Leita í fréttum mbl.is

Tölur Seðlabankans geta ekki staðist

Seðlabankinn hefur birt sinn stóradóm um skuldastöðu "þjóðarbúsins" við útlönd.  Hvernig sem á því stendur, þá eru þetta allt aðrar tölur en hafa verið aðgengilegar á vef Seðlabankans og það sem meira er, að torvelt er að bera tölurnar saman.  Fyrir því geta verið góðar og gildar skýringar, en þær koma ekki fram í greinargerð SÍ.

Mig langar að bera tölurnar í minnisblaði Seðlabankans saman við tölur sem ég birti í gær um skuldastöðu þjóðarbúsins og fengnar voru af vef Seðlabankans:

Erlendar skuldir og vextir

 13.7.2009
 Í minnisblaði

M.kr.

2009, mars

2009, mars/maí

Seðlabankinn

288.727

með næsta lið

Hið opinbera

541.214

767.000

Innlánsstofnanir aðrar en gömlu bankarnir

2.214.542

vantar

Aðrir geirar

1.022.462

1.322.000

Bein fjárfesting

416.387

590.314

Erlendar skuldir, alls annarra en gömlu bankanna

4.483.332

ekki hægt að reikna út

Erlendar skuldir án innlánsstofnana

2.268.790

2.679.000

Erlendar skuldir án innlánsstofnana í greiðslustöðvun og gömlu bankanna
 

maí 2009

2.811.900

Erlendar eignir, alls annarra en gömlu bankanna

2.794.801


Erlendar eignir án innlánsstofnana í greiðslustöðvun og gömlu bankanna
 

maí 2009

2.860.794

Nettó staða - skuldir umfram eignir

1.688.531

óljóst

   

Verg landsframleiðsla (VLF) 2008

1.465.065

1.465.065

Hlutfall skulda af VLF 2008

306%

óljóst

Gjaldeyristekjur 2008

655.053

655.053

Hlutfall skulda af gjaldeyristekjum 2008

684%

óljóst

Allt eru þetta tölur sem fengnar eru frá Seðlabankanum, nema tvær (þ.e. VLF og gjaldeyristekjur) sem fengnar eru frá Hagstofu, auk þess sem ýmsir útreikningar eru mínir.

Ég veit ekki hvort þetta er viljandi gert hjá Seðlabankanum að vera ekki með samanburðarhæfar tölur.  Ég veit heldur ekki hvers vegna bankinn kýs að líta svo á, að erlendar skuldir fjármálastofnana, sem eru undir umsjón FME, komi heildarskuldum þjóðarbúsins ekkert við.  Þar til búið er að ljúka skiptum þessara fyrirtækja, þá eru þetta skuldir þjóðarbúsins.  (En sé það rétt, að Straumur, Sparisjóðabankinn og SPRON hafi skuldað 2.200 milljarða í útlöndum án þess að vera með verulegar eignir á móti, þá var það því miður nauðsynlegt fyrir þjóðarbúið að setja þessa þrjár fjármálastofnanir í þrot.)

Ég fullyrði í fyrirsögninni að staðan sé mun verri og stend við það.  Ástæðan fyrir þessari fullyrðingu minni byggir fyrst og fremst á því, að við verðum að eiga til gjaldeyri til að greiða fyrir allar skuldbindingar okkar.  Seðlabankinn sýnir á mjög fallegan hátt í töflu 2 Greiðsluflæði gjaldeyris í minnisblaðinu hvernig bankinn telur að gjaldeyrir muni flæða inn í landið og gerir ekki ráð fyrir að hann flæði jafn fyrirhafnar lítið úr landi.  T.d. gerir bankinn ráð fyrir 20% jákvæðum jöfnuði varðandi gjaldeyristekjur á ári stóran hluta spátímabilsins, þrátt fyrir að stækkað verði í Straumsvík og byggt álver í Helguvík með tilheyrandi virkjanaframkvæmdum.  Annað hvort þarf ekki að flytja inn nein aðföng vegna þessara framkvæmda eða þau kosta sama og ekki neitt.  Þá er ekki hægt að sjá í tölum Seðlabankans að greiða þurfi allt of mikið af erlendum lánum þjóðarbúsins öðrum um skuldum opinberra aðila.  Í töflu 1 Erlendar eignir og skuldir þjóðarbúsins er t.d. gert ráð fyrir að erlendar skuldir hins opinbera lækki um 796 milljarða á tímabili frá 2009 - 2018, en ekki gert ráð fyrir að "opinber fyrirtæki og einkaaðilar" greiði skuldir sínar niður um nema 57 milljarða á þessum 9 árum og að ekkert erlent fé sem ávaxtað er hér á landi fari úr landi.

Þessi sýn Seðlabankans getur ekki gengið nema tvennt komi til:  Gert er ráð fyrir að gjaldeyrishöft og innflutningshöft verði viðvarandi allan tímann.

Það er tómt mála að tala um, að íslenska þjóðarbúið geti staðið undir erlendum skuldum sínum með þær gjaldeyristekjur sem gert er ráð fyrir í tölum Seðlabankans.  Skiptir þá engu máli hvort við þurfum að greiða Icesave eða ekki.  Hvernig Seðlabankanum dettur í hug að gera ekki ráð fyrir neinum niðurgreiðslum sem heitið geta á erlendum lánum opinberra fyrirtækja og einkaaðila á 9 ára tímabili er mér hulin ráðgáta.  Eða að hann geri ráð fyrir að erlendir eigendur innlendra verðbréfa (ríkisskuldabréfa, jöklabréf og raunar bankainnistæðna líka) hafi þolinmæði til að bíða í 9 ár með 728 milljarða bundna hér á landi.  Hafa menn eitthvað fyrir sér varðandi þetta eða gleymdu menn að reikna með þessu?

Svona í lokin:  Mér finnst að gera megi þá sjálfsögðu kröfu til Seðlabankans að menn samlesi upplýsingar áður en svona skjal er birt. T.d.  er gjaldeyrisstaða SÍ/gjaldeyrisvarasjóður sögð verða 673, 986, 845, 956 og 956 milljarðar fyrir árin 2009-2013 í töflum 1 og 2, en 586, 826, 616, 596 og 548 milljarðar í fylgiskjali 3.  Þetta er því miður allt of algengt hjá Seðlabankanum og er eins og hver starfsmaður (eða deild/svið) noti sína aðferð við að reikna út tölur og setja þær fram, þannig að gögn eru ekki samanburðarhæf milli skjala. 


mbl.is Skuldin 340 milljarðar 2015
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Það verður að umgangast þessar tölur með varkárni og vera nákvæmur í því hvað átt er við hverju sinni.  Skuldir ríkisins eru t.d. einn þáttur og skuldir þjóðarbúsins annar, fólk ruglar þessu oft saman.  Síðan er ekki sama hvort átt er við nettó eða brúttó skuldir.  Lánin frá AGS sitja til dæmis inni á reikningi hjá Federal Reserve Bank of New York og verða aðeins notuð til að kaupa krónur, sem vonandi er hægt að breyta aftur í gjaldeyri (en besta leiðin til þess er að ganga í ESB og taka upp evru).  Þar er því peningaleg eign á móti skuldinni.

En það er alveg 100% á hreinu að skuldir gömlu bankanna eru ekki skuldir ríkisins og ríkið ber enga ábyrgð á þeim (utan innistæðutrygginga vegna Icesave).  Við uppgjör þrotabúanna ganga eignir bankanna á móti þessum skuldum og restin tapast einfaldlega. Skuldirnar falla þá burt úr reikningum þjóðarbúsins og sjást ei meir.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 15.7.2009 kl. 18:24

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Vilhjálmur, vertu viss um að þessar tölur eru meðhöndlaðar af varúð.  Þetta snýst ekki um hvers skuldin er heldur hvaða skuldir þjóðarbúsins þarf að gera upp í erlendum gjaldeyri.  Það er t.d. ekki útilokað að einhvern hluta skulda gömlu bankanna þurfi að gera upp í erlendri mynt, þó undirliggjandi eign sé í íslenskum krónum.  Mér finnst t.d. alvarlegur hlutur að Seðlabankinn gerir ekki ráð fyrir að lítið sem ekkert verði greitt af skuldum upp á um 1.700 milljarða á þessu tímabili.

Marinó G. Njálsson, 15.7.2009 kl. 19:18

3 identicon

Já, er ekki best að allir segi satt og rétt frá !

Hvað eru það margir einstklingar, allir með hásólagráður , sem eru búnir að reyna segja sömu söguna, en því miður virðist engin skilja það sem þeir voru að reyna að segja ?

Eða er saga þessara einstaklinga bara kjaftasaga, sem ekki er fótur fyrir ?

Hvort talan er sögð úr þjóðarbúinu eða bara úr skuldum ríkisins !!!

Já, það virðast ýmsir kunna að koma sinni ár fyrir borð , og það til að fá launatekjur fyrir !

JR (IP-tala skráð) 15.7.2009 kl. 19:43

4 identicon

Ég hlutaði á útlenskan seðlabankastjóra sem var ráðinn af Jóhönnu og í því ljósi verður að skoða svör hans. - Hann sagði t.d. að Íslendingar hefðu alltaf greitt skuldir sínar. Hann ruglar saman Evru og gengi. Ísland verður að greiða með Evru það skilur hann ekki samkvæmt svörum hans. - Hann bullar eins og pólitíkusar. - T.d. eru fjöldi manna gjaldþrota, sem alltaf hafa greitt skuldir sínar o.s frv., en geta það ekki núna. - Að við skulum þujrfa að hlusta á enn einn pólítíkus í seðlabankastóli eftir allt sem hefur gengið yfir okkur. 

Guðmundur Guðmundsson (IP-tala skráð) 15.7.2009 kl. 19:57

5 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Marinó, ef við göngum í ESB og tökum upp evru þá verður enginn greinarmunur á skuldum í krónu og í erlendum gjaldeyri...

Vilhjálmur Þorsteinsson, 15.7.2009 kl. 20:24

6 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Vilhjálmur, það er alveg rétt, en til þess að geta tekið upp evru, þá verður samkvæmt núverandi skilmálum að vera kominn stöðugleiki á í efnahagsmálum, þ.m.t. erlendum skuldum þjóðarbúsins.  Ég benti sjálfur á þetta í færslunni Icesave er slæmt, en ekki stærsta vandamálið, þannig að ég átta mig á þessari leið.

Samkvæmt því sem Höskuldur Þórhallsson sagði á Bylgjunni í morgun, þá var Seðlabankinn beðinn um að taka þessar tölur saman eftir heimsókn mína og Haraldar Líndals Haraldssonar á fund fjárlaganefndar.  Við vildum vekja athygli á þessari stöðu og jafnframt benda á að þessir peningar verða EKKI sóttir í vasa heimilanna.

Marinó G. Njálsson, 15.7.2009 kl. 20:30

7 Smámynd: Róbert Viðar Bjarnason

Varðandi skuldir gömlu bankanna. Var ekki til dæmis verið að borga Edge reikninga Kaupþings til Þýskalands með gjaldeyrisforða Seðlabankans seinustu 4 vikur og það hafði veruleg áhrif á krónuna?

Allavega sagði RÚV það í fréttum 8. Júli ...330 milljónir Evra sendar í gegnum Seðlabanka Íslands vegna Edge reikninga og þetta hafi haft veruleg áhrif á gjaldeyrisforðann.

http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4467289/2009/07/08/4

Róbert Viðar Bjarnason, 15.7.2009 kl. 20:35

8 identicon

Held að þetta sé rétt greining hjá þér Marínó, held að við erum í alveg hræðilegri aðstöðu og umræðan er ekki ennþá komin þangað.

Þjóðarframleiðslan er að dragast saman vegna lækkunar á fiskverði, álverði auk þess hefur hrunið haft bein og óbein áhrif til að lækka þjóðarframleiðslu.

Krónan kemur ekkert til með að hækka neitt á næstunni og ef hún hækkar um 30% fara bankarnir aftur yfurum.

Í raun munu bankarnir standa þeir ákaflega tæpt þrátt fyrir endurfjármögnun enda liggur eignabólan sem hefur blásist upp af innistæðulausri bjartsýni og greiðum aðgangi að lánsfé en hafði og hefur engin tengsl við greiðslugetu almennings, þetta er að springa. Munum amerísku "subprime" lánin sem komu af stað þessari alþjóðlegu kreppu og núna er þetta sprengjan sem við höfum ennþá í farteskinu og sem er ennþá ósprungin á Íslandi. Þetta ógnar veðhæfni og fjárhag heimila og greiðslugetan er hjá mörgum eins og yfirstrektur bogastrengur og getur auðveldlega blásið endurfjármögnuðu bankakerfi um koll í annað skiptið.

Auðvitað er það sjálfgefið að erlend lán þarf að borga í erlendri mynt og það þarf gríðarlega hagstæðan viðskiptajöfnuð sem annað hvort eða bæði þarf að vera fjármagnaður með auknum útflutningi og/eða gríðarlegri minnkun á innflutningi. Klárlega hefur lækkun á krónugengi minnkað innflutning en það sem ég hef áhyggjur af er að þessi jákvæði viðskiptajöfnuður hefur eingöngu verið kostaður á minnkuðum innflutningi. Útflutningsverðmætið hefur dregist saman um 20-25% á síðusta 1/2 ári.

Það er mikilvægt að meta stöðuna rétt og ekki vera að slá höfðinu í steininn og vera að reyna að rétta vonlausa skuldstöðu. Leita eftir nauðasamningum ef það er eina leiðin.

Gunnr (IP-tala skráð) 15.7.2009 kl. 20:53

9 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Gunnr, þú ert nú búinn að vara við því lengi að þetta sé staðan og núna er það komið fram svart á hvítu frá Seðlabankanum.  En Seðlabankinn er, eins og aðrir opinberir aðilar, ekki einu sinni tilbúinn til að viðurkenna í þessu minnisblaði sínu hver heildarstaðan er.  T.d. það að fela sig bak við einhverja skýringu á því hvað teljast skuldir þjóðarbúsins og hvað ekki, finnst mér bara vera klór.  Eins og ég segi að ofan, það sem skiptir máli er hvað þarf að greiða með dýrmætum gjaldeyri.  Það getur vel verið að einhverjir erlendir lánadrottnar tapi kröfum sínum á íslensk einkafyrirtæki, þ.m.t. gömlu bankana, SPRON, Straum og Sparisjóðabankann, en sumt af því sem tapast ekki er varðveitt í eignum/kröfum í íslenskum krónum og til þess að þetta fé komist úr landi þarf að skipta því yfir í erlendan gjaldeyri.  Meðan það ástand ríkir mun krónan ekki styrkjast, eins og kemur fram í spá Seðlabankans.  Gengisvísitala upp á í besta falli 210-230 virðist vera það sem við horfum upp á næstu 10-15 ár.

Marinó G. Njálsson, 15.7.2009 kl. 21:32

10 Smámynd: Björn Heiðdal

Ef ég skil þetta rétt þá þarf að borga erlend lán með gjaldeyri.  En þegar það er gert lækkar gengið á krónunni enda um verulegar fjárhæðir að ræða.  Gengislækkun þýðir síðan að fleiri kónur þarf til að borga lánin.  Sem aftur hefur áhrif á skuldastöðu ríkis/fyrirtækja og lækkar lánshæfi.  Lækkað lánshæfi þýðir verri kjör eða alls engin kjör.  Hærri vaxtagreiðslur soga síðan aura frá lífvænlegum fyrirtækjum.  Fjöldagjaldþrot hafa  í för með sér tekjutap fyrir allt þjóðfélagið o.s.fr.  Endalaus vítahringur sem stjórnvöld halda gangandi með hjálp AGS og erlendra bankajöfra.

Getur verið að Marínó og félagar séu í baráttu við vindmillur og drauga.  Þurfa þeir að fljúga til útlanda til að hitta herra þessa lands?

Björn Heiðdal, 15.7.2009 kl. 22:43

11 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Björn, ég hef svo sem lengi hugleitt það, að best væri að leysa vandamál íslenskra heimila með samningum við erlenda lánadrottna.  Menn sem þekkja til hinna erlendu aðila hafa ráðið mér frá því.

Hvort lánshæfismatið lækki eða ekki veit ég ekki.  Hitt sýnist mér liggja í loftinu, að hér þarf að koma á hafta og skömmtunarkerfi, eins og kynslóðir foreldra minna og afa og ömmu bjuggu við hér á árunum eftir stríð.  Allt stefnir í að sækja þurfi um leyfi fyrir öllum innflutningi og greiða hann upp í topp áður vara verður send til landsins.  (Þetta síðara er þegar farið að gerast.)

En fátt er svo með öllu illt að eigi boði nokkuð gott.  Það sem líklegast mun koma út úr þessu er að við munum snúa okkur aftur að innlendri framleiðslu.  Fataiðnaður, matvælaiðnaður og annar framleiðsluiðnaður mun rísa úr öskustónni.  Með krónuna jafn veika og raun ber vitni verður hagkvæmara að rækta grænmeti hér á landi en flytja það inn.  Þannig að í hverjum vanda felast tækifæri og nú þurfa stjórnvöld, samtök atvinnulífsins, samtök sjávarútvegsins og samtök bænda að taka höndum saman um það hvernig við getum unnið okkur út úr þessu.

Marinó G. Njálsson, 15.7.2009 kl. 23:01

12 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Af gefnu tilefni og í ljósi sögunar og reynslunnar þá treysti ég ekki seðlabankanum. Treysti frekar allmennri skynsemi og raunsæi hins almenna bloggara eins og Marínós.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 15.7.2009 kl. 23:07

13 Smámynd: Billi bilaði

Enn ein góð greinin.

Ég skil svo ekki athugasemdir Vilhjálms í samhengi við greinina. Þær virka á mig (eftir að hafa rennt yfir þó nokkur blogg) eins og að EB sinnar hafi það að markmiði að hamra á inngöngu í EB án nokkurra raka og koma því í athugasemdir á sem flestum bloggum.

Billi bilaði, 16.7.2009 kl. 00:44

14 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Samkvæmt frétt á visir.is (Endurfjármögnun erlendra skulda gæti orðið nokkuð torsótt) er hagdeild Landsbankans sammála mér í því að óraunhæft sé að ekki verði greitt meira niður af lánum opinberra fyrirtækja og einkaaðila.

Marinó G. Njálsson, 16.7.2009 kl. 09:08

15 Smámynd: Marteinn Unnar Heiðarsson

Vilhjálmur það er alveg merkilegt hvað þið ESB sinnar tilbiðjið ESB endalaust og að það sé það eina sem getur bjargað okkur!!!Ég get nú ekki séð að þau lönd sem komu skríðandi inn um fögur loforð frá ESB samanber Eistland og Litháen þar er allt á niðurleið þeir eru fasttengdir EVRU og geta ekkert gert til að bjarga löndum sínum.Sama held ég að staðan yrði hér við aðild að ESB.Og tala um að taka upp EVRU bara sisvona er bull í ykkur EVRA er ekkert á leiðinni hingað á næstu árum en það viljið þið ekki skilja,svo er annað þú færð bara ekki EVRU fyrir ekkert hún kostar og það miðast við hvað EVRA mun kosta á móti KRONUM verða 160-250 eða 300 hundruð ´KRONUR á móti 1 EVRU og það eru ekki við sem munum ráða því gjaldi heldur verður það ESB þar sem þið ESB sinnar verðið búnir að afhenda ESB fullveldinu okkar.

Hafið skömm fyrir

Marteinn Unnar Heiðarsson, 16.7.2009 kl. 09:33

16 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Hafsteinn og fleiri: eftir að aðildarumsókn hefur verið samþykkt getur aðlögunarferli að evrunni hafist.  Fyrst förum við í gegn um ERM II ramma (þar sem Danir hafa kosið að halda sig) þar sem ECB hjálpar til við að halda gengi krónunnar innan 15% vikmarka frá því skiptigengi sem ákveðið verður.  Þegar ERM II aðlögun lýkur og við höfum uppfyllt skilyrði um vexti, verðbólgu og fjárlagahalla, verður öllum krónum í umferð skipt út fyrir evrur í boði ECB.  Það þarf ekki beinlínis að "kaupa" evrurnar, allar krónur eru einfaldlega teknar úr umferð og evrur settar í staðinn.  Eftir það er vitaskuld enginn greinarmunur á "innlendum" og "erlendum" skuldum, þær eru allar í sama gjaldmiðli og tekjur þjóðarinnar og skatttekjur ríkissjóðs.

Og svo bendi ég á að það er íslenskum skuldurum í hag að skiptin verði á tiltölulega veiku krónugengi.  Það þýðir að fólk mun skulda færri evrur en ella.

Síðan bendi ég á að skv. tölum Seðlabankans verður hrein skuldastaða ríkissjóðs og Seðlabanka 44% af VLF í lok 2010 (sveitarfélög eru ekki með í þeirri tölu).  Heildarskuldir þjóðarbúsins alls, þ.e. að meðtöldum sveitarfélögum, orkufyrirtækjum og einkafyrirtækjum, verður í lok sama árs 2.953 milljarðar sem er sirka 200% af VLF, en á móti þeim skuldum standa eignir á borð við gjaldeyrisforða (986 milljarðar) og eignir lífeyrissjóða (476 milljarðar), og svo eignir Landsbankans sem ganga upp í Icesave og eru metnar á 322 milljarða miðað við 75% endurheimtuhlutfall.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 18.7.2009 kl. 01:14

17 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Afsakið, "Hafsteinn" átti að vera "Marteinn".

Vilhjálmur Þorsteinsson, 18.7.2009 kl. 01:14

18 Smámynd: Billi bilaði

Hér er niðurlagið úr pistli Marínós: "Svona í lokin:  Mér finnst að gera megi þá sjálfsögðu kröfu til Seðlabankans að menn samlesi upplýsingar áður en svona skjal er birt. T.d.  er gjaldeyrisstaða SÍ/gjaldeyrisvarasjóður sögð verða 673, 986, 845, 956 og 956 milljarðar fyrir árin 2009-2013 í töflum 1 og 2, en 586, 826, 616, 596 og 548 milljarðar í fylgiskjali 3."

Vilhjálmur, getur þú útskýrt fyrir mér af hverju þú tókst tölu tvö (986) af 10 tölum í boði (þar af aðeins tveimur samhljóðandi) og notaðir í þitt svar kl. 01:14?

Billi bilaði, 18.7.2009 kl. 02:10

19 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Vilhjálmur, þú segir að heildarskuldir þjóðarbúsins verði 2.953 milljarðar.  Það er vissulega alveg í samræmi við tölur Seðlabankans, við megum ekki gleyma því að menn líta viljandi framhjá þeim skuldum fjármálakerfisins (þ.e. fallna hluta þess) sem eru í erlendri mynt, en eignirnar á móti eru í íslenskum krónum.  Þessi tala hleypur á nokkrum þúsundunum milljarða.  Af hverju skipta þessa skuldir máli?  Jú, það þarf að skipta þeim yfir í erlendan gjaldmiðil á einum eða öðrum tímapunkti og myndar því þrýsting á krónuna.

Varðandi það að skuldir verði fluttar yfir í evru á veikri krónu, þá gildir það líka um tekjur.

Billi, talan 986 milljarðar er talan sem gildir fyrir viðmiðunarárið sem Vilhjálmur tekur, þ.e. 2010.  Ég á móti stórefast um að gjaldeyrisvaraforðinn verði einhvers staðar nálægt þeirri tölu eftir 18 mánuði.  826 milljarðar er nær lagi (sem Seðlabankinn gefur líka upp), jafnvel það finnst mér vera bjartsýnt.

Marinó G. Njálsson, 18.7.2009 kl. 11:09

20 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Billi, stóra óvissan í gjaldeyrisforðatölunni er viðmiðunargengi krónunnar.  Forðinn er að sjálfsögðu í erlendri mynt og þarf að margfalda hann með gengi krónunnar til að fá stöðuna í krónum.  Því veikari króna, því "stærri" forði í krónum, og öfugt.  En skuldirnar breytast að sjálfsögðu einnig í krónum miðað við gengið.  Í raun væri einfaldast og skýrast að tala um þessar stærðir í evrum, krónan er margfeldisþáttur sem enginn veit hvar verður - fyrr en stefnan hefur verið sett á tiltekið skiptigengi yfir í evru.

Tölurnar sem ég nefni eru úr umfjöllun Morgunblaðsins, þar sem heimildir eru Seðlabanki Íslands og fjármálaráðuneytið.

Marinó, ertu með tölur um að það sé veruleg gjaldeyrisskekkja í eignum og skuldbindingum gömlu bankanna?  Höfum í huga að það er ekki búið að gefa út skuldabréfin sem nýju bankarnir skulda þeim gömlu. Varðandi útgreiðslu vegna Kaupthing Edge, þá þarf hún ekki að sýna annað en að þrotabúið hafi átt meira af krónum handbærum en gjaldeyri, en það þarf ekki að þýða að það sama gildi um langtímaeignir búsins (útlánasöfn o.s.frv.), þau geta verið að meirihluta í gjaldeyri.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 18.7.2009 kl. 12:31

21 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Vilhjálmur, við höfum upplýsingar um skuldir innlendra aðila í gengisbundnum lánum sem skilin verða eftir í gömlu bönkunum.  Það af þessum lánum sem ekki verður afskrifað þarf að greiða til erlendra kröfuhafa í erlendum gjaldeyri.  Við erum að tala um á bilinu 2.000 - 4.000 milljarðar eftir innheimtu, ef ekki meira.  Þessar tölur koma hvergi fram útreikningum Seðlabankans.

Nei, ég er ekki með nákvæmar tölur, vegna þess að þær hafa ekki verið birtar nema að hluta.  Bestar upplýsingar hafa fengist frá Kaupþingi.  Á Ólafur Garðarsson og lið hans þakkir skildar fyrir góða og mikla upplýsingagjöf, sem hinir mættu taka sér til fyrirmyndar.

Marinó G. Njálsson, 18.7.2009 kl. 14:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband