Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Hugmynd minni um sannleiksnefnd vex fiskur um hrygg

Ég var að hlusta á Silfur-Egils og þar var gamall samstarfsmaður minn og nemandi, Úlfar Erlingsson, að tala fyrir hugmynd um sannleiksnefnd að Suður-Afrískri fyrirmynd.  Mig langar að rifja upp að ég setti þessa hugmynd fram í færslu minni Aðstæður á fjármálamarkaði felldu bankana frá 11.10.  Þar segi ég:

 

Hvort að íslensku bankarnir hefðu lifað af, ef þeir hefðu verið minni, betur undirbúnir eða vegna annarra viðbragða Seðlabankans fáum við aldrei að vita.  Ég sting aftur upp á því að við stofnum nokkurs konar sannleiksnefnd í anda Suður-Afrísku sannleiksnefndarinnar (þó þar hafi náttúrulega verið um mun alvarlegri atburði að ræða), þar sem öllum sem að þessu máli komu verði boðið að koma og leysa frá skjóðunni af sinni hálfu án eftirmála að hálfu lögreglu, ákæruvalds, samkeppnisyfirvalda eða fjármálaeftirlits.  Þeir, sem ekki nýta tækifærið, gætu aftur átt yfir höfði sér ákærur komi í ljós að aðgerðir þeirra hafi brotið í bága við lög.  Niðurstöðurnar úr framburðum þessara aðila verði síðan notaðar til að koma í veg fyrir að þetta geti nokkru sinni komið fyrir aftur.  Legg ég til að Hæstiréttur skipi hlutlausa aðila til að stjórna þessu ferli og að það verði opið öllum.

Ég er glaður yfir því að þessari hugmynd er að vaxa fiskur um hrygg og vona innilega að hún verði að veruleika.

Það slúður sem er í gangi í þjóðfélaginu þessa dagana er allt of oft á mörkum þess að vera skáldskapur, að við verðum að fá fram hvað af þessu er satt og hvað ósatt.  En við verðum þá líka að vera tilbúin að hlusta á það sem menn hafa að segja, þó svo að við sættum okkur ekki við skýringar þeirra.


Gefið lífeyrissjóðunum Kaupþing

Ég skora á viðskiptaráðherra að afhenda lífeyrissjóðunum Kaupþing endurgjaldslaust.  Lífeyrissjóðirnir eru í sameign vel flestra landsmanna og því snertir afkoma þeirra okkur landsmenn ekki minna en afkoma ríkissjóðs.  Viðskiptaráðherra sagði á fréttamannafundi í síðustu viku að lífeyrir landsmanna yrði varinn.  Nú kemur í ljós að hann getur líklega ekki staðið við þau stóru orð sín frekar en margt annað sem hann hefur sagt.  Hér hefur hann tækifæri.  Með því að afhenda lífeyrissjóðunum Kaupþing með manni og mús, þá eiga þeir möguleika á því að vinna upp það tap sem landsmenn hafa orðið fyrir. 

Fjárhagslegur styrkleiki lífeyrissjóðanna er mikill og innan þeirra starfa margir aðilar með mjög mikla og góða reynslu af fjármálakerfinu.  Ég treysti þessum aðilum mun betur fyrir Kaupþingi en þeim misvirtu stjórnmálamönnum sem hjálpuðu til með aðgerðaleysi sínu að koma okkur í þá stöðu sem við erum núna í.  Setja má alls konar skilyrði fyrir meðhöndlun lífeyrissjóðanna á eignarhlut sínum og hve mikið þeir mega setja í bankann.  Eigið fé bankans má auka með því að gefa út viðbótar hlutafé og með framlagi frá lífeyrissjóðunum.


mbl.is Tilboði lífeyrissjóða hafnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bandaríkin þurfa að bæta skaðann

Ég er kominn á þá skoðun, að alþjóðasamfélagið eigi að gera þá kröfu á Bandaríkjamenn að þeir bæti því þann skaða sem fjárplógsstarfsemi bandarískra fjármálafyrirtækja hefur valdið heiminum.  Bandarísk stjórnvöld létu það líðast að fjárfestingabankar og vogunarsjóðir störfuðu án eftirlits og versluðu með svikapappíra.  Þau létu það líðast að matsfyrirtækin Moody's og Standard & Poor störfuðu án eftirlits.  Niðurstaðan er stærsta svikamylla sem heimurinn hefur séð.  Með græðgi og ótrúlegri ósvífni hefur hinn eftirlitslausi hluti bandaríska fjármálageirans stefnt hagkerfi heimsins í gjaldþrot.  Menn komust upp með að fara á svig við eftirlit bandaríska fjármálaeftirlitsins með því að kalla gjörninga ekki lögformlegum nöfnum og bandaríska fjármálaeftirlitið lét það gott heita!

Það er eðlileg krafa að bandarísk stjórnvöld axli ábyrgð sína, loki þeim fyrirtækjum sem hér hafa staðið að verki, frysti eigur þeirra og eigenda þeirra, sæki viðkomandi til saka og greiði fyrir skaðann.

Fall íslensku bankanna er bein afleiðing af þessu rugli í Bandaríkjunum.  Umfang tjónsins, sem fallið hefur valdið, er fyrst og fremst íslenskum bankamönnum að kenna.  Ég vil gera skýran greinarmun á þessu tvennu.


mbl.is Bush: Stöndum frammi fyrir alvarlegri fjármálakreppu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrægammarnir mættir til að bæta um betur

Ég veit í sjálfu sér ekkert hvernig staðið var að þessari sölu eða hvað liggur undir.  Þetta er svona dæmigerð frétt þessa daganna, þar sem hlutunum er skellt fram án nægilegra upplýsinga.  En það er samt skelfilegt að vita, að hingað til lands streyma hrægammar fjármálakerfisins og vilja kaupa íslenskar eignir á brunaútsölu.  Kaldhæðnin í þessu, að þetta eru líklega sömu mennirnir, eða vinna við hliða á þeim, og eru valdir af fjármálakreppunni í leit sinni af skyndigróða.  Þetta eru meira og minna aðilar frá bandarískum fjárfestinga- og vogunarsjóðum sem af eigin siðblindu hafa sett fjármálakerfi heimsins á hliðina.

Ég skora á skilnefndir bankanna, viðskiptaráðherra og forsætisráðherra að gera þessa aðila alla afturreka.  Að veita þeim ekki einu sinni viðtal, heldur benda þeim á að Ísland eigi ekki í viðskiptum við hrægamma.


mbl.is Glitnir í Svíþjóð seldur á útsölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Löngu tímabær aðgerð

Ég spáði því í sumar að farið yrði í uppskurð á regluverki fyrir fjármálafyrirtæki.  Var það í framhaldinu á því að Evrópusambandið setti ofan í við þann aðila sem hefur haft umsjón með þessum málum, þ.e. Basel-nefndina sem starfar innan Alþjóða greiðslubankans (Bank for International Settlements), og vildi taka stjórnina af þeim að hluta.  Nú virðist sem spá mín sé að rætast.

Ekki að það hafi verið flókið að sjá þetta fyrir.  Fjármálakerfi heimsins var þá í stigmagnandi vanda sem nú er langt kominn með að fella það.  Stórir hlutar fjármálakerfisins hefur fallið utan hins stífa regluverks, sem hefur verið í gildi, og hafa raunar ýmsir aðilar innan kerfisins reynt, eins og kostur er, að sniðganga það með í besta falli vafasömum hætti.   Þetta hefur leitt til þess, t.d., að vogunarsjóðir, fjárfestingabankar og matsfyrirtæki hafa getað farið sínu fram án þess að fjármálaeftirlit í ríkjum heims hafi nokkuð um það að segja.  Nú er svo komið að þessir aðilar, þ.e. vogunarsjóðirnir, fjárfestingabankarnir og matsfyrirtækin, eru á góðri leið með að steypa hagkerfi Vesturlanda í gjaldþrot.  Og hrynji þau, verður lítið eftir, þar sem flest allir aðrir munu fylgja eftir.

Ég held svo sem að ekki sé þörf á að taka stjórnun þessara mála úr höndum Basel-nefndarinnar, en hún þarf greinilega að breyta starfsaðferðum sínum.  Þegar litið er yfir lista þeirra sem vinna að leiðbeinandi tilmælum nefndarinnar, þá sker það í augu að þar eru nær eingöngu bankamenn og síðan aðilar frá fjármálaeftirlitum.  Þar eru engir aðilar sem koma að pólitískri stefnumótum um bankamál, að ég tali nú ekki um neytendavernd.  Það er eins og regluverkið eigi fyrst og fremst að tryggja hag bankanna í staðinn fyrir að tryggja hag hagkerfanna sem bankarnir eru hluti af.  Þessu þarf að breyta.  Regluverk bankanna verður að taka mið af því að tryggja stöðugleika í hagkerfi hvers lands og heimsins í heild.  Það gengur ekki að stórir hlutar þess vinni án eftirlits og geti sett restina í hættum með óábyrgum aðgerðum.

Ég óttast að við séum ekki búin að bíta úr nálinni vegna þeirra fjármálagjörninga sem vogunarsjóðirnir og fjárfestingabankarnir stóðu að.  Talað er um að útistandandi séu afleiðusamningar og önnur verðbréf, sem eru utan eftirlits opinberra aðila, upp á hvorki meira né minna en 516.000 milljarðar USD.  Þetta samsvarar tífaldri vergri árlegri heimsframleiðslu!  Menn hafa miklar áhyggjur af því hvernig muni vindast ofan af þessum vafningum.  Ef aðeins 1% af þessum vafningum tapast þýðir það 5.160 milljarða USD sem er meira en sjöföld sú upphæð sem bandaríska stjórnin ætlar að leggja í björgun bankakerfisins.  Lendi slíkur skellur á hagkerfi Vesturlanda, þá má búast við að fleira falli en bara íslenska bankakerfið og að heimsmyndin sem við þekkjum í dag verði mikið breytt.  Um þessar mundir hriktir í stoðum breska bankakerfisins og þess þýska.  Bandaríska bankakerfið er komið í gjörgæslu bandarískra yfirvalda og er líðan sjúklings það slæm að allt lítur út fyrir að fjarlægja þurfi mikið af dauðu holdi og mjög líklega fleiri útlimi en þá tvo sem þegar er búið að taka.  Þetta ástand er farið að hafa mikil áhrif á stór og smá fyrirtæki í landinu og m.a. mun General Motors vera í miklum vanda.  Slökkvistarfið í Bandaríkjunum er farið að minna æ meira á baráttu við skógarelda.  Eina leiðin til að slökkva eldinn er að búa til varnarlínu í góðri fjarlægð frá ofsaeldinum og verjast frá þeim stað.  Allt sem er á milli eldsins og varnarlínunnar er tapað, en með þessu er skaðinn lágmarkaður.  Þetta hljómar eins og dómsdagsspá.  Og ég held að við verðum að fara að viðurkenna að dómsdagur frjálshyggjunnar, frelsis í fjármálaviðskiptum og kapítalismans er að renna upp.  Kaldhæðnin er að það er stjórnlaus græðgi þröngs hóps siðlausra bankamanna sem er að valda þessum vanda.


mbl.is Vilja stokka kerfið upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heldur vel í lagt eða hvað?

Gaman væri nú að sjá á hverju Lars Christiansen byggir spádóma sína.  Ekki ætla ég að efast um að hann hefur reiknað þetta út, en ég býst við að forsendur hans byggi á því að krónan fari niður á það stig sem hún er skráð hjá UBS.  Hvort sú skráning er raunhæf, er ómögulegt að segja til um, en mér finnst hún fjarstæðukennd.

Sjálfur spáði ég yfir 20% verðbólgu á næstu mánuðum í færslu hér í september (sjá Skilar sér í vel yfir 20% verðbólgu og 25% stýrivöxtum á næstu mánuðum).  Þá var nú ástand efnahagsmál nokkru skárra en nú og því virðist fátt geta komið í veg fyrir slíkan skell, nema Seðlabankanum takist að koma böndum á gengið. Ef gengið hjá UBS verður ráðandi, þá fáum við yfir okkur ofurverðbólgu á við það sem Lars Christiansen er að spá.

Í gamla daga keyptu og seldu seðlabankar gjaldeyri til að skapa ró á markaði og nú þarf Seðlabanki Íslands að gera það.  Að auki er orðið lífsnauðsynlegt, að Seðlabanki Íslands geri hreinlega samninga við Seðlabanka Evrópu og seðlabanka í Sviss, Japan og Bandaríkjunum, að þessir aðilar taki þátt í því að styrkja krónuna í nafni efnahagslegra neyðaraðgerða hér á landi.  Ef þessir fjórir seðlabankar taka þátt í því að kaupa krónur í skiptum fyrir evrur, franka, jen og dollara, þá gæti komist á stöðugleiki á örfáum dögum.  Mjög ólíklegt er að þeir myndu tapa á þessu, vegna þess að sterkari króna myndi þýða fleiri evrur/frankar/jen/dollarar í kassann, þegar þeir losa síðan um krónueign sína.  Nú veit ég ekkert hvort svona samningar eru mögulegir, en við svona ástand verður ekki búið.


mbl.is Spáir 75% verðbólgu á næstunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Velfarnaðaróskir

Ég óska Nýjum Glitni hf. og starfsfólki hans velfarnaðar í starfi um ókomin ár.  Þá óska ég einnig Birnu Einarsdóttur góðs gengis, þó ég telji hlutskipti hennar langt frá því að vera öfundsvert.
mbl.is Nýr Glitnir stofnaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skref í rétta átt

Stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans er skref í rétta átt.  Hvort þetta skref sé af réttri stærð verður að koma í ljós.  Við skulum hafa í huga, að með þessu verða stýrivextir neikvæðir um 1,5% miðað við síðustu verðbólgutölur og hugsanlega neikvæðir um allt að 7% eftir að verðbólgutölur fyrir október verða birtar.

Stýrivaxtalækkun Seðlabankans er ákveðin viðurkenning á því að mikilvægara sé að halda þjóðfélaginu gangandi en að hafa áhyggjur af verðbólgunni.  Býst ég raunar við að þessi ákvörðun teymi verðbólguna á eftir sér niður á við, þó svo að rétt sé að gera ráð fyrir talsverðri aukningu verðbólgu í næstu tölum sem koma undir lok mánaðarins.


mbl.is Stýrivextir lækkaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tillögur að stjórnarháttum fyrir nýju bankana

Frétt á vb.is vakti hjá mér gleði.  Fyrirsögn fréttarinnar er:  Unnið að tillögum um stjórnarhætti nýrra ríkisbanka.  Þannig eru mál með vexti að Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Kauphöll Íslands hafa sem sagt verið að vinna við gerð tillagna um stjórnarhætti hinna nýju ríkisbanka.

Ég hef skrifað nokkrar færslur um mikilvægi góðra stjórnarhátta, þar sem ég hef bent á kosti þess að fyrirtæki leggi rækt við slíkt.  Þó svo að fókusinn í þeirri ráðgjöf, sem ég veit í mínu starfi, sé á stjórnun upplýsingaöryggis og stjórnun rekstrarsamfellu, þá legg ég að jöfnu öllu svið. 

Góðir stjórnarhættir eru öllum fyrirtækjum mikilvægir og aldrei sem fyrr í ástandi eins og gengur yfir þjóðfélagið núna.  Ég veit að bankarnir þrír voru allir búnir að leggja vinnu í að skjalfesta verklagsreglur á ýmsum sviðum, en nú þarf að klára vinnuna áður en of langur tími líður.  Og ég vil hvetja þessa aðila sem standa að þessari vinnu að gleyma ekki neinum af þeim kröfum sem lög, reglur og eftirlitsaðilar gera til bankanna.  Bara á því sviði sem ég starfa, þá er listinn endalaus:  Persónuverndarmál, hin ýmsu leiðbeinandi tilmæli Fjármálaeftirlits, gagnaöryggisstaðall greiðslukortafyrirtækja, stjórnun rekstrarsamfellu, stjórnun upplýsingaöryggis, áhættustjórnun, stjórnarhættir vegna reksturs upplýsingakerfa og  fyrirkomulag innri endurskoðunar (þ.e. það sem snýr að framangreindum þáttum) svo fátt eitt sé nefnt. 

Þó flest af ofangreindum atriðum hafa líklegast verið í fínu lagi hjá bönkunum þremur áður en þeir fóru í þrot, þá er ég alveg viss um að eitt atriði klikkaði og það má ekki klikka aftur.  Þar á ég við stjórnun rekstrarsamfellu.  Rekstur fyrirtækja snúast að mínu mati fyrst og síðast um að halda þeim gangandi, að tryggja samfeldni rekstrarins.  Nú erum við að bíta úr nálinni með að þetta fór úrskeiðis og það mjög illilega.  Hvað svo sem olli því að hlutirnir fóru úrskeiðis, skiptir ekki máli, fallið var hátt og afleiðingarnar svakalegar.  Komum í veg fyrir að það endurtaki sig með því að huga strax að því sem getur farið úrskeiðis.

Lögum gegn hryðjuverkum beitt vegna 100 milljóna punda

Þeir hljóta núna að vera stoltir Knoll og Tott, nei fyrirgefið þið Darling og Brown, að hafa náð að sanna að heilar 100 milljónir punda hafi vantaði í sjóði Landsbankans.  Og er líklegast skít sama þó í leiðinni hafi þeir kallað yfir skaðabótakröfu upp á 30 - 50 milljarða punda.  Það sýnist mér vera einu penny reddað fyrir hver 30 - 50 pund í skaða eða 3.000 - 5.000 faldur skaði og þá eru ekki öll kurl komin til grafar.  Þetta er eins og gömul saga af Molbúunum sem vildu reka storkana af akrinum.
mbl.is Bretar lána Landsbankanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 43
  • Frá upphafi: 1678153

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband