Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010

Niðurstaða ESA kemur ekki á óvart

Ef þessi niðurstaða ESA er að koma einhverjum á óvart, þá hefur sá hinn sami ekki fylgst mikið með Icesave umræðunni.  Eins og ég skil Icesave samningana, þá hefur Ísland alltaf viðurkennt að það þurfi að greiða lágmarkstrygginguna.  Deilan hefur ekki snúið um það.  Hún hefur snúið um hvernig endurgreiðsla frá Landsbankanum fari fram, þ.e. hvort fyrst skal greiða inn á skuldbindingu íslenska tryggingasjóðsins og síðan hinna landanna eða hvort greiða eigi jafnt inn á alla, hvaða vexti á að greiða af lánum Breta og Hollendinga og hvort Ísland eigi að greiða eitthvað umfram lágmarkstrygginguna.  Vissulega hafa menn viljað vera vissir um þessa greiðsluskyldu, en hún hefur ekki verið neitt að trufla viðræðurnar.

Ég hef ekki lesið áminningu ESA og veit því ekki hvort hún tekur á upphæðum umfram lágmarkið, en ef marka má frétt mbl.is, þá nær úrskurður ESA bara til lágmarkstryggingarinnar.  Því má segja að ESA taki undir þau sjónarmið Íslands, að við berum ekki ábyrgð á neinu umfram lágmarkstrygginguna.  Þá er einn liður afgreiddur af þeim þremur, sem ég nefndi að ofan.  Eftir standa tveir:  1) í hvaða röð renna greiðslur frá Landsbankanum til tryggingasjóðanna þriggja; og 2) hvað þarf Ísland að greiða háavexti af lánum Breta og Hollendinga til íslenska tryggingasjóðsins.  Í mínum huga skiptir fyrra atriðið öllu í þessari deilu og takist að landa því þannig að Landsbankinn geri fyrst upp við íslenska tryggingasjóðinn áður en greiðslur renna til hinna, þá sitjum við skattgreiðendur bara uppi með vaxtagreiðsluna.

Líta má á, að úrskurður ESA lækki hámarksupphæðina sem getur fallið á íslenska skattborgara, en hann segir ekkert til um hvert lágmarkið verður.  Úrskurðurinn kveður einnig úr um, að þeir sem áttu mest inni á Icesave reikningum, þ.e. umfram tryggingar Breta og Hollendinga, verða að sækja sitt tjón til Landsbankans.


mbl.is Ísland braut gegn tilskipun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bónusgreiðslur - einn af sjúkleikum bankakerfisins.

Fimmtudaginn 20. maí féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli Flemmings Bendsens gegn Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka vegna kröfu Flemmings um að kröfur hans til slitastjórnar bankans verði viðurkenndar sem forgangskröfur.  Ég ætla ekki að fjalla um dóminn hér heldur kröfurnar.  Í dómnum segir um þessar kröfur (feitletrun er mín):

Dómkröfur sóknaraðila eru þær aðallega að kröfur hans til slitastjórnar varnaraðila dagsettar 7. júlí 2009 að fjárhæð GBP 532.082,89 og að fjárhæð GBP 40.648,11 verði samþykktar sem forgangskröfur samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991.

Til vara krefst sóknaraðili þess að kröfur hans til slitastjórnar varnaraðila, dagsettar 7. júlí 2009 að fjárhæð GBP 532,082,98 og að fjárhæð GBP 40.648,11, verði samþykktar sem almennar kröfur samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

Skoðum nú hvernig þessar kröfur eru til komnar, en því er lýst í dómnum (feitletrun er mín):

Sóknaraðili gerði ráðningarsamning við varnaraðila hinn 2. mars 2007 er hann réði sig til starfa sem starfsmaður á sviði eigin viðskipta hjá varnaraðila.  Í 4. grein ráðningarsamningsins er fjallað um endurgjald sóknaraðila fyrir vinnu í þjónustu varnaraðila.  Samkvæmt grein 4.1 voru grunnlaun sóknaraðila EUR 187.000 á ári.  Í grein 4.2, sbr. viðauka 1 við ráðningarsamninginn er fjallað um kaupaukagreiðslur. Í lið 2 í viðauka 1 við ráðningarsamninginn er fjallað um hagnaðarhlutdeild sóknaraðila og kaupaukagreiðslur hans skilgreindar.  Í lið 2.3 í viðauka 1 við ráðningarsamninginn er tekið fram að varnaraðili geti frestað 25% af kaupaukagreiðslum í 12 mánuði og öðrum 25% í 24 mánuði.  .

Samhliða ráðningarsamningi gerðu aðilar með sér samkomulag um að sóknaraðili tæki að sér nánar tilgreint verkefni fyrir varnaraðila.  Þar kemur fram að sóknaraðili skuli fá fyrir verkefnið greiddar EUR 1.550.000, eða sambærilegt verðmæti hluta í varnaraðila, í einni greiðslu eða þremur jöfnum afborgunum á þriggja ára tímabili, enda sé hann enn starfandi eða að deild á sviði eigin viðskipta sé enn starfrækt.   Þá segir enn fremur að ef starfsmaður hættir vegna ástæðna sem tilgreindar eru í liðum 3.1 og 3.2 í viðauka 1 við ráðningarsamninginn, meðal annars þeirrar að því að dregið sé úr starfsemi fyrirtækis og því nauðsynlegt að fækka starfsfólki, eigi hann rétt á fullri greiðslu samkvæmt samkomulaginu.

Ég veit ekkert hver þessi Flemming Bendsen er og veit því ekki hvort hann sé EUR 1.550.000 virði fyrir verkefni utan vinnutíma til viðbótar við EUR 187.000 sem hann fékk fyrir vinnu frá 9 - 5 virka daga, auk ýmissa hlunninda og aukagreiðslna sem almennt fylgja störfum.  Þessar tölur sýna fyrst og fremst hvaða rugl viðgekkst og viðgengst ennþá í fjármálakerfinu.  Maðurinn fær EUR 187.000 + hlunnindi árlega fyrir að gera það sem hann á að gera og svo þrefalda þá tölu fyrir eitthvað sem hann gerir utan vinnutíma.  Maður getur svo sem velt fyrir sér hvað það var sem Flemming var að gera aukalega fyrir Straum, en líklegast var hann ekki fylgdarsveinn bankastjórans.  Augljósa svarið er að verið var að kaupa mann með tengsl, sem þýðir þá líka að hann var fenginn frá öðru fjármálafyrirtæki og byrjaði á því að brjóta trúnað við viðskiptavini þess með því að kjafta í sinn nýja vinnuveitanda hverja hann hafði áður í viðskiptum.  Þetta var svo kallað "sign-on fee".  Öll fjármálafyrirtæki ganga meira og minna út á slíkan óheiðarleika starfsmanna, þ.e. menn eru keyptir frá einu fyrirtæki til annars til að tappa af tengslaneti þeirra.

Ég get tekið mýmörg dæmi um fáránleikann í skiplagi launamála hjá fjármálafyrirtækjum.  Hvað hafa t.d. starfsmenn Goldman Sachs að gera við nokkra milljarða dala í bónusa, þegar launagreiðslur til þeirra námu um 20% af bónusum.  Hvers konar bónus kerfi er það, sem greiðir fólki fimmföld laun fyrir að vinna vinnuna sína?  Og hvaða áhrif hefur slíkt bónusakerfi á fjármálakerfið?

Því hefur verið haldið fram, að hluti af skýringunni á fjármálakreppunni séu hinir brjálæðislegu kaupaukar sem menn fengu.  Ekki var spurt út í gæði teknanna eða framtíðarávöxtun, stundargróðinn var það eina sem skipti máli.  Hér á landi höfum við heyrt af kaupaukum Hreiðars Más Sigurðssonar sem virtust hafa þann eina tilgang að gera hann að skattkóngi landsins.  Já, metnaður manna er misjafn.  Það hefði kannski verið betra að metnaður hans hafi verið til heiðarlegra viðskiptahátta.

Ég er hlynntur því að komið sé á ofurtekjuskatti í anda Bítlalagsins Taxman, þ.e. 95% skatt á launa- eða launatengdar tekjur yfir 100 milljónum á ári.  Ok, 95% er kannski nokkuð snarpt, en eitthvað verulega meira en þessi 48% sem ýmsir almennir launamenn þurfa að greiða í dag.  Ég tek með launatengdar tekjur, þar sem taka þarf fyrir það, að hægt sé að færa tekjur yfir í eitthvað torkennilegt form til þess eins að borga lægri skatt.  Mér finnst t.d. vera regin munur á því að fólk fái kauprétt á hlutabréfum í samræmi við starfstíma þess hjá fyrirtæki, þ.e. ávinni sér rétt með hverjum mánuðinum sem það vinnur, og að fá kauprétt sem árlegan kaupauka vegna þess að launin eru ekki talin duga til að halda viðkomandi ánægðum.

Breyta verður skattkerfinu til að koma í veg fyrir svona vitleysu og það verður líka að breyta skattkerfinu, þannig að ekki sé hægt að flytja hagnað eða arð úr landi til lands með lægri skatthlutfall nema að greiddur sé munurinn á þeim skatti sem þar er greiddur og þeim skatti sem ætti að greiða hér á landi.  Með þessu er lokum skotið fyrir skattahagræðingu í skattaparadísum.  Mín hugmynd er að skattleggja tekjur/fjármagnstekjur hér á landi samkvæmt íslenskum reglum áður en fjármagnið er flutt úr landi, en síðan getur viðkomandi aðili sótt um endurgreiðslu gegn kvittun fyrir sannanlega greiddum skatti annars staðar og þá eingöngu á þeirri upphæð sem var greidd annars staðar.  Með þessu er einfaldlega ekki hægt að skjóta tekjum og eignum undan skatti.  


Gagnrýniverð fréttaskýring á útspili SP-fjármögnunar

Ég verð að furða mig á þessari miklu athygli sem Morgunblaðið og mbl.is veita útspili SP-fjármögnunar.  Ennþá meira er ég hissa á hinni gagnrýnislausu "fréttaskýringu" sem þessi færsla er hengd við.

Skoðum það sem gleymdist að spyrja Harald Ólafsson, forstöðumann verkefna- og þjónustusviðs SP-fjármögnunar, í þessari "fréttaskýringu":

1.  Hvers vegna kemur SP-fjármögnun með þetta tilboð núna, þegar liggur fyrir að Hæstiréttur mun taka fyrir mál vegna lögmæti gengistryggingarinnar 2. júní næst komandi og félagsmálaráðherra er tilbúinn með frumvarp sama efnis?

2.  Hverjar eru viðmiðunardagsetningarnar sem notaðar eru til að finna út hve mikil lækkun höfuðstóls hvers láns fyrir sig er?

3.  Nú segið þið í upplýsingum á vefsíðu fyrirtækisins að greiðslubyrði mun að jafnaði standa í stað eða lækka.  Eru dæmi um að greiðslubyrðin muni hækka við þessa breytingu?

4.  Vextir á verðtryggðum lánum verða 7,95% og óverðtryggðum 12,65%.  Hve mikil breyting er þetta á vaxtakjörum?

5.  Nú hefur íslenska krónan styrkst talsvert á undanförnum dögum og vikum.  Hvaða forsendur gefur fyrirtækið sér um styrkingu krónunnar á næstu vikum og mánuðum?

6.  Með því að breyta láni úr gengistryggingu í verðtryggt eða óverðtryggt krónulán, þá má segja að SP-fjármögnun njóti þess ef krónan heldur áfram að styrkjast.  Kom ekki til greina að láta lántakann njóta styrkingar krónunnar?  Ef ekki, hvers vegna?

7. Munu þeir fyrrverandi viðskiptavinir SP-fjármögnunar, sem hafa verið vörsluskiptir bifreiðum sínum, fá að njóta þeirrar lækkunar á höfuðstóli lánanna, sem hér er verið að bjóða?

8.  Mun SP-fjármögnun leiðrétta afturvirkt uppgjör vegna bifreiða sem fyrirtækið hefur tekið til baka? 

9. Mun fyrirtækið fella niður/leiðrétta kröfur á lántaka sem sitja uppi með eftirstöðvar lána en enga bifreið?

Ég gæti bætt inn nokkrum augljósum spurningum til viðbótar, sem mér hefði þótt eðlilegt að blaðamaður hefði lagt fyrir Harald, en læt það ógert.  Metnaðarleysið í þessari "fréttaskýringu" að hún stenst ekki lágmarkskröfur til fréttaskýringar og er nær að kalla þetta fréttatilkynningu eða auglýsingu.

Þessi svo kallaða fréttaskýring verður síðan ennþá vafasamari, þegar maður flettir Mogganum.  Þar birtist hún á blaðsíðu 6 og hvaða auglýsing ætli sé á blaðsíðu 5?  Jú, heilsíðuauglýsing frá SP-fjármögnun um höfuðstólslækkunina!!!!  Þetta er svo klaufalegt af hálfu Morgunblaðsins, að það er með ólíkindum.  Það er grundvallaratriði í ritstjórn að vera ekki með svona tengingu milli ritstjórnarlegs efnis og auglýsinga.  Kannski er þetta tilviljun og ég vona það innilega.  Þetta lítur að minnsta kosti heldur ógæfulega út.


mbl.is Stíga skrefið á undan Árna Páli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

SP-fjármögnun krafsar í bakkann

Hún er furðuleg sú ályktun blaðamanns að SP-fjármögnun hafi riðið á vaðið.  Fyrirtækið stendur frammi fyrir tveimur niðurstöðum Héraðsdóms Reykjavíkur.  Annarri frá því 12. febrúar, þar sem Áslaug Björgvinsdóttir settur héraðsdómari úrskurðar að gengistrygging sé ólögleg, og hinni frá 30. apríl, þar sem Jón Finnbjörnsson héraðsdómari úrskurðar að ekki sé gengistryggingin bara ólögleg heldur skuli engin önnur verðtrygging koma í staðinn, en lánasamningurinn skuli að öðru leiti standa.  Auk þess hefur fyrirtækið hangandi yfir sér lagasetningu (en mér skilst að frumvarpið sé samið af lögfræðingum SP-fjármögnunar) sem skikkar fyrirtækið til að gera það sem það er bjóða.

Horfum til baka hálft ár og rifjum upp framburð forstjóra SP-fjármögnunar fyrir dómi.  Þar lýsir blessaður maðurinn síendurteknum brotum fyrirtækisins á starfsleyfi þess og heldur fram alls konar hlutum sem ekki hljóta stuðning í ársreikningum fyrirtækisins.  Staðreynd málsins er að SP-fjármögnun var gjörsamlega búið að mála sig út í horn (eða skíta upp á bak) og þeir eru að reyna að leika einhvern goody guy til að skora stig.  Í færslu (sjá Tilboð SP-fjármögnunar: Of lítið, of seint) við aðra frétt um þetta efni (mbl.is virðist vera mjög umhugað um þetta án þess að koma með eina einustu gagnrýni á innihaldið) frá því í gær fer ég betur yfir þetta mál.  Þar bendi ég m.a. á að enn einu sinni er verið að flytja gengisáhættuna yfir á viðskiptavininn, þrátt fyrir að það sé andstætt öllum grunnreglum um bankaviðskipti.  Þá er ekkert í tilboði SP-fjármögnunar sem vísar til þess að fórnarlömb fyrirtækisins undanfarin ár eigi rétt á leiðréttingu sinna mála.  Loks bendi ég á, að 7,95% verðtryggðir vextir eða 12,65% óverðtryggðir vextir til viðbótar við að fyrirtækið ætlar að hirða gengisstyrkinguna flokkast seint undir kosta kjör.

Bæði "tilboð" SP-fjármögnunar og frumvarp félagsmálaráðherra (miðað við það sem ráðherra hefur sjálfur sagt um það) eru ámátlegar tilraunir til að festa eignaupptökuna og forsendubrestinn.  Að mönnum skuli detta í hug að koma með svona tillögur og kalla það réttarbót fyrir neytendur er hrein ósvífni.  Ég skil heldur ekki ráðherra að þora ekki að bera frumvarpið undir aðila eins og Hagsmunasamtök heimilanna.  Nei, SP-fjármögnun var beðin um að semja frumvarpið (samkv. gorti forstjóra fyrirtækisins).  Þreytast stjórnmálamenn aldrei á því að gera vitleysur?  Er mönnum fyrirmunað að skilja, að heimilin og fyrirtækin vilja lausnir á sínum forsendum, ekki á forsendum fjármálafyrirtækjanna.  Skilja stjórnmálamenn ekki, að viðskiptavinir fjármálafyrirtækjanna eru búnir að fá nóg af skítnum og spillingunni sem vellur út úr fjármálakerfinu og telja að nú sé kominn tími til að fjármálakerfið fari að haga sér eftir forskrift okkar, viðskiptavina þess.


mbl.is SP ríður á vaðið með lækkun lána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilboð SP-fjármögnunar: Of lítið, of seint

SP-fjármögnun sér sæng sína út breidda og býður lækkun höfuðstóls gengistryggðra bílalána.  Lána sem fyrirtækið mátti ekki bjóða lögum samkvæmt, lán sem voru í ókennilegum sjóðseiningum sem það hafði starfsheimildir til að bjóða, lán sem það sagðist hafa veitt í gjaldeyri til viðskiptavina, þó fyrirtækið hefði ekki heimild til gjaldeyrisviðskipta.

Tökum nú viljann fyrir verkið, þá hefði ég viljað sjá í yfirlýsingu fyrirtækisins, að það bætti ÖLLUM viðskiptavinum sínum sem gengið hefur verið að og verið sviptir bílum sínum, þann skaða sem það hefur valdið þeim.  Ég ítreka ÖLLUM og það innan 14 daga, án undanbragða og án vífillengja.

Í mínum huga er SP-fjármögnun, líkt og Íslandsbanki, að kasta inn handklæðinu.  Fyrirtækin viðurkenna að lánin sem þau veittu standast ekki bókstaf laganna.  Nú á að koma með eitthvað PR stunt korteri áður en Hæstiréttur fellir dóm sinn um lögmæti gengistryggðra lána.  Vissulega getur dómur Hæstaréttar fallið á hvorn veginn sem er og ekkert er öruggt, en miðað við útspil SP-fjármögnunar, sem hefur verið mjög stíft í öllum samskiptum sinum við viðskiptavini, þá eru menn greinilega orðnir sannfærðir um það á hvorn veginn dómurinn fellur.  Það er nokkuð skondið, þar sem SP-fjármögnun vann sitt mál fyrir héraðsdómi í desember.

Á næstu dögum getum við átt von á því að önnur bílalánafyrirtæki komi fram með svipuð tilboð.  Það er gott og blessað, en furðulegt að það hafi tekið menn allan þennan tíma að komast að þessari niðurstöðu.

Annars kíkti ég á síðuna hjá SP-fjármögnun og sá hvers konar kjarnaboð þetta er hjá fyrirtækinu.  Kjósi viðskiptavinir að breyta í verðtryggt lán, þá ber það 7,95% vexti, en sé lánið óverðtryggt, þá eru vextirnir 12,65%.  Miðað við þetta veðjar fyrirtækið á 4,7% verðbólgu.  Fyrirtækið má eiga það, að það viðurkennir, að lítil sem engin breyting verður á greiðslubyrði.  Einnig má segja því til hróss, að það býður lækkunina, þó svo að lántaki greiði lánið upp.  Í þessu öllu les út nokkur atriði.  Eins og ég bendi á að ofan, þá er það spá fyrirtækisins að verðbólga næstu 12 mánuði verði innan við 5%, það er greinilega hrætt við niðurstöðu Hæstaréttar og, þó dómur Hæstaréttar falli fyrirtækinu í hag, að gengi krónunnar eigi eftir að styrkjast verulega.  Út frá þessum þáttum, þá tel ég varhugavert fyrir lántaka að taka þessu tilboði.  Ástæðurnar eru væntanlegur dómur Hæstaréttar, en þó hann falli lántökum í óhag, þá mun frumvarp félagsmálaráðherra setja undir þann leka; greiðslubyrðin er ekkert að breytast; og loks að aftur er SP-fjármögnun að láta viðskiptivini sína taka þá gengisáhættu, sem eðlilegt er að fjármálafyrirtækið taki.  Fjármálafyrirtæki hafa möguleika til að verja sig gegn gengissveiflum, en almennir lántakar geta það ekki.  Þess vegna er ólöglegt að tengja fjárskuldbindingu í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla!


mbl.is Lækka bílalán um 20-40%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimilin eru ekki aflögufær - Hvar er skjaldborgin?

Mér þykir höggvið í saman knérum.  Enn einu sinni á að leita í vasa heimilanna eftir aur til að laga fjárlagahallann.  Bara svo eitt sé á hreinu:

Heimilin eru ekki botnlaus sjálftökusjóður fyrir misvitra stjórnmálamenn og illa rekin fjármálafyrirtæki.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa ítrekað bent á þessa staðreynd og svar ríkisstjórnarinnar er alltaf að hækka skatta.  Hvað halda Jóhanna og Steingrímur að hægt sé að ganga langt?  Nú þegar eru um 60% heimila í verulegum vanda.  Vissulega getur hluti þessa hóps ennþá náð endum saman með herkjum, en það gerir það með því að skera niður útgjöld í naumhyggjuútgjöld og taka út séreignasparnað, hluta af ellilífeyrinum sínum.  Eru uppi einhver plön um að bæta fólki þetta?

Það er halli á ríkissjóði.  Rétt er það.  Og þennan halla þarf að brúa.  Að ganga enn og aftur að stórskuldugum heimilum landsins til að ná í meiri pening gengur ekki.  Nú verður að snúa sér að fjármagnseigendunum, sem neyðarlögin björguðu.  Samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, þá björguðu neyðarlögin um 1.430 milljörðum kr. af innstæðum einstaklinga og fyrirtækja hér á landi.  Samkvæmt töflu 4 hér fyrir neðan, þá telst embættismönnum í viðskiptaráðuneyti til að ef eingöngu innstæður upp að 5,0 m.kr. hefðu verið tryggðar að fullu, þá hefðu tryggðar innstæður numið 555 milljörðum og ótryggðar því um 775 milljörðum.  Hefði tryggingin verið upp að 10 m.kr., þá hefðu tryggðar innstæður numið 732 milljörðum en ótryggðar 697 milljörðum.  Það sem er ennþá merkilegra og má sjá vísbendingu um í töflu 5 fyrir neðan, er að mjög óverulegur hluti innstæðueigenda átti 5 m.kr. eða meira.  Meðal einstaklinga var þessi tala í lok september 2007 16.212 reikningar af 672.419 voru með innstæðu upp á 5 m.kr. eða meira eða einungis 2,4% og hjá fyrirtækjum var hlutfallið 5.472 reikningar af 56.294 eða 9,7%.  Það er því ljóst að hér á landi er verulega efnuð stétt fjármagnseigenda. 

tafla_4_bls_241_bindi_5.jpg

 

tafla_5_bindi_5_-_innstae_ur_092007.jpg

Ef lagður er 10% eignaskattur á innstæður yfir 10 m.kr., bara svo dæmi sé tekið, þá sýnist mér það gefa ríkissjóði um 70 milljarða króna.  Vissulega kæmi það sér illa við einhverja, en 50 milljarða niðurskurður á velferðarkerfinu og skattahækkanir á almenning kemur sér illa við mjög marga.  Ég er alveg meðvitaður um, að þeir sem eiga 10 m.kr. eða meira á bankareikningum urðu líklegast líka fyrir mjög miklu tapi við hrun bankakerfisins.  Staðreyndin er samt sú, að þetta eru þeir sem helst eru aflögufærir og þetta eru líka þeir sem fengu allar sínar innstæður tryggðar, þó svo að áhætta þeirra við að hafa svona háar upphæðir inni á reikningum í bönkunum var alveg sú sama og að eiga hlutafé bönkunum.  Í lagalegum skilningi var þetta tapað fé við fall bankanna, ef ekki hefði komið til ákvæða í neyðarlögunum.  Það sem síðan meira er, er að skattgreiðendur eru að greiða á fjórða hundrað milljarða inn í nýju bankana vegna þess, að þessum innstæðum var bjargað.  Ef ég á að segja eins og er, þá ætti þessi hópur að bjóðast til að greiða tíund til ríkisins.

Jóhanna og Steingrímur lofuðu í febrúar á síðasta ári að slá skjaldborg um heimilin í landinu.  Lítið sést til þeirrar skjaldborgar.  Allar aðgerðir hafa hingað til miðast við að tryggja sem mest og best flæði fjármuna heimilanna til ríkisins og fjármálafyrirtækja, festa eignaupptökuna í sessi, hunsa algjörlega forsendubrest vegna verðtryggðra og gengistryggðra lána og sjá til þess að fólk geti valið milli fjölbreyttra þrotameðferða.  Helsta von heimilanna (og fyrirtækja) hefur verið það sem í fyrstu virtist afar langsótt hugmynd, sem ég kastaði fram hér á þessari síðu í febrúar 2009, þ.e. að gengistrygging væri ólögleg samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur.  Nokkurn veginn á ársafmæli þeirrar færslu féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur, þar sem dómarinn, Áslaug Björgvinsdóttir, tók í einu og öllu undir málflutning Hagsmunasamtaka heimilanna um gengistrygginguna.  Hún var dæmd ólögleg.  30. apríl féll úrskurður í hinum sama héraðsdómi.  Í þetta sinn úrskurðaði Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, að gengistrygging væri ekki bara ólögleg heldur kæmi engin trygging í staðinn fyrir hana.  NBI hf. (Landsbankinn) varð víst svo um dóminn, að honum var ekki einu sinni áfrýjað (a.m.k. hefur hann ekki komið fram á lista hjá Hæstarétti og áfrýjunarfrestur eru útrunninn).  Það ætlar því að vera dómskerfið, sem skýtur upp skjaldborg um heimilin, ekki stjórnvöld.  Eftir stendur þó enn, að Hæstiréttur á eftir að fella sinn dóm og meðan hann er ekki kominn, ætla ég ekki að fagna.  Síðan er það þetta með forsendubrest verðtryggðra lána.  Það mál er óleyst, þó svo að fordæmi séu komin í formi endurupptöku samninga ýmissa verktaka við Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavíkurborg.  Efnahags- og skattanefnd er að skoða málið, en ekkert hefur komið út úr þeirri vinnu enn.  Eina sem Jóhanna og Steingrímur hugsa um, er að mergsjúga heimilin.  Merkileg stjórnkænska það.


mbl.is Skattar munu hækka eitthvað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síðbúnir öskubrandarar frá Danmörku

Ég fékk þessa senda í pósti.  Claus Hjort er fjármálaráðherra Dana.

_skubrandari_1.jpg

_skubrandari_2.jpg


Fylgi Besta flokksins er svar við "Bara tækifærismennska, valdabarátta."

Þetta er góð greining hjá Stefaníu Óskarsdóttur og hvet ég Agnesi Bragadóttur til lesa hana vel.  Agnes er nefnilega með grein í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.  Þar endurspeglast sú hræðsla Sjálfstæðisflokksins að missa völdin, en ekki til klíkubræðra og -systra í pólitíkinni heldur "utangarðsfólks" í stjórnmálum landsins.  Fólks, sem að mati Agnesar, á ekki með að vera að troða sér í sviðsljósið.

(Svo ég klári tilvitnunina, þá er hún frá Stefaníu og er í Styrmi Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, sem svaf á ritstjórastól í allt of mörg ár eða þagði vísvitandi um spillinguna í þjóðfélaginu til að vernda einhver óskilgreind hagsmunaöfl.  En Styrmir segir í bók sinni um skýrslu RNA:

Ég er búinn að fylgjast með þessu í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.

Mér finnst þessi orð Styrmis alveg kostuleg og mætti halda að hann hafi verið einbúi upp í fjöllum öll þessi 50 ár.)

Hún er furðuleg afstaðan sem kemur fram í grein Agnesar. Besti flokkurinn á að hætta við framboð til að rýma fyrir hinum flokkunum, en þeir eiga ekki að hysja upp um sig buxurnar og gera hreint fyrir sínum dyrum. Fattar blessuð konan ekki, að fylgi Besta flokksins hefur nær allt með hina flokkana að gera og mest lítið með Besta flokkinn. Trúverðugleiki fjórflokksins í Reykjavík er enginn. Það leikrit sem lagt var fyrir borgarbúa á þessu kjörtímabili er meira en flestir þola. Tók einhver ábyrgð á því? Nei, ekki einn einasti borgarfulltrúi axlaði ábyrgð á klúðrinu. Björn Ingi hætti vissulega, en það var vegna þess að hann var stunginn í bakið (að hans mati), ekki vegna þess að hann axlaði ábyrgð. Allir oddvitar flokkanna í Reykjavík freistuðu þess að halda sínu sæti. Óskari Bergs var velt og Sóley tók fyrsta sætið hjá VG, en hvorugt gerðist vegna þess að þeir sem voru fyrir öxluðu ábyrgð og drógu sig í hlé. Hanna Birna leiðir ennþá hjá D og Dagur hjá S. Hvaða skilaboð eru þetta til kjósenda? Jú, VIÐ ÆTLUM EKKI AÐ BREYTA NEINU.  VIÐ MEGUM HAGA OKKUR EINS OG VIÐ VILJUM OG ER ALVEG SAMA UM VIRÐINGU BORGARINNAR.

Ég vona innilega að byltingin verði að veruleika í borginni. Sjálfur er ég í Kópavogi og vona líka eftir byltingu þar. Trúverðugleiki fjórflokksins er enginn og hann þarf annað hvort að endurnýja sig algjörlega eða stíga til hliðar. T.d. í Kópavogi: Er það trúverðugt að efsti maður Framsóknar hafi stöðu grunaðs í máli Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogs? Og sama á við þriðja mann hjá Sjálfstæðisflokknum. Nei, krafa fólksins er endurnýjun, ekki meira af því sama.

Það er oft sagt að ekki eigi að gera málin persónuleg.  Þegar kemur að vali fulltrúa kjósenda til að stjórna sveitarfélögum landsins, þá þarf þetta einmitt að vera persónulegt.  Það er nefnilega nær enginn munur á málefnaskrá flokkanna.  Þess vegna snýst þetta um persónur.  Og sá sem skeit í buxurnar og skyldi stykkið eftir í garði íbúanna, hann verður að finna sér nýtt starf.  Svo einfalt er það.  Þetta á líka við um þingmenn.  Kjörnir fulltrúar verða að athuga, að það eru ekki þeirra siðferðisgildi sem ráða ferðinni.  Það eru siðferðisgildi kjósenda sem ráða ferðinni.  Nú er um seinan fyrir Hönnu Birnu, Dag Eggerts, Ómar Stefánsson og Gunnar Birgisson að átta sig á þessu.  Þetta fólk og margir aðrir áttu ekki að gefa kost á sér áfram.  Þetta hefur ekkert með hæfi þeirra og getu til að vinna verkin.  Nei, þetta snýst um að þessir aðilar og heill hellingur til viðbótar eru búnir að tapa trausti almennings.  Það féll á siðferðisprófinu.


mbl.is Vopnlausir stjórnmálaflokkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísak Rafael Jóhannsson 1972 - 2010

Mig hefur í nokkurn tíma langað að minnast gamals nemanda míns og bloggvinar, Ísaks Rafaels Jóhannssonar, en hann lést á Landspítalanum 19. apríl sl.

Ísak gekk inn í fyrsta tímann hjá mér í Iðnskólanum fyrir um 15 árum.  Hann var kominn í tölvunám og ætlaði sér stóra hluti.  Og ekki skorti viljann.  Hann lagði sig alltaf fram við hlutina, þó hann þyrfti oft að leggja meira á sig en margir í kringum hann.  Staðráðinn í því að skilja hlutina og var því óspar á spurningarnar.  Þó tímarnir væru búnir, þá var Ísak ekki hættur og umræður héldu oft áfram fram á gangi.  En spurningar Ísaks sneru ekki bara um tölvur, ritvinnslu og forritun.  Nei, oftar en ekki voru þær um lífspeki, heimspeki, stjórnmál og bara allt sem honum datt í hug.  Þess vegna var aldrei kvöð eða leiðinlegt að ræða við hann, en oft varð ég að biðja hann um að fá að halda umræðunni áfram síðar, þar sem næsti tími var byrjaður.

Eftir að ég hætti hjá Iðnskólanum, þá hitti ég Ísak nokkuð oft á förnum vegi.  Ræddum við þá einatt saman.  Undanfarin ár færðum við þessar samræður líka inn á bloggið, þó lengra hafi verið á milli, þá snerust umræðurnar um þjóðmál, trúmál, hagsmuni heimilanna og Icesave svo eitthvað sé nefnt.  Hann var einn af þeim fyrstu, sem óskaði eftir því að gerast bloggvinur minn, þegar ég byrjaði að blogga í febrúar 2007.  Sólmyrkvinn var bloggheiti hans, sem var held ég meira til marks um hvernig hugur hans var um allt, frekar en að eitthvað væri þungt yfir honum.  A.m.k. var hann alltaf brosandi og glaður, þegar ég talaði við hann, þó ég sé viss um að lífið hafi ekki verið honum dans á rósum.  En nú hefur Sólmyrkvinn runnið sitt skeið (meira að segja búið að loka solmyrkvinn.blog.is) og ég fæ ekki oftar hnyttin tilsvör frá honum eða áhugaverða vangaveltu. 

Ég vil þakka Ísak Rafael fyrir samskiptin síðustu 15 ár eða svo og votta fjölskyldu hans samúð mína.


Forsendubrestur vegna verðtryggingar er um 220 milljarða frá 1.1.2008

Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, er loksins búinn að láta reikna út hvaða upphæð kemur út, ef ætlunin er að leiðrétta verðtryggð lán heimilanna um annars vegar 10% og hins vegar 20%.  Hann lét að vísu bara reikna hvað þetta kostar fyrir hluta lánanna, en það gefur samt góða mynd.  Tölurnar koma fram í svari ráðherra við fyrirspurn Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar.

Samkvæmt svari ráðherra er kostnaðurinn af annars vegar 10% og hins vegar 20% lækkun höfuðstóls verðtryggðra lána sem hér segir:

Lánastofnun

10% lækkun

20% lækkun

Íbúðalánasjóður

57,6

112,5

LÍN

5,8

12,1

VR, LSR og L.sj. hjúkrunarfr.

10,1

20,2

Bankar og sparisjóðir

44

85

Alls

117,5

229,8

(Ég furða mig svo sem á af hverju 20% er ekki sama og tvisvar 10% nema hjá lífeyrissjóðunum.)

Nú skulum við hafa í huga að 10% lækkun er vegna um 11% hækkunar og 20% lækkun er vegna 25% hækkunar.  Þessar tölur sýna því ekki hvað forsendubrestur lánanna hefur kostað lántaka.  Áður en það er reiknað út vil ég bæta við, að 10% og 20% fyrir aðra lífeyrissjóði gerir annars vegar um 8 milljarða og hins vegar 16 milljarða. Heildarupphæðir væru því 125,5 milljarðar og 245,8 milljarðar.

Sá forsendubrestur sem Hagsmunasamtök heimilanna og fleiri hafa barist fyrir að verði leiðréttur er eitthvað um 17 - 18%, þ.e. samtökin vilja afturvirkt þak á verðbætur upp á 4% á ári til 1.1.2008.  Tekið skal fram að samtökin hafa eingöngu krafist þessarar leiðréttinga á íbúðalán, þ.e. lán sem notuð voru til íbúðakaupa eða framkvæmda við húsnæði eða lóðir.  En það skiptir svo sem ekki máli í þessu samhengi.

Aftur að forsendubrestinum.  Seðlabanki Íslands gaf frá mars lokum 2001 til haustmánaða 2008 út verðbólgumarkmið, þar sem stefnt var að því að halda verðbólgu í kringum 2,5% með efri vikmörk upp á 4%.  Hagsmunasamtök heimilanna hafa skilgreint verðbætur umfram 4% vera forsendubrest á verðtryggðum lánasamningum og telja að lántakar eigi ekki að bera þann kostnað sem af þessu hlýst.  Ef tölur ráðherra og viðbót mín eru notað til að reikna út forsendubrestin eins og HH skilgreina hann, þá er upphæðin um 221 milljarður (þ.e. ef 245,8 eru 20%, þá eru 18% 221,2).  Þetta er sam sagt það, sem fjárglæfrir eigenda og stjórnenda bankanna og bitlaus efnahagsstjórnun hefur kostað lántaka verðtryggðra lána til heimilanna síðustu 28 mánuði.

Ég lít ekki á leiðréttingu á forsendubrestinum sem kostnað fyrir lánveitendur.  Það er verið að skila því sem oftekið var.  T.d. er afsökun bankanna engin.  Forverar þeirra sköpuðu ástandið og þeir eru því hreinlega skaðabótaskyldir.

Þessar tölur ráðherra sýna bara svart á hvítu hversu mikilvægt það er að losna við verðtrygginguna af lánum til heimilanna.  Gagnrýnt hefur verið að heimilin hafi tekið gengistryggð lán, þegar tekjur voru í krónum.  Ég tel nákvæmlega sömu rök gilda fyrir því að heimilin taki verðtryggð lán, þegar tekjur þeirra eru óverðtryggðar. 

En telji fólk þessar tölur ógnvænlegar, þá langar mig að birta hér nokkrar í viðbót.  Í töflunni fyrir neðan sýni ég hækkun vísitöluneysluverðs 40 ár aftur í tímann, þ.e. breytinguna frá hverju ári sem nefnt er til janúar á þessu ári.

Ár

Verðbólga

frá jan 1989

241,1%

frá jan 1990

181,6%

frá jan 1991

145,2%

frá jan 1992

122,7%

frá jan 1993

117,4%

frá jan 1994

110,8%

frá jan 1995

107,3%

frá jan 1996

104,0%

frá jan 1997

100,0%

frá jan 1998

95,6%

frá jan 1999

93,1%

frá jan 2000

82,5%

frá jan 2001

76,3%

frá jan 2002

61,1%

frá jan 2003

58,8%

frá jan 2004

55,1%

frá jan 2005

49,2%

frá jan 2006

42,9%

frá jan 2007

33,7%

frá jan 2008

26,4%

frá jan 2009

6,6%

 

Ógnvænlegar tölur ekki satt.  Verðbólga á 21 árs tímabili frá janúar 1989 til janúar í ár var 241%.  (Er nema von að mér tekst aldrei að greiða niður námslánin mín!)  Verðbólga á milli ára hefur farið frá því að vera 1,5% frá janúar 2002 til janúar 2003 og upp í 23,7% fyrsta árið. Í hvert sinn bætast verðbætur ofan á verðbættan höfuðstólinn, þannig að það er ekki bara höfuðstóllinn sem er verðbættur heldur líka verðbæturnar sem höfðu verið lagðar á höfuðstólinn.  Þetta er eilífðarvél, að því virðist, sem býr til peninga fyrir lánveitendur.  Afsökunin er að verið sé að vernda fjármuni lánveitenda, en í reynd er verið að rýra verðmæti í þjóðfélaginu.  Svo má ekki gleyma hvatanum í kerfinu, en hagsmunir lánveitenda (og þá líka þeirra sem veita innlán) byggjast á því að halda verðbólgunni uppi, þar sem þeir fá fjármuni sína verðbætta strax meðan aðrir þurfa að bíða vikur, mánuði og ár eftir því að fá sínar tekjur eða eignir verðbættar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 44
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband