Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Góð "við hefðum átt að hlusta"-umfjöllun

Það er gott að sjá svona samantekt á fréttum fyrri ára.  Sérstaklega fannst mér áhugavert að sjá tilvísunina í "of stór til að láta riða til falls eða of stór til að verða bjargað?" í umsögn Royal Bank of Scotland.  Málið er að þetta segir allt sem segja þurfti.  En hverjir áttu að bregðast við?  Átti Kaupþing að bregðast við og draga úr vexti sínum eða var það ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og "ekki mér að kenna" Framsóknarflokks sem áttu að bregðast við?

Ég er ekki í vafa um svarið:  Það voru stjórnvöld sem áttu að bregðast við.  Þau áttu að setja fram kröfur um að innlán sem hlutfall af útlánum þyrftu að ná alþjóðlega viðurkenndum mörkum.  Þau áttu að auka bindiskyldu til að minnka útlánamargfaldarann.  Þau áttu að efla hlutverk Fjármálaeftirlitsins og gefa því auknar valdheimildir.  Þau áttu að setja skorður við því hve mikið bankarnir gætu aukið innlán erlendra ríkisborgara, sem ekki eru búsettir á Íslandi, á reikninga sem eru á ábyrgð Tryggingarsjóðs innistæðueigenda.  Þetta voru allt aðgerðir sem Seðlabanki Íslands og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og "ekki mér að kenna" Framsóknarflokks áttu að grípa til.

Icesave er vafalaust stærsti skandallinn í þessu öllu.  Ekki það að hugmyndin var stórgóð og átti að bæta það atriði sem kemur fram í umsögn Dresdner Kleinworth Wasserstein að hefðbundin innlán væru of lágt hlutfall af útlánum.  Það var bara framkvæmdin sem var röng.  Í Bretlandi geta eingöngu þeir, sem eru með fasta búsetu í landinu, lagt inn á breska innlánsreikninga. (Þetta hefur komið fram í umfjöllun breskra fjölmiðla.)  Þetta er gert til þess að aðilar búsettir erlendis geti ekki fengið greiddar út ábyrgðir breskra stjórnvalda vegna þessara reikninga.

Ef maður skoðar lög nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, þá kemur dálítið forvitnilegt í ljós. Lögunum var breytt með lögum nr. 108/2006 dagsett 14. júní 2006 (sjá greinar 92 - 94) og inn í þau bætt heimild fyrir aðild erlendra útibúa innlendra fjármálafyrirtækja.  Það kemur sem sagt ekki bara í ljós að ríkisstjórnin átti að vita af ábyrgð sjóðsins gagnvart icesave, hún heimilaði það og hreinlega hvatti til þess.  Það þýðir ekkert fyrir menn að segja "þetta bara gerðist", þar sem þetta gerðist með vilja og vitund síðustu ríkisstjórnar!  Ríkisstjórnin opnaði hliðið fyrir Landsbankann að setja á fót icesave með lögum nr. 108/2006.  Það var greinilegt að menn hugsuðu ekkert út í hvað þeir voru að leyfa.


mbl.is Baksvið: Viðvörunarljósin leiftruðu í þrjú ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svindl matsfyrirtækjanna og Basel II reglurnar

Ég hef oft fjallað um vanhæfni og svindl matsfyrirtækjanna í færslum mínum, enda tel ég að ábyrgð þeirra vegna þeirrar kreppu sem er að ganga yfir fjármálakerfi heimsins sé mikil.  Til að skýra í stuttu máli í hverju þetta svindl hefur falist, þá hafa matsfyrirtækin, Moody's, S&P og Fitch, tekið þátt í því með útgefendum verðbréfa að gefa slíkum bréfum einkunnir sem eru langt fyrir ofan raunverulegt verðmæti bréfanna.  Þetta byggðist fyrst í kringum undirmálslánin í Bandaríkjunum, en hefur síðan breiðst út til mun fleiri pappíra.

Aðferðin sem beitt var, byggir á því að hjálpa útgefanda verðbréfa (afleiða eða annarra pappíra), sem eru með veði í t.d. húsnæðislánum, að búa til vöndla sem hafa fá hærra mat en hin undirliggjandi veðlán.  Þannig eru veðlán kannski með mat upp á BBB, en nýju bréfin hafa alla jafna fengið mun hærri einkunn og algengast var að gefa þeim AAA-einkunn.  Þetta var gert með því að búa til verðbréfavafninga, sem settir tryggðir voru með veðum af mismunandi gæðum.  Þetta hefur svo sem verið skýrt út oft og mörgum sinnum og því ætla ég ekki að eyða plássi í það hér.  En spurningar sem standa eftir eru tvær:  Af hverju þurftu menn að fara út í þetta svindl?  Og hvers vegna er þetta orðið jafn algengt og raunber vitni síðustu ár?

Svarið við báðum þessum spurningum er það sama:  The New Basel Capital Accord Framework öðru nafni Basel II sem gefið var út í janúar 2001 af Basel Committee on Banking Supervision hjá Alþjóða greiðslubankanum (Bank for International Settlements).  Auðvitað er Basel II ekki sökudólgurinn, heldur varð ákveðinn sveigjanleiki í reglunum um útreikning á eiginfjárkröfu til þess að menn reyndu að komast í kringum þær.

Basel II reglurnar setja grunninn að því hvernig eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja er reiknað út.  Hin almenna regla er að þetta hlutfall má ekki vera lægra en 8% af útlánum, þ.e. fyrir hverjar 1 milljón sem lánuð er út, þá þarf fjármálafyrirtækið að eiga 80.000 í eigin fé.  En ef þetta væri bara svona einfalt.  Menn áttuðu sig á því að útlán voru misjafnlega áhættusöm.  Þannig eru opinberir aðilar, að maður tali nú ekki um ríkissjóðir, taldir mun áreiðanlegri lántakendur en t.d. bílasalar eða smávöruverslun.  Því þótti óeðlilegt að lán til smávöruverslunar hefði sama vægi í eiginfjárkröfunni og lán til ríkissjóðs Bandaríkjanna.  Menn fundu því upp á því að bæta við vægisstuðli og tengja hann við ekki bara eðli lána, heldur einnig lánshæfismat fyrirtækis, banka eða lands eða mat sem verðbréf fengu hjá matsfyrirtæki, o.s.frv.  Reglan er einföld:  Há matseinkunn þýðir lágan stuðul og lág matseinkunn þýðir háan stuðul.  Áhættuvægi lána eða verðbréfa getur því verið allt frá 0% vegna AAA til AA- metinna lána/verðbréfa með ríkisábyrgð til 150% ef mat fer niður fyrir B- þegar um er að ræða kröfur á banka eða ríkissjóði eða BB- ef kröfur eru á fyrirtæki.  Þannig breytist eiginfjárkrafan eftir gæði matseinkunnarinnar.

Það sem mestu máli skiptir þó í þessu líkani er, að áhættuvægi vegna eiginfjárkröfu fyrir BBB metna krafna á fjármálastofnun er 100%, þ.e. enginn afsláttur gefinn, meðan áhættuvægið er 20% ef matið er AAA.  Það þýðir bara eitt.  Fjármálastofnun getur átt fimm sinnum meira af AAA metnum kröfum en BBB metnum kröfum fyrir sama eigið fé.  Matið setti útgefendum verðbréfanna því greinilega takmörk sem þau sættu sig ekki við, þar sem það kom í veg fyrir að fyrirtækin gætu selt alla þá vafninga sem þau vildu gjarnan gefa út.

Leiðin framhjá þessu var að fá matsfyrirtækin í lið með sér og búa til það mesta svindl og skjalafals sem heimurinn hefur líklegast nokkru sinni orðið vitni að eða eigum við kannski að segja orðið fyrir.  Flóknir stærðfræðiútreikningar voru notaðir til að grafa sannleikann fyrir hverjum þeim manni sem datt í hug að vefengja áhættuútreikninga.  Vildu menn kynna sér útreikningana, þá fengu þeir í hendur nokkur hundruð blaðsíður af rökstuðningi fullar af stærðfræðiformúlum, sem vafalaust stóðust í útópísku fjármálakerfi þar sem aðeins 7 af hverjum 1.000 lánum fara í vanskil.  Málið var bara að menn vissu betur.  En með þessum flækjum tókst mönnum að ná því markmiði að breyta BBB undirmálslánum í gulltryggða AAA vafninga og þar með koma fimmföldu magni slíkra pappíra í umferð en annars hefði verið.  Nú kaupendurnir voru meðal annars fjármálafyrirtæki sem fylgdu reglum Basel II og tóku því fagnandi að geta keypt AAA vafninga inn í eignasöfn sín.  Fyrirtæki sem hefðu líklegast hunsað við þessum vafningum, ef þeir hefðu haft BBB mat. 

Nú spyr einhver sig:  En hvar var fjármálaeftirlitið?  Ja, starfsemi fjárfestingabanka og matsfyrirtækja var fyrir utan eftirlit fjármálaeftirlita og því átti þetta svindl sér stað átölulaust.  Það var ekki svo að fjármálaeftirlit Bandaríkjanna vissi ekki af þessu.  Langt því frá.  Það vissi af þessu en líkt og við Íslendingar þekkjum varðandi íslensku bankanna, þá hafði það ekki úrræði til að sporna gegn þessu.  Við hlið hins eftirlitsskylda fjármálakerfis óx því eftirlitslaust kerfi sem í dag er margfalt stærra ein hitt.

En hvernig getur það gerst að BBB pappírar geta orðið að AAA veðum?  Auðvitað á það ekki að geta gerst.  Hvort ástæðuna megi frekar rekja til skorts á eftirliti eða hreinlega skorts á reglum, þá er að minnsta kosti ljóst að skortur á siðgæði var stór ástæða, að ógleymdri gömlu góðu græðginni.  Hvað regluhliðina varðar, þá á náttúrulega ekki að vera hægt að breyta BBB pappírum í AAA veð.  Þar má svo sem benda á Basel II og segja að menn hafi hreinlega haft of mikla trú á heiðarleika fjármálafyrirtækja þegar reglurnar voru samdar.  Og kannski ekki af ástæðulausu.  Svona vafningar voru einfaldlega ekki til, þegar reglurnar voru í vinnslu, eða a.m.k. fór mjög lítið fyrir þeim.  Þegar vafningarnir fóru að koma fram, þá klikkaði Basel-nefndin með því að bregðast ekki við.  Hún átti strax að taka fyrir svona leikfimi með því að kveða úr um að svona afleiðuvafninga mætti aldrei meta hærra í útreikningi á eiginfjárhlutfalli en hin undirliggjandi veð.  Því miður var það ekki gert og verður það að teljast alvarleg yfirsjón af hálfu Basel-nefndarinnar.

Það er hart að setja þurfi reglur sem banna allt sem er ekki sérstaklega leyft.  Mannlegt eðli er bara því miður þannig, að finni menn glufu, þá troða þeir sé inn um hana og víkka eins og mögulegt er.  Hinn eftirlitslausi hluti bandaríska fjármálakerfisins er mesti ógnvaldurinn þegar kemur að þessu og ábyrgð hans er mikill í þeirri fjármálakreppu sem gengur fyrir heiminn.  Hvort ráðamenn vestan hafs og forráðamenn þessara fjármálafyrirtækja munu nokkurn tímann viðurkenna, hvað þá axla, ábyrgð sína í þessu máli, finnst mér ákaflega ólíklegt og ennþá ólíklegra að hægt verði að sækja til þeirra bætur vegna þess fjárhagsskaða sem þeir hafa valdið.


Að rugla saman orsök og afleiðingu

Mér finnst sem menn rugli oft saman orsök og afleiðingu.  Hræðilegt atvik verður til þess að fólk vaknar til vitundar um ógn og heldur því fram að hættan sem stafar af þessari tilteknu ógn hafi aukist.  Hér er um rökvillu að ræða, þar sem ógnin breytist líklegast ekkert við það, að fleiri séu meðvitaðir um hana.  Það sem meira er, að mjög oft eykst öryggi mikið við það að vitund fólks um ógnina batni. 

Skoðum fyrst afstöðu og mat matsfyrirtækjanna gagnvart innkomu ríkisins/Seðlabanka í Glitni.  Það að ríkið/Seðlabanki hafi ákveðið að fara þá leið, sem farin var gagnvart Glitni, sýndi getu ríkisins/Seðlabanka til að hjálpa bönkunum.  Það breytti ekki getu ríkisins/Seðlabanka.  Þessi aðgerð hefði því ekki átt að verða til þess að lánshæfismat versnaði og allra síst átti það að leiða til þess að lánshæfismat Glitnis versnaði.  Rökin eru einföld:  Ríkissjóður/Seðlabanki notaði peninga, sem þegar voru eyrnamerktir svona aðgerð og skyldi nóg eftir til að geta hjálpað öðrum.  Glitnir fékk aukið hlutafé inn í bankann, sem þar með styrkti eiginfjárstöðu bankans og minnkaði þörf fyrir lánsfé.  Staða Glitnis sem rekstrareiningar batnaði við aðgerðina, en staða ríkissjóðs/Seðlabankans var óbreytt.  Staðan sem matsfyrirtækin voru að refsa fyrir, hafði myndast mun fyrr og matfyrirtækin voru líklegast búin að lækka lánshæfismatið út af því. 

Mér finnst rök matsfyrirtækjanna hafa verið eins og maður sem kemur að stað, þar sem snjóflóð hefur fallið, og heldur því fram að hættan á snjóflóðum hafi aukist við það að snjóflóðið hafi fallið.  Því er einmitt öfugt farið.  Eftir að snjóflóð fellur, þá eru minni líkur á því að annað falli á sama stað.  Vissulega geta önnur fallið allt í kring, en að annað falli á sama stað eru nokkurn vegin hverfandi. Þörf fyrir aðstoð er mikil, en ógnin sem stafar af snjóflóði  á sama stað er horfin.  Hugsanleg orsök er horfin en við erum að kljást við afleiðingarnar. 

Annað dæmi er 11-9-2001.  Því er statt of stöðugt haldið fram að heimurinn hafi orðið óöruggari 11-9-2001.  Það er einfaldlega rangt.  Hryðjuverkin 11-9-2001 voru birtingarmynd þess, að heimurinn hafði orðið óöruggari árin á undan.  Heimurinn varð frekari öruggari eftir 11-9-2001 vegna þess að þá fóru menn að gera eitthvað til að sporna við ógninni.  Það hefur, svo dæmi sé tekið, líklegast aldrei verið eins öruggt að fljúga innan Bandaríkjanna, en einmitt dagana eftir 11-9-2001. 

Enn eitt dæmi er þar sem fólk býr á jarðskjálftasvæði.  Mesta þörfin fyrir varúðarráðstafanir vegna jarðskjálfta er þegar langt er síðan að síðasti jarðskjálfti reið yfir, þegar kominn er "tími" á jarðskjálftann, ekki á dögunum eftir að hann reið yfir.

Öruggast er að ganga á Heklu 1-2 árum eftir síðasta eldgos (þegar svæðið hefur kólnað nægilega), en hættan eykst eftir því lengra líður frá gosi.

Við megum ekki rugla saman vitund okkar fyrir hættunni (sem er oftast mest strax eftir atvik) og líkum á því að atvik verði.  Við getum a.m.k. alveg örugglega sagt að líkur á atviki aukast eftir sem lengri tími líður án þess að nokkuð gerist.  Síðan geta tveir 100 ára stormar komið sama árið, en samt verið 100 ára stormar.  Annar er fyrsti stormurinn af þessari stærð í 100 ára og hinn er sá eini sem kemur næstu 100 árin.

Hvað sem öllum svona pælingum líður, þá veit ég fyrir víst, að þeir sem gera ekkert til að búa sig undir afleiðingar atviks, geta lent í miklum vanda.  Flestar, ef ekki allar, orsakir atvika eru fyrirsjáanlegar, ef nægt hugmyndaflug er fyrir hendi.  Stór hluti þess vanda, sem íslenskt þjóðfélag er að fást við núna, er að menn höfðu ekki áætlanir til að bregðast við svona alvarlegum atvikum, hvort sem mönnum fannst líklegt eða ekki að svona lagað gæti gerst.  Það er óraunhæft að ætlast til þess að til séu áætlanir vegna allra hugsanlegra atvika, en ákvörðun um hvaða áætlanir þarf að útbúar verður að taka með því að fylgja formlegu ferli, þar sem líkur og afleiðingar eru metnar.  Þetta eru það sem heitir á fagmáli viðbúnaðaráætlun, neyðaráætlun og stjórnun rekstrarsamfellu.  Að slíkt skipulag/áætlanir sé ekki fyrir hendi er í besta falli kæruleysi, í verst falli glæpsamleg vanræksla.  Hvet ég því alla aðila, sem ættu að hafa slíkt skipulag/áætlanir, en hafa ekki, að huga sem fyrst að þessum málum.  Ein af orsökum þess hve núverandi ástand í þjóðfélaginu er alvarlegt, er að viðbragðsáætlanir, neyðaráætlanir eða skipulag stjórnunar rekstrarsamfellu voru/eru ekki til staðar.


Tími til kominn að banna skuldatryggingarálag og matsfyrirtæki

Út um alla Evrópu má sjá það sama:  Hækkun skuldatryggingarálags og lækkun lánshæfismats.  Þetta tvennt helst í hendur eins og síamstvíburar og geta ekki annað, þar sem hvort um sig beitir hinu sem rökstuðningi.  Skiptir engu máli, þó sérfræðingar og seðlabankar um allan heim séu sammála að markaðurinn fyrir skuldatryggingarálag sé kominn út fyrir allan þjófabálk menn halda vitleysunni áfram.  Hækkandi álag hefur sjálfkrafa í för með sér lakari aðgang að lánsfé og lakari aðgangi að lánsfé fylgir lægra lánshæfismat.  Á sama hátt þýðir lægra lánshæfismat lakari aðgangur að lánsfé sem leiðir af sér hærra skuldatryggingarálag.  Fyrirtæki og lönd sem lenda í þessum vítahring eiga sér ekki leið út.

Ísland og íslensku bankarnir festust í þessum vítahring fyrir um ári.  Hann vatt smátt og smátt upp á sig, sem varð til þess að lánalínur lokuðust samhliða hækkun álags og lækkun lánshæfismats.  Færa má fyrir því góð og gild rök að þetta hafi spilað stærstan þátt í hruni bankakerfisins hér á landi.  Þessi tveir þættir hafi hægt og rólega þrengt svo að íslenska bankakerfinu, að því hafi að lokum verið allar bjargir bannaðar.  Steininn hafi síðan tekið úr, þegar ríkið ákvað að taka yfir Glitni, en þá hækkaði skuldatryggingarálagið upp í 5.000 - 5.500 stig og lánshæfismat var fellt verulega.  Ástæðan sem gefin var, var að ríkið hefði ekki getu til að bjarga bönkunum(!) einmitt þegar ríkið/Seðlabankinn hafði verið að bjarga Glitni og það án þess að taka lán.  Þetta er svo mikið bull að það er grátlegt að horfa upp á þetta.  Þarna rugluðust matsfyrirtækin einfaldlega á orsök og afleiðingu. Spurningin sem þau gleymdu greinilega að spyrja var:  Hvenær varð staða Glitnis þannig að bankinn gat misst lánalínu með stuttum fyrirvara?  Vorum við búin að innifela það í matinu? Og, ef ekki, hvers vegna var það ekki innifalið í matinu?

(Annars pæli ég betur í samspili orsakar og afleiðingar í annarri færslu sem birtist síðar í dag.)


mbl.is Áhyggjur af greiðslugetu Rússlands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er skuldahliðin, en hvað með eignahliðina

Mönnum hefur verið tíðrætt um skuldir bankanna og skuldbindingar í útlöndum.  Þetta eru svakalegar tölur og er alveg með ólíkindum að menn hafi teygt sig svona langt, en það er búið og gert og taka verður á þeim vanda af festu og yfirvegun.  Það sem mér finnst aftur vanta í þessa umfjöllun eru upplýsingar um hve miklar eignir/kröfur bankarnir eiga/áttu í útlöndum og hver skipting þessara eigna/krafna er.  Ef þessar tölur fást fram, þá væri hugsanlega hægt að slá aðeins á þá múgæsingu sem er í gangi hér á landi og erlendis, eða að við fengjum það þá svart á hvítu hve ástandið er slæmt.

Það getur verið, að þær upplýsingar sem hér um ræðir séu viðkvæmar, en ég held að skaðinn af leyndinni sé farinn að verða meiri en að birta þær.  Auk þess finnst mér sem landsmenn eigi heimtingu  á því, þannig að við getum fylgst með því hvaða eignir eru að fara á brunaútsölu.


mbl.is Skulduðu Þjóðverjum milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er gos að byrja?

Skjálftarnir við Upptyppinga færast sífellt ofar í jarðskorpuna.  Samkvæmt vef Veðurstofunnar eru grynnstu skjálftar á um 1100 m dýpi, sem getur ekki þýtt neitt annað en að jörðin er að gliðna þar.  Kannski er hraunkvikan bara að troða sér inn í sprungur í jarðskorpunni, en að þetta sé að gerast rétt um 1100 m undir yfirborðinu eykur líkurnar á gosi allverulega.

Ef þarna er að fara að gjósa, þá er talið líklegt að það verði dyngjugos, en slík gos standa gjarnan mjög lengi.  Kannski ætlar móðir náttúra að leggjast á sveif með okkur, því svona gos gæti dregið að ferðamenn í stórum stíl.


mbl.is Skjálftahrina við Upptyppinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætla að lána 3 milljarða punda

Samkvæmt frétt á vef Financial Times (www.ft.com) ráðgera bresk stjórnvöld að lána Íslandi 3 milljarða GBP svo hægt verði að endurgreiða Bretum sem áttu innstæður á Icesave innlánsreikningum Landsbankans.

Sagt er að lánið sé mikilvægt skref svo hægt sé að losa um eignir Landsbankans í Englandi, en eins og alþjóð veit voru þær frystar með tilvísun í hryðjuverkalög fyrir 2 vikum.   Sagt er að sendinefnd breska fjármálaráðuneytisins og Englandsbanka séu á leiðinni til að "ganga frá málum". 

Það virðist vera hluti af samkomulaginu að íslensk stjórnvöld beri ábyrgð á fyrstu 20.887 EUR af innistæðum hvers aðila, en bresk stjórnvöld greiði það sem upp á vantar upp í 50.000 GBP (mismunur upp á 33.811 GBP).  Talið er að á breska ríkið falli um 2,4 milljarðar GBP.

Jafnframt er sagt að samkomulagið dekki hvorki innistæður fyrirtækja né opinberra aðila.

Þetta verða að teljast mikil tíðindi og vonandi verður Landsbankinn í framhaldinu tekinn af lista breskra stjórnvalda yfir vafasama aðila og gjaldeyrisviðskipti geta komist í samt horf.

Fréttin í heild er hér:

Treasury plans £3bn loan to Iceland

By David Ibison in Reykjavik

Published: October 21 2008 23:20 | Last updated: October 21 2008 23:20

UK Treasury officials are putting the final touches to a plan to lend about £3bn to Iceland so it can repay UK depositors in Icesave, the online banking unit of Landsbanki, the collapsed Icelandic bank.

The loan would provide an important first step towards unfreezing the deposits of approximately 300,000 UK customers who have been unable to withdraw money after Landsbanki collapsed this month.

A delegation from the UK Treasury and the Bank of England will arrive in Reykjavik, the Icelandic capital, this week to try to “wrap up” the terms of the loan, according to officials in ­Iceland.

The precise size of the loan has not yet been decided, but it is expected to be about £3bn, representing about 30 per cent of Iceland’s gross domestic product.

A Treasury spokesperson said: “Following conversations between the chancellor [Alistair Darling] and Icelandic prime minister, officials from the Treasury and Bank of England are going to Iceland to work on finalising an agreement that aims to compensate UK depositors and ensure fair treatment for creditors.”

An agreement would help ease tensions significantly between the UK and Iceland after the collapse of its banking system triggered the most damaging diplomatic spat since the cod wars of the 1970s.

Relations deteriorated after the British government used anti- terror legislation to freeze the assets of Landsbanki amid fears the Icelandic government might renege on its commitment to compensate UK depositors.

The proposed loan will mean that the Icelandic government will be able to meet its share of compensation payments, with the remainder covered by the Financial Services Compensation Scheme, the UK compensation scheme.

The Icelandic government is responsible for paying the first €20,887 (£16,189) of any compensation claim while the UK government covers the difference up to £50,000. In this case, the UK government has also agreed to pay any additional claims over the £50,000 limit.

UK taxpayers could face a bill of at least £2.4bn to compensate British holders of accounts at Icesave, it has been estimated.

Any agreement with the Icelandic government will not cover corporate and government account holders in Icesave.

Björgvin Sigurdsson, Iceland’s commerce minister, said an agreement should be concluded by Wednesday.

 


mbl.is Bresk nefnd aftur til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Efnahagsráðgjafi" Egils vísar í mín skrif

Ég tók eftir því á eyjan.is að ónefndur "efnahagsráðgjafi" Egils Helgasonar vísar í skrif mín um mál tengd Seðlabanka Íslands.  Ég hef að vísu skrifað eitt og annað um þessi efni, en hef aldrei sett neitt á blað sem tengist nákvæmlega því sem rætt er í áliti "efnahagsráðgjafans" og geri mér ekki grein fyrir af hverju hann vitnar í mig í þessu tilfelli.  En til að auðvelda fólki leitina að greinum um efnahagsmál, þá eru hér tenglar í þær hér fyrir neðan.  Ég viðurkenni það fúslega, að margt sem ég skrifaði var argasta bull, en annað stendur óhaggað.  Til þess að vera ekki með neinn hvítþvott, þá setti ég inn vísun í allar greinarnar:

2007

Júní:

Er Seðlabankinn stikkfrí?

Júlí:

Er þá verðbólgan lægri hér á landi?

Ágúst:

Láglaunalandið Bandaríkin

2008

Janúar:

Spákaupmennska og ævintýramennska stjórna efnahagsmálum heimsins

Skiljanleg andstaða, en er leikurinn ekki tapaður?

Góður árangur í erfiðu árferði

Hagkerfið í niðursveiflu og Seðlabankinn bíður átektar

Febrúar:

Mat byggt á hverju?

Mars:

Ólíkt hafast þeir að

Stýrivextir hækka húsnæðisliðinn

Apríl:

S&P að þvinga fram aðgerðir

Eru matsfyrirtækin traustsins verð?

Er þetta trúverðugt bókhaldsfiff?

Blame it on Basel

Eru matsfyrirtækin traustsins verð - hluti 2

Verðbólga sem hefði geta orðið

Var Seðlabankinn undanþeginn aðhaldi?

Maí:

Ólíkt hafast menn að

Í útvarpsviðtal út af bloggi

Verður 12 mánaðaverðbólga 18 - 20% í haust

Allt er til tjóns

Hagspá greiningardeildar Kaupþings

Efnahagskreppan - Fyrirsjáanleg eða ekki?

Júní:

Auka reglurnar gengisáhættu?

Hlustar forsætisráðherrann á sjálfan sig?

Trúin á aðgerðum engin

Bankarnir orðnir langþreyttir á úrræðaleysi Seðlabankans?

Hver veldur slysi, "lestarstjórinn" eða sá sem fer fram úr? - Hugleiðing um orsök og afleiðingu

Júlí:

Evra eða ekki, það er spurningin

Matsfyrirtækin fá ákúru frá SEC og ESB

Hvað þurfa raunstýrivextir að vera háir?

Verðbólga í takt við væntingar

Slæm ákvörðun getur gefið góða útkomu

Ágúst:

Ótrúlegur Geir

Ekki á að bjarga þeim sem "fóru of geyst", en hvað með hina?

Hvað geta Seðlabankinn og ríkisstjórnin gert?

Verðbólgutoppnum náð

Bankarnir bjóði upp á frystingu lána

Treysta lífeyrissjóðir á verðtryggingu?

September:

Sökudólgurinn fundinn! Er það?

Innviðir bandaríska hagkerfisins að molna?

Október:

Ábyrgð Seðlabanka Íslands

Hvaða spennu var létt?

Basel-nefndin gefur út reglur um lausafjáráhættu

Innlegg í naflaskoðun og endurreisn

Geta þeir ekki hætt þessari vitleysu?

Aðstæður á fjármálamarkaði felldu bankana

Löngu tímabær aðgerð

 

Eins og ég segi að ofan, er margt af þessu óttalegt vitlaust, þegar maður les það í ljósi þess sem síðar gerðist, en annað hefur, ef eitthvað er, fengið byr í seglin.

Síðan vil ég nefna að ég hef á þessum sama tíma hvatt fyrirtæki til að huga að áhættustjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu, þ.e. að búa sig undir hið óvænta.

 


Uppfærsla á heimasíðu Betri ákvörðunar

Mig langar að vekja athygli á því að gerðar hafa verið breytingar á heimasíðu fyrirtækisins míns, Betri ákvörðunar, til að skerpa betur á þeirri þjónustu sem það veitir.  Hafa nú almennar upplýsingar um þjónustuna verið settar á forsíðu vefsins.

Betri ákvörðun, ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar, er sífellt á höttum eftir nýjum verkefnum, stórum sem smáum.  Nú ættu að vera ofarlega í hugum stjórnenda atriði eins og áhættustjórnun, stjórnun rekstrarsamfellu, stjórnun upplýsingatækni og stjórnun upplýsingaöryggis.  Þetta eru í flestum tilfellum lífæðar fyrirtækja og á umbrotatímum eins og núna, þá standa þau fyrirtæki sterkar sem eru rétt undirbúin.  Það skal þó tekið skýrt fram, að það áfall sem núna gengur yfir er á slíkum hamfaraskala, að ólíklegt er að nokkurt fyrirtæki hafi getað búið sig fullkomlega undir það.

Nú fyrir þá sem eru að fást við hversdagleg viðfangsefni, þá býður Betri ákvörðun upp á þjónustu við að uppfylla ólíkar kröfur eftirlitsaðila, s.s. FME og Persónuverndar, gagnaöryggisstaðal greiðslukortfyrirtækja (PCI DSS), úttektir á stöðu öryggismála, innleiðingu stjórnkerfa, greiningu vegna varðveislutíma upplýsinga og ákvörðunargreiningu.

Nánari upplýsingar veitir Marinó G. Njálsson í síma 898-6019, en einnig má senda tölvupóst á oryggi@internet.is.  Öllum erindum verður svarað fljótt og vel.


Góður sigur hjá Stoke

Ég horfði á leikinn með öðru auganu og verð að segja, að Stoke vann verðskuldaðan sigur.  Það var raunar með ólíkindum að leikurinn hafi ekki unnist mun stærra fyrir utan að mark Tottenham var kolólöglegt.

Þessi leikur sagði meira um stöðu Tottenham í deildinni, en stöðu Stoke.  Vonleysi, baráttuleysi og hugmyndasnauð Spurs hlýtur að valda aðdáendum liðsins áhyggjum.

Varðandi Stoke, þá er varnarleikurinn ennþá helsti veikleiki liðsins.  Ég hef aldrei geta skilið hvað Tony Pulis hangir endalaust með Andy Griffin í vörninni.  Maðurinn var handónýtur í vörn Derby í fyrra og er jafn handónýtur í vörn Stoke núna.  Miðja Stoke er sterk, en varla getur maður talað um einhverja lipra leikmenn.  Sidibe er óhemju duglegur, en Kitson vita gagnlaus.  Fuller lék sér að vörn Tottenham, sem verður að teljast sú lélegasta á Englandi í dag.

Í heildina góður sigur í stórfurðulegum leik.


mbl.is Stoke skildi Tottenham eftir á botninum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 7
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 47
  • Frá upphafi: 1678163

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 45
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband