Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Hrunið í Bandaríkjunum íslenskum bönkum að kenna!!!

Það er forvitnilegt að fylgjast með umræðunni á erlendum fréttamiðlum um hrunið í Bandaríkjunum.  Ég rambaði inn á einn þráðinn á FT Alphaville og þar blasti við eftirfarandi athugasemd:

Posted by stocious

Icelandic Banks suspected of shorting Investment Banks in act of vengeance…………….

Hugsanlega kemur það vel á vondan að Lehman Brothers hafi lent í þeim hremmingum sem fyrirtækið er komið í, þar sem fulltrúar þess voru grunaðir um að hafa staðið að baki "atlögunni" að íslenska bankakerfinu síðvetrar, en að einhverjum detti í hug að íslenskir bankar hafi bolmagn til að skortselja Lehman Brothers í gjaldþrot, það er hugmyndaflug í lagi.

Annars telja menn sökina frekar liggja í "nakinni" skortstöðu, en hún felst í því að skortselja verðbréf án þess að hafa fengið bréfin fyrst að láni.  Síðan tekst mönnum ekki að standa skil á bréfunum til kaupenda.  SEC hefur sent frá sér fréttatilkynningu (sjá hér) þar sem tilkynnt er að "nakinni" skortsölu í öllum almenningshlutafélögum, þar með öllum helstu fjármálafyrirtækjum vestanhafs, er sett þau takmörk að afhenda skal kaupanda bréfin fyrir lok þriðja viðskiptadags frá því að viðskipti eiga sér stað.

 


Innviðir bandaríska hagkerfisins að molna?

Maður getur ekki annað en velt því fyrir sér um leið og maður fylgist með atganginum fyrir vestan haf, hvort innviðir bandaríska hagkerfisins séu að molna.  Fjármálafyrirtækin falla eitt af öðru, stærsta tryggingafyrirtæki heims er bjargað úr snörunni, Ford og General Motors hafa óskað eftir ríkisaðstoð og stóru flugfélögin standa á brauðfótum.  Sama hvert litið er, alls staðar virðast stór og áður stöndug fyrirtæki vera í miklum vanda.  Allt er þetta afleiðing af fjármálakreppunni sem er að ganga yfir samhliða hinni miklu hækkun olíuverðs sem varð á fyrri hluta þessa árs. 

Fallið hefur verið hátt, en að mínu mati, hefur það ekki verið óvænt.  Ég hef lengi haldið því á lofti að þetta væri fyrirsjáanlegt.  Raunar skrifaði ég færslu um málið fyrir rúmu ári (sjá Láglaunalandið Bandaríkin), þar sem ég benti á nokkur atriði sem ég taldi bera vott um veika stöðu Bandaríkjanna:

  1. Lág laun
  2. Lágt vöruverð
  3. Lágt gengi bandaríska dalsins
  4. Mikill viðskiptahalli
  5. Mikill fjárlagahalli
  6. Vaxandi atvinnuleysi
  7. Getuleysi þeirra til að takast á við afleiðingar fellibylsins Katrínar

Af þessum atriðum hefur aðeins eitt þeirra lagast, þ.e. gengi USD hefur styrkst mikið síðustu vikurnar. 

Í færslunni minni taldi ég, eins og fyrirsögn færslunnar gaf til kynna, að lág laun væru stærsti vandinn.  Lág laun gerðu það að verkum að fólk gæti ekki greitt af lánum og hefði ekki efni á neinu umfram brýnustu nauðsynjar.  Ég er svo sem ekki einn um að halda því fram að efnalítið fólk sé ógn við stöðugleika.  En að þetta skyldi snúast upp í þann óskapnað, sem nú ríður yfir, var kannski meira en búast mátti við.

Auðvitað snýst þetta ekki bara um að fullmargir Bandaríkjamenn geti ekki staðið í skilum á lánum sínum.  Flækjan er meiri en svo.  Í fyrsta lagi átti stór hluti húsnæðiskaupenda aldrei að fá þau lán, sem síðar lentu í vanskilum.  Þar má beina spjótunum að gráðugum sölumönnum fasteigna og slakri útlánastefnu húsnæðislánafyrirtækja.  Síðan áttu fjármálafyrirtæki aldrei að geta selt fjármálavafninga með þessum lánum sem AAA pappíra.  Þar liggur sökin að stórum hluta hjá matsfyrirtækjunum sem brugðust gjörsamlega í hlutverki sínu, en ekki má líta framhjá því, að þau voru undir miklum þrýstingi í kjölfar breyttra reglna um áhættustýringu hjá fjármálafyrirtækjum, svo kallaðar BASEL II reglur. Loks áttu önnur fjármálafyrirtæki aldrei að treysta þessum pappírum í blindni vitandi hvað stóð að baki þeim, þar sem sagan hafði sýnt að stærra hlutfall undirmálslána lenti í vanskilum en hefðbundinna húsnæðislána.  Þar brást áhættustýring þessara fyrirtækja, en þau treystu gagnrýnilaust á einkunnir matsfyrirtækjanna.  Ofan á þetta bættist síðan gríðarleg hækkun olíuverðs, sem jók rekstrarkostnað flugfélaga um tugi prósenta og varð til þess að stöðutákn Bandaríkjamanna, SUV bílinn eða pick-upinn, hætti að seljast.

Líklegast er eitt atriði í viðbót, sem rétt er að tala um.  Hér á landi hefur kross-eignarhald fyrirtækja verið mikið gagnrýnt með réttu.  Við lestur frétta og fréttaskýringa um vanda stóru fyrirtækjanna í Bandaríkjunum, hefur ítrekað komið fram að menn óttast að fall ákveðinna lykilaðila gæti komið af stað keðjuverkun.  Ástæðan er að þessi fyrirtæki eiga verðbréf hvert hjá öðru.  Það hefur verið búið til kross-eignarhald í verðbréfum, skuldabréfum, afleiðum og öðrum fjármálavafningum.  Rofni einn hlekkur í keðjunni, þá eru miklar líkur á að allt falli. Þess vegna varð að bjarga Bear Sterns, þess vegna varð að bjarga Fannie May og Freddie Mac og þess vegna varð að bjarga AIG.  Vissulega var Lehman Brothers leyft að fara í greiðslustöðvun, en það var líklega bara gert til að auðvelda Barclays yfirtöku á rekstrarvæna hluta fyrirtækisins.  Annað í rekstri fyrirtækisins var (að mati fréttaskýrenda) meira og minna verðlaust.  Sama á við um Merryl Lynch.  Bank of America keypti fyrirtækið fyrir slikk og þar með var hægt að núllstilla rekstur þess með lágmarks tapi og án þess að rugga bátnum of mikið.  Hvort allar þessar aðgerðir komi í veg fyrir að keðjuverkunin fari í gang mun koma í ljós á næstu dögum eða vikum.  Vonandi munu menn læra það af þessu, að einfaldara er betra.  Vonandi mun Bank of International Settlements byggja það inn í nýja útgáfu af BASEL reglunum, að fjármálavafningar í dúr við þá sem sett hafa allt á annan endann í fjármálaheiminum undanfarið ár, geta aldrei aftur fengið AAA einkunn.


Til hamingju, Björn Óli

Minn fyrrum bekkjarfélagi og samstúdent Björn Óli Östrup Hauksson hefur verið ráðinn forstjóri Keflavíkurflugvallar ohf.  Hann er búinn að fara ýmsa króka á leiðinni í þetta starf.  Verkefni á vegum Sameinuðu þjóðanna í Írak og síðar Kosovo, sveitarstjóri á Tálknarfirði og eitt og annað.  Alþjóðaflugvöllur þarf alþjóðlegan einstakling og þar er Björn Óli alveg kjörinn.  Reynslan frá starfinu við Kosovo flugvöll ættu að nýtast honum vel.

Til hamingju, Björn Óli og farnist þér vel í starfi.


mbl.is Nýr forstjóri Keflavíkurflugvallar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sökudólgurinn fundinn! Er það?

Jæja, nú er leitin af sökudólginum hafin og menn ætla að einblína á afleiðurnar.  En eru afleiðurnar ekki saklausar í sjálfu sér meðan menn skilja eðli þeirra og afleiðingar.  Er það ekki miklu frekur vandamálið, að menn bjuggu til svo miklar flækjur að enginn vissi í raun hvaða verðmæti stóðu á bak við flækjuna.  Þegar einhverjum tókst að búa til pening úr svona flækju, þá reyndu aðrir að búa til ennþá meiri flækju.  Að lokum höfðu menn ekki hugmynd um hvort flækjan var í plús eða mínus.  Þeir einstaklingar sem sáu um áhættustjórnun hjá fjármálafyrirtækjunum féllu á prófinu.

Undirmálslánavafningarnir eru skýrasta dæmið um þetta.  Menn hentu þar saman alls konar lánum með mismunandi áhættuvægi til þess eins að rugla kaupanda vafningsins.  Kaldhæðnin í þessu var síðan að sá aðili, sem átti að meta þessa vafninga, þ.e. matsfyrirtækin, tók þátt í því að blekkja kaupendurna með því að ráðleggja seljandanum um að hvernig væri hægt að gera vafasama pappíra minna vafasama. 

Það er eins og menn hafi gleymt þeirri grundvallarhugsun í áhættustjórnun, að maður byggir ekki örugga byggingu á undirstöðu þar sem sumir hlutar hennar eru í lagi og aðrir í molum. Kannski er þessi samlíking ekki alveg sanngjörn, þar sem flest bendir til þess að grunnvarningurinn hafi verið traustur, þ.e. það sem við getum kallað "frum-afleiður".  Vandamálið er því líklega frekar eins og með World Trade Center.   "Árás" á undirstöðurnar var hrundið, en með "árás" ofar í vafningakeðjunni, þá tókst að koma af stað keðjuverkun sem varð til þess að allt hrundi.  (Ég nota "árás", þó alsendis sé óvíst að nokkuð hafi verið um árás að ræða.  Frekar ætti að tala um galla eða svikna vöru.)

Matsfyrirtæki hafa þegið háar þóknanir fyrir að meta svona vafninga í eignasöfnum fyrirtækja.  Það er alveg ljóst í mínum huga að ábyrgð þeirra er mikil.  Raunar hef ég áður gengið svo langt að segja að þau hafi ekki verið starfi sínu vaxin.  (Fyrir utan að sýna gróflega vanhæfni með því skilja ekki á milli ólíkra starfsþátta, þ.e. ráðgjafar, sölu og mats.)  Það tekur því kannski ekki að hegna matsfyrirtækjunum fyrir afglöp sín. Einhver verður að halda hlutverki þeirra áfram og það er líklegast alveg eins gott að þessi þrjú fyrirtæki haldi því áfram, eins og að þau séu gerð gjaldþrota og ný matsfyrirtæki rísi úr ösku þeirra. Það yrði hvort eð er sama fólkið sem færi til starfa hjá hinum nýju fyrirtækjum.  (Innihaldið er það sama, þó skipt sé um umbúðir.)

Það er mín skoðun, að ef matsfyrirtækin hefðu staðið sig í stykkinu, þá hefðu þau aldrei samþykkt sífellt flóknari afleiðusamninga og vafninga.  Þau hefðu lækkað slíka pappíra í einkunn eftir því sem flækjustig þeirra hefði aukist.  Enn og aftur er ég bara að líta á þetta út frá grundvallarreglu áhættustjórnunar, en þar er ein sem segir, að eftir því sem fleiri hreyfanlegir hlutir eru í vél, þá aukast líkurnar á því að hún bili.  Fleiri umbúðir og þykkari kassi breyta því ekki neitt.  Það er mechanisminn sem ræður því hvort bilun verður.  Þetta á líka við um fjármálavafninga.  Það er því alveg sama hvað menn verða duglegir að finna vörur og þjónustur sem klikkuðu, sbr. fréttaskýring mbl.is, þetta snýst allt um áhættustjórnun og hún klikkaði.  Hún klikkaði m.a. vegna þess að menn treystu matsfyrirtækjunum og ekki síður vegna þess að menn skildu ekki hvað þeir voru með í höndunum. Áhættulíkönin gefa eingöngu rétta niðurstöðu, ef inn í þau fara réttar upplýsingar og stillingar þeirra eru réttar.  Hér brást greinilega þetta tvennt, þ.e. einkunnir matsfyrirtækjanna voru rangar og stillingar sem endurspegla áttu stigmögnun vandans virðast hafa verið rangar.  Afleiðurnar sjálfar gerðu ekkert af sér.  Að kenna þeim um, er eins og að kenna hraðskreiðum bíl um að maður hafi verið tekinn fyrir of hraðan akstur.  Það var áhættustjórnunin sem brást vegna þess að treyst var í blindni á matsfyrirtækin.  Rubbish in - rubbish out.  Svo einfalt er það.


mbl.is Fréttaskýring: Afleiðurnar undirrót bankahrunsins?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Getur einhver útskýrt fyrir mér

Um helgina var ákveðið að Lehman Brothers yrði ekki bjargað og fyrirtækið færi í gjaldþrot, Merryll Lynch var keypt á brunaútsölu, AIG leitar eftir neyðarláni til að forða sér frá gjaldþroti og Seðlabanki Bandaríkjanna segist ekki geta bjargað fleirum.  Á sama tíma dælir Seðlabanki Evrópu út peningum.  Getur einhver skýrt það út fyrir mér, hvers vegna hækkar USD gagnvart öllum helstu gjaldmiðlum?  Ætti þetta ekki að vera öfugt?  Ef undirstöður bandaríska fjármálakerfisins eru smátt og smátt að molna, hefði maður haldið að gjaldmiðillinn ætti að veikjast, þar sem verðmætin eru að gufa upp, skuldatryggingar lána verða ekki borgaðar o.s.frv.  En mér hefur svo sem fundist áður að markaðarnir hagi sér ekki í samræmi við hagfræðikenningar og finnst þeir alls ekki gera það núna.
mbl.is Krónan veikist um 1,60%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gömlu bragði beitt - kenna hinum um

Það er ekki í lagi með þá forráðamenn ríkja á Vesturlöndum sem halda því fram að ógn stafi af hernaði Rússa.  Ef það er virkilega það sem menn halda, af hverju dettur mönnum þá í hug að storka Rússum við hvert tækifæri?  Eldflaugavarnir Bandaríkjamanna í Austur-Evrópu er ekkert annað en tilraun til að raska hernaðarlegu jafnvægi.  Héldu menn virkilega að Rússar stæðu hljóðir hjá?

Heiminum stendur í dag mest ógn af hernaðarbrölti Vesturlanda.  Herir NATO hafa farið án umboðs alþjóðasamfélagsins inn í Afganistan og ýmsir herir einstakra landa hafa á sama hátt farið umboðslausir inn í Írak.  Bandaríkjamenn ætla að byggja upp eldflaugavarnir í Austur-Evrópu til að verjast hugsanlegum árásum frá Íran!  Af hverju fá þeir ekki að setja slíkar varnir upp á Indlandi, ef Írönum dytti í hug að skjóta flaugunum í þá áttina?  Bandaríkin hafa líka róið að því öllum árum að fjölga sem mest má í NATO.  Og hver er tilgangurinn?  Númer eitt, tvö og þrjú að einangra Rússa vegna þess að Bandaríkjamenn eru búnir átta sig á því að Rússland er orðið efnahagslegt stórveldi.  Það er þetta þrennt sem er mest ógn við heimsfriðinn í dag, ekki að Rússar sitji ekki hljóðir hjá borði.

Íslendingum stendur engin ógn af Rússum.  Íslendingum stendur ógn af endalausum ögrunum Bandaríkjanna og "leppríkja" þeirra í NATO gagnvart Rússum sem munu á endanum verða til þess að til átaka mun koma.  Besta trygging fyrir heimsfriði er að Bandaríkin og fylgiþjóðir þeirra hætti þessu hernaðarbrölti og hætti að ögra Rússum við hvert tækifæri.  Hætti að troða sínum siðferðisgildum upp á þjóðir um allan heim án þess að þær hafi beðið um það.  Hætti að ákveða hvaða stjórnarfar eigi að vera við líði í ríkjum sem hafa kosið aðrar lausnir.  Hætti að bjarga heiminum frá ímynduðum hættum.

Okkur Íslendingum stendur mun meiri ógn af erlendum glæpagengjum, en rússneskum herafla.  Okkur stendur meiri ógn af óstjórn í efnahagsmálum, ónýtri peningamálastefnu og verðlausum gjaldmiðli, en því að fáeinar rússneskar herflugvélar fljúgi um lofthelgi okkar.  Við eigum ekkert sökótt við Rússa og þeir eiga ekkert sökótt við okkur.  Við þurfum því ekki að óttast neitt af hálfu Rússa.

Sökin í þessu máli er ekki Rússa.  Þeir sýndu viðbrögð við endalausum ögrunum Bandaríkjamanna og "leppríkja" þeirra (lesist Georgía).  Viðbrögð sem hingað til hafa verið mjög hógvær og mun hógværari en viðbrögð Bandaríkjamanna þegar þeim var "ögrað" af Sadam Hussein (sem reyndist ekki ögrun heldur sannleikur).  Það má ekki gleymast í máli Suður-Ossetíu og Abkhasíu að það var Georgíuher (búinn nýjustu vopnum frá bandarískum hernaðaryfirvöldum) sem fór með hervaldi gegn löndum sínum í þessum héruðum.  Héruðum, sem höfðu notið sjálfsstjórnar í hátt í tvo áratugi og voru engin ógn við stöðugleika á svæðinu. Héldu menn virkilega að Rússar tækju slíku þegjandi og hljóðalaust.  Þarna var forseti Georgíu að reyna að slá pólitískar keilur og um leið hjálpa repúblikönum í kosningabaráttunni vegna forsetakosninga í Bandaríkjunum. Það má heldur ekki gleymast að Vesturlönd höfðu í andstöðu við vilja Sameinuðu þjóðanna, samþykkt sjálfstæði Kosovo.  Hver er þjóðréttarlegur munurinn á Suður-Ossetíu og Abkhasíu annars vegar og Kosovo hins vegar?  Enginn.  Nákvæmlega enginn. Öll svæðin höfðu verið sjálfstjórnarsvæði innan sinna landa.  Öll svæðin eru byggð hópum sem eru að miklu leiti af öðrum uppruna en aðrir íbúar þessara landa.  Öll svæðin hafa átt í erfiðum samskiptum við ríkjandi stjórnvöld hvert í sínu landi.  Eini munurinn var að Kosovo-Albanar reyndu að fá aðskilnað með hervaldi sem snerist upp í borgarastríð, en á hinum tveimur svæðunum var búinn að ríkja friður og jafnvægi þar til forseti Georgíu fékk vopn frá Bandaríkjunum til að efna kosningaloforð!

Síðan má ekki gleyma því, að ráðamenn í Washington hafa undanfarin ár reynt allt hvað þeir geta til að færa áhrifasvæði sitt lengra inn í Austur-Evrópu.  Eftir lok kaldastríðsins hafði þar myndast nokkuð hlutlaust svæði, sem hvorki var undir áhrifum Rússa né Bandaríkjanna/NATO.  Smátt og smátt hefur ríkjum i NATO verið fjölgað, en um leið hefur Rússum verið gert það ljóst, að þeir fái ekki inngöngu.  Hvað gæti stuðlað betur að friði, en að hleypa Rússum inn í NATO?  Þar með væri ógninni sem sumum virðist steðja af  Rússum, eytt eins og hendi væri veifað.  Að segja við Rússa, að þeir megi ekki vera með, en um leið segja við alla fyrrverandi bandamenn Rússa að þeir séu velkomnir, er eins og að bjóða öllum krökkunum nema einum í bekkjarafmæli.  Ég skil ekki svona lagað og get ómögulega séð að það sé gert til að koma á jafnvægi og friði í heiminum.  Þetta er miklu fremur gert til að auka ójafnvægið og aukið ójafnvægi eykur líkur á ófriði.  Þetta er gamaldags kaldastríðs hugsunargangur sem er engum til gagns.


mbl.is Enn stafar ógn af hernaði Rússa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilfinningamúrar koma í veg fyrir samninga

Að mínu viti eru það fyrst og fremst einhverjir ímyndaðir múrar/glerþök sem koma í veg fyrir að þessir samningar náist.  Ég held að allir sæmilega vitibornir einstaklingar sjái hvílíkt réttlæti felst í kröfum ljósmæðra.  Þær eru eingöngu að óska eftir því að þær fái viðurkenningu á menntun sinni og ábyrgð.

En þessa múra/glerþök er hægt að rjúfa.  Það veit ég af eigin reynslu.

Ég sat einu sinni á móti Guðmundi Guðmundssyni (var kallaður Litli-Jaki sökum ætternis), sem þá var varamaður Gunnars Björnssonar, og var að semja fyrir hönd aðstoðarstjórnenda í framhaldsskólum.  Við vorum með stóran hóp velmenntaðra einstaklinga með mikla ábyrgð og vildum fá fram ákveðna leiðréttingu.  Ég stóð fastur á mínu (sem var að hækka grunnlaun aðstoðarskólameistara í 170 þús. á mánuði við upphaf samningstímans) og Guðmund Guðmundsson var eitthvað farið að bresta þolinmæðina.  Hann ræskti sig aðeins og sagði svo:  "Helvítið, þá verðið þið með hærra kaup en ég."  Ég sagðist ekki hafa hugmynd um hvað hann hefði í kaup, enda snerist réttindabarátta minna umbjóðenda ekki um það.

Ég hef dálítið á tilfinningunni að barátta ljósmæðra, sem ég styð heilshugar, snúist um þessa tilfinningalegu múra, sem samninganefndin og þar með ráðherra, hafa sett í kringum kjör tiltekinna stétta hjá ríkinu.  Mér tókst að kýla í gegnum slíkan múr eða glerþak og í lok samningstímans, þá fékk aðstoðarskólameistari Iðnskólans í Reykjavík rúmlega 200 þúsund í grunnlaun.  Hann var fyrstur allra sem þáði laun samkvæmt kjarasamningi kennara til að rjúfa þennan að því virtist óyfirstíganlega múr.  Samningarnir voru undirritaðir án verkfalls í júní 1997 og 200 þús. kr. grunnlaunin urðu að veruleika í janúar 2000. Flestir aðstoðarstjórnendur fengu á bilinu 30 - 46% kauphækkun á samningstímanum.  Þetta reyndist síðasta verk mitt sem aðstoðarstjórnandi, þar sem nokkrum dögum síðar hóf ég störf á nýjum vinnustað sem borgaði margfalt betur.

Guðlaug, Unnur og þið allar í samninganefnd ljósmæðra:  Standið fastar á ykkar, þið eigið það skilið.  Það er skandall, að sum háskólamenntun sé metin hærra til launa en önnur.  Og það er ennþá meiri skandall, að ráðherra úr ríkisstjórn Íslands skuli hafa beðið ykkur um að bíða með kröfur ykkar svo ríkisstjórnin gæti slegið sig til riddara einhvern tímann síðar með lögum um afnám kynbundins launamunar.

 


mbl.is Ljósmæður: Uppsagnir löglegar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ákvörðunin kemur ekki á óvart

Ákvörðun Seðlabankans um að breyta ekki stýrivöxtum kemur ekki á óvart.  Ég spáði þessu í færslu minni í sumar (sjá Hvað þurfa raunstýrivextir að vera háir?) og fyrir hálfum mánuði (sjá Glitnir breytir stýrivaxtaspá).  Í síðari færslunni færði ég rök fyrir því að raunstýrivextir væru í raun hálfu prósentu hærri en mismunurinn á verðbólgu og stýrivöxtum gæfi til kynna, þar sem 12 mánaða verðbólgutölur næðu í raun og veru yfir 54 vikur en ekki 52 eins og þær ættu að mæla.  Ársverðbólgan væri því í raun og veru 14%, ekki 14,5% eins og Hagstofan segir.

En aftur að ákvörðun Seðlabanka.  Miðað við upplýsingar sem ég hef safnað um stýrivexti og verðbólgu frá 1994 til dagsins í dag, þá hafa raunstýrivextir (þ.e. munurinn á stýrivöxtum og verðbólgu) aðeins á einu tímabili farið niður fyrir 2%.  Þetta gerðist frá nóvember 2001 fram að vaxtaákvörðun í apríl 2002.  Ýmislegt er líkt með þessu tímabili og núverandi aðstæðum, þ.e. þá eins og nú varð veruleg, skyndileg lækkun krónunnar.  Í báðum tilfellum hækkaði gengisvísitalan snöggt um 30 punkta og sveig síðan um 10-15 í viðbót.  Í báðum tilfellum hefur gengisvísitalan náð tímabundnu jafnvægi langt fyrir ofan gamla jafnvægið.  Í báðum tilfellum hefur fylgt mikil verðbólga. Og í báðum tilfellum hafði Seðlabankinn lækkað stýrivexti talsvert nokkrum mánuðum áður en krónan féll.  Lýkur þar samanburðinum.  En ef við getum notað fortíðina til að spá fyrir um framtíðina, þá gæti þrennt gerst á næstu mánuðum:

  1. Verðbólgan lækkar hratt frá janúar 2009 fram í júlí
  2. Stýrivextir lækka hratt allt næsta ár
  3. Krónan styrkist verulega frá nóvember 2008 fram í aprí/maí 2009
Greinendur eru nokkuð sammála um að atriði 1 og 2 eiga eftir að ganga eftir, en þetta með styrkingu krónunnar er í meiri óvissu.  Ekki það, að krónan mun örugglega styrkjast.  Spurningin er bara hvenær það styrkingarferli hefst og hve mikið hún muni styrkjast.  Ef aftur er leitað til sögunnar, þá tók það krónuna síðast sjö mánuði að ná lægstu stöðu.  Það tók krónuna síðan 6 mánuði að vinna til baka helminginn af veikingunni.  Gerist þetta líka núna, þá þurfum við í fyrsta lagi að bíða fram í október eftir að sjá toppinn á gengisvísitölunni, sem gæti þá verið í 175 eða svo, og styrkingin verður varla meiri en svo að gengisvísitalan í apríl/maí 2009 verður eitthvað á bilinu 145 til 150.  Hafi toppinum aftur verið náð í gær, þegar gengisvísitalan skreið tímabundið upp fyrir 170, þá gætum við verið að horfa á gengisvísitölu upp á 140 - 145 í apríl/maí á næsta ári.  En eins og sagt er um ávöxtun:  Ávöxtun í fortíð tryggir ekki sambærilega ávöxtun í framtíð.  Hún getur bara gefið vísbendingar um þróunina.  Það sama á við um gengið og verðbólguna.  Málið er bara, að ótrúlega margt er líkt í hegðun gengis og verðbólgu síðustu mánuði og var á sama tíma árs 2001.
mbl.is Stýrivextir áfram 15,5%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Danir ættu að líta sér nær

Ýmsir sjálfskipaðir danskir spekingar hafa ruðst fram á völlinn undanfarin 2-3 ár og borið á borð alls konar bölsýnisspár um íslenskt efnahagslíf.  Hugsanlega eiga einhverjar þeirra eftir að rætast, en dönsk fórnarlömb núverandi fjármálakreppu eru þegar orðin mun meira áberandi en þau íslensku.  Um daginn var það Roskilde Bank og lítur út fyrir að einhverjir fleiri bankar og sparisjóðir fylgi.  Í dag eru tvær fréttir.  Önnur er þessi um að Stones Invest hafi verið úrskurðað gjaldþrot og hin um að Skype auðjöfurinn Morten Lund sé orðinn blankur.  Við höfum svo sem heyrt ýmsar sögusagnir um að hinir og þessi íslenski "fyrrum milljarðamæringar" eigi vart fyrir salti í grautinn, en það hafa ennþá bara verið sögusagnir.  Þrátt fyrir að fjölmargir fjárfestar og bankar hafi staðið höllum fæti, þá hefur enginn ennþá verið lýstur gjaldþrota eða þurft neyðarbjörgun frá Seðlabankanum.

Mér sýnist af þessu, að dönsku spekingarnir hefðu betur litið sér nær, þó svo að gagnrýni þeirra 2006 hafi nú hugsanlega afstýrt því að ástandið væri ennþá verra hér á landi en það í raun og veru er.  Svo er náttúrulega hitt, að við Íslendingar eru algjörir snillingar í að halda andlitinu, þannig að hugsanlega eru margir veikir blettir undir tiltölulega sléttu yfirborðinu.

Ég tek það fram, að ég er ekki að gleyma Sparisjóði Mýrasýslu, en honum var bjargað án aðkomu Seðlabankans.  Auðvitað hefur Baugur tapað háum upphæðum á Nyhedsavisen, en félagið virðist hafa þolað það tap.


mbl.is Stones Invest úrskurðað gjaldþrota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hann vildi Meistaradeildina frekar en Stoke og fékk hvorugt

Hyypiä er að vonum sár, þar sem helsta ástæðan fyrir því að hann sagði nei við Stoke, var að hann ætlaði að taka þátt í Meistaradeildinni.  Þetta sýnir að þegar menn velja að vera lítill fiskur í stórri tjörn, frekar en stór fiskur í lítilli, þá týnist maður stundum eða er gleyptur af þeim stærri.  Hann hélt kannski að hann væri stærra númer hjá Liverpool, en nú er Rafa búinn að af sanna það.

Annars sagði fyrrum samstarfsfélagi minn, Frímann Ingi Helgason, fyrrverandi áfangastjóri Iðnskólans í Reykjavík, þegar hann var spurður af hverju hann hefði ekki sótt um skólameistarastöðu sem auglýst var:  "Hvort heldur þú að sé betra að vera 1. stýrimaður á stóru skipi eða skipstjóri á litlu?"  Svarið fólst náttúrulega í spurningunni, þ.e. honum fannst hann hafa meiri áhrif sem áfangastjóri Iðnskólans í Reykjavík en sem skólameistari hins ónefnda skóla. 


mbl.is Hyypiä tvístígandi varðandi framtíðina hjá Liverpool
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 7
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 1678156

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 44
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband