Leita í fréttum mbl.is

Reglugerð um skattfrelsi eftirgjafar skulda nýtist ekki öllum

Fjármálaráðuneytið hefur gefið út reglugerð um skilyrði þess að eftirgjöf skulda manna utan atvinnurekstrar teljist ekki til tekna o.fl. nr. 534/2009. Full ástæða er að fagna hugsuninni sem liggur að baki reglugerðinni og verður hún mikil réttarbót fyrirfjölmarga skuldara.  En eingöngu þá sem eru í verstri stöðu!  Skilinn er eftir stór hópur skuldara sem hefur mátt þola mikinn órétt vegna stjórnlausrar hækkunar á höfuðstóli lána langt umfram það sem forsendur lánasamninga gerðu ráð fyrir.  Til þess að njóta skattfrelsisins á sanngjarnri leiðréttingu lána, þá verður fólk nefnilega að vera komið á vonarvöl.

Fyrst skal nefna, að í 1. gr. er fest í reglugerð áralöng viðtekin venja, þ.e. að eftirgjöf skulda í tenglum við nauðasamninga og/eða nauðungarsölu hefur (mér vitanlega) aldrei verið tekjuskattskyld, að minnsta kosti hjá einstaklingum en líklegast ekki hjá fyrirtækjum.  Munurinn á einstaklingi og fyrirtæki er þó, að fyrirtækið á yfirleitt uppsafnað tap, sem hægt er að nota á móti slíkri eftirgjöf, en einstaklingurinn ekki þrátt fyrir að líklegast hefur heimilisreksturinn verið í góðum mínus mörg undangengin ár áður en til eftirgjafarinnar kemur.

Það getur verið að skuldara hafi borið hingað til að gefa eftirgjöf skuldar upp til skatts.  Slíkt hefur bara ekki verið venja.  Fróðlegt væri að vita hve miklar skatttekjur ríkissjóður hefur haft af slíkum málum undanfarin 10 ár.  Hugsanlega eru þær einhverjar, en þá í mjög fáum málum.  Hér skortir mig þekkingu og því vel þegið, ef einhver með betri vitneskju gæti lagt orð í belg.  En sé þetta rétt, sem ég segi, þá er með reglugerðinni verið að rjúfa hefð. 

Greinin sem ég tel rjúfa hefðina, er grein 3. Þar segir:

Eftirgjöf skulda eða niðurfelling ábyrgðar telst ekki til skattskyldra tekna þótt formleg skilyrði 1. gr. séu ekki uppfyllt, ef sannað er á fullnægjandi hátt að eignir eru ekki til fyrir þeim. Það telst sannað að eignir eru ekki til fyrir skuldum þegar gerðar hafa verið ítrekaðar árangurslausar innheimtutilraunir, þar með árangurslaust fjárnám eða allar eignir skuldara eru metnar yfirveðsettar og fullvíst talið að skuldari og eftir atvikum maki séu ófær til greiðslu.

Skilyrði eftirgjafar skv. 1. mgr. er að fyrir liggi með formlegum hætti að skuld eða ábyrgð hafi verið gefin eftir samkvæmt hlutlægu mati á fjárhagsstöðu skuldara, og eftir atvikum maka hans, sem sýni að engar eignir séu til fyrir skuldum og aflahæfi sé verulega skert til greiðslu skulda að hluta eða öllu leyti þegar ákvörðun um eftirgjöf er tekin. Einhliða ákvörðun kröfuhafa er ekki nægileg í þessu sambandi heldur skal hún studd  gögnum hans eða til þess bærra aðila.

Það eru þessi orð:  "Það telst sannað að eignir eru ekki til fyrir skuldum þegar gerðar hafa verið ítrekaðar árangurslausar innheimtutilraunir, þar með árangurslaust fjárnám eða allar eignir skuldara eru metnar yfirveðsettar og fullvíst talið að skuldari og eftir atvikum maki séu ófær til greiðslu."  Skipta má þessu upp í nokkra OG/EÐA liði:

1.  Ítrekaðar árangurslausar innheimtutilraunir, þar með árangurslaust fjárnám:  Ekki er gefinn kostur á samningum milli aðila um mál án þess að árangurslaust fjárnám hafi farið fram.  Mál þurfa að fara í aðfaraferli áður en hægt er að semja um eftirgjöf, sem nýtur skattfrelsis.  Þetta hefur aldrei þurft áður.  Kröfuhafi hefur hingað til getað gefið kröfu sína eftir, svo sem afskrifað eða lækkað höfuðstól, án þess að kröfugreiðandi hafi þurft að greiða tekjuskatt af eftirgjöfinni.

2.  Allar eignir skuldara eru metnar yfirveðsettar..:  Hvað með þá sem tóku lán sem samsvaraði t.d. 30% af veðhæfi fasteignarinnar og er nú komið upp í 70% af veðhæfi vegna annars vegar hækkunar á höfuðstóli og hins vegar lækkunar á fasteignaverði?  Á þetta fólk að þurfa að sætta sig við að þurfa að bera hækkunina bótalaust eða greiða annars tekjuskatt af sanngjarnri leiðréttingu lána sinna?

3.  ..og fullvíst talið að skuldari og eftir atvikum maki séu ófær til greiðslu:  Það er sem sagt ekki nóg með að fólk eigi ekkert lengur eigið fé í fasteigninni sinni, heldur verður það að vera ófært um að greiða.  Þarna hefði verið nóg að fólk sé ófært um að greiða. 

Raunar ætti að vera nóg, að greiðslubyrði hafi aukist verulega, skuldabyrði hafi aukist verulega eða að innheimtuaðgerðir hafi ekki borið árangur.  Útfærsluna er eðlilegt að leggja í hendur kröfuhafa, því það er að lokum kröfuhafinn sem þarf að skera úr hvort betra sé að veita viðkomandi skuldara eftirgjöf eða ekki, sem gæti m.a. falið í sér að setja hann í þrot og láta tilvonandi kaupanda njóta afskriftanna.

Nú verði frumvarp Lilju Mósesdóttur og fleiri um að ekki megi gera kröfu í aðrar eignir skuldara, en það veð sem lagt er undir:

Lánveitanda sem veitir lántaka lán gegn veði í fasteign sem er ætluð til búsetu samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda er ekki heimilt að leita fullnustu fyrir kröfu sinni í öðrum verðmætum lántaka en veðinu nema krafa hafi orðið til vegna saknæmra athafna eða meintra brota lántaka á lánareglum. Krafa lánveitanda á lántaka skal falla niður ef andvirði veðsins sem fæst við nauðungarsölu nægir ekki til greiðslu hennar. Með lántaka er átt við einstakling. Með lánveitanda er átt við einstakling, lögaðila eða aðra aðila sem veita fasteignaveðlán í atvinnuskyni.

Fari þetta í gegn er um mjög mikla réttarbót að ræða fyrir skuldara.  Ég myndi þó telja að nauðsynlegt væri að þetta tæki til bílalána einnig.

Loks má benda á reglugerð nr. 119/2003 um meðferð krafna Íbúðalánasjóðs sem glatað hafa veðtryggingu.  Í henni er lýst heimildum ÍLS til að koma til móts við skuldara, sem misst hafa eignir sínar á nauðungarsölu, til að lækka höfuðstól lána sem eftir standa til jafns við innborganir skuldara og að fella eftirstöðvar niður að 5 árum liðnum.  Fróðlegt væri að vita hve margir hafi nýtt sér þetta úrræði og hvort þeir sem nýttu sér það hafi gefið eftirgjöfina upp til skatts.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Marino geturðu frætt mig á hvort að þessi reglugerð er ekki sett til að fá skatfrelsi fyrir þá sem að hafa fengið niðurfelld kúlulánin sín vegna hlutabréfakaupa ?

Jón Aðalsteinn Jónsson, 24.6.2009 kl. 23:32

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Jón Aðalsteinn, ég held að þessi grein eigi að taka á þessu:

Hafi lánveiting verið liður í ráðningarkjörum og/eða byggst á starfssambandi launþega og lánveitanda að öðru leyti, telst eftirgjöf slíkrar skuldar ætíð til skattskyldra tekna launþegans sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, enda séu ekki uppfyllt skilyrði 2. mgr. 1. gr. og 3. gr. Sama á við um eftirgjöf skuldar eða niðurfellingu ábyrgðar vegna láns sem upphaflega var veitt einstaklingi utan atvinnurekstrar en síðar skuldskeytt á þann hátt að það hefur verið flutt frá einstaklingnum til lögaðila í eigu skuldara eða aðila honum tengdum. Með eftirgjöf skulda í þeim tilvikum þegar lán hefur verið veitt milli aðila sem tengdir eru fjárhagslega og/eða stjórnunarlega fer á sama hátt, eftir því sem kveðið er á um í II. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Þarna sýnist mér vera tekið fyrir þetta, a.m.k. að mestu.

Marinó G. Njálsson, 24.6.2009 kl. 23:39

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þetta var tilvísun í 4. gr. reglugerðarinnar.

Marinó G. Njálsson, 24.6.2009 kl. 23:39

4 Smámynd: Halla Rut

Þorgerður Katrín sparar sér um 200 miljónir í skatta á þessu. Hún hefur þegar fengið um 160 milljónir í arð af bréfunum sem þau hjón fengu gegn láni í KB banka. Hún semsagt gengur út með 160 millur og þarf ekki að borga lánið og ekki skattana af niðurfellingu skulda þeirra við bankann eða réttara sagt OKKUR.

Ætli þetta sé nægilegt fyrir atkvæði með ríkisábyrgð vegna IceSave samningsins? Er hér verið að kaupa fólk?

Halla Rut , 25.6.2009 kl. 00:23

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Halla Rut, þetta nær ekki til hlutabréfa samanber innihald 4. gr. í athguasemd frá kl. 23:39.  Þú getur andað léttar

Marinó G. Njálsson, 25.6.2009 kl. 00:29

6 Smámynd: Halla Rut

Takk fyrir þetta Marinó. Er ekki alveg búin að vera "inn" undanfarið sökum anna við nýja fyrirtækið er ég er að byggja upp í kreppunni en fékk símtal frá vini í dag sem var alveg brjálaður yfir þessu. Þarf nú að leiðrétta hann.

Þetta er nú einmitt það góða við bloggið. :)

Halla Rut , 25.6.2009 kl. 00:50

7 Smámynd: Offari

Ef betur er skoðað þá sýnist mér þessar reglur einmitt gerðar til að hægt sé að innheimta skatt af óeðlilegum afskriftum skulda. Er ríkistjórnin farin að gera eitthvað að viti?

Offari, 25.6.2009 kl. 00:51

8 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Takk fyrir svarið sá þetta í öðrum yfirlestri maður verður að passa sig því manni er orðið svo heitt í hamsi að það er hætta á að manni yfisjáist svona

Góður endapunktur hjá offara

Jón Aðalsteinn Jónsson, 25.6.2009 kl. 17:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 44
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband