Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Viðsnúningurinn hafinn?

Seðlabankinn er búinn að ákveða að halda stýrivöxtum óbreyttum.  Það þýðir að bankinn ætlar ekki að viðhalda því raunstýrivaxtastigi sem ríkt hefur undanfarin ár og er því í raun að lækka stýrivextina umtalsvert.  Þetta verður að skoðast sem yfirlýsing um vilja Seðlabankans að koma hjólum efnahagslífsins aftur í gang.

Raunstýrivextir, þ.e. stýrivextir umfram verðbólgu, standa núna í 3,7% og munu líklegast lækka með birtingu verðbólgutalna á næstu dögum niður fyrir 3% og jafnvel niður fyrir 2%.   Þetta er í samræmi við þá raunstýrivexti sem voru hér á eina tímabilinu sem hægt er að segja að hafi verið jafnvægi á hagkerfinu frá því að verðbólgumarkmiðin voru tekin upp, þ.e. frá nóvember 2002 til apríl 2004.  Á þessu tímabili var 12 mánaðaverðbólga oftast undir viðmiðunarmörkum Seðlabankans og stýrivextir stóðu í 5,3% (sem er nær því að vera um 5% miðað við breytta framsetningu stýrivaxta).  Raunstýrivextir mældust á þessum tíma frá 1,83% upp í 3,74% (sem síðan má lækka um 0,3% til að endurspegla breytta framsetningu stýrivaxtanna).  Hafa skal í huga, að frá desember 2004 hafa raunstýrivextir ekki verið undir fjórum prósentum og fóru hæst í 9,85% í ágúst í fyrra á sama tíma og verðbólga mældist 3,45%.

Ætli Seðlabankinn að halda þessu raunstigi stýrivaxta, þá gæti hann þurft að hækka þá við vaxtaákvörðun í byrjun júlí og halda þeim yfir 15% út árið.  Á hinn bóginn gæti Seðlabankinn litið til vísitölu breytinga milli mánaða og sagt sem svo, að fyrst að það dregur úr hækkun milli mánaða, þá hafi myndast tækifæri til að lækka stýrivextina.  Verðbólgumælingar næstu 6 - 7 mánuði munu hvort eð er að mestu endurspegla það skot sem er að eiga sér stað um þessar mundir og gengur hjá á nokkrum vikum. Það er því tilgangslaust að nota háa stýrivexti til að keyra niður verðbólgu sem þegar er í niðursveiflu. 


mbl.is Stýrivextir áfram 15,50%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætli þetta sé það eina sem Moody's hefur að óttast?

Mér kæmi ekki á óvart, þó fleiri villur leyndust í forritum matsfyrirtækjanna.  Ég hef, t.d., oft lýst undrun minni á því hvernig þeim tókst að meta fjármálavafninga með undirmálslánum til jafns við bandarísk ríkisskuldabréf (T-Bonds).  Þar var á ferðinni einhvert kukl, herfileg reikniskekkja eða glæpsamlegt athæfi. 

Ég hef heyrt að einhver fjármálafyrirtæki ætli að sækja skaða sinn vegna undirmálslánanna til matsfyrirtækjanna.  Erum við þar að tala um hundruð milljarða dollara, sem ég efast einhvern veginn að matsfyrirtækin eigi fyrir.  Það kæmi því ekki á óvart, að gengi hlutabréfa þeirra lækki ennþá meira á næstu vikum og mánuðum og endi síðan á svipuðum stað og Bear and Sterns.


mbl.is Gengi bréfa Moody's hrapar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölgar brotum við hert eftirlit - ótrúleg rökvilla

Hún er kostuleg fullyrðingin sem sett er fram í þessari frétt um afbrotatölfræði lögreglunnar:

Hegningarlagabrotum fækkaði í apríl miðað við sama mánuð í fyrra en umferðalagabrotum fjölgaði. Rekja má fjölgunina að miklu leyti til hraðakstursmyndavéla.

Hvernig hafa menn hugmynd um það hvort hegningarlagabrotum hafi fjölgað eða fækkað?  Eru einhverjir að skoða öll brot á hegningarlögum, hvort sem kært er vegna þeirra eða ekki?  Hið rétta er að kærum/skýrslum/tilkynningum vegna meintra hegningarlagabrota fækkaði í apríl í ár miðað við apríl í fyrra.  Það er í fyrsta lagi dómstóla að ákveða hvort um brot hafi verið að ræða og í öðru lagi þá nær afbrotatölfræðin bara yfir þau atvik sem hafi verið tilkynnt til lögreglu.

Síðan þetta með umferðarlagabrotin.  Ég fjallaði um nokkurn veginn sams konar frétt á bloggi mínu 18. september í fyrra.  Hvernig dettur mönnum í hug að umferðarlagabrotum fjölgi við hert eftirlit?  Í fyrra voru eftirlitsmyndavélarnar í Hvalfjarðargöngunum og á höfuðborgarsvæðinu helsti sökudólgar fjölgunarinnar og nú halda þær áfram að fjölga brotum.  Er ekki eitthvað öfugsnúið við þetta?  Aftur snýst þetta um kærur/sektir vegna meintra umferðalagabrota, því ég er alveg sannfærður um að áður en myndavélarnar voru settar upp, þá keyrðu menn líka of hratt.

Ef fylgt er rökhugsun fréttarinnar, þá er best að hætta öllu umferðareftirliti, þar sem eftirlitið er (samkvæmt fréttinni) aðalástæða umferðarlagabrotanna.  Ég hélt að þessu væri öfugt, þ.e. að hert eftirlit fækkaði brotunum.

Hér kemur svo fréttin í heild, ef Mbl.is myndi nú leiðrétta rökvilluna.

Innlent | mbl.is | 21.5.2008 | 14:27

Hegningarlagabrotum fækkar milli ára

Hegningarlagabrotum fækkaði í apríl miðað við sama mánuð í fyrra en umferðalagabrotum fjölgaði.  Rekja má fjölgunina að miklu leyti til hraðakstursmyndavéla. Fíkniefnabrot voru 22% færri en í apríl í fyrra. Þetta kemur fram í afbrotatölfræði ríkislögreglustjóra fyrir aprílmánuð.

Líkamsárásir að næturlagi en hraðakstur um miðjan dag

Samkvæmt málaskrá lögreglunnar voru flestar líkamsárásir framdar að næturlagi í apríl, eða tæp 60%. Flest hraðakstursbrot voru framin að degi til, milli hádegis og sex síðdegis en eignaspjöll dreifðust hins vegar frekar jafnt yfir sólarhringinn.

Þrjár líkamsmeiðingar á dag

Skráð voru 4363 hraðakstursbrot sem er talsverð fjölgun frá því í apríl síðustu tvö ár. Þjófnaðarbrot og eignaspjöll voru einnig fleiri en síðustu tvö ár. Þá voru 169 innbrot tilkynnt lögreglu sem jafngildir tæplega 6 innbrotum á dag og 97 líkamsmeiðingar sem jafngildir um þremur slíkum brotum á dag. Áfengislagabrot voru 44% færri í ár en í fyrra og það sama átti við um akstur gegn rauðu ljósi.

Skýrslan í heild 

 


mbl.is Hegningarlagabrotum fækkar milli ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Efnahagskreppan - Fyrirsjánleg eða ekki?

Það var haft eftir Geir H. Haarde og Davíð Oddssyni um daginn að efnahagskreppan sem dunið hefur yfir þjóðina í kjölfar alþjóðlegu bankakreppunnar hafi ekki verið fyrirséð.  Helstu rökin virðast vera að þar sem lausafjárkreppan hafi ekki verið fyrirséð, hafi allt annað einnig verið óvænt.  Þetta er nokkuð merkileg staðhæfing í ljósi þess, að eftirfarandi hefur lengi verið vitað:

  1. Háir stýrivextir, vaxtaskiptasamningar og Jöklabréf hafa haldið uppi gengi íslensku krónunnar í fjölmörg ár.
  2. Eigið fé íslenskra fjármálafyrirtækja, erlend umsvif og erlendar skuldir þjóðarbúsins hafa aukist mjög mikið undanfarin ár án þess að gjaldeyrisvarasjóður Seðlabankans hafi aukist að sama skapi.
  3. Seðlabankinn lækkaði bindiskyldu bankanna um 50% árið 2003 og stuðlaði þannig að auknum útlánum þeirra á þenslutímum.  Þetta hafði m.a. í för með sér að peningamagn í umferð jókst mjög mikið á stuttum tíma og jafnframt myndaðist mikill lausafjármassi innan bankanna.
  4. Lækkun áhættustuðuls veðlána í eiginfjárkröfu fjármálafyrirtækja gat ekki endalaust stuðlað að nær ótakmörkuðum aðgangi að ódýru lánsfé.

Mig langar að skoða þessi atriði nánar, en í öfugri röð:

4. Lækkun áhættustuðuls (Ég hef fjallað um þetta áður, en fyrir þá sem ekki hafa lesið þau skrif, þá er hér mikið einfölduð útgáfa.):  Þetta er það sem er kennt við Basel II innan fjármálageirans og á rót sína hjá Bank of international settlements í Basel í Sviss (banka seðlabankanna).  Áhættustuðullinn segir til um hvort bankar fái afslátt af kröfunni um 8% eigið fé vegna útlána, þ.e. bak við hverjar 100 kr. í útlán þurfa að vera 8 kr. í eigið fé, nema áhættustuðullinn segi annað.  Áður en Basel II kom til, þá var 50% afsláttur á eiginfjárkröfunni ef fasteignaveðlán var á 1. veðrétti, en annars var enginn afsláttur.  Basel II kvað á um að öll fasteignaveðlán fengju 50% afslátt.  Það má því í raun segja að útlánageta banka hafi tvöfaldast á einni nóttu.  Hér á landi varð þetta fyrst í stað til þess að útlán banka til fyrirtækja jukust, en það leið rúmlega ár þar til húsnæðislánasprengingin varð.  Afslátturinn var svo aukinn í 65% í mars á síðasta ári. 

Það var líklegast löngu tímabært að endurskoða útlánaáhættu vegna fasteignaveðlána á efri veðréttum, sérstaklega þar sem stór hluti húsnæðis á Vesturlöndum hafði mikið veðrými og vanskil höfðu verið mjög lítil undanfarna áratugi.  Þetta lánafyrirkomulag hafði myndað ákveðið jafnvægi á fasteignamarkaði.  Hér á landi var þetta jafnvægi að mestu ríkisstýrt í gegnum hámarkslán Íbúðalánasjóðs, en í flestum nágrannalöndum okkar sá "markaðurinn" um að viðhalda jafnvæginu m.a. í gegnum áhættu- og útlánastýringu bankakerfisins.  Basel II raskaði þessu jafnvægi, þar sem skyndilega bauðst fasteignaeigendum og fasteignakaupendum mun meira lánsfé til fjárfestinga í húsnæði, þar sem lán á efri veðréttum báru sömu áhættu í áhættuútreikningum bankanna og lán á fyrsta veðrétti.  Þessi breyting gat ekki annað en leitt til hærra fasteignaverðs.  Betri aðgangur að lánsfé gat ekki annað en haft í för með sér stóraukna eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði meðan framboðið stóð nokkurn veginn í stað.  (Það er líklega réttar að segja að árleg aukning eftirspurnar tók skyndilega stökk, meðan árleg aukning framboðs hélst óbreytt.)  Svona ástand leiðir alltaf af sér verðhækkun.  Seðlabankanum mátti því alveg vera ljóst að við innleiðingu Basel II reglnanna myndi verð fasteigna hækka og þar sem það mælist í vísitölu neysluverðs, þá var það sjálfgefið að vísitalan myndi hækka.  Hér var því um fyrirséðan hlut að ræða.  Það sem verra var, að seinni lækkun áhættustuðulsins varð samhliða lækkun á matarskattinum og át hækkun fasteignaverðs upp áhrif lækkunar matarverðs í vísitölunni og gott betur.  Þetta gerðist af tveimur ástæðum:  Í fyrsta lagi voru hin beinu áhrif á vísitöluna, þ.e. hækkað fasteignaverð mælist í vísitölunni, og í öðru lagi óbeinu áhrifin, þ.e. hækkun vísitölu hefur áhrif á verðbreytingar og það sem verra var, stýrivexti.

3. Lækkun bindiskyldu:  Seðlabankinn lækkaði bindiskyldu bankanna úr 4% í 2% árið 2003.  Þetta var gert um svipað leiti og fyrri lækkun áhættustuðulsins og varð til þess að bankarnir höfðu úr meira lánsfé að spila.  Það mátti gera ráð fyrir að bankarnir myndu nota peningana til útlána og þar með auka peningamagn í umferð.  Það er alþekkt hagfræðikenning að aukið peningamagn í umferð eykur þenslu og þar með verðbólgu.  Afleiðing lækkunar bindiskyldunnar var því fyrirséð sem aukin verðbólga.  Raunar má lesa um þetta í sérefni KB banka um efnahagsmál frá 28. maí 2004.  Þar er varðað við því að aukið peningamagn leið af sér uppsöfnun á drjúgum lausafjármassa í bankakerfinu og síðan er sagt ,,þó bendir margt til þess að núverandi lausafjárstaða sé mun hærri en geti staðist til lengdar."  Og síðar segir:  ,,Flest bendir því til þess að gömul lögmál séu enn í gildi og hætta fylgi auknu peningamagni:  Í fyrsta lagi getur mikill lausafjármassi skapað hættu á eignabólu.  Í öðru lagi getur lausaféð beinst inn á vörumarkaðina og valdið almennri verðbólgu.  Í þriðja lagi getur lausafjáreftirspurn leiðst úr landi bæði með fjármagnsflæði vegna erlendra verðbréfakaupa eða viðskiptahalla vegna aukins innflutnings, sem gæti veikt gengi krónunnar.  Raunar gæti allt þrennt gerst á sama tíma og þannig vegið að fjármálastöðugleika í landinu."  Þarna er varað við þremur ólíkum afleiðingum af lækkun bindiskyldunnar og kaldhæðnin er að allt þetta rættist.  En greiningardeildin var ekki hætt. "..en mestu hættumerkin eru til staðar á fasteignamarkaði en aukið framboð af nýbyggingum hlýtur að metta eftirspurnina fyrr eða síðar...Ljóst er að þörf er á peningalegu aðhaldi.."

Lækkun bindiskyldunnar árið 2003 hafði það líka í för með sér að svo kallaður peningamargfaldari stækkaði, en hann lýsir því hve oft sama krónan veltur í gegnum bankann í formi innlána og útlána, þar til að að bindiskylda og eiginfjárhlutfall stoppa hringrásina.  Stækkun peningamargfaldarans var enn ein vísbending um að skyndilega gæti orðið þurrð á lausafé, þar sem  innlán viðskiptavina eru oft til skemmri tíma en útlánin.  Vissulega var lækkun bindiskyldunnar samkeppnislegt atriði fyrir íslensku bankana, en hún var gerð án hliðarráðstafana og því var fyrirséð að afleiðingarnar yrðu hækkað fasteignaverð og aukin verðbólga.  Önnur hliðaráhrif urðu þau að grunnfé Seðlabankans minnkaði sem hlutfall af veltufé bankanna.  Aftur er þetta sterk vísbending um skerta getu Seðlabankans til að hlaupa undir bagga gefi á bátinn.

2. Gjaldeyrisvarasjóðurinn:  Gjaldeyrisvarasjóður hefur tilteknu hlutverki að gegna.  Gjaldeyriskaup Seðlabankans af bönkunum er raun það sama og peningaprentun.  Bankarnir afhenda Seðlabankanum gjaldeyri en fá í staðinn krónur sem notaðar eru til útlána eða til að kaupa gjaldeyri af erlendum fjárfestum.  Á framkvæmdatíma Kárahnjúkavirkjunar og álversframkvæmda fyrir austan og á Grundartanga flæddi óhemju mikill gjaldeyrir inn í landið.  Það var því nauðsynlegt fyrir Seðlabankann að bregðast við því með því að auka gjaldeyrisforðann sinn og skapa sér þannig ,,svigrúm til þess að bregðast við ef eitthvað ósamræmi skapast í gjaldeyrisviðskiptum til og frá landinu.  Aukinheldur kann lágur gjaldeyrisvarasjóður mögulega að hafa áhrif á lánshæfiseinkunn Íslands erlendis", eins og segir í sérefni greiningardeildar KB banka.  Það er vitað að Seðlabankinn jók ekki gjaldeyrisforða sinn í hlutfall við vöxt bankanna og því er hér aftur um fyrirséðar afleiðingar að ræða.  Á sama hátt má segja að bankarnir hafi skekkt stöðu sína með því að sækja lausafé með lántökum í staðinn fyrir að örva innlán.  Innlán eru almennt mun ódýrar "lánsfé", en lántökur á millibankavöxtum.  Eingöngu Landsbankinn fór þá leið að sækja lausafé í gegnum innlánsreikninga, enda hefur hann komið betur út en aðrir bankar í kreppu undanfarinna mánaða.

1. Háir stýrivextir, vaxtaskiptasamningar og Jöklabréf:   Á þeim tíma sem Seðlabankinn fór að nota verðbólgumarkmið til að hafa stjórn á peningamálum, þá voru stýrivextir frekar háir eða 11,5%.  Þeir fóru síðan hratt lækkandi fram til 2003 að þeir fóru lægst í rúmlega 5%.  Um það leiti fór af stað ferli sem endaði með kollsteypunni á fyrsta ársfjórðungi þessa árs.  Það fyrsta sem gerðist er að gengið var frá samningum um álvers- og virkjanaframkvæmdir.  Ljóst var að þessar framkvæmdir hefðu í för með sér mikið innstreymi gjaldeyris, þó svo að reyndin sýndi að stór hluti rynni beint aftur úr landi.  Við þetta styrktist krónan.  Þar sem Seðlabankinn óttaðist þenslu, þá hóf hann að hækka stýrivexti.  Þetta tvennt hóf að laða erlenda fjárfesta/spákaupmenn að íslenska markaðnum, þar sem þeir sáu fram á að geta náð í ódýrt fjármagn með því að gefa út skuldabréf í íslenskum krónum, skipta krónunum yfir í ódýran gjaldeyri og veðja síðan á að krónan gæfi eftir áður en kæmi að gjalddaga skuldabréfanna.  Jöklabréfin urðu til og vaxtaskiptasamningar með íslensku krónuna hófust í verulegu mæli.  Seðlabankinn ýtti svo ennþá frekar undir þessa þróun með frekari hækkun stýrivaxta, sem styrkti krónuna, sem fjölgaði Jöklabréfum, sem fjölgaði vaxtaskiptasamningum, sem styrkti krónuna, sem varð til þess að Seðlabankinn hækkaði stýrivextir, sem fjölgaði Jöklabréfum, o.s.frv.  Allt þetta leiddi til ójafnvægis milli innflutnings og útflutnings og fjárfestingar erlendis urðu ódýrari en áður.  Það var því fyrirsjáanlegt að það kæmi að umtalsverðri lækkun krónunnar, spurningin var bara hvenær, hve hratt og hve mikil lækkunin yrði.

Búast mátti við hinu ,,ófyrirséða" 

Ef þessi fjögur atriði eru tekin saman, þá kemur í ljós, að búast mátti við mikilli verðbólgu, hröðum samdrætti og mikilli lækkun krónunnar bara út af hinum "ófyrirséðu" atvikum sem efnahagsstjórnun síðustu ára ein og sér var völd af.  Það sem meira er að þessi "ófyrirséðu" atvik voru allt atriði sem varað hafði verið við af m.a. greiningardeild KB banka (nú Kaupþing) bæði árið 2003 og 2004.  Vissulega blandast fleiri "ófyrirséð" atvik inn í málið, eins og hrun húsnæðismarkaðarins í Bandaríkjunum vegna undirmálslánakreppunnar og atlaga spákaupmanna á íslenska hagkerfið. 

Um undirmálslánin er það eitt að segja, að sé saga þessara lána skoðuð 12 ár aftur í tímann, þá er með ólíkindum að menn hafi gleypt við þessum fjármálavafningum.  Sagan segir að vanskil á þessum lánum hafa alltaf verið mikil. Vandamálið var kannski að umfang lánanna var frekar takmarkað fram til 2003 og þess vegna vógu þessi vanskil ekki þungt.  Þrátt fyrir það var gengið að veði að lágmarki 700 þúsund sinnum á ári árin 2000 og 2001 og tæplega 1 milljón sinnum á ári næstu þrjú ár á eftir.  Í helming tilfella enduðu slík mál með uppboði.  Hér var því um tifandi tímasprengju að ræða og er alveg ótrúlegt að virtar fjármálastofnanir um allan heim hafi látið draga sig inn í þessa gjörninga.  Að þetta hafi verið "ófyrirséð" er með öllu rangt, en vissulega gátu hvorki Seðlabanki eða ríkisstjórn Íslands gert eitthvað í málinu. 

Nú varðandi atlögu spákaupmanna, þá hafði Seðlabankinn undirbúið jarðveginn vel fyrir þessa atlögu með því að sinna ekki þeirri sjálfsögðu skyldu sinni að efla gjaldeyrisforða þjóðarinnar samhliða því að ýta undir spákaupmennsku með því að halda vaxtamuni milli Íslands og nágrannalanda það miklum að það æpti á spákaupmennsku með vaxtaskiptasamninga og Jöklabréf.  Það voru sett upp ljósaskilti um allt sem auglýstu tækifærin.  Það var síðan á mörkum þess að vera glæpsamleg vanræksla, að hafa ekki nýtt sterka stöðu krónunnar til að efla gjaldeyrisforða þjóðarinnar.  (1,5 milljarðar evra hefðu kostað um 111 milljarða króna í ársbyrjun 2006, en kosta í dag nálægt 170 milljörðum, en fyrir þá tölu hefði mátt fá 2,3 milljarða evra í ársbyrjun 2006.)  Fyrir utan að slíkt inngrip Seðlabanka og ríkisvaldsins hefði líklegast komið í veg fyrir þá ótrúlegu styrkingu krónunnar sem varð á þeim tima.

Hvernig sem á þetta er litið var ekkert af þessu ófyrirséð og það sem meira var, það hefði svo auðveldlega mátt koma í veg fyrir ansi margt af þessu.  Það sem verra er, að allt of margt af þessu var sjálfskapað.  Það merkilega við þetta var að í einni aðgerðinni hækkaði Seðlabankinn stýrivexti til að ná niður verðbólgu og koma í veg fyrir þenslu og í hinni reyndu menn að auka samkeppnishæfni bankanna með lækkun bindiskyldu og innleiðingu Basel II reglnanna, en hvoru tveggja var verðbólgu- og þensluhvetjandi.  Það var eins og hægri höndin vissi ekki hvað sú vinstri aðhafðist.  Meðan önnur reyndi að slökkva bálið, helti hin olíu á eldinn.  Sérstaklega þarf að setja spurningarmerki við það, að áhættustuðull eiginfjárkrafna hafi verið lækkaður í mars á síðasta ári á þeim tíma sem nokkuð jafnvægi var að komast á og verðbólga að lækka.

Ég hef eingöngu beint spjótum mínum að Seðlabankanum og ríkisstjórn, en hlutur viðskiptabankanna þriggja er ekki síður mikilvægur.  Ja, ég segi "viðskiptabankanna".  Það er raunar á mörkunum að hægt sé að kalla þá viðskiptabanka, þar sem fjárfestingabankastarfsemi þeirra er orðin mjög stórhluti starfsemi þeirra.  Slík breyting á rekstri bankanna kallar á að bankarnir auki sjálfir við varasjóði sína og tryggingar án aðkomu Seðlabankans.  Líta má á Icesave og KaupthingEdge innlánsreikningana í Bretlandi sem tilraun til slíkra aðgerða, en betur má ef duga skal.  Hafa skal þó í huga að Seðlabankinn (og Fjármálaeftirlitið) setja leikreglurnar sem bönkunum ber að fara eftir.  Ef reglurnar eru rúmar, óljósar eða rangar, þá liggur ábyrgðin á því hjá Seðlabankanum (og Fjármálaeftirliti).  Auðvitað má segja, að bankarnir hafi átt að vita betur, en í þeirri miklu samkeppni sem er á alþjóðlegum fjármálamarkaði, þá nýta menn sér allar smugur til að koma ár sinni betur fyrir borð.


Lækkun vegna hugsanlega-ólíklega-kannski

Þetta er nú með kjánalegri rökstuðningi sem ég hef séð.  Hugsanlegir erfiðleikar ef svo ólíklega vildi til að eitthvað ófyrirséð kæmi upp.  Það er reynt að draga fram eins marga fyrirvara og hægt er en samt eru þeir notaðir til að réttlæta breytingu.  Til að kóróna allt er útlitið sagt stöðugt.  Ég held að Moody's sé dottið inn í einhverja meðvirkni og treysti sér ekki til að tala hreint út.  Ég veit ekki hvort fyrirtækið þori ekki að segja að allt sé í steik hérna af hættu við að það verði sjálfsuppfyllandi spádómur eða að segja að allt sé á góðri leið vegna þess að það sé of mikil breyting frá síðasta mati.  Ég held að íslenska þjóðin eigi það nú alveg inni hjá Moody's og öðrum matsfyrirtækjum að menn tali hreint út.

Annars er bara til ein lausn á þessu og hún er að íslenska ríkið leiti eftir erlendu láni og sýni annað hvort fram á að það eigi ekki í vandræðum með að fá slíkt lán (sem mér finnst líklegast) eða staðfesti að það eigi í erfiðleikum með að fá slíkt lán og noti þá reynslu til að taka til í eigin ranni.  Ef Hafnarfjarðarbær, eitt skuldugasta sveitarfélag landsins, gat fengið lán með 70 punktaálagi, þá hef ég fulla trú á því að íslenska ríkið (sem skuldar álíka mikið og Hafnarfjarðarbær) fái stórt lán með lágu álagi.  Síðan má ekki gleyma því að íslensku bankarnir eru vel fjármagnaðir um þessar mundir, þannig að skammtíma þörf þeirra fyrir fjármagn er lítil sem engin.  Samkvæmt Moody's er útlitið svo stöðugt sem segir að framtíðarhorfur er hvorki jákvæðar né neikvæðar og því litlar líkur á ,,ólíklegum ófyrirséðum erfiðleikum".

Annars geta allir lent í vandræðum, ef einhverjir "ólíklegir ófyrirséðir" erfiðleikar henda viðkomandi.  Spyrjið bara Bear Sterns og ekki tók lánshæfismat þeirra neina dýfu áður en þau ósköp dundu yfir.


mbl.is Moody's lækkar lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eiður Smári með tilboð frá frönsku liði

Samkvæmt slúðri á vefsíðunni tribalfootball.com hefur Eiður Smári Guðjohnsen fengið tilboð frá frönsku liði.  Fréttin er höfð eftir DiarioSport, sem segir Eið Smára ánægðan með tilboðið, en mun ekki taka því fyrr en hann hefur rætt við forráðamenn Barcelona.


Gengisvísitalan aldrei hærri í lok dags

Krónan náði nýrri lægð í dag.  Gengisvísitalan endaði í 158,90 stigum.  Fyrra met, 157,3 stig, var frá því 14. mars á þessu ári.  Þetta er auk þess lægsta gengi krónunnar að minnsta kosti frá því að núllin tvö voru klippt af krónunni fyrir tæpum þremur áratugum.

Spurningin er hvernig staðan verður eftir helgi.  Munum við sjá gengisvísitöluna rjúfa 160 stiga múrinn á þriðjudag (markaðir lokaðir á mánudag annan í hvítasunnu) og jafnvel 170 stiga múrinn síðar í mánuðinum?  Ég vona að þróunin verði frekar í hina áttina, en í augnablikinu er útlitið ekki gott.  Þetta eykur auk þess líkurnar á því að verðbólga í maí verði svipuð verðbólgunni í apríl og 12 mánaðaverðbólga verði þá jafnvel í kringum 14%, ef ekki meiri.  Ætli Geir og Davíð sofi vært yfir þessari þróun?


mbl.is Krónan veiktist í dag um 1,86%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagspá greiningardeildar Kaupþings

Hún er áhugaverð lesning Hagspá greiningardeildar Kaupþings fyrir 2008 til 2010 sem kom út í dag.  Helstu ályktanir eru:

  • Trúverðugleiki er ekki helsta vandamál Seðlabankans
  • Bankana vantar erlendan lánveitanda til þrautavara
  • Verðbólgan mun fara í 13,5% og mælast yfir 12% til áramóta
  • Stýrivextir munu lækka hratt á næsta ári
  • Jafnvægisgildi gengisvísitölu krónunnar er í kringum 130, en það næst ekki strax
  • Tækifæri eru í lengri flokkum skuldabréfa
  • Samdráttur verið á þessu ári og næsta
  • Viðskiptajöfnuður snýst úr halli í afgang vegna veikrar stöðu krónunnar

Margt af þessu virðist augljóst eða óhjákvæmilegt og auðvelt að skýra út, en annað vefst aðeins fyrir greiningardeildinni að koma frá sér.  Þá sérstaklega fyrsta atriðið um trúverðugleika Seðlabankans.  Ekki er laust við að maður fái það á tilfinninguna að greiningardeildin sé að fara fínt í það að setja ofan í við Seðlabankann.

Það er einkennilegt orðaval að segja vandamál Seðlabankans ekki vera skort á trúverðugleika og segja svo í næstu setningu að ekki sé hægt að ávinna sér trúverðugleika með því að halda háum stýrivöxtum of lengi.  Mér finnst sem greiningardeildin sé að freista þess að fela gagnrýni sína í einhverjum rósavendi.  Það er greinilega mat deildarinnar að Seðlabankinn hafi gert mikil mistök með síðustu tveimur stýrivaxtahækkunum og þar hafi bankinn glatað trúverðugleika með of mikilli hörku en ekki viðhaldið eða áunnið sér trúverðugleika.  Bara svo vitnað sé orðrétt í Hagspána:

Niðurstaðan er því sú að ef það er áætlun Seðlabankans að ávinna sér trúverðugleika með því að dýpka yfirvofandi niðursveiflu – s.s. með því að lækka stýrivexti of seint – er það að öllum líkindum mikill kostnaður til lítils. Vandamálin við framfylgd peningamálastefnu hérlendis má ekki rekja nema að hluta til skorts á trúverðugleika og hverfa ekki þrátt fyrir að trúverðugleiki sé unnin inn með blóði, svita og gjaldþrotum. Það sem meira er – með því að beita stýrivöxtum með of óvægnum hætti ofan í fjármálakreppu er tekin gríðarleg áhætta varðandi fjármálastöðugleika.

Auðvitað má túlka þetta sem varnaðarorð um það sem er framundan, en ég fæ ekki betur séð en að verið sé að gagnrýna viðbrögð Seðlabankans síðustu tvo mánuði.

Um eitt atriði verð ég að vera ósammála greiningardeildinni.  Deildin telur vandamál bankanna ekki vera ímyndarvanda.  Þessu er ég alveg ósammála. Auðvitað er vandi bankanna að miklu leiti ímyndarvandi.  Við megum ekki rugla saman ímynd fólks af fyrirtæki og raunverulegri stöðu þess.  Hvað varðar bankana, þá varð til sú ímynd að hratt væri unnið og áhættusækni væri mikil.  Innan þeirra væri mikill vöxtur og landvinningar um allan heim.  Kjarni yfirstjórnar væri ungt fólk með frjóar, en jafnframt lítt reyndar hugmyndir.  Bankarnir ýttu undir þessa ímynd, vegna þess að hún hentaði þeim uppgangstímum sem fylgdu ódýra lánsfénu frá 2003 til 2006.  Það er þessi ímynd sem er að verða þeim sem fjötur um fót.

Tvisvar á stuttum tíma hafa komið upp efasemdir erlendis frá um styrk og traust bankanna í ljósi þeirrar ímyndar sem þeir höfðu skapað sér.  Hvort þessi ímynd er jákvæð eða neikvæð fer eftir því hver er spurður og hversu vel bönkunum hefur tekist að koma til skila upplýsingum um rekstur sinn og hvort þeir, sem upplýsingunum er beint að, telji þær vera trúverðugar og fullnægjandi.  Í þessu felst ímyndarvandi íslensku bankanna. 

Ég segi bara, ef íslensku bankarnir ættu ekki í ímyndarvanda, þá
  • hefði skuldatryggingarálag (e. credit spread) þeirra ekki rokkið upp úr öllu valdi;
  • hefðu þeir ekki lent í lánalokun (e. credit crunch);
  • væru þeir ekki endalaus uppspretta neikvæðra vangaveltna hjá erlendum greinendum og í erlendum og innlendum fjölmiðlum;
  • sætu þeir ekki undir endurtekinni gagnrýni fjárfesta um skort á upplýsingu;
  • væru matsfyrirtækin ekki að lækka lánshæfishorfur íslensk ríkisins vegna hættu á vanda hjá bönkunum;
  • væru lánshæfieinkunnir þeirra og einkunnir um fjárhagslegan styrk ekki jafn neikvæðar hjá matsfyrirtækjunum og raun ber vitni.

Það skal aftur tekið skýrt fram, að þessi ímyndarvandi þarf ekkert að hafa með rekstrarlega stöðu bankanna að gera, a.m.k. ef ímyndarvandinn varir stutt.  Langvarandi ímyndarvandi getur aftur  leitt til verulegs rekstrarvanda.  Það hlýtur því að vera forgangsmál hjá bönkunum að skapa sér trausta og jákvæða ímynd sem byggir á traustum og arðsömu rekstri.  Ég verð að viðurkenna að ímynd þeirra beið hnekki hjá mér við birtingu uppgjöra fyrir 1. ársfjórðung, þegar ég sá að þeir högnuðust um 130 milljarða á spákaupmennsku með íslensku krónuna. Hve mikið þessi spákaupmennska spilaði inn í 20% fall hennar á nokkrum dögum, er ómögulegt að segja, en ekki var hún áhrifalaus.  Það má heldur ekki útiloka að þessi uppgjör auki á ímyndarvandann, þar sem þrátt fyrir góðan hagnað, þá var grunnur hagnaðarins ekki traustur.  Ímynd bankanna hefur einnig beðið hnekki hjá mér við það að lokað hefur verið að mestu fyrir allt sem heitir lán á skikkanlegum kjörum.  Þetta gæti skaðað bankana meira til langframa, þar sem leiða má að því líkur að svona ástand auðveldi aðkomu erlendra banka að íslenska markaðnum í framtíðinni.  Nema bankarnir treysti, eins og stjórnmálamennirnir, á hinn ótrúlega hæfileika þjóðarinnar að gleyma öllu sem á undan er gengið á ótrúlega stuttum tíma.


Allt er til tjóns

Á vef Viðskiptablaðsins má lesa það álit Paul Rawlins sérfræðings hjá Fitch Ratings matsfyrirtækinu, að erlend lántaka ríkissjóðs eða Seðlabanka upp á 5 - 10 milljarða evra gæti haft veruleg neikvæð áhrif á lánshæfismat íslenska ríkisins.  Það er svo sem alveg rétt að taka láns af svona stærðargráðu ætti almennt að hafa neikvæð áhrif, en í þessu tilfelli þarf það ekki að gerast.  Ástæðan fyrir því er einföld.  Það er verið að taka lánið til að byggja upp varasjóð og þessi varasjóður verður vafalaust ávaxtaður á eins öruggan hátt og hægt er.  Mun slík ávöxtun vega að miklu eða öllu leiti upp árlegan kostnað af láninu og hafa því lítil áhrif á afkomu ríkissjóðs.  Það er ekki eins og verið sé að taka lán til að setja í óafturkræfar framkvæmdir, til að fjármagna rekstur eða brúa fjárlagagat.  Annað sem skiptir máli í þessu samhengi er að íslenska ríkið er að öðru leiti ekki í neinu mæli á lánamörkuðum og er almennt ekki að taka "rekstrarlán".

Hin hliðin á þessu er, að matsfyrirtækin hafa þegar breytt lánshæfismati íslenska ríkisins í neikvæðar horfur, vegna þess að þau telja miklar líkur á að ríkið taki svona lán.  Það er einkennileg staða sem ríkið er komið í, horfum var breytt í neikvæðar vegna þess að ríkið þarf kannski að taka lán (sem matsfyrirtækin hreinlega krefjast að ríkið geri til að auka traustið á bönkunum) og svo á að gera þær ennþá neikvæðari þegar lánið er tekið (til þess að auka traustið á bönkunum).  Mér finnst þetta vera nokkuð vonlaus staða, ef allt sem íslendka ríkið gerir eða gerir ekki hefur neikvæð áhrif á lánshæfismat þess.

Eitt í viðbót.  Fitch breytti horfum á lánshæfismatinu í neikvæðar fyrir nokkrum vikum, enda var skuldatryggingaálag ríkisins og bankanna mjög hátt á þeim tíma.  Nú hefur þetta álag lækkað um einhver 80%, sem gerir það m.a. af verkum að bæði ríki og bönkum bjóðast lánsfé á skikkanlegum kjörum á opnum markaði.  Maður hefði nú haldið að slík breyting ætti að hafa áhrif á mat Fitch á horfur á lánshæfismati íslenska ríkisins, því ef mig brestur ekki minni, þá voru það m.a. ein helstu rök matsfyrirtækjanna fyrir þessum neikvæðu horfum, að vegna hás skuldatryggingarálags gæti það reynst ríkinu erfitt að fá slíkt lán yfir höfuð.  En kannski er þetta bara eins og með olíuna, að það er sama hvað gerist, það er allt hægt að finna eitthvað neikvætt við það og þess vegna er alltaf ástæða til að hækka.  Mér finnst spámenn treysta allt of mikið á gullfiskaminni þeirra sem spámennskan þeirra nær til.


Slóvakar fyrstir til að kasta krónunni

Ef svo fer að Slóvakía tekur upp evru þann 1. janúar 2009, þá verður það fyrsta landið til að láta mynteininguna krónu víkja fyrir evrunni.  Kannski er þetta fordæmið sem aðrir munu fylgja en líklegt er talið að Danir kasti krónunni innan tíðar, Tékkar geta ekki verið eftirbátar frænda sinna og systkina í Slóvakíu, Eistar geta nú varla haft mikla trú á sinni mynt og munu nota fyrsta tækifæri sem gefst til að taka upp evru, en líklegast er lengra í að Svíar gefi krónuna frá sér.  Búast má við því að ákvörðun Dana hafi áhrif á Svía.  Þá eru bara ótalin tvö lönd með krónur:  Noregur með olíukrónu og Ísland með jó-jó krónu.  Það sér hver sem vill að jó-jó krónan er ekki nógu traustur gjaldmiðill.
mbl.is Slóvakía fær aðild að evru-svæðinu 2009
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 43
  • Frá upphafi: 1678153

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband