Leita í fréttum mbl.is

Greiðslubyrði færð aftur fyrir hrun

Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, lýsti því yfir á fundi Samfylkingarinnar í Garðabæ í dag, að fara eigi í aðgerðir fyrir heimilin.  Hvað er nákvæmlega átt við verður kynnt á næstu dögum.  Heimildir fréttastofu Stöðvar 2 eru að færa eigi greiðslubyrði verðtryggðra og gengisbundinna húsnæðis- og bílalána aftur fyrir hrun bankanna og krónunnar. 

Ég vil byrja á því að lýsa ánægju minni með að stjórnvöld hafa loksins tekið af skarið.  Ég hef að sjálfsögðu allan varann á.  Kálið er ekki sopið þó í ausuna sé komið.  Eins skiptir máli hver er dagsetning hrunsins, ef heimildir fréttastofu Stöðvar 2 eru réttar.

Sé dagsetning hrunsins 27. september 2008 eða síðar, þá eru boðaðar aðgerðir ekki nóg, þó vissulega sé margt vel gert.  Ég vil ekki hljóma vanþakklátur, en 27. september 2008 stóð gengisvísitalan í 178 stigum, þ.e. 58 stigum hærri en 1. janúar 2008 eða sem nemur 32% lækkun krónunnar.  Og ef við skoðum svissneska frankann og japanska jenið, þá erum við að tala um meira en 50% hækkun lána í þeim myntum.  Verðbólga var 27% frá ágúst 2007 til sama mánaðar 2009, en bara 10,9% frá ágúst 2008 til sama mánaðar 2009.  Skellur lántakenda yrði því talsverður eftir sem áður.  Sé dagsetningin 7. mars, þá er þetta frábært.  Þá stóð gengisvísitalan í 135 og verðbólgan frá ágúst 2007 til mars 2008 var eingöngu 6,3%. 

Ég vil samt fagna þessari ákvörðun stjórnvalda og þakka þeim fyrir að hafa loksins hlustað á málflutning Hagsmunasamtaka heimilanna.  Það var tími til kominn.  En eins og svo oft áður, þá ber dag að kvöldi lofa og mey að morgni. Nú bíð ég bara spenntur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Tryggvason

Tek undir þetta Marinó - eins og svo oft áður; þó að við höfum oft brennt okkur á ótímabærum væntingum vegna yfirlýsinga sem ekki gengu eftir vona ég að þetta verði að veruleika. Ég vænti þess að stjórnvöld hafi samráð við okkur fulltrúa lántakenda þegar viðmiðunardagsetningin er ákveðin.

Gísli Tryggvason, 26.9.2009 kl. 19:28

2 Smámynd: Margrét Rósa Sigurðardóttir

Þau eru hrædd við boðaðar aðgerðir 1.október! Allar leiðréttingar sem hafa fengist hafa bara fengist fyrir samtakamáttinn!

Margrét Rósa Sigurðardóttir, 26.9.2009 kl. 19:40

3 Smámynd: Páll Blöndal

Engin ástæða er að gera lítið úr þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar.
Merkilegt að mbl og ruv þegja þunnu hljóði um málið.

Páll Blöndal, 26.9.2009 kl. 20:06

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Gísli, ég veit ekki alveg hvað á að halda, en vona það besta.  Ég held ég þoli ekki fleiri misheppnaðar tilraunir stjórnvalda til að rétta hag heimilanna.

Margrét, mér flaug það í hug að greiðsluverkfallið væri það sem menn hræddust.  Var spurður að því á Rás 2 um daginn hvort við óttuðumst ekki að fella einhvern banka með þessu verkfalli.

Páll, þögn sumra er æpandi.

Marinó G. Njálsson, 26.9.2009 kl. 20:13

5 identicon

Gengið var í 110 stigum í júlí, 07 þegar sumt fólk skrifaði undir gengislán.  Ekki undarlegt að fólk geri lítið úr langri og óþolandi æpandi þögninni. 

ElleE (IP-tala skráð) 26.9.2009 kl. 20:17

6 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Marinó G. Njálsson, 26.9.2009 kl. 20:23

7 identicon

Hvað ætili það þýði fyrir ofgreiðlsur fram að þeim tímapunkti sem verður miðað við?

ElleE (IP-tala skráð) 26.9.2009 kl. 20:31

8 identicon

Það liggur í augum uppi að greiðsluverkfall hefur áhrif. Mér finnst það ólíkt þessari stjórn að koma með svona "útspil" án þess að búið sé að útfæra tillögurnar nánar nema að fyrir liggi einhver pressa.  Ég higg líka að hættan á að tapa einfaldlega þessum málum í dómssal vegi þungt í hugum ráðherra.

Það er auðvitað best að bíða með stórar yfirlýsingar en ef þetta verður rétt útfært þá held ég að lausnin sé nokkuð sniðug. En dagsetningar skipta vissulega máli. Sjáum til.  Alla vega þá eigið þið báðir, Gísli og Marínó, mikinn heiður skilið fyrir ykkar framlag til þessarar baráttu.

Ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir því að þessi barátta skiptir ekki bara máli fyrir núverandi lántakendur. Hún kemur til með að skipta miklu máli fyrir framtíðina. Þetta væri í fyrsta skipti sem að tækist að fá einhvern vott af sanngirni inn í íslenska lánastarfsemi. Í þessu samhengi þá tel ég að það sé hollast fyrir samfélagið að af þessu hljótist áþreifanlegur kostnaður. Það verður áminning um það um aldur og ævi að vandi menn ekki regluverk og eftirlit þá sé það dýrt fyrir samfélagið. Slík mistök vill engin stjórnmálamaður með sjálfsvirðingu endurtaka.

Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 26.9.2009 kl. 20:53

9 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Benedikt, ég held varla að dómsmál vegna gengistryggðra lána og forsendubrests verði afturkölluð nema aðgerðir stjórnvalda verði mjög góðar.  Annars, takk fyrir mig.

Marinó G. Njálsson, 26.9.2009 kl. 22:45

11 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Sammála Marinó...þessar aðgerðir verða að halda vatni!

Er í farvatninu að leiðrétta verðtryggðar skuldir? Veistu það?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 26.9.2009 kl. 23:46

12 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Hagsmunasamtök heimilanna eru fyrir löngu búin að sanna gildi sitt og við ég nota þetta tækifæri og óska þeim til hamingju sem þar hafa staðið vaktina. Þó greiðsluverkfallið hafi ekki vakið hrifninga allra til að byrja með, er ljóst að það er aðgerð sem hefur skilað þeim árangri að stjórnvöld hafa hlustað og vonandi hafa þau líka tekið rétt eftir. Það kemur í ljós á næstu dögum og þá fyrst er hægt að meta framhaldið.

Góður árangur sem sýnir hvað samtakamátturinn skiptir gríðarlegu máli.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 27.9.2009 kl. 02:20

13 Smámynd: Anna Margrét Bjarnadóttir

Ég vona bara að satt reynist og að þeim lánist að gera þetta aðminnilega þannig að þjóðin verði sátt. Það er skrýtið hvernig það virðist vera reynt að þagga málið niður á RÚV. Ég er ekki tilbúin að trúa þessu alveg strax. Stefnan er því ótrauð á greiðsluverkfall þangað til sannara reynist.

Anna Margrét Bjarnadóttir, 27.9.2009 kl. 10:42

14 Smámynd: Elle_

Að ofan ætlaði ég að segja: Hvað ætli það þýði fyrir ofgreiðlsur eftir þann tíma sem verður miðað við.

Elle_, 27.9.2009 kl. 11:08

15 Smámynd: Jakob Þór Haraldsson

Hjartanlega sammála Gísla & Marinó þegar hann segir réttilega: "Ég held ég þoli ekki fleiri misheppnaðar tilraunir stjórnvalda til að rétta hag heimilanna."  Ég treysti ekki SAMSPILLINGUNNI og þeir standa því miður allt of oft fyrir "lýðskrumi & innihaldslausu blaðri".  Ég held í raun að enn & aftur sé X-S að draga þjóðina á asnaeyrum.

kv. Heilbrigð skynsemi

Jakob Þór Haraldsson, 27.9.2009 kl. 11:20

16 identicon

Já, það virðist líklegra en hitt, miðað við síðastliðin 2 ár og hvað sam-spillti flokkurinn hefur verið harður með alla og að því er manni sýnist, útsendu pennanna verjandi stuldinn. 

ElleE (IP-tala skráð) 27.9.2009 kl. 11:35

17 Smámynd: Anna Margrét Bjarnadóttir

Óhugguleg pólitíska stýringin á fréttafluttningi hér á landi - enn ekki neinar fréttir af þessu kl. 12:20 á RÚV

Anna Margrét Bjarnadóttir, 27.9.2009 kl. 12:25

18 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Það er ekki orð að marka þetta hjal í manninum, trúi þessu ekki.

Ásdís Sigurðardóttir, 27.9.2009 kl. 12:38

19 Smámynd: Guðmundur Andri Skúlason

Þessi umræða og þessi lausn er dæmigert bein sem rétta á okkur og um leið telja okkur trú um að af þessu beini verðum við södd.

ÞEtta leysir ekki neitt, tryggir bara að kröfuhafar ná örugglega af okkur vaxtagreiðslum af heildarhöfuðstól næstu 40 árin.

Við getum hvorki skilið né dáið vegna þess að við getum ekki losað okkur undan oki ranglátrar yfirveðsetningar. Við getum ekki minnkað við okkur, stækkað, flutt milli bæjarfélaga eða landshluta vegna þess að Árni Páll Árnason og ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur hefur ekki kjark til þess að takast á við vandann eins og hann er.

Þó með þessu sé ekki verið að lengja í snörunni, þá er heldur ekki verið að losa hnútinn.

Það er bara verið að bíða með að herða að þangað til seinna.

Guðmundur Andri Skúlason, 27.9.2009 kl. 13:22

20 identicon

Það bendir allt til þess að höfuðstólnum verði ekki breytt nema þá eftir einhverja áratugi.  Þetta er því í raun agnarlítill plástur á svöðusár og ótrúlegt að Marinó sé ekki að átta sig á því.  Fasteignamarkaðurinn verður áfram botnfrosinn og fólk neyðist til að kúldrast í yfirveðsettum eignum.  Það er HÖFUÐSTÓLSHÆKKU LÁNA sem er aðalvandamálið, ekki bara greiðslubirðin.  Svo, eins og bent hefur verið á þá skiptir dagsetningin afar miklu máli.  En enn og aftur á umræddum fréttum er ekki að sjá að HÖFUÐSTÓLL LÁNA VERÐU LÆKKAÐUR en það hlýtur að vera krafa fólks með erlendu lánin því höfuðstólshækkunin er tilkomin vegna þess að glæpamenn felldu krónuna viljandi, þessir glæpamenn voru í föllnu bönkunum og ganga því miður enn lausir en það er önnur saga.

Óskar (IP-tala skráð) 27.9.2009 kl. 13:37

21 identicon

Eruð þið að kaupa þetta rugl, afskrifa eftir 35 ár. Enn eitt rykið í augun á fólki

http://toti62.blog.is/blog/toti62/entry/955455



Þórður Ingvarsson (IP-tala skráð) 27.9.2009 kl. 14:09

22 Smámynd: Anna Margrét Bjarnadóttir

Ég er sammála þér Óskar. Þetta er engin lausn..... alveg eins og að maður átti von á frá Samfylkingunni.

Anna Margrét Bjarnadóttir, 27.9.2009 kl. 14:22

23 Smámynd: Kristinn Pétursson

Þetta er í rétta átt. Félagsmálaráðherra er samt ábyrgur fyrir lánum Íbúðalánasjóðs - og honum ber skylda til að sjá til þess að Íbúðalánasjóður afskrifi öll sín undirmálslán úr lánasafni sínu strax  á þessu ári -  en ekki eftir 30 ár.

Þegar lánasafn Íbúðarlánasjóðs hefur verið afskrifað (öll lán sem skráð eru yfir 95%  af söluverði fasteigna eig að afskrifast....

þá hefur myndast "afskriftarsjóður" hjá Íbúðalánasjóður - og þá er í raun skylt að afskrifa þessi undirmálslán  strax - hjá öllum sem eru með undirmálslán.

Það er engum greiði gerður með að "sjá til".... og það er lagalega hæpið að slíkt standist.

Að á að gera þetta strax - því annars er ríkisbókhaldið kolvitlaust - verðlaus undirmálslán - eru þá skráð sem "eignir" sem er falsbókhald hjá hinu opinbera.

Það  sem mér finnst merkilegast - er að þegar ráðherrar komast til valda - sem gagnrýna "útrásarliðið" fyrir að hafa veðsett loftbólur - og bankakerfið fyrir að hafa lánað út á "loftbólur"...

Af hverju á svo Íbúðalánasjóður að fá að skrá "loftbólur" í einu lánasafni..... hver er munurinn....???

Munurinn er bara sá - að bankarnir voru einkareknir - er ríkissjóður er ríkisrekinn....

Mér finnst þeir sem samþykkja að ríkissjóður meigi  skrá loftbólueignir (undirmálslán) sem "eignir" hjá Íbúðalánasjóði - sé u hugsanlega ekkert minna siðblindir en þeir sem veðsettu og lánuðu út á loftbólueignir hjá gömlu bönkunum....

Eða hver er munurinn??? 

Kristinn Pétursson, 27.9.2009 kl. 14:56

24 identicon

Heill og sæll Marinó; sem og þið önnur, hér á síðu !

Þakka þér; ágæta samantekt, sem oftar, síðuhafi góður.

En; ..... Marinó - Kristinn (hvern; við hljótum að bjóða velkominn, á ný, í spjallheima) og þið önnur, athugið !

Hvar; ég hygg ykkur enga flysjunga, að atgerfi, vil ég eindregið vara ykkur við fagurgala Árna Páls Árnasonar. Einhver; mesti fals hundur, hver á Alþingi situr, og hafa setið, og svona álíka trúverðugur, og vindhani - í logni, sem stormi, gott fólk.

Greiðslu verkfallið; er jafn brýnt, sem áður, og ekki hvað sízt, þegar svona spottarar, sem ÁPÁ, eru að blekkja ærlegt fólk.

Það er; búið að verða okkur dýrkeypt - loforða flóðið, frá Alþingi og Stjórnarráði, að undanförnu, gott fólk.

Því; er stjórnarbylting, með ÖLLUM tiltækum ráðum, svo brýn !

Með; hinum beztu kveðjum úr Árnesþingi, sem jafnan /

Óskar Helgi Helgason   

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 27.9.2009 kl. 15:56

25 Smámynd: Offari

Ég fagna alltaf góðum fréttum.

Offari, 27.9.2009 kl. 16:04

26 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég sat á þriggja tíma fundi með félagsmálaráðherra í dag.  Þar skýrði hann tillögur sínar.  Margt fróðlegt kom fram, en þær má bæta.  Við skulum vona að það takist. Umræðurnar voru mjög gagnlegar og ég vona að ráðherra hafi farið heim fróðari.  Við gerðum það að minnsta kosti.

Ekki má gleyma því að tillögur eða ráðstafanir stjórnvalda koma ekki í veg fyrir frjálsa samninga eða að fólk leiti til dómstóla.

Marinó G. Njálsson, 27.9.2009 kl. 19:42

27 identicon

Veistu hvenær tillögurnar verða formlega kynntar Marínó?

Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 27.9.2009 kl. 20:27

28 Smámynd: Páll Blöndal

Greiðsluverkfall er EKKI refsing fyrir bankana. Síður en svo.
Bankarnir eru troðfullir af peningum sem enginn vill fá lánaða.
Fólk er að taka okurlán (í formi yfirdráttar) með því að fresta greiðslu.
Svo fá bankarnir innheimtukatnaðinn greiddan í þokkabót.
Hvaða banki vill það EKKI í dag????

Páll Blöndal, 27.9.2009 kl. 21:28

29 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Bara til að bæta hér inn í umræðuna þá eru þessar tillögur afraksturinn af þrotlausri vinnu í Félagsmálaráðuneytinu frá því Árni Páll tók við því. Þessi vinna var því hafin löngu áður en farið var út í að boða greiðsluverkfall. Það hefur hins vegar gengið illa að fá lánastofnanirnar til að samþykkja þetta enda hafa forráðamenn þeirra reynt eins og þeir gátu í þeim samningaviðræðum að koma kostnaðinum af þessu yfir á skattgreiðendur.

Það er ekki langt síðan Árni Páll sagði á fundi hjá Samfylkingarfélaginu í Kópavogi að hann væri í vandræðum með að fá lánastofnanirnar til að taka þátt í aðgerðunum. Þessi samningur núna er því væntanlega til kominn vegna ákveðins viðsnúnigs í afstöðu bankanna og skal ég ekki útiloka að þar hafi boðað greiðsluverkfall eitthvað haft að segja. Því þó það sé alveg rétt, sem Páll Blöndal segir að bankarnir græða á greiðsluverkfallinu sjálfu þá rýrir það traust á fjármálastofnun ef hún er í stríði við sína viðskiptavini.

Án þess að vita það þá tel ég einnig að tilraunir skilanefnda bankanna til að fá erleda kröfuhafa til að verða aðeleigendur bankanna hafi eitthvað að segja. Ég efast um að kröfuhafarnir séu ginkeyptir fyrir því að verða meðeigendur í þessum bönkum meðan deilan um aðgerðir í þágu heimilanna er óútkljáð. Allavega myndi það ekki auka áhuga minn ef ég væri meðal kröfuhafa. Ég myndi gera kröfu um að það mál væri klárað allavega hvað varðar það hvaða kostnað bankinn, sem ég væri að fara að gerast hluthafi í ætti að bera í þeim aðgerðum áður en ég gæfi mitt svar.

Það verður aldrei hægt að gera svo öllum líki í þessu efni frekar en öðrum. Í þessu efni vil ég vitna í orð Jóns Daníelssonar í Silfri Egils um daginn þegar hann sagði að niðurstaðan í þessu máli yrði að taka mið af hagsmunum heimilanna, bankanna og ríkisins. Svo bætti hann við að umræðan undanfarið hafi um of miðast við hagsmuni heimilanna. Ég held að þessi lausn, sem Árni Páll virðist um það bil vera að ná samningum um við lánastofnanirnar geti verið slík nálgun við hagsmuni allra aðila.

Ég sjálfur hefði reyndar viljað gera meira fyrir þá, sem keyptu sína fyrstu íbúð í miðri íbúðaverðbólunni þó það myndi kosta skattgreiðendur eitthvað. Stefán Ólafsson talaði fyrir nokkrum um "týndu kynslóðina" í Finnlandi. Það er kynslóðin, sem kom úr skóla á atvinnuleysistímabilinu í kreppunni þar. Hún fékk ekki vinnu þegar hún kom út úr skóla af því að það var kreppa og mikið atvinnuleysi. Þegar síðan vinnumarkaðurinn fór að ráða fólk í stórum stíl á ný þegar það versta var búið þá fengu þeir, sem voru þá að koma úr skóla þá vinnu en ekki kynslóðin, sem var búinn að vera atvinnulaus í nokkur ár. Því eru í Finnlandi nokkrir árgangar með mjög hátt atvinnuleysishlutfall og virðist það ekkert vera að lagast. Stefán sagði að við þyrftum að læra af reynslu Finna og passa upp á að slíkt gerðist ekki hér.

Ef ekki er farið út í sérstakar aðgerðir fyrir kynslóðina, sem var að kaupa sína fyrstu íbúð í miðri íbúðaverðbólunni þá óttast ég að eftir að kreppunni linnir verði sú kynslóð kölluð "eignarlausa kynslóðin" því hún gæti orðið langt fram eftir aldri að koma sér upp í núllið. Eldri kynslóðir, sem voru búnar að njóta verðhækkananna á íbúðahúsnæði áður en bólan sprakk er ekki í sömu stöðu og tel ég því ekki ástæðu til að gera meira en lagt er til í tillögum Árna Páls fyrir þær.

Mér hugnast það illa ef næst þegar einhver þjóð lendir í alverlegri kreppu í kjölfar íbúðaverðbólu að þá tali félagsfræðingar þar um að menn verði að læra af mistökum Íslendinga og passa upp á að ekki myndist þar "eignarlaus kynslóð" eins og á Íslandi.

Sigurður M Grétarsson, 27.9.2009 kl. 21:59

30 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Sigurður, rétt er það að menn hafa legið yfir þessu í ráðuneytinu.  Verst er að þessar tillögur komu að mestu fram 7. október 2008 og það tók ráðuneytið allan þennan tíma að komast að sömu niðurstöðu og ég fyrir tæpu ári.  Þá lagði ég fram eftirfarandi tillögu:

  1. Íbúðalánasjóður yfirtekur lán að fullu hjá banka, sparisjóði eða lífeyrissjóði samkvæmt nánari ákvörðun ríkisstjórnar.
  2. Fundið er viðmiðunargengi/vísitala, sem láni er stillt í, fyrir lántakanda að greiða.
  3. Upphæð sem verður afgangs er sett til hliðar og geymd.
  4. Lántakandi greiðir af sínum hluta lánsins eins og áður og tekur þaðan í frá á sig vísitölu- eða gengishækkanir eða nýtur vísitölu- eða gengislækkana.
  5. Verði annað hvort mjög mikil styrking á krónunni/verðhjöðnun eða mikil kaupmáttaraukning, þá tekur lántakandi á sig stærri hluta lánsins.
  6. Stofnaður verði sjóður sem renna í einhverjir X milljarðar á ári, t.d. af fjármagnstekjuskatti eða söluandvirði bankanna þegar þeir verða seldir, og hann notaður til að afskrifa þann hluta lánanna sem er geymdur.

 (Sjá nánar Tillögur talsmanns neytenda, endurbirt 4.11. Hinn almenni borgari á að blæða og afutr 21.11 Færa þarf höfuðstól lánanna niður.)  Þegar ég afhenti Árna Páli þetta í dag, þá hló hann.  Málið er þó að ég held að mín útfærsla sé betri!

Ég held að það séu margar ástæður fyrir því að þetta er að skríða saman núna.  Fyrirhugað greiðsluverkfall er vonandi ein ástæða.  Mér er í sjálfu sér sama hvers vegna verið er að gera þetta núna og hver eignar sér heiðurinn.  Ég er sannfærður um að Hagsmunasamtök heimilanna verða dæmd af sínum verkum, ég af mínum og Árni Páll af sínum.  Hafir þú komið að þessari vinnu, þá ber að þakka það.

Ég vara þó við því að tillögurnar í núverandi mynd þarfnast nánari útfærslu.  Fólk mun ekki sætta sig við að stökkbreyttur höfuðstóll lánanna sé áfram fastur á eignum þess.  Það verður að finna lausn á því.  Er ég hræddur um að eigi að forðast að hér myndist "eignarlaus kynslóð" þá verður að leiðrétta þetta.  Eins held ég að betra sé að miða við kaupmátt, en launavísitölu.

Marinó G. Njálsson, 27.9.2009 kl. 22:18

31 Smámynd: Sigurbjörn Svavarsson

Sæll Marinó.

Það er með eindæmum hvað Árni Páll getur verið ósvífinn.

Tillaga hans um afborgun af gjaldeyrislánum m.v. mai 2008 er EKKI tillaga hans. Bankarnir hafa boðið viðskiptavinum sínum þessa lausn frá því í vor.

Hinsvegar þarf að koma til möguleiki á tengingu þeirra afborganna við greiðslugetu heimilanna og útfærsla á afskriftum af því sem umfram er stöðu lánanna m.v. í mai 2008. Ekki að það verði óljós loforð sem ekki halda.

Sigurbjörn Svavarsson, 27.9.2009 kl. 22:47

32 Smámynd: Anna Margrét Bjarnadóttir

Þið standið ykkur rosalega vel Marínó og Þórður og þið hin hjá Hagsmunasamtökum heimilanna. Ég er sammála því að það verður að leiðrétta höfuðstól lánanna. Það er það sem að maður hnýtur strax um í tillögum Árna Páls. Ég vona að stjórnvöldum beri gæfa til með ykkar hjálp að finna farsæla lausn sem að sátt getur skapast um, þannig að raunveruleg leiðrétting verði á heimilislánunum.

Anna Margrét Bjarnadóttir, 27.9.2009 kl. 22:51

33 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Sigurbjörn, ég held að menn hafi viljað aðra dagsetningu, en vegna þess að þetta hefur verið í boði frá því snemma á þessu ári, þá hafi þetta verið lendingin.

Marinó G. Njálsson, 27.9.2009 kl. 22:51

34 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Helstu ástæðurnar fyrir því að það verður að leiðrétta höfuðstól verðtryggðra lána, eru að verðbætur reiknast ofan á höfuðstólinn.  20% of hár höfuðstóll tekur því á sig 20% auka verðbætur, vextir reiknast út frá stöðu verðbæst höfuðstóls og veðrými takmarkast af uppreiknaðri stöðu höfuðstóls.  Afborgunarhluti höfuðstólsins er í flestum tilfellum óverulegur, en vextirnir eru það ekki.  Afborgunarhlutinn hækkar kannski úr 12.000 í 13.000 á mánuði, en vextirnir fara á sama tíma úr 42.000 í 50.000 kr.  Síðan koma vextir á verðbætur og verðbætur á vexti!

Marinó G. Njálsson, 28.9.2009 kl. 00:15

35 identicon

Ég tek undir það að þetta lofar góðu, en verð þó að taka fram að en sem komið er orkar þetta eins og publicity stunt til þess að taka kraftinn úr ykkar aðgerðum 1.okt.

Framsetningin er öll mjög vafasöm, staður og stund sem og orðalagið sem er eflaust vel úthugsað, eftirstöðvar verði afskrifaðar í lok lánstíma, hljómar furðulega.

Það borgar sig því ekki fyrir HH að blása sínar aðgerðir af strax held ég.

sandkassi (IP-tala skráð) 28.9.2009 kl. 03:33

36 identicon

Ef þeir færa lánið aftur til 1. maí 2008 hvernig ætla þeir að reikna inn mánaðarlegar afborganir mínar af höfuðstól á þessum tíma. Í sjálfu sér lítur þetta út eins og stór greiði fyrir þá sem eru með löng lán t.d -40 ára lán.

En ef litið er á þetta m.t.t styttri lána þá gefur augaleið að taka þarf tillit til afborgana sem hafa verið greiddar á tímabilinu 1.maí til dagsins í dag. T.d er með 3 ár eftir af verðtryggða bílaláni mínu. Þann 1. maí 2008 var staðan á láninum um 200.000 kr hærri en staðan er á því í dag..hef samt orðið fyrir sömu skakkaföllum og aðrir vegna verðbóta. En staðan er lægri vegna þess að á þessum tíma hef ég greitt mánaðarlega af láni mínu.

Er hugsunin sem sagt kanski að gera lítið úr þeim afborgunum sem gerðar hafa verið til dagsins í dag (læt þær fjúka út í buskann)  því þær höggva svo lítið á höfustól á svona löngu láni?

Dísa (IP-tala skráð) 28.9.2009 kl. 12:34

37 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Marinó. Þessar tillögur þínar frá 7. október 2008 en mjög góðar. Þær eru hins vegar ekki alveg í samræmi við það, sem þú hefur síðan talað fyrir í samræmi við kröfugerð HH. Það er ekki núna, sem félagsmálaráðherra er að komast að þessari niðurstöðu. Það er núna, sem honum er að takast að landa samningi við lánastofnanirnar um að hrinda þeim í framkvæmd. Ég er þess fullviss að ráðherran hefur viljað ganga lengra til móts við heimilin en þetta en ekki komist lengra með bankana.

Það að þessar tillögur eru niðurstaða samningaviðræðna við bankana er væntanlega ein af ástæðum þess að niðurstaðan er að einhverju leyti í samræmi við það, sem sumir bankar hafa verið að gera en er ekki tilefni til að gera lítið úr ráðuneytinu fyrir það eins og einn er að gera hér að ofan.

Ég er sammála þér að það þarf að gera betur á nokkrum sviðum og þá ekki bara varðandi þá, sem voru að kaupa sína fyrstu íbúð í miðri íbúðaverðbólunni eins og ég hef talað fyrir. Það þarf að hnýta nokkra enda ef loforð um afskriftir í lokin á að halda.

Fyrsta og róttækasta hugmyndin, sem mér dettur í hug er að samhliða því að þetta er gert frá 1. nóvember á sama tíma og bann við nauðungarsölum dettur út að þá verði öll vanskil á lánunum bætt við höfuðstólinn. Þannig gætu þeir, sem eru komnir í vanskil í mörgum tilfellum séð fram úr vandanum. Hann breytist úr vonlausri stöðu í erfiða stöðu. Ef þetta er ekki gert þá er hætt við að það fólk, sem er í vanskilum en gæti ráðið við greiðslubyrði lánanna með þessari lækkun á greiðslubyrði haldið kreppuna út. Ef þetta er ekki gert þarf þetta fólk að skuldbreyta lánunum eftir ákveðin tíma til að geta komist í skil og ef það fellst í því að borga upp gamla lánið með nýju láni er verið að greiða biðreikningin upp og þar með er ekki von á neinni afskrifta af honum síðar.

Það ætti ekki að felast mikill kostnaður í þessu enda vanskilin hvort eð er ekki inni í húsi hjá fármálastofnununum. Þetta gæti hins vegar komið í veg fyrir holskeflu nauðungaruppboða eftir 1. nóvember. Þetta gefur mönnum líka meri tíma til að taka á málum þeirra, sem eru í verstu málunum og gæti því fjölgað þeim, sem hægt er að hjálpa út úr vandamnálunum þó að sjálfsögðu verður aldrei hægt að hjálpa öllum.

Annað, sem þarf að negla niður er réttur lántaka til að flytja lánið yfir á aðra íbúð þegar hann skiptir um úbúð ásamt því að réttur sé til að láta kaupanda taka lánið yfir eins og það er þannig að hann fái afskrftina ef einhver verður í lokinn. Það gæti þá aukið verðmæti eða liðkað fyrir sölu hennar ef slíkt lán fylgir með íbúðinni.

Einnig þarf að tryggja rétt lántaka til að lengja í láninu síðar meir en fá samt niðurfellingu á upphæð á biðreikningi þegar upphaflegur lánstími er liðinn. Þetta er nauðsynlegt vegna þess að ef lántaki er að skipta yfir í stærri íbúð þegar til dæmis 10 eða 15 ár eru eftir af láninu þá er hann að auka greiðslubyrði sína og getur þurft að fara yfir viss sársaukamörk hvað það varðar. Í slíku tilfelli verður greiðslubyrgðin hærri ef gamla lánið er tekið með heldur en ef það er greitt upp með nýju 40 ára láni. Því gæti kauandinn þurft að fara þá leið til að ráða við greiðslubyrðina og þannig afsala sér afskrift biðlánsins eftir 10 til 15 ár. Þetta þyrfti hann ekki að gera ef hann gæti lengt i gamla láninu án þess að missa af afskriftinni þegar upphaflegum lánstíma þess lýkur.

Síðast en ekki síst þarf að tryggja að ef skipt er yfir í Evrur hér á landi áður en lánstími þessara lána lýkur þá missi menn ekki rétt á þessum afskriftum þó lánið fari yfir í Evrulán.

Ég skora á Hagsmunasamtökum heimilanna að vinna að því að koma þessu inn frekar en að slá þetta út af borðinu og halda fast í kröfuna um afskriftir. Það þarfr ekki að kasta þeirr kröfu út þó það sé gert heldur er aðeins eingaldlega hægt að segja að þrátt fyrir að ekki sé orðið við henni í þessum tillögum þá vilja HH leggja sitt lóð á vogaskálarnar til að þetta samkomulag verði til að bæta stöðu heimilanna eins og kostur er.

Ég verð því miður að bera af már allan heiður af því að hafa komið nálægt þessu samkomulagi stjórnvalda og bankanna. Ég hef fylgst með þessu en hef ekki komið á neinn hátt nálægt framvæmdinni.

Sigurður M Grétarsson, 28.9.2009 kl. 22:22

38 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Sigurður, hugmyndir Hagsmunasamtaka heimilanna voru mótaðar áður en ég kom þar að.  Þær voru niðurstaða vinnu margra einstaklinga.  Ég taldi mig alveg geta stutt þær og geri það, en hef alltaf sagt að þær þyrfti að útfæra.  Stærsti munurinn á mínum tillögum frá 7. október 2008 og tillögum HH, er sú hugsun að opnað er fyrir það að afskrift sé ekki endanleg.

HH munu taka afstöðu til tillagna félagsmálaráðherra, þegar þær liggja fyrir.  Verði þær fullnægjandi að okkar mati, munum við vafalaust styðja þær.  Annars munum við líklegast leggja til breytingar til að styrkja þær.  Verði þær gjörsamlega vonlausar, þá munum við bara segja okkar skoðun.  Vinur er sá sem til vamms segir, ekki satt.  Eitt er alveg víst, við munum taka okkur tíma áður en við gefum frá okkur okkar skoðun. 

Marinó G. Njálsson, 29.9.2009 kl. 01:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 3
  • Sl. sólarhring: 125
  • Sl. viku: 686
  • Frá upphafi: 1677708

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 51
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband