir á takmörkuðum gögnum þá er það þitt mál.

Elfur Logadóttir, 3.6.2009 kl. 23:48

10 Smámynd: Axel Pétur Axelsson

Augnablik.

Er bara í lagi að gengisvísitölulán hækki um 150% og verðtryggðlán um 25%.

Kannast fólk við hugtakið neytendavernd. Það væri betra fyrir íslensk heimili að ítalska eða rúsnenska mafían tæki við allri lánastarfsemi á Íslandi, þeir myndu ALDREI láta sér detta í hug að heimta þessa % hækkun á höfuðstóli.

Þetta er fullkomlega siðlaust hvernig komið er fram við lántakendur á Íslandi og þeir eru hægt og bítandi að segja NEI. Nei þýðir nei, fjárhagsleg nauðgun er glæpur !

Axel Pétur Axelsson, 4.6.2009 kl. 00:03

11 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Elfur, þetta heitir stærðfræði, þ.e. 74% af 80% eru 59,2%.  Þetta þýðir að 59,2% heimila nota allt að 50% af ráðstöfunartekjum sínum í að greiða af fasteignalánum og bílalánum.  Nú veit ég ekki hveru stór hluti notar meira en 50% af ráðstöfunartekjunum, þannig að ég fullyrði ekkert um það.

Ef við notum rökin þín, þ.e. þessi 20% sem skulda meira en 20% af ráðstöfunartekjum í bílalán, skulda líka meira en 30% í húsnæðislán, þá gerir myndin ekkert annað en að versna.  Í fyrsta lagi eru 6% sem skulda meira en 30% í fasteignalánum, en óljóst er hver skuldastaða þeirra í bílalánum þeirra er.  Samanlagt gæti því talan verið frá einhverri tölu yfir 30% í einhverja tölu yfir 50%.  Hversu hátt yfir 50% vitum við ekki.  Síðan væru þá 74% sem skulda allt að 50% af ráðstöfunartekjum í bílalán og fasteignalán.  Hver hlutföllin eru nákvæmlega, veit ég ekki, þar sem Jóhanna er með einhverjar huldutölur.  Það sem gerðist við þessa reiknileikfimi þína, er bara að tölurnar versnuðu.

Við höfum því fyrir víst, ef við notum þína aðferð, að rúmlega 25.000 heimili (20% af 126.000) nota meira en 50% af ráðstöfunartekjum sínum í greiðslur af fasteigna- og bílalánum.  Það sem við vitum ekki og ég reyni ekki að geta í það, hvort þarna er reiknað með frystum greiðslum, greiðslujöfnuðum greiðslum eða óbreyttum greiðslum.  Við vitum heldur ekki hvert er greiðsluhlutfall hinna, þ.e. er það 49% upp til hópa eða 25% eða eitthvað allt annað.  Þess síður vitum við hver er eiginfjárstaða viðkomandi o.s.frv.  Það var þess vegna sem ég vonaðist til þess að einhver þingmaður hefði haft vit á því að spyrja spurninganna sem ég hef sett fram að ofan.

Marinó G. Njálsson, 4.6.2009 kl. 00:16

12 identicon

Og getur Elfur ekki hætt að verja glæpina, ránin, spillinguna? Það er orðið ógurlega þreytandi að lesa það. 

Jón (IP-tala skráð) 4.6.2009 kl. 00:19

13 Smámynd: Elfur Logadóttir

Marinó, ekki "nota mína aðferð" til að reikna, ég var að færa rök fyrir því að þú gætir ekki reiknað þetta með þau gögn sem fyrir ligga og var þar af leiðandi alls ekki að beita neinni aðferð til þess að greina gögnin :)

Jón, ég skrifa um það bil einu sinni í mánuði, ef þú getur ekki höndlað mitt tjáningarfrelsi þá geturðu sleppt því að lesa það sem ég skrifa. Ef ég þreyti þig þá er það þitt vandamál, ekki mitt.

Elfur Logadóttir, 4.6.2009 kl. 00:25

14 Smámynd: Axel Pétur Axelsson

Elfur: Vitir menn ég er sammála þér um eitt, að þú hefur fullt tjáningarfrelsi :)

Axel Pétur Axelsson, 4.6.2009 kl. 00:38

15 identicon

Ónefndur (IP-tala skráð) 4.6.2009 kl. 00:41

16 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Jú, Elfur, ég get víst reiknað það.  Þetta er, eins og ég segi, einföld stærðfræði.  Hlutfallstölur margfaldaðar saman.  Vissulega getur einhver skekkja verið í þessu, en hún getur verið í báðar áttir.  Ég get samt sagt með tölfræðilegri vissu að þetta sé rétt.  En hér er viðbót tekin af Pressunni:

Jóhanna sagði jafnframt að staða heimilanna væri langt í frá jafnslæm og úrtölumenn vilja láta af. Seðlabankinn hafi yfir að ráða ýtarlegum upplýsingum um stöðu heimilanna og þær benda til þess að 60 prósent heimila búi við jákvæða eiginfjárstöðu og langstærsti hluti heimila búi við viðráðanlega greiðslubyrði. Sömu tölur segja 12 prósent heimila verja yfir 50 prósent af ráðstöfunartekjum sínum í afborganir fasteignaveðlána. Þar séu erlend lán fyrirferðarmikil.

Þýðir þetta þá að þessi 12% eða um 15.000 heimili greiði allt að 70% af ráðstöfunartekjum sínum í greiðslur fasteigna- og bílalána?

Marinó G. Njálsson, 4.6.2009 kl. 00:46

17 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Leiðrétting:  Það var náttúrulega ekki rétt að segja "allt að 70%" þar sem það getur verið meira en 70%, þ.e. minnst 50% af ráðstöfunartekjum í fasteignalán og síðan er ómögulegt að segja hve mikið í viðbót í bílalán.

Eitt í viðbót.  Í frétt á ruv.is segir:

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir nýjar upplýsingar frá Seðlabankanum staðfesta að skuldavandi heimilanna sé ekki eins skelfilegur og haldið sé fram. Það sýni að úrræði ríkisstjórnarinnar séu að virka.

Í einni setningunni segir Jóhanna að 12% heimila noti yfir 50% af ráðstöfunartekjum sínum í greiðslu fasteigna- og bílalána og í annarri að "úrræði ríkisstjórnarinnar séu að virka".  Ég skil ekki svona málflutning.  Um 15.000 heimili (12% af 126.000) gera lítið annað en að vinna fyrir skuldum og ástandið er ekki slæmt.  Síðan er rétt að benda á, að ekki er vitað hversu mörg önnur heimili nota meira en 50% af ráðstöfunartekjum sínum í að greiða af fasteigna- og bílalánum.

Marinó G. Njálsson, 4.6.2009 kl. 01:01

18 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Tek undir það sem þú segir. Ég er ekki búin að sjá fyrir mér heildarmyndina en þetta verður mörgum ofviða þegar allt kemur saman. Hækkað matarverð, bensín, fasteignagjöld hækka hjá sumum, hækkun leikskólagjalda o.s.frv. Við erum ekki farin að sjá hvað verður gert með skólanna. Það er framundan hjá mér að koma unglingum í gegn um menntaskóla. Verða sett á skólagjöld?

Við erum ekki farin að sjá nema hluta vandans enn sem komið er. Það er grundvallaratriði að Ríkisstjórnin sé hreinskiptin við þessar aðstæður. Ef menn halda uppteknum hætti með klíkuráðningar, tortryggilegar skilanefndir, bitlinga fyrir stjórnmálamenn o.s.frv. þá held ég að það eigi eftir að sjóða upp úr.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 4.6.2009 kl. 01:07

19 identicon

Jóhanna er orðin sorglega ótrúverðug.   Með hvaða hópi fólks stendur þessi flokkur?  Ekki eru það almennir skuldarar?

Almennur borgari (IP-tala skráð) 4.6.2009 kl. 01:09

20 identicon

Já og bylting kæmi ekki á óvart

Almennur borgari (IP-tala skráð) 4.6.2009 kl. 01:12

21 Smámynd: Axel Pétur Axelsson

Svo er ASÍ og SA að rífast um það hvort lægstu launin eigi að hækka um 7.000 eða 13.500.

ÆrestMæKeis

Axel Pétur Axelsson, 4.6.2009 kl. 01:21

22 identicon

Já, akkúrat. Hvar eru mannréttindin?  Viljum við nokkuð búa í svona okur-rána-skulda-hala-landi? 

Almennur borgari (IP-tala skráð) 4.6.2009 kl. 01:27

23 identicon

Kæri Marinó þessi Elfur er á fullum launum við að HRÓSA Samfylkingunni og hún er í mínum huga einn af 10 lélegustu & ómálefnalegustu aðilum á íslenskum bloggsíðum.  Þú ert ávalt að gera góða hlutina, þú sérð hlutina í réttu ljósi - Heilaga Jóhanna & XS er ennþá bara í AFNEITUN - veit í raun ekkert hvað á að gera & því gera þau auðvitað lítið sem ekkert í þeirri von að "þetta REDDAST vonandi bara einhvern veginn" - það skildi þó ekki vera að Ingibjörg Sólrún sé enn að gefa þessu liði ráð....

Hins vegar eru það mikil GLEÐITÍÐINDI að heyra að VG séu í sjokki yfir "lýðskrumi XS" ég vara þá við að með Samfylkinguna upp í brú á þjóðarskútunni þá væri alveg öruggt að hér yrði annað "kerfishrun" á þeirra vakt, eflaust HEIMSMET hjá þeim auma flokki.  Í næstu kosningum má vissulega færa sannfærandi rök fyrir því að banna eigi XS að bjóða fram.  Flokkurinn er vita gagnlaus er kemur að efnahagslausnum.  Eina baráttumálefni þeirra tengist inngöngu í Evrópubandlagið - í mínum huga er þessi flokkur grátlega lélegur.  Svo virkja þeir ekki sitt hæfasta fólk, eins og t.d. Svavar Gunnarsson & Lúðvík Geirsson (báðir Hafnarfirði), Benedikt Sigurðsson (Akureyri) endaði í 9 sæti - þetta er bara óskiljanlegt.  Auðvitað eru til hæfir einstaklingar í ÖLLUM flokkum, en mér finnst XS óhemju slappir í að finna frambæra einstaklinga.  XS henti frá sér til dæmis Ágúst varaformanni, óskiljanlegt - yndælis karakter og lofaði góðu - en það er víst kominn nýr DAGUR hjá XS - læknir - vonandi skári en Dagfinnur dýralæknir sem náði að slátra heilu samfélagi á sinni vakt...

Eftir stendur sú AUGLJÓSA staðreynd að núverandi ríkisstjórn ætlar lítið sem EKKERT að gera fyrir skulduga einstaklinga.  Það er nefnilega ekkert svigrúm til að gera eitt eða neytt.  Þessi vita gagnlausa ríkisstjórn gerir jú ekkert annað en dæma allar "tillögur & hugmyndir annara norður & niður" - þess vegna var það mjög táknrænt þegar þessi aula ríkisstjórn fór NORÐUR - svo fer hún með þjóðina NIÐUR í svaðið og það verður önnur byltingi í haust - kannski XS & Jóhanna vakni þá til lífsins, þá 8 mánuðum of seint....  Á meðan brennur allt sem brunnið getur í samfélaginu.

kv. Heilbrigð skynsemi

Jakob Þór Haraldsson (IP-tala skráð) 4.6.2009 kl. 01:46

24 Smámynd: Snorri Hrafn Guðmundsson

Ég ætla hreinlega að vísa í IceStat vangaveltu um þetta: Mysterious veil over Iceland

Helstu punktar:

"The explanation used by officials is that these tables cannot be updated because of the banking collapse until the banks' balance sheets are completed. We do not buy into that smokescreen for a very simple reason: loan invoices and bank statements are still being sent to households and companies, so the systems are still online and functioning properly. Information, however, is intentionally withheld from the general public."

"Not providing this data creates a double uncertainly for households as there is no way to measure own position against the total nor a way to find whether more companies are likely to go under, which will increase unemployment."

Úttekt SÍ segir EKKERT til um stöðu mála þar sem grunngögn vantar.

Snorri Hrafn Guðmundsson, 4.6.2009 kl. 07:32

25 identicon

Tugir þúsunda heimila og fyrirtækja eru i frjálsu falli að flestra mati en samkvæmt Elfi (hvernig beygir maður Elfur?), þá er best að bíða þangað til að þau skella á jörðinni, þar sem þá fyrst er hægt að reikna út tjónið með fullkominni nákvæmni. Hún skilur hins vegar ekki af hverju sumir vilja stemma á að ósi.

Doddi D (IP-tala skráð) 4.6.2009 kl. 08:36

26 Smámynd: Axel Pétur Axelsson

Þetta minnir á söguna um mannin sem féll af 14 hæð, á 2 hæð heyrðist hann muldra; þetta er nú allt í fína lagi ennþá. Kanski ríkisstjórnin hafi heyrt þennann og ákveðið að nota.

Snorri: athyglivert.

Axel Pétur Axelsson, 4.6.2009 kl. 10:02

27 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Að skuldirnar séu 69,7% af fasteignamatinu segir út af fyrir sig ekki alla söguna. Fasteignamatið hefur nálgast söluvirði á undanförnum árum. Nú er reiknað með umtalverðri lækkun söluverðs og þar með fasteignamats, erum við að tala um 30-50% og hvert verður hlutfallið þá?

Sigurður Þorsteinsson, 4.6.2009 kl. 11:39

28 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég bið ykkur vinsamlegast ekki að ráðast á Efli persónulega fyrir það að hafa aðra skoðun en þið sjálf.  Hún hefur fullan rétt á að vera ósammála mér eða öðrum.  Rökræður snúast um að færa rök fyrir eigin málstað og gegn málstað og rökstuðningi annarra.

Jakob, ég er sammála því að Samfylkingin er ekki að nýta sitt hæfasta fólk, en kannski er það bara eins og í öðrum flokkum að fólk gefst upp á að koma "vitinu" fyrir öðrum.  Hann heitir annars Gunnar Svavarsson.

Tek undir með Axel Pétri að meðan við erum í fallinu, þá geta öll lífsmerki verið góð.  Þess vegna er nauðsynlegt að skoða heildarmyndina.

Marinó G. Njálsson, 4.6.2009 kl. 11:48

29 identicon

Er fólk nokkuð að ráðast að henni persónulega?  Er fólk ekki bara að mótmæla endalausri rökleysu gegn fólki sem skuldar og fólki og fyrirtækjum sem eru jú í frjálsu falli eins og fólk lýsir að ofan?  Frá mínum sjónarhóli finnst fólki bara orðið fáránlegt hvað hún ver það endalaust að fólk og fyrirtæki geti bara skollið af fullum þunga á jörðinni. 

Almennur borgari (IP-tala skráð) 4.6.2009 kl. 12:18

30 Smámynd: Elfur Logadóttir

Nú þegar niðurstöðurnar eru komnar, þá vil ég gjarnan tengja þær við þessa færslu - svona fyrir söguna.

Frétt mbl.is um að greiðslubyrði 77% heimila (af fasteigna-, bíla- og yfirdráttarlánum) sé innan 40% af ráðstöfunartekjum.

Kynning hagfræðinga Seðlabankans á nýjustu niðurstöðum gagnanna.

Elfur Logadóttir, 11.6.2009 kl. 20:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 3
  • Sl. sólarhring: 125
  • Sl. viku: 686
  • Frá upphafi: 1677708

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 51
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband