Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2011

Teljast lánin frá Bretum og Hollendingum ekki greiðsla?

Í frétt Fréttablaðsins kemur fram að Ísland hafi ekki greitt lágmarkstrygginguna.  Ég verð að viðurkenna, að ég skil ekki þennan málflutning.  Bretar og Hollendingar ákváðu að lána íslenska tryggingasjóðnum fyrir þessari greiðslu og síðan fór greiðslan fram.  Icesave deilan stóð um hvernig standa ætti að endurgreiðslu á þessum lánum, þ.e. vaxtakjör, greiðsluröð, lánstímann og ábyrgðir.  Að halda því fram, fyrst ekki tókust samningar um ofurkjör Breta og Hollendinga, að þá hafi íslenski tryggingasjóðurinn ekki greitt lágmarkstrygginguna, er í besta falli lélegur brandari. 

Breskir og hollenskir innstæðueigendur fengu greitt út ekki bara lágmarkstrygginguna, heldur líka viðbótartryggingu sem Landsbanki Íslands hf. tók hjá erlendu tryggingasjóðunum.  Málið snýst ekki um hvort fólk hafi fengið greitt eða ekki, svo mikið er víst.  Mér sýnist málið snúast um hvernig var greitt.

Alveg frá upphafi, þá litur bresk og hollensk stjórnvöld á að þau hafi veitt íslenska tryggingasjóðnum lán fyrir lágmarkstryggingunni.  Mér vitanlega hefur það ekki breyst.  Lánið hefur ekki verið afturkallað.  Vissulega fór greiðslan fram í gegn um hina erlendu sjóði, en það var einfaldlega vegna óþolinmæði þarlendra stjórnvalda.  Ekki ætlast ESA til þess að innstæðueigendur fengju greitt tvisvar.  Ágreiningurinn hefur ekki staðið um að íslenski sjóðurinn ætli að endurgreiða lánið, a.m.k. veit ég ekki til þess.  Þannig að ég skil ekki þennan málflutning ESA, nema náttúrulega að vörn Íslands í málinu hafi verið svo hrikalega slök að hún hafi hreinlega leitt ESA að þessari niðurstöðu.


mbl.is ESA bíður ekki eftir uppgjöri úr þrotabúi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er það þess vegna sem skuldatryggingaálagið er í 310?

Steingrímur J. Sigfússon sagði í hádegisfréttum RÚV að hann hefði ekki svo miklar áhyggjur af áhrifum efnahagsóróleikans í Evrópu á Ísland.  Landið væri "í miklu skjóli þeim efnum enda búið að koma sér að mestu út af hættusvæðinu" er haft eftir honum.

Ég hef svo sem aldrei haft mikla trú á skuldatryggingaálagi ríkisins, en sveiflurnar í því segja að líklegast er Ísland ekki komið af mesta hættusvæðinu.  Fyrir nokkrum vikum stóð það í 210 stigum, en er núna komið í 310 stig.  Einhvern veginn finnst mér það benda til að erlendir fjárfestar hafi ekki eins mikla trú á stöðu íslenska hagkerfisins og Steingrímur J hefur.

Orð Steingríms minna mig agnarögn á orð Geirs H. Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur á vor mánuðum 2008.  Við vitum öll hvers konar svikalogn það var, sem landið naut þá, og líklegast þarf vindátt ekki að breytast mikið til að skjólið snúist upp í andhverfu sína núna.

Satt best að segja vildi ég frekar heyra Steingrím J segjast hafa miklar áhyggjur af ástandinu og að íslensk stjórnvöld séu á tánum út af því, en að berja sér á brjósti yfir skjólinu sem a.m.k. heimilin og fyrirtækin í landinu kannast ekki við.  Við erum að skauta á þunnum ís og ennþá er langt í traustari.


mbl.is Ísland að mestu af hættusvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigurjón víkur sér undan ábyrgð - Snilldar afleikur "snillings"

Þorbjörn Þórðarson, fréttamaður á Stöð 2, tók alveg kostulegt viðtal við Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóra Landsbanka Íslands, sem birt er á visir.is í dag.  Þar er Sigurjón spurður út í málarekstur slitastjórnar Landsbanka Íslands hf. gegn honum, Halldóri J. Kristjánssyni og Elínu Sigfúsdóttur.  Tvennt stingur í augu varðandi það sem Sigurjón segir.  Annað er að hann skilur greinilega ekki hvað felst í ábyrgð æðstu stjórnenda og hitt er að verkferlar bankans hafa verið eitthvað meira en lítið furðulegir.

Furðulegir verkferlar

Ég ætla að byrja á síðara atriðinu.  Um lán upp á litla 19 ma.kr. til Straums í byrjun október 2008 segir Sigurjón:

Fjárstýring metur það, samkvæmt reglum, hvort bankinn eigi laust fé til að lána og það kemur ekki inn á borð bankastjóra. Þeir lánuðu þessa peninga í viku og eftir það veit ég ekki hvað gerðist.

Og um lán til Grettis upp á 40 ma.kr. segir hann:

Ég var í sumarfríi á þessum tíma, þ.e þeim tíma sem máli skiptir. Á síðari stigum málsins kom ég að málinu til að reyna að leysa úr því en það var á allt öðrum tímapunkti. Enda var það innbyggt í ferla bankans að það var ekki gert ráð fyrir að bankastjóri væri að vasast í einstökum málum af þessu tagi.  Landsbankinn var risastórt fyrirtæki. Og verkferlar gerðu ekki ráð fyrir því að bankastjóri kæmi að ákvörðunum eins og að innheimta ábyrgðir.

Já, greinilegt er að Landsbanki Íslands var risastórt fyrirtæki, þegar lán til eins aðila upp á 19 ma.kr. er ekki nógu stórt til að þurfa endanlegt samþykki æðstu yfirmanna.  Ég held ég leyfi mér að fullyrða, að öll fyrirtæki sem ég þekki til og líklegast flest önnur hafa þrepaskiptingu hvað varðar heimildir starfsmanna til aðgerða, hvort heldur það felst í að skuldbinda fyrirtækið fjárhagslega eða framkvæma eitthvað sem hefur varanleg áhrif á rekstur eða afkomu fyrirtækisins.  Þannig má starfsmaður á "gólfinu" ekki stofna til neinna útgjalda án samþykkis deildarstjóra, deildarstjórinn má stofna til eða samþykkja útgjöld upp á segjum 100 þús.kr. án samþykkis sviðsstjóra, sviðsstjórinn hefur heimild til að samþykkja eða stofna til útgjalda upp á segjum 400 þús.kr. án samþykkis framkvæmdastjóra og framkvæmdastjórinn verður síðan að leita til stjórnar vegna útgjalda yfir 1 m.kr.  (Tekið fram að um sýnidæmi er að ræða.)  En hjá Landsbanka Íslands mátti Fjárstýring borga út 19 ma.kr. án aðkomu bankastjóranna vegna þess að bankinn var svo stór.  (Líklegast voru 50 metrar á milli þessara aðila í húsnæði Landsbanka Íslands við Austurstræði/Hafnarstræti.)  Ég veit svo sem að útibússtjórinn minn í vesturbæ mátti ekki hreyfa sig ef upphæðin fór yfir 1 m.kr. og þurfti að leita til lánanefndar, þannig að skýrirng Sigurjóns er ekki trúverðug.

Eitthvað er stórlega að stjórnun fyrirtækis, þar sem útgreiðsla sem nam árshagnaði þess, fór fram án vitneskju eða samþykki æðsta yfirmanns.  Hafi þetta verið í samræmi við verkferla, þá þætti mér áhugavert að vita hvort þeir ferlar hafi verið í samræmi við lög, tilmæli Fjármálaeftirlits og fengið samþykki regluvarðar bankans.

Ábyrgðarleysi Sigurjóns

Á nokkrum stöðum í viðtalinu vísar Sigurjón allri ábyrgð frá sér.  Fyrst var það fjárstýringin sem átti að axla ábyrgðina, síðan var hann í sumarfríi og því bar hann enga ábyrgð, loks voru það starfsmenn Björgólfs sem "hönnuðu" bankaábyrgð fyrir 40 ma.kr. lánum.  Til hvers var Sigurjón í stóli bankastjóra, ef það voru alltaf einhverjir aðrir sem báru ábyrgð?  Samkvæmt því sem hann segir, þá gerði hann jafnmikið gagn í sæti bankastjóra í þessum málum og Óli prik hefði gert, þ.e. ekkert.

Auðvitað bar Sigurjón ábyrgð á öllum þessum málum.  Hann var ábyrgur gagnvart stjórn og hún gagnvart hluthöfum vegna þessara mála.  Þannig er það í öllum hlutafélögum.  Engu skiptir hver sér um framkvæmd á verkinu, ábyrgðin hvílir hjá bankastjórunum.  Hvers konar aumingjaskapur er þetta að varpa ábyrgð yfir á aðra?

Bara þetta einfalda mál, að starfsmenn Björgólfs (formanns bankastjórnar) "hönnuðu" bankaábyrgð sem var gjörsamlega ófullnægjandi.  Bankastjóri með bein í nefinu og sem tekur ábyrgð á rekstri bankans síns hefði aldrei samþykkt ábyrgð sem rynni út nokkrum dögum eftir lán fellur á gjalddaga.  Þessi ábyrgð er slíkur málamyndagerningur að það eitt að samþykkja hana lýsir vanhæfi þeirra sem það gerðu.  (Ég reikna með að Sigurjón hafi ekki komið nálægt því, bara einhver nafnlaus undirmaður.)

Snillingur eða lélegur stjórnandi

Sigurjóni hefur oft verið hampað sem snillingi, en mér finnst hann frekar sanna hið gagnstæða í þessu viðtali.  Hér er t.d. kostuleg skýring:

Það voru þeir sem hönnuðu þessa ábyrgð og þess vegna var hún dálítið óvenjuleg. Það var gerð krafa um ábyrgð en með því að taka við henni minnkaði Landsbankinn áhættu sína gagnvart stjórnarformanninum. Mál af þessi tagi komu ekki inn á borð til okkar Halldórs nema einhverjir starfsmenn bankans leituðu til okkar með þau. Það var ekki leitað til bankastjóra vegna átta daga vanskila á einstökum lánum. Bankinn var það stór og það var fjöldi deilda sem áttu að sjá um þetta. Þess vegna finnst mér undarlegt að hægt sé að krefja bankastjórnendur um skaðabætur.

Í þessum texta eru nokkur atriði sem lýsa lélegum stjórnanda:

  1. Starfsmenn Björgólfs hönnuðu gagnslausa bankaábyrgð og Sigurjón hefði (af snilld sinni) átt að sjá í gegn um hana.
  2. Áhætta bankans breyttist ekkert gagnvart stjórnarformanni, þar sem ábyrgðin var vita gagnslaus.  Ef Sigurjón hefur virkilega verið þessi "snilli" sem sagt er, þá átti hann að sjá það.
  3. Ekki var leitað til hans eða Halldórs vegna 40 ma.kr. ábyrgða sem greinilega voru haldslausar.
  4. Ekki skal leita til bankastjóra, þegar ábyrgð upp á 40 ma.kr. er að renna út og þegar hefur orðið greiðslufall.  Ábyrgur bankastjóri hefði gengið sjálfur persónulega í málið áður en ábyrgðin rann út.
  5. Hann vísar ábyrgð á  undirmenn sína í staðinn fyrir að koma fram eins og maður og viðurkenna umorðalaust að vissulega beri hann ábyrgð í málinu, en hann muni verjast skaðabótakröfunni.

Nei, það fer ekki mikið fyrir snilld Sigurjóns í orðum hans.  Viðtalið sýnir mann í mikilli afneitun og á flótta frá staðreyndum.  Tilvitnuð orð lýsa ítrekað ótrúlegu vanhæfi hans til að gegna starfi bankastjóra.  Ætli sé hægt að stefna honum fyrir vanhæfi?

Tekið skal fram að allt sem hér hefur verið sagt um ábyrgð bankastjóra, á jafnt við Halldór J. Kristjánsson.  Þeir tveir og síðan Björgólfur Thor Björgólfsson og Björgólfur Guðmundsson bera ábyrgð á því klúðri sem varð í þeim tveimur málum sem stefnt hefur verið út af.  Björgólfur Thor heldur að vísu, að hann gangi á vatni, þ.e. sé syndlaus með öllu, en hann hefði ekki verið með alla þessar fléttur í kringum eignarhald í félögum sínum, nema vegna þess að hann ætlaði að snúa á lögin.  Haldi hann eitt augnablik, að almenningur í þessu landi sjái ekki í gegn um fléttur hans, þá er hann minni "snillingur" en meira að segja Sigurjón og ekki fer mikið fyrir "snilld" hans í viðtalinu sem Þorbjörn Þórðarson tók við hann. 

Að lokum

Íslensk þjóð hefur mátt þola nóg vegna gerða (og aðgerðarleysis) stjórnenda, stjórnarmanna og eigenda hrunbankanna. Er hægt að gera þá einföldu kröfu til þeirra, að þeir hætti að ljúga að þjóðinni, þegar þeir eru að skýra sína hlið á málinu?  Ég hef mikinn áhuga á að heyra þeirrar hlið málsins, en vinsamlega hættið að hvítþvo ykkur af afglöpum ykkar.  Björgólfur Thor kemur fram þessa daganna og lætur sem hann sé syndlaus.  Hann fékk bankahrunið í fangið og það er ekkert honum að kenna.  Maður fær æluna upp í háls að lesa heilaga ritningu BTB.  Ég trúi því alveg að skýrsla RNA fari ekki alltaf rétt með og oft eru túlkanir byggðar á sannfæringakrafti viðmælanda, en ekki staðreyndum, en enginn fær mig til að trúa því að BTB sé saklaus.

Ábyrgð fjölmiðla er mikil.  T.d. í viðtali, eins og því sem vísað er til að ofan.  Hvar eru gagnrýnu spurningarnar?  Af hverju er Sigurjón ekki spurður út í það hvers vegna hann hafi samþykkt sýndarábyrgð sem rann út áður en vanskil voru orðin þess virði að hafa áhyggjur af þeim.  Hvar er spurningin um yfirmannsábyrgð Sigurjóns eða hvað upphæðin þurfi að vera há til að megi trufla bankastjórana í sumarfríi.  Maður hefur helst á tilfinningunni, að mennirnir sem settu þjóðina á hausinn fáist ekki í viðtöl nema um drottningarviðtöl sé að ræða.  Bannað að spyrja alvöru spurninga.  Bannað að sauma að viðmælandanum.  Bannað að reka sannleikann upp í nasir viðkomandi vegna þess að hann gæti fengið blóðnasir.

Sjálfur var ég í Silfri Egils sl. sunnudag.  Með mér í panel var Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar.  Hann tók upp á því að segja alls konar tröllasögur, sem hann vildi sannfæra þjóðina um að væri sannleikanum samkvæmt.  Því miður fyrir Magnús var ég þarna líka og ég þekkti sögurnar betur en hann.  Hans útgáfa var dapurleg hliðrun sannleikans og þannig er það því miður of oft.  Þjóðin vill ekki að það sé logið að henni.  Hún vill sannleikann hversu hraðneskjulegur sem hann er.  Meðan sannleikurinn er ekki uppi á borðinu, þá verður haldið áfram að grafa eftir honum.  Í leiðinni verður grafið undan trúverðugleika ansi margra í þjóðfélaginu. Er ekki betra að koma hreint fram um hvað gerðist og hvað er að gerast, en að halda þessu bulli áfram?


Meira af afskriftum í gömlu bönkunum og yfirfærslu lánanna til þeirra nýju

Undanfarin ár hef ég mikið rætt og ritað um "afslættina" sem nýju bankarnir fengu af þeim eignum sem þeir tóku yfir frá gömlu bönkunum og tilraunir nýju bankanna til að nota þennan "afslátt" til að búa sér til hagnað í nútíð og framtíð. Því meira sem ég hugsa um þetta, þá verður þetta fáránlegra. 

Staðreynd málsins er sú, að kröfuhafar gömlu bankanna voru þvingaðir til að sætta sig við mikla niðurfærslu eigna við flutning þeirra til nýju bankanna.  Þessu er lýst ítarlega í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn bankakerfisins.  Þar er greint frá því að eignir voru metnar af báðum aðilum og talsvert bar á milli eða um 320 ma.kr.  Ákveðið var að bókfæra eignirnar í nýju bönkunum á lægra matinu, sem var um 1.880 ma.kr.  Í staðinn var kröfuhöfunum lofað að kæmi í ljós að virði eignanna reyndist meira en neðra matið, þá fengju þeir greitt meira, en þó aldrei meira en efra matið, sem var um 2.204 ma.kr., og síðan hlutdeild í hagnaði bankanna.  Lágmarkslækkun á eignasöfnunum sem færa átti yfir, samkvæmt þessu mati, var því 1.796 ma.kr. og hámarkshækkun 2.120 ma.kr. 

Í ágúst 2009 spurðist það út til kröfuhafa, að nýju bankarnir ætluðu ekki að láta afsláttinn ganga til viðskiptavina sinna nema að undangenginni ítarlegri skoðun á því hvað væri í raun hægt að innheimta og átti greinilega að freista þess að kreista hverja einustu krónu út úr lántökum. Það átti sem sagt að nota eina aðferð við að meta söfnin hjá gömlu bönkunum og aðra hjá nýju bönkunum.  Mínar heimildir segja mér að mjög hafi fokið í erlenda kröfuhafa sem hafi viljað ganga frá þeim samningaviðræðum sem þá voru í gangi, enda hafi þeim verið talin trú um að lántakar stæðu ekki undir greiðslu- og skuldabyrðinni og þyrftu að fá verulega niðurfærslu á höfuðstólum lána sinna.

Matsaðferðin

Þegar lánasöfn gömlu bankanna voru metin, þá var það gert þannig að viðskiptavinum var skipt í þrjá hópa og aðrar eignir settar í þann fjórða.  Eða eins og segir á bls. 18 í skýrslu ráðherra:

Langveigamesti hluti þeirra eigna sem yfirfærðar voru til nýju bankanna voru útlán til innlendra viðskiptamanna. Þessum útlánum var í matinu skipt í þrjá meginflokka: (i) Lán til stórra fyrirtækja, en stór fyrirtæki voru skilgreind sem aðilar með 2,5 ma.kr. eða hærri heildarlántökur, (ii) lán til smárra og meðalstórra fyrirtækja (iii) lán til einstaklinga og (iv) aðrar eignir og skuldir. Stærri fyrirtæki voru metin hvert fyrir sig en minni fyrirtæki og einstaklingar mynduðu einsleita hópa þar sem matið byggðist á úrtaki og ákveðnum forsendum um lánaflokkana.

Meginaðferðin við matið er núvirðing á væntu framtíðargreiðsluflæði eignanna. Þessu fylgir að setja þarf fram forsendur um fjölmarga þætti varðandi hina ýmsu eignaflokka. Í tilfelli útlána þurfti að meta getu skuldarans til að greiða skuld sína og taka þá meðal annars tillit til líka á greiðslufalli og tapi við greiðslufall, vexti í mismunandi myntum og vaxtaálag bankans, EBITDA margfaldara, verðmæti veða svo sem fasteigna og fiskveiðikvóta svo eitthvað sé nefnt.

Endurskoðunarfyrirtækið Deloitte  LLP í London var fengið til verksins og alþjóðlega ráðgjafafyrirtækið Oliver Wyman var fengið til að meta aðferðir Deloitte.  En nýju bankarnir gerðu líka sitt mat eða eins og segir í skýrslunni á bls. 20:

Ennfremur höfðu nýju bankarnir gert sitt eigið mat sem hluta af áætlunum þeirra um enduruppbyggingu og sem innlegg í samningaviðræður. Endanlegt mat bankanna varð á endanum í neðra bili verðbils Deloitte, en mat kröfuhafa í efri mörkum. Mat hins óháða matsmanns var því í raun samþykkt af báðum samningsaðilum sem viðmið í þeim samningaviðræðum sem í hönd fóru.

Niðurstaðan var matsbil fyrir eignir þar sem neðri mörkin voru 1.880 ma.kr. og efri mörkin 2.204 ma.kr. fyrir bankana í heild.  Fyrir hvern banka fyrir sig hljóp þetta bil á 95 til 131 ma.kr. samkvæmt skýrslu ráðherra.

Nýju bönkunum fannst þessi niðurstaða hafa í för með sér mikla óvissu eða eins og segir í skýrslunni á bls. 21:

Telja yrði að virði millifærðra eigna væri mjög óvisst og erfitt að meta í ljósi eðlis eignanna og ríkjandi efnahagsástands.
Lágmarksendurheimtur voru taldar á bilinu 35-55% af nafnverði eftir bönkum. Nýju bankarnir stæðu því frammi fyrir verulegum áskorunum við fjárhagslega endurskipulagningu lánasafnanna og tilheyrandi rekstraróvissu í því sambandi.
Ef forsendan um sanngjarnt markaðsvirði eða svokallað “through the cycle view” sem FME ákvað að notuð yrði myndi bregðast, væri verulega kerfislæg hætta fólgin í lánasöfnunum. Sú nálgun við matið var þó talin eðlilegri en einhverskonar sjónarmið neyðarsölu (“fire sale”).

Niðurstaða fengin með samningum

Eins og gefur að skilja voru uppi skiptar skoðanir um niðurstöðuna.  Eftir að Deloitte skilaði af sér hófust því samningaviðræður, þar sem fulltrúar nýju bankanna og stjórnvalda voru öðru megin borðsins en skilanefndir og fulltrúar kröfuhafa hinum megin.  Mesti ágreiningurinn var um nettóverðmæti yfirfærðra eigna, þ.e. hve mikið gömlu bankarnir þyrftu að niðurfæra eignirnar í sínum bókum áður en þær væru fluttar yfir í nýju bankana.  Um þetta segir í skýrslu fjármálaráðherra á bls. 29:

Ljóst var talið í upphafi að erfitt myndi reynast að ná samningum um eitt ákveðið nettóverðmæti. Óháða matið með sínu verðbili í verðmati hvers banka styrkti þetta sjónarmið. Því var talið álitlegast að breyta uppgjörinu sem fyrirhugað var með einföldu skuldabréfi í fjölþættari fjármálagerning þar sem hin endanlega greiðsla fyrir yfirfærðar eignir færi eftir því hversu mikið kæmi út úr þeim eignum að lokum. Hugmyndin var að kröfuhafar fengju til sín hið endanlega verðmæti yfirfærðu eignanna með skilyrtu viðbótarskuldabréfi sem gefið yrði út síðar.

Síðan segir á bls. 30:

Við samninga um endurgjald fyrir útlánin var farið niður í neðstu mörk Deloitte-matsins og þannig reynt að girða fyrir að áhættur sem tengdust lánasöfnunum myndu reynast nýju bönkunum ofviða. Ef betur gengi myndi hins vegar vera greitt í formi aukins verðmætis hlutabréfa eða útgáfu viðbótarskuldabréfa eins og áður er rakið.

Gengistryggð lán afskrifuð um meira en helming

Einn óvissuþátturinn var varðandi gengistryggð lán.  Menn virtust átta sig á því við samningaborðið að hið mikla fall krónunnar leiddi af sér þörf á að færa verðmæti þessara lána niður.  Niðurstaðan var að færa þessi lán niður um meira en helming eða eins og segir í skýrslu ráðherra:

..Um það leyti sem endanlega var gengið frá samningum við gömlu bankana heyrðust raddir um að gengistrygging lána kynni að vera ólögmæt. Það atriði var á þeim tíma umdeilt meðal lögfræðinga og algjörlega óraunhæft að meðhöndla öll slík lán sem ólögmæt í samningunum. Bent var á að öll gengistryggð lán hefðu verið afskrifuð um meira en helming við yfirfærslu þeirra til nýju bankanna..

Já, gengistryggð lán voru afskrifuð um meira en helming miðað við stöðu þeirra í október 2008.  Ef skoðað er meðalgengi valinna gjaldmiðla í október 2008 þá kemur eftirfarandi í ljós um yfirtökugengi lánanna:

USD 46,7 kr.

GBP 82,0 k.r

EUR 65,5 kr.

CHF 41,1 kr.

JPY  0,428 kr.

Reikni nú hver og einn á hvaða gengi lánin þeirra voru tekin yfir og hvað bankinn er að krefjast í dag.  Tekið skal fram að þetta á eingöngu við lán í Íslandsbanka, Arion banka og Landsbankanum.  Lántakar í öðrum fjármálafyrirtækjum verða því miður að sætta sig við venjulegt gengi.

Sé þetta gengi notað, þá kemur í ljós að nær undantekningarlaust er það umtalsvert undir lántökugengi, þannig að þó svo að lánin hafi með dómum Hæstaréttar verið færð yfir í íslenskar krónur frá lántökudegi, þá er nýju bankarnir að koma út í plús! Hinir afturvirku Seðlabankavextir eru því hrein gjöf til bankanna þriggja.

Miðað við þetta er með ólíkindum að nýju bankarnir skuli vera að innheimta lánin miðað við uppreiknaðan höfuðstól með gengi dagsins, þegar gömlu bankarnir afskrifuðu lánin um meira en 50% hjá sér.  En meira um þetta síðar.

Lán í stofnaefnahagsreikningi

Með ofangreinda niðurstöðu í huga voru lán viðskiptavina færð yfir í stofnefnahagsreikninga nýju bankanna á alls 1.463 ma.kr.  Hafa skal í huga að stofnefnahagsreikningur bankanna reyndist um 800 ma.kr. lægri en þær tölur sem verið var að vinna með í matinu sem fjallað er um að ofan.  Það hefur augljóslega í för með sér að tölur eru ekki fullkomlega samanburðarhæfar, en þar kemur svar fjármálaráðherra til Guðlaugs Þórs Þórðarsonar núna í september til hjálpar.  Samkvæmt svarinu voru lán sem bókfærð voru á 1.247 ma.kr. við hrun Landsbanka Íslands færð niður í 661 ma.kr. við yfirfærslu í Landsbankann/NBI hf., þar af voru lán einstaklinga afskrifuð um tæplega 79 ma.kr. úr 237,4 ma.kr. í 158,4 ma.kr. eða 33,3% og lán fyrirtækja voru afskrifuð um 506,7 ma.kr. úr tæpum 1.004 ma.kr. í 497,4 ma.kr. eða 50,5%.  Lánin eru í einni tölu hjá Glitni/Íslandsbanka, þ.e. í Glitni stóðu lán til viðskiptavina í 905 ma.kr., en með niðurfærslu upp á 419,6 ma.kr. þá enda þau í 482,6 ma.kr. í stofnefnahagsreikningi Íslandsbanka eða 46,3% lækkun.  Uppgjörið milli Arion banka og Kaupþings er eitthvað á huldu samkvæmt svari fjármálaráðherra, en þá er gott að hafa gögn annars staðar frá.  Arion banki gefur upp að lán viðskiptavina hafi 324,7 ma.kr. 22. október 2008.  Við þessa tölu þarf síðan að bæta um 80 ma.kr. sem eru lán flutt til bankans í janúar 2010, þannig að yfirfærsluvirði lánasafnanna er um 405 ma.kr., en samkvæmt Creditors' Report slitastjórnar bankans frá því í febrúar 2009, þá voru lán sem bókfærð voru hjá Kaupþingi á 1.410 ma.kr. færð yfir til Nýja Kaupþings með 954 ma.kr. niðurfærslu eða 67,7% afskriftum.  Mismunurinn er 456 ma.kr. sem er umtalsvert hærra en þeir 324,7 ma. sem Arion gefur upp.  Þessi munur skýrist annars vegar af eignum sem færðar voru til baka til Kaupþings áður en endanlega var gengið frá stofnefnahagsreikningi nýja bankans.  Alls var bókfært virði þessara eigna 190 ma.kr., en raunvirði eitthvað minna.  Hins vegar má örugglega rekja þetta til lána sem Eignasafn Seðlabanka Íslands tók yfir og voru ekki færðar til bankans fyrr en í janúar 2010, eins og áður segir.

Niðurfærslan fór fram hjá gömlu bönkunum

Ljóst er af ársreikningum nýju bankanna þriggja, að þeir tóku við niðurfærðum eignasöfnum, hvort heldur um var að ræða útlán til viðskiptavina eða aðrar eignir.   Það er stórmerkileg fjármálastarfsemi að taka við láni sem fært hefur verið niður af öðrum lögaðila um 50% og hækka það síðan strax aftur um 100%, eins og gert var við gengistryggðu lánin.  Ef mitt lán (svo dæmi sé tekið) var afskrifað um 50% af Landsbanka Íslands hf., þá þýðir það að skuld mín við bankann hefur lækkað sem því nemur.  Hvernig getur þá NBI hf., núna Landsbankinn hf., þá sagt að skuld mín sé óbreytt miðað við stöðu lánsins áður en Landsbanki Íslands hf. (eða skilanefnd hans) ákvað að færa það niður um 50%?   Á hvaða lagastoð hvílir sú ákvörðun Landsbankans hf. að láta sem afskrift annars lögaðila á kröfu á mig hafi ekki farið fram?  Er það yfir höfuð löglegt?  Vissulega fékk ég aldrei tilkynningu um að lánið hafi verið afskrifað sem þessu nemur, en þær upplýsingar hafa verið notaðar í samningum opinberra aðila (fjármálaráðuneytisins) við slitastjórn bankans og kröfuhafa hans.  Afskriftin er því staðreynd en ekki fræðilegur tilbúningur.

Sama gildir að sjálfsögðu um öll önnur lán Landsbankans og síðan lán hinna bankanna.  Hvernig getur nýi bankinn litið framhjá afskriftum sem annar lögaðili framkvæmdi í bókhaldi sínu og rukkað lánin eins og sú afskrift hafi ekki átt sér stað?  Tekið skal fram að ég er ekki að tala um afskriftir sem sannanlega fóru fram í nýja bankanum, heldur eingöngu þær sem fóru fram í þeim gamla.  Og til að vera algjörlega sanngjarn, þá er ég til í að fara 15% upp fyrir efri mörk á mati Deloitte á lánasöfnunum, en kröfuhafar bankanna féllust á þau sem neðri mörk væntanlegs taps síns.  Kröfuhafarnir fengju því sitt og bankinn héldi 15% eftir til að jafna út, þar sem sumar skuldir innheimtast ekki eins vel og gert var ráð fyrir í matinu.

Eignarréttur kröfuhafa

Stjórnarliðum hefur verið tíðrætt um eignarrétt kröfuhafa gömlu bankanna.   Höfum í huga að samkomulag náðist milli kröfuhafa og nýju bankanna um efri og neðri mörk virði eigna sem fluttust yfir í nýju bankanna.  Erlendir kröfuhafar samþykktu þar með að endurheimtur þeirra takmörkuðust við þessi mörk að frádregnum innstæðum sem einnig færðust yfir.  Þeir eiga því enga kröfu á nýju bankana um fram efri mörk á verðmati eignanna.  Þ.e. allt sem er umfram efri mörkin hefur verið endanlega afskrifað í bókum gömlu bankanna, hverjar sem heimtur nýju bankanna verða.  Að láta afskriftir samkvæmt efra verðmati Deloittes renna til lántaka, er því nokkurn veginn án áhættu fyrir nýju bankana.  Drögum 15% frá þeirri upphæð og áhættan er hverfandi.

Ég efast um að nokkur dómstóll muni fallast á málshöfðun kröfuhafa gömlu bankanna, ef nýju bankarnir myndu láta 85% af afskriftum miðað við lægri afskriftatöluna renna til lántaka.  Enda má spyrja hverjum ætti kröfuhafinn að stefna?  Fulltrúar kröfuhafa undirrituðu samkomulag um uppgjör milli nýju og gömlu bankanna, gömlu bankarnir eignuðust hlutdeild í tveimur bönkum af þremur og nýju bankarnir gerðu upp við gömlu bankana í samræmi við samkomulagið.  Hvorki gömlu bankarnir né kröfuhafar eiga kröfu á lántakann, þannig að þeir væru því ekki aðilar að máli sem höfðað væri gegn lántakanum.  Ég spyr þvi aftur:  Hverjum ættu kröfuhafar að stefna til verja eignarétt sinn?

Annað hvort leiðrétta lánin eða skattleggja endurmat sem leiðir til hækkunar

Ég sé ekki nema tvær leiðir út úr þessari furðulegu stöðu.  Önnur er að nýju bankarnir skili viðskiptavinum sínum þeim afskriftum sem gömlu bankarnir í reynd veittu þeim.  Hin er að skattleggja endurmat lána sem leiðir til hækkunar á virði þeirra í bókum nýju bankanna umfram hærra mat Deloitte á viðkomandi láni.  Ég er búinn að fara yfir réttleysi bankanna til þess að innheimta það sem annar aðili hefur þegar afskrifað, en ætli þeir ekki að virða ákvörðun fyrri eiganda lánsins, þá er ekkert annað en að setja 100% skatt á þá hækkun sem nýju bankarnir ætla að sækja til lántaka.  Hækkun sem er eingöngu ætlað að skila bankanum hagnaði.

Gengistryggði hryllingurinn

Grófast í þessu öllu finnst mér náttúrulega, að gömlu bankarnir hafi afskrifað gengistryggð lán um 50% miðað við stöðu þeirra í október 2008, en nýju bankarnir láti sem þessi afskrift hafi ekki átt sér stað.  Til að kóróna þá vitleysu, var þingið platað til að setja lög sem bætti stöðu bankanna enn frekar.  Í staðinn fyrir að fá samningsvexti af 50% upphæðarinnar (miðað við stöðuna í október 2008), þá fá þeir Seðlabankavexti á hærri tölu allan lánstímann.  Ég vona að þingmenn fái slæmar martraðir, þegar þeir átta sig á því hve illa þeir voru plataðir.  Og bullið í FME og SÍ í fyrra sumar, að gengisdómar Hæstaréttar myndu ógna fjármálastöðugleika í landinu.  Hvernig gat það ógnað stöðugleikanum, þegar lánin hækkuðu í bókum bankanna við dóminn og þar með jukust vaxtatekjur þeirra?  Stundum held ég að annað hvort sé fólk, sem heldur fram svona bulli, ekki með fullu viti eða að það veit nákvæmlega hvað það er að gera og tekur vísvitandi þátt í blekkingunni.  Sé hluti af spillingunni.

Svona í lokin

Ég verð að viðurkenna, að ég er orðinn ákaflega þreyttur á því, að stjórnvöld telja það vera hlutverk sitt að standa í blekkingum.  Skiptir það þá ekki máli hvort um er að ræða efnahags- og viðskiptaráðherra, fjármálaráðherra eða forsætisráðherra, þingmenn Samfylkingarinnar eða VG, Seðlabanka Íslands eða Fjármálaeftirlitið.  Þessir aðilar vita allt það sem ég hef skrifað í þessari færslu (kannksi ekki allir þingmennirnir, en hinir gera það).  Mér finnst það ósiðlegt af þessum aðilum að standa í þeim blekkingu og beinu lygum sem þeir hafa tekið þátt í.  Meira að segja AGS sagði að lengra mætti ganga í leiðréttingu lána einstaklinga og fyrirtækja.

Þá er ég líka orðinn þreyttur á því andvaraleysi sem er meðal fjölmiðlanna vegna þessa máls.  Við sem barist höfum fyrir réttlætinu erum álitin kvabbarar og óánægjuseggir, þegar það eina sem við erum að fara fram á, er endurreisn siðferðis, að lántakar njóti afskrifta sem sannanlega fóru fram hjá gömlu bönkunum, að nýju bankarnir komi fram við viðskiptavini sína sem einmitt það en ekki peningakýr.

Í þessum pistli er ekkert sem er rangt.  Einstaka tölur geta verið örlítið ónákvæmar, en þær eru þó allar leiddar af opinberum gögnum.  Blekkingarnar eru þær sem ég lýsi.  Aðferðir bankanna eru þær sem ég lýsi.  Svikin eru þau sem ég lýsi.  Kannski er þjóðin bara orðin svo leið á umræðunni, að hún nennir ekki lengur að hlusta eða búin að heyra lygina svo oft, að hún er farin að trúa henni sem sannleika, en lygi er lygi sama hversu oft hún er endurtekin.


Silfrið í dag

Líklegast hafa einhverjir tekið eftir því að ég var gestur hjá Agli Helgasyni í Silfrinu í dag.  Upptökur af þættinum er hægt að sjá á vef RÚV - Silfur Egils Vettvangur dagsins - og á facebook síðu Láru Hönnu Einarsdóttur - Fyrstu klippurnar.

Ég vil taka það fram, að mér vitanlega hafa hvorki Arion banki né Íslandsbanki eignað sér opinberlega afskriftir sem voru framkvæmdar hjá Kaupþingi og Glitni.  Landsbankinn er einn um það - að ég best veit.  Gagnrýni mín beinist heldur ekki að framsetningu upplýsinga í árs- og árshlutareikningum bankanna.  Reikningarnir endurspegla 100% þann skilning minn að lánasöfn gömlu bankanna voru færð niður um tugi prósenta ÁÐUR en þau voru færð til nýju bankanna og í stofnefnahagsreikningi nýju bankanna eru þau færð inn á þessu niðurfærða virði.  Gagnrýni mín beinist að því hvernig reynt er að blekkja almenning með tröllasögum um afskriftir hjá nýju bönkunum.  Tröllasögur sem sagðar eru af Samtöku fjármálafyrirtækja, Fjármálaeftirliti og stjórnmálamönnum.

Efnahags- og viðskiptaráðherra hefur tvisvar gefið Alþingi svör um meintar afskriftir í nýju bönkunum fyrir árin 2009 og 2010.  Upplýsingarnar hefur hann fengið frá Fjármálaeftirlitinu.  Samkvæmt þeim voru afskriftir til einstaklinga og fyrirtækja 503 ma.kr. þessi tvö ár.  Þetta er gríðarlega há upphæð og ætti hún því að vera áberandi í reikningum bankanna.  En hún er það ekki.  Hún er raunar hvergi sjáanleg í heild en einhvern hluta hennar má finna þar.

Finnst þessi tala þá í bókum gömlu bankanna fyrir þessi tvö ár?  Nei, hana er ekki að finna þar heldur.  Ástæðan er einfaldlega sú, að afskriftirnar voru framkvæmdar í október og nóvember 2008 um það leiti sem nýju bankarnir voru stofnaðir.  Viðskiptavinirnir fengu bara ekki að vita af þvi fyrr en síðar, að þessar afskriftir fóru fram.

Magnús Orri talaði um að lán heimilanna hafi farið yfir með 28% afslætti og inni í því væru gengistryggðu lánin.  Rétt er að gengistryggðu lánin voru þar inni, en 28% afsláttur af lánasöfnum heimilanna gerir umtalsvert hærri tölu en þær 120 ma.kr. sem SFF segir að "afskriftir" vegna dóma Hæstaréttar og laga nr. 151/2010 hafi numið.  Samkvæmt upplýsingum bæði Seðlabanka og AGS var bókfært virði lána heimilanna um 806 ma.kr. í gömlu bönkunum 30. september 2008.  28% af þeirri tölu er 225,7 ma.kr.  Auk þess fara þessar 120 ma.kr. ekki saman við upplýsingar frá FME í lok júní 2010 um áhrif dóma Hæstaréttar á eignir bankanna.  Þessu til viðbótar er rétt að nefna, að AGS bannaði nýju bönkunum að færa upp gengishagnað á gengistryggð lán og var gengishagnaður aldrei færður sem tekjur í reikningum bankanna, heldur færður jafnóðum á varúðarreikning.

Kröfuhafar og eignaréttur

Efnahags- og viðskiptaráðherra hefur verið tíðrætt um að dómstólar hafi varið eignarrétt kröfuhafa.  Magnús Orri Schram tók þetta mál upp í Silfrinu í dag.  Málið er að ekki hefur verið deilt um eignarrétt þeirra kröfuhafa sem dómar hafa fjallað um.  Í hvorugu tilfellinu átti einhver af bönkunum þremur aðild að þeim dómsmálum.  Það hefur því ekkert reynt á eignarrétt nýju bankanna gagnvart kröfum sem þeir fengu á lækkuðu virði.  Sparisjóður Vestmannaeyja, sem var aðili að öðru málinu, hefur ekki fengið til sín að hluta afskrifaðar kröfur.  Sama á við Frjálsa, SPRON, Sparisjóð Suður-Þingeyinga og fjölmargar aðrar fjármálastofnanir.  Einu tilfellin þar sem fjármálafyrirtæki hefur keypt kröfur með afföllum er þetta með nýju bankana.

Í máli Sparisjóðs Vestmannaeyja átti að fella niður kröfu og leitaði sjóðurinn því til dómstóla til að láta reyna á stöðu ábyrgðarmanns.  Hvað varðar lán heimila og fyrirtækja hjá nýju bönkunum, þá er krafan lifandi en upphæð hennar var lækkuð af gömlu bönkunum.  Það er því ekki verið að ganga á kröfurétt og þar með ekki eignarrétt, heldur eingöngu verið að benda á að fyrri eigandi kröfunnar færði hana niður áður en nýr eigandi tók við henni.  Mér er lífsins ómögulegt að skilja að nýr eigandi eigi ríkari rétt í dag, en gamli eigandinn færði honum við yfirtöku kröfunnar.  A.m.k. sé ég ekki hvernig slík geðþóttarákvörðun nýja eigandans um að hækka kröfuna aftur umfram kaupverð geti skapað honum aukinn eignarrétt.  Krafan var framseld til hins nýja eiganda með afslætti og eignarrétturinn hlýtur að takmarkast við þá upphæð sem nýr kröfuhafi keypti kröfuna á.

Kannski er ég að fara út í móa með þessum rökstuðningi, en hugsanlega væri rétt að láta reyna á það hjá slitastjórn gamla bankans, að hann gefi hreinlega út yfirlýsingu til mín sem lántaka, að lánið mitt hafi verið fært niður um svo og svo mörg prósent í október 2008.  Samkvæmt skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn bankanna og samkvæmt úrskurði Fjármálaeftirlitsins frá 14. október 2008, þá var það einmitt gert.


Arðsemi af útleigu er oft of lág, en hver er ástæðan

Ég reikna með því að þeir sem staðið hafi í útleigu á húsnæði hafi á einum eða öðrum tíma áttað sig á því að arðsemi þeirra af hinu útleigða húsnæði er ekki sú sem þeir héldu.  En hver er ástæðan? Sumir halda því fram að húsnæðisverð þurfi að lækka um jafnvel 50% svo það borgi sig að leiga úr húsnæði miðað við núverandi leiguverð, aðrir segja að leiguverð þurfi að hækka og síðan eru þeir sem benda á að lánakjör séu hreinlega ekki nógu góð.  Ég velt því fyrir mér hvort að húsnæðisverð sé vandamálið og réttara sé að horfa til húsnæðiskostnaðar, þ.e. kostnaðinn við að eiga húsnæðið, og leiguverðs.

Húsnæðisverð og leiguverð

Ég verð að viðurkenna, að mér finnst vera viss rökvilla í því að fasteignaverð sé of hátt fyrir leigumarkaðinn, þó ég sé sammála því að leiguverð hafi ekki alltaf staðið undir því verði sem er á fasteignum.

Fyrst er að spyrja:  Er fasteignaverð of hátt?

Hvaða þættir ráða fasteignaverði?  Á eldra húsnæði eru það markaðsaðstæður og þegar ég tala um "eldra húsnæði", þá á ég við húsnæði þar sem ætti að vera búið að afskrifa stóran hluta byggingarkostnaðar, þ.e. upprunalegur byggingarkostnaður hefur ekki áhrif á verð fasteignarinnar.  Á nýrra húsnæði er það byggingarkostnaður og fjármögnunarkostnaður vegna framkvæmdanna.  Ég þekki það á eigin skinni að byggingarkostnaður getur sveiflast mikið.  Eftir innkomu Múrbúðarinnar á grófvörumarkað, þá t.d. lækkaði verð á flestum nauðsynlegum byggingavörum allverulega.  Sama gerðist þegar Húsasmiðjan var undir eignarhaldi eins af bönkunum, þá var eins og menn gætu lækkað verð verulega og var oft hægt að gera góð kaup.  Laun iðnaðarmanna hafa á síðustu mánuðum farið hækkandi aftur eftir að þau snarféllu eftir hrun.  Mergur málsins er að byggingarkostnaður er sveiflukenndur og það getur hreinlega verið hendingu háð hver kostnaðurinn er við tvö nánast eins hús sem standa hlið við hlið og eru byggð á svipuðum tíma.  Hvað sem því líður, þá fer þessi kostnaður að jafnaði hækkandi.

Ef ekki er hægt að lækka byggingarkostnað, þá er tómt mál að tala um að verð nýbygginga sé of hátt, nema náttúrulega verið sé að okra á kaupendum.  Þá er spurning hvort markaðsverð sé of hátt.  Víða út um land er markaðsverð á pari við eða lægra en fasteignamat við komandi húsnæðis.  Á þeim stöðum er vart hægt að tala um of hátt fasteignaverð, þar sem fasteignamat á m.a. að endurspegla endurbyggingarkostnað eignarinnar að frádregnum afskriftum miðað við aldur húsnæðisins.  Hvernig er þá með markaðsverð á Reykjavíkursvæðinu?  Það er eins misjafnt og hverfin eru mörg og því erfitt að segja til um hvort verð í einu hverfi sé of hátt eða of lágt.

Þá er það fjármagnskostnaðurinn.  Fyrir framkvæmdaraðila, þá getur munað miklu hvort framkvæmdirnar eru fjármagnaðar á 3,75% óverðtryggðum vöxtum, eins og Íslandsbanki býður þeim sem voru áður með gengistryggð lán, eða 11% yfirdráttarvöxtum eins og þeir sem taka brúunarlán þurfa gjarnan að greiða.  Fjármagni tveir byggingaraðilar 40 m.kr. framkvæmd á annars vegar á kjörum Íslandsbanka og hins vegar með brúunarláni, þá er árlegur kostnaðarmunur 2,9 m.kr.  Annar aðilinn þarf því líklega að selja hús sem tekur 24 mánuði í byggingu á um 10% hærra verði en hinn.

Kostnaður af leiguhúsnæði og arðsemi

Það sem á að ráða leiguverði er annars vegar kostnaður leigusalans af húsnæði og hins vegar markaðsverð leigunnar.  Verð fasteignarinnar á ekki að skipta þar neinu máli, þar sem leigusalinn á húsnæðið áfram, þó svo að það sé leigt út.  Hækki verð fasteignarinnar eða lækki er það hagnaður eða tjón fasteignareigandans af því að eiga húsnæðið, en er gjörsamlega óviðkomandi því hvort hann hafi tekjur af því að leiga húsnæðið út.  Vissulega hefur fasteignaverð áhrif á þörf eigandans til arðsemi á útleigðu húsnæði, en það veltur ekki síður á skuldsetningu húsnæðisins og fjármögnunarkostnaðinum.

Hver er kostnaðurinn sem leiga á að standa undir?  Í mínum huga er það kristaltært, þ.e. kostnaði af rekstri eignarinnar.  Og þá er næsta spurning:  Hver er kostnaðurinn af rekstri eignarinnar?  Í stuttu máli er það nafnvextir lána, skattar, tryggingar og viðhald fasteignarinnar.  Síðan er spurning um almennan rekstrarkostnað á borð við hita, rafmagn, þrif, rekstur húsfélags o.s.frv.  Almennt er greitt sérstaklega fyrir almennan rekstrarkostnað og hann því ekki tekinn inn í leiguverð.  Af því sem eftir er, er fjármagnskostnaðurinn mikilvægasta málið.  Spurningin er nefnilega ekki bara af hvaða fjármagni á að greiða slíkan kostnað, heldur ekki síður undir hvaða hluta vaxtanna á leigutakinn að standa.

Á einhverjum tímapunkti eignaðist leigusalinn hin útleigðu eign.  Gefum okkur að hann greiði 5% vexti af þeim lánum sem tekin voru og eignin hafi kostað 20 m.kr. sem að fullu hafi verið tekið að láni.  Lánið var verðtryggt og hefur því hækkað um 6% á ári frá lántökudegi.  Hvort telst það til rekstrarkostnaðar eignarinnar að verðbólgan hafi verið 6% eða telst það til stofnkostnaðar?  Svarið við þessari spurningu getur ráðið úrslitum um það hvort arðsemi fæst af leigunni eða ekki.  Förum millileiðina og látum verðbætur á vexti falla undir rekstrarkostnað en verðbætur á afborganir falla undir stofnkostnað.  Þá er ætlast til að leiguverð standi undir 5% af 20 m.kr. eða 1.000.000 kr. á ári verðtryggt út leigutímann plús skattar, tryggingar og viðhald.  Gefum okkur að skattarnir séu 150.000, tryggingar 50.000 og viðhaldskostnaður 1%.  Þar með þarf árleg leigugreiðsla að nema 1.400.000 kr. auk þeirrar arðsemi sem krafist er.  Höfum þó í huga að arðsemin reiknast ofan á 1,4 m.kr. en ekki verð húsnæðisins, þ.a. 5% arðsemi er 70.000 kr. og 10% arðsemi gerir 140.000 kr.

Koma breytingar á fasteignaverði leigutaka við?

Nú hækkar húsnæðið í verði, á þá að hækka leiguna?  Bara að því leiti sem hærra markaðsverð breytir kostnaðinum sem leigusalinn hefur af húsnæðinu.  Hærra markaðsverð breytir ekki upphæð áhvílandi lána, en líklegast gætu skattar, tryggingar og viðhaldskostnaður hækkað.  Nú tekur leigusalinn nýtt lán og setur hið útleigða húsnæði að veði, á þá að hækka leiguna?  Nei, þar sem hið nýja lán er öflun leiguhúsnæðisins óviðkomandi.

Markaðsverð leiguhúsnæðis hefur eingöngu áhrif á leiguverð þegar húsnæðið er keypt.  Ef leigutaki á að greiða fyrir verðbreytingar á húsnæðinu, þá væri eðlilegt að hann eignaðist hlut í húsnæði.  Svo er almennt ekki og því er markaðsverð fasteigna leigutakanum óviðkomandi.

Hvað með arðsemi eiginfjár?

Í mörgum tilfellum leggur leigusalinn til eigið fé við kaup á fasteigninni.  Að sjálfsögðu þarf hann að reikna sér vexti af því framlagi.  Eðlilegt er að það sé það sama og vaxtakostnaður vegna þeirra lána sem eru tekin.  Í dæminu að ofan eru það 5%, auk arðsemiskröfunnar.  Það á sem sagt ekki að skipta máli hvernig húsnæðið er fjármagnað í upphafi, þ.e. með eigin fé eða lánum, eðlilegt er að gera sömu ávöxtunarkröfu á allt fjármagn.  Ekki skiptir því máli hvert eiginfjárhlutfallið er eða það breytist miðað við upphaflegt kaupverð eignarinnar.

Nú hækkar markaðsverð eignarinnar og eigið fé eykst, á það að breyta einhverju?  Þessu svaraði ég að ofan:  Eingöngu að því leiti sem skattar, tryggingar og viðhaldskostnaður hækkar.  Að öðru leiti er markaðsverðið útleigunni óviðkomandi.

Er arðsemin of lág og hvað er til ráða?

Ársæll Valfells komst að þeirri niðurstöðu um daginn, að verð á fasteignum væri of hátt til þess að hægt væri að ná viðunandi arðsemi af leigutekjunum.  Ég stórlega efast um þessa fullyrðingu.  Eins og ég bendi á að ofan, þá er kostnaðurinn af 20 m.kr. íbúð miðað við 5% nafnvexti um 1.400.000 kr. á ári.  Bætum við 10% arðsemi og þá fer talan upp í 1.540.000 kr. eða 128.333 kr. á mánuði.  Hvort þessi upphæð fæst fyrir íbúðin ræðst líklegast af stærð hennar og staðsetningu.  20 m.kr. er eins og raðhús í Lindahverfi í Kópavogi kostaði fyrir 10 árum, einbýlishús í sumum hverfum Hafnarfjarðar, þriggja herbergja íbúð í vestari hluta Reykjavíkur og 4-5 herb. íbúð í austari hluta borgarinnar.  Færum okkur fram til 2006 og þá fékkst ekki mikið fyrir 20 m.kr., en 1996 var hægt að gera ýmislegt fyrir 20 m.kr., svo sem einbýlishús víða í borginni og flottar íbúðir á besta stað í miðborg Reykjavíkur.

Kaupárið og tegund fasteignar ræður þannig miklu um hvort leigusalinn er að fá ásættanlega arðsemi af útleigunni, en það sem ræður mestu eru vaxtakjör og ávöxtunarkrafa.  1% breyting til lækkunar á vöxtum lána og þar með ávöxtunarkröfu gerir heilan helling.  Lækkun vaxta úr 5% í 4% er 20% lækkun fjármagnskostnaðar.  

En hvernig greiðir leigusalinn niður lánið?

Í venjulegum rekstri, þá greiðast lán niður af fjármunum frá rekstri, en dragast ekki af rekstrarkostnaði.  Leigusalinn er í sömu stöðu.  Fjármunir frá rekstri, þ.e. sá peningur, sem ekki er notaður til að greiða rekstrarkostnað, er notaður til að greiða afborganir áhvílandi lána.  Hve há þessi upphæð er ræðst af ávöxtunarkröfunni, eiginfjárhlutfallinu og náttúrulega leiguverði.  Mergur málsins er að leigutakinn á ekki að sjá um að greiða afborganir lána leigusalans.  Ef það væri málið, þá væri hreinlegast að leigusalinn sendi bara greiðsluseðlana beint til leigutakans.  Hins vegar má búast við því að leigusalinn geri ráð fyrir afborgunum í arðsemiskröfu sinni.  Ætlist leigusali bæði til þess að fá pening í vasann og að eiga fyrir öllum afborgunum, þegar skuldsetning er há, þá verður hann að sjálfsögðu að hækka leiguna enn frekar.

Er þá markaðsverð leigu of lágt eða fasteignaverð of hátt?

Ég er viss um að allir leigusalar vilja fá hærri leigu og finnst því markaðsverð leigu of lágt.  Einnig er ég viss um að allir kaupendur húsnæðis vildu gjarnan geta keypt á lægra verði.  Þó þetta skipti máli, þá fer ekkert á milli mála að tvennt skiptir mestu máli:  Eiginfjárhlutfall við kaup fasteignarinnar og fjármögnunarkostnaður.

Leigusali sem greiðir 5% vexti og er með 100% skuldsetningu þarf meiri álagningu ofan á rekstrarkostnað en sá sem greiðir 3% vextir og lagði í upphafi fram 50% af kaupverðinu.  Sá fyrri fær líklega ekki mikla fjármuni frá rekstri til að greiða niður afborganir nema álagning sé þess meiri.  Markmið beggja er standa undir skuldbindingum sínum vegna húsnæðisins, sem felst í því að geta greitt fastan kostnað vegna þess og eignast sífellt stærri hlut í húsnæðinu.

Ómögulegt er að svara því hvort markaðsverð leigu sé of lágt eða fasteignaverð of hátt, þar sem það veltur svo mikið á öðrum þáttum.  Ég held samt að það sé alveg á hreinu, að væntanlegur leigusali sem kaupir eign með hárri skuldsetningu og með lök vaxtakjör, hann mun líklegast vera með tap á rekstrinum a.m.k. fyrst um sinn.  Hvort nota eigi slíka aðila til viðmiðunar er síðan allt annað mál.


Hver á bílinn minn? En húsið mitt?

Hér á landi eru nokkur ákaflega sérstök fyrirtæki.  Þau lána m.a. í stórum stíl til bílakaupa.  Áður fyrr kölluðu þau sig fjármögnunarleigur, en Hæstiréttur komst að því í nokkrum málum á síðasta ári, að þau eru bara ósköp venjulegar útlánsstofnanir.  Því miður eru fyrirtækin ekki ennþá búin að átta sig á þessari staðreynd og þau eru heldur ekki búin að átta sig á innihaldi dóma Hæstaréttar nr. 92/2010 og 153/2010 frá 16. júní 2010, en í þeim komst rétturinn að því að bílasamningar sem SP-fjármögnun og Lýsing sögðu að væru leigusamningar væru í reynd lánssamningar.

Sigurður E. Vilhelmsson, eiginmaður Eyglóar Harðardóttur þingmanns, hefur sent stjórnsýslukæru til innanríkisráðuneytisins, þar sem Umferðastofa neitar að verða við beiðni hans um að bíllinn sem hann keypti árið 2004 verði skráður á hann.  Rök Umferðarstofu er að Sigurður eignist ekki bílinn fyrr en hann hefur greitt síðustu afborgun bílasamningsins við SP-fjármögnun.  Mér virðist rök Umferðarstofu vera að Sigurður eignist ekki bílinn fyrr en hann fær í hendur stimplað uppgreitt skuldabréfið.

Mikið er ég heppinn að Umferðarstofa heldur ekki utan um eignarskráningu fasteigna.  Því samkvæmt rökum Umferðarstofu, þá er ég ekki réttilega skráður eigandi hússins míns, ekki einu sinni meðeigandi, þar sem ég hef ekki greitt upp lánin sem hvíla á því.  Samkvæmt lögskýringu Umferðarstofu, þá ætti húsið mitt að vera skráð á lánveitendur mína í líkum hlutföllum og þeir hafa lánað mér!  Sá er þó munurinn á húsnæðislánum mínum og láni vegna bifreiðakaupanna, að húsnæðislánin eru með veð í húsinu mínu, en bíllinn er veðbandalaus.

Skráður eigandi bifreiðar hefur mikið að segja um bifreiðina.  Eitt af því sem hann hefur rétt á er að veðsetja bifreiðina.  SP-fjármögnun gæti því ákveðið að setja veðbönd á bifreið Sigurðar Vilhelmssonar án þess að þurfa samþykki Sigurðar til þess.  Sigurður aftur gæti ekki veðsett bifreiðina nema með samþykki SP-fjármögnunar.  Samt hefur umrædd bifreið aldrei verið í umsjón SP-fjármögnunar og líklegast bara örsjaldan verið lagt nálægt fyrirtækinu.  Starfsmaður SP-fjármögnunar hefur mér vitanlega aldrei komið upp í bifreiðina og SP-fjármögnun lagði hvorki til að umrædd bifreið væri keypt né hafði nokkuð um kaupverðið að segja.  Líklegast var eina aðkoma SP-fjármögnunar að kaupunum, að fyrirtækið veitti lán til kaupanna og hugsanlega aðeins fyrir hluta kaupverðsins.

Nú er ég, sem betur fer, ekki í viðskiptum við SP-fjármögnun, en tók bílalán hjá Glitni á sínum tíma.  Síðan hefur þessi lögaðili (er með sérstaka kennitölu) heitið Glitnir-fjármögnun, Íslandsbanki - fjármögnun og loks Ergo (hvers konar nafn er þetta?).  Ég talaði aldrei við Glitni þegar ég keypti bílinn, heldur sá bílasölumaður um að gera samninginn við mig.  Hann hafði mér vitanlega ekki menntun til að gera slíka samninga, en vann verk sitt samt vel.  Ég gerði bílasamning sem gekk út á að "bankinn átti bílinn", þ.e. einhvers konar leigusamning, sem ég vissi svo sem að var lánssamningur.  Þrátt fyrir að "bankinn á bílinn" ákvæðið, þá hef ég greitt bifreiðagjöld og tryggingar allan tímann, og það sem meira er, skatturinn lítur svo á að ég sé eigandi bifreiðarinnar.  Samkvæmt lið 4.3 undir Eignir í árslok í skattframtalinu, þá hefur ríkisskattstjóri skilmerkilega skráð inn bifreiðina á hverju ári frá 2004.  Er það þrátt fyrir að ég var fyrstu þrjú árin með bílinn á rekstrarleigu og gat skilað bílnum að leigutíma loknum án skuldbindinga og eins ef ég hefði kosið að rifta samningnum, þá hefðu ekki orðið neinir eftirmálar af því.  En nú er Hæstiréttur búinn að komast að því, að leigusamningurinn er lánssamningur, skatturinn segir að ég eigi bílinn, en Umferðastofa segir að Ergo eigi hann.  Hver hefur rétt fyrir sér?


mbl.is Kærði skráningu á bíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landsbankinn segist hafa afskrifað 219 ma.kr. hjá fyrirtækjum og einstaklingum en það sést ekki í reikningum

Þá er þriðji bankinn kominn með árshlutauppgjör fyrir fyrri hluta ársins.  Eins og uppgjör Arion banka og Íslandsbanka III. hafi ekki gengið fram af skuldahoknum almúga þessa lands, þá gerir "bankinn minn" ennþá betur.  Litlar 24,4 ma.kr. í hagnað.

Bankastjórinn er með eitthvað samviskubit yfir þessari afkomu og ber fyrir sig gengishagnað hlutabréfa og sölu eigna.  En er það satt?  Samkvæmt fréttatilkynningu frá bankanum hagnaðist hann um ríflega 34 ma.kr. á vaxtamun.  Í tilkynningunni segir að "vaxtamunur af meðalstöðu heildareigna" hafi verið 3,1% og síðan kemur í ljós að heildareignir 30. júní voru 1.126 ma.kr. miðað við 1.081 ma.kr. í ársbyrjun.  Tökum 3,1% af meðaltali þessarra talna og þá fást 34,2 ma.kr.  Þannig að vaxtamunurinn skapaði fyrst og fremst hagnaðinn, þó svo að hitt hafi lagt eitthvað til.

Áhugaverðast finnst mér í fréttatilkynningunni klausan um að bankinn hafi afskrifað skuldir fyrirtækja um 206 ma.kr.  Nú hef ég skoðað ársreikninga bankans fyrir 2008, 2009 og 2010 og árshlutareikninginn sem birtur er í dag.  Hvergi í þessum skjölum er nokkur vottur af þessum afskriftum.  Ef þær eru þarna, þá hafa menn falið eitthvað annað á móti, því 206 ma.kr. hverfa ekki út úr eignasafni bankans án þess að þess verði vart nema öðru hafi verið laumað á móti.  Á þessu eru ekki nema tvær skýringar:

1.  Hér er enn einn sýndarleikurinn með afskriftir sem í raun og veru voru framkvæmdar í hrunbankanum.

2.  Lánin voru fyrst færð upp um 206 ma.kr. áður en þau voru færð niður um 206 ma.kr.

Ég kann eitt og annað um bókhald, þó ég hafi ekki vit á "stórfyrirtækjasýndarbókhaldi".  Í venjulegu bókhaldi, þá ber að færa til tekna óreglulega fjármagnsliði svo sem endurmat eigna til hækkunar og til gjalda sambærilegt endurmat til lækkunar ásamt beinum afskriftum.  Ef þessir liðir eru skoðaðir í reikningum Landsbankans, þá segir í þessum nýja árshlutareikningi á bls. 9:

Net adjustments to loans and advances acquired at deep discount (nettó breytingar á lánum og kröfum fengnar með miklum afslætti) 12,986 ma.kr., þ.e. bankinn viðurkennir að hafa fengið "loans and advances" með miklum afslætti og hafa fært þetta upp um tæpa 13 ma.kr. á fyrstu 6 mánuðum ársins.  Vissulega væri hægt að fela 206 ma.kr. bak við nettótölu, en þá væri bankinn að viðurkenna að þessir 206 ma.kr. væru tilkomnir vegna endurmats á lánum sem fengin voru með miklum afslætti.  Einnig væri einstaklega heimskulegt að færa 206 ma.kr. til tekna bara til að afskrifa þá í næstu bókhaldsfærslu.  Hvernig sem þetta var gert, þá lítur þetta út fyrir að vera enn eitt leikritið.  Skoðum þetta svo í samspili við svar fjármálaráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þór Þórðarsonar sem birt var í gær.  Þar er að vísu verið i orðaleik, en skítt með það.  Samkvæmt svarinu tók bankinn við útlánum til fyrirtækja að "gangvirði" 497 ma.kr. og útlánum til einstaklinga að "gangvirði 158 ma.kr. eða alls 661 ma.kr.  Nú eigum við að trúa því, að þessi lán, sem stóðu 30. júní í 653 ma.kr., hafi verið afskrifuð um 219 ma.kr. vegna aðgerða bankans án þess að þess sjáist nánast nokkur merki í uppgjörinu.

Ég segi að þess sjáist nánast engin merki.  Í skýringu 11 á bls. 19 um "Loans and advances to customers" er fjallað um hvernig talan 653 ma.kr. er fengin.  Hún fæst með því að leggja saman útistandandi lán hjá opinberum aðilum (11,8 ma.kr.), einstaklingum (186,2 ma.kr.) og fyrirtækjum (478,9 ma.kr.) og draga frá liðinn "Less:  Allowance for impairment" upp á 23,7 ma.kr.  Sé þessi liður skoðaður aftur í tímann, þá er hann 21,1 ma.kr. í lok árs 2010 og 7,8 ma.kr. í lok árs 2009.

Sá sem ætlar að afskrifa 206 ma.kr. af lánum fyrirtækja eða hvorki meira né minna en rúmlega tífaldan rekstrarkostnað síðasta árs, hann minnist á það með ítarlegum hætti í árshlutareikningi eða a.m.k. ársreikningi.  Sérstaklega þegar viðkomandi aðili fullyrðir að notast sé við viðurkenndar, alþjóðlegar reikningsskilavenjur.  Annað væri hreinlega ófagleg vinnubrögð.

En höldum áfram með skýringarnar.  Skýring 30 á bls. 29 er um "allowance for impairment on loans and advances to financial institutions and customers".  Þar er m.a. minnst á afskriftir á fyrri helmingi ársins.  Nú hélt ég að 13 ma.kr. af lánum einstaklinga myndu dúkka upp, en svo er nú aldeilis ekki.  Heilir 2 ma.kr. voru afskrifaðir af lánum viðskiptavina.  Hér er ekkert verið að tala um "nettó" heldur er um verga tölu að ræða, þannig að hafi 13 ma.kr., 206 ma.kr. eða samtalan 219 ma.kr. verið afskrifaðar, þá ætti talan að standa þarna í öllu sínu veldi.  Nei, 2,012 ma.kr. stendur þarna og fyrir árið 2010 er talan 0.  Já, eitt stór NÚLL.  Raunar segir í ársreikningi fyrir 2010 að bankinn hafi náð að innheimta 177 m.kr. af áður afskrifuðum lánum.

Nú skora ég á Landsbankann að gera hreint fyrir sínum dyrum.  Hvar er upplýsingar um framangreindar afskriftir að finna í reikningum bankans?  Hvenær fóru þessar afskriftir fram?  Hvers vegna var mismunurinn á meintu bókfærðu virði og "gangvirði" ekki fært á viðeigandi hátt í reikningum félagsins, fyrst bankinn eignar sér að hafa afskrifað hjá viðskiptavinum lán sem metin voru 0 að gangvirði?  Fróðlegt væri ef hinir bankarnir vildu einnig svara þessum spurningum.


mbl.is 24,4 milljarða hagnaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðbjartur, þú ert í aðstöðu til að breyta þessu!

Guðbjartur Hannesson sagði á Alþingi í dag, það sem ég, Hagsmunasamtök heimilanna og margir fleiri baráttu hafa sagt í hært nær 3 ár  (HH frá stofnun):

Leiðrétta verður tjón sem fjármálafyrirtæki ollu landsmönnum með hruninu og í undanfara þess.

Munurinn á okkur kvöbburunum og Guðbjarti er að hann er í þeirri ríkisstjórn sem hefði getað staðið fyrir þessari leiðréttingu.

Ég veit ekki hversu marga fundi ég hef setið með hinum ólíku aðilum um leiðréttingar lána, afskriftirnar sem bankarnir þrír fengu og annað tengt fjármálum heimilanna.  Fund eftir fund hef ég lagt á borðið mína sýn og sýn Hagsmunasamtaka heimilanna á skuldastöðu heimilanna, hvað þyrfti að gera, hvað hefur verið gert og áhrif þess, svigrúm bankanna til að koma frekar til móts við heimilin o.s.frv.  Þó ég segi sjálfur frá, þá held ég að ekkert í málflutningi mínum eða HH hafi reynst rangt.  Raunar vil ég ganga svo langt að segja, að við höfum nánast undantekningarlaust sagt mjög nákvæmlega fyrir um staðreyndir og í þau skipti sem við höfum ekki lýst því sem síðar gerðist var vegna þess að við vorum ekki nógu svartsýn á niðurstöðuna.

Guðbjartur, vertu velkominn í hóp þess fólks, sem veit að ekki er nóg gert.  Ég held að núna sé tími til kominn að hlustað sé á okkur, sem barist höfum fyrir réttindum heimilanna.  Hitt er fullreynt.  Þú, Guðbjartur, ert í aðstöðu til að breyta hlutunum.  Láttu núna verkin tala.


mbl.is Tapar eignum sínum í þriðja sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góður hagnaður Íslandsbanka, en hvar eru afskriftirnar sem SFF talar um?

Fyrstur kom Arion banki.

Hann læddist inn í lánsöfnin

og fann þar hagnað feitan

furðu með reksturinn heitan.

 

Næstur kom Íslandsbanki.

Hann tók til í bókhaldi

og hefur hverfandi afskriftir að sýna

hversu mikið sem menn rýna.

 

Þriðji kemur Landsbankinn.

Sagan hans er ekki þekkt

þegar þessi færsla rituð er.

Því er ekki vitað hvernig fer.

 

Ætli Jóhannes í Kötlum hefði ekki orðað þetta betur, en í dag eigum við þrjá bankajólasveina, sem líkt og venjulegu jólasveinarnir læðast inn á heimili fólks og hafa þaðan fé og eignir sem þeir eiga ekki rétt til (a.m.k. að mínu mati).

Árshlutauppgjör Íslandsbanka III.

Íslandsbanki III. sendi frá sér fallegt árshlutauppgjör fyrir fyrri hluta þessa árs.  Hagnaðurinn er upp á 8 ma.kr., þannig að hagnaður bankans og Arion banka nær 18 ma.kr. á sex mánuðum.  Ekki er þröngt í búi hjá þessum.

Áhugavert er að skoða afskriftir eða öllu heldur afskriftaleysi Íslandsbanka.  Lán bankans til viðskiptavina og kröfur á þá eru sögð standa í 509,9 ma.kr.  Í skýringu 5 á bls. 13 er þessi tala birt án þess að nokkur tilvísun sé í varúðarfærslu  heldur er sagt að upphæðin sé raunvirði lánanna (total carrying amount).  Hafði virði lánsafnanna lækkað um 5,2 ma.kr. frá því 31.12.2010 sem er óveruleg breyting og rúmar alls ekki meintar afskriftir sem Samtök fjármálafyrirtækja og Árni Páll Árnason börðu sér á brjósti með.  Það sem meira er að í skýringu 7 kemur fram að breytingar á virði (net valuation changes) frá áramótum hafi verið neikvæð um 255 m.kr., en jákvæð um 409 m.kr. frá 1. apríl 2011.

Þegar skoðaðar eru varúðarfærslur vegna lána (impairment allowance) í skýringu 21 á bls. 20, þá kemur í ljós að þær hafa hækkað um 3,5 ma.kr. frá áramótum og standa í 65,2 ma.kr. (65,8 ma.kr. samkvæmt skýringu 22).  Í skýringu 22 á sömu blaðsíðu eru færslur innan tímabilsins skýrðar.  Staðan var 62,3 ma.kr. í upphafi árs, afskriftir voru tæplega 7,6 ma.kr., leiðréttingar á höfuðstóli (principal credit adjustment) var upp á 4,5 ma.kr. og síðan er sagt að 15,6 ma.kr. hafi verið færðir á rekstrarreikning (charged to the comprehensive income).  Eina sem ég finn í rekstrarreikningnum er upphæðin 155 m.kr., þannig að líklega eru 15,6 ma.kr. færslan uppsöfnuð tala frá stofnun bankans.

Hvernig sem ég leita í árshlutareikningi Íslandsbanka III., þá sé ég hvergi meintar afskriftir sem SFF fullyrða að hafi átt sér stað hjá nýju bönkunum og ég sé heldur hvergi meintar afskriftir sem Árni Páll kynnti fyrir þingheimi um daginn.  Hvernig geta hátt í 623 ma.kr. bara horfið í bókum bankanna?  Vissulega hefur Íslandsbanki afskrifað eitthvað og Arion banki líka, en þær afskriftir nema kannski, já, kannski 130 - 150 ma.kr. sem safnast hafa upp frá stofnun bankanna.  Hvorugur bankinn sýnir nokkurn vott að því að hafa afskrifað 20 ma.kr. frá áramótum, hvað þá 120 ma.kr. eins og SFF heldur fram.

Þáttur fjölmiðla og meðvirkni

Ég skil ekki fjölmiðla þessa lands.  Nú er ég búinn að vera í samskiptum við tvo af þeim á undanförnum dögum, þar sem ég hef hvatt þá til að fletta ofan af lyginni varðandi afskriftir í nýju bönkunum.  Lygi sem SFF og Árni Páll Árnason hafa borið fyrir almenning í landinu.  Nei, þeir þegja þunnu hljóði.

Því miður er meðvirkni alveg að drepa þetta þjóðfélag.  Ekki má segja sannleikann vegna þess að það gæti sært einhvern í valdastétt landsins.  Útrásargosarnir munu fá að komast um glæp sinn, banksterarnir munu fá að komast upp með glæp sinn, stjórnmálamenn munu fá að komast upp með að hagræða sannleikanum vegna þess að, eins og einn þeirra sagði, "ég kann ekki að reikna".  Eru fjölmiðlar að gera í buxurnar af hræðslu við þessa aðila og þora því ekki að fletta ofan af lygunum?  Af hverju kemst Árni Páll Árnason upp með að ljúga að Alþingi?  Hann sagði í svari sínu að stærstu bankarnir þrír hefðu afskrifað 503,3 ma.kr. frá hruni.  Árni Páll, hvar birtast þær tölur í ársreikningum bankanna?  Þú ert efnahags- og viðskiptaráðherra og getur ekki falið þig bak við að þú kunnir ekki að reikna.

Fjölmiðlar leyfa allt of oft aðilum í "valdastétt" þjóðarinnar að komast hjá því að svara spurningum.  Það sem meira er, að þeir fylgja málum ekki eftir, þegar svarið vantar.  Í Bretlandi kæmist efnahags- og viðskiptaráðherra ekki upp með að veita þinginu rangar upplýsingar líkt og hér.  Fjölmiðlar væru á bakinu á honum þar til hann annað hvort segði af sér eða bæðist afsökunar og leiðrétti svör sín.  Nei, svo er ekki hér.  Hér eru sendiboðarnir teknir af lífi, en sökudólgunum hampað.

Banksterarnir ollu meira tjóni allir glæpamenn Íslands frá upphafi

Ég var með hóp af Bandaríkjamönnum í leiðsögn um daginn.  Kanar eru einstaklega forvitnir um glæpi og glæpatíðni og fékk ég því hina klassísku spurningu:  What is the crime rate in Iceland?  Svar mitt var álíka klassískt: 

Jú, við höfum flutt inn baltnesku mafíuna, Hells Angels væru hér og Black Pistons, Outlaws og fleiri hópar sem þekktir eru fyrir annað en að vera bara fyrirmyndarborgarar.  En þrátt fyrir allt sem þessir aðilar og aðrir krimmar hafa kostað heimilin í landinu, þá komast þeir ekki með tærnar þar sem banksterarnir væru með hælana.  Ætli menn að fremja glæpi, þá sé öruggast að gera það í nafni fjármálafyrirtækis, þar sem það virðist vera löglegt að sýna vanhæfni, blekkingar, spillingu, svik og pretti sé það gert innan fjármálafyrirtækis.  Almenningur borgar brúsann.

Viðbrögðin létu ekki standa á sér.  Fólk tók allt undir þetta, enda er þetta það sama alls staðar í heiminum.  Háttsemi bankamanna, hversu vitlaus hún er og röngu megin við línuna, virðist ekki talin glæpsamleg, en detti einhverjum ólánsmanni það í hug að stela einum súpupakka í 10-11, þá skal stinga honum í fangelsi.

En merkilegast við þessa bankstera er að sumir misstu ekki einu sinni vinnuna!  Aðrir hafa beðið í skjóli í tæp þrjú ár, halda að við séum búin að gleyma glæpum þeirra og eru komnir á fullt að endurskrifa söguna.  Aumkunarvert, svo ekki sé meira sagt.


mbl.is Hagnaðist um 8 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 7
  • Sl. sólarhring: 162
  • Sl. viku: 570
  • Frá upphafi: 1677587

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 51
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband